Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2010


Lykilorð

  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Tekjuskattur
  • Refsilágmark
  • Skilorð
  • Bókhald
  • Sjálfseignarstofnun
  • Sekt
  • Vararefsing


Fimmtudaginn 26. maí 2011.

Nr. 370/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari)

gegn

Jóni Arnarr Einarssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

Staðgreiðsla opinberra gjalda. Tekjuskattur. Refsilágmark. Skilorð.

Bókhald. Sjálfseignarstofnun. Sekt. Vararefsing.

J, stjórnarmaður í sjálfseignarstofnuninni A, var ákærður fyrir að hafa ekki skilað skilagreinum staðgreiðslu og látið undir höfuð leggjast að standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launagreiðslna. Talið var að J hefði borið samkvæmt stöðu sinni sem stjórnarmaður ábyrgð á að skipulag og starfsemi stofnunarinnar væri í góðu horfi og að bókhald hennar væri fært í samræmi við lög og venjur. Það firrti hann ekki þessari ábyrgð þótt fenginn hefði verið nafngreindur maður til starfa sem bókari fyrir stofnunina. J hefði þannig sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi við að hafa ekki staðið skil á skilagreinum staðgreiðslu og staðgreiðslu opinberra gjalda. J var einnig gefið að sök að hafa vantalið bifreiðahlunnindi og tekjur frá sjálfseignarstofnuninni. Var talið að vanþekking J á tilvist eða efni 7. gr., sbr. 109. gr., laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, um að afnot á bifreið teldust til skattskyldra hlunninda sem væru framtalsskyld, ylli ekki refsileysi. Þá yrði að telja að J hefði sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi við að halda reiður á vantöldum tekjum frá sjálfseignarstofnuninni og telja þær fram á skattframtölum, þar sem honum hefði verið fullkunnugt um að þessar tekjur hefðu verið greiddar inn á reikning eiginkonu hans. Loks var J ákærður fyrir meiri háttar bókhaldsbrot í starfi sínu fyrir sjálfseignarstofnunina með því að hafa látið undir höfuð leggjast að varðveita fylgiskjöl og vanrækt að sjá til þess að tilskilið bókhald væri fært fyrir stofnunina. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt þessum ákærulið staðfest með vísan til forsendna. Var refsing J ákveðin 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi. J  var einnig gert að greiða 6.500.000 krónur í fésekt, en sæta ella fangelsi í 4 mánuði. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

          Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

I

          Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á því að hann hafi ekki borið ábyrgð á fjárreiðum sjálfseignarstofnunarinnar A þar sem meðákærði í héraði hafi séð um daglega stjórn stofnunarinnar. Þá séu refsiskilyrði um saknæmi heldur ekki uppfyllt svo dæma megi ákærða í refsingu samkvæmt hinum tilvitnuðu refsiákvæðum sem honum eru gefin að sök að hafa brotið í lið I í B hluta ákærunnar.

            Óumdeilt er að ákærði átti sæti í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar A á þeim tíma sem ákæran lýtur að. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var upplýst að stjórnarfundir hefðu ekki verið haldnir og hefði stjórnin ekki skipt með sér formlega störfum. Ákærði bar fyrir héraðsdómi að í störfum hans hjá sjálfseignarstofnuninni hefði falist að vinna öll almenn störf. Hefði hann þannig verið ráðgjafi, annast auk annarra um greiðslu reikninga, haldið fyrirlestra, útbúið reikninga til félagsþjónustunnar og Fangelsismálastofnunar ríkisins og staðfest gagnvart þeim vistun tilgreindra einstaklinga, tímabil og greiðslur. Þá hefði hann annast alls konar sendistörf og séð um samskipti við ýmsa aðila, svo sem lækna og fólkið á götunni. Aðspurður um hvort hann hefði komið að bókhaldi sjálfseignarstofnunarinnar svaraði hann því til að hann hefði aðstoðað bókhaldara stofnunarinnar að hluta til við bókhald. Hefði hann reynt að halda utan um þá reikninga sem skiluðu sér inn, halda þeim til haga fyrir merkingar og færslur. Ákærði kvaðst hafa unnið á sömu skrifstofu og bókarinn og hefði gögnum verið skilað í sérstaka skúffu hjá bókaranum sem sá síðarnefndi hefði unnið úr. Ákærði kvaðst ekki hafa verið ráðinn til þess að færa bókhaldið. Um það bar meðákærði í héraði á sama veg. Í skýrslu F bókara stofnunarinnar fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi talið að ákærði og meðákærði í héraði hefðu séð um daglega fjármálastjórn hjá A og hefði hann séð um bókhaldið undir stjórn þeirra. Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að bókhaldið hefði verið ófullkomið og miklar brotalamir á því. Hefði honum sýnst að mikið vantaði í bókhaldið en hann hefði reynt að gera það besta úr því sem hann hefði fengið í hendur.

          Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur fer stjórn sjálfseignarstofnunar með málefni hennar og skal annast um að skipulag hennar og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Sé framkvæmdastjóri ráðinn fara stjórn og framkvæmdastjóri með stjórn stofnunarinnar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 25. gr. laganna. Þar sem enginn framkvæmdastjóri starfaði hjá sjálfseignarstofnuninni A á því tímabili sem ákæran lýtur að er ljóst að stjórnin fór ein með stjórn stofnunarinnar, þar á meðal daglegan rekstur sem að öðrum kosti hefði heyrt undir framkvæmdastjóra.

          Í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 33/1999 segir að stjórn skuli annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna stofnunarinnar. Ákærði bar þannig samkvæmt stöðu sinni sem stjórnarmaður ábyrgð á að skipulag og starfsemi stofnunarinnar væri í góðu horfi og að bókhald hennar væri fært í samræmi við lög og venjur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. júní 2010 í máli nr. 751/2009.  Það firrir hann ekki þessari ábyrgð þótt fenginn hafi verið nafngreindur maður til starfa sem bókari fyrir stofnunina, sbr. dóm Hæstaréttar 10. febrúar 2011 í máli nr. 77/2010. Ákærði hefur þannig sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi við að hafa ekki staðið skil á skilagreinum staðgreiðslu og látið undir höfuð leggjast að standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, að fjárhæð 3.611.649 krónur, eins honum er gefið að sök í ákærulið I í B hluta ákærunnar.

II

            Varðandi ákærulið III í B hluta ákærunnar reisir ákærði kröfu sína um sýknu á því að honum hafi verið ókunnugt um að afnot hans á bifreiðinni gæti talist til bifreiðahlunninda sem bæri að telja fram. Að því er varðar þann hluta þessa ákæruliðs er snertir vantaldar tekjur frá sjálfseignarstofnuninni sem honum voru greiddar inn á reikning eiginkonu hans krefst hann sýknu þar sem saknæmisskilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi ásetning eða stórkostlegt hirðuleysi séu ekki uppfyllt.

