Hæstiréttur íslands

Mál nr. 150/2004


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Lögræði
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. október 2004.

Nr. 150/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Lögræði. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku, A, með því að hafa annars vegar farið með fingur inn í leggöng hennar og hins vegar fengið hana til að eiga við sig munnmök þar til honum varð sáðfall. X var sjálfur rúmum þremur árum eldri en A. Talið var að X hafi hlotið að vera ljóst, er hann átti við A umrædd kynferðismök, að hún var einungis 13 ára gömul. Taldist því nægjanlega sannað að ákærði hafi brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga í báðum þeim tilvikum sem ákæran tók til. Var refsing X ákveðin 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þar sem X var ófjárráða vegna æsku þegar málið var til meðferðar í héraði, var talið að bótakröfu hefði átt að beina að lögráðamanni hans fyrir hans hönd. Ekki varð séð að þess hafi verið gætt og var þeirri kröfu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi ásamt kröfu um þóknun réttargæslumanns brotaþola.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að kröfu um miskabætur verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að refsing verði milduð og dæmdar miskabætur lækkaðar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og refsingu, svo og um sakarkostnað að öðru leyti en varðar þóknun réttargæslumanns brotaþola.

Í hinum áfrýjaða dómi var ákærða gert að greiða brotaþola 300.000 krónur í miskabætur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Eftir gögnum málsins var krafa brotaþolans um bætur fyrst kynnt ákærða við þingfestingu þess fyrir héraðsdómi 16. desember 2003. Ákærði var ófjárráða vegna æsku þegar málið var til meðferðar í héraði. Hefði því borið að beina bótakröfunni að lögráðamanni ákærða fyrir hans hönd. Ekki verður séð að þess hafi verið gætt og ber af þeim sökum að vísa kröfu þessari sjálfkrafa frá héraðsdómi ásamt kröfu um þóknun réttargæslumanns brotaþola.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en kröfu um miskabætur, sem vísað er frá héraðsdómi ásamt kröfu um þóknun réttargæslumanns brotaþola.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þorbjargar I. Jónsdóttur hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 3. mars 2004.

Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 17. nóvember 2003 á hendur ákærða, X [...].  Málið var dómtekið 12. febrúar s.l. að lokinni aðalmeðferð.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir eftirgreind kynferðisbrot gegn A, [...], á árinu 2003, á Q, þar sem þau voru fóstruð á vegum barnaverndarnefnda:

1.               Með því að hafa í janúarmánuði 2003 farið með fingur inn í leggöng stúlkunnar.

2.               Með því að hafa hinn 7. júlí 2003 fengið stúlkuna til að eiga við sig munnmök þar til honum varð sáðfall.

Telst varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa:

Af hálfu A [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. júlí 2003 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara auk virðisaukaskatts á málskostnað.“

Skipaður verjandi ákærða, Ingi Tryggvason, hdl., hefur fyrir hönd ákærða gert þá kröfu að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa.  Hvað bótakröfu stúlkunnar A varðar er þess aðallega krafist af hálfu ákærða að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð verulega.  Loks krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa.

I.

Fimmtudaginn 10. júlí 2003 kom Hjördís Hjartardóttir, félagsmálastjóri [...], á lögreglustöðina [...] og lagði fram skriflega kæru fyrir hönd barnaverndarnefndar [...] vegna meints kynferðisbrots ákærða gegn stúlku fæddri  [...] 1989, A. 

Í kæru barnaverndarnefndar kom fram að B, Q, hefði upplýst nefndina um að fósturdóttir hennar, A, hefði greint henni frá „kynferðislegu ofbeldi/misneytingu“ af hálfu ákærða sem líkt og stúlkan væri í fóstri að Q á vegum barnaverndaryfirvalda.  B hefði orðið vör við að eitthvað var að hjá stúlkunni og hún því gengið á hana.  Stúlkan hefði ekki treyst sér til að segja B hvað amaði að en fallist á að skrifa það niður að blað sem hún hefði síðan afhent B. 

