Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
- Fasteign
- Lóðarréttindi
- Hefð
|
|
Mánudaginn 18. nóvember 2002. |
|
Nr. 482/2002. |
SIH eignarhaldsfélag ehf. (Þorsteinn Júlíusson hrl.) gegn Flugmálastjórn Íslands (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Kærumál. Útburðargerð. Fasteign. Lóðarréttindi. Hefð.
F krafðist þess að S ehf. yrði með beinni aðfarargerð borið með viðbyggingu sína við nánar tiltekið flugskýli út af lóð íslenska ríkisins við Reykjavíkurflugvöll. Samkvæmt framlögðum gögnum var svo að sjá að viðbyggingin hefði verið reist á árinu 1955. Í málinu reyndi á hvort S ehf. hefði unnið hefð á lóðinni. Hélt S ehf. því fram að félagið og forverar þess hefðu haft umráð lóðarinnar í 47 ár þegar F hefði fyrst gert athugasemdir út af því að hús þetta væri á lóðinni. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að engra gagna njóti um það hvort viðbyggingin hafi á sínum tíma verið reist á lóðinni með heimild eða samþykki eiganda hennar eða þá með hvaða skilyrðum. Liggi því ekki fyrir að eigendur viðbyggingarinnar hafi skuldbundið sig til að virða eignarrétt íslenska ríkisins að lóðinni. Þá verði ekkert fullyrt um að þeir hafi mátt vænta þess að umráð þeirra yfir lóðinni væru aðeins tímabundin. Af þessum sökum standi 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð ekki því í vegi að hefð geti hafa unnist. Þótt formlega eignarheimild hafi skort og eigendum viðbyggingarinnar samkvæmt áðurgreindu alla tíð mátt vera það ljóst, geti 2. mgr. 2. gr. sömu laga heldur ekki staðið hefð í vegi. Þar sem sóknaraðili og þeir, sem hann leiði rétt sinn frá, hafi haft umráð lóðarinnar í hefðartíma fullan samkvæmt 1. mgr. 2. gr. nefndra laga verði að líta svo á að þeir hafi unnið hefð á henni. Var kröfu F því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september sama árs, þar sem varnaraðila var heimilað með beinni aðfarargerð að fá sóknaraðila borinn með viðbyggingu sína við nánar tiltekið flugskýli út af lóð varnaraðila við Reykjavíkurflugvöll. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað og honum gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt framlögðum gögnum frá Fasteignamati ríkisins er svo að sjá að viðbygging sú, sem varnaraðili leitar útburðar á, hafi verið reist á árinu 1955. Sýnist óumdeilt að landið undir þessari viðbyggingu sé í eigu íslenska ríkisins, en varnaraðili fari með umsýslu landsins fyrir þess hönd. Engra gagna nýtur við í málinu um hvort eigandi landsins veitti heimild til byggingarinnar eða þá með hvaða hætti. Eignarinnar var fyrst getið í fasteignabók borgarfógetaembættisins í Reykjavík á árinu 1965 og þá nefnd „skóla- og verksmiðjuhús á Reykjavíkurflugvelli“. Virðist tilefni þess hafa verið þinglýsing á veðbréfi að fjárhæð 1.250.000 krónur, sem tryggt var í eigninni og gefið út 21. júní á því ári til handhafa víxils. Var fært í fasteignabók að eigandi þessarar eignar væri Flugskólinn Þytur hf. Tekið var þar fram að lóð væri engin og eignarheimild engin. Flugskólinn Þytur hf. virðist hafa selt Helga Jónssyni eignina með kaupsamningi 19. maí 1969. Afsali, sem var gefið út 2. maí 1973 á grundvelli þess samnings, var þinglýst 7. sama mánaðar með þeirri athugasemd að „um þingl. eignarheimild eða lóðarréttindi að umræddu húsnæði á Reykjavíkurflugvelli er ekki að ræða“. Eign þessi virðist síðan hafa tilheyrt Helga Jónssyni þar til hún var seld við nauðungarsölu 22. febrúar 2001. Gerðist sóknaraðili þar kaupandi og fékk gefið út afsal sýslumannsins í Reykjavík 27. ágúst sama árs. Var tekið fram í afsalinu að eigninni væri afsalað „með öllum sama rétti og fyrri eigandi átti.“
Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að hefð hafi unnist á lóðinni undir fyrrnefnt hús. Hafi hann og forverar hans haft umráð hennar í 47 ár þegar varnaraðili hafi fyrst gert athugasemdir út af því að hús þetta væri á lóðinni. Eins og að framan er rakið nýtur engra gagna við um hvort viðbyggingin var á sínum tíma reist á lóðinni með heimild eða samþykki eiganda hennar eða þá með hvaða skilyrðum. Liggur því ekki fyrir að eigendur viðbyggingarinnar hafi skuldbundið sig til að virða eignarrétt íslenska ríkisins að lóðinni. Þá verður ekkert fullyrt um að þeir hafi mátt vænta þess að umráð þeirra yfir lóðinni væru aðeins tímabundin. Af þessum sökum stendur 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð ekki því í vegi að hefð geti hafa unnist. Þótt formlega eignarheimild hafi skort og eigendum viðbyggingarinnar samkvæmt áðurgreindu alla tíð mátt vera það ljóst, getur 2. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 heldur ekki staðið hefð í vegi. Þar sem sóknaraðili og þeir, sem hann leiðir rétt sinn frá, hafa haft umráð lóðarinnar í hefðartíma fullan samkvæmt 1. mgr. 2. gr. nefndra laga verður að líta svo á að þeir hafi unnið hefð á henni.
Þar sem varnaraðili reisir kröfu sína ekki á örum málsástæðum en þeirri að engin lóðarréttindi fylgi viðbyggingunni verður hafnað kröfu hans um að sóknaraðili verði borinn með hana út af lóðinni.
Með vísan til fyrri málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Flugmálastjórnar Íslands, um að honum verði heimilað að fá sóknaraðila, SIH eignarhaldsfélag ehf., borinn út með beinni aðfarargerð ásamt viðbyggingu sinni við flugskýli nr. VI á Reykjavíkurflugvelli af lóð þeirri, sem viðbyggingin stendur á.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2002.
Með aðfararbeiðni, sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. júní 2002, krefst Flugmálastjórn Íslands, kt. 550169-6819, Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, dómsúrskurðar um að SIH eignarhaldsfélagið ehf., kt. 500398-2489, Langagerði 62, Reykjavík, verði með beinni aðfarargerð borið með viðbyggingu sína (fastanr. 202-9328, skóla- og verksmiðjuhús á Reykjavíkurflugvelli) við flugskýli nr. VI út af lóð gerðarbeiðanda við Reykjavíkurflugvöll ásamt öllu því sem gerðarþola tilheyrir og gerðarbeiðanda fengin umráð eignarinnar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gerðarþola að mati dómsins og að fjárnám verði heimilað fyrir málskostnaði og kostnaði af væntanlegri gerð.
Dómkröfur gerðarþola eru að synjað verði um hina umbeðnu gerð og gerðarþola verði dæmdur málskostnaður úr hendi gerðarbeiðandi að mati dómsins.
Helstu málavextir eru að viðbygging var reist á árinu 1955 við flugskýli nr. VI á Reykjavíkurflugvelli. Viðbyggingin mun hafa verið skráð í fasteignabók hjá borgarfógetanum í Reykjavík 17. júlí 1965 sem skóla- og verksmiðjuhús á Reykjavíkurflugvelli í eigu Flugskólans Þyts hf. með athugsemd um að eignarheimild væri gölluð. Með kaupsamningi 19. maí 1969 mun Helgi Jónsson hafa keypt viðbygginguna af flugskólanum og fengið afsal 2. maí 1973. Kaupsamningi og síðan afsali mun hafa verið þinglýst með athugsemdum, þ.e. að eignarheimild væri gölluð.
