Hæstiréttur íslands

Mál nr. 498/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Krafa
  • Lán
  • Gengistrygging
  • Greiðsla
  • Forsenda


Miðvikudaginn 2. október 2013.

Nr. 498/2013.

Anna Brynja Ísaksdóttir og

Tómas Ottó Hansson

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

SPB hf.

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Krafa. Lán. Gengistrygging. Greiðsla. Forsendur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa SPB hf. var viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við skipti á þrotabúi SM ehf. A og T höfðu verið eigendur alls hlutafjár í SM ehf. og höfðu einnig lýst kröfu í bú félagsins. Kröfu sína í málinu byggði SPB hf. á tveimur lánssamningum. Skuld samkvæmt þeim var tryggð með handveði í 38% eignarhlut SM ehf. í félögunum Sp ehf. og Sb ehf. vegna skulda allra félaganna þriggja við bankann. Leysti SPB hf. síðar hina handveðsettu hluti SM ehf. í félögunum tveimur til sín með tilkynningu til SM ehf. miðað við fyrirliggjandi verðmat V hf. Aðila greindi m.a. á um hvort um hafi verið að ræða lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Með vísan til ýmissa dóma réttarins sem gengið höfðu um sambærileg álitaefni komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að um skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli væri að ræða sem ekki færi gegn ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Aðila greindi einnig á um hvort í áðurnefndri tilkynningu SPB hf. til SM ehf. hafi falist bindandi yfirlýsing um það verð sem hann leysti umrædda hluti til sín á. Taldi Hæstiréttur efni tilkynningarinnar hafa verið skýrt og afdráttarlaust. Henni hafi verið beint til forsvarsmanns SM ehf. og væri bindandi samkvæmt efni sínu fyrir SPB ehf. Bankinn hafi verið upplýstur um breyttan hag og bága fjárhagsstöðu félaganna Sp ehf. og Sb ehf. auk þess sem hann hafði gert reka að því að afla frekari upplýsinga um stöðu þeirra. Hefði SPB hf. því haft allar forsendur til að leggja mat á verðmæti hinna veðsettu hluta. Yrði ekki fallist á að umrædd tilkynning væri ekki skuldbindandi vegna rangra eða brostinna forsenda eða með vísan til 32. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá greindi aðila á um hvernig ráðstafa ætti þeirri fjárhæð milli félaganna sem gengju upp í þær skuldir sem framangreint handveð stóð til tryggingar á. Taldi Hæstiréttur að áðurnefnd tilkynning yrði ekki skilin á annan hátt en þann að þar hafi með bindandi hætti af hálfu SPB hf. verið tilkynnt um að andvirði veðsins gengi til niðurgreiðslu skulda allra félaganna þriggja. Ráðstafa skyldi greiðslunni upp í skuldir félaganna í sama hlutfalli og verið hafði milli fjárhæðar þeirra skulda félaganna við forvera SPB hf. sem handveðunum hafði verið ætlað að tryggja. Komu þessar fjárhæðir því til lækkunar kröfu SPB hf. við skipti á þrotabúi SM ehf. og voru eftirstöðvar hennar viðurkenndar í réttindaröð sem almenn krafa.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2013, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 194.783.339 krónur var viðurkennd í réttindaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við skipti á þrotabúi SevenMiles ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreindri kröfu varnaraðila hafnað, en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefjast þau þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

SevenMiles ehf., sem áður bar heitið T.O.H. ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2009. Varnaraðili lýsti kröfu í bú félagsins vegna tveggja lánssamninga samtals að fjárhæð 194.793.339 krónur. Sóknaraðilar, sem verið höfðu eigendur alls hlutafjár í félaginu, sóknaraðilinn Anna Brynja eigandi 82% en sóknaraðilinn Tómas Ottó eigandi 18%, lýstu jafnframt kröfum í búið. Á skiptafundi 19. september 2012 voru 194.783.339 krónur af kröfu varnaraðila samþykktar í réttindaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðilar mótmæltu kröfu varnaraðila og afstöðu skiptastjóra til hennar og þar sem ekki tókst að jafna þann ágreining beindi skiptastjóri honum til Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2012.

II

Kröfur varnaraðila í þrotabú SevenMiles ehf. voru, eins og áður segir, vegna tveggja lánssamninga. Sá fyrri var dagsettur 30. ágúst 2004. Hann bar fyrirsögnina: „Lánssamningur (Lán í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum)“. Í aðfararorðum samningsins sagði að Sparisjóðabanki Íslands, forveri varnaraðila, og T.O.H. ehf. geri með sér „svofelldan lánssamning um fjölmyntalán að jafnvirði: KR. 83.500.000 ---áttatíuogþrjármilljónirogfimmhundruðþúsund íslenskra króna---„ Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi lánið endurgreitt með jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. janúar 2006, þannig að 1/22 hluti upphaflegs höfuðstóls skyldi greiddur á hverjum gjalddaga. Þar var einnig kveðið á um að við greiðslu á lánshluta í erlendri mynt skyldi lántaki greiða inn á gjaldeyrisreikning sem lánveitandi tilgreindi hverju sinni þegar greitt væri í viðkomandi erlendri mynt en væri greitt í íslenskum krónum skyldi miða við sölugengi lánveitanda á gjalddaga. Lánshluti í erlendum myntum skyldi samkvæmt 3. gr. samningsins bera vexti sem væru „þriggja mánaða REIBOR/LIBOR/EURIBOR vextir“ eins og þeir ákvörðuðust fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni að viðbættu 3% vaxtaálagi. Í fleiri en einni grein samningsins var þannig gert ráð fyrir að lánshlutar kynnu að vera í erlendri mynt, en hvorki var í samningum tilgreint um hvaða erlendar myntir væri að ræða, né hver væri upphæð hverrar þeirrar eða hlutfall af heildarfjárhæð lánsins. Varnaraðili kveður ádrátt á lánið aldrei hafa orðið hærri en jafnvirði 63.500.000 íslenskra króna. Vísar hann um myntsamsetningu lánsins til kaupkvittana dagsettra 24. september 2004, en af þeim verður ráðið að lánið hafi í upphafi verið miðað við tiltekna upphæð í hverri eftirtalinna mynta: bandaríkjadölum, evrum, japönskum jenum og íslenskum krónum.

 Með samningi 29. nóvember 2005 var skilmálum lánssamningsins breytt. Skyldi höfuðstól skuldarinnar „myntbreytt og sundurliðast nú í eftirfarandi erlendar fjárhæðir“, sem síðan voru tilgreindar í tölustöfum og bókstöfum sem 8.884.027 íslenskar krónur, 184.719,36 svissneskir frankar og 16.564.856,27 japönsk jen. Þá skyldi skuldin bera vexti sem væru þriggja mánaða REIBOR/EURIBOR –vextir af viðkomandi gjaldmiðli með 2,5% vaxtaálagi, en að öðru leyti skyldu skilmálar lánsins haldast óbreyttir. Með viðauka við lánssamninginn 17. febrúar 2009 var endurgreiðsluferli lánsins frestað um sex mánuði.

Síðari lánssamningurinn var dagsettur 11. febrúar 2005. Fyrirsögn hans var samhljóða fyrri samningnum, en í aðfararorðum hans sagði að aðilar hefðu gert með sér „samning um lán að fjárhæð allt að: ISK 20.000.000 ... EUR 185.800 ... USD 119.600 ... JPY 12.633.000“. Skuldin skyldi endurgreidd að fullu ásamt vöxtum 15. febrúar 2007. Skyldi lánið bera vexti sem svöruðu tólf mánaða LIBOR/EURIBOR-vöxtum með 6% álagi. Samið var um skilmálbreytingu lánsins 29. nóvember 2005 og skyldi höfuðstóll skuldarinnar eftirleiðis sundurliðast í 185.800 evrur, 119.600 bandaríkjadali, 34.112.159 japönsk jen og 239.520 svissneska franka. Þá var vaxtaákvæði samningsins breytt þannig að vextir skyldu miðast við tólf mánaða LIBOR/EURIBOR-vexti með 3,25% álagi. Með skilmálabreytingu 15. janúar 2007 var gjalddaga lánsins frestað til 18. febrúar 2009 og enn til 18. ágúst 2009 með skilmálabreytingu 17. febrúar 2009.

SevenMiles ehf. átti 38% eignarhlut í einkahlutafélögunum Spori og Sporbaugi. Forveri varnaraðila veitti báðum þessum félögum lán, Sporbaugi ehf. í febrúarmánuði 2005 og Spori ehf. í febrúarmánuði 2009. Með tveimur yfirlýsingum 2. febrúar 2009 setti SevenMiles ehf. eignarhluta sína í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. að handveði til tryggingar greiðslu á öllum fjárskuldbindingum félagsins, sem og fjárskuldbindingum Sporbaugs ehf. og Spors ehf. við forvera varnaraðila. Samkvæmt handveðsyfirlýsingunum var veðhafa meðal annars heimilt, ef vanskil yrðu á skuldunum, að „leysa til sín hina veðsettu hluti og koma þeim í verð á hvern þann hátt, sem hann kýs og ráðstafa söluandvirði þess.“ 

Meðal gagna málsins er svonefnt þrekpróf sem unnið var af fyrirtækjasviði VBS fjárfestingarbanka hf. í maí 2009 fyrir hluthafa í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. Miðað við tilgreindar forsendur var niðurstaða matsins að virði Spors ehf. væri 295 milljónir króna en virði Sporbaugs ehf. 816 milljónir króna. Í fyrirvara við matið var tekið fram að upplýsinga sem skýrslan byggði á hafi verið aflað hjá fyrirsvarsmönnum félaganna og fjárfestingarbankinn ábyrgðist ekki áreiðanleika þeirra upplýsinga.

Með bréfi sem stjórnarformaður Spors ehf. og Sporbaugs ehf. ritaði 7. september 2009 til tveggja aðal lánardrottna félaganna, forvera varnaraðila og VBS fjárfestingarbanka hf., var tilkynnt að félögin hefðu selt stóran hluta vörubirgða sinna til þriðja félagsins gegn yfirtöku þess félags á skuldum við kröfuhafa sem veð átti í vörubirgðunum. Var bágri fjárhagsstöðu félaganna nánar lýst í bréfinu og forvera varnaraðila boðið að ganga til frjálsra nauðasamninga á þann hátt að hann fengi annað hvort greidd 35% af kröfum sínum án dráttarvaxta eða 170 milljónir króna gegn því að falla frá öllum kröfum á bæði félögin. Bréfi þessu var svarað af hálfu forvera stefnda 10. september 2009 þar sem beðið var í 21 lið um nánari upplýsingar til þess að taka mætti afstöðu til erindisins. Verður ráðið af gögnum málsins að umbeðnar upplýsingar hafi verið veittar á fundi 20. sama mánaðar.

 Með bréfum 10. september 2009 til SevenMiles ehf., Sporbaugs ehf. og Spors ehf. tilkynnti forveri varnaraðila um gjaldfellingu allra lánasamninga félaganna þriggja vegna vanefnda.

