Hæstiréttur íslands
Mál nr. 778/2015
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
- Frávísunarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. október 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu vísað frá dómi.
Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
Kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi reisir ákærði á því „að við frumrannsókn og skýrslutöku af ákærða liggi ekki fyrir kæra, frásögn eða skýrsla af brotaþola.“ Ákærði er sakaður um brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum, sem fellur undir XXII. kafla laganna um kynferðisbrot. Rannsókn á þeim brotum má hefja þótt ekki liggi fyrir krafa brotaþola. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal lögregla hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hafi borist kæra eða ekki. Aðkoma lögreglu á vettvangi er akstur ákærða var stöðvaður gaf fullt tilefni til að hafin yrði rannsókn á ætluðu kynferðisbroti hans. Samkvæmt því og þar sem engir slíkir gallar voru á undirbúningi málshöfðunar eru ekki nokkur efni til að fallast á kröfu ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Við ákvörðun refsingar hans verður litið til þess að hann braut freklega gegn ungri stúlku, sem hann hafði að fyrra bragði boðist til að aka heim, en í stað þess ók hann með hana á afvikinn stað þar sem hann viðhafði þá háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir. Rannsókn lögreglu lauk í desember 2013 og barst málið ríkissaksóknara í mars 2014, en ákæra var ekki gefin út fyrr en um ári síðar. Vegna þessa dráttar við meðferð málsins kemur ekki til álita að þyngja refsingu ákærða. Þá hefur ákærði ekki áður hlotið refsidóm. Að þessu gættu er staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða. Þá verða ákvæði dómsins um einkaréttarkröfu og sakarkostnað staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Valdimar Garðar Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 773.506 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 434.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2015.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 8. september síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 4. mars síðastliðinn, á hendur Valdimar Garðari Guðmundssyni, kennitala [...], Þórsgötu 23, Reykjavík, „fyrir kynferðislega áreitni gegn A, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 6. október 2013, í kjölfar þess að ákærði bauð A bílfar við Laugaveg, í Reykjavík, áreitt hana kynferðislega í bifreið hans á meðan bílferðinni stóð. Ákærði ók með brotaþola að heimili hans í Rauðagerði 59, Reykjavík, og þaðan að bílastæði Fiskikóngsins við Sogaveg, Reykjavík, þar sem ákærði kyssti A, káfaði á lærum hennar og kynfærum utanklæða, káfaði á brjóstum hennar innanklæða og girti niður buxur sínar, lét hana taka um getnaðarlim sinn og ýtti höfði hennar niður í átt að getnaðarlimi hans.
Telst háttsemi ákærða varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Margrét Gunnlaugsdóttir hrl., gerir kröfu fyrir hönd A, kt. [...], um greiðslu miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 800.000, auk vaxta, skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 6. október 2013 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum, skv. 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess aðallega að bótakröfunni verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Málavextir eru þeir að lögreglumenn stöðvuðu bifreið ákærða snemma morguns 6. október 2013 í miðborg í Reykjavíkur. Brotaþoli var farþegi í bifreiðinni og sat í framsæti. Samkvæmt skýrslunni var ákærði með óhnepptar buxur er hann steig út úr bifreiðinni og sást í bert hold, enda virtist svo sem hann væri ekki í nærbuxum. Hann var spurður um brotaþola meðan hann sat enn í bifreiðinni og kvað hann hana vera frænku sína er hann væri að aka heim. Brotaþoli var sjáanlega ölvuð og hafði verið að gráta. Í skýrslunni segir að hún hafi snúið sér að farþegahurðinni án þess að yrða á lögreglumenn. Eftir að ákærði steig út úr bifreiðinni kvað hann brotaþola vera vinkonu sína en þá kvaðst brotaþoli ekkert þekkja til ákærða og byrjaði aftur að gráta. Ákærði hefði þá kallað hana „ástina sína“ og „elskuna sína“ en síðan var hann færður í lögreglubifreið. Eftir það hefði brotaþoli sagt að henni hefði létt við að lögreglan kom. Segir í skýrslunni að hún hafi verið sjáanlega mjög hrædd.
