Hæstiréttur íslands

Mál nr. 857/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Málskostnaður
  • Virðisaukaskattur
  • Aðfinnslur


Miðvikudaginn 7. janúar 2015.

Nr. 857/2014.

Þrotabú Seven Miles ehf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Önnu Brynju Ísaksdóttur

(Anton B. Markússon hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur. Málskostnaður. Virðisaukaskattur. Aðfinnslur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli þrotabús S ehf. á hendur A var vísað frá dómi sökum vanreifunar. Í niðurstöðu Hæstaréttar var fallist á með héraðsdómi að slíkar þversagnir væru í málatilbúnaði þrotabús S ehf. að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá dómi. Var ákvæði úrskurðarins hvað þetta varðaði því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Fallast verður á með héraðsdómi að slíkar þversagnir séu í málatilbúnaði sóknaraðila að óhjákvæmilegt sé að vísa málinu frá dómi. Verður því staðfest ákvæði hins kærða úrskurðar um það.

Með hinum kærða úrskurði var sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila „950.000 krónur í málskostnað, auk virðisaukaskatts“, svo sem sagði í úrskurðarorði. Virðisaukaskattur verður ekki lagður við málskostnað, sem aðila máls er með dómi eða úrskurði gert að greiða gagnaðila, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 24. mars 1997 í máli nr. 119/1997, auk þess sem ákvæði sem þetta í dómsúrlausn er andstætt grunnreglum að baki 114. gr. laga nr. 91/1991 um að kveða beri skýrlega og til fullnaðar á um réttindi og skyldur, sem málsaðilar skuli njóta og bera. Af þessum sökum fær þetta ákvæði úrskurðarins ekki staðist, en með því að varnaraðili hefur ekki kært hann fyrir sitt leyti verður fjárhæð málskostnaðar ekki hækkuð frá þeirri, sem þar var mælt fyrir um. Fer því um málskostnað í héraði eins og í dómsorði greinir.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem segir í dómsorði.

Það athugast að mál þetta var þingfest í héraði 10. nóvember 2011, en síðan tekið fyrir á reglulegu dómþingi tíu sinnum þar til greinargerð varnaraðila var loks lögð fram í þinghaldi 7. nóvember 2013. Með þessari málsmeðferð var á vítaverðan hátt brotið gegn ákvæðum 1. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun málsins frá héraðsdómi er staðfest.

Sóknaraðili, þrotabú Seven Miles ehf., greiði varnaraðila, Önnu Brynju Ísaksdóttur, 950.000 krónur í málskostnað í héraði, svo og 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2014.

Mál þetta sem dómtekið var 5. nóvember 2014 var höfðað 27. október 2011 af hálfu  þrotabús félagsins Seven Miles ehf., Lágmúla 7 í Reykjavík á hendur Önnu Brynju Ísaksdóttur, Lindarbraut 28, Seltjarnarnesi, til staðfestingar á riftun ráðstafana og til endurgreiðslu verðmæta og greiðslu skaðabóta, auk vaxta og málskostnaðar.

Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum hins gjaldþrota félags, SevenMiles ehf., til stefndu:

Gjöf SevenMiles ehf. til stefnda, 31. desember 2008, að upphæð 140.000.000 krónur.

Gjöf SevenMiles ehf. til stefnda, 31. desember 2008, að upphæð 49.702.400 krónur.

Gjöf SevenMiles ehf. til stefnda, 31. desember 2008, að upphæð 95.969.020 krónur.

Gjöf SevenMiles ehf. til stefnda, 31. desember 2008, að upphæð 100.000.000 krónur.

Greiðsla SevenMiles ehf. til stefnda, 4. janúar 2009, að upphæð 200.000.000 krónur.

Greiðsla SevenMiles ehf. til stefnda, 30. júní 2009, að upphæð 100.000.000 krónur.

Þess er krafist að stefnda greiði stefnanda 400.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 7. október 2011 til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefnda krefst þess aðallega að öllum kröfum stefnanda verði hafnað. Til vara krefst stefnda þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Stefnda krefst þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Stefnda er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og er því farið fram á að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Mál þetta var þingfest 10. nóvember 2011. Þegar stefnda lagði fram greinargerð sína 7. nóvember 2013 hafði málinu verið frestað tíu sinnum á reglulegu þingi að beiðni stefndu með samþykki stefnanda, en þess er að gæta að dómur Hæstaréttar 2. október 2013 tengist sakarefninu. Málinu var úthlutað til dómara 1. desember 2013, sem tók málið fyrst fyrir 18. desember 2013, því var frestað fjórum sinnum að beiðni beggja aðila til gagnaöflunar þar til aðalmeðferð þess, sem fór fram 5. nóvember 2014, var ákveðin og undirbúin í þinghaldi 15. maí s.á.

Eftir dómtöku málsins taldi dómari að þeir ágallar kynnu að vera á málatilbúnaði stefnanda að varðað gæti frávísun málsins án kröfu. Af því tilefni og með hliðsjón af ákvæði 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, var lögmönnum aðila gefinn kostur á að tjá sig munnlega um það efni í sérstöku þinghaldi. Að því loknu var málið tekið til dóms að nýju eða úrskurðar.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

SevenMiles ehf. var eignarhaldsfélag sem átti 38% hlut í félögunum Spori ehf. og Sporbaugi ehf., sem höfðu með höndum rekstur skóverslana og innflutning í tengslum við hann. Stefnda var skráð varamaður í stjórn félagsins SevenMiles ehf. frá 19. maí 2004 þar til 8. desember 2008, en var ekki skráð í stjórn eftir þann dag. Hún var eigandi 82% hlutar í félaginu og meðeigandi hennar var Tómas Ottó Hansson sem átti 18% hlut í félaginu. Framkvæmdastjóri félagsins var fyrrum maki stefndu, Pétur Þór Halldórsson, sem sat einn í stjórn félagsins frá 26. mars 2007 til 8. október 2009. Hafði hann umsjón með fjárreiðum félagsins. 

Sparisjóðabanki Íslands hf. leysti til sín alla hluti stefndu og meðeiganda hennar í félaginu 7. október 2009 og skipaði því nýja stjórn. Innlausnin byggði á handveði bankans í hlutafénu, sem sett var til tryggingar skuld félagsins við bankann, sem við innlausn hlutafjárins var að fjárhæð 194.783.339 krónur. Sparisjóðabanki Íslands hf. gekk jafnframt að handveði sem bankinn átti í 38% hlutafjáreign SevenMiles ehf. í félögunum Spori ehf. og Sporbaugi ehf., til tryggingar skuldbindingum félaganna allra við bankann, en bankinn hafði gjaldfellt öll lán sín til félaganna þriggja með tilkynningum til þeirra 10. september 2009.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2009 var félagið SevenMiles ehf., tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni nýrrar stjórnar og er frestdagur við skiptin 12. nóvember 2009. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 2. október 2013 í máli nr. 498/2013, leiddi innlausn bankans á hlutafénu í félögunum til þess að kröfur bankans á hendur SevenMiles ehf. lækkuðu verulega, en þá hafði verðmæti hlutanna, um 420 milljónum króna, verið ráðstafað til lækkunar á kröfum bankans á hendur félögunum þremur, þar af um 113 milljónum króna inn á skuldir SevenMiles ehf. við bankann.

Samkvæmt lýsingum stefnanda í stefnu á bókhaldi SevenMiles ehf. innti félagið af hendi greiðslur til stefndu á árinu 2008 sem voru færðar sem skuld stefndu á viðskipta­reikningi hennar hjá félaginu, þannig að 31. desember 2008 var skuld stefndu við félagið 331.708.595 krónur. Þann dag voru bókaðar fjórar færslur í bókhaldi félagsins til uppgreiðslu skuldarinnar, þar með var talin færsla þar sem úthlutaður en ógreiddur arður til stefndu var færður til niðurfærslu skuldarinnar. Auk þessa var stefndu úthlutaður arður tvisvar sinnum á árinu 2009, nánar tiltekið 4. janúar, að upphæð 200.000.000 króna og 30. júní s.á., að upphæð 100.000.000 króna.

Stefnandi telur að þessar sex ráðstafanir á sex mánaða tímabili, 31. desember 2008 til 30. júní 2009, séu riftanlegar í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir einnig nefnd gþl). Stefnandi telur að arðgreiðslur til stefndu hafi auk þess verið í andstöðu við ákvæði XII. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög (hér eftir einnig nefnd ehfl). Stefnandi lýsti með bréfi, dags. 7. september 2011 yfir riftun þessara ráðstafana og krefst greiðslu 400 milljóna króna úr hendi stefndu og telur að stefnda sé skaðabótaskyld við þrotabúið.

Stefnda krefst aðallega sýknu og telur að rétt hafi verið staðið að þeim ráðstöfunum sem stefnandi krefst riftunar á og jafnframt að arðgreiðslur hafi verið í samræmi við reglur XII. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Stefnda hafnar því að nokkur grundvöllur skaðabótaskyldu sé fyrir hendi og hefur hvorki greitt kröfur stefnanda né fallist á riftanir framangreindra ráðstafana. Varakrafa stefndu um lækkun fjárkrafna miðast við greiðslu ógreiddra lýstra almennra krafna í þrotabúið.

Samkvæmt upplýsingum skiptastjóra stefnanda stóð þann 14. maí 2014 aðeins ein krafa eftir í þrotabúið, krafa Sparisjóðabanka Íslands hf., nú SPB hf., sem með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar var viðurkennd að eftirstöðvum 81.643.963 krónur, en inn á þá kröfu höfðu verið greiddar af eignum búsins 58.243.000 krónur. Eftir stóðu 4.757.630 krónur, auk innlánsvaxta frá 1. janúar 2014 á fjárvörslureikningi búsins. Ekki er þá tekið tillit til eftirstæðra krafna vegna vaxta og kostnaðar.

Í máli þessu er til úrlausnar ágreiningur aðila um þessar sex tilteknu ráðstafanir. Umræddum færslum í bókhaldi félagsins 31. desember 2008, auk arðgreiðslnanna árið 2009, er nánar lýst í stefnu og í málavaxtalýsingu í greinargerð stefnda sem hér segir.

Færslur nr. 1 og 2 „Úttekið Pétur“.