          Vanþekking ákærða á tilvist eða efni 7. gr., sbr. 109. gr., laga nr. 90/2003, um að afnot á bifreið, sem sjálfseignarstofnunin A lagði honum til, teldist til skattskyldra hlunninda sem voru framtalsskyld, valda ekki refsileysi. Að því er varðar þann hluta þessa ákæruliðs, er snertir vantaldar tekjur frá sjálfseignarstofnuninni sem honum voru greiddar inn á reikning eiginkonu hans, bar ákærði fyrir héraðsdómi að ástæða þess að þetta fyrirkomulag var viðhaft hefði verið sú að hann hefði ekki verið með neinn reikning í banka þar sem hann hefði orðið „gjaldþrota á sínum tíma.“ Þar sem ákærða var þannig fullkunnugt um þetta fyrirkomulag á greiðslum til hans verður að telja að hann hafi sýnt af sér stórkostlegu hirðuleysi við að halda reiður á þeim tekjum sem hann fékk frá sjálfseignarstofnuninni og telja þær fram á skattframtölum sínum árin 2005 og 2006 vegna tekjuáranna 2004 og 2005, en með því kom hans sér undan greiðslu á 1.414.965 krónum.

III

          Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða. Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ákvörðun fangelsisrefsingar. Ekki er fram komið neitt það er gefur tilefni til þess að færa niður fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og verður refsing ákveðin tvöföld sú fjárhæð sem vangoldin var samkvæmt ákæruliðum I og III í B hluta ákærunnar, að teknu tilliti til þess, í samræmi við dómvenju, að meðákærði í héraði var einnig sakfelldur fyrir brot samkvæmt ákærulið I í B hluta ákærunnar. Verður ákærða því gert að greiða 6.500.000 krónur í fésekt. Vararefsing verður ákveðin í samræmi við almennar reglur eins og í dómsorði greinir, sbr. dóma Hæstaréttar 31. maí 2007 í máli nr. 392/2006 og 3. mars. 2011 í máli nr. 78/2010.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða tvo þriðju hluta áfrýjunarkostnaðar málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Jón Arnarr Einarsson, sæti fangelsi í 4 mánuði en fullnustu refsingar skal fresta og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði ennfremur sekt að fjárhæð 6.500.000 krónur og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði tvo þriðju hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild er samtals 362.713 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar  hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 6. maí 2010.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra dagsettri 2. október sl. á hendur ákærðu X, kt. [...], til heimilis að [...], [...] og Jóni Arnarr Einarssyni, kt. 120249-5689, til heimilis að Smáratúni 6, Selfossi:

A.

„Á hendur ákærða X sem stjórnarformanni og daglegum stjórnanda sjálfseignarstofnunarinnar A [...], kt. [...], og einkahlutafélagsins B, kt. [...], fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum á árunum 2004 til 2006:

I.

Fyrir fjárdrátt á árunum 2005 og 2006, með því hafa dregið sér samtals kr. 3.382.802 með notkun á kreditkorti einkahlutafélagsins númer 4568 3700 0007 0477 þegar hann tók út reiðufé og greiddi persónuleg útgjöld með kortinu í 209 skipti, sem sundurliðast þannig eftir árum:

Árið 2005

101 skipti

kr. 1.462.974

Árið 2006

108 skipti

kr. 1.919.828

Alls:

kr. 3.382.802

                Til vara fyrir umboðssvik með því hafa með framangreindum hætti misnotað aðstöðu sína til skuldbinda einkahlutafélagið til greiða framangreindar úttektir.

II.

Fyrir fjárdrátt með því hafa á árunum 2005 og 2006 dregið sér samtals kr. 1.639.648 frá A ses. kr. 803. og B,  þegar hann lét félögin greiða 12 kreditkortareikninga sína vegna útgjalda sem hann stofnaði til með kreditkorti sínu nr. 4548 9000 0063 2119 í 109 skipti sem sundurliðast þannig eftir árum:

Árið 2005:

50 skipti, 6 reikningar 

kr.    647.702

Árið 2006:

59 skipti, 6 reikningar 

kr.    991.946 

Alls

kr. 1.639.648

III.

Fyrir fjárdrátt með því hafa á tímabilinu frá júní til og með október 2006 dregið sér kr. 96.500 af bankareikningi 140-05-82515, sem var söfnunarreikningur aðstandenda C til styrktar A ses, með 12 millifærslum af umræddum reikningi á reikning sinn nr. 1101-05-406424.

IV.

Fyrir fjárdrátt með því hafa á árunum 2004 til 2006 dregið sér samtals kr. 4.296.200,- sem voru hluti af söfnunarfé sem D safnaði í þágu A umrædd ár og afhenti ákærða. Féð var millifært af reikningum nr. 0135-26-70199 og nr. 1109-05-406688, skráðum á Líknarfélagið E, á reikninga ákærða nr. 1101-05-406424 og nr. 135-26-1911, auk þess tók ákærði sjálfur út af reikningi árið 2005 og D lagði inn á reikning ákærða árið 2006. Fjárhæðin sundurliðast þannig í heild eftir árum:

Árið 2004

sem ákærði millifærði af reikningi nr. 1109-05-406688

á reikninga sína í 7 færslum:          

kr.     221.000

Árið 2005

sem var millfært af reikningi nr. 0135-26-70199 á reikninga

ákærða og með úttektum af reikningnum í alls 26 færslum:

kr.   1.155.000

Árið 2006

sem D lagði inn á reikning ákærða nr. 1101-05-406424

í 10 tilvikum:

kr.   1.395.000

sem var millifært með 156 færslum af reikningi

nr. 0135-26-70199 á reikning ákærða nr. 1101-05-406424

og á reikning eiginkonu hans í eitt skipti:     

kr.   1.525.200

Alls:

kr.   4.296.200

Brot ákærða samkvæmt A-kafla ákæru teljast varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Til vara telst brot samkvæmt lið I A-kafla ákæru varða við 249. gr. sömu laga.

B.

Á hendur ákærðu fyrir eftirtalin meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald:

I.

Á hendur ákærðu X sem stjórnarformanni og Jóni Arnarr sem stjórnarmanni í A, sem þeir ráku í sameiningu, með því hafa ekki skilað skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda á árunum 2004, 2005 og 2006, og hafa látið undir höfuð leggjast standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, vegna launagreiðslna, en samtals námu hin vantöldu laun kr. 9.648.182 og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda samtals kr. 3.611.649, og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil

Vantaldar launagreiðslur          

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 2004

kr.  2.020.287

kr.     779.427

Árið 2005

kr.  3.094.938

kr.  1.167.720

Árið 2006

kr.  4.532.957

kr.  1.664.502

Samtals:

kr. 9.648.182                                

kr. 3.611.649

II.

Á hendur ákærða X fyrir telja ekki fram á skattframtölum sínum árin 2005 og 2006 bifreiðahlunnindi sín árin 2004 og 2005, samtals kr. 1.562.685, og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts, og útsvars fjárhæð kr. 593.041,- sem sundurliðast nánar með eftirgreindum hætti:

Árið 2005

Vanframtalin bifreiðahlunnindi:    

kr.     275.137

Tekjuskattur, skattprósenta 25,75%

kr.      70.847

Útsvar, útsvarsprósenta 13,03%    

kr.      35.850

Vangoldinn tekjurskattur og útsvar samtals:

kr.    106.697

Árið 2006

Vanframtalin bifreiðahlunnindi:    

kr. 1.287.548

Tekjuskattur skattprósenta 24,75%

kr.    318.668

Útsvar, útsvarsprósenta 13,03%    

kr.    167.676

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.    486.344

III.

