Hæstiréttur íslands
Mál nr. 550/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. ágúst 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. ágúst 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 8. ágúst 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði kviknaði í íbúð á neðri hæð hússins nr. [...] við [...] í [...] um klukkan 19 sunnudaginn 31. júlí 2016. Óumdeilt er að varnaraðili var stödd í íbúðinni þegar eldurinn varð laus. Bar hún við skýrslutöku hjá lögreglu að hún hafi kveikt í bók, en kvaðst að öðru leyti muna lítið eftir því sem gerðist.
Krafa sóknaraðila um að varnaraðili verði látin sæta gæsluvarðhaldi er einvörðungu reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þeirri málsgrein má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald þótt skilyrði a. til d. liðar 1. mgr. greinarinnar séu ekki fyrir hendi ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Framangreind háttsemi varnaraðila fól í sér augljósa og mikla almannahættu sem þung refsing er lögð við í 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það eitt og sér nægir þó ekki til þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu almannahagsmuna, heldur verður meira að koma til, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 46/2013. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi gerst áður sek um sams konar háttsemi og að framan greinir. Að teknu tilliti til þess og að virtu því broti, sem henni er gefið að sök, verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að nauðsyn beri til að úrskurða hana í gæsluvarðhald á grundvelli þess ákvæðis sem hér um ræðir. Samkvæmt því brestur lagaskilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður af þeim sökum felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. ágúst 2016
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 8. ágúst 2016, kl. 16.00.
Krafan er reist 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Meint brot kærðu er talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að klukkan 19:06 þann 31. júlí sl. hafi lögreglu borist tilkynning um dökkan reyk frá [...], [...] og að fólk væri að hlaupa úr húsinu. Er lögreglumenn komu á staðinn hafi lagt mikinn reyk frá neðri hæð hússins, talsverður reykur hafi verið í íbúðinni og stofan alelda. Lögreglumenn hafi þegar farið að kanna hvort einhver væri í íbúðinni og hafi nærliggjandi íbúðir verið rýmdar. Stuttu síðar kom slökkvilið og hafi reynt að ráða niðurlögum eldsins. Á vettvangi hafi verið rætt við íbúa á efri hæð [...]. Þau kváðust hafa verið sofandi en þau hafi vaknað við hávaða utan við gluggann á svefnherberginu. Þar hafi verið fát á fólki og einhver sagt að það væri kviknað í og að allir þurft að fara strax. Þau hafi séð út um gluggann fimm einstaklinga, þrjár stelpur og tvo stráka hlaupa burt af vettvangi. Íbúarnir á efri hæðinni hafi síðan drifið sig út úr húsinu og hringt á lögreglu. Þá hafi X sést fara af vettvangi en hún sé íbúi í íbúðinni fyrir neðan.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að húsnæðið hafi verið mikið skemmt. Stofan hafi verið mjög mikið brunnin og mikið sót verið í íbúðinni. Þá hafi kveikjaraeldsneytisbrúsi legið í stofunni. Tekið sé fram að hugsanlega hafi reykskemmdir verið minniháttar á íbúð á efri hæð. Um kl. 19:45 hafi kærða, X komið á vettvang í bifreið. Hún hafi verið sljó í fasi, augasteinar litlir og skolfið talsvert. Hún hafi verið grunuð um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum ávana- og fíkniefna og einnig fyrir að hafa yfirgefið vettvang án þess að grípa til viðeigandi ráðstafana og stofna þar með lífi annarra í hættu.
Segir í greinargerðinni eftir kærðu að hún hafi verið í íbúðinni ásamt A, B og C þegar bruninn átti sér stað. Hún hafi verið sofandi í sófanum og verið nýbúin að taka svefnpillu þegar hún hafi vaknað og orðið eldsins vör. Hún hafi farið í eldhúsið til þess að ná í vatn til að reyna að slökkva eldinn en þegar hún hafi komið til baka hafi eldurinn verið orðinn meiri og illviðráðanlegur. Hún kvað A hafa sparkað upp baðherbergishurðinni til þess að bjarga B og C sem hafi verið þar inni á baði. Þá kvað hún einhvern hafa skipað henni að fara út í bifreið sína. X kvaðst hafa þurft að aka strax af vettvangi þar sem B og C hafi verið naktar og í mikilli geðshræringu. Hún hafi farið með þær á verkstæði þar skammt frá. Aðspurð kvað kærða, X telja að kerti hafi orsakað brunann, kerti hafi staðið við bókahillu í stofunni og taldi hún líklegt að loginn úr kertinu hafi læst sig í bókahilluna. Þá komi fram að hún teldi að nágranni hennar hafi hringt í Neyðarlínuna því hún hafi ekki gripið til neinna ráðstafana hvorki að hringja í Neyðarlínuna né að láta nágrannann vita. Kærða, X kvaðst hafa tekið fíkniefni nóttina áður og tekið svefnlyf fyrir nokkrum klukkustundum. X hafi verið handtekin kl. 20:15 og flutt á lögreglustöðina í [...]. Einnig hafi C og B verið handteknar. Í framburðarskýrslu hjá lögreglu komi fram hjá B að hún hafi komið að [...] ásamt vinkonu sinni C og hafi X heimilað henni að fara í bað. Hún hafi svo ekki vitað fyrri til en D hafi sparkað í baðherbergishurðina og hrópað að það væri eldur í íbúðinni og að X hafi kveikt í. Þær C hafi farið út naktar þar sem mikill eldur hafi verið kominn í íbúðina. Þegar þær hafi komið út hafi kærða, X, beðið í bíl fyrir utan. Í bifreiðinni hafi X sagt að hún hafi kveikt í íbúðinni. Fram komi að B teldi að X hafi kveikt í íbúðinni og hafi ætlað að brenna hana og C inni, væntanlega vegna afbrýðissemi. Þá hafi X verið mjög undarleg og hafi m.a. verið búin að klippa í sundur fjöldann allan af rafmagnssnúrum.