Af hálfu gerðarbeiðanda er tjáð að Helgi Jónsson hafi í nokkrum áföngum byggt frekar við viðbygginguna frá því hann keypti hana. Formlegur leigusamningur hafi í upphafi ekki verið gerður við Helga Jónsson um nefnt flugskýli, en hann hafi þó greitt leigu til gerðarbeiðanda. Leigusamningur af hálfu gerðarbeiðanda hafi verið gerður 1. nóvember 1992 en Helgi Jónsson hafi með leigusamningi 1. júlí 1991 leigt Odin Air viðbygginguna til 1. júlí 1997.
Framangreind viðbygging var seld á nauðungaruppboði og segir m.a. í afsali sýslumannsins í Reykjavík frá 27 ágúst 2001:
Fasteignin skóli og verksmiðjuhús á Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, þinglýst eign Helga Jónssonar kt. 110238-2239, var seld á nauðungaruppboði sem fram fór 22. febrúar 2001. Hæstbjóðandi á uppboðinu var Jytte Th. Jónsson, sem bauð kr. 10.000.000,- f.h. Flugskóla Helga Jónssonar kt. 650995-2289. Þar sem hæstbjóðandi stóð ekki við boð sitt var boði næsthæstbjóðanda Sigurðar I. Halldórssonar kt. 020352-4699 að fjárhæð kr. 9.500.000.- tekið. Hann hefur nú framselt boð sitt til SIH eignarhaldsfélagsins ehf, kt. 500398-2489, Langagerði 62, Reykjavík.
Þar sem framsalshafi hefur greitt allan kostnað við uppboðið og greitt uppboðsverðið að fullu með peningum, lýsir sýslumaður því yfir að hann afsali ofangreindri eign til SIH eignarhaldsfélags kt. 500398-2489 með öllum sama rétti og fyrri eigandi átti.
Með bréfi 5. september 2001 bauð Sigurður I. Halldórsson gerðarbeiðanda, Flugmálstjórn Íslands, að kaupa eignina og fóru í framhaldi nokkrar viðræður og bréfaskipti milli aðila. Verðhugmyndir af hálfu gerðarþola í bréfum til gerðarbeiðanda 5. september og 17 október 2001 eru frá 12.000.000 til 13.300.000 kr. Með símbréfi 14. febrúar 2002 tjáði gerðarbeiðandi gerðarþola að þar sem húsið hafi verið reist í heimildarleysi lóðareignandans væri þess krafist að það yrði fjarlægt af lóðinni, en til að greiða fyrir lausn á málinu væri gerðarbeiðandi tilbúinn til að greiða 4.000.000 kr. fyrir húsnæðið án þess að í því fælist viðurkenning gerðarbeiðanda á nokkrum réttindum er gerðarþoli teldi sig eiga í lóðinni.
Ekki varð af samkomulagi með aðilum.
Gerðarbeiðandi byggir á því að hann fari með umsýslu viðkomandi lóðar fyrir hönd íslenska ríkisins. Umrædd viðbygging hafi verið byggð án heimildar á lóðinni og hafi Sigurði I. Halldórssyni verið kunnugt um það, er hann bauð í húsnæðið 22. febrúar 2001, enda hafi verið greint frá því í auglýsingu sýslumanns í Lögbirtingablaði um nauðungarsöluna að húsnæðið væri án lóðarréttinda. Gerðarbeiðandi hafi boðið gerðarþola með tilteknum hætti 4.000.000 kr. til að greiða fyrir lausn málsins en boðinu hafi verið hafnað af hálfu gerðarþola. Og þar sem ítrekaðar tilraunir gerðarbeiðanda að öðru leyti til að fá gerðarþola til að fjarlæga viðbygginguna hafi ekki borið árangur, sé honum nauðugur sá kostur að fá atbeina dómstóla til að fá þessu framfylgt með vísun til 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 83. gr. sömu laga.