Með bréfi forvera varnaraðila 7. október 2009 til SevenMiles ehf. var félaginu tilkynnt „að gengið hafi verið að veðum“. Í upphafi bréfsins var vísað til fyrrgreindra yfirlýsinga SevenMiles ehf. 2. febrúar 2009 um handveðsetningu á 38% eignarhlut félagsins í  Sporbaugi ehf, og 38% eignarhlut félagsins Spori ehf. til tryggingar fjárskuldbindingum félaganna þriggja. Þá var vísað til nánar tilgreindra lánssamninga félaganna þriggja við forvera varnaraðila og framangreindra tilkynninga um gjaldfellingu lánanna. Síðan sagði í bréfinu: „Með heimild í framangreindum handveðssamningum hefur Sparisjóðabankinn tekið til sín ofangreinda hluti í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. til niðurgreiðslu skuldar SevenMiles ehf., Sporbaugs ehf. og Spors ehf. við Sparisjóðabankann, samkvæmt ofangreindu og tilvitnuðum gögnum. Bankinn leysti til sín hlutina í Sporbaugi ehf. og Spori ehf. hinn 9. september 2009 miðað við fyrirliggjandi verðmat VBS fjárfestingarbanka hf. á félögunum, frá því í apríl 2009, þ. e. virði 32% hlutar í Spori ehf. samtals ISK 110.200.000 og virði 32% hlutar í Sporbaugi ehf. samtals ISK 310.080.000.“

Það 32% hlutfall hlutafjár í Sporbaugi ehf. og Spori ehf. sem tilgreint er í lok bréfsins er bersýnilega misritun, enda er í upphafi bréfsins réttilega vísað til þess að handveðið tók til 38% hlutafjár í félögunum og tilgreindar fjárhæðir í lok bréfsins samsvara 38% af verðmati VBS fjárfestingarbanka hf. á hvoru félagi um sig.

III

Aðila greinir á um hvort framangreind lán forvera varnaraðila til SevenMiles ehf. hafi verið lán í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var því slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Frá þeim tíma hefur rétturinn kveðið upp marga dóma, þar sem á það hefur reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan óheimila hátt hefur verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði tekur ekki til. Af þeim meiði eru meðal annars dómar réttarins 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012 og 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012, en í þeim öllum var deilt um samninga um lán, sem tilgreind voru sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilteknum erlendum gjaldmiðlum, og var þess þá einnig getið hvert hlutfall hvers erlends gjaldmiðils ætti að vera af fjárhæð lánsins. Í þessum tilvikum var litið svo á að orðalag í samningi um skuldbindingu í þessari mynd dygði ekki eitt sér til að komast að niðurstöðu, heldur þyrfti jafnframt í því sambandi að líta til þess einkum hvernig aðilar samningsins hefðu í raun efnt hann hvor fyrir sitt leyti. Í  fyrrnefndum samningi 30. ágúst 2004 var fjárhæð lánsins sem SevenMiles ehf.  tók hjá Sparisjóðabanka Íslands ehf. tilgreind með því einu að hún væri „að jafnvirði KR 83.500.000“. Þótt komið hafi fram í fyrirsögn samningsins að hann væri „lán í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum“ var hvergi í honum sagt til um hvort hann kæmi til með að verða í einhverjum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hverjir þeir gjaldmiðlar þá yrðu og með hvaða fjárhæð í hverjum þeirra eða hlutfalli af fjárhæðinni í íslenskum krónum. Með því að eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint var tilgreind í lánssamningnum, var í íslenskum krónum getur engum vafa verið háð að hann tók eingöngu til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 að binda gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. dóm Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012.

Skilmálum framangreinds láns var breytt 29. nóvember 2005 þannig að höfuðstól þess var myntbreytt og skyldi hann nú greinast í þrjár myntir, íslenskar krónur, svissneska franka og japönsk jen og var fjárhæð höfuðstóls lánshlutans í hverri þessara mynta tilgreind í tölustöfum og bókstöfum. Með þessari skilmálabreytingu sömdu aðilar að lánssamningnum um breytingu á tilgreiningu þeirra gjaldmiðla sem mynduðu höfuðstól lánsins. Verður að meta sjálfstætt eftir efni og orðalagi samningsins um skilmálabreytinguna, óháð þeirri niðurstöðu sem að framan getur um lögmæti upphaflegra skilmála lánsins, hvort sá hluti lánsins sem í skilmálabreytingunni var tilgreindur í erlendum myntum teldist eftirleiðis vera gild skuldbinding í þeim myntum eða skuldbinding í íslenskum krónum sem bundin hefði verið gengi erlendra gjaldmiðla með óheimilum hætti. Svo sem greint er í forsendum áðurgreindra dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn ákvæðum laga nr. 38/2001. Í texta skilmálabreytingarinnar kemur fjárhæð skuldbindingar skuldara skýrt fram. Þar er fjárhæð höfuðstóls skuldar í hinum erlendu myntum tilgreind án nokkurrar tilvísunar til íslenskrar krónu eða jafnvirðisviðmiðunar við hana. Að því virtu verður lagt til grundvallar að eftir skilmálabreytinguna hafi verið um að ræða gilt lán í svissneskum frönkum, japönskum jenum og íslenskum krónum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar  2. maí 2013 í máli nr. 715/2012 og að sínu leyti dóm réttarins 3. nóvember 2011 í máli nr. 520/2011.

Í texta síðari lánssamnings forvera varnaraðila og SevenMiles ehf. frá 11. febrúar 2005 var fjárhæð þeirra erlendu mynta; evru, bandaríkjadals og japansks jens, sem, auk tiltekinnar fjárhæðar íslenskra króna, mynduðu höfuðstól lánsins tilgreind á sama hátt og í fyrrnefndri skilmálabreytingu án nokkurrar tilvísunar til íslenskrar krónu eða jafnvirðisviðmiðunar við hana. Skuldbinding samkvæmt þessum lánssamningi fer því, með vísan til þess sem að framan segir, ekki gegn ákvæðum laga nr. 38/2001. Hið sama á við um skuldbindingu samkvæmt skilmálabreytingu á því láni 29. nóvember 2005 enda voru fjárhæðir þeirra erlendu gjaldmiðla sem þar var um samið að mynda skyldi höfuðstól lánsins tilgreindar á sama hátt.

IV

Í annan stað greinir aðila á um hvort falist hafi í tilkynningu forvera varnaraðila til SevenMiles ehf. 7. október 2009 bindandi yfirlýsing um það verð sem hann leysti hina handveðsettu hluti í Sporbaugi ehf. og Spori ehf. til sín á. Efni tilkynningarinnar er rakið hér að framan. Samkvæmt texta hennar var forsvarmanni SevenMiles ehf. tilkynnt að bankinn hafi með heimild í framangreindum handveðsyfirlýsingum „tekið til sín“ hina veðsettu hluti í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. Þá er því lýst yfir að bankinn hafi „leyst til sín“ umrædda hluti „hinn 9. september 2009 miðað við fyrirliggjandi verðmat VBS fjárfestingarbanka hf. á félögunum, frá því í apríl 2009“ og sé virði hlutanna í Spori ehf. samtals 110.200.000 krónur en virði hlutanna í Sporbaugi ehf. samtals 310.080.000 krónur. Samkvæmt orðanna hljóðan leysir bankinn hlutina til sín á þar tilgreindu verði. Efni tilkynningarinnar er skýrt og afdráttarlaust og verður ekki túlkað á þann hátt að í því felist það eitt að bankinn hafi tekið umráð hlutanna til að koma þeim í verð sem síðan gengi til greiðslu skulda sem veðinu var ætlað að tryggja. Tilkynningunni var beint til forsvarsmanns SevenMiles ehf. og er hún bindandi samkvæmt efni sínu fyrir varnaraðila.

 Fyrir liggur að þegar bankinn sendi SevenMiles ehf. tilkynninguna 7. október 2009 hafði bankinn verið upplýstur um breyttan hag og bága fjárhagsstöðu Spors ehf. og Sporbaugs ehf., sbr. fyrrgreint bréf stjórnarformanns félaganna 7. september 2009 og hafði bankinn gert reka að því að afla frekari upplýsinga um stöðu þeirra. Hafði forveri varnaraðila, sem var fjármálastofnun, því allar forsendur til að leggja mat á verðmæti hinna veðsettu hluta. Verður því ekki fallist á þær málsástæður varnaraðila að umrædd yfirlýsing sé ekki skuldbindandi vegna rangra eða brostinna forsendna eða með vísan til 32. eða 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Eins og að framan er rakið stóð handveð forvera varnaraðila í 38% eignarhlut SevenMiles ehf. í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. til tryggingar tilgreindum skuldum allra félaganna þriggja við bankann. Greinir aðila á um hvernig ráðstafa eigi þeim 420.280.000 krónum milli félaganna sem samkvæmt framansögðu ganga upp í þær skuldir þeirra sem handveðið stóð til tryggingar á. Fallast verður á það með varnaraðila að almennar reglur leiði til þess að hafi kröfuhafi sömu veðtryggingu fyrir gjaldföllnum skuldum margra sé það á valdi hans, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að ákveða upp í skuld hvers hann ráðstafar þeim fjármunum sem fást úr veðtryggingunni. Verður fyrrgreind tilkynning forvera varnaraðila 7. október 2009 ekki skilin á annan hátt en þann að þar hafi með bindandi hætti af hans hálfu verið tilkynnt um að andvirði veðsins skyldi ganga til niðurgreiðslu skulda allra félaganna þriggja, sbr. það orðalag yfirlýsingarinnar að bankinn hafi „tekið til sín“ margnefnda hluti „til niðurgreiðslu skuldar SevenMiles ehf., Sporbaugs ehf. og Spors ehf. við Sparisjóðabankann“. Verður þessi yfirlýsing túlkuð svo að í henni felist að ráðstafa skuli greiðslunni upp í skuldir félaganna í sama hlutfalli og var milli fjárhæðar skulda þeirra við forvera varnaraðila sem handveðunum var ætlað að tryggja. Samkvæmt fylgiskjölum með tilkynningum forvera varnaraðila um gjaldfellingu lána félaganna 10. september 2009 námu skuldir SevenMiles ehf. þá samtals 188.064.653 krónum eða 26,92% af samanlögðum skuldum félaganna þriggja, sem námu 698.654.639 krónum. Sama hlutfall af 420.280.000 krónum er 113.139.376 krónur og kemur sú fjárhæð samkvæmt framansögðu til lækkunar þeirri 194.783.339 króna kröfu varnaraðila í þrotabú SevenMiles ehf. sem skiptastjóri viðurkenndi. Samkvæmt því verður krafa varnaraðila að fjárhæð 81.643.963 krónur viðurkennd í réttindaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 í þrotabú SevenMiles ehf.

Eftir framangreindum úrslitun verður hver málsaðila látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Krafa varnaraðila, SPB hf., að fjárhæð 81.643.963 krónur er viðurkennd í réttindaröð við gjaldþrotaskipti SevenMiles ehf. sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 3. júlí 2013.

Mál þetta var þingfest 18. janúar 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 20. mars sl. Málið var endurflutt og dómtekið að nýju 13. júní sl.

Sóknaraðili er SPB hf., áður Sparisjóðabanki Íslands hf., Borgar­túni 25, Reykjavík, en varnaraðilar eru Anna Brynja Ísaksdóttir, Lindarbraut 28, Sel­tjarn­ar­nesi og Tómas Ottó Hansson, Sandakri 6, Garðabæ.

                Sóknaraðili krefst þess að krafa að fjárhæð 194.783.339 krónur, sem hann lýsti í þrotabú SevenMiles ehf., verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

                Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kröfu sóknaraðila í þrotabú SevenMiles ehf. verði hafnað, til vara að krafa sóknaraðila verði lækkuð verulega. Að auki krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

                Varnaraðilar, Anna Brynja og Tómas Ottó, áttu allt hlutafé í félaginu T.O.H. ehf. Þar af átti Anna Brynja 82% en Tómas Ottó 18%. Nafni T.O.H. ehf. var síðar breytt í Seven­Miles ehf. Félagið átti m.a. 38% hluta­bréfa í félögunum Spori ehf. og Spor­baugi ehf.