Hinn 31. desember 2008 voru bókaðar tvær færslur með skýringunni „Úttekið Pétur“, sem lækkuðu skuld stefndu við félagið samtals um 189.702.400 krónur. Um leið og færslan lækkaði skuld stefndu við félagið stofnaðist skuld á viðskiptareikningi Péturs Þórs Halldórssonar. Sama dag var einnig færslan „Viðsk. reikn Pétur fluttur á Önnu“ þar sem skuld að fjárhæð 9.191.841 króna var færð til baka af reikningi Péturs yfir á reikning stefndu. Með þessum færslum var 180.510.559 krónum skuldskeytt þannig að stefnda losnaði undan þeirri skuld við félagið en Pétur Þór Halldórsson tók við sem skuldari að sömu fjárhæð. Sama dag var viðskiptaskuld Péturs við félagið lækkuð um 179.215.486 krónur með greiðslu Péturs með skýringunni „Bankareikn. Seven M. Byr 05-761216“. Greiðslan mun hafa farið inn á bankareikning SPK 26-628, í eigu stefndu. Skuld stefndu við SevenMiles ehf. lækkaði því um 180.510.559 krónur með því að félagið skuldskeytti á reikning Péturs sem greiddi svo sama dag 179.215.486 krónur inn á reikning á nafni stefndu, en sú innistæða er talin félaginu til eignar í bókum og ársreikningi.

Færsla nr. 3 „Bankareikn. Seven M. Iceb. 26-68789“.

Hinn 31. desember 2008 var bókuð færsla með skýringunni „Bankareikn. Seven M. Iceb. 26-68789“ samtals að fjárhæð 95.969.020 krónur. Með færslunni var skuld stefndu á viðskiptareikningi lækkuð um 95.969.020 krónur með því að bókað var að sú fjárhæð væri greidd inn á bankareikninginn Iceb. 26-68789, sem mun hafa verið á nafni stefndu. Í málavaxtalýsingu stefndu segir að þessi háttur hafi verið hafður á, að nota bankareikninga hennar fyrir fjármuni félagsins, vegna óvissu á þessum tíma um tryggingar á innistæðum lögaðila, en inneignin hafi verið eign félagsins og tilgreind meðal eigna í ársreikningi þess.

Færsla nr. 4 „Úthlutaður arður 2008“.

Hinn 31. desember 2008 var bókuð færsla með skýringunni „Úthlutaður arður 2008“ að fjárhæð 90.000.000 króna. Arðgreiðslan til stefndu var 100.000.000 króna en eftir að 10% fjármagnstekjuskattur hafði verið dreginn frá voru lagðar 90.000.000 króna inn á viðskiptareikning hennar. Með færslunni þurrkuðust út eftirstöðvar skuldar stefndu á viðskiptareikningnum, 75.873.544 krónur og inneign stefndu hjá félaginu var eftir færsluna 14.126.456 krónur.

Tildrög arðgreiðslunnar voru þau að á hluthafafundi félagsins í apríl 2008 var bókað að arðgreiðslur félagsins það árið gætu numið allt að 310 milljónum króna. Þann 24. september 2008 var aðalfundur félagsins haldinn og ársreikningur fyrir árið 2007 lagður fram og samþykktur. Samkvæmt ársreikningnum var óráðstafað eigið fé félagsins í árslok 320.231.714 krónur og hagnaður ársins fyrir skatta var samkvæmt rekstrarreikningi 190.390.638 krónur. Á fundinum var samþykkt tillaga stjórnar um að arðgreiðsla yrði að svo stöddu einungis að fjárhæð 100 milljónir króna þrátt fyrir að hluthafafundurinn í apríl hefði samþykkt að arðgreiðslur gætu numið allt að 310 milljónum króna. Stefnda var þá hluthafi alls hlutafjár í B-flokki og samkvæmt samkomulagi hluthafa skyldi allur arður greiðast til B-flokks og því renna til stefndu.

Arðgreiðslur til stefndu 4. janúar 2009 og 30. júní 2009.

SevenMiles ehf. greiddi stefndu arð 4. janúar 2009, að upphæð 200.000.000 króna, en hluthafafundur í félaginu þann dag ákvað viðbótararðgreiðslu til hluthafa á grundvelli ársreiknings 2007. Á fundinum var samþykkt að greiða út arð að fjárhæð 200 milljónir króna, til viðbótar við fyrri arðsúthlutun, sem ákveðin hafði verið í september 2008, með hliðsjón af niðurstöðu nýjasta ársreiknings félagsins, þ.e. vegna rekstrarársins 2007.

Loks greiddi félagið stefndu arð 30. júní 2009, að upphæð 100.000.000 króna. Á aðalfundi í félaginu þann dag var lagður fram, og samþykktur með atkvæðum hluthafa, ársreikningur félagsins vegna rekstrarársins 2008. Hagnaður af rekstri félagsins það ár nam 94.170.161 krónu og stóð óráðstafað eigið fé félagsins í ríflega 314 milljónum króna í árslok 2008 samkvæmt ársreikningnum. Samþykkt var á fundinum að greiða út arð vegna ársins 2008 að fjárhæð 100 milljónir króna, að teknu tilliti til hagnaðar ársins 2008 og yfirfærðs hagnaðar ársins 2007.

Greiðsla arðsins, að frádregnum fjármagnstekjuskatti, fór í báðum tilvikum fram með þeim hætti að stefnda yfirtók samsvarandi innstæðu á bankareikningi sem var í hennar nafni, en innstæðan var fyrir greiðsluna eign félagsins samkvæmt bókum þess og reikningshaldi. 

Við aðalmeðferð málsins gáfu vitnaskýrslur í síma Pétur Þór Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður SevenMiles ehf., og Rögnvaldur Dofri Pétursson, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, fyrrum endurskoðandi félagsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Riftun skv. XX. kafla gþl.

Stefnandi byggi á því að fjórar færslur í bókhaldi SevenMiles ehf. hinn 31. desember 2008 og tvær arðgreiðslur árið 2009 hafi verið riftanlegir gerningar. Þess sé því krafist að þeim ráðstöfunum verði rift.

Krafa um greiðslu auðgunar stefndu og tjóns stefnanda.

Stefnandi krefjist þess að stefnda greiði stefnanda 400.000.000 króna auk dráttarvaxta. Fjárkrafan eigi þrjár stoðir. Í fyrsta lagi sé þess krafist að í kjölfar riftunar ráðstafana skuli stefnda, samkvæmt XX. kafla gþl., greiða auðgun sína vegna riftanlegra ráðstafana og skaðabætur vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir. Í öðru lagi sé gerð fjárkrafa sem byggi á því að stefnda hafi fengið ólöglegar arðgreiðslur frá SevenMiles ehf. Slík lán beri stefndu að endurgreiða samkvæmt lögum um einkahlutafélög. Í þriðja lagi sé byggt á því að stefnda beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem SevenMiles ehf. hafi orðið fyrir vegna arðgreiðslna og annarra ráðstafana sem mál þetta fjalli um. Sú ábyrgð byggi á almennum reglum skaðabótaréttar og reglum um ábyrgð stjórnenda og hluthafa sem fram komi í lögum um einkahlutafélög. Stefndu beri því að greiða bætur vegna tjóns SevenMiles ehf.

Riftun samkvæmt XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Stefnandi byggi á því að fjórar færslur í bókhaldi SevenMiles ehf. hafi verið riftanlegir gerningar skv. XX. kafla gþl. og krefjist þess að þeim verði rift. Auk þessara færslna hafi stefndu verið greiddur arður með tveimur færslum árið 2009 en stefnandi telji að þær arðgreiðslur séu einnig riftanlegar.

Þess sé því krafist að eftirfarandi ráðstöfunum verði rift:

1)                       Gjöf Seven Miles ehf. til stefndu, dags. 31. desember 2008, að upphæð kr. 140.000.000 (gerð með bókhaldsfærslu með skýringunni „Úttekið Pétur“).

2)                       Gjöf Seven Miles ehf. til stefndu, dags. 31. desember 2008, að upphæð kr. 49.702.400 (gerð með bókhaldsfærslu með skýringunni „Úttekið Pétur“).

3)                       Gjöf Seven Miles ehf. til stefndu, dags. 31. desember 2008, að upphæð kr. 95.969.020 (gerð með bókhaldsfærslu með skýringunni Bankareikn. Seven M. Iceb. 26-68789).

4)                       Gjöf Seven Miles ehf. til stefndu, dags. 31. desember 2008, að upphæð kr. kr. 100.000.000 (gerð með bókhaldsfærslu með skýringunni „Úthlutaður arður 2008“).

5)                       Greiðsla Seven Miles ehf. til stefndu, dags. 4. janúar 2009, upphæð kr. 200.000.000 (gerð með yfirtöku innistæðna á bankareikningum SPK 26-628, Icebank 26-68789 og BYR 1135-38-717002).

6)                       Greiðsla Seven Miles ehf. til stefndu, dags. 30. júní 2009, að upphæð kr. 100.000.000 (gerð með yfirtöku innistæðna á bankareikningnum SPK 26-628).

Stefnandi telji rétt að hafa það til hliðsjónar við túlkun þeirra gerninga sem lækkað hafi skuld stefndu að skuldin hafi myndast á árinu 2008 vegna lána félagsins til stefndu sem verið hafi stærsti hluthafi og stjórnarformaður í SevenMiles ehf.

Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einka­hlutafélög, hafi félaginu þar með verið óheimilt að veita stefndu lán og henni óheimilt að taka við greiðslunum. Bann við lánveitingum einkahlutafélags til hluthafa sé til að tryggja skil á milli fjármuna félagsins og fjármuna hluthafa þess. Hluthafar eigi ekki að fara með fjármuni félagsins sem sína eigin. Slíkt skapi hættu á því að hluthafinn hagnist með óréttmætum hætti á kostnað félagsins o.þ.m. kröfuhafa þess og annarra hluthafa.

Þeir sem fái ólögmæt lán samkvæmt 79. gr. ehfl. séu í aðstöðu til að misnota félagið. Ákvæði 79. gr. ehfl. virki ekki geti einstaklingarnir komið sér undan endurgreiðslu­skyldu með því einu að nota áhrif sín í félaginu til að láta félagið lækka kröfuna á hendur þeim. Með því væru félögin misnotuð enn frekar til hagsbóta lántakans en á kostnað kröfuhafa félagsins.

Þar sem lánveitingar SevenMiles ehf. til stefndu séu ólögmætar og hafi valdið félaginu tjóni beri stefndu rík skylda til að leiðrétta hina ólögmætu ráðstöfun. Gera verði strangar kröfur til þess að endurgreiðslan fari fram með peningum en ekki með öðrum hætti, eins og t.d. skuldajöfnuði eða skuldskeytingu. Að öðrum kosti hafi bannákvæði 79. gr. enga þýðingu. Verði að túlka reglurnar með þeim hætti að lántakanum beri rík skylda til að greiða ólögmæt lán til baka með raunverulegri greiðslu peninga. Aðrar ráðstafanir sem lækki endur­greiðslu­skyldu stefndu vegna ólögmætra lána hennar hjá félaginu séu óskuldbindandi fyrir félagið.

Gjafir með bókhaldsfærslunum „Úttekið Pétur“.

