Hæstiréttur íslands
Mál nr. 331/1998
Lykilorð
- Skuldabréf
- Veðréttur
- Nauðungarsala
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 4. mars 1999. |
|
Nr. 331/1998. |
Kaupþing hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) gegn Guðmundi Karvel Pálssyni og Guðmundi Benediktssyni (Guðmundur Benediktsson hrl.) og gagnsök |
Skuldabréf. Veðréttur. Nauðungarsala. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
GB og GK gerðu dómsátt við félagið K um greiðslu á 3.500.000 kr. vegna ógreidds skuldabréfs sem tryggt var með veði í bát. Um leið gekk dómur á hendur eiganda bátsins um staðfestingu veðréttarins. Í september 1993 var gert fjárnám í bátnum að kröfu K fyrir skuld að fjárhæð 5.313.741 kr. er byggð var á þessum heimildum og var báturinn seldur félaginu H við nauðungarsölu í mars 1994 fyrir 500.000 kr. K og GB hlutuðust til um viðgerðir á bátnum og var hann að þeim loknum seldur fyrir 5.500.000 kr. K krafðist fjárnáms hjá GB fyrir eftirstöðvum skuldarinnar og kvað hann skuldina alls vera 6.909.806 kr. Var fjárnáminu frestað til þess að GK og GB gætu aflað úrlausnar dómstóla um hvort krafa K teldist að fullu greidd með stoð í ákvæði 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, en K lýsti því yfir að ekki væru efni til að gera greinarmun á sér og H. Talið var að þar sem ekki lægi fyrir hvert markaðsvirði bátsins hefði verið er hann var seldur við uppboð væri málið vanreifað af hálfu GK og GB. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. ágúst 1998 og krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjenda, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi 29. september 1998. Þeir krefjast þess að hann verði staðfestur um annað en málskostnað, sem aðaláfrýjanda verði gert að greiða þeim í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Gagnáfrýjandinn Guðmundur Karvel Pálsson gaf út skuldabréf 20. desember 1990 til gagnáfrýjandans Guðmundar Benediktssonar. Skuld samkvæmt bréfinu var að fjárhæð 3.500.000 krónur og bundin lánskjaravísitölu. Hún átti að greiðast með þremur jöfnum afborgunum 1. september ár hvert, í fyrsta sinn á árinu 1991, ásamt hæstu vöxtum, sem heimilt væri að taka af hliðstæðum skuldum. Til að tryggja greiðslu skuldarinnar var settur að veði mótorbáturinn Jói á Nesi SH 159 með fyrsta veðrétti. Gagnáfrýjandinn Guðmundur Benediktsson framseldi skuldabréfið og gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu skuldarinnar. Skuldabréfið komst síðar í eigu Hávöxtunarfélagsins hf., sem mun vera rekið í tengslum við aðaláfrýjanda. Það félag varð 3. september 1991 við beiðni gagnáfrýjenda um þá breytingu á skilmálum skuldabréfsins að fyrsti gjalddagi samkvæmt því yrði 1. september 1992.
Hinn 31. mars 1992 gaf gagnáfrýjandinn Guðmundur Karvel Pálsson út afsal til Frægs hf. fyrir fyrrnefndum bát, sem þá hét orðið Palli P. ÍS 33. Samkvæmt afsalinu var báturinn seldur fyrir 6.300.000 krónur, sem kaupandinn greiddi meðal annars með því að taka að sér áðurgreinda veðskuld.
