Hæstiréttur íslands

Mál nr. 12/2007


Lykilorð

  • Landamerki
  • Áfrýjunarheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. október 2007.

Nr. 12/2007.

 

 

Björn Erlendsson og

Sigríður Á. Ásgrímsdóttir

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

Gunnari Dungal

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

 

Landamerki. Áfrýjunarheimild. Frávísun máls að hluta frá Hæstarétti.

Í málinu deildu aðilar um landamerki landspildna sem skipt var út úr jörðinni Miðdal II. Í málinu greindi aðila meðal annars á um hvort miða ætti við orðalag í afsali fyrir eign áfrýjenda eða við uppdrátt af eigninni er fylgdi afsalinu, en uppdrátturinn bar ekki með sér að hafa verið þinglýstur. Þegar litið var til þess meðal annars að uppdrátturinn var gerður í tilefni af sölu til þess aðila sem áfrýjendur leiddu rétt sinn frá og að samkvæmt framburði vitnis hefði verið gerður áður en þinglýsing afsalsins fór fram, var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna stefnda af kröfum áfrýjenda. Áður en áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar höfðu þau greitt stefnda málskostnað samkvæmt hinum áfrýjaða dómi án fyrirvara um málsskot. Greiðsla áfrýjenda var ekki talin fela í sér viðurkenningu á kröfu stefnda um landamerkin, heldur var hún til fullnustu kröfu sem leiddi af úrslitum málsins í héraði. Gat hún því ekki svipt áfrýjendur heimild til áfrýjunar um annað en það sem hún fól beinlínis í sér. Var fallist á kröfu stefnda um að vísa bæri frá Hæstarétti kröfu áfrýjenda um málskostnað í héraði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. janúar 2007 og krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega að kröfum áfrýjenda verði að öllu leyti eða hluta vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst stefndi í báðum tilvikum málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í málinu deila aðilar um merki milli landspildna í þeirra eigu, sem skipt var út úr jörðinni Miðdal II, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Hafa allmörg ný skjöl verið lögð fyrir Hæstarétt, en meðal þeirra er viðskiptakvittun Landsbanka Íslands hf. 17. október 2006 fyrir greiðslu áfrýjandans Björns Erlendssonar á 750.000 krónum inn á bankareikning stefnda. Er fram komið að með þessu hafi áfrýjandinn gert upp við stefnda málskostnað samkvæmt hinum áfrýjaða dómi. Reisir stefndi aðalkröfu sína á því að áfrýjun héraðsdóms sé ósamrýmanleg því að málskostnaður hafi verið greiddur án fyrirvara um málskot. Því beri að vísa málinu frá Hæstarétti, en að minnsta kosti þeirri kröfu að stefnda verði gert að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði.

Áfrýjendur hafa greint frá ástæðu þess að greiðslan var innt af hendi, en með henni hafi þau ætlað að koma í veg fyrir að á dæmdan málskostnað félli aukakostnaður að óþörfu meðan ákvörðun um áfrýjun lægi ekki fyrir. Á því tímamarki hafi þau ekki notið aðstoðar lögmanns. Sá ágreiningur, sem dómsmálið er sprottið af, birtist í kröfu um viðurkenningu á nánar tilgreindum merkjum milli landareigna málsaðila. Áðurnefnd greiðsla áfrýjandans Björns fól ekki í sér viðurkenningu á kröfu stefnda um landamerkin, heldur var hún til fullnustu kröfu sem leiddi af úrslitum málsins í héraði. Getur hún ekki svipt áfrýjendur heimild til áfrýjunar um annað en það, sem hún fól beinlínis í sér. Verður aðalkröfu stefnda samkvæmt því hafnað að öðru leyti en því er varðar kröfu áfrýjenda um greiðslu málskostnaðar í héraði.

II.

Aðalkrafa áfrýjenda um vísun málsins frá héraðsdómi er meðal annars reist á því að ekki hafi verið leitað sátta í málinu fyrir milligöngu sýslumanns samkvæmt 6. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl. með áorðnum breytingum. Stefndi hafi þess í stað höfðað málið fyrir héraðsdómi og ekki gætt að því að „það voru aðilar allt umhverfis þrætuspilduna sem áttu hagsmuna að gæta“. Er sérstaklega vísað til þess að með þeirri staðsetningu merkja, sem ákveðin var með héraðsdómi, hafi fallið til stefnda spilda, sem tilheyri einum þessara nágranna. Því hafi borið að vísa málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum. Þá hafi átt að hafa héraðsdóm fjölskipaðan, eins og venja sé í landamerkjamálum, þótt sá annmarki einn og sér valdi ekki frávísun. Áfrýjendur höfðu uppi frávísunarkröfu í héraði, en féllu frá henni við meðferð málsins. Skýra þau þá ráðstöfun þannig að hún hafi verið tengd því að héraðsdómari myndi leita sátta, sem hann hafi ekki gert þegar til kom.