Hinn 31. desember 2008 hafi verið bókaðar tvær færslur með skýringunni „Úttekið Pétur“. Færslurnar hafi annars vegar verið að upphæð 140.000.000 kr. og hins vegar að upphæð 49.702.400 kr. Með færslunum hafi skuld stefndu við félagið lækkað en Pétur Þór Halldórsson tekið við sem skuldari sömu fjárhæða. Stefnandi byggi riftunarkröfu sína á ákvæðum 131. gr. og 141. gr. gþl., þ.e. að um gjafagerning hafi verið að ræða sem um leið hafi verið ótilhlýðileg ráðstöfun.

Riftun skv. 131. gr. gþl.

Enginn fjárhagslegur tilgangur hafi verið að baki skuldskeytingunni og SevenMiles ehf. hafi engan hag haft af því að losa stefndu við skuldina en fá þess í stað nýjan skuldara. Það eitt að skuldskeyta án viðskiptalegs tilgangs sé gjöf í skilningi XX. kafla gjaldþrotalaga. Ráðstöfunin sé gerð í þeim tilgangi að losa skuldarann undan skuldinni og feli í sér verðmæti fyrir stefndu sem nemi fjárhæð skuldarinnar.

Pétur hafi ekki greitt félaginu þá skuld sem hann hafi tekið við af stefndu 31. desember 2008. Sama dag hafi hann þó greitt 179.215.486 krónur inn á bankareikning sem tilgreindur hafi verið sem eign félagsins, en hafi í raun verið í eigu stefndu. Við greiðsluna hafi skuld Péturs við SevenMiles ehf. verið lækkuð um 179.215.486 krónur í bókhaldi félagsins, þrátt fyrir að greiðslan hefði verið inn á reikning stefndu en ekki félagsins.

Verði skuldskeytingin ein og sér ekki talin riftanlegur gjafagerningur verði a.m.k. að líta heildstætt á þessar tvær ráðstafanir 31. desember 2008. Annars vegar skuldskeytingu frá stefndu til Péturs og hins vegar greiðslu Péturs til stefndu, sem lækkað hafi skuld hennar við SevenMiles ehf. Með þessum tveimur gerningum hafi skuld stefndu við SevenMiles ehf. verið lækkuð um 189.702.400 krónur. Eftir greiðslu Péturs hafi krafa að fjárhæð 179.215.486 endanlega horfið úr bókhaldi félagsins án þess að félagið fengi greiðslu eða annað endurgjald.

Greiðsla Péturs inn á bankareikning stefndu teljist ekki raunveruleg greiðsla á skuld við félagið enda hafi félagið hvorki haft aðgang að né ráðstöfunarrétt á banka­reikningnum. Skuld stefndu við félagið hafi lækkað án þess að félagið fengi nokkurt gagngjald. Ráðstafanirnar séu þannig gjöf félagsins til stefndu í skilningi 131. gr. gþl.

Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. gþl. megi krefjast riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag.

Gjafirnar hafi verið afhentar 31. desember 2008 og öll skilyrði riftunar skv. 2. mgr. 131. gr. gþl. séu uppfyllt:

Gjöfin teljist rýra eignir gefandans. Af ráðstöfuninni hafi leitt að krafa stefnanda á hendur stefndu hafi lækkað um 189.702.400 krónur og krafa að fjárhæð 179.215.486 krónur hafi algerlega horfið úr bókhaldinu þó hún hafi ekki verið greidd.

Gjöfin hafi leitt til auðgunar móttakanda. Með gjöfinni hafi stefnda losnað við það að greiða skuld en í því felist auðgun fyrir hana sem samsvari skuldinni.

Gjafatilgangur hafi verið fyrir hendi. Ráðstöfunin hafi verið ívilnun í þágu stefndu og gerð í þeim tilgangi að lækka skuld hennar við SevenMiles ehf.

Ógjaldfærni. SevenMiles ehf. hafi verið ógjaldfært þegar greiðslan hafi verið innt af hendi.

Riftun skv. 141. gr. gþl.

Samkvæmt 141. gr. gþl. megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hafi þrotamaðurinn verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafði af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. gþl. séu til staðar.

Ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Með henni hafi SevenMiles ehf. fellt niður kröfu á stefndu. Slík ráðstöfun sé án viðskiptalegs tilgangs og eingöngu gerð til að ívilna stefndu á kostnað kröfuhafa félagsins. Þessi ótilhlýðilega ráðstöfun leiði til þess að minni eignir verði til fullnustu fyrir kröfuhafa stefnanda. Stefnandi o.þ.m. kröfuhafar hans hafi því orðið fyrir tjóni sem nemi tilgreindri fjárhæð.

Stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin hafi verið framkvæmd.

Stefnda hafi vitað um ógjaldfærni SevenMiles ehf. þegar ráðstöfunin hafi verið framkvæmd, enda stjórnarformaður og hluthafi félagsins á þeim tíma. Stefnda hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni stefnanda og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg.

Gjöf með bókhaldsfærslunni „Bankareikn. Seven M. Iceb. 26-68789“.

Hinn 31. desember 2008 hafi verið bókuð færsla með skýringunni „Bankareikn. Seven M. Iceb. 26-68789“ sem lækkað hafi skuld stefndu við félagið um 95.969.020 krónur. 

Með færslunni hafi skuld stefndu á viðskiptareikningi verið lækkuð um 95.969.020 krónur með því að sú fjárhæð hafi verið greidd inn á bankareikninginn Iceb. 26-68789. Sá bankareikningur sé ekki reikningur félagsins heldur reikningur stefndu. Greiðsla stefndu á reikning stefndu teljist ekki raunveruleg greiðsla á skuld við félagið enda hafi félagið hvorki haft aðgang að né ráðstöfunarrétt á banka­reikningnum.

Sú ráðstöfun SevenMiles ehf. að fella niður kröfu á hendur stefndu uppfylli öll skilyrði gjafar í skilningi 131. gr. gþl. Sú ráðstöfun hafi um leið verið ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. gþl.

Hvorki verði séð að SevenMiles ehf. hafi borið skylda til né haft hag af því að losa stefndu undan skuld við félagið. Skuld stefndu við félagið hafi lækkað án þess að félagið fengi skuldina greidda eða annað gagngjald. Skilyrði 131. gr. gþl. eigi því við.

Ráðstöfunin hafi verið stefndu til hagsbóta á kostnað annarra enda ljóst að lækkun á skuld stefndu hafi skert eignir o.þ.m. greiðslugetu félagsins (og nú þrotabúsins) sem muni að óbreyttu leiða til þess að fjármunirnir verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. gþl. séu því fyrir hendi.

Gjöf með bókhaldsfærslunni „Úthlutaður arður 2008“.

Hinn 31. desember 2008 hafi verið bókuð færsla að fjárhæð 90.000.000 króna með skýringunni „Úthlutaður arður 2008“. Greiðslan til stefndu sé í raun 100.000.000 króna en eftir frádrátt á 10% fjármagnstekjuskatti hafi 90.000.000 króna verið lagðar inn á reikninginn. Með færslunni hafi þurrkast út eftirstöðvar skuldar stefndu á viðskiptareikningi að fjárhæð 75.873.544 krónur. Auk þess hafi inneign stefndu myndast hjá félaginu að fjárhæð 14.126.456 krónur. Stefnandi líti svo á að arðgreiðslan hafi verið riftanleg í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en einnig ólögmæt í skilningi laga um einkahlutafélög.

Riftun skv. 131. gr. gþl.

Stefnandi líti svo á að ekki hafi verið skilyrði til greiðslu arðs 31. desember 2008 og arðgreiðslan hafi þannig verið óheimil samkvæmt lögum um einkahlutafélög. SevenMiles ehf. hafi hvorki verið heimilt né skylt að lækka skuld stefndu við félagið með þessum hætti og hafi engan hag haft af því. Eini tilgangur ráðstöfunarinnar hafi verið að ívilna stefndu. Af því leiði að lækkun skuldar stefndu við SevenMiles ehf. hafi verið gjöf félagsins til hennar. Skilyrði 131. gr. gþl. eigi því við.

Riftun skv. 136. gr. gþl.

Skuld stefndu við SevenMiles ehf. að fjárhæð 75.873.544 krónur hafi verið greidd með skuldajöfnuði á móti kröfu stefndu á félagið um arðgreiðslu. Samkvæmt 136. gr. gþl. megi rifta greiðslu sem greidd sé með skuldajöfnuði ef ekki mætti beita honum skv. 100. gr. laganna. Skilyrði 100. gr. laganna fyrir skuldajöfnuði hafi ekki öll verið fyrir hendi.

Samkvæmt ákvæðinu sé m.a. skilyrði að stefnda hafi hvorki vitað né mátt vita að SevenMiles ehf. hafi ekki átt fyrir skuldum og að stefnda hafi ekki fengið kröfu sína til að skuldajafna. Auk þess hafi krafa stefndu um arð verið ólögmæt og því ekki hæf til að ganga upp á móti kröfu félagsins.

Riftun skv. 134. gr. gþl.

Arðgreiðslan hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri enda hafi hún ekki verið greidd með peningum heldur með lækkun skuldar stefndu. Þá hafi arðgreiðslan einnig skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Riftun skv. 141. gr. gþl.

Ráðstöfunin hafi verið stefndu til hagsbóta á kostnað annarra enda ljóst að lækkun á kröfu SevenMiles ehf. og stofnun kröfu stefndu á félagið hafi skert eignir o.þ.m. greiðslugetu félagsins (og nú þrotabúsins) sem muni að óbreyttu leiða til þess að fjármunirnir verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Skilyrði riftunar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrota­skipti o.fl., séu því fyrir hendi.

Arðgreiðslur 4. janúar 2009 og 30. júní 2009.

SevenMiles ehf. hafi greitt stefndu arð 4. janúar 2009, að fjárhæð 200.000.000 króna, og 30. júní 2009, að fjárhæð 100.000.000 króna. Stefnandi líti svo á að arðgreiðslurnar hafi verið riftanlegar í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en séu einnig ólögmætar í skilningi laga um einkahlutafélög. Stefnandi telji að ákvæði 131., 134. og 141. gr. gþl. eigi við um arðgreiðslurnar árið 2009.

Riftun skv. 131. gr. gþl.

Stefnandi líti svo á að hvorki hafi verið skilyrði til greiðslu arðs 4. janúar 2009 né 30. júní 2009. Eini tilgangurinn með greiðslunum hafi verið að ívilna stefndu með því að gefa henni annars vegar 200.000.000 króna og hins vegar 100.000.000 króna.

Riftun skv. 134. gr. gþl.

Arðurinn hafi í báðum tilfellum verið greiddur með óvenjulegum greiðslueyri enda hafi ekki verið greitt með peningum heldur með því að stefnda hafi yfirtekið bankareikninga á eigin nafni, sem þó hafi verið taldar til eigna félagsins. Þá hafi arðgreiðslurnar einnig skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

Riftun skv. 141. gr. gþl.