Brotaþoli skýrði lögreglu á vettvangi svo frá að hún hefði orðið viðskila við vinkonu sína og hitt ákærða á Laugaveginum. Hann hefði sagst vera leigubílstjóri og boðist til að skutla henni heim. Hún kvað hann hafa verið viðkunnanlegan og sagt að hún væri falleg. Eins hefði hann spurt hver væri uppáhaldsmatur hennar og er hún hefði svarað að það væri slátur hefði hann lagt bifreiðinni og sagt „þú getur borðað mitt slátur“. Kvaðst hún hafa skilið það svo að hún ætti að totta hann. Hún kvað hann hafa tekið í hnakka hennar og ýtt höfðinu í átt að kynfærum sínum. Einnig hefði hann tekið um hönd hennar og sett hana á beran lim sinn. Þá hefði hann og snert á henni lærin innanverð og brjóstin innanklæða. Loks hefði hann farið tvisvar inn á hana og snert á henni kynfærin. Brotaþoli kvaðst ítrekað hafa sagt honum að hún vildi þetta ekki og að hún vildi fara heim. Þá sagði brotaþoli að ákærði hefði talað við hana eins og hún væri unnusta hans og kallað hana elskuna sína og ástina sína.
Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar var hann vistaður og tekin af honum skýrsla sama dag. Hann kannaðist við að hafa hitt brotaþola og ekið henni að bifreiðastæði sem nefnt er í ákæru. Þar hefði hann byrjað að láta vel að henni en þegar hún hefði ekki viljað það hefði hann hætt og ekið niður í bæ þar sem lögreglan hefði stöðvað bifreiðina. Nánar spurður um viðskipti hans og brotaþola kvaðst ákærði hafa spurt hana hvort hann mætti snerta hana. Hann hefði spurt meðan þau hafi verið að kyssast og þegar hún svaraði ekki hafi hann þreifað á lærum hennar, kysst á henni brjóstin og þreifað á kynfærum hennar yfir nærbuxunum. Á þessum tíma hafi hann verið búinn að hneppa frá sér og losa um beltið á buxum sínum. Hann hafi tekið liminn út, en hann hafi verið með fullri reisn, og leitt hönd brotaþola að honum eins og hann orðaði það. Í næsta kafla verður rakinn framburður ákærða við aðalmeðferð og þykir þar af leiðandi ekki ástæða til að rekja nánar efni lögregluyfirheyrslunnar.
Meðal gagna málsins er vottorð sálfræðings um brotaþola. Í því segir að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun og hafi það markað hana mikið. Hún sé með áfallastreituröskun, kvíða og eigi erfitt með svefn. Þá sé sjálfsmat hennar neikvætt, hún sé uppfull af skömm og telji sig einskis virði. Hún sé óörugg í samskiptum við fólk og eigi erfitt með að treysta því. Þess vegna hafi hún dregið sig inn í skel sem erfitt sé að ná henni úr og hún sé uppfull af einmanaleika. Loks er þess getið að eftir áfallið hafi hún glímt við þunglyndi.