                Með lánssamningi, dags. 30. ágúst 2004, veitti sóknaraðili félaginu T.O.H. ehf., (síðar SevenMiles ehf.), fjölmyntalán í íslenskum krónum og erlendum gjald­miðlum að jafnvirði 83.500.000 íslenskra króna. Sóknaraðili segir lánið hafa verið veitt í Bandaríkjadölum, evrum, jap­önskum jenum og íslenskum krónum. Að sögn varnaraðila var lánið greitt út í íslenskum krónum.

                Þetta lán skyldi endurgreiða með 22 jöfnum afborg­unum á þriggja mánaða fresti frá 1. janúar 2006 auk vaxta en þó skyldi eingöngu greiða vexti á þriggja mánaða fresti fyrsta árið. Með breytingu á skilmálum lánssamningsins, 29. nóvem­ber 2005, var sam­setn­ingu mynta breytt þannig að höfuðstóll skuld­ar­innar sund­ur­liðaðist fram­vegis í 8.884.027 íslenskar krónur, 184.719,36 sviss­neska franka og 16.564.856,27 japönsk jen. Með við­auka við lánssamninginn, 17. febrúar 2009, var endur­greiðslu lánsins frestað um sex mánuði. Þegar SevenMiles ehf. var tekið til gjald­þrota­skipta 16. nóv­em­ber 2009 námu eftirstöðvar lánssamningsins að mati sóknaraðila 12.512.055 jap­önskum jenum, 83.963,38 sviss­neskum frönkum og 4.020.027 íslenskum krónum, eða samtals 31.548.712 íslenskum krónum að teknu tilliti til umreikn­ings á gengi hinna erlendu mynta þann dag, auk vaxta og kostnaðar að fjárhæð 1.812.397 íslenskar krónur. Eftir­stöðvarnar námu því samtals 33.351.109 íslenskum krónum.

                Með lánssamningi, dagsettum 11. febrúar 2005, veitti sóknaraðili sama félagi, T.O.H. ehf. (síðar SevenMiles ehf.), lán í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum að fjár­hæð 20.000.000 íslenskra króna, 185.800 evrur, 119.600 Bandaríkjadalir og 12.633.000 japönsk jen. Að sögn varnaraðila var einnig þetta lán greitt út í íslenskum krónum.

                Lántaki skyldi endurgreiða skuldina að fullu 15. febrúar 2007. Skil­málum lánssamningsins var breytt 29. nóvember 2005 þar sem aðilar sammæltust um að fjölga þeim myntum sem mynd­uðu höfuð­stól láns­ins. Samkvæmt breytingunni sundurliðaðist höfuð­stóll­inn í 185.800 evrur, 119.600 Banda­ríkja­dali, 34.112.159 japönsk jen og 239.520 sviss­neska franka. Með annarri breyt­ingu á skilmálum lánsins, 15. janúar 2007, var gjalddaga endur­greiðslu frestað til 18. febrúar 2009 og skyldi lánið þá greiðast að fullu ásamt áföllnum vöxtum. Þá var skil­málum samnings­ins breytt í þriðja sinn, 17. febrúar 2009, þannig að gjalddaganum var frestað á ný til 18. ágúst 2009. Eftir­stöðvar láns­samn­ingsins námu 119.600 Banda­ríkja­dölum, 185.800 evrum, 34.112,159 jap­önskum jenum og 239.520 sviss­neskum frönkum eða sam­tals 125.388.305 íslenskum krónum þegar bú SevenMiles ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 16. nóv­em­ber 2009, auk vaxta og kostn­aðar að fjárhæð 36.043.925 íslenskar krónur, eða samtals 161.432.230 íslenskum krónum.

                Þá var tiltekið í 3. tölulið 6. gr. beggja lánssamninganna að heimilt væri að umreikna vanefndar kröfur í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur og bæri þá að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Til tryggingar skilvísum greiðslum SevenMiles ehf. á öllum skuldum félagsins við sóknaraðila settu varnar­aðilar sóknaraðila meðal annars hluta­fjáreign sína í fél­ag­inu að handveði, með hand­veðs­yfir­lýs­ingum dagsettum 11. febrúar 2005. Enn fremur átti sókn­ar­aðili 2. veð­rétt í skólager Sporbaugs. Að sögn varnaraðila var and­virði lagersins, eftir að 1. veð­réttar­hafa, Byr sparisjóði, hafði verið greitt, síðar greitt inn á reikning sókn­ar­aðila.

                Með samningi, dags. 11. febrúar 2005, veitti sóknaraðili Sporbaugi ehf. lán að fjárhæð 48.000.000 íslenskra króna, 445.950 evra, 287.050 Bandaríkjadala og 30.318.300 japanskra jena og með samningi, 29. des­em­ber 2005, veitti hann sama félagi lán að fjárhæð 27.400.000 japanskra jena, 286.300 sviss­neskra franka og 186.000 evra. Til tryggingar skilvísum greiðslum fél­ags­ins voru allir hlutir Seven­Miles ehf. í Sporbaugi settir sóknaraðila að hand­veði.

                Þá veitti sóknaraðili félaginu Spori ehf. lán, samkvæmt samningi dags. 2. febrúar 2009, að fjárhæð 1.821.246 evra. Það lán var veitt til að endurfjármagna eldra lán sem hafði verið veitt félaginu árið 2007. Til tryggingar skilvísum greiðslum gaf félagið út tryggingarbréf þar sem veitt var veð í vöru­birgðum og vöru­reikn­ingum veð­sala og Sporbaugs ehf. Jafnframt tók Sporbaugur ehf. á sig sjálf­skuld­ar­ábyrgð vegna þessa tiltekna lánssamnings.

Auk þess sem að ofan greinir setti félagið SevenMiles ehf. (þá T.O.H. ehf.) alla hluti sína í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. að veði til tryggingar skilvísum greiðslum á öllum skuldum félag­anna þriggja við sóknaraðila á hverjum tíma með tveimur hand­veðs­yfir­lýs­ingum, dags. 2. febrúar 2009. Þær handveðsyfirlýsingar komu í stað fyrri hand­veðs­yfirlýsinga.

Formaður stjórna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. sendi, 7. september 2009, sóknaraðila bréf þar sem hann gerði grein fyrir því að Sporbaugur ehf. hefði selt félaginu S4S ehf. mikinn hluta vörubirgða sinna gegn því að kaup­and­inn tæki yfir skuldir Sporbaugs ehf. við Byr sparisjóð.

                Að sögn sóknaraðila ákvað hann, þegar hann varð þess áskynja að allur rekstur hefði verið seldur út úr Sporbaugi ehf. að sér forspurðum, að gjaldfella öll lán sín til félag­anna og til­kynnti þeim gjaldfellinguna með bréfum, dag­settum 10. septem­ber 2009.

                Heildareftirstöðvar skulda félag­anna þriggja (uppgreiðsluverðmæti) námu þá, að mati sóknaraðila, jafn­virði 698.654.639 íslenskra króna miðað við gengi lán­veit­anda þann dag á hinum erlendu myntum. Skuld Sporbaugs ehf. nam 347.943,32 evrum, 158.663,13 Bandaríkja­dölum, 31.479.189 japönskum jenum, 151.572 sviss­neskum frönkum og 28.329.865 íslenskum krónum. Skuld SevenMiles ehf. nam 53.587.141 jap­önsku jeni, 57.006,02 Bandaríkja­dölum, 251.703,45 evrum, 379.566,01 sviss­neskum franka og 4.563.312 íslenskum krónum og skuld Spors ehf. nam 1.864.577,11 evrum.

                Með bréfum, dagsettum 7. október 2009, tilkynnti sóknaraðili Seven­Miles ehf. og varnaraðilum að hann hefði gengið að veðum í hlutafé SevenMiles ehf. í Spori ehf. og Spor­baugi ehf. Í til­kynn­ing­unni til Seven­Miles ehf. vísaði sóknaraðili til fyrirliggjandi verð­mats frá VBS fjár­fest­ing­ar­banka hf. á félög­unum Spori ehf. og Sporbaugi ehf. frá því í maí 2009 sem laut meðal annars að rekstrar­virði félaganna. Sama dag útbjó sóknaraðili framsöl þar sem allt hlutaféð í fél­ög­unum var framselt honum. Þetta var gert með heimild í áðurnefndum hand­veðs­yfir­lýs­ingum. Sama dag tilkynnti sóknaraðili varnaraðilum og stjórn Seven­Miles ehf. að hann hefði þann dag leyst til sín eignarhluti varnaraðila í Seven­Miles ehf.

                Í kjölfar hluthafafunda í SevenMiles ehf., Spori ehf. og Sporbaugi ehf., sem voru haldnir 8. og 30. október 2009, voru fulltrúar sóknaraðila kjörnir í stjórnir fél­ag­anna. Að sögn sóknaraðila var ástand félaganna þá þannig að nýkjörnum stjórnum hafi verið skylt að gefa félögin umsvifalaust upp til gjaldþrotaskipta í sam­ræmi við ákvæði laga um gjald­þrotaskipti, sem þær hafi gert.

                Úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi SevenMiles ehf. var kveðinn upp 16. nóv­em­ber 2009. Fyrri stjórn félagsins, sem þá taldi sig enn lögformlega stjórn þess, krafðist endurupptöku úrskurðarins en því hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur, sem taldi rétt­kjörna stjórn félagsins hafa tekið ákvörðun um að óska eftir gjald­þrota­skiptum á búi félagsins. Sá úrskurður var endanlega staðfestur með dómi Hæstaréttar, 26. ágúst 2010, í máli nr. 424/2010.

                 Sóknaraðili lýsti kröfu í þrotabú SevenMiles 25. október 2010 á grundvelli beggja lánasamninganna, dags. 30. ágúst og 11. febrúar 2005 og gerði kröfu um að krafa hans yrði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Samkvæmt þeirri kröfulýsingu nam skuld félagsins við sóknaraðila, að teknu tilliti til þess að sá hluti skulda félags­ins sem var í erlendum myntum hafði verið umreiknaður í íslenskar krónur sam­kvæmt gengi lánveitanda, samtals 194.783.339 íslenskum krónum á úrskurð­ar­degi 16. nóvember 2009. Sóknaraðili kveðst hafa lýst allri fjár­hæð­inni í íslenskum krónum með stoð í 3. tölulið 6. gr. lánasamninganna sem veitti honum heimild til að breyta vanefndum kröfum í erlendri mynt í íslenskar krónur.

                Samkvæmt kröfulýsingum í þrotabú Spors ehf. annars vegar og Sporbaugs ehf. hins vegar, dagsettum 26. febrúar 2010, námu skuldir þeirra félaga, að teknu tilliti til þess að skuld­ir­nar höfðu verið umreiknaðar úr erlendum myntum í íslenskar krónur sam­kvæmt gengi lánveitanda, samtals 534.417.961 íslenskri krónu á úrskurðardegi 21. des­em­ber 2009. Samskonar ákvæði um heimild til að breyta vanefndum kröfum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur hafi verið í þeim lánasamningum sem kröfu­lýs­ing sóknaraðila byggist á. Nánar tiltekið nam skuld Spors 352.476.217 íslenskum krónum, að teknu til­liti til afhendingar skólagers á matsverði, og skuld Sporbaugs nam 181.941.744 íslenskum krónum. Samkvæmt framlagðri yfirlýsingu skiptastjóra félaganna eru þau bæði eigna­laus.

Varn­ar­aðilar lýstu hvort um sig tveimur almennum kröfum í þrotabú SevenMiles ehf. Annars vegar lýstu þau kröfu sem samsvaraði hluta­fjár­eign hvors um sig í félaginu og hins vegar lýstu þau kröfu vegna innleystrar ábyrgðar, Anna að fjárhæð 240.912.087 kr. en Tómas að fjárhæð 52.883.141 kr. Skiptastjóri tók ekki afstöðu til annarra krafna en þeirra sem voru tryggðar með lögveði.

