Hæstiréttur íslands

Mál nr. 207/2006


Lykilorð

  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Kærumál


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. apríl 2006.

Nr. 207/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar  1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. maí 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2006.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 5. maí 2006, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint stórfellt fíkniefnabrot.  Lagt hafi verið hald á mikið magn fíkniefna sem falin hafi verið í bifreiðinni A sem nýlega var flutt til landsins frá Rotterdam í Hollandi.  Meintur vitorðsmaður kærða hafi verið skráður innflytjandi bifreiðarinnar en lögregla hafi haft eftirlit með viðkomandi manni og bifreiðinni.  Bifreiðin hafi verið sótt seint í gærkvöldi af kærða og tveimur meintum vitorðsmönnum hans.  Hafi þeir fært bifreiðina í tiltekið verkstæðishúsnæði í borginni en þegar lögreglan hafi ráðist til inngöngu í húsnæðið skömmu síðar hafi kærði og hinir meintu vitorðsmenn hans verið að fjarlægja efni úr bifreiðinni.  Kærði og meintir vitorðsmenn hans sem voru á staðnum hafi verið handteknir kl. 23:45.

Kærði hafi verið yfirheyrður í dag en um afstöðu hans til sakarefnisins og nánar um framburð hans sé vísað til framburðarskýrslu kærða.  Rannsókn málsins sé á frumstigi, málið sé talið umfangsmikið, framundan séu frekari yfirheyrslur af kærða og meintum vitorðsmönnum hans, frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla sé framundan sem skýrt geti frekar aðdraganda brotsins, innbyrðis samskipti hinna grunuðu og samskipti við aðra sem kunni að tengjast málinu en ekki sé vitað um hverjir séu á þessu stigi rannsóknarinnar. 

Þyki  þannig brýnt að vernda rannsóknar­hagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus. 

Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Samkvæmt framangreindu er rökstuddur grunur um að kærði eigi hlut að stórfelldu fíkniefnabroti sem getur varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001 en rannsókn málsins  er á frumstigi.  Samkvæmt því er með vísun til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð :

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 5. maí 2006, kl. 16:00.