Ráðstafanirnar hafi verið stefndu til hagsbóta á kostnað annarra enda ljóst að greiðslurnar hafi skert eignir o.þ.m. greiðslugetu félagsins (og nú þrotabúsins) sem muni að óbreyttu leiða til þess að fjármunirnir verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Gerningurinn 30. júní 2009 hafi verið innan sex mánaða frá frestdegi og þannig sé ógjaldfærni félagsins og tengsl stefndu við félagið ekki skilyrði fyrir riftun þeirrar greiðslu.

Arðgreiðslur Seven Miles ehf. til stefndu.

Stefndu hafi verið greiddar 100.000.000 króna í arð 31. desember 2008, 4. janúar 2009 200.000.000 króna í arð og 30. júní 2009 100.000.000 króna í arð. Arðgreiðslurnar hafi verið inntar af hendi með tveimur aðferðum. Annars vegar með því að 90.000.000 króna hafi verið ráðstafað inn á viðskiptareikning stefndu. Hins vegar með því að stefnda hafi tekið yfir inneignir á sínum eigin bankareikningum, sem þó hafi verið tilgreindir sem eign félagsins.

Þrotabú SevenMiles ehf. telji að arðgreiðslurnar hafi allar verið ólögmætar enda hafi þær hvorki uppfyllt form- né efnisskilyrði laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

Meginregla einkahlutafélagalaga sé að úthlutun fjármuna úr einkahlutafélagi til hluthafa sé óheimil nema í undantekningartilfellum, sbr. XII. kafla laganna. Meginreglan eigi að vernda hagsmuni lánardrottna gegn óvarlegri meðferð fjármuna og ótilhlýðilegum greiðslum til eigenda félaga. Í ljósi þessara verndarhagsmuna beri að gera strangar kröfur til þess að form- og efnisreglum ehfl. sé fylgt þegar fjármunum sé úthlutað úr félagi.

Arðgreiðslurnar séu í ósamræmi við það sem fram komi í ársreikningum áranna 2007 og 2008 um ráðstöfun hagnaðar (úthlutun arðs), en í báðum reikningunum komi fram að greiddar hafi verið 100.000.000 króna í arð.

Á hluthafafundi í SevenMiles ehf., 4. janúar 2009, hafi verið samþykkt að greiða út „viðbótar arð“ á grundvelli heimildar í ársreikningi 2007. Vísað hafi verið til „fyrri bókana varðandi greiðsluna“. Væntanlega sé þar vísað til hluthafafundar frá apríl 2008 en þar hafði verið bókað að arðgreiðslur á árinu gætu numið allt að 310 milljónum króna.

Fundurinn í apríl 2008 hafi verið haldinn áður en ársreikningur fyrir árið 2007 hafi verið samþykktur 24. september 2008. Framangreindar ákvarðanir hafi ekki stoð í lögum um einkahlutafélög sem lögmætar ákvarðanir um arðgreiðslu. Þá sé ekkert sem staðfesti að ársreikningur fyrir árið 2008 hafi verið tilbúinn 30. júní 2009, en honum hafi ekki verið skilað til ársreikningaskrár fyrr en 9. september 2008.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. ehfl. sé einungis heimilt að úthluta sem arði hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hafi verið frá tap sem ekki hafi verið jafnað og það fé sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skuli lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. Fjárhagsstaða SevenMiles ehf. hafi ekki heimilað arðgreiðslurnar þrjár.

Það veiti m.a. vísbendingu um slæma stöðu félagsins að arður vegna ársins 2007 hafi ekki verið greiddur út þegar hann hafi verið ákveðinn, hann hafi aftur á móti verið greiddur síðasta dag ársins 2008. Ákvörðun um „viðbótararð“ vegna 2007 virðist svo hafa verið tekin á árinu 2009.

Ekki verði séð að raunveruleg staða félagsins við lok árs 2007 hafi réttlætt svo háa arðgreiðslu. Jafnvel þótt staða félagsins í árslok 2007 hafi verið góð þá sé almennt viðurkennt að hafi fjárhagur félags versnað eftir að reikningsárinu ljúki beri stjórn að taka tillit til þess og samþykkja ekki meiri arðsúthlutun en forsvaranlegt sé með hliðsjón af þeirri þróun.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 hafi handbært fé SevenMiles ehf. um áramót verið 327.402.925 krónur. Langstærsti hluti þess hafi legið inni á reikningum stefndu (316.831.128 kr.) en félagið hafi talið það fé meðal sinna eigna. 

Á hluthafafundi í apríl 2008 hafi verið bókað að arðgreiðslur á árinu gætu numið allt að 310 milljónum króna. Á aðalfundi 24. september 2008 hafi stjórn lagt til að arðgreiðslur yrðu einungis 100 milljónir króna, þrátt fyrir þessa bókun á fyrri fundi. Þetta hafi verið gert vegna þess að stjórn hafi talið „blikur á lofti á fjármálamarkaði“.

Á hluthafafundi 4. janúar 2009 hafi komið fram að félagið væri í viðræðum við kröfuhafa en um leið verið samþykkt að úthluta 200.000.000 króna arði „á grundvelli heimildar skv. ársreikningi 2007“. Í ársreikningi 2007 sé ekkert fjallað um arð en þar komi þó reyndar fram að hrein eign í árslok 2007 hafi verið 320.985.774 krónur.

Á aðalfundi 30. júní 2009 hafi verið samþykkt að greiða út arð að fjárhæð 100.000.000 króna „til viðbótar þeim arði sem ákveðið var að greiða á fundi 4. janúar 2009“. Sé ekki ljóst hvort arðgreiðslan 30. júní 2009 var vegna ársins 2007 eða 2008.

Þar sem skilyrði til arðgreiðslu, skv. XII. kafla laga nr. 138/1994 ehfl., hafi ekki verið fyrir hendi hafi arðgreiðslur til stefndu verið í andstöðu við ákvæði ehfl. Við þær aðstæður beri stefndu að greiða lánin til baka, sbr. 77. gr. laganna.

SevenMiles ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 16. nóvember 2009. Síðustu 11 mánuðina fyrir gjaldþrotið hafi stefnda fengið greiddar 400.000.000 króna frá félaginu.

Skilyrðin um ógjaldfærni SevenMiles ehf. og að stefnda hafi verið nákomin.

Samkvæmt 2. mgr. 131. gr., 2. mgr. 134. gr. og 141 gr. laga nr. 21/1991 verði ráðstöfun rift nema leitt sé í ljós að SevenMiles ehf. hafi verið gjaldfært þegar gjöf/greiðsla fór fram og að SevenMiles ehf. hafi einnig verið gjaldfært þrátt fyrir gjöfina/greiðsluna.

Seven Miles ehf. hafi verið „ógjaldfært“ ef annað hvort af eftirfarandi hefur átt við um það, þegar hinn riftanlegi gerningur hafi átt sér stað:

1.               Eignir SevenMiles ehf. hafi verið minni en skuldir félagsins.

2.               Fyrirséð hafi verið að SevenMiles ehf. gæti ekki greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga.

Í umfjöllun um ógjaldfærni verði að hafa í huga, að það sé ekki skilyrði að kröfur hafi fallið í gjalddaga eða að vanskil hafi þegar orðið á kröfum á hendur SevenMiles ehf. Félagið geti hafa verið ógreiðslufært í árslok 2007 jafnvel þó félagið hefði þá enn verið í fullum skilum við kröfuhafa. Nægjanlegt sé að það hafi verið orðið fyrirsjáanlegt að SevenMiles ehf. myndi ekki geta staðið í skilum við alla kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga. 

Stefnda, sem riftunarþoli, beri sönnunarbyrðina fyrir því að SevenMiles ehf. hafi verið gjaldfært þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað. Almennt sé talið að mat skuldarans sjálfs á eigin eignum verði ekki lagt til grundvallar þegar eignarstaða hans sé könnuð. Stefndu dugi þannig ekki að vísa t.d. til ársreikninga SevenMiles ehf. til að sýna fram á að eignir félagsins hafi verið nægjanlegar og umfram skuldir.

Ársreikningur sé til dæmis ekki hlutlaus greining á stöðu félagsins enda sé ársreikningur saminn af stjórn og framkvæmdastjóra félagsins, sbr. 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Sönnunargildi ársreiknings verði því að meta í samræmi við meginreglur réttarfars um skjöl sem annar aðilinn útbúi og með hliðsjón af þeim hagsmunum sem stjórnarmenn og framkvæmdastjóri hafi haft af efni ársreikningsins.

Stefnda hafi átt verulegan hlut í SevenMiles ehf. og verið í stjórn félagsins og teljist því nákomin því í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslan 30. júní 2009 sé innan sex mánaða frá frestdegi og því séu ógjaldfærni og tengsl stefndu við félagið ekki skilyrði fyrir riftun þeirrar greiðslu, skv. 1. mgr. 131. gr. og 1. mgr. 134. gr. gþl.

Krafa um greiðslu úr hendi stefndu.

Þrátt fyrir að stefnandi hafi rift greiðslum sem alls nemi 675.671.420 krónum þá marki tjón búsins hámark þeirrar fjárkröfu sem unnt sé að gera í málinu, sbr. 142. gr. gþl.

Fyrstu þrjár greiðslurnar, sem stefnandi krefjist riftunar á, hafi falist í því að skuld stefndu við SevenMiles ehf. hafi lækkað við það að peningar hafi verið greiddir inn á bankareikninga hennar. Þessir reikningar hafi svo verið yfirteknir af stefndu við arðgreiðslur 31. desember 2008, 4. janúar 2009 og 30. júní 2009. Stefnandi telji að tjónið verði að miðast við arðgreiðslurnar til stefndu. Arðgreiðslurnar séu alls 400.000.000 króna. Þess sé krafist að stefnda greiði stefnanda 400.000.000 króna með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 7. október 2011 til greiðsludags.

Fjárkrafa stefnanda byggi í fyrsta lagi á 142. gr. gþl., í öðru lagi sé byggt á 77. gr. laga nr. 138/1994, og í þriðja lagi sé krafan reist á almennum skaðabótareglum, einkum sakarreglu og 108. gr. laga nr. 138/1994.

Krafa um greiðslu skv. 142. gr. gþl.

Í 1. mgr. 142. gr. gþl. segi að í kjölfar riftunar með stoð í 131.–138. gr. skuli sá sem hag hafi haft af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamannsins hefði orðið riftunarþolanum að notum. Þó skuli ekki greiða hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabúsins. Af þessu leiði að verði fallist á riftun ráðstöfunar skv. 131., 134. eða 136. gr. gþl., eins og stefnandi krefst, eigi stefnandi rétt á að krefja stefndu um endurgreiðslu.

Í 3. mgr. 142. gr. gþl. segi að þegar riftun fari fram skv. 141. gr. skuli sá sem haft hafi hag af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum. Auðgun stefndu hafi falist annars vegar í því að skuld hennar við félagið hafi lækkað en hins vegar í því að stefnda hafi fengið peninga frá félaginu. Um leið felist tjón stefnanda annars vegar í lækkun á kröfum búsins á hendur stefndu og hins vegar í greiðslum peninga til hennar.