Lögregla fékk ofangreint blað í hendur sama dag og kæru barnaverndarnefndar.  Á blaðið hafði A ritað eftirfarandi: „X vildi tala við mig.  Ég hét að hann ætlaði að leyfa mér að senda sms.  hann lokaði hurðinni og hélt henni svo C kæmist ek inn.  Ég spurði hvort hann ætlaði að leyfa mér að senda sms.  Þá sagði hann að ég skuldaði honum fyrir sms og hringingar.  ég spurði hvað hann meynti.  Þá kleyp hann í rassinn minn.  Ég sagði að hann ætti að hætta.  Þá sagði hann að hann myndi gera verra ef ég myndi klaga eða segja einhverjum frá þessu.  Svo byrjaði hann að losa buxnaklaufina og tók tippið út og henti mér á gólfið og hélt mér þannig og tróð því síðan upp í mig, allveg niður í kok þannig að ég kúgaðist og táraðist enn, þá gerði hann það fastar og meira þangað til hann brundaði upp í mig og lét mig kyngja því.  Eftir það sagði hann að ég ætti að láta venjulega annars myndi hann gera meyra.  P.s.  Viltu ek segja að ég hafi sagt þér þetta.  Viltu segja frekar að u hafi séð þetta í dagbókinni minni.“

Strax eftir að lögregla fékk kæru barnaverndarnefndar í hendur tók hún skýrslu af B.  B upplýsti að hún og maður hennar hefðu tekið ákærða í fóstur í febrúarmánuði 2002 en A hefði komið til þeirra um miðjan nóvember það sama ár.  Lýsing B fyrir lögreglu á því hvernig mál þetta kom upp var í samræmi við það sem rakið var að framan úr kæru barnaverndaryfirvalda.  B kvaðst hafa rætt ásakanir stúlkunnar við ákærða og hefði hann viðurkennt með semingi að hafa fengið stúlkuna til að hafa við sig munnmök.  Hann hefði hins vegar fullyrt að munnmökin hefðu átt sér stað með fullu samþykki og vilja stúlkunnar.  B sagði að ákærða hefði verið gert að fara frá Q er málið kom upp.

Þann 11. júlí 2003 var ákærði yfirheyrður hjá lögreglu.  Kannaðist hann við tilvik það er A lýsti í áðurröktum skrifum.  Kom fram hjá ákærða að rétt væri að stúlkan hefði veitt honum munnmök í herbergi hans að Q, en að það hefði hún hins vegar gert af fúsum og frjálsum vilja.  Er ákærði var spurður út í aldur stúlkunnar svaraði hann því til að hún væri  að fara í níunda bekk, hún væri 14 ára gömul.

Þann 17. júlí 2003 var tekin skýrsla af A í Barnahúsi undir stjórn héraðsdómara.  Þar skýrði stúlkan svo frá að tveimur vikum áður, á mánudegi, hefði hún verið stödd í herbergi í gamla húsinu að Q ásamt ákærða.  Þau hefðu verið þangað komin þar sem ákærði hefði sagt henni að hann þyrfti að ræða við hana.  Inni í herberginu hefði ákærði klipið í rassinn á henni.  Hún hefði beðið hann að hætta og ætlað út úr herberginu en ákærði þá haldið herbergishurðinni.  Tók stúlkan fram að vera þeirra tveggja í herberginu hefði verið í andstöðu við fyrirmæli sem B hefði verið búin að gefa þeim og hefði C, sonur B, sem var í næsta herbergi, öskrað á þau að þau mættu ekki vera saman inni í herberginu.  Ákærði hefði síðan ýtt henni niður og haldið henni þar en jafnframt tekið við að losa um buxur sínar.  Því næst hefði hann troðið typpinu upp í munninn á henni.  Hún hefði haft typpið uppi í sér í 15-20 mínútur og liðið illa á meðan.  Þessu hefði lokið með því að ákærði „... brundaði upp í ...“ hana.  Hann hefði jafnframt lokað munninum á henni og þannig látið hana kyngja sæðinu.  Ákærði hefði bannað henni að segja nokkrum frá atvikinu.  Ákærði hefði því næst opnað herbergishurðina og þau yfirgefið herbergið og farið í fótbolta ásamt C.

Við  yfirheyrsluna skýrði stúlkan einnig frá því að þegar hún hefði nýlega verið komin að Q, líklega í janúar 2003, hefði hún verið að horfa á myndband ásamt ákærða og C og D.  Hún og ákærði hefðu legið undir sama teppi.  Ákærði hefði þá tekið að þreifa á fótum hennar og fært sig lengra og lengra þar til hann hefði verið kominn með aðra hendina ofan í nærbuxur hennar og stungið fingri inn í leggöng hennar.