Á hendur ákærða Jóni Arnarr fyrir hafa vantalið á skattframtali sínu árið 2005, vegna tekjuársins 2004, og á skattframtali árið 2006 vegna tekjuársins 2005, skattstofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars um samtals kr. 3.732.706 og hafa með því komið sér undan greiðslu tekjuskatts og útsvars samtals fjárhæð kr. 1.414.965, sem sundurliðast þannig:

Árið 2005

Vanframtalin bifreiðahlunnindi:

kr.    474.988

Tekjuskattur, skattprósenta 25,75% 

kr.    122.309

Útsvar, útsvarsprósenta 13,03%    

kr.      61.891

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.   184.200

Árið 2006

Vanframtaldar tekjur frá A

kr. 2.532.318

Vanframtalin bifreiðahlunnindi:    

kr.    725.400

Samtals:

kr. 3.257.718

Tekjuskattur, skattprósenta 24,75%

kr.    806.285

Útsvar, útsvarsprósenta 13,03%   

kr.    424.480

Vangoldinn tekjuskattur og útsvar samtals:

kr. 1.230.765

IV.

Á hendur ákærðu X og Jóni Arnarr, fyrir meiri háttar bókhaldsbrot í ofangreindum störfum sínum fyrir A, með því hafa látið undir höfuð leggjast varðveita fylgiskjöl með fullnægjandi hætti og vanrækt færa tilskilið bókhald fyrir stofnunina, meðal annars með því vanrækja færa í bókhald greidd vistgjöld og tekjur vegna safnana í þágu stofnunarinnar.

Brot ákærðu samkvæmt liðum I, II og III í B-kafla ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 því er varðar lið I.

b)       1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, því er varðar 2. liði II og III.

Brot ákærðu samkvæmt lið IV í B-kafla ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 sbr. einnig 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar“.

Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að með bréfi dagsettu 16. nóvember 2006 fór félagsmálaráðuneytið þess á leit að Ríkisendurskoðun kannaði reikningsskil A, en það hefði allt frá árinu 1999 fengið umtalsverð fjárframlög á fjárlögum til starfsemi sinnar.  A mun vera kristilegt líknarfélag sem stofnað var 1996.  Það rak meðferðarheimili og endurhæfingarsambýli fyrir vímuefnaneytendur, oftast heimilislaust fólk og bauð þeim endurhæfingarmeðferð.  Starfsemi þess var síðast að [...] í [...] en því var lokað síðari hluta ársins 2006 eða í ársbyrjun 2007.  Samkvæmt fyrirtækjaskrá var ákærði X stjórnarformaður og prókúruhafi en ákærði Jón Arnarr meðstjórnandi.  Þá var til félag sem hét B og þar var ákærði X stjórnarformaður og prókúruhafi en meðákærði meðstjórnandi.   Markmið úttektar Ríkisendurskoðunar var að kanna í fyrsta lagi hvort allar tekjur sem aflað hefði verið vegna starfsemi A, hvort sem væri frá opinberum aðilum, fyrirtækjum, félagasamtökum eða einstaklingum, hefðu skilað sér að fullu í bókhald félagsins.  Í öðru lagi að kanna hvort öll útgjöld sem stofnað hefði verið til vegna starfseminnar hefðu verið færð í bókhald félagsins, gerð hefði verið fullnægjandi grein fyrir kostnaðinum og hvort hann gæti talist eðlilegur með tilliti til starfseminnar.  Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að A mun hafa notið fjárstuðnings ríkisins frá árinu 1999 og nam hann ásamt framlagi ríkisins vegna húsaleigu alls 188 milljónum króna til og með árinu 2006, en framlag vegna húsaleigu, samtals 25,5 milljónir króna mun hafa runnið beint til Fasteigna ríkissjóðs.   Í október 2003 mun félagsmálaráðherra hafa undirritað yfirlýsingu um áframhaldandi stuðning ríkisins við meðferðarheimilið og þau skilyrði sett m.a. að 55 einstaklingum yrði veitt skjól og aðstoð.  Stjórnendur A undirrituðu ekki yfirlýsinguna þar sem þeir töldu að framlagið og stærð húsnæðisins byði ekki upp á þennan fjölda vistmanna.  Framlögin munu engu að síður hafa verið innt af hendi.

Þá kemur fram í skýrslunni m.a. að ákærði X var forstöðumaður heimilisins og mun hafa annast fjármál þess ásamt meðákærða en ákærði X mun þó einn hafa tekið á móti fjárframlögum vegna fjársafnana og innheimtum vistgjöldum.  Færsla bókhalds var ekki í höndum þeirra heldur mun F hafa annast það verkefni.  Tveir bankareikningar munu hafa verið færðir í bókhaldi og voru tekjur að mestu lagðar inná annan þeirra og greiðslur út af reikningunum munu almennt hafa farið fram með millifærslum úr heimabanka.  Tvö kreditkort hafi verið í notkun vegna starfseminnar, annað á nafni B og hitt á nafni ákærða X.  Báðir stjórnendur A og aðrir starfsmenn voru með launareikninga í bókhaldinu sem að mati Ríkisendurskoðunar hafi jafnframt verið notaðir sem eins konar viðskiptareikningar.

Auk fjárframlaga af fjárlögum voru tekjur A vistgjöld fyrir einstaka vistmenn og mun innheimtu vistgjalda af þeim skjólstæðingum sem þáðu örorkulífeyri hafa verið með þeim hætti að þeir hafi greitt A með reiðufé, en einn starfsmannanna hafi séð um innheimtuna á staðnum.  Þá segir í skýrslunni að styrkir frá opinberum aðilum hafi numið samtals 5,9 milljónum króna árið 2005 og um 8 milljónum á fyrstu tíu mánuðum ársins 2006.  Þá hafi A haft óbeinar tekjur af vörum og þjónustu sem ekki hafi verið greitt fyrir, auk afnota af húsnæði í eigu ríkisins.  Þá hafi fjáröflun til stuðnings A verið í gangi undanfarin ár og segir í skýrslunni að söfnunarfé hafi numið 4,7 milljónum króna árið 2005 og um 6 milljónum árið 2006.  Hafi útlagður kostnaður numið um 7% af söfnunarfé hvors árs.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að fjármálaumsýslu og bókhaldi A hafi verið verulega ábótavant, m.a. vegna þess að innheimtar tekjur hafi ekki verið bókaðar og kostnaður sé færður til gjalda án fullnægjandi fylgiskjala, kostnaður sé ranglega bókfærður eða afar hæpið að hann tilheyri starfsemi A.  Í mörgum tilvikum vanti frumrit viðkomandi fylgiskjals, útgjöld séu tvíbókuð eða færð á ranga reikningslykla og einkaútgjöldum starfsmanna oft blandað saman við rekstur félagsins.  Þá eigi stjórnendur A eftir að gera fullnægjandi grein fyrir ráðstöfun á söfnunarfé og vistgjöldum sem ekki hafi verið færð í bókhald A, 9,6 milljónir króna árið 2005 og 12,7 milljónir árið 2006.  Að mati Ríkisendurskoðunar er ekki að sjá að þessum fjármunum hafi verið ráðstafað í þágu A.  Þá liggi fyrir að fjármunir sem sannanlega hafi runnið til stjórnenda og starfsmanna A séu langt umfram það sem fram komi í bókhaldi eða ársreikningum félagsins.  Launagreiðslur vegna ársins 2005 að fjárhæð 12,7 milljónir króna séu ranglega tilgreindar í bókhaldi og ársreikningi A, en þar sé launakostnaður aðeins sagður vera 5,5 milljónir króna.  Þá liggi fyrir að þessar greiðslur hafi ekki verið taldar fram til skatts af hálfu A.  Þá telur Ríkisendurskoðun svo að sjá að stjórnendur og starfsmenn A hafi látið bókfæra hjá félaginu og greiða útgjöld sem séu því óviðkomandi og telja verði einkaútgjöld þeirra.  Nemi slík útgjöld a.m.k. 12,5 milljónum króna árið 2005 og 3,1 milljón árið 2006.