                Að sögn varnaraðila hafa aðrir kröfu­­hafar en málsaðilar fallið frá kröfum sínum í búið eða þær verið greiddar þeim. Eftir standi einungis kröfur varnar­aðila og krafa sóknar­aðila að fjárhæð 194.793.339 krónur sem tekist er á um í þessu máli.

                Á skiptafundi 12. nóvem­ber 2010 mót­mæltu varnar­aðilar kröfu sóknar­aðila og hann mót­mælti kröfum þeirra. Varnaraðilar andmæltu bæði tilvist og fjárhæð kröfu sókn­ar­aðila. Þeir töldu allar kröfur sóknar­aðila á hendur félaginu að fullu upp gerðar með fullnustu bankans á veðum sem bank­inn hafði í hlutum SevenMiles ehf. í dóttur­fél­ög­unum Spori ehf. og Spor­baugi ehf. Yrði ekki fallist á þessa málsástæðu höfnuðu þeir fjárhæð kröfu sókn­ar­aðila. Töldu þeir kröfuna byggjast á lánasamningum með ólög­mæt ákvæði um gengis­trygg­ingu skuld­bind­inga í íslenskum krónum. Félagið hafi einungis fengið íslenskar krónur lánaðar hjá sókn­ar­aðila og gengistrygging þeirra væri and­stæð ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

                Skipta­stjóri beindi ágreiningnum til héraðs­dóms til úrlausnar með bréfi, mótteknu 6. desember 2011, í samræmi við 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. Dómsmál um ágreining þennan var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. mál nr. X-463/2011. Með dómi Hæstaréttar 29. ágúst 2012 í máli nr. 518/2012 var málinu vísað frá héraðsdómi þar eð skiptastjóri hafði ekki tekið afstöðu til kröfu sóknaraðila í búið, líkt og honum bar að gera samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 né hafði hann leitast við að jafna ágreining um kröfuna, sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar samþykkti skiptastjóri formlega kröfu sóknaraðila eins og henni var lýst á skiptafundi 19. september 2012. Sóknaraðili mótmælti afstöðu skiptastjóra til krafna varnaraðila og varnaraðilar mótmæltu afstöðu skiptastjóra til kröfu sóknaraðila. Ágreiningur málsaðilanna var ekki leystur á fundinum og vísaði skiptastjóri þrotabúsins því ágreiningi um kröfu sóknaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi, mótteknu 19. október 2012.

                Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir á því að krafa hans í þrotabú SevenMiles ehf. sé gild og kröfu­fjár­hæð réttilega tilgreind. Skuld félag­anna þriggja hafi numið 729.201.300 krónum er þau voru úrskurðuð gjald­þrota. Þar af hafi skuld SevenMiles ehf. numið 194.783.339 krónum.

                Sóknaraðili mótmælir þeirri málsástæðu varnaraðila að kröfur sóknaraðila séu að fullu uppgerðar með því að hann hafi gengið að veðum er lágu í hlutabréfaeign Seven­Miles ehf. í Spori ehf. og Spor­baugi ehf.

                Með bréfi, dag­s. 7. október 2009, hafi sóknaraðili upplýst að hann hefði leyst til sín nánar tilgreind veð. Í bréf­inu hafi verið vísað til nýjustu upplýsinga er lágu fyrir um verðmæti sjálfs reksturs félag­anna, það sé verð­mats VBS fjárfestingarbanka sem var unnið í maí 2009, og byggði á árs­reikn­ingum félag­anna fyrir árin 2005-2008, áætlun Spors ehf. og Sporbaugs ehf. fyrir árið 2009 og upp­lýs­ingum af fundi fyrirtækjasviðs VBS fjárfestingarbanka með hlut­höfum félag­anna, sem var haldinn í apríl 2009. Í bréfinu segir m.a. svo:

Með heimild í framangreindum handveðssamningum hefur Sparisjóðabankinn tekið til sín ofangreinda hluti í Spori ehf. og Sporbaugi ehf til niðurgreiðslu skuldar Seven­Miles ehf., Sporbaugs ehf. og Spors ehf. við Sparisjóðabankann, samkvæmt ofan­greindu og tilvitnuðum gögnum. Bankinn leysti til sín hlutina í Sporbaugi ehf. og Spori ehf. hinn 9. september 2009 miðað við fyrirliggjandi verðmat VBS fjár­fes­ting­ar­banka hf. á félögunum, frá því í apríl 2009, þ.e. virði 32% hlutar í Spori ehf. samtals ISK 110.200.000 og virði 32% hlutar í Spor­baugi ehf. samtals ISK 310.080.000.

                Sóknaraðili telur varnaraðila ekki geta byggt rétt á tilvísun sóknaraðila til þess verð­mats sem tilgreint var í tilkynningunni með þeim hætti sem gert var í bréfi lög­manns varnaraðila, dagsettu 26. október 2010, enda segi í þeim hand­veðs­yfir­lýs­ingum sem veðrétturinn grundvallist á að veðsali lýsi því yfir, verði vanskil á skuldum sem handveðið á að tryggja eða brjóti veðsali gegn ákvæðum yfirlýsingarinnar, sé veðhafa heimilt, án undan­far­andi tilkynningar til veðsala og að því marki sem þörf er á til að veðhafi fái full­nustu á þeim kröfum sem handveðsetningin tryggir, að          a) láta selja hina veðsettu hluti nauðungarsölu til fullnustu á skuldinni án undan­gengins dóms, sáttar eða aðfarar samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauð­ung­ar­sölu eða b) leysa til sína hina veðsettu hluti og koma þeim í verð á hvern þann hátt, sem hann kýs og ráðstafa söluandvirði þess. Komi til þess að veðhafi selji hið veðsetta beint til þriðja aðila eða leysi það beint til sín skal veðhafi leitast við að fá sem hagkvæmast verð fyrir hina veð­settu hluti.“

                Í tilkynningu sóknaraðila 7. október 2009 hafi hann upplýst að hann hefði „leyst til sín hina veðsettu hluti“, en hafi ekki farið með þá beint í nauð­ungar­sölu, sbr. a) lið ákvæðis í handveðssamningunum. Ljóst sé að sókn­ar­aðili hafi átt eftir að „koma hlutunum í verð“ og „ráðstafa söluandvirði þess“ inn á veð­tryggðar skuldir SevenMiles ehf., Spors ehf. og Sporbaugs ehf. hjá sóknar­aðila. Í bréfinu hafi jafnframt verið vísað til þess eina verðmats sem þá lá fyrir á virði rekstrar félag­anna tveggja. Orðalag bréfsins hafi aldrei getað vakið væntingar um að krafan væri greidd, enda teljist peningakrafa ekki efnd fyrr en kröfuhafi hefur móttekið fulla greiðslu hennar í peningum. Tilvísun til fyrirliggjandi verðmats hafi ekki verið óeðlileg, enda hafi legið fyrir að á svipuðum tíma og innlausnin fór fram, í byrjun september 2009, hafði rekstur Sporbaugs ehf., að sóknaraðila forspurðum, verið seldur út úr félaginu. Hinum veðsettu hlutum hafi aldrei verið komið í verð þegar af þeirri ástæðu að þeir voru verðlausir. Sú staðreynd að félögin voru öll úrskurðuð gjaldþrota staðfesti enn fremur að hlutirnir voru verðlausir í reynd.

                Í kjölfar ofannefndrar tilkynningar hafi sóknaraðili ekki sent staðfestingu þess efnis að hann hafi getað „komið hlutunum í verð“ eins og ákvæði hand­veðs­samn­ing­ana kveði á um, hvað þá að hann hafi fengið „sem hagkvæmast verð fyrir hina veð­settu hluti“. Varn­ar­aðilum og félaginu hafi mátt vera fullljóst að tilkynning þar að lút­andi hefði þurft að berast frá sóknaraðila til að varnaraðilar gætu byggt rétt á bréfinu. Slíka til­kynn­ingu hafi sóknaraðili aldrei sent. Sóknaraðili hafi heldur ekki sent skuldajöfnunaryfirlýsingu þar að lútandi eða annað það sem gefið gæti til kynna að skuldastaða félaganna hefði breyst eftir að fyrrnefnt bréf var sent.

                Verði talið að sóknaraðili hafi gefið skuldbindandi yfirlýsingu um að lækka skuldir félaganna með vísan til nánar tilgreinds virðis félaganna þá byggir sóknaraðili á því að rangar forsendur hafi legið til grundvallar bréfinu. Tilvitnaður hundraðshluti og það verðmat sem hafi verið tilgreint sem virði hluta­bréfa­eignar SevenMiles ehf., í félögunum Spori ehf. og Spor­baugi ehf., sam­tals 420.080.000 krónur, hafi verið bersýnilega rangt en um það hafi varnar­aðilum, sem eig­endum SevenMiles ehf., verið fullkunnugt.

                Í fyrrnefndu bréfi sóknaraðila, 7. október 2009, hafi hann vísað til verðmats VBS fjár­fest­ingar­banka sem var unnið í maí 2009. Niðurstaða þess verðmats hafi verið neikvætt eigið fé félags­ins Sporbaugs ehf. og þannig hafi engan veginn verið unnt að miða við eitt­hvert virði hluta­bréfa í því félagi. Hins vegar hafi VBS fjárfestingarbanki ekki metið virði hluta­bréf­anna til lækkunar skulda, eins og varnaraðilar hafi kosið að túlka bréf sóknaraðila, heldur ein­göngu virði rekstrar beggja félaganna. Þá verði ekki mælt á móti þeirri staðreynd að eignarhluti Seven­Miles ehf. í Spori ehf. og Spor­baugi ehf. hafi verið 38% en ekki 32%.

                Varnaraðilar hafi vitað að félögin Spor ehf. og Sporbaugur ehf. væru í raun gjaldþrota og hluta­bréfin þar af leiðandi algjörlega verðlaus eins og fram lagt bréf fyrir­svars­manns þeirra, 7. september 2009, staðfesti með óyggj­andi hætti. Allur reksturinn hafi verið seldur úr félög­unum Spori ehf. og Spor­baugi ehf. og þau verðmæti sem þó var byggt á voru því ekki lengur til staðar. Til­kynn­ing sóknar­aðila byggðist því á röngum for­sendum og hafi varnar­aðilum verið það fylli­lega ljóst. Sóknaraðili áréttar sérstaklega að aldrei hafi nein raun­veru­leg greiðsla komið í hans hlut. Sóknaraðili telur því ein­sýnt að meint yfirlýsing um inn­lausn veða á nánar tilgreindu verði til „niður­greiðslu skulda“ hafi ekki verið og geti ekki verið skuld­bindandi fyrir hann, sbr. 32. gr. laga nr. 7/1936 um samnings­gerð, umboð og ógilda löggerninga, svo og að sínu leyti 33. gr. sömu laga.