Aðaláfrýjandi ritaði gagnáfrýjandanum Guðmundi Benediktssyni innheimtubréf 25. febrúar 1993, þar sem fram kom að ekki hafi verið greitt af skuldabréfinu á fyrsta gjalddaga þess, en skorað var á hann að koma skuldinni í skil. Samkvæmt framlögðu minnisblaði héldu gagnáfrýjendur fund með fulltrúa aðaláfrýjanda 16. mars sama árs, þar sem ákveðið var að aðaláfrýjandi myndi höfða mál á hendur gagnáfrýjendum til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfinu og jafnframt gegn eiganda bátsins til staðfestingar á veðrétti í honum. Yrði gerð dómsátt við gagnáfrýjendur, en gengið að veðinu með fjárnámi og nauðungarsölu hið allra fyrsta. Í samræmi við þessar ráðagerðir höfðaði aðaláfrýjandi mál, sem var þingfest í héraðsdómi 6. apríl 1993. Var þá lögð fram dómsátt aðaláfrýjanda við gagnáfrýjendur og málinu þannig lokið hvað þá varðaði. Í sáttinni sagði meðal annars eftirfarandi: „Stefndu Guðmundur Karvel Pálsson og Guðmundur Benediktsson greiði stefnanda, in solidum, kr. 3.500.000,oo með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum nr. 25/1987 frá gjalddaga 1.9.´92 til greiðsludags, auk málskostnaðar kr. 253.614,oo. Skuldin greiðist 10. apríl 1993. Greiðslustaður er hjá Helga Sigurðssyni hdl., Kringlunni 5, 103 Reykjavík.“ Málinu var hins vegar haldið til dóms gegn Frægi hf., sem lét ekki sækja þing. Í samræmi við kröfur aðaláfrýjanda gekk dómur á hendur félaginu 4. maí 1993 með svofelldu dómsorði: „Frægur hf. skal þola staðfestingu á veðrétti í skipinu Palli Pé, ÍS-33, skipaskrárnúmer 7277, til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 40885, að nafnverði 3.500.000,- auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 1.9.1992 til greiðsludags og málskostnaðar að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Skuldabréfið er útgefið þann 20.12.1990.“
Aðaláfrýjandi fékk gert fjárnám 16. september 1993 hjá Frægi hf. á grundvelli dómsins, sem síðast var getið. Samkvæmt endurriti af gerðinni krafðist aðaláfrýjandi fjárnáms fyrir skuld að fjárhæð 5.313.741 króna. Þar af var höfuðstóll skuldarinnar sagður vera 3.835.535,20 krónur, samningsvextir 598.364,50 krónur og dráttarvextir 598.576,70 krónur, en að öðru leyti var hermt að skuldin ætti rætur að rekja til nánar tiltekinna kostnaðarliða. Fjárnám var gert í fyrrnefndum bát „til tryggingar skuld skv. skbr. dags. 20.12.90 að nafnverði 3.500.000 auk alls kostnaðar skv. dómi Héraðsdóms Reykjaness dags. 04.05.93“, eins og sagði í endurritinu. Í kjölfarið krafðist aðaláfrýjandi nauðungarsölu á bátnum 8. október 1993 til fullnustu á skuld, sem hann kvað vera að fjárhæð 5.621.935 krónur. Samkvæmt sundurliðun í beiðni um nauðungarsölu var fjárhæð höfuðstóls skuldarinnar og samningsvaxta til 1. september 1992 sú sama og greindi í endurriti fjárnámsgerðar, en dráttarvextir voru sagðir nema 862.731 krónu. Af beiðninni verður ekki annað ráðið en að aðaláfrýjandi hafi eingöngu stutt hana við ákvæði fyrrnefnds veðskuldabréfs um heimild til að krefjast nauðungarsölu til fullnustu á skuldinni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.
Í málinu liggur fyrir að báturinn var seldur við uppboð 14. mars 1994 og varð hæstbjóðandi þar Hávöxtunarfélagið hf., sem bauð 500.000 krónur í hann. Boð félagsins mun hafa verið samþykkt 5. apríl sama árs. Samkvæmt frumvarpi til úthlutunar á söluverðinu frá 14. sama mánaðar gengu 5.000 krónur af því til greiðslu sölulauna í ríkissjóð og 19.251 króna til greiðslu lögveðkröfu vegna skipagjalda, en eftirstöðvarnar, 475.749 krónur, komu í hlut aðaláfrýjanda. Óumdeilt er að báturinn hafi verið í slæmu ástandi við söluna, enda hafi ekki verið hirt um hann í nokkurn tíma, þar sem hann var geymdur við bryggju í Hafnarfirði. Eftir nauðungarsöluna hlutuðust aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandinn Guðmundur Benediktsson til um viðgerðir á bátnum, sem sá fyrrnefndi mun hafa greitt 360.000 krónur fyrir, en sá síðarnefndi 315.000 krónur. Að loknum viðgerðum seldi aðaláfrýjandi bátinn 16. mars 1995 fyrir 5.500.000 krónur, sem greiddust að öllu leyti með skuldabréfum. Af hans hálfu hefur komið fram að hann telji þetta svara til staðgreiðslu á 5.225.134 krónum.
