Hæstiréttur íslands
Mál nr. 253/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 11. maí 2006. |
|
Nr. 253/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. maí 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Af gögnum málsins er fram kominn rökstuddur grunur um að kærði sé viðriðinn innflutning að miklu magni fíkniefna sem varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að ætla megi að kærði muni torvelda rannsókn málsins verði hann eigi sviptur frelsi sínu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur með vísan til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 23. maí 2006, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint stórfellt fíkniefnabrot. Lagt hefur verið hald á mikið magn fíkniefna sem falin voru í bifreið sem flutt var til landsins frá útlöndum. Fíkniefnin fundust við leit tollgæslu þann 3. f.m. Meintur vitorðsmaður kærða hafi verið skráður innflytjandi bifreiðarinnar en lögregla hafði eftirlit með henni frá því hún kom til landsins. Kærði sé talinn hafa komið að innflutningi fíkniefnanna með því að hafa fengið vitorðsmanninn til að vera skráðan kaupanda og flytjanda bifreiðarinnar hingað til lands en þeir eru nágrannar í sama fjölbýlishúsi. Vitorðsmaðurinn leysti bifreiðina úr tolli og flutti á bifreiðastæði utan við umrætt fjölbýlishús. Bifreiðin var sótt að kvöldi 13. f.m. af þremur meintum vitorðsmönnum kærða og fluttu þeir bifreiðina í verkstæðishúsnæði. Aðkoma á vettvangi og hljóðritað samtal við bifreiðina í húsnæðinu benda eindregið til þess að umræddir þremenningar hafi verið að móttaka efnin með því að fjarlægja þau úr bifreiðinni.
Fyrir liggja framburðarskýrslur vitorðsmannsins auk skýrslu sem hann gaf fyrir dómi þar sem hann lýsti meintri aðild sinni og kærða að málinu. Fram hafi komið hjá vitorðsmanninum að kærði hafi fengið hann til að taka þátt í brotinu gegn þóknun, nánar tiltekið með því að taka að sér að vera innflytjandi bifreiðar sem í væru falin fíkniefni. Vitorðsmaðurinn hefur greint frá tveimur ferðum sínum til útlanda í þessu skyni sem hann hafi farið að beiðni kærða, móttöku hans á reiðufé frá kærða til farmiðakaupa auk þess að hafa fengið frá kærða upplýsingar um símanúmer hjá tengilið erlendis sem hann hafi hitt. Einnig hefur hann greint frá því að hann hafi verið í símasamskiptum við kærða í utanför sinni og móttekið þá frá honum 20 þúsund kr. sem kærði hafi lagt inn á bankareikning hans. Vitorðsmaðurinn hafi einnig lýst samskiptum við kærða eftir að bifreiðin var komin til landsins þar til farið var með hana af bifreiðastæðinu eins og áður greinir. Hafi hann nokkru síðar fengið 650 þúsund kr. frá kærða í reiðufé til að leysa bifreiðina út af tollsvæði og hafi hann lagt peningana inn á bankareikning sinn. Framburður vitorðsmannsins um meinta aðild kærða og annað sem tengist innflutningnum, þykir í samræmi við eftirlit lögreglu fyrir handtöku. Jafnframt þykir framburður hans í samræmi við samtal hans við kærða sem var hljóðritað í bifreiðinni. Fyrir liggi að einn þremenninganna sem sótti bifreiðina, hitti kærða áður sama kvöld en grunur leikur á því að kærði hafi þá látið hann fá kveikjuláslykla bifreiðarinnar.
Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 26. f.m. á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 28. f.m. í máli nr. 226/2006. Grunur lögreglu þykir hafa styrkst á gæsluvarðhaldstímabilinu. Fyrir liggi símagögn sem staðfesta tíð símasamskipti kærða og vitorðsmannsins skömmu fyrir og skömmu eftir utanlandsferðirnar. Einnig liggja fyrir bankagögn sem staðfesta að kærði lagði fyrrnefndar 20 þús. kr. inn á bankareikning vitorðsmannsins og gögn sem sýna að hann lagði kr. 650 þús. kr. inn á bankareikning sinn, um hálftíma eftir að kærði hafði hringt í hann. Kærði neitar allri aðild að brotinu og hann hafi gefið sínar skýringar á símasamskiptunum, m.a. sagt þau tengjast ætluð kaupum á vörum í Fríhöfninni og 20 þús. kr. greiðslan hafi verið greiðsla á láni. Kærði leggur annan skilning en lögregla og vitorðsmaðurinn í fyrrnefnt hljóðritað samtal frá 12. f.m. og kærði neitar að hafa móttekið kveikjuláslykilinn frá vitorðsmanninum og kveðst ekki geta tjáð sig frekar um það.
Lögreglan kveður rannsóknina vera umfangsmikla en henni miði áfram. Framundan séu frekari yfirheyrslur yfir kærða og meintum vitorðsmönnum hans, svo og frekari gagnaöflun og gagnaúrvinnsla sem skýrt geta frekar aðdraganda brotsins, innbyrðis samskipti hinna grunuðu og samskipti við aðra sem kunna að tengjast málinu en ekki sé vitað um hverjir séu á þessu stigi rannsóknarinnar. Fleiri einstaklingar eru taldir tengjast málinu en lögregla vinnur að því að upplýsa hverjir það eru. Gangi kærði laus þá getur hann sett sig í samband við meinta vitorðsmenn sem enn ganga lausir eða þeir geta sett sig í samband við hann. Þá kann ennþá að vera þörf á að leggja hald á sýnileg sönnunargögn sem kærði getur komið undan gangi hann laus. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Lögreglan telur sakarefnið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001 og byggir kröfu um gæsluvarðhald á a-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði hefur alfarið neitað sök og krafist þess að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað. Í greinargerð lögreglustjóra, sem rakin var hér að framan, kemur fram að kærði er grunaður um aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna. Rannsóknargögn bera með sér að grunur þessi sé rökstuddur og gæti brot kærða varðað hann fangelsisrefsingu samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Rannsókn máls þessa er skammt á veg komin og verður að fallast á það með lögreglustjóra að kærði geti torveldað hana, hafi hann fullt ferðafrelsi. Með vísun til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð :
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 23. maí 2006, kl. 16:00.