III
Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði hitt brotaþola umrædda nótt á Laugaveginum og hefði hún verið kjökrandi. Hann kvaðst hafa snúið sér að henni og boðist til að hjálpa henni. Hún hefði sagt sér að hún hefði lent í veseni með strák fyrr um kvöldið og nú vildi hún bara fara heim. Ákærði kvaðst hafa boðist til að skutla henni heim, en hann hefði ekki sagst vera leigubílstjóri. Þau hefðu nú gengið að bifreið hans er var hjá Hafnarhúsinu og rætt saman á leiðinni. Er þangað kom hefðu þau kyssts áður en þau settust inn í bifreiðina. Ákærði kvaðst svo hafa ekið af stað og hefðu þau verið að spjalla saman. Hann kvaðst hafa verið orðinn hrifinn af brotaþola og kvaðst hann ekki hafa gætt þess að fara nægilega hægt í hlutina eins og hann orðaði það. Hann kvaðst nú hafa ekið að heimili sínu og viljað fá hana með sér inn en það hefði hún ekki viljað. Þá hefði hann ekið til baka og á leiðinni hefðu þau haldið áfram að spjalla saman og hefði hann meðal annars spurt hana hver væri uppáhaldsmatur hennar og hefði hún svarað að það væri slátur. Hann hefði túlkað þetta sem svo að hún vildi kela við hann og því hefði hann lagt á bifreiðastæðinu sem nefnt er í ákæru. Þar hefðu þau farið að kela en hann kvaðst hafa fundið að hún væri eins og hikandi en hann hefði leitt hana til sín eins og hann orðaði það. Ákærði tók fram að hann hefði ekki ýtt á brotaþola og ekki beitt hana þvingun á nokkurn hátt. Hann hefði fengið á tilfinninguna að brotaþoli væri kynferðislega virk og vildi kynnast honum betur, enda hefði hún engu mótmælt. Hann hefði hins vegar komist að því að hún vildi ekki þessi atlot hans og því ákveðið að skutla henni heim, en hún hefði sagst eiga heima í [...]. Hann hefði svo ekið um þar til lögreglan stöðvaði aksturinn við Alþingishúsið. Þá hefði brotaþoli verið orðin mjög þreytt og alveg búin á því eins og hann orðaði það, en það hefði ekki tengst því að hann hefði brotið gegn henni.
Ákærði var nú nánar spurður um hvað hefði gerst á bifreiðastæðinu. Hann kvaðst hafa haldið að hún væri í leikjum við sig þegar hún svaraði því til hver væri uppáhaldsmatur hennar. Kvaðst hann hafa skilið þetta þannig að hana langaði í slátur og taldi hann hana eiga við lim hans. Hún myndi vilja sýna honum hvað hún kynni. Þau hefðu byrjað að kyssast og þá hefði sér risið hold. Hann hefði svo viljað sýna henni liminn á sér og hefði hún ekki hryllt sig við því heldur hefði hún bara horft á sig. Ákærði kvaðst nú hafa tekið um hönd brotaþola og fært hana utan um liminn á sér og hefði brotaþoli ekki streist á móti. Í framhaldinu kvaðst ákærði hafa haldið að hún vildi eitthvað meira og tekið utan um öxl hennar án þess að hún sýndi mótþróa. Hann kvaðst hafa beint líkama brotaþola að lim sínum og hefði þá höfuðið stefnt að limnum. Áður en þetta gerðist kvaðst ákærði hafa strokið læri brotaþola, kynfæri hennar utan klæða, það er utan á nærbuxum, og brjóstum innanklæða. Þá kvaðst hann og hafa losað um buxurnar á sér. Meðan á ökuferðinni stóð kvaðst ákærði hugsanlega hafa tekið vinalega um læri brotaþola en neitaði að hafa sýnt henni kynferðislega áreitni meðan á ökuferðinni stóð. Ákærði kvað það vel geta verið að hann hafi spurt brotaþola á bifreiðastæðinu hvort hann mætti snerta hana og hefði hún jánkað því, að öðrum kosti hefði hann ekki snert hana. Hann kvað brotaþola ekki hafa verið mótfallna því sem hann hafi verið að gera, en hann hefði hætt strax og honum varð ljóst að hún vildi þetta ekki. Hann kvað þau hafa verið um einn og hálfan til tvo tíma í bifreiðinni.
Brotaþoli bar að hún hefði orðið viðskila við vinkonu sína umrædda nótt og auk þess hefði síminn hennar verið óvirkur. Hún kvaðst hafa verið að leita að leigubifreið til að aka sér heim þegar ákærði hefði komið að sér á Laugaveginum og sagst geta ekið henni heim þar eð hann væri leigubifreiðastjóri. Hún kvaðst hafa farið með honum að bifreið hans, og geti vel verið að hún hafi verið við Hafnarhúsið, og sagt honum að aka sér heim. Fljótlega hafi svo runnið upp fyrir henni að hann var ekki leigubifreiðastjóri. Ákærði hefði nú farið að aka um með hana og sagt hluti eins og „að örlögin hefðu leitt þau saman“. Þá hefði hann og farið að snerta hana og kyssa. Meðan á því stóð hefði hann stöðvað bifreiðina. Hún kvaðst hafa sagt að hún vildi þetta ekki en hann haldið áfram. Ákærði hefði stansað fyrir utan hús og sagst eiga þar heima. Vildi hann að hún kæmi með sér inn en hún kvaðst ekki hafa viljað það, hún vildi bara fara heim. Hann hefði haldið áfram að suða í henni, kyssa hana og snerta. Hún kvaðst hafa verið alveg stjörf og ekki vitað hvað hún ætti að gera en hann hefði ekið áfram, allt þar til lögreglan stöðvaði aksturinn.