Með bréfi dagsettu 15. janúar 2007 sendi Ríkisendurskoðun ríkissaksóknara greinargerðina til meðferðar og með bréfi dagsettu daginn eftir fól ríkissaksóknari efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að annast rannsókn málsins.  Skattrannsóknarstjóri ríkisins annaðist rannsókn á skattskilum ákærðu og A ses. og lauk rannsókn í máli ákærða Jóns Arnarr 11. maí 2007, í máli ákærða X lauk rannsókninni 4. júlí sama  ár og í máli félagsins lauk henni 21. september sama ár.

Ákæruliður A. I.

Við rannsókn ríkislögreglustjóra á notkun kreditkorts númer 4568 3700 0007 0477, sem er Visareikningur B, vaknaði grunur um að ákærði X hefði á árunum 2005 og 2006 tekið út reiðufé og greitt persónuleg útgjöld sín með kortinu í 209 skipti, samtals 3.382.802 krónur.  Ákærða var gefinn kostur á því við rannsókn málsins að skýra allar úttektir af kortinu á þessum tíma og merkti hann sérstaklega við þær úttektir sem verið hefðu í þágu A.  Aðrar úttektir sagði hann hafa verið í sína þágu og er þessi ákæruliður byggður á þeim framburði ákærða.

Ákærði X skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið stjórnarformaður  B og A.   Hefði hlutverk eignarhaldsfélagsins verið að halda utan um rekstur A og vera bakhjarl líknarfélagsins.  Ákærði kannaðist við að eignarhaldsfélagið eða líknarfélagið hafi greitt úttektir af umræddu kreditkorti.  Ákærði kannaðist við að hluti af úttektum þeim sem greinir í ákæru hafi tilheyrt honum persónulega.  Ákærði kvað bæði vistmenn og starfsmenn A hafa auk sín keypt aðföng og hefðu þeir í öllum tilvikum fengið reiðufé sem ákærði hafi látið þeim í té.  Hann kvað meðákærða margoft hafa hvatt fólk til að skila nótum vegna kaupanna.  Hann kvað vistmenn hafa verið um 25 til 30, oft eignalausir og hafi þeir fengið fjárhagsstuðning frá A, þó ekki í formi reiðufjár.  Þá hafi verið mikill kostnaður samfara námi vistmanna, oft tölvur á hverju herbergi og þá hafi verið rekið svokallað skólaútvarp.  Ákærði kvað eftir að rannsókn málsins lauk hafa haft tækifæri til að fara betur yfir úttektir og hefði þá komið í ljós að fleiri úttektir hefðu verið í þágu A en um getur í ákæru.

Meðákærði Jón Arnarr skýrði svo frá að ýmsir starfsmenn hefðu séð um að kaupa aðföng.   Hann kvað þá hafa greitt með reiðufé sem þeir hafi fengið hjá meðákærða.  Hann gat ekki svarað því af hvaða reikningi meðákærði tók féð.  Hann komst svo að orði að meðákærði X hafi verið A.

Niðurstaða.

Ákærði X hefur við rannsókn og meðferð málsins viðurkennt að hafa notað kreditkort einkahlutafélagsins til að greiða persónuleg útgjöld sín og var honum gefinn kostur á því við rannsókn málsins að gera sérstaka grein fyrir því í hvaða tilvikum útgjöldin voru í þágu A.  Hann kvað eftir að rannsókn málsins lauk hafa farið betur yfir úttektir og hafi þá komið í ljós að fleiri úttektir hafi verið í þágu A en byggt sé á í ákæru. 

Ekki verður fram hjá því litið að rekstur A var um margt sérstakur.  Ákærði byggir á því í greinargerð sinni að algengt hafi verið að hann tæki út fé til þess að standa straum af ýmsum kostnaði í þágu skjólstæðinga A, svo sem rekstrarkostnað bifreiða, lyfjakostnað, kostnað vegna fatnaðar, tóbaks o.fl.  Hafi fólk sem komið hafi í A verið nær undantekningalaust allslaust og þar til það hafi fengið greiddar bætur  eða styrki frá félagsmálayfirvöldum hafi það þurft á fjárstuðningi að halda.  Þá hafi töluvert verið um úttektir í verslunum sem selji tölvur og tölvubúnað.  Af þessum sökum er ekki unnt að hafna þeim framburði ákærða að þær úttektir sem í ákæru greinir og taldar eru í hans þágu hafi að einhverju leyti verið í þágu A.  Hins vegar verður að telja nægilega sannað með vísan til gagna málsins og framburðar ákærða að úttektirnar hafi að verulegu leyti verið í hans þágu án þess að unnt sé að staðreyna tiltekna fjárhæð í því sambandi.  Með þessari háttsemi sinni misnotaði ákærði aðstöðu sína til að skuldbinda einkahlutafélagið og varðar hún við 249. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður A. II.

Við rannsókn ríkislögreglustjóra á notkun kreditkorts númer 4548 9000 0063 2119, sem er Visareikningur ákærða X, vaknaði grunur um að ákærði hefði á árunum 2005 og 2006 lagt fjármuni frá líknarfélaginu A inn á reikning sinn nr. 135-26-1911 í þeim tilgangi að greiða kreditkortareikninga vegna persónulegra útgjalda sinna.  Ákærða var gefinn kostur á því við rannsókn málsins að skýra allar úttektir af kortinu á þessum tíma og merkti hann sérstaklega við þær úttektir sem verið hefðu í þágu A.  Aðrar úttektir sagði hann hafa verið í sína þágu og er þessi ákæruliður byggður á þeim framburði ákærða.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi notað jöfnum höndum sitt eigið kreditkort og kort A til þess að standa straum af útgjöldum sem tilheyrðu A.   Hann kannaðist við að hafa ekki gert sérstakan greinarmun á því hvort greiðsla tilheyrði honum persónulega eða A.  Hann kvaðst hafa lánað A fjármuni sem ekki hefðu verið færðir í bókhald sem skuld A og hefðu greiðslur að hluta farið til endurgreiðslu þeirra lána.   Hann kvað hafa komið fyrir að heimild á korti A hefði verið fullnýtt og hefði hann því orðið að nota sitt kort til úttekta.  Hann kvað heimild á hvoru korti hafa verið um 500.000 krónur.  Ákærði kvaðst hafa verið með um 450.000 krónur í mánaðarlaun. 

