Hæstiréttur íslands
Mál nr. 247/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. apríl 2017 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 2. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þess að „skipuðum verjanda hennar verði ákvörðuð þóknun og hún greidd úr ríkissjóði.“
Sóknaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Norðurlands eystra var málið flutt munnlega 6. apríl 2017 að viðstöddum sakflytjendum, þar á meðal verjanda varnaraðila. Við lok þinghaldsins var bókað af héraðsdómara að úrskurður í málinu yrði kveðinn upp næsta dag, það er 7. sama mánaðar klukkan 15. Það gekk eftir en við uppkvaðningu úrskurðarins var bókað í þingbók að verjandi hafi boðað forföll. Kæra varnaraðila barst héraðsdómi 11. apríl 2017.
Samkvæmt upphafsmálslið 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011, er kærufrestur þrír sólarhringar og byrjaði hann að líða frá því aðili fékk vitneskju um úrskurðinn. Þessi frestur tók að líða þegar við uppkvaðningu úrskurðarins þar sem varnaraðila hafði verið tilkynnt að úrskurður yrði þá upp kveðinn. Kærufrestur var því liðinn þegar kæran barst héraðsdómi. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Þóknun verjanda varnaraðila, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 7. apríl 2017
Mál þetta barst dómnum 3. apríl sl. og var tekið til úrskurðar í gær.
Sóknaraðili er lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra.
Varnaraðili er X, kt. [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði nálgunarbann sem hann setti á varnaraðila 2. apríl. Bannaði hann henni í næstu 12 mánuði að koma nær heimili brotaþola, A í [...] í [...], en í svæði sem afmarkast af 100 metra geisla, mælt frá miðju íbúðar eða húss. Jafnframt var varnaraðila bannað að setja sig í samband við brotaþola, nálgast hana á dvalarstað, elta hana, nálgast hana á almannafæri, vinnustað, eða hafa samskipti við henni í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.
Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Varnaraðili hefur tvívegis sætt sams konar banni áður, samtals frá 18. febrúar 2016 til 19. febrúar 2017. Segir sóknaraðili að það hafi verið gert vegna margítrekaðra hótana, árása og áreitni gagnvart brotaþola, sem sé unnusta manns sem áður hafi verið unnusti varnaraðila og sé barnsfaðir hennar. Segir hann einnig að varnaraðili hafi nokkrum sinnum brotið gegn banninu.
Þá er reifað að þann 25. mars sl. hafi varnaraðili hringt í síma barnsföður síns, en brotaþoli hafi orðið fyrir svörum. Virðist sem varnaraðili hafi þá hótað brotaþola barsmíðum og lífláti. Þá hafi varnaraðili sent brotaþola hótanir og svívirðingar með textaboðum símleiðis. Þann 2. apríl hafi varnaraðili elt unnustann og brotaþola fram í sveit og hafi komið til einhverra átaka milli unnustans og varnaraðila. Segir sóknaraðili að grunur sé um að varnaraðili fylgist náið með ferðum brotaþola og með tilliti til þess og forsögu málsins sé bannið ákveðið í 12 mánuði og skilyrði hert.
Krafa sóknaraðila er byggð á 4. gr. laga nr. 85/2011. Grunar hann varnaraðila um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga og röskun á friðhelgi brotaþola með alvarlegum hætti.
Varnaraðili vísar til þess að einungis sé um eitt tilvik að ræða, þ.e. símtalið, þar sem atvikið frammi í sveit hafi beinst að unnustanum. Hún hafi ekki hringt til brotaþola. Hún hafi orðið æst við það að brotaþoli hafi egnt hana. Þetta eina tilvik geti ekki réttlætt 12 mánaða nálgunarbann.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða hætta er á að viðkomandi brjóti af sér með þeim hætti. Brotaþoli hljóðritaði framangreint símtal og tók það fram við sóknaraðila. Endurrit af þeirri hljóðritun vekur rökstuddan grun um refsivert brot og röskun á friði. Forsaga þessa máls gefur til kynna að hætta sé á að varnaraðili fremji frekari brot eða raski friði. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga er heimilt að líta til þess hvort sakborningur hefur áður þurft að sæta nálgunarbanni og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að hætta sé talin á að hann muni fremja háttsemi sem lýst er í 4. gr. Að þessu gættu þykir ekki sýnt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en að banna varnaraðila að nálgast hana.
Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu sóknaraðila. Rétt er að taka fram að bannið tekur ekki til viðstöðulausrar farar varnaraðila um þjóðveg nr. 1.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011 og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sömuleiðis, samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, allt eins og nánar greinir í úrskurðarorði að virðisaukaskatti meðtöldum.
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Staðfest er ákvörðun sóknaraðila, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, frá 2. apríl 2017 um að banna varnaraðila, X, að koma nær heimili brotaþola, A, [...], [...], en í 100 metra takmark, mælt frá miðju íbúðar, í 12 mánuði frá birtingu ákvörðunar að telja. Jafnframt er staðfest ákvörðun sóknaraðila um að banna varnaraðila jafn lengi að setja sig í samband við brotaþola, nálgast hana á dvalarstað, elta hana, nálgast hana á almannafæri, vinnustað hennar eða hafa samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar. Bannið tekur ekki til viðstöðulausrar farar um þjóðveg nr. 1.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Andrésar Más Magnússonar héraðsdómslögmanns og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hæstaréttarlögmanns, 84.320 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.