Hæstiréttur íslands
Mál nr. 294/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Fimmtudaginn 3. maí 2012. |
|
Nr. 294/2012. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána 600 daga eftirstöðvar fangelsisrefsinga, sem honum hafði verið veitt reynslulausn á, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. apríl 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta afplánun á 600 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt dómum Hæstaréttar 28. apríl 2005 og 2. apríl 2009, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 27. ágúst 2011. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að málinu verði vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Krafa varnaraðila um heimvísun málsins er reist á því að héraðsdómari hafi verið vanhæfur til að fara með málið sökum þess að hann hafi áður fallist á að ákærði sætti gæsluvarðhaldi af sama tilefni á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Til stuðnings þessu vísar varnaraðili til 2. mgr. 6. gr. laganna og þeirra röksemda sem búa að baki því ákvæði. Þegar af þeirri ástæðu að dómarinn hefur ekki gert varnaraðila að sæta gæsluvarðhaldi á þessum grundvelli er krafan haldlaus og verður henni hafnað.
Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 til að varnaraðila verði gert að afplána eftirstöðvar refsingar samkvæmt fyrrgreindum dómum Hæstaréttar. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. apríl 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 600 daga eftirstöðvar dóma Hæstaréttar uppkveðnum 28. apríl 2005 og 2. apríl 2009, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 27. ágúst 2011.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að hann hafi haft til rannsóknar alvarleg líkamsárásarmál sem kærði sé sterklega grunaður um að eiga aðild að ásamt öðrum nafngreindum mönnum. Umrædd mál séu:
Mál nr. [...]:
Málið varði ætluð brot þeirra X, kt. [...], Y, kt. [...], í félagi við fleiri menn, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 4. janúar 2012, ruðst í heimildarleysi inn í íbúðarhús við [...] í [...], og í félagi, veist þar að A, B og C, sem þar hafi verið staddir og slegið þá ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkama með hættulegum vopnum og bareflum, þ. á m. golfkylfum, plastkylfu, hafnaboltakylfu, handlóðum og tréprikum.
Afleiðingar af árásinni hafi verið þær að A hafi hlotið þverbrot á hægri sköflungi, brot á hægri hnéskel, 6 cm opinn og gapandi skurð á framanverðum hægri sköflungi, bólgur og mar á hægri fótlegg, úlnliðum og höndum. C hafi hlotið skurð á enni og B hlotið 3 cm stjörnulaga sár á hnakka, brot á ölnarbol, skrapsár á báðum öxlum, stórt mar á upphandlegg vinstra megin, mar á báðum framhandleggjum yfir öln, mar á miðjum framhandlegg og mar á vísifingri hægri handar. Háttsemin sé talin varða við 2. mgr. 218. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]:
Málið varði ætluð brot þeirra X, kt. [...], Y, kt. [...], í félagi við fleiri menn, fyrir hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung, í félagi, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 14. desember eða aðfaranótt 15. desember 2011, í íbúðarhúsnæði að [...] í [...], ráðist á D og E, sem þar hafi verið staddir, meðal annars með eftirfarandi háttsemi: Y með því að slá D í hnakkann með tréspítu, rifið í vinstra eyra hans og slegið hann í vinstri kjálkann og að lokum neytt F, sem hafi verið gestkomandi í íbúðinni, til að [...] D með því að hóta að beita hann ofbeldi ef hann gerði það ekki. Þá hafi Y slegið E, sem einnig hafi verið staddur í íbúðinni, aftanvert í höfuðið með tréspítu í stofu íbúðarinnar svo hann hafi fallið í gólfið og þar sem hann hafi legið í jörðinni, í félagi við fleiri, sparkað í bak hans og dregið hann inn á salerni íbúðarinnar þar sem X hafi slegið hann í andlitið og X og Y haft í hótunum við hann að senda á hann menn ef hann kærði árásina, með þeim afleiðingum að E hafi hlotið stóran skurð hliðlægt á höfði vinstra megin. Þessi háttsemi sé talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál nr. [...]:
Málið varði ætluð brot X, kt. [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa 12. október 2011 að [...] í [...] ráðist á G, kt. [...], og H, kt. [...], slegið G í andlit og maga, tekið hann kverkataki og hert að með þeim afleiðingum að G hafi misst meðvitund, þá hafi hann hlotið glóðarauga og jafnframt slegið H í andlitið þannig að hann hafi fallið í gólfið og þar sparkað í líkama hans þar sem hann hafi legið í gólfinu og stigið á höfuð hans, allt með þeim afleiðingum að H hafi hlotið áverka í andliti, glóðarauga og sár á eyra. Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í framhaldi af handtöku kærða þann 14. mars sl. hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga, fyrst með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 15. mars sl., sem hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 171/2012, og síðan á grundvelli almannahagsmuna samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, síðast með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 30. mars sl., sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar nr. 221/2012.
Kærði neiti sök, en í málunum liggi fyrir framburðir brotaþola og vitna um þátt kærða og jafnframt séu framburðir brotaþola studdir áverkavottorðum. Þá liggi einnig fyrir framburðir annarra sakborninga um þátt kærða. Í máli nr. [...] liggi einnig fyrir upptaka úr öryggismyndavél við [...] og þá hafi fundist ummerki eftir blóð á stofugólfi íbúðarinnar að [...] sem styðji framburð brotaþola. Nánar um framburð brotaþola, vitna og annarra sakborninga sé vísað til gagna málsins.
Kærði liggi samkvæmt framansögðu undir sterkum grun um aðild að og að hafa staðið fyrir framangreindum líkamsárásum þar sem brotaþolar hafi m.a. verið á ófyrirleitinn hátt slegnir í höfuð og líkama með golfkylfum, plastsleggjum og spýtum og [...].
Að mati lögreglustjóra hafi kærði nú rofið gróflega skilyrði reynslulausnar, en hann liggi m.a. undir sterkum grun um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem refsiramminn sé fangelsi allt að 16 árum.
Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005.
Eins og rakið hefur verið hefur kærði sætt gæsluvarðhaldi frá 14. mars sl., síðast með dómi Hæstaréttar í máli nr. 221/2012 þar sem staðfest var að kærði sé undir sterkum grun um mjög alvarlegar líkamsárásir. Eftir að dómurinn var kveðinn upp hafa komið fram tvö ný skjöl sem lögð voru fram í þinghaldi í dag. Um er að ræða yfirlýsingu I, dags. 25. apríl 2012, og yfirlýsingu J, dags. 17. apríl 2012, sakborninga í málinu, þar sem þeir segja að kærði og meðkærði Y hafi enga aðild átt að árás í [...]. Ástæða er til að ætla að umræddar yfirlýsingar séu tilkomnar vegna ótta við kærða og meðkærða Y og gæsluvarðhald sem kærði hefur sætt á grundvelli almannahagsmuna er ekki einungis byggður á framburði I og J og atvikum í [...]. Að þessu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður að fallast á það að kærði hafi gróflega rofið skilyrði reynslulausnar sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun 27. ágúst 2011. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga til að fallast á kröfu um að kærða verði gert að afplána 600 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem honum var gerð með dómum Hæstaréttar 28. apríl 2005 og 2. apríl 2009.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, afpláni 600 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómum Hæstaréttar 28. apríl 2005 og 2. apríl 2009, sem honum var veitt reynslulausn á með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 27. ágúst 2011.