Í yfirheyrslunni í Barnahúsi komu dagbókarfærslur A til tals.  Í málinu liggur fyrir ljósrit úr dagbók hennar og bera færslur stúlkunnar það með sér að vera frá 10. og 13. janúar 2003.  Fyrri daginn hefur hún skrifað:  „Ok, ég er ógeðslega rugluð.  X sem býr hér í [...], var eitthvað að putta mig og eitthvað.  Mér líður illa.  Stundum fynn ég ekkert.“  Síðari daginn hefur hún ritað:  „Ok  Þetta gerðist aftur = c  Af hverju?  Er það ég sem bið um þetta?  Æji.  Ég veit ekki í hvað ég er að breytast í.  Tussu, Belju, svín, mongo, ógeðslega stelpu?  Vonandi ekkert af þessu.  Ok ég ætla að reyna að hætta að látann fá að gera þetta.  Ég er ekki að gera rétt.  Ég er enn með H.  Og ég drullu sakna hans.  Mig langar ekki að missan.“

Skýrsla var tekin af vitninu C hjá lögreglu 21. september 2003.  Hann skýrði svo frá atvikum að hann hefði farið ásamt ákærða og A upp í gamla húsið að Q, en þar hefði ákærði ætlað að skipta um buxur.  Ákærði hefði farið inn í herbergi sitt ásamt stúlkunni sem vitnið sagðist hafa haldið að ætlaði að ræða eitthvað við ákærða.  Eftir nokkra stund kvaðst vitnið hafa opnað herbergisdyrnar í þeim tilgangi að sjá hvað ákærði og stúlkan væru að gera en ákærði þá tekið á móti og lokað dyrunum.  Vitnið sagðist ekki hafa séð stúlkuna er það opnaði hurðina og því talið að hún væri bak við hurðina enda hefði það séð vel yfir herbergið úr dyragættinni.  Vitnið kvaðst því næst hafa lagt við hlustir og þá heyrt eitthvað koma nokkuð harkalega við herbergisvegginn.  Einnig hefði vitnið heyrt fliss innan úr herberginu sem það hefði ætlað að kæmi frá stúlkunni.  Í framhaldinu hefðu ákærði og stúlkan komið út úr herberginu.

Þann 27. september 2003 var skýrsla tekin að nýju af ákærða fyrir lögreglu.  Hélt hann við fyrri framburð sinn varðandi málsatvik 7. júlí 2003 í gamla húsinu að Q.  Aðspurður um atvik það er stúlkan bar við yfirheyrslu í Barnahúsi að átt hefði sér stað í janúar sama ár svaraði ákærði því til að hann myndi til þess að hafa farið með fingur upp í leggöng stúlkunnar er þau hefðu verið í sófa og undir teppi að horfa á myndbandsspólu.  Kvaðst ákærði telja að það hefði hann gert með samþykki stúlkunnar „... hún gerði allavega ekki neitt í því.“

Að lokinni lögreglurannsókn var málið sent ríkissaksóknara til meðferðar og gaf hann út ákæru á hendur ákærða 17. nóvember s.l.

II.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að umræddan dag hefði hann ætlað í fótbolta ásamt A og C.  Áður hefði hann átt erindi í hús það sem hann og synir hjónanna á Q, C og D, hefðu haldið til í á þessum tíma.  Ákærði kvaðst hafa farið inn í herbergi sitt ásamt A en C orðið eftir í stofunni.  Þau A hefðu byrjað að kyssast en hann síðan hneppt frá og hún „farið niður“.  Þar hefði hún verið í um 5 mínútur.  Neitaði ákærði því alfarið að hafa á nokkurn hátt þvingað stúlkuna til þessara athafna.

Aðspurður um hvort hann hefði beðið A um að veita honum munnmök svaraði ákærði því játandi.  Hann hefði einhverju áður en þau fóru inn í herbergið beðið hana um það og hún svarað játandi.  Þau hefðu því farið inn í herbergið í þeim tilgangi.  Ákærði neitaði því hins vegar að A hefði átt að fá eitthvað í staðinn fyrir munnmökin.  Þá fullyrti hann að stúlkan hefði bannað honum að segja nokkrum frá atvikinu.