Niðurstaða.

Ákærði X hefur við rannsókn og meðferð málsins viðurkennt að hafa á árunum 2005 og 2006 lagt fjármuni frá líknarfélaginu A inn á framangreindan reikning sinn í þeim tilgangi að greiða kreditkortareikninga vegna persónulegra útgjalda sinna.   Ákærða var með sama hætti og greinir í ákærulið A.I. gefinn kostur á því við rannsókn málsins að gera sérstaka grein fyrir því í hvaða tilvikum útgjöldin voru í þágu A.  Hann kvað eftir að rannsókn málsins lauk hafa farið betur yfir úttektir og hafi þá komið í ljós að fleiri úttektir hafi verið í þágu A en byggt sé á í ákæru.  Af þessum sökum þykir varhugavert að hafna þeim framburði ákærða að þær úttektir sem í ákæru greinir og taldar eru í hans þágu hafi að einhverju leyti verið í þágu A.  Hins vegar verður að telja nægilega sannað með vísan til gagna málsins og framburðar ákærða að úttektirnar hafi að verulegu leyti verið í hans þágu án þess að unnt sé að staðreyna tiltekna fjárhæð í því sambandi.  Með þessari háttsemi sinni telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður A. III.

Þann 16. janúar 2007 lagði G fram kæru á hendur ákærða X fyrir að draga sér fé úr minningarsjóði um son hennar, C, en hann mun hafa látist [...] 2006.  Í tilkynningu um jarðarför C heitins kemur fram að blóm og kransar séu vinsamlegast afþakkaðir en þeim sem vilji minnast hans er bent á að láta A njóta þess.  Gefið er upp reikningsnúmerið [...], kt. [...].  Fram kemur á yfirliti yfir reikninginn að innstæða á honum sé 28 krónur 31. mars 2006, en síðan er engin færsla skráð fyrr en 14. júní sama ár en þann dag leggja þrír aðilar samtals 23.000 krónur inn á reikninginn.  Samdægurs er skráð millifærsla til ákærða að sömu fjárhæð.   Síðasta innlegg á reikninginn er skráð 30. október sama ár og hafa þá verið skráð innlegg samtals að fjárhæð 121.500 krónur, þar á meðal innlegg G 19. júní sama ár, 5.000 krónur.  Í nánast öllum tilvikum eru innleggin millifærð samdægurs á reikning ákærða X, samtals 96.500 krónur en í einu tilviki er skráð millifærsla á A ses., 25.000 krónur.  

Ákærði kannaðist ekki við að umræddur reikningur hefði verið reikningur aðstandenda C heitins.  Reikningurinn hefði verið stofnaður í Landsbankanum á [...] sem símasöfnunarreikningur og hefði stúlka nokkur safnað fé á reikninginn í nokkra daga.  Hann kvaðst því hafa tekið út fé af reikningnum í þeirri trú að um þessa símasöfnun væri að ræða og hefði féð verið notað í þágu A eða til greiðslu skulda A við ákærða.  Ákærði kannaðist ekki við að hafa gefið neinum aðstandendum C heitins upplýsingar um neitt reikningsnúmer og kvaðst ekki hafa haft hugmynd um þessa söfnun.  Þá kvaðst hann ekki hafa séð dánartilkynningu þar sem reikningsnúmerið hafi komið fram.   Ákærði mundi eftir því að móðir C heitins hafi haft samband við hann og spurt hvort hann  hefði eitthvað á móti því að stofnaður yrði söfnunarreikningur og hafi hann ekkert talið því til fyrirstöðu en ekkert hafi verið rætt inn á hvaða reikning ætti að leggja og kvaðst hann hafa talið að sá reikningur yrði í nafni aðstandenda. 

Meðákærði Jón Arnarr kannaðist ekki við að hafa gefið aðstandendum C heitins upplýsingar um reikninginn og hefði hann ekki verið í neinum samskiptum við fólkið.   

Vitnið G skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði talað við  ákærða X og tjáð honum að hún vildi gjarnan að stofnaður yrði reikningur vegna söfnunar í minningu sonar hennar sem hafi látist [...] 2006 og nýttur yrði í þágu skjólstæðinga A.  Hún kvað annan ákærðu hafa gefið henni upp bókarnúmer í Landsbankanum sem henni hafi verið sagt að væri á nafni A sem ekki væri notuð og mætti hún nota hana.  Hún kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um kennitölu reikningsins frá ákærðu heldur hafi þær komið frá starfsmanni bankans.  Hafi báðum ákærðu verið þetta mjög ljóst og hafi þeir samþykkt þessa tilhögun.   Hún kvaðst hafa haft samband við ákærða X í september sama ár og hafi henni þá verið kunnugt um að systir hennar hefði lagt inn á reikninginn.  Ákærði X hafi þá ekki kannast við að neitt hafi komið inn á reikninginn og hafi hann ekkert viljað ræða þetta við sig.  Hún kvaðst ekki hafa haft aðgang að þessum reikningi og ekki fengið reikningsyfirlit.  Hún kvað reikningsnúmer hafa verið sett í dánartilkynningu í samráði við ákærðu.   

Niðurstaða.

Ákærði hefur neitað því að hafa nokkuð vitað um þá fyrirætlun aðstandenda C heitins að nota umrædda bankabók í minningu hans, en hann kannaðist þó við að hafa rætt við móður hans og sagt henni að hann teldi ekkert því til fyrirstöðu að stofnaður yrði söfnunarreikningur.  G hefur staðfest að hún hafi fengið upplýsingar um bókarnúmerið frá öðrum ákærðu, en hvorugur ákærðu kannast við það. Ákærði kvað um símasöfnunarreikning að ræða og hefði stúlka nokkur safnað á reikninginn í nokkra daga og hefði hann staðið í þeirri trú að innlegg á reikninginn stöfuðu frá þessari söfnun.  Að mati dómsins er þessi skýring ákærða afar ótrúverðug.  Engin færsla er skráð á reikninginn frá 31. mars 2006 til 13. júní sama ár, en daginn eftir og í rúma fjóra mánuði eða til 30. október sama ár eru skráð innlegg samtals að fjárhæð 121.500 krónur.  Fær því vart staðist sú staðhæfing ákærða að safnað hefði verið á reikninginn í nokkra daga.  Þá er skráð innlegg frá móður C heitins, G þann 19. júní sama ár en ákærði hefur kannast við að hafa rætt við hana um söfnunarreikning.  Hefði innlegg frá henni á reikninginn átt að gefa ákærða tilefni til nánari skoðunar.  Allt að einu millifærði ákærði til sín samtals 96.500 krónur af reikningnum eins og að framan er rakið og telst því sannað að ákærði hafi gerst sekur um fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður A. IV.