Brotaþoli var spurð nánar um samskipti hennar við ákærða. Hún kvað ákærða hafa kysst sig blautum kossum sem hún hafi ekki svarað heldur verið alveg stjörf. Hún hefði margoft sagt ákærða að hún vildi fara heim. Brotaþoli kvaðst muna óljóst hvar og hvernig ákærði hefði snert hana en hann hefði káfað á lærum hennar og kynfærum. Eins hefði hann káfað á brjóstum hennar en ekki mundi hún hvort það hefði verið innan- eða utanklæða. Þetta hefði gerst þegar bifreiðin var kyrrstæð, en ákærði hefði stansað aksturinn oftar en einu sinni. Hún kvaðst ekki hafa þekkt borgina vel á þessum tíma og ekki vita hvar bifreiðastæðið væri sem ákærði hefði stöðvað á. Brotaþoli kvað ákærða hafa viljað að hún fróaði honum og haldið hendi hennar á þann hátt. Eins hefði hann tekið um höfuð hennar og viljað að hún veitti honum munnmök en hún hefði getað komið í veg fyrir það. Áður hefði ákærði gyrt niður um sig og verið þá með liminn nakinn. Þegar hér var komið sögu kvaðst brotaþoli hafa verið grátandi og ítrekað að hún vildi fara heim en hann svarað því til að þetta væru örlögin, þeim væri ætlað að vera saman.
Brotaþoli kvaðst hafa verið lítillega ölvuð þessa nótt en ekki geta sagt til um ölvunarástand ákærða. Hún kvað þetta hafa haft áhrif á sig, hún eigi erfitt með að treysta fólki og eins fái hún innilokunarkennd. Hún hafi gengið til sálfræðings vegna þessa. Hún kvaðst hafa gengið til sálfræðings áður vegna þunglyndis.
Móðir brotaþola bar að hún hefði reynt að ná símasambandi við dóttur sína þessa nótt en ekki tekist. Um klukkan átta um morguninn hefði brotaþoli hringt hágrátandi og sagt að maður hefði reynt að misnota sig. Brotaþoli sagði að hún hefði verið að leita að leigubifreið er maður hefði komið og sagst vera með leigubifreið og hefði hún farið með honum. Fljótlega hefði maðurinn farið að áreita hana og sagt að þeim hefði verið ætlað að hittast. Hann hefði viljað fá hana með sér inn í hús en hún hefði bara sagt að hún vildi fara heim. Þá sagði hún einnig að maðurinn hefði káfað á henni og látið hana káfa á sér. Brotaþoli hefði ekki viljað fara á sjúkrahús heldur viljað fara að sofa og helst gleyma þessu. Skömmu síðar hefði svo verið tekin ákvörðun um að kæra. Eftir þetta hefði brotaþola liðið illa og meðal annars ekki þorað að svara í síma ef um ókunnugt númer væri að ræða. Þá kvað hún hana vera orðna miklu kvíðnari, en hún hafi verið með kvíða áður. Þá sé hún hrædd og vilji lítið um þetta ræða.
Vinkona brotaþola, sem hafði verið með henni þessa nótt, bar að þær hefðu farið saman að skemmta sér, en síðan orðið viðskila. Brotaþoli hafi verið undir áhrifum áfengis en ekki ofurölvi. Daginn eftir hefði brotaþoli komið til sín og greinilega liðið mjög illa. Hún hefði brotnað saman og sagt sér að hún hefði hitt mann er hefði sagst vera leigubifreiðastjóri og gæti ekið henni heim. Brotaþoli hefði þegið það en á leiðinni hefði maðurinn sagt að þau væru sálufélagar og þeim væri ætlað að vera saman. Maðurinn hefði hneppt frá sér buxunum, reynt að kyssa hana og reynt að þvinga hana til munnmaka. Þetta hefði endað með því að lögreglan hefði stöðvað bifreiðina og hefði hún þá verið orðin stjörf af hræðslu og ekki getað sagt lögreglumönnum frá hvað hefði gerst fyrr en þeir höfðu handtekið ákærða.
