Hæstiréttur íslands

Mál nr. 593/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 9. september 2014.

Nr. 593/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til sunnudagsins 14. september 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um háttsemi sem getur varðað fangelsisrefsingu samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru vegna rannsóknarhagsmuna uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til sunnudagsins 14. september 2014 kl. 16 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan vinni nú að rannsókn alvarlegrar líkamsárásar á konu, að [...], í Reykjavík, sem tilkynnt var um kl. 7:30 í gærmorgun. Er lögregla kom á vettvang hafi hún hitt fyrir brotaþola, A og dóttur hennar. Brotaþoli hafi verið meidd á fæti og hrufluð á hendi. Brotaþoli hafi skýrt frá því að kærði X hefði kastað skiptilykli í gegnum rúðu á svefnherbergi hennar og í kjölfarið hafi hún farið út. Hafi þá kærði ekið á hana á bifreiðinni [...]. Hafi hann svo aftur reynt að aka á hana eftir að hún hafið náð að koma sér undan. Hann hafi því næst ekið burt á miklum hraða. Dóttir brotaþola sem hafi verið á vettvangi hafi lýst árásinni með sama hætti. Brotaþoli kvaðst vera mjög hrædd við kærða og sannfærð um að hann hafi ætlað að drepa sig.

Rætt hafi verið við vitni á vettvangi sem lýstu geranda og hafi lýsing á honum komið heim og saman við kærða. Hafi vitni lýst því að þeir hefðu séð kærða henda skiptilykli í gegnum rúðu á 2. hæð á [...]. Stuttu síðar hafi kona komið út með skiptilykilinn en maðurinn hafi þá ekið á konuna og reynt að aka á hana aftur strax í kjölfarið.

Þegar hafi verið tekin skýrsla af einu vitni sem lýsi atvikum með þeim hætti að einhver hafi komið út í gluggann að [...] og virst sussa á mann sem staðið hafi þar fyrir utan ásamt konu og haft hátt, en þau hefðu nýlega verið komin þar að með leigubifreið. Kona hafi svo komið út úr húsinu og staðið við grindverk við húsið en þar hafi allt orðið vitlaust. Eftir að maðurinn hafi æpt og öskrað hafi hann farið upp í bifreið, sett í gang og bakkað frá fyrst en komið svo á fullri ferð áfram og ekið á konuna þar sem hún hafi staðið upp við grindverkið. Hann hafi svo bakkað frá og ekið aftur á konuna.

Fleiri aðilar hafi verið á vettvangi sem lögregla afli nú upplýsinga um, en ekki hafi gefist tækifæri til þess að taka skýrslur þeim. Vitni verði yfirheyrð næstu daga.

Lögregla hafi þegar hafið leit að meintum árásarmanni og hafi bifreiðin [...] fundist mannlaus við Miðbakka rétt eftir tilkynninguna um kl. 7:30 í gær, en X hafi verið handtekinn á [...] Hótel um kl 15.00. Skýrsla hafi verið tekin af kærða nú fyrir skömmu, þar sem hann játi að hafa verið á vettvangi. Hann játi jafnframt að hafa kastað skiptilykli inn um rúðu brotaþola en neiti að tjá sig varðandi önnur atriði.

Rannsókn málsins sé skammt á veg komin og sé hún á viðkvæmu stigi en kærði liggur undir rökstuddum grun um að hafa gert lífshættulega atlögu að fyrrum sambýliskonu sinni.

Að mati lögreglu sé gæsluvarðhald nauðsynlegt til þess að unnt verði að vinna að rannsókn málsins. Fyrir liggi að taka þurfi skýrslur af brotaþola og öðrum vitnum sem hafi gefið sig fram á vettvangi. Þá liggi fyrir lögreglu að taka frekari skýrslur af kærða.

Það sé mat lögreglu að lagaskilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé uppfyllt í máli þessu, enda sé kærði undir rökstuddum grun um afbrot sem fangelsisrefsing sé lögð við. Þá séu yfirgnæfandi líkur til þess, gangi kærði frjáls ferða sinna, að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á framburð vitna.

Ætlað sakarefni sé einkum talið varða við 211. gr. sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og og b-liðar 1. mgr. 99., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Niðurstaða

                Sakborningur er undir rökstuddum grun um alvarlega atlögu að fyrrum sambýliskonu sinni í gærmorgun. Skýrslur sjónarvotta og framburður brotaþola ber í meginatriðum saman um atvik máls. Í skýrslu sakbornings hjá lögreglu kemur fram að hann játi því að hafa verið á vettvangi og kastað skiptilykli í glugga á heimili brotaþola. Hann neitar því hins vegar að hafa ekið á brotaþola eða hafa ætlað sér að drepa hana. Rannsókn málsins er á frumstigi og á m.a. eftir að taka skýrslur af fleiri sjónarvottum og yfirheyra sakborning frekar.

                Með hliðsjón af atvikum máls sem rakin eru í kröfu lögreglustjórans og studd framlögðum gögnum er fallist á það með honum að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/1988 séu fyrir hendi til að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi með þeim takmörkunum sem krafist er sbr. b-liður 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Með framangreindum rökstuðningi er krafa lögreglustjórans tekin til greina svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                X skal sæta gæsluvarðhaldi allt til sunnudagsins 14. september 2014 kl. 16:00. Hann skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.