Við rannsókn málsins kom í ljós að D hefði á árunum 2004 til 2006 safnað umtalsverðum fjárhæðum í þágu A ses. og afhent ákærða X.  Liggur fyrir að féð hafi verið millifært af reikningum líknarfélagsins E nr. [...] og nr. [...] á reikninga ákærða nr. [...] og nr[...].  Þá hefur því ekki verið mótmælt að ákærði hafi sjálfur tekið út af reikningi nr. [...] árið 2005 og D hafi lagt inn á reikning ákærða nr. [...] árið 2006.  Af hálfu ákærða hefur ekki verið mótmælt að með þessum hætti hafi samtals 4.296.200 krónur runnið til ákærða.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að D hafi séð um söfnun fyrir A með hléum í nokkur ár eða frá 2002 til 2006.  Hann kvaðst ekki muna hvort þessar safnanir hefðu verið tilkynntar til lögreglustjóra, en ákveðin hefð hefði verið fyrir því að fara til fyrirtækja á hverju ári og leita eftir fjárframlögum.  Hann kvaðst ekki hafa dregið sér þá fjármuni sem gerð sé grein fyrir í þessum ákærulið en um sé að ræða millifærslur til að standa straum af launakostnaði vegna vinnu ákærða í þágu A eða vegna útlagðs kostnaðar.  Ákærði kvaðst hafa treyst bókara sínum fyrir því að færa bókhald félagsins.  Aðspurður hvers vegna D lagði fé inn á persónulegan reikning ákærða árið 2006 gat hann ekki svarað því en hugsanlegt væri að um lán til ákærða hefði verið að ræða.  Ákærði kannaðist ekki við að hafa tekið við reiðufé af honum.  Ákærði tók fram að árið 2003 og 2004 hefði hann tekið 6 milljónir að láni út á húsið sitt til þess að greiða reikninga A og halda því gangandi og hefði þetta aldrei komið fram.  Hann kvaðst hafa átt fyrirtækið og hefði hann þurft að halda því gangandi í þágu fólksins á götunni.  

 Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði safnað fjármunum í þágu A á árunum 2004 til 2006.  Hann kvaðst hafa farið í fyrirtæki hringinn í kringum landið og kvað hann yfirleitt hafa verið lagt inn á reikning líknarfélagsins.  Það sem greitt hefði verið í reiðufé kvaðst hann hafa afhent ákærða X.  Hann kvaðst ekki hafa verið á föstum launum en fengið blessanir fyrir eins og hann komst að orði, eða frítt bensín, frían mat og reiðufé öðru hverju frá ákærða X.  Hann kannaðist við að hafa nokkrum sinnum lánað ákærða X fé af 200.000 króna yfirdrætti sem hann hafði í banka.  Hann kannaðist við að söfnunarféð hefði numið rúmum sex milljónum króna.   

Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi vitað til þess að D hafi lánað ákærða X fimm eða sex hundruð þúsund af eigin fé en ekki af söfnunarfé.  Hann gat ekki borið nánar um tilhögun safnananna.  Hann kannaðist við að hafa innheimt vistgjöld af þeim sem voru á örorku og kvaðst hann hafa afhent ákærða X þau í reiðufé.  Hann kannaðist við að ákærði hefði oft hjálpað vistmönnum og látið þá fá reiðufé.

Niðurstaða.

 Ákærði hefur ekki mótmælt því að hluti af söfnunarfénu hafi verið lagður inn á reikninga á hans nafni.  Hann kvaðst hins vegar ekki hafa dregið sér þá fjármuni sem gerð sé grein fyrir í þessum ákærulið en um sé að ræða millifærslur til að standa straum af launakostnaði vegna vinnu ákærða í þágu A eða vegna útlagðs kostnaðar.

Af þessum sökum er ekki unnt að hafna þeim framburði ákærða að þessi ráðstöfun söfnunarfjárins af hálfu ákærða hafi að einhverju leyti verið í þágu A.  Þá verður ekki litið fram hjá framburði D að hann hafi í einhverjum tilvikum verið að lána ákærða fé.  Síðbúnar skýringar ákærða sem lúta að lánveitingum hans til A eru ekki studdar gögnum og verður þeim því hafnað.  Hins vegar verður að telja nægilega sannað með vísan til gagna málsins, framburðar ákærða og þeirra raka er greinir í ákæruliðum A.I og AII.  að hann hafi að verulegu leyti nýtt féð í eigin þágu án þess að unnt sé að staðreyna tiltekna fjárhæð í því sambandi.  Með þessari háttsemi sinni hefur ákærði gerst sekur um fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður B. I.

Við rannsókn málsins kom í ljós að grunur lék á því að af hálfu líknarfélagsins A ses. hefði ekki verið skilað skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda á árunum 2004 til 2006 og jafnframt að af hálfu félagsins hefði ekki verið staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna sömu ára.  Var talið að hin vantöldu laun næmu 9.648.182 krónum og vangoldin staðgreiðsla af þeim 3.611.649 krónur.  Eins og áður hefur verið rakið var ákærði X stjórnarformaður félagsins og ákærði Jón Arnarr meðstjórnandi.  

Ákærði X gat ekki skýrt hvers vegna skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og vegna launagreiðslna félagsins var ekki skilað.  Hann kvaðst ekki hafa fylgst með bókhaldsmálum fyrirtækisins en taldi sig hafa gert sér grein fyrir ábyrgð sinni sem stjórnarformaður.  Hann kvaðst hafa haft fólk í kringum sig sem hann treysti en hann kvaðst ekki hafa fylgst með færslu bókhaldsins.   Hann kvaðst ekki hafa falið meðákærða þessi störf.  Ákærði tók fram að hann hefði ekki verið á launaskrá hjá A, hann hefði unnið sem verktaki eftir að honum hafi veri bent á hagkvæmni þess af skattyfirvöldum.  Hann hefði hins vegar talið fram sem launþegi síðasta árið sem A var í rekstri.  

Ákærði Jón Arnarr skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið stjórnarmaður í eignarhaldsfélaginu og líknarfélaginu.  Hann kvaðst hafa séð um greiðslu reikninga, haldið fyrirlestra o. fl.  Hann kvaðst hafa aðstoðað bókara við bókhald með því að halda reikningum til haga að því er varðaði merkingar og færslur.  Hann kvað laun sín  hafa verið breytileg, allt frá núlli að hálfri milljón á mánuði.  Hann kvað sér ekki hafa verið falið að skila skilagreinum eða standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda.