Lögregluvarðstjóri, er handtók ákærða og ritar frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Hann kvað bifreið ákærða hafa verið stöðvaða í venjubundnu eftirliti og hafi hann strax verið grunaður um að vera að aka undir áhrifum. Kona hafi verið farþegi og hafi verið eins og hún hefði ekki viljað ræða við lögreglumenn heldur snúið sér að hurðinni sín megin í bifreiðinni. Varðstjórinn kvað ákærða ekki hafa verið fullgyrtan og hafi sést í hold í gegnum buxnaklauf. Hann hafi verið spurður hver væri með honum og hafi hann svarað að það væri frænka sín og síðan hafi hann farið út úr bifreiðinni. Í því hefði konan farið út úr bifreiðinni og beðið um að ákærða yrði haldið frá sér enda þekkti hún hann ekki neitt. Þá hefði ákærði haldið því fram að hún væri kærasta sín og kallað hana elskuna sína og ástina sína. Síðar hefði komið fram að hann hefði verið að áreita hana og hún væri nauðug í bifreið ákærða.
Lögreglukona, er vann að málinu með varðstjóranum, kvaðst hafa rætt við brotaþola eftir að lögreglumenn stöðvuðu för ákærða. Hún bar að stúlka hefði setið í framsæti bifreiðar ákærða og hefði hún virst vera í miklu uppnámi. Þá vakti það einnig athygli að ákærði gat ekki gert grein fyrir hver hún væri, ýmist sagt hana systur sína eða frænku. Hún kvað brotaþola hafa verið grátandi og „inni í sér“. Hún hefði helst viljað fara heim en verið flutt á lögreglustöð þar sem rætt hafi verið við hana. Saga brotaþola var að hún hefði verið að skemmta sér með vinkonum sínum en orðið viðskila við þær og þá hitt ákærða er hefði boðið henni far heim þar eð hann væri leigubifreiðastjóri. Hann hefði sagt henni að örlögin hefðu leitt þau saman og hún væri falleg. Þá hefði hann áreitt hana kynferðislega, snert á henni brjóstin og sett hendi sína á kynfæri hennar. Eins hefði hann farið inn á hana en ekki sett fingur í leggöng hennar. Þá hefði hann strokið henni um lærin innanverð. Meðan brotaþoli var að segja frá þessu hafi hún grátið og sagst vilja fara heim.
Rannsóknarlögreglumaður, sem ræddi við brotaþola á lögreglustöð, bar að brotaþoli hafi verið í uppnámi og hún hafi grátið þegar hún var að segja frá því sem gerðist. Brotaþoli kvaðst hafa orðið viðskila við vinkonu sína og hitt ákærða í framhaldinu er hafði sagst vera leigubifreiðastjóri. Hann hefði ætlað að aka henni heim en hann hefði talað við hana eins og þau væru par og einnig hefði hún skýrt frá því að hann hefði káfað á kynfærum hennar.
Sálfræðingur, sem brotaþoli hefur gengið til og ritar framangreint vottorð, staðfesti það. Sálfræðingurinn kvað brotaþola hafa verið veika fyrir vegna atvika á fyrri skeiðum lífs hennar, en slíkum einstaklingum sé einmitt hætt við að verða fórnarlömb ofbeldismanna. Brotaþoli hafi verið mjög óttaslegin og hafi átt erfitt með að skýra frá því sem hafði gerst. Hún hafi verið haldin miklum kvíða og átt erfitt með að fara út á meðal fólks vegna mikillar skammar sem hún hefði upplifað.