Krafa um endurgreiðslu ólögmætra arðgreiðslna.

Í 77. gr. ehfl. segi að þegar greiðsla til hluthafa hafi farið fram andstætt ákvæðum laganna þá skuli hluthafinn endurgreiða það sem hann hafi tekið við. Stefnda hafi tekið við arðgreiðslum sem greiddar hafi verið henni í andstöðu við ákvæði ehfl. og stefndu beri því að endurgreiða arðinn.

Krafa um greiðslu skaðabóta.

Stefnandi byggi jafnframt sjálfstætt á því að stefndu beri að greiða skaðabætur. Krafan sé reist á almennum reglum skaðabótaréttar (einkum sakarreglunni) ásamt 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Við gjaldþrotaskiptin hafi stefnandi eignast skaðabótakröfur SevenMiles ehf. á hendur stjórnarmönnum félagsins, sbr. XII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Stefnandi byggi á því að stefnda hafi, sem stjórnarformaður og aðaleigandi, vitað eða mátt vita um þá gerninga sem mál þetta lúti að. Bæði sé átt við arðgreiðslur SevenMiles ehf. til stefndu og einnig lækkun krafna á hendur henni.

Ætla verði að stefnda hafi tekið ákvörðun um greiðslurnar til hennar. Þá hafi hún sömuleiðis tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að aflétta skuldum sínum. Þessar ráðstafanir hafi verið ólögmætar og hafi valdið SevenMiles ehf. tjóni. Stefnda hafi brotið gegn starfsskyldum sínum og trúnaði gagnvart félaginu. Í ljósi stöðu, þekkingar og ábyrgðar stjórnenda í félögum skuli beitt ströngu sakarmati þegar háttsemi stefndu er metin.

Þá sé ljóst að stefnda hafi verið svo nátengd félaginu og öðrum stjórnendum þess að hún hafi vitað eða mátt vita að reglulegar lántökur úr sjóðum félagsins hafi verið ólögmætar. Þá leiði það einnig af eðli máls að stefnda hafi vitað eða mátt vita að hún ætti ekki rétt á skuldskeytingum eða niðurfellingu skulda með greiðslum inn á eigin reikning. Að lokum hafi stefnda mátt vita að skilyrði til arðsúthlutunar hafi ekki verið fyrir hendi þegar ákvarðanir um greiðslu arðs hafi verið teknar og þeim fylgt eftir.

Lítið sé til af gögnum um þær ráðstafanir sem mál þetta fjalli um. Engir samningar séu til um ráðstafanirnar 31. desember 2008. Stefnda beri sönnunarbyrðina fyrir því að þær ráðstafanir hafi verið lögmætar og gerðar á viðskiptalegum forsendum.

Stefnandi telji ljóst að stefnda hafi brotið gegn skyldum sínum sem stjórnandi og hluthafi SevenMiles ehf. Einkum hafi stefnda brotið skyldur sínar sem fram komi í lögum um einkahlutafélög, einkum í IX., X og XI. kafla laganna, en stefnda hafi einnig brotið gegn óskráðum reglum félagaréttar og skaðabótaréttar.

Stefnandi bendi m.a. á að samkvæmt 48. gr. ehfl. megi stjórnarmaður ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og hans og heldur ekki um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns hafi hann þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunni að fara í bága við hagsmuni félagsins.

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. ehfl. megi stjórn félags og þeir sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd einkahlutafélags ekki gera nokkrar þær ráðstafanir sem fallnar séu til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.

Samkvæmt 2. mgr. 51. gr. laganna megi félagsstjórn og framkvæmdastjóri ekki framfylgja ákvörðunum hluthafafundar eða annarra stjórnaraðila félagsins séu ákvarðanirnar ógildar vegna þess að þær brjóti í bága við lög eða félagssamþykktir.

Skilyrði fyrir skaðabótaábyrgð stefndu, sem lúti að huglægri afstöðu hennar, séu uppfyllt, en telja verði háttsemi stefndu í það minnsta fela í sér gáleysi, ef ekki ásetning. Stefnda hafi sýnt af sér saknæma háttsemi og einnig ólögmæta enda hafi hún valdið félaginu tjóni með ólöglegri og skaðlegri háttsemi. Stefnandi telji að stefnda beri skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem þrotabúinu, öðrum hluthöfum og kröfuhöfum þess hafi verið bakað með framangreindum ráðstöfunum. Orsakatengsl séu milli tjóns SevenMiles ehf. og ólögmætra athafna stefndu. Tjón félagsins sé einnig sennileg afleiðing háttseminnar. Stefnda beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem SevenMiles ehf. hafi verið valdið með framangreindum gerningum. 

Að áskorun lögmanns stefndu lagði lögmaður stefnanda fram upplýsingar frá skiptastjóra stefnanda um stöðu búsins í þinghaldi þann 15. maí 2014. Þar kom fram að ein krafa stæði eftir í þrotabúið, krafa SPB hf., að höfuðstól 81.643.963 krónur, en að frádregnum 58.243.000 krónum, sem greiddar höfðu verið inn á kröfuna af eignum búsins. Lagði lögmaður stefnanda sama dag fram bókun til að upplýsa um afstöðu sína til þess að útlit væri fyrir að fjárkrafa stefnanda næmi hærri fjárhæð en samtala eftirstöðva lýstra krafna og skiptakostnaðar og árétta kröfur sínar. 

Stefnandi byggi á því að þrátt fyrir að niðurstaða í dómsmáli þessu geti leitt til þess að eignir standi eftir að loknum skiptum stefnanda sé ekki tilefni til að falla frá þeim hluta krafna hans. Eigi það við jafnvel þó að komist yrði að þeirri niðurstöðu að endurgreiðslukrafa stefnanda samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. takmarkist við þá fjárhæð, enda byggi stefnandi málatilbúnað sinn jafnframt á því að stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu samkvæmt lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög og að stefnda beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt almennu sakarreglunni og lögum um einkahlutafélög.

Lagarök.

Vísað sé til meginreglna samninga-, skaðabóta- og kröfu­réttar og laga nr. 7/1936, um ógilda löggerninga og málamyndagerninga.

Dráttarvaxta sé krafist af dómkröfum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá og með mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Kröfusamlag eigi stoð í 27. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála og um varnarþing vísist til 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefnda byggi sýknukröfu sína á því að skilyrði riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir nefnd „gþl.“) séu ekki fyrir hendi. Stefnda hafni einnig allri hugsanlegri skaðabótaábyrgð. Með vísan til þessa telji stefnda ekki vera grundvöll fyrir fjárkröfu stefnanda að fjárhæð 400.000.000 króna og því síður fyrir dráttarvaxtakröfu.

1.         Riftun samkvæmt XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Riftunarkröfu sína byggi stefnandi á XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti (gþl.) og því að arðgreiðslur til stefndu hafi verið riftanlegir gerningar eða ráðstafanir. Stefnandi tiltaki í stefnu sinni sex færslur sem krafist sé riftunar á og hverri og einni gerð skil. Sami háttur verði hafður hér á. Í stefnu reki stefnandi það sem hann telji ólögmætar lánveitingar SevenMiles ehf. til stefndu. Vegna þessa sé rétt að því sé haldið til haga að stefnda hafi þegar endurgreitt allar skuldir sínar við félagið eins og raunar rakið sé í stefnunni og virðist þannig óumdeilt.

Þeir fjármunir sem runnið hafi til stefndu hafi að fullu verið endurgreiddir eins og rakið sé í greinargerð þessari og því sé ljóst að félagið hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna umræddra færslna eða lánveitinga. Endurgreiðsla hafi farið fram annars vegar með greiðslu reiðufjár inn á bankareikning sem skráður hafi verið á nafn stefndu en verið óumdeilanlega eign félagsins og bókuð sem slík í bókum félagsins, og hins vegar með því að arðgreiðslum sem með réttmætum hætti hafi verið greiddar stefndu sem hluthafa í félaginu hafi verið ráðstafað til lækkunar á viðskiptakröfu félagsins gagnvart stefndu. Fullyrðingum stefnanda í stefnu um annað sé hafnað sem röngum og ósönnuðum.

Þær greiðslur sem kröfur um riftun snúi að hafi átt sér stað meira en 6 mánuðum fyrir frestdag, að síðustu arðgreiðslunni undanskilinni. Þegar svo hátti til sé það skilyrði fyrir riftun samkvæmt ákvæðum 131. gr. og 141. gr. gþl. að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða hafi orðið ógjaldfær við ráðstöfunina. Stefnda hafni því að SevenMiles ehf. hafi verið ógjaldfært eða orðið það þegar umræddar ráðstafanir hafi verið gerðar og arðgreiðslurnar inntar af hendi. Til stuðnings þessu sé fyrst að nefna stöðu félagsins samkvæmt ársreikningum sem sé afar sterk allt það tímabil sem umræddar greiðslur hafi átt sér stað.

Skýrt komi fram í tilkynningu Sparisjóðsbanka Íslands hf. til SevenMiles ehf. frá 10. september 2009 um gjaldfellingar lánssamninga milli félagsins og bankans, að á þeim tíma hafi skuldir félagsins við bankann numið innan við 200 milljónum króna, en bankinn hafi verið langstærsti kröfuhafi félagsins.

Á þeim tíma er arðgreiðslur hafi verið ákveðnar og inntar af hendi, og allt fram í október 2009, hafi á meðal eigna félagsins m.a. verið 38% hlutur í félögunum Spori ehf. og Sporbaugi ehf. hvoru um sig. Þann 7. október 2009 hafi bankinn gengið að handveði í eignarhlutum SevenMiles ehf. í Spori og Sporbaugi, en virði þeirra samkvæmt tilkynningu bankans hafi numið rúmum 420 milljónum króna svo sem rakið sé í niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 498/2013. SPB hafi talið, eftir að framangreind tilkynning hafi verið send og hlutaféð yfirtekið, að bankanum væri óskylt að færa fjárhæðina til lækkunar á kröfum sínum. Þessu hafi Hæstiréttur hafnað í framangreindum dómi og talið bankanum skylt að færa verðmæti hlutanna samkvæmt tilkynningunni til lækkunar á kröfum bankans svo sem hluthafar SevenMiles ehf., þ.e. stefnda og meðeigandi hennar Tómas Ottó Hansson, hafi farið fram á í dómsmálinu. Eignarhlutirnir séu í ársreikningi félagsins bókfærðir sem eign við árslok 2008 að fjárhæð 261.958.672 krónur. Ljóst sé því að á þeim tíma sem lán hafi verið gjaldfelld hafi eignastaða félagsins verið langt umfram skuldir. Megi því vera fullljóst að fyrr um sumarið, þegar ákvörðun um síðustu arðgreiðsluna hafi verið tekin, hafi efnahagsreikningur félagsins verið jákvæður og félagið þá átt verulegar eignir umfram skuldir. Hafi félagið því verið gjaldfært á þeim tíma sem um ræðir þrátt fyrir að arður hafi verið greiddur út úr félaginu og sé því ljóst að skilyrði riftunar skv. ákvæðum 131. gr. og 141. gr. um ógjaldfærni við eða eftir ráðstöfun séu ekki uppfyllt.