Aðaláfrýjandi höfðaði mál gegn gagnáfrýjendum með stefnu 21. maí 1996, þar sem hann krafði þá um greiðslu á 1.668.941 krónu, sem hann taldi vanta upp á að krafa samkvæmt skuldabréfinu 20. desember 1990 væri greidd að fullu, en þá væri tekið tillit til þess fjár, sem hann hafi fengið í hendur við sölu á bátnum. Málið mun hafa verið fellt niður með samkomulagi aðilanna. Í kjölfarið krafðist aðaláfrýjandi fjárnáms hjá gagnáfrýjandanum Guðmundi Benediktssyni fyrir skuld samkvæmt dómsátt þeirra frá 6. apríl 1993. Í beiðni um fjárnám kvað aðaláfrýjandi skuldina alls vera 6.909.806 krónur, en þar af væri höfuðstóll skuldarinnar 3.500.000 krónur og dráttarvextir frá 1. september 1992 til dagsetningar beiðninnar, 10. apríl 1997, 3.356.343 krónur. Við þessar fjárhæðir bættist nánar tiltekinn kostnaður, en frá dróst innborgun að fjárhæð 500.000 krónur, sem aðaláfrýjandi kvað vera „uppboðsandvirði bátsins Palla Pé.“ Að ósk gerðarþolans mun aðaláfrýjandi hafa frestað fjárnámi til þess að gagnáfrýjendum gæfist kostur á að afla úrlausnar dómstóla um hvort krafa aðaláfrýjanda teldist að fullu greidd með stoð í ákvæði 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Gagnáfrýjendur höfðuðu síðan þetta mál í því skyni.
II.
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti aðaláfrýjandi því yfir að hann teldi ekki efni til að gera hér greinarmun á sér og Hávöxtunarfélaginu hf. Væri því hvorki krafist sýknu af kröfum gagnáfrýjenda vegna aðildarskorts né væru gerðar á annan hátt athugasemdir um aðild að málinu.
Eins og áður segir gerðu málsaðilar dómsátt 6. apríl 1993, þar sem gagnáfrýjendur hétu að greiða aðaláfrýjanda 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum frá 1. september 1992 til greiðsludags og 253.614 krónur í málskostnað. Þessi skuldbinding gagnáfrýjenda fól í sér fulla viðurkenningu þeirra á stefnukröfum í máli aðaláfrýjanda á hendur þeim til heimtu skuldar samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi frá 20. desember 1990. Að loknum þessum þætti málsins gekk áðurnefndur dómur 4. maí 1993, þar sem kröfur aðaláfrýjanda á hendur Frægi hf. voru teknar til greina með því að félaginu var gert að þola viðurkenningu á veðrétti í umræddum bát fyrir skuld samkvæmt skuldabréfinu, að nafnverði 3.500.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 1. september 1992 til greiðsludags og málskostnaði að skaðlausu. Dómsáttin og dómurinn, sem hér um ræðir, komu í stað veðskuldabréfsins, bæði að því er varðar greiðslu, sem aðaláfrýjandi gat fram að því krafist í skjóli bréfsins, og hvern hann gat krafið um hana. Eins og aðaláfrýjandi ráðstafaði hagsmunum sínum glataði hann með þessum gerðum rétti jöfnum höndum til að beina kröfu að gagnáfrýjendum um greiðslu á verðbótum af skuldinni, umsömdum vöxtum af henni á tímabilinu fram að fyrsta gjalddaga 1. september 1992 og dráttarvöxtum af þeim liðum og til að krefjast greiðslu þessa alls af andvirði veðsins. Verður því fallist á það með gagnáfrýjendum að við nauðungarsölu bátsins 14. mars 1994 hafi krafa aðaláfrýjanda á hendur þeim og um leið sú krafa, sem hann gat leitað fullnustu á af söluverði bátsins, verið fólgin í höfuðstól skuldar samkvæmt dómsátt þeirra 6. apríl 1993, 3.500.000 krónur, og dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 1. september 1992, svo og málskostnaði samkvæmt sáttinni og áföllnum kostnaði af fullnustugerðum ásamt réttmætum vöxtum af þeim liðum. Samkvæmt yfirliti, sem aðaláfrýjandi afhenti við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti, nam krafa hans þannig reiknuð á þeim degi 4.845.334 krónum. Gagnáfrýjendur hreyfðu ekki andmælum gegn þeim útreikningi og verður því að leggja hann til grundvallar við úrlausn málsins.
