Hæstiréttur íslands

Mál nr. 465/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Mánudaginn 27. ágúst 2012.

Nr. 465/2012.

Hannes Frímann Hrólfsson

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Guðni Á Haraldsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni H um dómkvaðningu matsmanns til að svara nánar tilteknum spurningum er vörðuðu atriði tengd dómsmáli sem K hf. hafði höfðað gegn H, um riftun á ráðstöfun K hf. um að fella niður persónulega ábyrgð H á greiðslu nánar tiltekinna lánssamninga og endurgreiðslu úr hans hendi á grundvelli riftunarinnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmann í samræmi við matsbeiðni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði rekur varnaraðili mál sem hann hefur höfðað á hendur sóknaraðila þar sem krafist er riftunar á þeim ráðstöfunum varnaraðila 19. og 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð sóknaraðila á nánar tilgreindum lánasamningum aðila, svo og endurgreiðslu úr hendi hans á grundvelli riftunarinnar. Er þetta eitt af mörgum dómsmálum sem varnaraðili hefur höfðað gegn fyrrverandi starfsmönnum sínum. Lauk einu þeirra með dómi Hæstaréttar 10. maí 2012 í máli nr. 518/2011. Þótt atvik þess máls séu ekki að öllu leyti sambærileg og í því máli, sem rekið er milli aðila þessa máls, eru álitaefnin að stórum hluta þau sömu.

Með fyrrgreindri matsbeiðni fór sóknaraðili fram á að dómkvaddur yrði óvilhallur og sérfróður maður til þess að leggja mat á þrjú atriði. Í fyrsta lagi verðmæti hlutabréfa sóknaraðila og HFH ehf. í varnaraðila 19. og 25. september 2008. Í öðru lagi verðmæti tilgreindra lánasamninga við framsal þeirra frá varnaraðila til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., og í þriðja lagi verðmæti tiltekinna lánasamninga ef þeir hefðu verið framseldir frá varnaraðila til fyrrgreinds banka. Í beiðninni var gert ráð fyrir að matsmaðurinn aflaði sér nánar greindra gagna til að leggja mat á tvö síðastnefndu atriðin.

Að því er varðar fyrsta atriðið, sem snýr að mati á verðmæti hlutabréfa í varnaraðila síðari hluta septembermánaðar 2008, er til þess að líta að áfrýjandi í fyrrgreindu hæstaréttarmáli nr. 518/2011 hélt því meðal annars fram til stuðnings sýknukröfu sinni að verðmæti hluta í varnaraðila, sem settir höfðu verið að veði til greiðslu á skuldbindingum hennar samkvæmt lánasamningunum er málið snerist um, hafi staðið undir þeim skuldbindingum þegar ábyrgð hennar á lánum, sem hún hafði fengið frá varnaraðila til kaupa á hlutum í honum, var felld niður 25. september 2008. Hæstiréttur tók þessa málsástæðu ekki til greina þar sem ljóst hafi verið að tveimur vikum síðar hafi hlutirnir verið orðnir verðlausir og þar með hefði ábyrgð áfrýjanda orðið virk. Þar sem sú ábyrgð hafi verið gefin eftir með riftanlegri ráðstöfun hafi varnaraðili orðið fyrir tjóni og með því að komast þannig hjá greiðslu hafi áfrýjandi auðgast að sama skapi. Með vísan til þessa hefur enga þýðingu við úrlausn á máli því, sem rekið er milli málsaðila, að afla mats um verðmæti hlutabréfa í varnaraðila á þeim tíma, sem að framan greinir, og er beiðni sóknaraðila, sem lýtur að því atriði, því synjað, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framansögðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hannes Frímann Hrólfsson, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2012.

Í þinghaldi 5. júní sl. lagði lögmaður stefnda fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Lögmaður stefnanda, sem í þessum þætti málsins verður varnaraðili, hefur mótmælt beiðni stefnda, sem verður sóknaraðili, um dómkvaðningu matsmanns og krafist úrskurð dómsins um að synjað verði beiðni varnaraðila um dómkvaðningu. Lögmenn aðila fluttu málið um ágreiningsefnið 7. júní sl. og var málið tekið til úrskurðar í framhaldi.