Framangreind málsástæða stefndu fái enn frekar stoð í þeirri staðreynd að nánast allar almennar kröfur í búið hafi annað hvort fengist greiddar eða verið afturkallaðar þegar greinargerð stefndu sé rituð í nóvember 2013 og það þrátt fyrir að félagið hafi greitt rúmar 300 milljónir króna inn á skuldir Spors ehf. og Sporbaugs ehf., vegna skuldbindinga utan efnahags, í september 2009 við yfirtöku SPB á hlutum í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. Það sé þannig fulljóst að félagið hafi átt eignir langt umfram skuldir eftir að allar arðgreiðslur hefðu verið inntar af hendi.

Því sé alfarið hafnað að greiðslurnar hafi farið fram með óvenjulegum greiðslueyri. Greiðslurnar hafi farið fram með reiðufé með beinum millifærslum eða yfirtöku bankainnstæðna sem ekki geti með nokkrum hætti talist til óvenjulegs greiðslueyris.

(i)        Bókhaldsfærslur „Úttekið Pétur“.

Hvað varði lækkun á skuld stefndu við félagið 31. desember 2008 þá sé því hafnað af hálfu stefndu að umræddar ráðstafanir feli í sér gjafagerning sem sé riftanlegur á grundvelli 2. mgr. 131. gr. gþl.

Umrædd skuld stefndu hafi ekki horfið úr bókhaldinu, heldur hafi orðið skuldaraskipti að kröfunni og krafan þar að auki verið greidd upp samdægurs. Hér hafi því ekki verið um nokkurs konar örlætisgjörning að ræða. Viðskiptalegur tilgangur hafi búið að baki aðgerðinni, þ.e. að tryggja greiðslu kröfunnar, líkt og gert hafi verið. Pétur Þór hafi greitt megnið af skuldinni, eða rúmar 179 milljónir þann dag og hafi því lækkað viðskiptareikning sinn sem því hafi numið. Það sem eftir hafi staðið, eða rúmar 9 milljónir, hafi svo aftur verið fært yfir á viðskiptareikning stefndu til leiðréttingar þar sem fært hafi verið meira yfir á Pétur Þór en greiðslu hans hafi numið.

Ekki sé um það deilt að fyrrnefnd greiðsla hafi farið á bankareikning í nafni stefndu, hins vegar hafi ekki verið rétt farið með markmið þeirrar aðgerðar í stefnu og sé málflutningi stefnanda hvað þetta varði alfarið hafnað. Fjármunirnir hafi runnið til félagsins með færslu inn á bankareikning þess og verið taldir til eigna félagsins samkvæmt bókum þess. Raunveruleg greiðsla hafi átt sér stað sem sjáist m.a. á því að síðar hafi þessir fjármunir verið nýttir af félaginu til greiðslu skuldbindinga þess, þ.e. til greiðslu arðs til eigenda. Ástæða þess að bankareikningar í nafni stefnda hafi verið nýttir í þessum tilvikum séu einnig ljósar. Alþekkt sé það ástand og óvissa sem verið hafi allsráðandi á fjármagnsmarkaði á þeim tíma sem þessi viðskipti hafi átt sér stað. Hvert fjármálafyrirtækið af öðru hafi verið yfirtekið af stjórnvöldum og ekki hafi að mati fyrirsvarsmanna SevenMiles ehf. verið ljóst hvernig færi með tryggingar á innstæðum lögaðila. Margir lögaðilar hafi því gripið til þess ráðs að nýta bankareikninga hluthafa til að varsla fjármuni lögaðila tímabundið og dreifa áhættu vegna þessarar óvissu. Ráðstöfun þessi hafi ekki verið til þess fallin að rýra eignir félagsins SevenMiles ehf.

Í fundargerð hluthafafundar í SevenMiles ehf. þann 30. júní 2009 komi skýrt fram að litið hafi verið á þá reikninga sem greitt hafi verið inn á vegna endurgreiðslu lána stefndu hjá félaginu sem eign félagsins. Innstæður þessara reikninga hafi á allan hátt verið bókaðir sem eign félagsins og sýni hluthafafundargerðin skýrt að litið hafi verið á inneignina sem eign félagsins. Ástæður þess að notast hafi verið við reikninga í nafni stefndu en ekki stefnanda hafi verið það ástand og óvissa sem ríkt hafi í samfélaginu á þessum tíma, eða eins og segi í fyrrnefndri fundargerð dags. 30. júní 2009: „Innistæðurnar voru fluttar á reikninga í BYR á hennar nafni á árinu 2008. Þetta var gert vegna óvissu á fjármálamörkuðum á þeim tíma.“

Af framansögðu megi vera ljóst að skilyrði 131. gr. gþl. séu ekki uppfyllt, sbr. neðangreind skilyrði ákvæðisins og eftirfarandi heimfærslu við þau atvik og aðstæður sem hér um ræði:

a.                       Gjöfin teljist rýra eignir gefandans. Krafan hafi sannanlega verið greidd og enginn hluti hennar gefinn eftir.

b.                       Gjöfin hafi leitt til auðgunar móttakanda. Stefnda hafi ekki haft ávinning af færslu fjármunanna enda greidd af eiginmanni stefndu sem af þeim sökum hafi átt sambærilega kröfu á hendur henni.

c.                       Gjafatilgangur hafi verið fyrir hendi. Ekki hafi verið um gjöf að ræða enda engum verðmætum ráðstafað til stefndu og krafan verið greidd að fullu til félagsins.

d.                       Ógjaldfærni. Eignir félagsins hafi verið langt umfram skuldir og skilyrði um ógjaldfærni því ekki verið uppfyllt.

Stefnandi byggi kröfur sínar um riftun einnig á ákvæðum 141. gr. gþl. Í því ákvæði sé gerð krafa um að um ógjaldfærni sé að ræða og að ráðstöfun hafi með ótilhlýðilegum hætti verið til hagsbóta fyrir kröfuhafa á kostnað annarra, að ráðstöfunin leiði til þess að eignir verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhafa eða að hún leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Skilyrði riftunar á grundvelli þessa ákvæðis séu ekki til staðar, sbr. neðangreind skilyrði ákvæðisins og heimfærslu við þau atvik og aðstæður sem hér um ræðir.

a.                       Ráðstöfunin ótilhlýðileg. Krafa hafi ekki með neinum hætti verið felld niður, þvert á móti hafi hún verið greidd og verið til ráðstöfunar félaginu sem síðar hafi nýtt þá fjármuni sem fengist hafi á þennan hátt til greiðslu eigin skuldbindinga.

b.                       Eignir ekki til fullnustu kröfuhafa. Greiðsla kröfu félags geti ekki talist með neinum hætti rýra stöðu annarra kröfuhafa, þvert á móti styrki hún hana sem sjáist meðal annars af því að nánast allar almennar kröfur í bú félagsins hafi verið greiddar eða afturkallaðar.

c.                       Ógjaldfærni. Eignir félagsins hafi verið langt umfram skuldir og skilyrði um ógjaldfærni því ekki uppfyllt.

(ii)      Bókhaldsfærsla „Bankareikn. Seven M. Iceb. 26-68789“.

Þann 31. desember 2008 hafi greiðsla verið framkvæmd af hálfu stefndu vegna viðskiptareiknings hennar hjá félaginu. Þannig hafi stefnda greitt 95.969.020 krónur inn á reikning á sínu nafni, en sem í raun hafi verið í eigu félagsins og sem staðið hafi félaginu til ráðstöfunar og verið talinn meðal eigna þess í bókum félagsins. Um það að nýttur hafi verið bankareikningur í eigu stefndu en ekki félagsins vegna greiðslu skuldar samkvæmt viðskiptareikningi vísist til þess sem áður sé rakið um þessi efni.

Greiðslan hafi verið framkvæmd af öðrum reikningi í eigu stefndu inn á tilgreindan reikning. Hafi þetta verið gert til að halda aðgreindum eigin fjármunum stefndu og þeim fjármunum sem verið hafi í eigu félagsins á reikningum í nafni stefndu.

Við greiðsluna hafi viðskiptareikningur stefndu lækkað um sömu fjárhæð og greidd hafi verið. Um raunverulega greiðslu hafi verið að ræða enda hafi átt sér stað færsla fjármuna með beinum hætti. Hafi því ekki verið um það að ræða að krafa hafi verið felld niður og skilyrði 131. gr. gþl. um gjöf því ekki uppfyllt. Með sama hætti hafi ekki verið um ótilhlýðilega ráðstöfun að ræða, enda krafa félagsins greidd með fjármunum félaginu til ráðstöfunar. Um leið hafi greiðsla stefndu til félagsins ekki rýrt með neinum hætti rétt annarra kröfuhafa, enda hafi handbært fé félagsins aukist við ráðstöfunina.

Um þessa ráðstöfun og skuldskeytingu, og eftirfarandi greiðslu vegna stöðu á viðskipareikningi sem fjallað sé um hér að framan, sé enn fremur bent á að tjón félagsins af þessum ráðstöfunum sé ekkert. Á sama hátt hafi ávinningur stefndu verið enginn. Það sé viðurkennt í stefnu og engin fjárkrafa gerð vegna þessa þó stefnandi krefjist riftunar ráðstafananna.

(iii)    Arðgreiðslur almennt

Stefnandi haldi því fram að arðgreiðslur félagsins til hluthafa á árunum 2008 og 2009 séu ólögmætar og riftanlegar. Stefnda hafni öllum fullyrðingum um að þessar arðgreiðslur hafi verið andstæðar ákvæðum laga um einkahlutafélög eða teljist riftanlegar í skilningi laga um gjaldþrotaskipti.

Því sé sérstaklega hafnað að stefndu beri að greiða einhvers konar skaðabætur í þessu sambandi enda hafi hvorki verið sýnt fram á saknæma háttsemi né tjón.

Því sé alfarið hafnað sem röngu og ósönnuðu að stefndi hafi á einhvern hátt brotið gegn skyldum sínum skv. lögum um einkahlutafélög.

(iv)      Sérstaklega um úthlutaðan arð 2008.

Þann 31. desember 2008 hafi hluthöfum verið greiddur arður að fjárhæð 100.000.000 króna, en að teknu tilliti til afdregins 10% fjármagnstekjuskatts, hafi færslan verið bókuð sem 90.000.000 króna greiðsla á viðskiptareikning stefndu. Í ljósi samkomulags hluthafa hafi arðgreiðslan að öllu leyti verið greidd  stefndu sem eina hluthafa félagsins í B-flokki. Arðgreiðslan hafi verið samþykkt á aðalfundi félagsins þann 24. september 2008.