                Fallist dómurinn ekki á að 32. og 33. gr. laga nr. 7/1936 eigi við um skuld­bind­ingar­gildi bréfs sóknaraðila til SevenMiles ehf. 7. október 2009, verði í öllu falli að telja skuld­bind­ingargildið fallið niður vegna brostinna forsendna. Eftir gerð verðmats VBS fjárfestingarbanka hf. hafi rekstur félag­anna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. verið seldur yfir í nýtt félag haustið 2009, að sókn­ar­aðila forspurðum, en skuldirnar skildar eftir þannig að þess þá heldur hafi verið úti­lokað að meta virði félaganna með þeim hætti er varn­ar­aðilar réðu af margnefndri  til­kynn­ingu. Sóknaraðili áréttar að þrátt fyrir vitneskju sína um sölu reksturs Sporbaugs ehf. hafi hann ekki mátt eiga von á að bæði félögin hefðu verið algjör­lega tæmd af öllu öðru en skuldum. Sóknaraðili hafi ekki getað staðreynt bókhald félaganna fyrr en við yfirtöku þeirra. Þá fyrst hafi sannanlega legið fyrir hver staða félaganna var. Það hafi síðan verið staðfest þegar þessi félög voru úrskurðuð gjaldþrota í desember 2009, rúmum tveimur mánuðum eftir innlausn sóknaraðila. Það hafi síðan enn frekar verið staðfest með afstöðu skiptastjóra um eignaleysi. Augljóst sé að hlutabréf í fyrrnefndum félögum voru og höfðu verið með öllu verðlaus við meinta innlausn þeirra og að allar forsendur fyrir öðru virði þar af leiðandi brostnar.

                Varnaraðilar geti ekki, gegn betri vitund, haldið því fram að miða eigi við til­tekið innlausnarverð eins og eignir væru enn í félaginu þegar eignir búsins höfðu verið fjar­lægðar að þeirra eigin tilhlutan, þannig að eftir stóðu tvö eignalaus og verð­laus félög. Sú háttsemi varnaraðila hafi hins vegar verið til þess fallin að valda sóknar­aðila vísvitandi tjóni.

                Verði fallist á málsástæður sóknaraðila um að varnaraðilar geti ekki byggt rétt á tilvísun sóknaraðila til verðmats VBS fjárfestingarbanka þá leiði það ekki til þess að yfirtaka á félaginu vegna vanefnda falli alfarið niður. Sóknaraðili vísar til meginreglna samningaréttar um að unnt sé að víkja samningi til hliðar að nokkru leyti eða öllu, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Sóknaraðili áréttar að yfirtaka félagsins hafi verið grundvölluð á ákvæðum handveðssamninganna sjálfra en ekki umþrættri yfirlýsingu.

                Þá byggir sóknaraðili á því að verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður og talið að hann væri bundinn við tilvísun til „niðurgreiðslu skulda“ þá hafi hinu meinta andvirði fjármunanna verið ráðstafað til skulda Spors ehf. og Sporbaugs ehf. en ekki SevenMiles ehf. Skuld SevenMiles ehf. standi því óhögguð gagnvart sóknaraðila. Heildar­skuld félaganna þriggja hafi á gjaldfellingardegi numið jafnvirði 698.654.639 íslenskra króna. Verð­mat inn­leystra veða hafi verið tilgreint sem 420.280.000 krónur, þannig að enn standi eftir 278.374.639 krónur eða 308.921.300 krónur, sé miðað við stöðu heildar­skuldar­innar er úrskurður um gjald­þrot Seven­Miles ehf. var kveð­inn upp. Því sé ekki unnt að halda því fram að skuld félags­ins Seven­Miles ehf. sé gerð upp.

                Í bréfi lögmanns varnaraðila frá 26. október 2010 sé því haldið fram að sú stað­reynd að sóknaraðili hafi lýst kröfum í bú Spors ehf. og Sporbaugs ehf. sem nemi heild­ar­fjár­hæð eftirstöðva lána félaganna hvors um sig gagnvart sóknaraðila, hljóti að fela í sér að „andvirði“ í þessum tveimur félögum hafi verið „ráðstafað“ í uppgreiðslu á skuldum SevenMiles ehf. eingöngu. Þar með liggi fyrir, að mati varnaraðila, að skuldir SevenMiles ehf. við sóknaraðila séu að fullu upp­gerðar. Sóknaraðili mótmælir þessari staðhæfingu.

                Í handveðssamningunum sjálfum hafi verið tiltekið að hlutirnir væru veðsettir til tryggingar skuldum allra þriggja félaganna, þ.e. SevenMiles ehf. (veðsala sjálfs), Spors ehf. og Sporbaugs ehf. Þess sé hvergi getið í sjálfum samningunum hvernig bæri að ráðstafa hugsanlegum greiðslum. Með vísan til þeirra samninga og meginreglna í kröfurétti telur sóknaraðili að hann, sem veðhafi, hafi haft fullt val um það inn á hvaða skuldir hann léti fjármunina ganga. Það sé einnig í samræmi við 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.  Sóknaraðili hafi valið að láta fjármunina ganga inn á skuldir Spors ehf. og Sporbaugs ehf.

                Sóknaraðili sé einn til þess bær að ráðstafa meintum fjármunum eða ákvarða skiptingu þeirra innbyrðis. Sóknaraðili áréttar að það hefði ekki verið í þágu hagsmuna hans að ráðstafa meintum fjármunum inn á skuldir þess eina félags sem hugsanlega átti einhverjar eignir. Aukinheldur geti ekki talist óeðlilegt að nýta andvirði veðs í félagi í þágu hagsmuna þess sama félags.

                Með vísan til framangreinds telur sóknaraðili einsýnt að krafa hans hafi ekki verið uppgerð með bréfi hans dags. 7. október 2009. Skuld SevenMiles ehf. við sókn­ar­aðila hafi numið 194.793.339 krónum á úrskurðardegi, 16. nóvember 2009, og breyti stað­hæf­ingar varnaraðila engu þar um. Krafan sé sannanlega til, bæði að efni og formi, henni hafi verið réttilega lýst sem almennri kröfu og þess sé krafist að hún verði viður­kennd sem slík.

                Sóknaraðili vísar því á bug að í umþrættum lánssamningum sé ólög­mætt ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum. Lánssamningarnir séu tveir. Annars vegar lánssamningur, dags. 30. ágúst 2004, um fjöl­mynta­lán að jafnvirði 83.500.000 króna. Hins vegar lánssamn­ingur, dags. 11. febrúar 2005, um fjöl­mynta­lán að fjárhæð 20.000.000 króna, 185.800 evrur, 119.600 Bandaríkjadalir og 12.633.000 japönsk jen. Sóknaraðili byggir á því að hvorugur þessarar lánasamninga sé ólöglegur og vísar til dómaframkvæmdar því til stuðnings. Þó ef til vill eigi eftir að dæma um einhverjar tegundir lánasamninga liggi ljóst fyrir að í þeim tilvikum þar sem lánsfjárhæðin sé tilgreind í erlendum myntum teljist þau lán vera lögleg erlend lán, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 520/2011, 551/2011 og 552/2011.

                Þessu til stuðnings bendir sóknaraðili á að yfirskrift beggja lánasamninganna var „lán í íslenskum krónum og erlendri mynt“. Engu breyti þar um hvort útborgun og afborgun lánanna hafi farið fram í íslenskri eða erlendri mynt. Lánsfjárhæð hafi verið tilgreind í erlendum myntum í þeim seinni og einnig í hinum fyrri eftir skilmálabreytingu dags. 29. nóvember 2005. Öll ákvæði samninganna beri þess skýr merki að um lán í erlendum myntum hafi verið að ræða, þ. á m. 2., 3., 6. og 10. gr. þeirra. Títtnefnd lán séu því lögmæt erlend lán. Önnur niðurstaða myndi leiða til þeirrar stöðu að enda þótt lánsskuldbinding sem slík sé í erlendri mynt, þá teljist lán allt að einu vera í íslenskum krónum vegna þess að lánið var greitt út í íslenskum krónum og lántaki efndi sína skyldu í íslenskum krónum. Slík niðurstaða myndi þá jafnframt þýða að væri lánsskuldbinding tiltekin í íslenskum krónum en andvirði hennar greitt út og/eða til baka í erlendri mynt þá teldist lánið ekki vera lán í íslenskum krónum. Slík niðurstaða fái ekki staðist að mati sóknaraðila.

                Lánin hafi verið greidd út í íslenskum krónum af þeirri ástæðu að lántaki hafi sjáanlega viljað nýta sér lánsfjárhæðina í íslenskum krónum, sbr. tilgang lánanna eins og þeim sé lýst í útborgunarbeiðni er fylgdi með sem viðauki við lánasamningana. Ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að greiða lánsfjárhæðina út í hinum erlendu myntum hefði lántaki farið þess á leit. Sóknaraðili telur það fráleitt og í andstöðu við viðurkennd sjónarmið um samningsfrelsi að leggja þá skyldu á lánveitanda að greiða út fjármuni í hinni erlendu mynt eða á gjaldeyrisreikning, til þess að um lánsskuldbindingu í erlendri mynt geti verið að ræða. Enn síður geti gildi samnings verið háð því að lánveitandi gangi gegn fyrirmælum lántaka. Sömu sjónarmið eigi við um greiðslu afborgana og vaxta. Greiðsla lánsins og afborgana og vaxta geti í öllu falli aldrei leitt til þess að lánið teljist í íslenskum krónum þegar svo sé ástatt að lánsfjárhæðin og þar með lánsskuldbindingin sé í grunninn tiltekin í hinni erlendu mynt.

Enda þótt lánssamningur, dagsettur 30. ágúst 2004, tilgreini lánsfjárhæðina sem fjölmyntalán að jafnvirði 83.500.00 króna hafi sóknaraðilar og Seven­Miles ehf. báðir vitað að lánið var veitt í erlendum myntum, enda þótt lán­taki hafi óskað eftir að andvirði lánanna yrði keypt og honum afhentar íslenskar krónur í stað­inn. Kaup­kvitt­anir vegna framangreindra gjald­eyris­við­skipta sýni í hvaða myntum lántaki hafi óskað eftir að fá lánið skráð á grund­velli heim­ildar í láns­samn­ingnum. Öll ákvæði lánssamningsins staðfesti jafn­framt að lánið var veitt í erlendum myntum. Rúmu ári eftir undir­ritun láns­samn­ings­ins, 29. nóvember 2005, hafi verið undirrituð skil­mála­breyting á láns­samn­ingnum. Þar sé útlistað hvaða myntir myndi höfuð­stól skuldar­innar, að teknu tilliti til myntbreytinga er lántaki óskaði eftir, sbr. og fyrr­nefndar kaup­kvitt­anir. Þar komi fram að skuldin nemi nú 8.884.027 krónum, 184.719,36 sviss­neskum frönkum og 16.564.856,27 japönskum jenum. Jafn­framt komi fram, vegna breyt­ingar á vaxta­álagi, að skuldin skuli bera þriggja mánaða REIBOR- eða EURI­BOR-vexti, eins og þeir ákvarðist fyrir við­kom­andi gjald­miðil hverju sinni að við­bættu vaxtaálagi, sem skuli nú vera 2,5%. REIBOR-vextirnir (Reykjavik Interbank Offered Rate) taki til þess hluta skuldarinnar sem sé í íslenskum krónum, EURIBOR-vextirnir (European Interbank Offered Rate) vísi til þess hluta skuldar­innar sem sé í erlendum myntum. Þetta lán hafi því ótvírætt verið veitt í erlendum myntum, enda skuld­bind­ingin skýrlega tiltekin sem slík.

                Verði það niðurstaða dómsins að framangreindur lánssamningur, dags. 30. ágúst 2004, sé gengistryggt lán í íslenskum krónum frá undirritunardegi og fram að undir­ritun skilmálabreytingar lánsins, það er frá 30. ágúst 2004 til 29. nóvember 2005, breyti það í raun ekki neinu þar sem lánið hafi verið afborgunarlaust fyrsta árið, í samræmi við ákvæði lánssamningsins og þær vaxtagreiðslur sem hafi verið inntar af hendi hafi tekið mið af þeim samningsvöxtum er samningurinn sjálfur kvað á um. Sóknaraðili nefnir jafnframt að enda þótt talið yrði að láns­samn­ingurinn inni­haldi ólögmæt ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum frá önd­verðu og fram að þeim degi er sóknaraðili lýsti kröfu í bú SevenMiles ehf., þá falli skuldin ekki niður heldur lækki uppreiknað andvirði téðs lánssamnings um 13.545.195 krónur, sbr. fram lagðan endurútreikning. Eftirstöðvar skuldarinnar væru enn 19.805.914 krónur.

