Hæstiréttur íslands

Mál nr. 645/2014


Lykilorð

  • Útivist
  • Ómerking héraðsdóms


Dómsatkvæði

                                     

Miðvikudaginn 13. maí 2015.

Nr. 645/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X ehf.

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Útivist. Ómerking héraðsdóms.

Héraðsdómur í máli ákæruvaldsins á hendur einkahlutafélaginu X var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar sökum þess að ekki voru uppfyllt skilyrði til að fella dóm á málið eftir ákvæðum 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, svo sem gert hafði verið.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júlí 2014. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að hið ákærða félag verði dæmt til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

I

Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi 24. mars 2014 þar sem hinu ákærða félagi var gefið að sök nánar tilgreint brot á umferðarlögum nr. 50/1987 með því að hafa um hádegisbil 19. mars 2013 haft hópbifreiðina [...] í akstri um Biskupstungnabraut við Gullfoss án þess að ökumaður hennar hefði tiltæka til framvísunar lögbundna tímaáætlun eða vaktaskrá er eftirlitsmenn Vegagerðarinnar höfðu afskipti af bifreiðinni greint sinn. Í ákæru var háttsemi ákærða heimfærð til 44. gr. a. og b. umferðarlaga, sbr. 2. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit nr. 605/2010, sbr. 55. gr. reglugerðarinnar, allt sbr. 1. og 3. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Þá var ökumaður bifreiðarinnar, Y, ákærður fyrir sömu háttsemi.

Héraðsdómari gaf út fyrirkall til hins ákærða félags 25. mars 2014 þar sem lagt var fyrir að mætt yrði af hálfu þess við þingfestingu málsins 25. apríl sama ár. Í fyrirkallinu var meðal annars tekið fram að yrði þing ekki sótt mætti búast við að fjarvist yrði metin til jafns við að brotið væri viðurkennt og dómur lagður á málið. Í áritun á fyrirkallið um birtingu, sem undirritað var A, fyrirsvarsmanni ákærða, var þess getið að óskað væri eftir fresti fram að þingfestingu til þess að tilnefna verjanda.

Við þingfestingu málsins var mættur af hálfu félagsins fyrrgreindur fyrirsvarsmaður þess og var orðið við ósk um að Jóhann H. Hafstein hæstaréttarlögmaður yrði skipaður verjandi félagsins. Við þingfestinguna var ennfremur mættur Kristján Valdimarsson héraðsdómslögmaður, sem skipaður var verjandi meðákærða, og var fært til bókar að Kristján sækti einnig þing vegna Jóhanns H. Hafstein hæstaréttarlögmanns. Var málinu frestað til 8. maí 2014. Við fyrirtöku málsins þann dag var hvorki sótt þing af hálfu hins ákærða félags né meðákærða og bókaði héraðsdómari að verjendur hefðu látið vita að ekki yrði sótt þing af þeirra hálfu. Því næst bókaði dómari að hann teldi framlögð gögn nægjanleg og eigi þörf á að færa fram frekari sönnunargögn í málinu. Var málið dómtekið á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 4. júlí 2014, þar sem hið ákærða félag var sýknað af kröfum ákæruvaldsins en meðákærði dæmdur til greiðslu fésektar.

II

Þrátt fyrir kröfugerð ákæruvaldsins kemur málið ekki til úrlausnar að efni til ef á málinu eru þeir annmarkar sem valdið geta því að héraðsdómur verði ómerktur, enda er hér um að ræða atriði sem dómurinn gætir að af sjálfsdáðum.

Samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 má leggja dóm á mál ef ákærði kemur ekki fyrir dóm við þingfestingu máls þótt honum hafi löglega verið birt ákæra og þess getið í fyrirkalli að mál kunni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laganna, enda sé ekki kunnugt um lögmæt forföll hans. Við þingfestingu málsins var fyrirsvarsmaður hins ákærða félags mættur, auk þess sem fært var til bókar að verjandi meðákærða mætti einnig vegna þess. Þegar af þeirri ástæðu að ekki varð útivist af hálfu félagsins voru ekki skilyrði til að fella dóm á málið eftir ákvæðum 161. gr. laga nr. 88/2008. Verður héraðsdómur því ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 8. maí 2014 og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar.

Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms, en allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins frá og með þinghaldi 8. maí 2014 og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Einars Huga Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 4. júlí 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 25. apríl 2014 og dómtekið þann 8. maí er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Selfossi, þann 24. mars sl., á hendur Y, kt. [...],[...],[...] og X ehf., kt. [...], fyrirsvarsmaður A stjórnarmaður, kt. [...],[...],[...].

„fyrir umferðarlagabrot gegn ákærða Y sem ökumanni hópbifreiðarinnar [...] og ákærða X ehf. sem rekstraraðila umræddrar hópbifreiðar

með því að hafa um hádegisbil 19. mars 2013 ekið og haft umrædda hópbifreið í akstri um Biskupstungnabraut við Gullfoss, án þess að ökumaður bifreiðarinnar hefði tiltæka til framvísunar lögbundna tímaáætlun eða vaktaskrá er eftirlitsmenn vegagerðarinnar [sic.] höfðu afskipti af akstri bifreiðarinnar umrætt sinn.

Teljast brot ákærðu beggja varða við 44. gr. a. og b. umferðarlaga nr. 50, 1987 sbr. 2. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og eftirlit nr. 605/2010 sbr. 55. gr. nefndrar reglugerðar, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga og einnig 3. mgr. sömu lagagreinar að því er varðar ákærða X ehf.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Við þingfestingu málsins mætti A fyrirsvarsmaður hins ákærða félags og óskaði eftir því að félaginu yrði skipaður verjandi, Jóhann H. Hafstein hrl. og var orðið við því. Þá sótti þing Kristján Valdimarsson hdl. vegna ákærða Y sem ekki sótti þing. Var Kristján skipaður verjandi ákærða Y að ósk ákærða, en Kristján sótti einnig þing vegna skipaðs verjanda ákærða X ehf. Fyrirsvarsmaður ákærða X ehf. óskaði eftir fresti til að taka afstöðu til sakargifta. Var málinu frestað til 8. maí 2014.

Í þinghaldi 8. maí 2014 var ekki sótt þing af hálfu ákærðu og verjenda þeirra og höfðu skipaðir verjendur látið dóminn vita um það fyrirfram. Var þá málið tekið til dóms að kröfu sækjanda sbr. 1. mgr 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði Y hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

Í 3. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er kveðið á um það að gera megi „lögaðila sekt samkvæmt reglum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir brot gegn 2. mgr. 44. gr. a, 2. mgr. 44. gr. b, auk 3. og 5. mgr. 68. gr., enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.“ Í málinu liggur ekkert fyrir um það og hefur ekki verið rökstutt af hálfu ákæruvalds á hvern handa máta það hafi verið eða getað orðið ákærða X ehf. til hagsbóta að framangreint brot var framið. Ber að sýkna ákærða X ehf. af öllum kröfum ákæruvalds í málinu

Ákærði Y hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði Y einu sinni áður verið refsað fyrir umferðarlagabrot en ekki hefur sú refsing áhrif á ákvörðun refsingar hans nú.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin 40.000 kr. fésekt til ríkissjóðs sem greiðist innan 4 vikna frá birtingu dómsins en ella sæti ákærði fangelsi í 4 daga.

Samkvæmt 218. gr. laga nr. 88/2008 ber ákærða Y að greiða sakarkostnað en ekki er um að tefla annan kostnað en málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Kristjáns Valdimarssonar hdl., sem eru hæfilega ákveðin kr. 48.819 að meðtöldum virðisaukaskatti. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X ehf., Jóhanns H. Hafstein hrl., kr. 48.819 að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðast úr ríkissjóði.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði X ehf. skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

Ákærði Y greiði kr. 40.000 í fésekt til ríkissjóðs innan 4 vikna, en sæti ella fangelsi í 4 daga.

Ákærði Y greiði sakarkostnað kr. 48.819 sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Kristjáns Valdimarssonar hdl.

Málsvarnarlaun ákærða X ehf., Jóhanns H. Hafstein hrl., kr. 48.819, greiðist úr ríkissjóði.