Arðurinn hafi verið greiddur með þeim hætti að arðurinn hafi verið færður inn á viðskiptareikning stefndu sem hafi þá eignast kröfu á hendur félaginu að fjárhæð 14.126.456 krónur. Ekki hafi verið um óvenjulega ráðstöfun að ræða, arðurinn hafi verið nýttur til að greiða upp viðskiptareikning stefndu, sem falið hafi í sér skuld við félagið, en hafi eftir greiðsluna falið í sér skuld félagsins við stefndu. Þessi tilhögun sé alþekkt og viðurkennd.

Í stefnu sé því haldið fram að umrædd arðgreiðsla sé riftanleg á tveimur forsendum, annars vegar á þeim forsendum að skuldajöfnun hafi verið óheimil og því riftanleg á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti. Hins vegar á þeim forsendum að arðgreiðslur hafi ekki verið í samræmi við reglur laga um einkahlutafélög um arðgreiðslur. Þessu sé hvoru tveggja hafnað af hálfu stefndu sem röngu og ósönnuðu.

Arðgreiðslan hafi verið framkvæmd á grundvelli nýjasta ársreiknings, þ.e. vegna ársins 2007, eins og ákvæði 74. gr. ehfl. geri ráð fyrir. Í þeim ársreikningi komi fram að óráðstafað eigið fé félagsins hafi verið rúmar 320 milljónir króna við árslok 2007. Eins og fram komi í fundargerð SevenMiles ehf. frá því í apríl 2008 hafi verið samþykkt tillaga um greiðslu arðs allt að fjárhæð 310 milljónir króna byggð á þeim ársreikningi. Ekki hafi því verið farið út fyrir lögheimildir félagsins til arðgreiðslna með þeirri tillögu við greiðslu arðs að fjárhæð 100 milljónir króna undir lok árs 2008, sem samþykkt hafði verið af aðalfundi þann 24. september 2008.

Sérstaklega sé hafnað yfirlýsingum og óljósum aðdróttunum í stefnu um það að fjárhagsstaða félagsins hafi ekki réttlætt arðgreiðsluna á grundvelli einhvers sem stefnandi telji vera „almennt viðurkennt“ án frekari rökstuðnings. Skilyrði fyrir arðgreiðslum séu tæmandi talin í lögum og stefnda telji öll þau skilyrði uppfyllt varðandi arðgreiðslur þær sem krafist sé riftunar á í máli þessu.

Því sé hafnað að skuldajöfnun viðskiptakrafna og arðgreiðslna sé riftanleg á grundvelli 136. og 134. gr. gþl., enda hafi öll skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, verið uppfyllt. Krafan hafi ekki verið fengin til skuldajöfnunar og stefnda hafi verið í góðri trú um það að félagið væri greiðslufært og gæti greitt arðinn eins og aðrar skuldir sínar.

(v)       Arðgreiðslur 4. janúar 2009 og 30. júní 2009.

Arðgreiðslur hafi verið ákveðnar í tvígang árið 2009. Fyrri arðgreiðslan hafi verið ákveðin á hluthafafundi og greidd þann 4. janúar 2009. Sú arðgreiðsla hafi verið að fjárhæð 200.000.000 króna og rúmist innan þess sem heimilt hafi verið að úthluta af arði á grundvelli ársreiknings fyrir árið 2007. Síðari arðgreiðslan hafi verið ákveðin og greidd þann 30. júní 2009 og verið að fjárhæð 100.000.000 króna. Sú arðgreiðsla hafi verið ákveðin á grundvelli nýsamþykkts ársreiknings vegna rekstrar ársins 2008. Samkvæmt þeim ársreikningi hafi óráðstafað eigið fé félagsins í árslok 2008 verið alls að fjárhæð 314 milljónir króna. Að teknu tilliti til arðgreiðslunnar þann 4. janúar 2009 hafi staðið eftir af þessu óráðstafaða eigin fé rúmlega 114 milljónir króna og 100 milljóna króna arðgreiðsla því verið vel innan lögbundinna marka.

Því sé einnig hafnað að arðgreiðslur hafi verið ólögmætar á þeim forsendum að samþykki stjórnar fyrir arðgreiðslum allt að 310 milljónum króna hafi byggt á ósamþykktum ársreikningi. Ársreikningur félagsins hafi legið fyrir á umræddum fundi enda sé hann dagsettur og undirritaður af stjórn og endurskoðanda félagsins þann 30. júní 2009. Það að ársreikningum hafi ekki verið skilað til ársreikningaskrár fyrr en í september breyti engu um þetta enda sé engin krafa gerð til þess að ársreikningi sé skilað til ársreikningaskrár áður en eða samhliða því sem hann sé samþykktur af stjórn og hluthöfum og alþekkt að honum sé skilað til ársreikningaskrár síðar.

2.         Krafa um greiðslu skaðabóta

Stefnandi geri kröfu um greiðslu skaðabóta á grundvelli almennra regla skaðabótaréttar og 108. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Í stefnunni sé rakið það mat stefnanda að stefndi hafi samkvæmt „eðli máls“ mátt gera sér grein fyrir því að aðgerðir sínar væru andstæðar lögum og til þess fallnar að baka félaginu, öðrum hluthöfum og kröfuhöfum þess tjóni. Þessu sé harðlega andmælt sem röngu og ósönnuðu. Rétt sé að benda á að aðrir hluthafar hafi enga kröfu gert í þessu sambandi eða yfirhöfuð gefið í skyn að þeir telji athafnirnar athugaverðar á neinn hátt. Þá sé enn ítrekað að tjón kröfuhafa af þessum aðgerðum hafi ekkert verið enda félagið enn með jákætt eigið fé eftir að síðustu arðgreiðslur hafi verið greiddar út. Tjón kröfuhafa af gjaldþroti félagsins, algjörlega óháð framangreindum greiðslum, sé enn fremur hverfandi.

Samkvæmt þessu hafi stefnandi ekki sýnt fram á neina saknæma háttsemi stefndu og ekki heldur að tjón hafi orðið. Kröfum og málsástæðum stefnanda í þessu sambandi sé mótmælt í heild sem röngum og ósönnuðum.

3.         Varakrafa um lækkun krafna stefnanda

Varakröfu sína um lækkun krafna stefnanda byggir stefnda á því að tjón stefnanda og kröfuhafa, sem nú standi að baki þrotabúinu, geti ekki í neinum skilningi talist nema hærri fjárhæð en 21.643.963 krónum, sem sé um það bil sú fjárhæð af almennum lýstum kröfum í búið sem ekki hafi fengist greiddar af eignum þess eða fallið hafi verið frá af hálfu kröfuhafa. Það lýsi vel því óhófi sem einkenni allan málflutning stefnanda að stefna einstaklingi í riftunarmáli til greiðslu fjárhæðar sem nemi um það bil tuttugufaldri þeirri fjárhæð sem hæst geti komið til greiðslu úr þrotabúinu á grundvelli almennra lýstra krafna. Stefnda sé einstæð móðir sem reki heimili fyrir sig og börn sín. Hún sé ekki tekjuhá og geti ekki talist stóreignamanneskja í neinum skilningi og það yrði henni afar þungbært að þurfa að greiða 20 milljónir króna til stefnanda en ómögulegt með öllu að greiða alla stefnufjárhæðina.

Jafnvel þó litið yrði til eftirstæðra krafna í búið breyti það engu um tilgangsleysi þess að rifta arðgreiðslum félagsins til stefndu. Ákvarðanir um arðgreiðslurnar hafi verið teknar með lögmætum hætti og á grundvelli 143. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sé stefndu heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni í búið. Krafa um útgreiðslu arðs sem ákveðinn sé með lögmætum hætti skapi hluthafanum lögvarða kröfu um greiðslu arðsfjárhæðarinnar. Sú krafa nyti stöðu í réttindaröð sem almenn krafa og kæmi því ávallt til greiðslu á undan eftirstæðum kröfum. Þannig muni nánast öll endurgreiðslufjárhæðin renna beint aftur til stefndu þar sem aðrar almennar kröfur í þrotabúið séu hvort eð er þegar greiddar.

Meira að segja í því tilviki sem dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu, andstætt væntingum stefndu, að arðgreiðslurnar teldust andstæðar lögum og fælu því í sér gjöf til stefndu, kæmi stefnda að eftirstæðri kröfu um greiðslu gjafarinnar og með hliðsjón af fjárhæð stefnukröfunnar yrðu eftirstæðar kröfur annarra kröfuhafa hverfandi hluti úthlutunar úr þrotabúinu. Það er m.ö.o. ekki að sjá að þrotabúið eða kröfuhafar þess hafi lögvarða hagsmuni af því að fjárhæð hugsanlegrar endurgreiðslu verði hærri en sem nemur eftirstöðvum almennra krafna í þrotabúið.

Kröfur sínar byggi stefnda einkum á meginreglum samningaréttar og kröfuréttar, sem og meginreglum skaðabótaréttar. Þá byggi stefnda á ákvæðum laga laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Málskostnaðarkrafa stefndu byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi höfðar mál þetta til að fá rift sex tilgreindum ráðstöfunum, fjórum sem hann nefnir gjafir og tveimur sem hann nefnir greiðslur, og krefst endurgreiðslu frá stefndu.

SevenMiles ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 16. nóvember 2009. Í gögnum málsins kemur fram að skiptastjóri lagði fram kröfuskrá 12. nóvember 2010, en mál þetta er höfðað 10. nóvember 2011, í kjölfar yfirlýsingar um riftun 7. september s.á. Í málatilbúnaði stefnanda kemur ekki fram hvers vegna skiptastjóri átti þess ekki kost að gera riftunarkröfurnar fyrr, sbr. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Stefnda hefur ekki hreyft andmælum af þessu tilefni og verður málinu ekki vísað frá dómi án kröfu af þeim sökum að málshöfðunarfrestur hafi verið liðinn, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 469/2008.

Helstu málsástæður stefnanda til að fá rift ráðstöfunum samkvæmt fyrstu þremur töluliðum í stefnu eru þær að greiðslur sem greiddar hafi verið inn á bankareikninga á nafni stefndu hafi ekki runnið til SevenMiles ehf., eins og bókhald félagsins gefi til kynna, heldur til hennar sjálfrar sem eiganda bankareikninganna. Því hafi niðurfærsla skulda hennar við félagið samkvæmt þessum greiðslum verið gjafir til hennar, sem krafist er riftunar á. Ekki eru gerðar kröfur um endurgreiðslur þessara gjafa.