                Lánssamningur, dagsettur 11. febrúar 2005, hafi verið fjölmyntalán að fjárhæð 20.000.000 króna, 185.800 evrur, 119.600 Bandaríkjadalir og 12.633.000 japönsk jen. Með vísan til framangreindra raka og dóma Hæstaréttar sé því algjörlega hafnað, sem fram komi í bréfi lögmanns varnaraðila, 26. október 2010, að í þessum láns­samn­ingi sé ólögmætt ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum. Lánið hafi verið svokallað kúlulán, það er lán sem beri að endurgreiða með einni greiðslu í lok láns­tíma. Einungis hluti af áföllnum vöxtum hafi verið greiddur 18. febrúar 2009 eða samtals 3.306.391 króna, sem ráðstafað var inn á lánið í tilteknum myntum, en að öðru leyti hafi sóknaraðili aldrei fengið neina greiðslu vegna þessa láns. Yrði lánssamningurinn talinn hafa ólögmæt ákvæði um gengis­trygg­ingu skuld­bind­inga í íslenskum krónum, þá næmi endur­út­reikningur 91.113.447 krónum. Skuldin myndi hugsan­lega lækka sem næmi 70.318.783 krónum en eftir­stöðvar skuld­ar­innar næmu eftir sem áður 91.113.447 krónum. Sam­tals eftir­stöðvar vegna þessara tveggja lána­samn­inga næmu samtals 110.919.361 krónu.

                Sóknaraðili bendir á að eins og mál þetta hafi verið lagt fyrir dómstóla nægi að sanna tilvist skuldar SevenMiles ehf. við sóknaraðila og í því ljósi séu endurútreikningar lagðir fram. Í þeim útreikningum felist hins vegar engin viðurkenning af hálfu sóknaraðila um ólögmæti lánasamninganna.

Með vísan til alls framangreinds telur sóknaraðili einsýnt að skuld SevenMiles ehf. sé sannanlega gild krafa er nemi fjárhæð dómkröfu sóknaraðila og beri því að taka kröfu sóknaraðila að fullu til greina.

                Sóknaraðili styður kröfu sína við lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sér­stak­lega 113. gr., lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög, III. kafla laga nr. 7/1936 um samn­ings­gerð, umboð og ógilda löggerninga, 12. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð svo og meginreglur samninga-, veð- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og greiðslu skulda. Hann vísar einnig til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sér­stak­lega 1. mgr. 6. gr. Kröfu sína um málskostnað styður varnar­aðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, sérstaklega 130. gr.

Málsástæður varnaraðila

                Málsástæður varnaraðila fyrir mótmælum sínum við kröfu sóknaraðila eru tví­þættar. Í fyrsta lagi telja varnaraðilar að sóknaraðili hafi fengið kröfur sínar að fullu upp gerðar með innlausn trygginga í hlutafé í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. Í öðru lagi telja varnaraðilar að í lánssamningum SevenMiles ehf. við sóknaraðila séu ákvæði um ólög­mæta gengistengingu, sem leiði til þess að fjárhæð lána félags­ins hafi verið umtals­vert lægri en sóknaraðili hafi gert ráð fyrir í öllum sínum aðgerðum.

                Varnaraðilar byggja fyrst á því að allar skuldir SevenMiles ehf. við sóknaraðila hafi verið gerðar upp þegar varnaraðilum hafi borist sú tilkynning sóknar­aðila, dags. 7. október 2009, að hann leysti til sín hlutina í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. til niður­greiðslu skulda SevenMiles ehf., Spors ehf. og Sporbaugs ehf.

                Varnaraðilar telja sóknaraðila hvorki hafa litið til fullnustu veða í eignum SevenMiles ehf. né gert grein fyrir ráðstöfun þeirra inn á lán félagsins hjá sókn­ar­aðila, þrátt fyrir óskir varnaraðila þar um, í bréfi varnaraðila til bankans, 26. október 2010. Í svar­bréfi sóknaraðila, 8. nóvember 2010 sé því hins vegar borið við að þau gögn sem bank­inn hafði til hliðsjónar því mati sem lagt var til grundvallar tilkynningu hans um inn­lausn, dags. 7. október 2009, hafi ekki gefið rétta mynd af raunverulegri stöðu félag­anna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. þegar þau voru yfirtekin samkvæmt heim­ildum í veðsamningum, en verðmatið hafi verið unnið af VBS fjárfestingarbanka hf., sem sóknaraðili lýsi sem „viður­kenndum fag­aðila“ í umræddu bréfi. Þegar ný stjórn hafi tekið við félaginu hafi „ástand félag­anna“ verið þannig að stjórn­inni hafi verið skylt að gefa félögin umsvifa­laust upp til gjaldþrotaskipta. Þær upplýsingar sem bank­inn hafi getað aflað sér, eftir að hafa tekið yfir hluti í Spori ehf. og Sporbaugi ehf., bendi til þess að verðmatið hafi „í senn verið rangt og villandi“. Af því leiði að forsendur verð­mats­ins hafi verið brostnar.

                Varnaraðilar telja þessar full­yrð­ingar sóknaraðila afar einkennilegar í ljósi mála­vaxta­lýs­ingar hans þar sem segi að sókn­ar­aðili hafi í september 2009 orðið þess áskynja að allur rekstur hafi verið seldur út úr Sporbaugi ehf. og sóknaraðili hafi í kjölfarið gjald­fellt lán félaganna þriggja. Raunar hafi sókn­ar­aðila verið tilkynnt þessi ráðstöfun 7. september 2009, í bréfi stjórna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. til tveggja aðallánardrottna sinna. Það hefði því ekki þurft að koma sókn­ar­aðila á óvart að „ástand félaganna“ Spors ehf. og Sporbaugs ehf. hafi verið orðið slæmt þegar veð í hlutafé var innleyst, enda hafi fyrirsvarsmenn félaganna verið búnir að vara við því verð­mæta­tapi sem hlytist af yrði ekki samið um fjárhagslega endur­skipu­lagn­ingu þeirra. Full­yrð­ingar sóknaraðila um að það verðmat sem hafi verið byggt á við innlausnina hafi verið „í senn rangt og villandi“ standist heldur enga skoðun í ljósi þeirrar vitneskju um hag félaganna sem sóknaraðili hafi haft á þeim tíma sem innlausnin fór fram.

                Það hljómi því í besta falli sem eftir-á-skýring þegar sóknaraðili beri fyrir sig blekk­ingar sem afsökun fyrir þeirri ákvörðun sinni að byggja á verðmatinu við inn­lausn hluta­fjárins. Sóknaraðili sé jafnframt í þversögn þegar hann haldi því fram að í til­kynn­ingu um innlausn, 7. október 2009, hafi verið vísað til „nýjustu upp­lýs­inga“ sem lágu fyrir um verðmæti rekstrar félag­anna. Sókn­ar­aðili hafi haft talsvert nýlegri upp­lýs­ingar um stöðu félag­anna á þessum tíma. Vísan sóknar­aðila til 32. og 33. gr. laga nr. 7/1936, sjónarmiða um brostnar for­sendur og eigin grandleysis sem leiða skuli til þess að yfirlýsingin hafi ekki verið skuld­bindandi sé því jafnframt hald­laus fyrir sókn­ar­aðila.

                Þá sé í bréfi sóknaraðila, 8. nóvember 2010, gefið í skyn að Pétur Hall­dórs­son, eigin­maður varnaraðilans Önnu Brynju, hafi haft áhrif á niður­stöðu verðmatsins með því að veita matsmönnum upplýsingar um stöðu félag­anna og fram­tíðar­horfur. Hið rétta sé að Pétur hafi ekki komið nálægt umræddu verð­mati, heldur hafi matið alfarið verið unnið af VBS fjárfestingarbanka, út frá tölu­legum gögnum.

                Hvað sem líði réttmæti verðmats VBS fjárfestingarbanka byggja varnaraðilar á því að sóknaraðili sé bundinn af yfirlýsingu sinni um umrædda innlausn á hlutafé í Spori ehf. og Sporbaugi ehf., þar með talið hvað varðar innlausnarverðið, enda sé yfir­lýsing ákvöð sem bindi viðtakanda hennar, sem og sendanda, frá þeim tíma sem ákvöðin berist til vitundar viðtakanda hennar. Ekki sé hægt að bera fyrir sig brostnar forsendur fyrir verðmati félaganna, enda hafi sóknaraðili ákveðið upp á sitt eindæmi að fara eftir matinu við innlausn hlutafjárins, þrátt fyrir að hafa búið yfir upplýsingum um breytingar á rekstri félaganna frá því að verðmatið fór fram. Hafi matið ekki staðist skoðun eftir á, að mati sóknaraðila, sé það mál sem sóknaraðili eigi gagnvart hinum „viður­kennda fag­aðila“ sem VBS fjárfestingarbanki hafi verið á þessum tíma. Varn­ar­aðilar telji ekki til of mikils ætlast að sóknaraðili sem fjármálafyrirtæki vandi þannig til vinnu og skjala­gerðar að hún standist skoðun, enda hafi hún ríkt skuld­bind­ing­ar­gildi fyrir bank­ann sem geranda og geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir við­skipta­menn hans. Þegar ein­stakl­ingar í fyrirtækjarekstri geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér vegna þess offors sem fjármálastofnun sýni í krafti aflsmunar, hljóti fjár­mála­stofn­unin að þurfa að bera allan halla af aðgerðum sínum, ekki síst komi í ljós að vinnu­brögð hennar hafi ekki verið í samræmi við eðlilega við­skipta­hætti.

                Mikilvægt sé að halda því til haga að sóknaraðili hafi byggt rétt á sömu til­kynn­ingu um veðfullnustu, meðal annars með því að kjósa nýja stjórn í Spori ehf. og Spor­baugi ehf. Sú niðurstaða væri óásættanleg, gæti fjármálastofnun, í valdi yfirburðastöðu, sent ákvaðir til viðskiptavina sinna en á síðari stigum ákveðið að hve miklu marki byggt verði á efni ákvaðarinnar. Slíkt fái ekki staðist að mati varnaraðila.

                Sóknaraðili telji varnaraðila ekki geta byggt á tilvísun til umrædds verðmats í inn­lausnar­bréfi frá 7. október 2009 þar sem orðalag í hand­veðs­yfir­lýsingum þeim sem veð­réttur­inn grundvallast á hafi mælt fyrir um heimild veðhafa til að ,,a) láta selja hina veð­settu hluti nauðungarsölu eða b) leysa til sín hina veðsettu hluti og koma þeim í verð á hvern þann hátt sem hann kýs og ráðstafa söluandvirði þess“. Veð­hafi skuli þá „leitast við að fá sem hagkvæmast verð fyrir hina veðsettu hluti“. Sókn­ar­aðili beri fyrir sig að þar sem hann hafi átt eftir að „koma hlut­unum í verð“ og „ráð­stafa sölu­and­virði“ þeirra, og þar sem varnar­aðilar hafi ekki fengið tilkynningu um slíka ráð­stöfun hefði þeim mátt vera „fullljóst“ að þeir gætu ekki byggt rétt á bréf­inu. Að mati varnar­aðila teygir sóknaraðili sig afar langt í túlkun sinni á hand­veðs­samn­ingnum. Sóknar­aðila hafi, eins og orðalag hand­veðs­samningsins beri með sér, verið heimilt að koma hinum innleystu veðum í verð og ráðstafa með þeim hætti sem honum þókn­aðist. Veð­sala beri hins vegar engin skylda til að ráðstafa veðunum með sölu, heldur hafi varnar­aðilar allt eins getað búist við því að sóknaraðili hafi séð hag sinn í að halda hluta­fénu áfram, enda nefni sókn­ar­aðili án skyldu það verð sem hlutir­nir séu inn­leystir fyrir, sem hafi gefið varnaraðilum ástæðu til að ætla að þetta væri það verð sem ráð­stafað yrði inn á þær skuldbindingar sem veðið stóð til trygg­ingar á. Þegar sú til­högun sóknaraðila að til­greina inn­lausn­ar­verðmæti hlutafjárins, sem sóknaraðili hafi valið án þess að bera til þess neina skyldu, sé skoðuð í ljósi ofangreinds orða­lags hand­veðs­samn­ings leiði rök enn frekar til þeirrar niður­stöðu að sóknaraðili sé skuld­bund­inn af yfir­lýs­ing­unni.

