Hæstiréttur íslands

Mál nr. 266/2006


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2007.

Nr. 266/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Eiríki Hrafnkeli Hjartarsyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Þjófnaður. Reynslulausn. Skilorðsrof.

E var sakfelldur fyrir þjófnað með því að hafa sem starfsmaður verslunar stolið veski, sem viðskiptamaður hafði skilið eftir, og notað debetkort sem í veskinu var til að taka út 10.000 krónur í hraðbanka. Með þessum verknaði rauf E skilorð eldri dóms þar sem hann hafði hlotið 18 mánaða fangelsi, þar af 16 mánuði skilorðsbundna í þrjú ár. Var skilorðsdómurinn tekinn upp samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og honum gerð refsing með hliðsjón af 77. gr. laganna. Í ljósi sakarferils E þótti refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Eiríkur Hrafnkell Hjartarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 200.007 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur. 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2006.

Málið höfðaði lögreglustjórinn í Kópavogi með ákæru útgefinni 16. mars 2006 á hendur ákærða, Eiríki Hrafnkeli Hjartarsyni, kt. 080183-5429, Hrafnhólum 8, Reykjavík, „fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 9. febrúar 2006, þá starfsmaður verslunar X stolið veski sem viðskiptamaður verslunarinnar hafði skilið eftir í versluninni og í kjölfarið notað debetkort, sem í veskinu var, í hraðbanka Íslandsbanka við Hamraborg í Kópavogi og þar tekið út kr. 10.000.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Verslunin X krefst bóta að fjárhæð kr. 29.500, auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38,2001, frá tjónsdegi, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök í ákæru. Er með þeirri játningu, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæðis.

Ákærði á að baki nokkurn sakarferil sem hófst á árinu 2000 og var þá ákæru frestað skilorðsbundið í 1 ár þann 3. mars 2000. Ákærði hlaut dóm fyrir þjófnað þann 6. október 2000 og var gert að sæta fangelsi í 6 mánuði en refsingu var frestað skilorðsbundið í 3 ár. Næst hlaut ákærði dóm þann 11. júní 2001 nú fyrir brennu og eignaspjöll. Í þessu máli var það álit dómsins að hann hefði stofnað lífi fjölda fólks í hættu og brotavilji hans hafi verið einbeittur. Ennfremur var um skilorðsrof að ræða og var dómurinn frá 6. október 2000 tekin upp og dæmdur með. Ákærða var gert að sæta fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Ákærði hafði á þeim tíma ekki náð 18 ára aldri er hann framdi brotin er báðir framangreindir dómar taka til. Næst hlaut ákærði dóm 20. júní 2002, fangelsi í 60 daga fyrir þjófnað. Að lokum fékk ákærði þann 30. september 2004 dóm fyrir þjófnað. Ákærði hafði fengið reynslulausn 25. nóvember 2002, skilorðsbundna í tvö ár á 480 dögum (16 mánuði) af eftirstöðvum refsingar. Ákærði rauf skilorð reynslulausnar og var hún dæmd upp í dómnum 30. september 2004.  Hlaut ákærði 18 mánaða fangelsi, þar af 16 mánuði skilorðsbundna í 3 ár. Var í þessum dómi nú skilorðsbundin afplánun refsingar sem í fyrri dómum hafði verið óskilorðsbundin. Ákærði hefur nú rofið skilorð ofangreinds dóms með þeirri háttsemi sem hann er nú fundinn sekur um. Ber nú að taka skilorðsdóminn upp skv. 60. gr. almennra hegningarlaga og er ákærða nú gerð refsing með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Í ljósi sakaferils ákærða þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Eins og að framan er rakið hefur ákærði fengið tvö tækifæri með frestun á fullnustu eftirstöðva 16 mánaða fangelsisrefsingar, sem saman stendur af tveimur dómum sem voru óskilorðsbundnir í upphafi. Sakarferill ákærða útilokar því skilorðsbindingu refsingarinnar.

Ákærði bar fyrir dómi að hann hafi þegar greitt að fullu framkomna bótakröfu, en vinnuveitandi hans dró bótafjárhæðina frá launum hans. Bótakröfu er því vísað frá dómi.

Sakarkostnað leiddi ekki af málinu.

Ólöf Pétursdóttir, dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Eiríkur Hrafnkell Hjartarson, sæti fangelsi í 18 mánuði.