Vitnið F skýrði svo frá dómi að hann hefði fengið það verkefni að sjá um bókhald A.  Hann kvað ákærðu X og Jón Arnarr hafa séð um daglega fjármálastjórn félagsins en hann hefði séð um bókhaldið undir stjórn þeirra eitthvað á annað ár.  Hann kvaðst hafa fengið pappíra frá þeim, merkt þá og reynt að koma þeim í bókhaldshorf.  Hann kvaðst ekki hafa vitað hver sá um skattskil félagsins.  Hann kvaðst hafa haft tilfinningu fyrir því að miklar brotalamir hafi verið á bókhaldinu, heildsteypta yfirsýn hafi vantað.  Mikið hafi vantað í það og hafi hann reynt að gera sem best úr því sem hann hafi fengið í hendurnar.  Hann kvaðst hafa vakið athygli ákærðu á þessu en mundi ekki sérstaklega eftir viðbrögðum þeirra.  Hann kvaðst fyrsta árið hafa fengið öll gögn um safnanir en síðan hafi hann ekkert vitað af þeim.  Þá kvaðst hann hafa fengið fylgiskjal með upplýsingum um greidd vistgjöld en hann kvaðst ekki hafa haft hugmynd um hvernig greiðslu þeirra hafi verið háttað.  Hann kvaðst ekkert hafa komið nálægt launagreiðslum, aðeins rekstrargjöldum.  Þá kvaðst hann ekki vita um færslu bókhalds vegna bifreiðahlunninda og hann hafi ekki komið nálægt því að skila skilagreinum.  Hann kvaðst ekki vita hvers vegna ákærði X væri verktaki en ekki launþegi.  Hann gat ekki borið um kreditkortanotkun, aðeins fengið yfirlit og reynt að vinna úr þeim.  Hann kvað ýmsar úttektir ákærða X hafa verið þess eðlis að ekki hefði annað komið til greina en að færa þær sem laun til hans.  Vitnið kvaðst hafa starfað hjá A þar til starfsemi þess hafi verið lögð niður.  Hann kvaðst hafa talið fram fyrir ákærða X persónulega en ekki að öllu leyti fyrir félagið.  

Niðurstaða.

Ákærði X gat ekki skýrt hvers vegna skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og vegna launagreiðslna félagsins var ekki skilað og þá kvað ákærði Jón Arnarr að sér hefði ekki verið falið að skila skilagreinum eða standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda.  Ákærði X kvaðst hafa treyst öðrum til þess að annast þessi skil en bókari félagsins hefur borið að hann hafi ekki vitað hver hafi átt að sjá um skattskilin.  Ákærði X byggir á því í greinargerð sinni að hann hafi eftir að dómsmeðferð málsins hófst lagt fram framtal vegna tekjuársins 2006 og beri framtalið með sér að tekjur ákærða hafi verið hærri en gert sé ráð fyrir í ákæru.  Kemur fram í framtalinu að tekjur hans árið 2006 frá A ses. hafi numið 5.619.455 krónum.  Starfsemi A var hætt um áramótin 2006/2007 og hófst rannsókn skömmu síðar á fjármálum þess.  Eftir þann tíma höfðu ákærðu ekki aðgang að bókhaldi félagsins. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að standa varð skil á staðgreiðslu vegna ársins 2006 á því ári.  Ákærðu báru ábyrgð á því að standa skil á skilagreinum og staðgreiðslu opinberra gjalda, ákærði X sem stjórnarformaður félagsins og ákærði Jón Arnarr sem meðstjórnandi.  Það leysir ákærðu ekki undan ábyrgð að hafa talið það í verkahring annarra að annast þessar skyldur og er sök þeirra því sönnuð og brot þeirra rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæruliður B. II.

Við rannsókn málsins kom í ljós að árið 2004 var samkvæmt ökutækjaskrá bifreiðin [...] af gerðinni [...] í eigu A ses. og árið 2005 var bifreiðin [...], [...] jafnframt í eigu félagsins.  Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra kom fram að ákærði X hefði notað bifreiðarnar í akstur til og frá vinnu og hefði A greitt rekstrarkostnaðinn af þeim.  Við útreikning skattrannsóknarstjóra var miðað við bifreiðaskrá ríkisskattstjóra vegna skattmats í staðgreiðslu bifreiðahlunninda og talið að tímabil notkunar bifreiðarinnar [...] hafi samkvæmt upplýsingum ákærða verið frá 13. maí 2004 til 14. september sama ár og reiknuð bifreiðahlunnindi því 275.137 krónur.  Þá hafi tímabil notkunar bifreiðarinnar [...] samkvæmt upplýsingum ákærða verið frá 21. mars 2005 til ársloka sama ár og reiknuð bifreiðahlunnindi af þeirri bifreið því 1. 287.548 krónur. 

Ákærði X kvaðst hafa notað umræddar bifreiðar ásamt öðrum en kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að hann hefði átt að telja hlunnindi af notkun þeirra til skatts og hefði enginn bent honum á að þetta væri nauðsynlegt.  Ákærði tók fram að hann hefði skilað skattframtali vegna ársins 2006 um leið og hann vissi hvað hann hafði í laun.  Í því framtali hefði hann gert grein fyrir bifreiðahlunnindum sínum.  Þá kvaðst ákærði sjálfur hafa staðið straum af sendiferðabifreið í hans eigu sem notuð hefði verið í þágu A.

Meðákærði Jón Arnarr kannaðist við að sendibifreið í eigu ákærða X hefði verið notuð til flutninga á matvælum við A.  

Niðurstaða.

Ákærði bendir á það í greinargerð sinni og hér fyrir dómi að hann hafi ekki notað bifreiðarnar einn.  Hann hafi ekið milli heimilis og vinnu en að öðru leyti hafi þær verið til afnota fyrir starfsfólk A hvenær sem þurfti.  Ákærði hafi einnig átt aðrar bifreiðar sem nýttar hafi verið í þágu A.

Hlunnindi eins og hér um ræðir teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og bar ákærða að gera grein fyrir því hvernig afnotum hans af bifreiðunum var háttað.  Sannað er með framburði ákærða X og öðrum gögnum málsins að hann hafi látið undir höfuð leggjast að telja umrædd bifreiðahlunnindi sín fram til skatts eins og honum er gefið að sök í þessum lið ákærunnar og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.

Ákæruliður B. III.

Við rannsókn skattrannsóknarstjóra vaknaði grunur um að ákærði Jón Arnarr hefði notið bifreiðahlunninda frá A líknarfélagi ses. án þess að skattyfirvöldum væri gerð grein fyrir því.  Kom í ljós að árin 2004 og 2005 var samkvæmt ökutækjaskrá bifreiðin [...] af gerðinni [...] í eigu eignarhaldsfélags B.   Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra kom fram að ákærði Jón Arnarr hefði haft bifreiðina til afnota frá 7. maí 2004 til 29. september 2006.   Við útreikning skattrannsóknarstjóra var miðað við bifreiðaskrá ríkisskattstjóra vegna skattmats í staðgreiðslu bifreiðahlunninda og talið að tímabil notkunar bifreiðarinnar hafi samkvæmt upplýsingum ákærða verið frá 7. maí 2004 til ársloka sama ár og allt árið 2005.  Hafi reiknuð bifreiðahlunnindi því verið samtals 1.200.388 krónur. 

Við rannsóknina vaknaði einnig grunur um að ákærði hefði vantalið launatekjur sínar frá A vegna tekjuársins 2005 um 2.532.318 krónur, en samkvæmt skattframtali vegna þess tekjuárs kemur fram að ákærði hafi haft 1.400.000 krónur í launatekjur frá A.