Ákærði sagði B hafa komið að máli við hann fjórum dögum síðar og rætt þetta atvik við hann.  Hann hefði strax í kjölfarið verið látinn víkja af heimilinu.

Þá kom fram hjá ákærða að einum til tveimur mánuðum áður hefðu þau A verið að horfa á sjónvarpið ásamt C og D.  Hann og stúlkan hefðu verið í sófa og undir teppi, hann setið en hún legið.  Hún hefði þá farið að pota í hann.  Í framhaldinu hefði hann farið með hendina undir teppið og innundir nærbuxur hennar.  Ákærði sagði A ekki hafa brugðist við þessu á neinn hátt og taldi hann það merki um að hún hefði verið sátt við athafnir hans.

Er ákærði var spurður út í aldur A svaraði hann því til að hann hefði ekkert hugsað út í það hvað hún væri gömul.  Ítrekað aðspurður kvaðst hann vita að hún hefði verið í 8. bekk um veturinn en nemendur í þeim bekk væru 13 eða 14 ára gamlir.  Ákærði sagði A ekki hafa sagt honum hversu gömul hún væri og hann hefði ekki spurt.  Þá kvaðst hann ekki vita hvenær hún ætti afmæli.

Vitnið B bar fyrir dómi að á þriðjudegi í júlí s.l. hefði A hringt í hana þar sem hún var gestkomandi á næsta bæ.  Stúlkan hefði beðið hana um leyfi til að hitta vinkonu sína og henni legið mikið á.  Vitnið hefði fengið á tilfinninguna að eitthvað væri að og því gengið á stúlkuna er það kom heim.  Vitnið hefði náð því upp úr stúlkunni að ákærði hefði gert henni eitthvað sem hún hins vegar vildi ekki greina vitninu frá.  Úr hefði orðið að stúlkan skrifaði á blað það sem gerst hafði og hefði vitnið fengið blaðið í hendur síðar þennan sama dag.  Staðfesti vitnið að umrætt blað væri dómskjal sem merkt er nr. 4, II-2, bls. 1.

Vitnið sagðist annað hvort samdægurs eða daginn eftir hafa rætt við Hjördísi Hjartardóttur, félagsmálastjóra í [...].  Vitnið hefði borið skrif A undir Hjördísi og leitað ráða hjá henni.  Hjördís hefði tjáð henni að rétt væri að kæra málið til lögreglu.

Vitnið sagðist hafa rætt ásakanir A við ákærða og hefði hann strax borið því við að munnmökin hefðu verið með vilja stúlkunnar.

Þá upplýsti vitnið að veturinn 2002-2003 hefði ákærði verið í 10. bekk grunnskólans að [...], sonur hennar C í 9. bekk og A í 8. bekk.

Vitnið Hjördís Hjartardóttir, félagsmálastjóri [...], kvaðst hafa átt nokkur viðtöl, líklega 6-8, við A á vormánuðum 2003.

Fram kom hjá vitninu að B hefði leitað til þess er mál þetta kom upp.  Vitnið bar að það hefði strax lagt fram kæru í málinu og þá hefði það fylgt A í viðtal í Barnahúsi.  Frekari afskipti af stúlkunni sagðist vitnið ekki hafa haft á þessum tíma þar sem barnaverndaryfirvöld á [...], sem voru umsjónaraðili stúlkunnar og vistuðu hana að Q, hefðu fylgt máli hennar eftir.  Vitnið kvaðst því ekki hafa hitt stúlkuna aftur fyrr en undir síðustu áramót er stúlkan hefði komið til þess í viðtal.  Þá sagðist vitnið líklega hafa rætt við stúlkuna í þrígang eftir áramótin.  Tók vitnið fram að atvik þessa máls hefðu ekki verið sérstaklega til umræðu í nefndum viðtölum.

 Vitnið upplýsti að í viðtölum þess við stúlkuna hefði komið fram reiði í garð ákærða.  Nú um stundir væru henni hins vegar aðrir hlutir ofar í huga, hlutir er tengist öðru máli sem stúlkan hefði vikið að í lok yfirheyrslunnar í Barnahúsi.

III.