Varnaraðili rekur mál fyrir héraðsdómi á hendur sóknaraðila þar sem varnaraðili krefst þess að rift verði með dómi héraðsdóms ráðstöfun Kaupþings hf. frá 19. og 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð sóknaraðila á greiðslu tilgreindra lánssamninga aðila. Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila 1.325.790.019 krónur ásamt vöxtum. Samkvæmt stefnu nemur sú fjárhæð endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem varnaraðili telur sóknaraðila hafa notið við það að persónuleg ábyrgð sóknaraðila var felld niður af umræddum lánum.

Sóknaraðili vísar til þess að tilgangur með matsbeiðni sé að sýna fram á að varnaraðili hafi ekki orðið fyrir tjóni er lánssamningar sem sóknaraðili hafi verið skuldari að hafi verið greiddir upp með andvirði lánssamninga er varnaraðila hafi gert við HFH ehf. og/eða þegar lánssamningar er HFH ehf. hafi verið skuldari að hafi verið framseldir fyrir 0 krónur til Arion banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008. Varnir sóknaraðila hafi byggt á því að varnaraðili hefði ekki fengið hærra verð fyrir framangreinda lánssamninga við framsal þeirra þó hinar ætluðu riftanlegu ráðstafanir hefðu ekki átt sér stað. Hafi sóknaraðili byggt á því að sambærilegar eignir varnaraðila, það er ótryggð lán, meðal annars þau sem veitt hafi verið á móti hlutabréfum sem orðið hafi verðlaus við bankahrun í október 2008, hafi verið metnar á 0 krónur eða að minnsta kosti með mjög miklum afföllum við framsal yfir til Arion banka hf. Á því hafi verið byggt að hvort sem hinar meintu riftanlegu ráðstafanir hafi átt sér stað eður ei hafi þeir lánssamningar er ráðstöfunin varðaði verið framseldir til Arion banka hf. 21. október 2008. Þá hefði varnaraðili samkvæmt framangreindu fengið enga eða mjög takmarkaða greiðslu við framsalið hvort sem ráðstafanir hafi verið framkvæmdar eður ei. Með vísan til þess telji sóknaraðili að tjón varnaraðila vegna hinna meintu riftanlegu ráðstafana hafi ekkert verið eða að minnsta kosti mjög takmarkað. Vegna framangreindrar málsástæðu hafi áskorun verið í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms. Hafi sóknaraðili talið áskorunina vera nægilegt til sönnunar fullyrðingum sínum.

                Þann 10. maí s.l. hafi fallið dómur í Hæstarétti í máli nr. 518/2011. Hann hafi fordæmisgildi varðandi ákveðin atriði í ágreiningi fyrrverandi starfsmanna varnaraðila við varnaraðila. Í umræddum dómi hafi umfjöllun verið um áskorun sem hafi verið sambærileg framangreindri áskorun sóknaraðila. Á grundvelli þessa telji sóknaraðili að nauðsynlegt sé að fá dómkvaddan matsmann til að meta nánar tilgreind atriði, sbr. umfjöllun síðar, enda lesi sóknaraðili það úr dómi Hæstaréttar að mat réttarins á því að varnaraðili hafi orðið fyrir „altjóni“ við framsal krafna yfir til Arion banka hf. byggist á því að áfrýjanda í framangreindu máli hafi ekki tekist að sanna að umrædd lán, eins og þau hafi verið fyrir hinar meintu riftanlegu ráðstafanir, hefðu verið einskis eða lítils virði í uppgjöri varnaraðila og Arion banka hf. Telji Hæstiréttur að ekki sé nægilegt að skora á varnaraðila að afhenda „ótilgreind gögn“ til þess að umrætt atriði teljist sannað. Því sé nauðsyn á dómkvaðningu matsmanns í máli þessu.

                Til að matsmanni sé kleift að svara greindum spurningum sé nauðsynlegt að varnaraðili og eftir atvikum Arion banki hf. afhendi matsmanni þau gögn sem hann óski eftir. Að mati sóknaraðila sé skylda umræddra aðila skýr, sbr. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991. Afhendi umræddir aðilar ekki nauðsynleg gögn til matsmanns muni matsbeiðandi krefjast úrskurðar dómara á grundvelli 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um skyldu þeirra til að afhenda gögnin.