                Sóknaraðili beri enn á ný fyrir sig forsendubrest þar sem rekstur félaganna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. hafi verið seldur yfir í nýtt félag haustið 2009 að „sóknaraðila for­spurðum“, en skuldir skildar eftir svo að útilokað hafi verið að meta virði félag­anna með þeim hætti sem gert var við innlausn hlutafjárins. Sóknar­aðili beri fyrir sig að þótt hann hafi haft vitneskju um sölu rekstrar umræddra félaga hafi hann ekki mátt eiga von á að bæði félögin hefðu verið „algjörlega tæmd af öllu öðru en skuldum“. Varn­ar­aðilar benda á að fyrr í greinargerð sinni segi sókn­ar­aðili ein­mitt að verðmæti félag­anna hafi eingöngu falist í rekstri þeirra. Það hefði því ekki átt að koma sókn­ar­aðila á óvart að verðmæti félaganna hafi rýrnað þegar hann vissi að rekstur­inn hafði verið keyptur út. Þar að auki séu dylgjur sóknar­aðila, um að félögin hefðu verið tæmd af öðru en skuldum, afbökun á þeim sann­leika að rétt verð hafi verið greitt fyrir allar eignir félaganna sem ekki hafi verið vefengt af neinum kröfu­hafa félag­anna. Þessar aðgerðir hafi allar farið fram í góðri sátt og sam­vinnu við Byr hf. sem var fyrsti veðréttarhafi í birgðum félaganna. Varnaraðilar bendi á upplýsingar um greiðslur inn á reikninga sóknaraðila, sem sé hlutur hans í þeim verð­mætum sem fengust fyrir eignir félag­anna og bankinn hafi ekki gert grein fyrir í kröfu­lýs­ingum sínum í bú félag­anna Spors ehf. og Spor­baugs ehf.

                Allt framangreint leiði til þess að sóknaraðili sé bundinn af efni þeirrar ákvaðar sem hann sendi, 7. október 2009, þar með talið um verð hinna inn­leystu hluta og bank­anum hafi borið að færa metið verðmæti hlut­anna sem greiðslu inn á lán Seven­Miles ehf. Þessi lán séu því að fullu upp gerð og því beri að hafna kröfu­lýsingu sóknaraðila í bú félagsins.

                Varnaraðilar byggja í öðru lagi á því að lánssamningar SevenMiles ehf. við sóknar­aðila, eins og þeim hafi verið breytt með skilmálabreytingum og við­aukum, feli í sér ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum. Slík gengistrygging sé ólög­mæt samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu, eins og þau hafi verið túlkuð af Hæstarétti í fjölmörgum nýlegum dómum, til dæmis í málum nr. 155/2011 og 386/2012.

                Af niðurstöðu Hæstaréttar í ofangreindum málum og öðrum dómum sem fjallað hafi um gengistengingu lána, megi ráða að við mat á því hvort tiltekinn samn­ingur feli í sér skuldbindingu í erlendri mynt eða íslenskum krónum beri meðal annars að líta til atriða svo sem hvernig höfuðstóll láns sé tilgreindur, hver sé gjald­miðill hinnar útborguðu lánsfjárhæðar og í hvaða gjaldmiðli sé greitt af láninu.

                Í lánssamningi SevenMiles ehf. og sóknaraðila, dags. 11. febrúar  2005, sé kveðið á um lán að „fjárhæð allt að“ tilteknum fjárhæðum í krónum, evrum, Bandaríkjadal og japönskum jenum. Í báðum tilvikum hafi allar greiðslur milli sóknaraðila og SevenMiles ehf. farið fram í íslenskum krónum. Erlendar myntir hafi því aldrei skipt um hendur. Þó svo að „kaup­kvitt­anir“ vegna lánssamningsins frá 30. ágúst 2004 sýni fram á útreikning fjárhæða mis­mun­andi mynta og áætlað greiðslu­flæði láns­ins miðað við tilgreindar forsendur, hafi það ekki sönn­unar­gildi um það að lánið hafi verið lög­mætt erlent lán, enda kaupkvittanirnar mála­mynda­skjal, þar sem ekki hafi verið sýnt fram á raunverulegar færslur á gjald­eyris­reikn­ing SevenMiles ehf., þó svo að lánssamningar geri ráð fyrir því að afborg­anir af „erlendum láns­hlutum“ séu greiddar inn á gjald­eyris­reikninga lán­veitanda. SevenMiles ehf. hafi raunar aldrei átt gjaldeyrisreikninga af neinu tagi, hvorki hjá sóknaraðila né annarri fjármálastofnun. Án þess að raun­veru­legar færslur erlends gjaldmiðils hafi farið fram milli lántaka og lán­veit­anda sé ekki hægt að segja að lánið hafi verið raun­veru­legt og lög­legt erlent lán. Þvert á móti beri að líta svo á að láns­fjár­skuld­bind­ingin sé í íslenskum krónum, enda hafi sóknaraðili ekki lánað SevenMiles ehf. annað en íslenskar krónur og íslenskar krónur eina myntin sem hafi verið ráðstafað til félagsins.

                Að mati varnaraðila er haldlaus sú máls­ástæða sóknar­aðila að lántaki hafi verið meðvitaður um að lánið væri í erlendum myntum, enda þótt lán­takinn hafi óskað eftir að and­virði lán­anna yrði keypt og honum afhentar íslenskar krónur í stað­inn, enda myndu sam­bæri­legar yfirlýsingar í flestum tegundum þeirra lána sem þegar hafi verið dæmd ólögmæt leiða til hins sama. Þar að auki hafi lántaki aldrei óskað eftir því að „and­virði lánanna yrði keypt“ og honum afhentar íslenskar krónur. Því sé ljóst að báðir þeir láns­samn­ingar sem SevenMiles ehf. gerði við sóknar­aðila feli í sér ólög­mæta gengis­tengingu.

                Samkvæmt útreikningum Sturlu Jónssonar, löggilts endurskoðanda, að beiðni varnaraðila, leiði ólögmæti gengistryggingar lánanna til þess að eftirstöðvar þeirra hafi verið eftirfarandi á úrskurðardegi:

Lán 30. ágúst 2004

Lán 11. febrúar 2005

Samtals

Upprunaleg lánfjárhæð

63.500.000 krónur

49.999.961 króna

113.499.961 króna

Staða skv. endurútreikningi 9. september 2009

15.175.257 krónur

62.232.747 krónur

77.408.004 krónur

            Verði ekki fallist á forsendur eða niðurstöðu þessa endurreiknings sé til vara byggt á endurreikningi sem sóknaraðili hafi lagt fram.

                Varnaraðilar telja, með vísan til alls ofangreinds, að skuldir SevenMiles ehf. hafi verið greiddar upp með innlausn á hlutafé félagsins í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. þar sem and­virði hinna innleystu trygginga hafi átt að ráðstafa inn á lán SevenMiles ehf. við sóknaraðila. Í öllu falli hafi krafa sóknaraðila á hendur SevenMiles ehf. verið miklum mun lægri en sóknaraðili krefjist þegar tekið hafi verið tillit til ólögmætis gengis­trygg­ingar skuld­bind­ingar­innar. Varnaraðilar telja að innstæða á bankareikningi búsins hrökkvi í slíku tilviki til að greiða upp eftirstöðvar kröfunnar og gott betur. Ljóst sé að aðeins hluti af virði hinna innleystu hluta í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. hefði nægt til að greiða upp allar skuldir SevenMiles ehf. við sóknaraðila.

                Jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að einnig hafi átt að ráðstafa and­virð­inu inn á önnur lán félaga í samstæðunni byggja varnaraðilar á því að þá eigi að miða við að ekki minna en einum þriðja af andvirðinu skuli ráðstafað til niðurgreiðslu skulda SevenMiles ehf. Sóknaraðili hafi enga grein gert fyrir ráðstöfun andvirðisins eða freistað þess að mæla fyrir um hana. Sóknaraðili hafi þannig ekki byggt á öðru en því að átt hafi að ráðstafa verðmætinu inn á skuldir allra félaganna jafnt, þ.e. þriðjungi á hvert félag.

                Í öllu falli geti aldrei átt að ráðstafa lægri fjárhæð inn á lán SevenMiles ehf. en sem nemi hlutfalli skulda félagsins af heildarskuldum félaganna SevenMiles ehf., Spors ehf. og Sporbaugs ehf. Sóknaraðili hafi neitað að leggja fram endurútreikning skulda Spors ehf. og Sporbaugs ehf. eða afhenda varnaraðilum fullnægjandi gögn til að framkvæma slíkan endurútreikning, en varnaraðilar telja lánin gengistryggð með ólögmætum hætti á svipaðan hátt og lán SevenMiles ehf. Varnaraðilar telja að sóknaraðili verði að bera hallann af þessari ónákvæmni og það styrki enn það sem að framan var rakið um jafna ráðstöfun andvirðis veðanna.

                Miðað við kröfulýsingar sóknaraðila í bú SevenMiles ehf., Spors ehf. og Sporbaugs ehf. og ummæli í greinargerð sóknaraðila, hafi skuldir SevenMiles ehf. numið um 27,88% af heildarskuldum félaganna þriggja við sóknaraðila. Miðað við það hlutfall hefði átt að ráðstafa minnst 139.144.201 krónu inn á lán SevenMiles ehf. (eða 117.174.064 krónum ef miðað er við að andvirði veðanna hafi numið 420.280.000 krónum). Því liggi ljóst fyrir að ekki einu sinni þurfi að taka tillit til þeirrar fjárhæðar sem vitað sé að félagið eigi til reiðu á bankareikningi til að komast að því að félagið hafi ekki verið og sé ekki gjaldþrota.

                Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að í búi SevenMiles ehf. muni standa eftir eignir þegar allar aðrar kröfur en krafa sóknaraðila hafi verið afturkallaðar, en kröfur sóknar- og varnaraðila þessa máls séu þá þær einu sem eftir standi.

                Varnaraðilar hafna þeirri fullyrðingu sóknaraðila að ágreiningur málsaðila snúi að því einu að skuldir félagsins hafi verið upp gerðar að fullu en óþarft sé að fjalla um fjárhæð þeirra. Fullur ágreiningur sé um fjárhæð kröfu sóknaraðila í bú SevenMiles ehf. jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að kröfur sóknaraðila hafi ekki verið að fullu upp gerðar.

                Varnaraðilar byggja kröfur sínar einkum á meginreglum samninga- og kröfu­réttar, þar með talið um skuldbindingargildi ákvaða. Þá byggja þeir á ákvæðum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ólögmæta löggerninga, laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl. og ákvæðum laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum 80. gr. lag­anna. Til stuðnings beggja krafna, þar sem fjallað er um ólögmæti gengis­trygg­ingar, er vísað til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 14. gr. Máls­kostn­aðarkrafa varnaraðila byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.