Samkvæmt fyrrnefndu frumvarpi til úthlutunar á söluverði bátsins frá 14. apríl 1994 átti aðaláfrýjandi að fá í sinn hlut 475.749 krónur. Ekki liggur annað fyrir en að af þeirri úthlutun hafi orðið. Að fenginni þessari greiðslu stóðu 4.369.585 krónur eftir af kröfu aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjendum. Er þetta sú fjárhæð, sem gagnáfrýjendur geta krafist að færð verði niður samkvæmt heimild í 57. gr. laga nr. 90/1991 um mismuninn á söluverði bátsins, 500.000 krónum, og markaðsverði hans við samþykki boðs 5. apríl 1994.
Um markaðsverð bátsins á þeim tíma, sem að framan greinir, hafa gagnáfrýjendur vísað til söluverðs hans samkvæmt áðurnefndu afsali til Frægs hf. 31. mars 1992, sem var 6.300.000 krónur, og framlagðra gagna um sölu síðla árs 1994 á bátum, sem þeir kveða vera sömu gerðar, fyrir annars vegar 6.000.000 krónur og hins vegar 6.500.000 krónur. Þá vísa gagnáfrýjendur jafnframt til framlagðra vottorða tveggja skipasala, sem báðir komu fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar, um markaðsverð báta þeirrar gerðar, sem um ræðir í málinu. Taldi annar þeirra að á árunum 1994 og 1995 hefði verið sett söluverð á slíka báta á bilinu frá 5.800.000 til 6.000.000 krónur, en um 200.000 krónum lægra gegn staðgreiðslu. Væri það verðmat miðað við vel útbúinn bát í góðu ástandi. Hinn skipasalinn kvað báta sömu gerðar hafa selst á árunum frá 1993 til 1996 fyrir 5.500.000 til 6.500.000 krónur, en verðið réðist nánar af búnaði og útliti þeirra. Við staðgreiðslu hefði afsláttur verið 100.000 til 200.000 krónur. Ennfremur vísa gagnáfrýjendur til áðurgreinds verðs, sem aðaláfrýjandi fékk fyrir bátinn við sölu hans 16. mars 1995.
Með framangreindu hafa gagnáfrýjendur fært nokkur rök fyrir því að markaðsverð bátsins, sem um ræðir í málinu, geti hafa verið hærra en svo að mismunurinn á því og söluverðinu við nauðungarsölu nægði til lúkningar á eftirstöðvum skuldar þeirra við aðaláfrýjanda. Gegn andmælum aðaláfrýjanda er þó ekki unnt að leggja þetta til grundvallar við úrlausn málsins, enda er ekki staðfest með fyrrnefndum gögnum hvert markaðsverð bátsins hefði verið hinn 5. apríl 1994 miðað við þáverandi ástand hans og þá skilmála, sem giltu við sölu hans samkvæmt 28. gr. laga nr. 90/1991 og auglýsingu nr. 41/1992 um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á fasteignum o.fl. Er málið að þessu leyti vanreifað af hendi gagnáfrýjenda. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Eins og atvikum er háttað í málinu er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.