Riftunarkrafa stefnanda samkvæmt fjórða tölulið í stefnu er á því byggð að með því að færa þann 31. desember 2008 arðsúthlutun til hennar að fjárhæð 100 milljónir króna, til lækkunar skulda stefndu við félagið um 90 milljónir króna, hafi stefnda móttekið gjöf frá félaginu að fjárhæð 100 milljónir króna sem krafist er riftunar á og endurgreiðslu fjárins. Arðsúthlutunin, sem stefnandi telur óheimila, var ákveðin á aðalfundi hluthafa 24. september 2008, en hafði ekki verið greidd út.

Helstu málsástæður stefnanda til stuðnings riftunar- og endurgreiðslukröfum samkvæmt fimmta og sjötta tölulið í stefnu eru þær að arðgreiðslurnar hafi verið óheimilar og riftanlegar og að stefndu beri að endurgreiða stefnanda úthlutaðan arð, annars vegar að fjárhæð 200 milljónir króna og hins vegar að fjárhæð 100 milljónir króna. Fyrir liggur að þessar arðgreiðslur skyldu fara þannig fram að samsvarandi innstæður á bankareikningum á nafni stefndu skyldu teljast eign hennar, að frádregnum fjármagnstekjuskatti, eftir hvora arðsúthlutun um sig. Það felst í kröfum stefnanda um riftun á þessum greiðslum og kröfum hans um endurgreiðslur á þeim, að stefnandi telji að innstæðurnar hafi ekki orðið eign stefndu fyrr en við úthlutun arðs, með þeirri yfirtöku á innstæðum sem ákveðin var á hluthafafundi og bókað um í fundargerð, þótt umræddir bankareikningar væru á hennar nafni jafnt á undan og á eftir.

Í stefnu málsins eru í kafla um málavexti ítarlega raktar færslur um úttektir stefndu úr félaginu á árinu 2008, en þar er stefnda ranglega sögð vera stjórnarformaður félagsins. Þessar úttektir stefndu munu hafa myndað þá skuld hennar við félagið, sem endurgreiða skyldi með þeim millifærslum 31. desember 2008, sem krafist er riftunar á í málinu. Í kafla um málsástæður í stefnu er til stuðnings riftunarkröfum á þessum færslum vísað til þess að lánveitingar félagsins á árinu 2008 til stefndu, sem hafi verið í aðstöðu til að misnota félagið, hafi verið ólögmætar og í andstöðu við 79. gr. laga um einkahlutafélög og að þær hafi valdið félaginu tjóni. Lagt er til að það verði haft til hliðsjónar við túlkun þeirra gerninga sem lækkað hafi skuld stefndu við félagið.

Með málsókn þessari sýnist stefnandi í raun vera að leitast við að endurheimta það fé sem fólst í úttektum stefndu úr félaginu á árinu 2008. Þótt þetta markmið þyki mega greina í málatilbúnaði stefnanda koma dómkröfur hans ekki að haldi til að ná því fram. Engar kröfur eru hafðar uppi í málinu vegna úttekta stefndu á árinu 2008.

Málatilbúnaður stefnanda er einkum byggður á upplýsingum úr bókhaldi félagsins og ársreikningum, minnisblaði frá Margréti Lilju Tryggvadóttur, Deloitte, frá 20. júlí 2010, með upplýsingum um færslur og númer og eignarhald á bankareikningum og á upplýsingum frá endurskoðanda félagsins Rögnvaldi Dofra Péturssyni, Ernst&Young ehf., frá 28. apríl 2011, um bókhaldsfærslur og bankareikninga, en engin gögn hafa verið lögð fram frá bankastofnunum um slíkt. Því er ómótmælt af hálfu stefndu að fé félagsins hafi verið geymt á bankareikningum í eigu hennar, eins og m.a. er gerð grein fyrir í fundargerðum hluthafafunda í félaginu sem stefnandi lagði fram í málinu. Á þessu fyrirkomulagi eru gefnar tilteknar skýringar í greinargerð stefndu og hún byggir í málinu á því að félagið hafi átt fjármuni inni á bankareikningum á nafni hennar. Um ráðstöfunarrétt og eignarhald félagsins á þeim innstæðum er byggt á gögnum um bókhald félagsins og ársreikningum þess.

Ekki verður litið fram hjá því ósamræmi í málatilbúnaði stefnanda sem fram kemur í málsástæðum hans fyrir einstökum dómkröfum sem raktar eru hér að framan og studdar eru þeim gögnum sem hann hefur lagt fram í málinu. Dæmi um það er að í fyrrgreindu minnisblaði Deloitte, sem unnið var fyrir stefnanda á grundvelli bókhaldsgagna félagsins, segir að skuld stefndu við félagið hafi 31. desember 2008 lækkað um 95.969.020 krónur þegar sú fjárhæð hafi verið lögð inn á bankareikning Ice. 26-68789. Þessi reikningur, og innstæða, hafi samkvæmt fylgiskjali verið sagður vera eign félagsins, en haft sé eftir starfsmanni bankans að hann hafi verið eign stefndu. Á grundvelli þeirra upplýsinga að stefnda eigi reikninginn telur stefnandi að innborgunin hafi ekki gengið til félagsins og að samsvarandi lækkun á skuld stefndu við félagið sé riftanleg gjöf félagsins til hennar. Þessu næst leggur stefnandi til grundvallar annarri kröfu sinni, um riftun arðgreiðslu og endurgreiðslu arðs, að félagið hafi notað þessa tilteknu bankainnistæðu, 95.969.020 krónur á bankareikningi Ice.26-68789, örfáum dögum síðar, þann 4. janúar 2009, til þess að greiða stefndu hluta af þeim 200 milljóna króna arði sem stefndu var úthlutað á hluthafafundi þann dag. Upplýsingar um þessa ráðstöfun koma fram í stefnu og í gögnum sem stefnandi lagði fram við þingfestingu málsins. Það blasir þó við að hafi innstæðan verið eign stefndu gat félagið ekki notað hana til arðgreiðslu.

Fleiri dæmi eru um slíkan óskýrleika í málatilbúnaði stefnanda og misvísandi lýsingu atvika eftir því hvaða kröfum og málsástæðum stefnandi heldur fram hverju sinni. Þannig eru kröfur stefnanda um riftun ráðstafana sem færðar eru í bókhaldi 31. desember 2008, þar sem skuld stefndu við félagið er yfirtekin af fyrrum maka stefndu, Pétri Þór Halldórssyni, m.a. studdar þeirri málsástæðu að Pétur Þór hafi ekki greitt félaginu þær skuldir sínar við félagið, sem til urðu við skuldskeytinguna og hún hafi því orðið félaginu til tjóns. Í stefnu segir að krafa að fjárhæð 179.215.486 krónur hafi endanlega horfið úr bókhaldi félagsins án þess að félagið fengi greiðslu eða annað endurgjald, eftir að Pétur Þór hafði yfirtekið þann hluta skuldar stefndu við félagið og greitt þá fjárhæð inn á bankareikning stefndu nr. SPK 26-628 en ekki til félagsins. Samkvæmt fyrrgreindu minnisblaði Deloitte, sem unnið var fyrir lögmann stefnanda og hann lagði fram í málinu, er þess sérstaklega getið að meðal handbærs fjár félagsins í árslok 2008 sé reikningur nr. SPK 26-628 að fjárhæð 181.127.355 krónur. Staðan á reikningnum hafi myndast þegar greiddur hafi verið stærsti hluti af viðskiptareikningi Péturs við félagið þannig að skuld hans við félagið hafi lækkað um 179.215.486 krónur. Þessi skuld Péturs Þórs hafi orðið til við skuldskeytingu, þegar hann hafi tekið yfir skuldir stefndu við félagið, annars vegar að fjárhæð 140.000.000 króna og hins vegar að fjárhæð 49.702.400 krónur þann 31. desember 2008. Hér er því sú skuld talin greidd, sem stefnandi lýsir í stefnu sem horfinni kröfu og innstæðan er hér talin eign félagsins um áramót. Samkvæmt því sem greinir í stefnu er svo innstæða á þessum reikningi notuð til greiðslu arðs til stefndu 4. janúar 2009, sem í málinu er krafist riftunar á og endurgreiðslu til stefnanda.

Samhengi málsástæðna og atvika í stefnu er samkvæmt framansögðu alls ekki svo ljóst sem áskilið er í e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og tengsl þeirra við kröfugerð í málinu eru svo óskýr og ruglingsleg að torvelt er að greina sakarefnið þannig að ekki fari milli mála.

Í stefnu er sem fyrr segir ýmist byggt á því að stefnda hafi sjálf átt innstæður á bankareikningum í hennar nafni, og af þeim sökum geti skuld hennar við félagið ekki lækkað með greiðslum inn á þá reikninga, eða á því að félagið hafi átt sömu innstæður á þessum bankareikningum og hafi notað þá fjármuni til að greiða stefndu arð, sem krafist er riftunar á og endurgreiðslu arðsins.

Þessar andstæðu málsástæður stefnanda fyrir dómkröfum, sem allar eru settar fram sem aðalkröfur í málinu, eru ósamrýmanlegar. Úr kröfum um riftun á greiðslum og endurgreiðslu fjármuna verður að mati dómsins ekki leyst nema skýrt sé hver sé talinn eigandi fjármuna, og þar með greiðandi, og hverjum sé greitt.

Skýrðist grundvöllur krafna stefnanda að þessu leyti ekki við meðferð málsins fyrir dóminum og lagði lögmaður stefnanda þó fram sérstaka bókun til áréttingar á kröfugerð sinni í síðasta þinghaldi fyrir aðalmeðferð málsins, að fram komnum nýjum upplýsingum um stöðu þrotabúsins. Þar kom fram að stefnandi teldi ekki tilefni til að lækka fjárkröfur sínar. Þótt m.a. sé byggt á því að stefnda beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda hefur stefnandi hvorki með matsgerð eða öðrum hætti leitast við að færa sönnur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni umfram neikvæða fjárhagsstöðu þrotabúsins. Áður en úrskurður þessi var kveðinn upp gafst lögmönnum aðila færi á að lýsa viðhorfum sínum til hugsanlegrar frávísunar málsins án kröfu.

Að þeim viðhorfum virtum þykir þó, í ljósi alls framangreinds, þess sem dómurinn telur annmarka á málatilbúnaði stefnanda, þ.e. að grundvöllur hluta krafna stefnanda í málinu er ósamrýmanlegur grundvelli annarra krafna hans, og einnig vegna skorts á skýrleika í málatilbúnaði stefnanda, ekki unnt að leggja dóm á kröfur hans í því horfi sem málið er lagt fyrir dóminn. Verður því að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Með vísun til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem ákveðinn er 950.000 krónur, auk virðisaukaskatts.

Úrskurð þennan kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.

Stefnandi, þrotabú SevenMiles ehf., greiði stefndu, Önnu Brynju Ísaksdóttur, 950.000 krónur í málskostnað, auk virðisaukaskatts.