Lýsing sú á málsatvikum er fram kemur í ákæruskjali ríkissaksóknara er í samræmi við framburð ákærða fyrir dómi.  Þá er hún jafnframt studd vætti A og gögnum þeim er frá henni stafa, þ.e. skjali því sem hún ritaði og afhent var lögreglu 10. júlí 2003 og ljósriti úr dagbók hennar.  Að þessu athuguðu þykir mega leggja lýsingu málsatvika í ákæruskjali til grundvallar við úrlausn málsins.

Svo fyrir liggi brot á 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þarf ásetningur geranda að vera sannaður, sbr. orðalag ákvæðisins og 18. gr. almennra hegningarlaga.

Við þingfestingu málsins 16. desember s.l. játaði ákærði brot sín.  Upplýst er að stúlkan A var 13 ára er atvik máls gerðust, en hún er fædd [...] 1989.  Þá er jafnframt upplýst að stúlkan kom að Q í nóvember 2002.  Ákærði var þá búinn að vera heimilismaður [...] síðan í febrúar sama ár.  Af vætti B og framburði ákærða fyrir dómi er ljóst að ákærði vissi að A var í 8. bekk grunnskólans að [...] skólaárið 2002-2003, en nemendur í 8. bekk grunnskóla þann vetur voru almennt fæddir 1989.  Þá svaraði ákærði því til fyrir dómi er hann var spurður að því hversu gamlir nemdur 8. bekkjar væru að þeir væru 13 eða 14 ára.  Að öllu þessu virtu er það álit dómsins að ákærða hafi hlotið að vera ljóst, er hann átti við A umrædd kynferðismök, að hún var einungis 13 ára gömul.  Telst því nægjanlega sannað að ákærði hafi brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í báðum þeim tilvikum sem ákæran tekur til.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.  Hann var einungis 16 ára er hann framdi fyrra brotið og 17 ára er hann framdi það síðara.  Fyrir dómi játaði hann brot sín án undandráttar.  Þá varð hann að fara af fósturheimili sínu, sem hann hafði búið á í rúmlega 16 mánuði, þegar upp komst um brot hans.  Hins vegar verður einnig að líta til þess að brot ákærða beindust að mikilsverðum hagsmunum ungrar stúlku.  Í því sambandi þykir mega líta til þess að ekkert bendir til að tilfinningasamband hafi verið á milli ákærða og stúlkunnar.  Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi.  Eftir atvikum þykir með heimild 57. gr. almennra hegningarlaga mega fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

IV.

Brotaþoli, A, gerir í málinu kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 1.000.000 króna í miskabætur auk dráttarvaxta. 

Af hálfu brotaþola er því haldið fram að hún hafi beðið mikið miskatjón vegna verknaða ákærða sem hann beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Er af hálfu brotaþola fullyrt að við kynferðisbrot verði brotaþoli alltaf fyrir miskatjóni en ljóst sé að hún sé fjarri því að komast yfir afleiðingar brota ákærða sem hafi verið alvarleg og stórfelld.

Til stuðnings miskabótakröfu sinni vísar brotaþoli til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 4. og 5. gr. þeirra laga. Einnig vísar hún til 170. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 Engin skrifleg gögn hafa verið lögð fram í málinu til stuðnings skaðabótakröfu brotaþola.  Hins vegar liggur fyrir framburður Hjördísar Hjartardóttur, félagsmálastjóra, sem fyrir stuttu átti við brotaþola 3-4 viðtöl, en Hjördís sagði í viðtölunum hafa komið fram reiði í garð ákærða.  Þá er til þess að líta að háttsemi eins og sú sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir er almennt til þess fallin að valda þeim er fyrir verður andlegum erfiðleikum. 

Að öllu framangreindu athuguðu þykir miskabótakrafa brotaþola nægjanlega reifuð.  Kröfu ákærða um að henni verði vísað frá dómi er því hafnað.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir brotaþoli eiga rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem í brotum hans fólst, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.  Að brotunum virtum þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur með dráttarvöxtum frá 16. janúar 2004, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Meðtalin eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Inga Tryggvasonar, hdl., er hæfilega þykja ákveðin 250.000 krónur auk virðisaukaskatts, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Valdimarsdóttur, hdl., er hæfilega þykir ákveðin í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning 142.375 krónur auk virðisaukaskatts.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði, A, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. janúar 2004 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Inga Tryggvasonar, hdl., 250.000 krónur auk virðisaukaskatts, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Valgerðar Valdimarsdóttur, 142.375 krónur auk virðisaukaskatts.