Gerðarþoli byggir á því að engar athugsemdir hafi verið gerðar af hálfu Flugmálastjórnar er viðkomandi bygging var reist, en byggingarlýsingar sé getið í brunabótamati frá 30. júní 1955. Þá sé reist á því að byggingin hafi staðið þar sem hún er án athugsemda af hálfu Flugmálstjórnar í 47 ár. Athugsemdir, sem ritaðar séu í þinglýsingabók um skort á lóðarréttindum, séu þar ekki að frumkvæði Flugmálastjórnar, en eðlilegt hafi verið að þinglýsingardómari bókaði að enginn lóðarsamningur væri fyrir hendi - eins og raunar gildi um flestar byggingar á flugvallarsvæðinu.
Byggt sé á því að flugmálastjóri hafi leigt upphaflegum eiganda viðbyggingarinnar, Flugskólanum Þyt hf., svo og þeim, sem keyptu bygginguna af flugskólanum - samtals til fjölda ára - aðstöðu í flugskýli því sem áfast er viðbyggingunni. Stöðug og löng samskipti eigenda hinnar umdeildu byggingar og Flugmálastjórnar, f.h. ríkisvaldsins, hafi gefið flugmálastjóra ærin tækifæri til að koma á framfæri athugsemdum, ef ætlunin hefði verið að bera því við að um óheimila nýtingu á lóðinni væri að ræða. Gerðarþoli hafi neyðst til að leysa til sín umrædda byggingu á nauðungaruppboði. Þó að lóðarréttindi séu ekki skráð sé ljóst að hann hafi boðið í eignina í góðri trú um að byggingin fengi að standa þarna áfram í einhvern tíma, þó ekki væri nema vegna þess að hefð hefði unnist á nýtingu lóðarinnar fyrir viðbygginguna. Er gerðarþoli eignaðist þetta húsnæði á uppboði hafi það verið búið að standa án athugsemda af hálfu gerðarbeiðanda í 46 ár á lóðinni og lóðarleigu aldrei krafist né innt af hendi. Á það er bent að fasteignamat hússins sé nú 9.662.000 kr. og brunabótamat 14.642.000 kr. Hér sé deilt um verulega hagsmuni sem þarfnist nákvæmrar efnislegrar meðferðar, frekari gagna, skýrslutöku og jafnvel matsgerðar.
Niðurstaða: Upplýst er að gerðarbeiðandi lýsti sig tilbúna að greiða gerðarþola 4.000.000 kr. fyrir umrætt húsnæði „til að greiða fyrir lausn á þessu máli, ..., án þess að í því felist viðurkenning af hálfu Flugmálastjórnar á nokkrum réttindum er félagið [gerðarþoli] telur sig eiga í húsnæðinu". Þá hefur gerðarbeiðandi ekki neitað þeirri staðhæfingu gerðarþola að aldrei hafi gerðarbeiðandi krafist lóðarleigu af eigendum húsnæðisins né lóðarleiga verið greidd þau 47 ár er húsið hefur staðið á lóðinni.
Eigi að síður hefur gerðarþoli ekki öðlast fyrir hefð umdeildan lóðarrétt. Skilyrði um 20 ára óslitið eignarhald gerðarþola og þeirra, sem hann leiðir rétt sinn frá, skortir. Ljóst er að upphaflega var viðbyggingin reist á lóðinni án þess að framseldur væri lóðarréttur. Lóðin var þannig tekin að láni af aðilum, sem máttu vita að þeir höfðu ekki eignarhald á lóðinni, en slík umráð heimila ekki hefð samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905.
Samkvæmt framangreindu er fallist á kröfu gerðarbeiðanda en rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Krafa gerðarbeiðanda, Flugmálastjórnar Íslands, um að gerðarþoli, SIH eignarhaldsfélagið ehf., verði með beinni aðfarargerð borið með viðbyggingu sína (fastanr. 202-9328, skóla- og verksmiðjuhús á Reykjavíkurflugvelli) við flugskýli nr. VI út af lóð gerðarbeiðanda við Reykjavíkurflugvöll ásamt öllu því sem gerðarþola tilheyrir, er tekin til greina.
Málskostnaður fellur niður.