                Þess sé óskað að dómkvaddur verði óvilhallur og sérfróður matsmaður til þess að leggja mat á eftirfarandi atriði:

                Í fyrsta lagi verðmæti hlutabréfa í eigu sóknaraðila annars vegar og hins vegar HFH ehf.

a. Annars vegar hvert hafi verið verðmæti hlutabréfa sóknaraðila í varnaraðila þann 19. september 2008 er lánssamningar er sóknaraðili var skuldari að hafi verið greiddir upp með nýrri lánveitingu til HFH ehf. Sóknaraðili hafi á þeim tíma átt 1.518.700 hluti í Kaupþingi banka hf.

b. Hins vegar hvert hafi verið verðmæti hlutabréfa HFH ehf. í varnaraðila þann 25. september 2008 er varnaraðili hafi lýst því yfir gagnvart ákveðnum lántökum að persónuleg ábyrgð þeirra á lánasamningum væri niður fallin. Þann dag hafi HFH ehf. átt 1.518.700 hluti í Kaupþingi banka hf.

                Í öðru lagi verðmæti lánssamninga við framsal þeirra frá varnaraðila til Arion banka hf. Þess sé óskað að matsmaður afli sér stofnefnahagsreiknings Arion banka hf., auk þeirra gagna er liggi að baki verðmati á lánasöfnun allra útibúa varnaraðila. Eftir að hafa aflað þeirra gagna, auk annarra sem matsmaður telji nauðsyn á að afla, sé óskað eftir því að eftirfarandi verði skoðað og eftir atvikum metið til fjár:

a.Verðmæti lánssamninga og annarra lána til einstaklinga við framsal þeirra frá varnaraðila til Arion banka hf. 21. október 2008, það er á hvaða verði, samanborið við uppgreiðsluverðmæti, og/eða hlutfalli af uppgreiðsluverðmæti lánin hafi verið framseld milli aðila að gefinni framangreindri forsendu varðandi lántaka og eftirgreindum forsendum varðandi lánin sjálf:

1. Lán ekki tryggt með neinum veðum, eingöngu persónulegri ábyrgð lántaka.

2. Lán tryggt með annars vegar veði í hlutabréfum í einhverjum hinna föllnu banka, það er Kaupþings banka hf., Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. og hins vegar persónulegri ábyrgð lántaka.

3. Lán tryggt með veði í hlutabréfum í einhverjum hinna föllnu banka, það er Kaupþings banka hf., Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. en ekki persónulegri ábyrgð lántaka.

4. Lán tryggt með annars vegar veði í öðrum hlutabréfum sem voru talin verðlaus eða verðlítil á framsalsdegi og hins vegar persónulegri ábyrgð lántaka.

5. Lán tryggt með veði í öðrum hlutabréfum sem voru talin verðlaus eða verðlítil á framsalsdegi en ekki persónulegri ábyrgð lántaka.

b. Verðmæti lánssamninga og annarra lána til lögaðila við framsal þeirra frá varnaraðila til Arion banka hf. 21. október 2008, það er á hvaða verði og/eða hlutfalli af uppgreiðsluverðmæti lánin hafi verið framseld milli aðila að gefinni framangreindri forsendu varðandi lántaka og eftirgreindum forsendum varðandi lánin sjálf:

1.Lán ekki tryggt með neinum veðum, eingöngu persónulegri ábyrgð lántaka.

2. Lán tryggt með annars vegar veði í hlutabréfum í einhverjum hinna föllnu banka, það er Kaupþings banka hf., Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. og hins vegar persónulegri ábyrgð lántaka.

3. Lán tryggt með veði í hlutabréfum í einhverjum hinna föllnu banka, það er Kaupþings banka hf., Glitnis banka hf. og Landsbanka Íslands hf. en ekki persónulegri ábyrgð lántaka.

4. Lán tryggt með annars vegar veði í öðrum hlutabréfum sem voru talin verðlaus eða verðlítil á framsalsdegi og hins vegar persónulegri ábyrgð lántaka.

5. Lán tryggt með veði í öðrum hlutabréfum sem voru talin verðlaus eða verðlítil á framsalsdegi en ekki persónulegri ábyrgð lántaka.