Niðurstaða

Með tilkynningu sóknaraðila til SevenMiles ehf., 7. október 2009, var því lýst yfir að gengið hefði verið að veðum samkvæmt tveimur handveðssamningum, dags. 2. febrúar 2009,  til tryggingar skuldum SevenMiles ehf., Sporbaugs ehf. og Spors ehf. við sóknaraðila, eins og nánar greinir í tilkynningu þessari. Í tilkynningunni segir m.a. svo:

                Með heimild í framangreindum handveðssamningum hefur Sparisjóðabankinn tekið til sín ofangreinda hluti í Spori ehf. og Sporbaugi ehf. til niðurgreiðslu skuldar Seven­Miles ehf., Sporbaugs ehf. og Spors ehf. við Sparisjóðabankann, samkvæmt ofan­greindu og tilvitnuðum gögnum. Bankinn leysti til sín hlutina í Sporbaugi ehf. og Spori ehf. hinn 9. september 2009 miðað við fyrirliggjandi verðmat VBS fjár­fes­ting­ar­banka hf. á félögunum, frá því í apríl 2009, þ.e. virði 32% hlutar í Spori ehf. samtals ISK 110.200.000 og virði 32% hlutar í Spor­baugi ehf. samtals ISK 310.080.000.

                Því næst segir:

                Framangreind ráðstöfun á hlutum í Sporbaugi ehf. og Spori ehf. er hér með tilkynnt SevenMiles ehf.

                Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili sé bundinn af yfirlýsingu sinni um umrædda innlausn á hlutafé í Spori ehf. og Sporbaugi ehf., þar með talið hvað varðar innlausnarverðið, enda sé yfir­lýsing ákvöð sem bindi viðtakanda hennar, sem og sendanda, frá þeim tíma sem ákvöðin berist til vitundar viðtakanda hennar.

                Sóknaraðili telur hins vegar að varnaraðilar geti ekki byggt rétt á tilvísun hans til þess verðmats sem tilgreint var og vísar til orðalags þeirra handveðsyfirlýsinga sem veðrétturinn grundvallast á þar sem segir:

                Veðsali lýsir því yfir, að verði vanskil á skuldum sem handveðið á að tryggja eða brjóti veðsali gegn ákvæðum yfirlýsingar þessarar er veðhafa heimilt, án undan­far­andi tilkynningar til veðsala og að því marki sem þörf er á til að veðhafi fái full­nustu á þeim kröfum sem handveðsetningin tryggir, að

                a) láta selja hina veðsettu hluti nauðungarsölu til fullnustu á skuldinni án undan­gengins dóms, sáttar eða aðfarar samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauð­ung­ar­sölu eða

                b) leysa til sína hina veðsettu hluti og koma þeim í verð á hvern þann hátt, sem hann kýs og ráðstafa söluandvirði þess.

                Komi til þess að veðhafi selji hið veðsetta beint til þriðja aðila eða leysi það beint til sín skal veðhafi leitast við að fá sem hagkvæmast verð fyrir hina veð­settu hluti.

                Í tilkynningu sóknaraðila 7. október 2009 hafi hann upplýst að hann hefði „leyst til sín hina veðsettu hluti“, en hafi ekki farið með þá beint í nauð­ungar­sölu, sbr. a) lið ákvæðis í handveðssamningunum. Ljóst sé að sókn­ar­aðili hafi átt eftir að „koma hlutunum í verð“ og „ráðstafa söluandvirði þess“ inn á veð­tryggðar skuldir SevenMiles ehf., Spors ehf. og Sporbaugs ehf. hjá sóknar­aðila. Í bréfinu hafi jafnframt verið vísað til þess eina verðmats sem þá lá fyrir á virði rekstrar félag­anna tveggja. Orðalag bréfsins hafi aldrei getað vakið væntingar um að krafan væri greidd, enda teljist peningakrafa ekki efnd fyrr en kröfuhafi hafi móttekið fulla greiðslu hennar í peningum.

Í svokölluðu Þrekprófi, sem sóknaraðili byggði á og VBS fjár­fest­ingar­banki vann fyrir hluthafa í Spori og Sporbaugi í maí 2009, segir í fyrirvara bankans: ÞREKPRÓF er unnið af fyrirtækjasviði VBS fjárfestingarbanka hf. Skýrsla þessi sem inniheldur niðurstöður prófsins er ætluð eigendum og stjórnendum þess fyrirtækis sem prófið er framkvæmt fyrir. Markmið skýrslunnar er að gera grein fyrir stöðu þess félags sem unnið er fyrir út frá sögulegum gögnum. Upplýsingar þær sem skýrslan byggir á hefur verið aflað hjá fyrir­svars­mönnum félagsins sjálfs. Vegna þessa getur VBS fjárfestingarbanki ekki ábyrgst áreiðan­leika þeirra upplýsinga sem hér koma fram né að þær séu tæmandi. VBS fjár­fest­ingar­banki ber ekki ábyrgð á beinu eða óbeinu tjóni sem hlotist getur vegna ákvarð­ana, athafna eða athafnaleysis sem byggt er á í skýrslunni.

Fyrirvari þessi ber með sér að draga megi í efa áreiðanleika þeirra upplýsinga sem skýrslan byggir á vegna þess að þær eru eingöngu frá fyrirsvarsmönnum félaganna komnar. Sá fyrirvari og sú staðreynd að félögin Sporbaugur ehf. og Spor ehf. voru úrskurðuð gjaldþrota skömmu eftir tilkynningu sóknaraðila um innlausn veðsettra hluta í þeim er staðfesting þess að hinir veðsettu hlutir hafi í raun verið verðlausir. Tilgangur þeirrar veðsetningar sem fólst í greindum handveðsyfirlýsingum var að tryggja greiðslur á skuldum þessara félaga og félagsins SevenMiles ehf. við sóknaraðila. Í því skyni var gengið að veðunum. Ljóst er af gögnum máls að það verðmat sem tilgreint var sem virði hluta­bréfa­eignar SevenMiles ehf., í félögunum Spori ehf. og Spor­baugi ehf., sam­tals 420.080.000 krónur, var bersýnilega rangt og um það hafi varnar­aðilum, sem eig­endum SevenMiles ehf., mátt vera kunnugt. Því til stuðnings má vísa til bréfs stjórnarformanns SevenMiles ehf., til VBS og sóknaraðila, dags. 7. september 2009, þar sem gerð var grein fyrir bágri stöðu félaganna Spors ehf. og Sporbaugs ehf. Verður því fallist á með sóknaraðila að yfirlýsing hans samkvæmt tilkynningu frá 7. október 2009 um inn­lausn veða á tilgreindu verði til niður­greiðslu skulda tilgreindra félaga sé ekki skuld­bindandi fyrir hann vegna brostinna forsendna.  Ekki verður talið að sú niðurstaða haggi að neinu leyti yfirtöku sóknaraðila á þeim félögum sem hér um ræðir, enda byggist framsal hinna veðsettu hluta á ákvæðum handveðsyfirlýsinganna sjálfra.

Samkvæmt framansögðu er þeim málsástæðum varnaraðila hafnað að lán SevenMiles ehf. hjá sóknaraðila hafi að fullu verið upp gerð með innlausn greindra hluta samkvæmt tilkynningunni frá 7. september 2009. Kröfu sóknaraðila í þrotabú SevenMiles ehf. verður ekki hafnað á þeim grundvelli.

Varnaraðilar byggja í öðru lagi á því að lánssamningar SevenMiles ehf. við sóknar­aðila, eins og þeim hafi verið breytt með skilmálabreytingum og við­aukum, feli í sér ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum. Slík gengistrygging sé ólög­mæt samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu, eins og þau hafi verið túlkuð af Hæstarétti í fjölmörgum nýlegum dómum, til dæmis í málum nr. 155/2011 og 386/2012.

                 Sóknaraðili vísar því á bug að í umþrættum lánssamningum sé ólög­mætt ákvæði um gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum. Lánssamningarnir séu tveir. Annars vegar lánssamningur, dags. 30. ágúst 2004, um fjöl­mynta­lán að jafnvirði 83.500.000 króna. Hins vegar lánssamn­ingur, dags. 11. febrúar 2005, um fjöl­mynta­lán að fjárhæð 20.000.000 króna, 185.800 evrur, 119.600 Bandaríkjadalir og 12.633.000 japönsk jen. Sóknaraðili byggir á því að hvorugur þessara lánasamninga sé ólöglegur og vísar til dómaframkvæmdar því til stuðnings. Þar sem lánsfjárhæðin sé tilgreind í erlendum myntum þá teljist þau lán vera lögleg erlend lán

Í lánssamningi SevenMiles (þá T.O.H. ehf.) og sóknaraðila, dags. 30. ágúst 2004, segir á forsíðu að lánið sé í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum. Í inngangsorðum segir að lántaki og lán­veit­andi geri með sér samning um „fjölmyntalán að jafnvirði: kr. 83.500.000 ***átta­tíu­og­þrjár­milljónir­og­fimm­hundruð­þúsund íslenskra króna*** til fjár­mögn­unar á kaupum á hlutum í Spor ehf. og Sporbaug ehf.“. Í lánssamningnum er ekki getið um fjárhæðir í erlendum myntum, en framlagðar kaupkvittanir sýna hins vegar að Seven­Miles tók að láni á grundvelli lánssamningsins 133.815,68 Banda­ríkjadali, 217.764,06 evrur, 14.778.898 japönsk jen og 25.400.000 íslenskar krónur. Með breytingu á skilmálum lánssamningsins, 29. nóvem­ber 2005, var sam­setn­ingu mynta breytt þannig að höfuðstóll skuld­ar­innar sund­ur­liðaðist fram­vegis í 8.884.027 íslenskar krónur, 184.719,36 sviss­neska franka og 16.564.856,27 japönsk jen. Verður því að telja að sá hluti skuldarinnar sem tilgreindur er í erlendum myntum sé lánveiting í þeim myntum, en ekki lánsfjárskuldbinding í íslenskum krónum. Ekki verður séð að sá hluti lánsins sem er í íslenskum krónum sé tengdur við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í lánssamningi SevenMiles (þá T.O.H. ehf.) og sóknaraðila, dags. 11. febrúar 2005, segir á forsíðu að lánið sé í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum. Í inngangsorðum samn­ingsins er skýrt tilgreint að lánveitandi láni lántaka 20.000.000 íslenskra króna, 185.800 evrur, 119.600 Bandaríkjadali og 12.633.000 japönsk jen. Af dómum Hæstaréttar í málum nr. 551/2011 og 552/2011 verður ráðið að þegar fjárhæð hinnar erlendu myntar er tilgreind í lánssamningnum sé lánið tekið í þeirri mynt burtséð frá því hvort það var greitt út og endurgreitt í íslenskum krónum.

                Samkvæmt framansögðu er ekki grundvöllur til endurútreiknings á eftirstöðvum greindra lánasamninga og verður kröfum varnaraðila því hafnað í málinu. Krafa sóknaraðila að fjárhæð 194.783.339 krónur, sem hann lýsti í þrotabú SevenMiles ehf., og hefur fært fullnægjandi rök fyrir að mati dómsins, verður því viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við skipti á þrotabúinu.

Eftir þessum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila 750.000 krónur í málskostnað.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Krafa sóknaraðila, SPB hf., að fjárhæð 194.783.339 krónur, er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við skipti á þrotabúi SevenMiles ehf.

Varnaraðilar, Anna Brynja Ísaksdóttir og Tómas Ottó Hansson, greiði sóknaraðila 750.000 krónur í málskostnað.