Í framburðarskýrslu C komi fram að hún hafi komið að [...] ásamt vinkonu sinni B. Þar hafi kona, sem hún þekki ekki neitt, hleypt þeim inn. Þar hafi einnig verið tveir strákar, annar D og hinn sem hún þekki ekki. Þær hafi fengið leyfi til að fara í bað. Hún hafi síðan ekki vitað fyrri til en hurðinni hafi verið sparkað niður og reyk lagt inn á baðherbergið. Þá hafi henni verið sagt að það væri eldur í íbúðinni og að þær þyrftu að fara tafarlaust út. Hafi D látið hana hafa handklæði en að öðru leyti hafi hún verið nakin. Fyrir utan hafi húsráðandi beðið í bifreið. Þá segir að þessi kona hafi sagt að hún hafi kveikt í íbúðinni en ekki gefið upp ástæður þess. Þegar þær hafi komið hafi konan verið búin að klippa fullt af rafmagnssnúrum í sundur og brjóta húsgögn. Konan hafi ekið þeim að næsta verkstæði og skipað þeim að fara þar út úr bifreiðinni og haldið á brott. C hafi sagt að D hafi hringt á slökkviliðið og þá hafi hún veitt því athygli að maðurinn á efri hæð hússins hafi verið kominn út.
Í framburðarskýrslu kærðu, X komi fram að hún hafi verið að nota rivotril og muni því lítið eftir því sem gerðist. Hún muni að það hafi verið þarna tvær stelpur og tveir strákar. Stelpurnar hafi fengið að fara í bað en hún hafi verið frammi. Hún muni eftir því að hafa kveikt í bók en ekkert meira en það. Þá sagðist hún hafa bankað á dyrnar hjá stelpunum til þess að láta þær vita af eldinum og farið síðan út. X kvaðst ekki hafa hringt á slökkviliðið því nágranninn fyrir ofan hafi verið búinn að því. Hún kvaðst síðan hafa ekið strákunum og stelpunum sem voru naktar að næsta verkstæði og skilið þær þar eftir. Hún hafi síðan komið til baka þar sem hún var handtekin. X sagðist hafa verið í mikilli eiturlyfjavímu þegar þetta átti sér stað hafi m.a. neytt rivotril og amfetamíns.
Þá segir í greinargerðinni að rannsókn málsins sé á frumstigi. Í málinu liggi fyrir að kveiktur hafi verið eldur inni í búðinni að [...], eins og ráða megi m.a. af ummerkjum á vettvangi. Jafnframt sé fyrirliggjandi sterkur grunur um að kærða í máli þessu, X, beri ábyrgð á þeim verknaði. Hún hafi verið í íbúðinni þegar eldurinn kom upp, í íbúðinni hafi fundist kveikjaraeldsneytisbrúsi sem að mati lögreglu hafi verið notaður til að kveikja eldinn auk þess sem vitni í málinu beri að kærða hafi sagt að hún hafi kveikt í. Þá hafi hún viðurkennt að hafa kveikt í.
Til rannsóknar í máli þessu sé ætlað brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hugsanlega hafi verið kveikt í tungusófa og borðhillu í stofu en þar hafði mest brunnið í tveggja hæða húsi þar sem eru tvær íbúðir. Hús þetta er parhús og er tengt öðrum tveimur íbúðum. Hafi því falist í þessu mikil hætta fyrir fjölda fólks. Slökkvilið hafi að lokum ráðið niðurlögum eldsins. Kærðu hafi mátt vera ljóst að brotið væri þess eðlis að það hefði í för með sér almannahættu. Þá hafi henni mátt vera ljóst að bersýnilegur lífsháski væri búinn af verkinu og/eða gríðarleg eignarspjöll gætu af því hlotist. Samkvæmt 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé refsilágmark 2 ára fangelsi en brotið getur varðað ævilöngu fangelsi.
Með vísan til þess sem að framan sé rakið og gagna málsins að öðru leyti þyki brýna nauðsyn bera til þess að kærðu verði, með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 8. ágúst 2016 kl. 16:00. Telur lögreglustjóri brotið vera í eðli sínu svo svívirðilegt að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Kærða mótmælti kröfunni.
Kærða hefur játað að hafa kveikt í bók í íbúð á neðri hæð hússins nr. [...] við [...] í [...]. Samkvæmt gögnum málsins voru íbúar á efrihæð hússins heima og fleira fólk í húsinu. Er íbúðin á neðri hæðinni mikið skemmd samkvæm ljósmyndum. Kærða fór af vettvangi án þess að gera nokkrar ráðstafanir en kom síðar aftur á vettvang. Verður að telja að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að brot það sem kærða er grunuð um varði við 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga og varði að lágmarki tveggja ára fangelsisrefsingu og upp í sextán ár. Því er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga 88/ 2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 8. ágúst 2016, kl. 16:00.