Ákærði Jón Arnarr kannaðist við að hafa notað bifreiðina [...] en kvaðst ekki hafa vitað að hann ætti að gefa hlunnindi vegna hennar upp til skatts.   Hann kvað hlutverk sitt hafa verið að vera til taks á bifreiðinni hvenær sem væri sólarhringsins.  Bifreiðin væri eign eignarhaldsfélagsins en ekki líknarfélagsins sem hafi greitt honum laun.  Hann kvaðst ekki skilja hvernig á því standi að hann eigi bæði að fá laun fyrir að vera á bílnum og síðan að greiða skatt af sama bíl.  Að því er vantaldar tekjur varðar kvaðst hann ekki hafa áttað sig á því þegar hann taldi fram tekjur að A hafi verið búið að endurgreiða honum 1.600.000 króna lán hans til félagsins.      

Ákærði X kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að meðákærða væri skylt að telja fram bifreiðahlunnindi vegna nota sinna af bifreiðum fyrirtækisins.  Vitnið kvað bifreiðina [...] hafa verið notaða jöfnum höndum af starfsmönnum A, ekki eingöngu meðákærða.

Niðurstaða.

Hlunnindi eins og hér um ræðir teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og bar ákærða að gera grein fyrir því hvernig afnotum hans af bifreiðinni var háttað.  Sannað er með framburði ákærða Jóns Arnarr og öðrum gögnum málsins að hann hafi látið undir höfuð leggjast að telja umrædd bifreiðahlunnindi sín fram til skatts eins og honum er gefið að sök í þessum lið ákærunnar.  Þá telst einnig nægilega sannað með framburði ákærða og öðrum gögnum málsins að hann hafi vanframtalið tekjur sínar eins og nánar greinir í ákæru.  Er háttsemi ákærða þar rétt færð til refsiákvæða.

Ákæruliður B. IV.

Við rannsókn skattrannsóknarstjóra á bókhaldi líknarfélagsins A ses. vegna áranna 2004 til 2006 vaknaði grunur um að því væri áfátt í veigamiklum atriðum og grunnur þess ótraustur.  Það væri ekki skipulega fært og mikilvægir tekjuliðir ekki færðir.  Þá vanti fjölda fylgiskjala sem liggja eigi að baki færslum í bókhaldi.  Þá séu gjaldfærslur í bókhaldinu sem ekki byggi á áreiðanlegum og fullnægjandi gögnum sem rekja megi til viðskiptanna.  Þá hafi verið vanrækt að færa í bókhaldið greidd vistgjöld og tekjur vegna safnana.

Ákærði X kvaðst ekkert hafa komið að bókhaldi fyrirtækisins og hélt að gögn væru varðveitt á skrifstofunni og hefði hann talið að hann væri með fólk í vinnu sem hann hefði treyst.  Hann kvaðst ekki hafa fylgst með störfum þess að þessu leyti.

Ákærði Jón Arnarr kannaðist ekki við að hafa ekki varðveitt fylgiskjöl með fullnægjandi hætti.  Hann fullyrti að fylgiskjölum hefði verið haldið til haga fyrir bókhald og hefði öllum gögnum verið skilað til bókarans.   Ákærði kvaðst ekki hafa verið ráðinn til að færa bókhaldið.  Hann kvaðst hafa séð um útgáfu reikninga til Félagsþjónustunnar og Fangelsismálastofnunar og staðfest vistun viðkomandi einstaklinga.  Hann kvaðst aldrei hafa séð tekjur vegna safnana.

Niðurstaða.

Ákærði X hefur borið að hann hafi ekkert komið nálægt bókhaldi A og hafi hann treyst öðrum fyrir því verki.  Ákærði Jón Arnarr kvaðst ekki hafa verið ráðinn til að annast bókhaldið en taldi að fylgiskjölum hefði verið haldið til haga og öllum gögnum skilað til bókarans. 

Telja verður með hliðsjón af gögnum málsins nægilega sannað að rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi leitt í ljós að verulegar brotalamir hafi verið á bókhaldinu eins og nánar er rakið í ákæru.   Varnir ákærðu hafa ekki lotið að því að færsla bókhaldsins hafi verið hnökralaus en þeir báru ábyrgð á því að bókhaldið væri fært með fullnægjandi hætti og fylgiskjölum haldið til haga, ákærði X sem stjórnarformaður félagsins og ákærði Jón Arnarr sem meðstjórnandi.  Það leysir ákærðu ekki undan ábyrgð að hafa talið það í verkahring annarra að annast þessar skyldur og er sök þeirra því sönnuð og brot þeirra rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákvörðun viðurlaga.

Samkvæmt sakavottorði ákærða X var hann með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 4. desember 2008 dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn 197. gr. almennra hegningarlaga.  Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin áður en sá dómur féll og ber því að ákveða honum hegningarauka í samræmi við ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga.    

Samkvæmt sakavottorði ákærða Jóns Arnarr var hann sektaður og sviptur ökurétti  árið 1999 fyrir ölvunarakstur og 19. október 2006 var hann einnig sektaður og sviptur ökurétti fyrir sams konar brot.  Þann 15. mars var hann sektaður um 80.000 krónur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga og 23. febrúar 2009 var honum gert að greiða 100.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. sömu laga.  Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin áður en hann gekkst þrjár síðastgreindar sektarákvarðanir og ber því að ákveða honum hegningarauka í samræmi við ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda skal hver sá launagreiðandi sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil sín, hefur ekki haldið eftir fé af launagreiðslum eins og honum bar, hefur ekki afhent skilagreinar á lögmæltum tíma eða ekki innt af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir, greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem hann vanrækti að halda eftir eða standa skil á og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni.  Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt skal skattskyldur maður sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni.

Ákærði X hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir fjárdrátt og umboðssvik sem nema verulegum fjárhæðum og jafnframt fyrir meiri háttar bókhaldsbrot og þar að auki fyrir brot gegn lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda eins og að framan er rakið.  Með hliðsjón af því að um hegningarauka á tveggja og hálfs árs fangelsi er að ræða þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði.  Þá ber með vísan til þeirra ákvæða laga um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda er að framan greinir að dæma ákærða X til greiðslu sektar að fjárhæð 8.000.000 krónur og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði Jón Arnarr hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot og þar að auki fyrir brot gegn lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda eins og að framan er rakið.  Með hliðsjón af því að um hegningarauka  er að ræða þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði en fullnustu hennar skal fresta og hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.  Þá ber með vísan til þeirra ákvæða laga um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda er að framan greinir að dæma ákærða Jón Arnarr til greiðslu sektar að fjárhæð 8.000.000 krónur og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til greiðslu málsvarnarlauna verjenda sinna.  Þykja málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Hilmars Baldurssonar hdl. og þóknun vegna starfa hans við rannsókn  málsins hæfilega ákveðin 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Jóns Arnarr, Brynjars Níelssonar hrl., þykja hæfilega ákveðin 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.  Ekki er að sjá að annan sakarkostnað hafi leitt af meðferð málsins.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og sakflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 9 mánuði.

Ákærði  X greiði sekt að fjárhæð 8.000.000 krónur og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði Jón Arnarr Einarsson sæti fangelsi í 4 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal fresta og hún niður falla að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði  Jón Arnarr greiði sekt að fjárhæð 8.000.000 krónur og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar hdl., 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Jón Arnarr greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.