Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2007


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Samningur


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. september 2007.

Nr. 45/2007.

Magnea Ólafsdóttir

(Grétar Haraldsson hrl.)

gegn

Eignasögu-Trausti ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

 

Skuldabréf. Samningur.

E ehf. krafði M um greiðslu eftirstöðva skuldabréfs, en M hafði tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu bréfsins. M bar því við að milli aðila hefði verið samið að með afhendingu á nýju veðskuldabréfi yrðu að fullu greidd tvö skuldabréf milli aðila, þ. á m. fyrrgreint skuldabréf, með nánar tilgreindum afslætti af heildarskuldinni. Því til stuðnings vísaði M til áritana á veðskuldabréfið. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þegar veðskuldabréfið var afhent félaginu hafi skuldabréfið, sem málið snerist um, verið í eigu bankans K. Var talið að þegar orðalag þessara áritana væri virt í ljósi aðstæðna í málinu þætti gegn andmælum E ehf. ekki nægilega sannað að félagið hefði tekist á hendur skuldbindingu um eftirgjöf kröfu á hendur M. Héraðsdómur, þar sem fallist var á kröfu E ehf., var því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 2007. Hún krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Deilt er um greiðslu eftirstöðva skuldabréfs nr. 200434, sem gefið var út 16. janúar 2003 af Plenu ehf. til stefnda, en framselt Búnaðarbanka Íslands hf. nokkru síðar. Áfrýjandi telur skuldina greidda með því að hún hafi afhent stefnda veðskuldabréf útgefið af nafngreindum manni 23. mars 2004 til handhafa að fjárhæð 1.800.000 krónur. Kveður hún aðila hafa samið um að með afhendingu þess bréfs yrðu að fullu greidd tvö veðskuldabréf, bréf nr. 200433 og 200434. Í því hafi falist að sér hafi verið veittur afsláttur af heildarskuldinni samkvæmt báðum bréfunum sem numið hafi rúmlega 300.000 krónum. Þáverandi lögmaður áfrýjanda ritaði eftirfarandi texta á ljósrit skuldabréfsins 23. mars 2004: „Frumrit og þinglýsingareintak veðskuldabréfs er mótt. 26. apríl 2004; staðfest er, að þau 2 veðskbr. sem tilgr. eru á bakhlið verða greidd upp og afhent Plena ehf.“ Neðst á sama ljósrit var skráð af hálfu stefnda við móttöku bréfsins: „Andvirði gr. til KB 313-74-200433, 200434.“ Stefndi innleysti 3. nóvember 2005 í bankanum skuldabréf nr. 200434 með 1.199.549 krónum sem sagðar eru hafa verið eftirstöðvar þess þann dag. Samkvæmt gögnum málsins höfðu greiðslur af veðskuldabréfinu þá greitt bréf nr. 200433 að fullu en bréf nr. 200434 að hluta.

Stefndi hefur lýst yfir því að hann reki þetta mál ekki samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála heldur sem almennt einkamál. Ágreiningur er um hvaða skilning beri að leggja í framangreinda texta og hvort báðir voru ritaðir á skjalið á sama tíma. Engin frekari sönnunarfærsla fór fram um þessi atriði né um ætlaðan afslátt af kröfunni til handa áfrýjanda. Á þeim tíma er veðskuldabréfið 23. mars 2004 var afhent stefnda var skuldabréf nr. 200434 í eigu fyrrgreinds banka. Ekkert kemur fram um hvernig haga átti uppgjöri á meintum afslætti á skuldinni gagnvart bankanum, né hvernig farið hafi verið með afborganir og vexti af nýja bréfinu. Því er haldið fram af stefnda að bankinn hafi ekki viljað taka strax við nýja bréfinu sem greiðslu á eldri bréfunum tveimur, en að það hafi greiðst við sölu veðsins 19. nóvember 2004. Þegar orðalag umdeildra áritana á veðskuldabréfið er virt í ljósi framangreindra aðstæðna, þykir gegn andmælum stefnda ekki nægilega sannað að hann hafi tekist á hendur þá skuldbindingu um eftirgjöf kröfu á hendur áfrýjanda sem málsástæður hennar byggja á. Verður héraðsdómur því staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda upp í málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Magnea Ólafsdóttir, greiði stefnda, Eignasögu-Trausti ehf., 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. október sl. að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað með stefnu birtri 16. mars sl. af Eignasögu – Traust ehf., Kringlunni 4-6, Reykjavík, á hendur Magneu Ólafsdóttur, Hvassa­leiti 38, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.199.549 krónur auk vanskila­vaxta á ári samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2005 til greiðsludags og málskostnað samkvæmt máls­kostnaðar­reikningi.

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og að henni verði ákveðinn máls­kostnaður að viðbættum virðisaukaskatti.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi hefur höfðað málið til innheimtu skuldar samkvæmt skjálfskuldar­ábyrgð stefndu á skuldabréfi, útgefnu 16. janúar 2003 af Plena ehf. til stefnanda, að fjárhæð 1.000.000 króna. Skuldina skyldi greiða með 24 mánaðarlegum afborgunum og vextir reiknast frá 1. janúar 2003, 15% á mánuði, þó aldrei lægri en hæstu vextir Búnaðarbanka Íslands hf. Stefnandi framseldi Búnaðarbankanum skuldabréfið 7. maí 2003 en leysti það til sín þegar vanskil höfðu orðið á greiðslum 3. nóvember 2005 með því að greiða eftirstöðvar skuldar­innar, 1.199.549 krónur. 