                Í þriðja lagi verðmæti lánssamninga er HFH ehf. og sóknaraðili hafi verið skuldarar að ef þeir lánssamningar hefðu verið framseldir frá varnaraðila til Arion banka hf.

a. Að teknu tilliti til stofnefnahagsreiknings Arion banka hf., þeirra gagna er matsmaður aflar sér um mat á undirliggjandi verðmætum hvers útibús varnaraðila við gerð stofnefnahagsreiknings Arion banka hf. og svörum við spurningu 2 hér að framan sé óskað eftir því að matsmaður meti hvert líklegasta verðmat á lánasamningum nr. 2919 frá 15. desember 2005; nr. 3076 frá 17. mars 2006; nr. 3173 frá 5. maí 2006; nr. 4084 frá 11. nóvember 2006; nr. 4248 frá 28. nóvember 2006; nr. 4502 frá 7. febrúar 2007; og nr. 6044 frá 20. ágúst 2007 hefði verið við framsal þeirra frá varnaraðila til Arion banka hf. hefði sóknaraðili verið persónulega ábyrgur fyrir greiðslu lánsfjárhæðar.

b. Að teknu tilliti til sömu atriða og í lið 3.a. sé óskað eftir því að matsmaður meti hvert líklegasta verðmat á lánssamningum nr. 2919 frá 15. desember 2005; nr. 3076 frá 17. mars 2006; nr. 3173 frá 5. maí 2006; nr. 4084 frá 11. nóvember 2006; nr. 4248 frá 28. nóvember 2006; nr. 4502 frá 7. febrúar 2007; og nr. 6044 frá 20. ágúst 2007 hefði verið við framsal þeirra frá varnaraðila til Arion banka hf. hefði sóknaraðili ekki verið persónulega ábyrgur fyrir greiðslu lánsfjárhæðar.

c. Að teknu tilliti til sömu atriða og í lið 3.a sé óskað eftir því að matsmaður meti hvert líklegasta verðmat á lánssamningum nr. 2919 frá 15. desember 2005; nr. 3076 frá 17. mars 2006; nr. 3173 frá 5. maí 2006; nr. 4084 frá 11. nóvember 2006; nr. 4248 frá 28. nóvember 2006; nr. 4502 frá 7. febrúar 2007; og nr. 6044 frá 20. ágúst 2007 hefði verið við framsal þeirra frá varnaraðila til Arion banka hf. hefði HFH ehf. ekki verið ábyrgt fyrir greiðslu lánsfjárhæðar.

Kröfu sína um að synjað verði beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu styður varnaraðili þeim rökum að krafan sé ekki réttilega fram sett. Í greinargerð sóknaraðila sé áskorun til varnaraðila um að leggja fram gögn í tengslum við stofnefnahagsreikning Nýja Kaupþing banka hf. þegar lán hafi verið yfirfærð frá varnaraðila. Þessari kröfu sé ekki unnt að beina að varnaraðila, sem sé rangur aðili að þeirri kröfu, en slíkri kröfu yrði eftir atvikum að beina að Arion banka hf. Þá veki varnaraðili athygli á því að sóknaraðili hafi enga tilraun gert til að nálgast gögn frá Fjármálaeftirlitinu en skv. tl. 10 og 11 á dskj. nr. 7 hafi Fjármálaeftirlitið skipað viðurkenndan matsaðila til að meta sannvirði eigna og skulda. Hjá eftirlitinu kunni því að vera gögn um þessi atriði.

Þá vísi sóknaraðili til þess að sóknaraðila séu ekki aðrar leiðir færar en að leita eftir dómkvaðningu matsmanns til að nálgast umrædd gögn. Því sé mótmælt. Á grundvelli XX. kafla laga nr. 91/1991 hafi sóknaraðila verið unnt að krefjast afhendingar gagna.

Mál þetta hafi verið þingfest 2. september 2010 og sóknaraðili skilað greinargerð 30. nóvember 2010. Engin beiðni um dómkvaðningu matsmanns hafi verið sett fram fyrr en á aðalmeðferðardegi. Sóknaraðili hafi því ekki nýtt tíma sinn og valdi ráðstafanir hans því að málið tefjist. Hafi fullt tilefni verið fyrir sóknaraðila að hefjast fyrr handa, meðal annars með því að beita úrræðum samkvæmt XX. kafla laga nr. 91/1991.

Að því er varði matsbeiðnina þá sé staðan sú að bæði séu þau gögn sem matsmaður eigi að nota ekki aðgengileg fyrir matsmann, en að auki séu þau gögn sem hann þurfi undir bankaleynd og þurfi atbeina dómstóla til að aflétta henni. Þá sé til þess að líta að af matsbeiðni verði ráðið að matsmaður eigi að skoða gríðarlegan fjölda skjala. Sé með öllu útilokað fyrir hann, svo löngu eftir atvik, að komast yfir gögnin. Myndi slík vinna tefja mál þetta óendanlega.