IV
Áður en aðalmeðferð hófst krafðist ákærði þess að ákærunni yrði vísað frá dómi vegna þess að rannsókn málsins væri ábótavant. Nánar tiltekið kvað hann lögreglu hafa tekið málið til rannsóknar á „grundvelli hugboðs án þess að fyrir lægi kæra, skýrsla eða frásögn ætlaðs brotaþola.“ Málið var flutt um þessa kröfu og síðan var henni hafnað eftir að dómsformaður hafði gert munnlega grein fyrir röksemdum dómsins með vísun til 3. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 25. gr. laga nr. 78/2015. Röksemdir dómsins byggðu á 52. gr. nefndra laga, einkum 2. mgr. hennar.
Ákærða er í fyrsta lagi gefið að sök að hafa áreitt brotaþola kynferðislega meðan á bílferðinni stóð. Því er ekki lýst nánar í hverju áreitnin á að hafa falist eins og gert er varðandi ætlaða áreitni hans á bílastæðinu. Í c-lið 1. mgr. 152. gr. sakamálalaga segir að í ákæru skuli meðal annars greina hver sú háttsemi sé sem ákært er út af. Með því að ekki er lýst í ákærunni hvernig ákærði á að hafa áreitt brotaþola meðan á bílferðinni stóð, fullnægir ákæran að þessu leyti ekki áskilnaði nefnds ákvæðis. Það er því óhjákvæmilegt að vísa þessu atriði ákærunnar frá dómi.
Eins og rakið var í kaflanum hér að framan ber ákærða og brotaþola í aðalatriðum saman um hvað gerðist í samskiptum þeirra þessa nótt, þar á meðal að ákærði hafi ætlað að aka brotaþola heim til hennar. Einnig ber þeim saman um að ákærði hafi viljað fá brotaþola með sér inn á heimili sitt en það hafi hún ekki viljað. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa haft í frammi þær athafnir gagnvart brotaþola á bílastæðinu sem hann er ákærður fyrir. Af framburði ákærða má ljóst vera að hann var að „reyna við“ brotaþola kynferðislega, en hann kvaðst ekki hafa farið nægilega hægt í hlutina eins og hann orðaði það. Brotaþoli hefur á hinn bóginn staðfastlega borið, allt frá því lögreglan hafði afskipti af henni og ákærða, að hún hafi aðeins viljað að ákærði æki sér heim eins og rakið var. Hún hefði ekki viljað áleitni hans og margsagt honum að hún vildi bara fara heim.
Það er niðurstaða dómsins að brotaþoli sé trúverðug í framburði sínum fyrir dómi. Framburður hennar styðst við framburð vitna, lögreglumanna á vettvangi og lögreglustöð, móður hennar og vinkonu, auk sálfræðings, en framburður allra þessara vitna var rakinn í kaflanum hér að framan. Þá styðst framburður hennar og við framburð ákærða að hluta til eins og rakið var. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákærða hefði ekki átt að geta dulist að brotaþoli var mótfallin því að hafa við hann kynferðisleg samskipti. Þetta átti honum að verða ljóst eigi síðar en þegar hún vildi ekki fara með honum inn á heimili hans. Engu að síður ók hann að nefndu bílastæði og áreitti brotaþola þar eins og rakið var. Með þessu gerðist hann sekur um kynferðislega áreitni gagnvart brotaþola og braut þar með gegn henni eins og honum er gefið að sök í ákæru. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot og er refsing hans hæfilega ákveðin 3 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.
Með framferði sínu olli ákærði brotaþola miska sem hún á rétt á að fá bættan. Bætur til hennar eru hæfilega ákveðnar 400.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu og miðast upphafsdagur dráttarvaxta við það er 30 dagar voru liðnir frá þeim degi.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, það er ferðakostnað brotaþola og móður hennar vegna aðalmeðferðar, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, og Kjartan Bjarni Björgvinsson, og Ingiríður Lúðvíksdóttir settur héraðsdómari.
D ó m s o r ð :
Framangreindu ákæruatriði er vísað frá dómi.
Ákærði, Valdimar Garðar Guðmundsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá deginum í dag að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. október 2013 til 26. apríl 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 105.560 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 613.800 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 347.820 krónur.