Stefnda telur skuldina greidda með veðskuldabréfi útgefnu 23. mars 2004 en óum­deilt er að samkomulag var um að andvirði veðskuldabréfsins yrði ráð­stafað til greiðslu skuldarinnar samkvæmt skuldabréfinu, sem er nr. 200434, og skuldar samkvæmt öðru skulda­bréfi, nr. 200433.

Deilt er um það í málinu hvort þar hafi verið um fullnaðargreiðslu að ræða á skuldinni samkvæmt skuldabréfi nr. 200434. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að aðeins hafi verið um innborganir að ræða en ekki fullnaðargreiðslu. Stefnda heldur því hins vegar fram að samið hafi verið um að með veðskuld­a­bréfinu hefði farið fram fullnað­ar­greiðsla á skuldum samkvæmt skuldabréfunum tveimur. Óumdeilt er að áritun á veðskuldabréfið, sem vísað er til af hálfu stefnda, er frá lögmanni hennar komin, en fyrir móttöku og staðfestingu á að andvirðið greiðist til bankans vegna skuldabréfanna tveggja, nr. 200433 og 200434, er kvittað af umboðs­manni stefnanda. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst hafa leyst til sín umrætt skuldabréf, gefið út í Reykjavík 16. janúar 2003 af Plenu ehf. til stefnanda en framselt af honum til Búnaðar­banka Íslands 7. maí 2003, með því að greiða bankanum 1.199.549 krónur 3. nóvember 2005. Stefndu beri að endur­greiða stefnanda þá fjárhæð en hún hafi tekist á hendur sjálf-skuldar­ábyrgð og gefið það loforð að ábyrgjast að skaðlausu in solidum með útgef­anda að skuldabréfið yrði greitt. Bréfið hafi lent í vanskilum og hafi stefnandi greitt það upp með framangreindri fjár­hæð til bankans, sbr. kvittun 3. nóvember 2005. Inn­heimtuaðgerðir á hendur stefndu hafi ekki borið árangur og því hafi verið nauðsynlegt að höfða málið.

Stefnda hafi sönnunarbyrðina fyrir því að samningur hefði tekist um að veð­skulda­­bréfið frá 23. mars 2004 hafi verið fullnaðargreiðsla á skuldabréfum nr. 200433 og 200434. Þetta sé ósannað og gögn málsins bendi ekki til að þetta hafi verið með þessum hætti. Stefnandi hafi tekið við veðskuldabréfinu og þá hafi aðeins verið samið um að andvirði þess færi til greiðslu á skuldabréfunum tveimur og hafi það gengið eftir en þær greiðslur hafi ekki nægt til að greiða skuldina samkvæmt skulda­bréfi nr. 200434 að fullu. Þarna hafi því ekki verið um fullnaðargreiðslu að ræða.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefnda heldur því fram að skuldabréfið sem stefnandi leysti til sín hafi verið að fullu greitt og hafi stefnanda borið að afhenda það. Af hennar hálfu er vísað til áritunar á veðskuldabréfið en þar komi fram að það hafi verið móttekið 26. apríl 2004 og að skuldabréfin tvö, sem tilgreind séu á bakhlið veðskuldabréfsins, verði greidd upp og afhent Plena efh. Staðan á þeim bréfum hafi þá legið fyrir og veittur hafi verið afsláttur af skuldinni þannig að um fullnaðar­greiðslu hafi verið að ræða með afhendingu veðskulda­bréfsins. Þetta telji stefnda að komi ótvírætt fram af áritunum á veðskuldabréfið og því sem þar sé vísað til. Stefnda verði ekki krafin um greiðslu á skuld sem þegar hafi verið greidd.

Niðurstöður

Óumdeilt er að stefnandi leysti til sín skuldabréfið, sem krafa hans í málinu er byggð á, með greiðslu að fjárhæð 1.199.549 krónur 3. nóvember 2005. Einnig er óumdeilt að andvirði veðskuldabréfsins frá 23. mars 2004 nægði ekki til að greiða skuldina samkvæmt umræddu skuldabréfi að fullu þegar skuldin samkvæmt veð­skulda­bréfinu var greidd upp við sölu veðsins. Þótt stefnandi hafi tekið við veð­skulda­bréfinu og staðfest að andvirði þess skyldi ráðstafað til greiðslu á skulda­bréfunum tveimur nr. 200434 og 200433 verður ekki talið að ótvírætt hafi komið fram af hans hálfu að hann myndi ekki innheimta skuldina frekar fengist hún ekki greidd af andvirði veðskuldabréfsins enda verður það ekki nægilega skýrt ráðið af því sem fram hefur komið í málinu, þar með talið áritunum á veðskuldabréfið sem vísað er til af hálfu stefndu. Með þessu verður að telja að stefnda hafi ekki sýnt fram á að um fullnaðargreiðslu hafi verið að ræða þegar veðskuldabréfið var afhent stefnanda eins og haldið er fram af hennar hálfu að þá hafi verið samið um. Ber því að taka kröfu stefnanda til greina og dæma stefndu til að greiða skuldina, sem er að öðru leyti óum­deild, ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, Magnea Ólafsdóttir, greiði stefnanda, Eignasögu – Traust ehf., 1.199.549 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2005 til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.