Af matsbeiðni verði ráðið að verið sé að óska eftir mati á lögfræðilegum atriðum sem dómara sé ætlað að meta. Megi um það vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 697/2011. Aðstæður séu sambærilegar í þessum tilvikum. Hafi Hæstiréttur þegar kveðið upp úr um þetta atriði. Þá komi fram í nefndum dómi að matsmanni sé ekki ætlað að afla gagna. Sé nákvæmlega sama staða uppi í þessu máli. Þá sé til þess að líta að forsendur í matsbeiðni séu ekki nægilega skýrar. Þar sé að finna atriði þar sem matsmaður þurfi að vera með getgátur. Mat eigi ekki að byggja á slíku. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 518/2011 sé vísað til skjals sem sé dskj. nr. 64 í þessu máli, sem sé samantekt Pwc frá 21. nóvember 2011 um lán vegna hlutabréfakaupa í Kaupþingi banka hf. Ekki hafi verið til neitt annað lánasafn en í útibúi 690, en það útibú hafi haldið utan um öll lán æðstu stjórnenda vegna hlutabréfakaupa. Í öðrum útibúum hafi almenn lán sem veitt hafi verið til hlutabréfakaupa ekki verið haldin aðgreind. Matsmaður geti því ekki nálgast upplýsingar um lán annarra en æðstu stjórnenda til hlutabréfakaupa.

Niðurstaða:

Mál það sem varnaraðili rekur á hendur sóknaraðila, um riftun á ráðstöfun varnaraðila frá 19. og 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð sóknaraðila á greiðslu tilgreindra lánssamninga og endurgreiðslu, er eitt margra sem varnaraðili rekur á hendur fyrrverandi starfsmönnum sínum. Eru málin samkynja og varða öll að stofni til sömu álitaefnin. Nokkur mál af þessum toga hafa þegar verið dæmd í héraðsdómi og á dómkröfur varnaraðila fallist í þeim öllum. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 518/2011 var þar í dómi dæmt í fyrsta málinu af þessum toga. Þá bíða nokkur mál dóms, bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Eitt þeirra mála sem þegar hefur verið dæmt fyrir héraðsdómi er mál nr. E-5861/2010: Kaupþing hf. gegn Sigurði Einarssyni. Í því máli hafði stefndi beint samskonar áskorun til varnaraðila og í þessu máli um afhendingu tilgreindra gagna til grundvallar tiltekinni málsástæðu um sýknu. Þannig hefur sóknaraðili í þessu máli skorað á varnaraðila, með vísan til 67. gr. laga nr. 91/1991, að leggja fram skjöl um mat eigna sóknaraðila í stofnefnahagsreikningi Arion banka hf. og hvað varnaraðili hafi hlutfallslega fengið greitt fyrir tilteknar eignir við framsal þeirra til Arion banka hf. Er tekið fram að verði varnaraðili ekki við áskoruninni telji sóknaraðili ljóst að varnaraðili hafi samþykkt að verðmæti tilgreindra eigna hafi í öllum tilvikum verið metið á 0 krónur. Í því tilviki sé ljóst að tjón varnaraðila vegna niðurfellingar persónulegrar ábyrgðar starfsmanns á lánssamningum hafi verið ekkert. Fyrir liggur í þessu máli, eins og í máli nr. E-5861/2011, að varnaraðili hefur ekki orðið við áskorun um framlagningu þessara gagna. 

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 697/2011 var leyst úr ágreiningi um dómkvaðningu matsmanns í tengslum við mál héraðsdóms nr. E-5861/2010. Er tekið fram í dómi Hæstaréttar að í því skyni að varpa ljósi á eina af málsástæðum stefnda fyrir sýknukröfu hafi hann jafnframt skorað á Arion banka hf. að afhenda sér tilteknar upplýsingar. Var í því tilviki um að ræða upplýsingar tengdar stofnefnahagsreikningi bankans við yfirfærslu eigna og skulda frá varnaraðila þessa máls. Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að stefnda séu færar ýmsar leiðir samkvæmt 2. þætti laga nr. 91/1991 til að fylgja eftir þessum áskorunum sínum, auk þess sem synjun Kaupþings banka hf. um að leggja fram gögn eða láta í té upplýsingar kynni að verða skýrt honum í óhag. Markmið með beiðni um dómkvaðningu sérfróðs manns eða manna samkvæmt IX. kafla laganna eigi að vera að fá rökstudda matsgerð um þau atriði, sem meta skyldi, en ekki að afla annarra sönnunargagna en þeirra sem nauðsynleg væru til að matsmaður gæti samið umbeðna matsgerð. Að þessu leyti til háttar eins til í máli nr. E-5861/2010 og því máli sem hér er til meðferðar. Helst verður ráðið af dómi Hæstaréttar í máli nr. 697/2011 að sú staða að sönnunargögn sem meta á liggi ekki fyrir valdi því að ekki verði dómkvaddir matsmenn til að afla þeirra sönnunargagna, heldur beri að nýta úrræða 2. þáttar laga nr. 91/1991 við þessar aðstæður. Þegar af þeirri ástæðu að þau gögn sem matsmaður á að styðjast við liggja ekki fyrir og varnaraðili hefur ekki orðið við áskorun um að afhenda verður beiðni um dómkvaðningu matsmanns synjað.

Að því er jafnframt að gæta að í máli nr. 697/2011 var matsmanni ætlað að leggja mat á hvort stefndi í því máli hefði auðgast af þeirri ráðstöfun þáverandi stjórnar Kaupþings banka hf. 25. september 2008 að aflétta persónulegri greiðsluábyrgð á lánssamningum og ef svo væri hver sú auðgun hafi verið. Ennfremur að leggja mat á hvort Kaupþing banki hf. hafi orðið fyrir tjóni af fyrrgreindri ráðstöfun og ef svo væri hvert tjónið hefði orðið. Við mat á þessum atriðum átti að hafa hliðsjón af þeim forsendum annars vegar að allir lánssamningar vegna hlutabréfakaupa í Kaupþing banka hf.  hafi verið færðir yfir til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., á verðmætinu 0 krónur, ekki eingöngu lánssamningar vegna hlutabréfakaupa starfsmanna Kaupþings banka hf. Hins vegar átti að hafa hliðsjón af þeirri forsendu að aðrar kröfur en kröfur Kaupþings banka hf. á hendur starfsmönnum vegna lána til hlutabréfakaupa í Kaupþing banka hf. hafi verið færðar frá Kaupþing banka hf. til Arion banka á verðmætinu 0 krónur eða eftir atvikum á umtalsverðum afslætti. Í dómi Hæstaréttar sagði að ekki yrði séð, hvorki af matsbeiðni né málatilbúnaði sóknaraðila að öðru leyti, að með þessu væri verið að leita eftir mati á öðrum sérfræðilegum álitaefnum en lögfræðilegum. Samkvæmt 2. mgr. 60. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 væri það hlutverk dómara, en ekki sérfróðra matsmanna, að leggja mat á þau atriði sem krefðust lagaþekkingar. Í máli því sem hér er til meðferðar hefur sóknaraðili í matsbeiðni lýst því að tilgangur með matsbeiðni sé að sýna fram á að varnaraðili hafi ekki orðið fyrir tjóni er lánssamningar þeir sem um sé deilt í málinu hafi verið framseldir til Arion banka hf. fyrir 0 krónur með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008. Lítur matsefnið nánar tiltekið að því að meta á þessum grundvelli til fjár verðmæti lánssamninga miðað við tilteknar forsendur. Ekki verður séð að tilgangur með matsgerð í þessu máli sé í reynd annar en í dómi Hæstaréttar í máli nr. 697/2011. Með hliðsjón af því hefði sú staða einnig leitt til þess að synja hafi borið um dómkvaðningu.

Aðalmeðferð í máli þessu var fyrirhuguð 5. júní sl. Í þingbók í málinu 12. apríl 2011 var bókað að málinu hafi verið frestað þar málsástæður væru þær sömu og í öðru máli sem dæmt yrði á næstunni. Það var meðal annars gert með dómi Hæstaréttar í máli nr. 518/2011 sem kveðinn var upp 10. maí 2012. Þá liggur það fyrir að gagnaöflun hefur ekki verið lýst lokið. Þegar til þessara atriða er litið hefði sóknaraðila, að öðrum skilyrðum fullnægðum, ekki verið synjað um dómkvaðningu matsmanns þó svo krafa um það hafi ekki verið gerð fyrr en skömmu fyrir aðalflutning málsins. 

                Ekki hefur verið krafist málskostnaðar af þessum þætti málsins.

                Mál þetta fluttu af hálfu sóknaraðila Ólafur Eiríksson hæstaréttarlögmaður en af hálfu varnaraðila Guðni Á. Haraldsson hæstaréttarlögmaður.

                Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kröfu sóknaraðila, Hannesar Frímanns Hrólfssonar, um dómkvaðningu matsmanns er synjað.