Í þinghaldi fyrir héraðsdómi 16. desember 2005 lýsti þáverandi lögmaður áfrýjenda yfir að fallið væri frá kröfu um frávísun málsins. Ekki kemur fram í bókun í þingbók að það sé tengt eða bundið skilyrðum um síðari sáttaumleitan dómara, en í þinghaldi 8. nóvember sama ár hafði verið fært til bókar að sættir væru reyndar með aðilum án árangurs. Sú aðstaða, sem greinir í 6. gr. laga nr. 41/1919, er ekki fyrir hendi í málinu. Dómur í því bindur ekki aðra en aðila þess, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og getur staðhæfing sem kom fyrst fram fyrir Hæstarétti um að farið hafi verið lítillega inn á nágrannaeign með kröfulínu stefnda ekki varðað frávísun málsins þótt rétt kynni að reynast. Samkvæmt þessu er hafnað aðalkröfu áfrýjenda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Þá er ekki skylt að hafa héraðsdóm fjölskipaðan í landamerkjamáli og ekki hefur verið bent á sérstaka þörf á því í þessu tilviki, en af þeim sökum getur ekki komið til álita að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.

III.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir margs kyns gögnum, sem aðilarnir hafa lagt fram í málinu, en meðal þeirra eru afsöl fyrir nokkrum spildum úr landi Miðdals II og uppdrættir. Áfrýjendur eignuðust landspildu sína við Myrkurtjörn með ódagsettu afsali, sem móttekið var til þinglýsingar 7. júlí 1971. Telja þau að landamerkjum hennar sé lýst samhljóða og með skýrum hætti í öllum afsölum, sem gerð hafi verið um hana, allt frá því spildunni var skipt út úr landi áðurnefndrar jarðar með afsali til Helga Bergssonar 2. september 1963. Þrátt fyrir skýrt orðalag í afsölum hafi héraðsdómari kosið að styðjast frekar við uppdrátt af spildunni, sem ekki hafi verið þinglýst með afsali 1963 og stangist á við það sem segi í því. Greinir aðilana á um hvort uppdrættinum hafi verið þinglýst svo sem hann hefur verið varðveittur af sýslumanni ásamt samriti afsals. Ekki sé vísað til uppdráttar í afsali 1963 og áðurnefndur uppdráttur sé ódagsettur og ómerktur. Telja áfrýjendur að ritaður samningstexti gildi samkvæmt almennum skýringarreglum öðru framar og í þessu máli geti skýr texti í afsali ekki vikið fyrir óundirritaðri og vefengdri teikningu.

Mörkum landspildu áfrýjenda er lýst í afsali 2. september 1963. Um þau segir meðal annars: „Norðausturmörk. Lína hugsast dregin frá áðurnefndri girðingu umhverfis land Stefáns Thorarensen í suðurátt norðaustanvert í melöldu austanvert við Myrkurtjörn 200 m í suðurátt, en frá endapunkti þeirrar línu ræður suðausturmörkum brotin lína fyrst 50 m í suðvesturátt í stefnu á sumarbústað Gunnars Smith ...“. Á margnefndum uppdrætti eru dregnar línur umhverfis Myrkurtjörn, þar á meðal lína austan við tjörnina í stefnu á bústað Gunnars Smith og er ekki fram komið að ágreiningur sé um hana. Frá nyrðri enda þeirrar línu er önnur dregin í norðvestur að þáverandi fjárgirðingu Stefáns Thorarensen sem endapunkti og við hana er skráð vegalengdin 215 metrar. Ef sama lína er framlengd að merkjum lands Stefáns, eins og þau voru ákveðin 1955, er ómótmælt að lengd hennar væri yfir 400 metrar samtals. Sú skýring áfrýjenda að landspilda þeirra nái að markalínunni frá 1955 samræmist að þessu leyti alls ekki texta afsalsins 2. september 1963 um 200 metra lengd þessarar línu. Að sama skapi fellur sú tilgreining vegalengdar nær saman við það, sem nefndur uppdráttur ber með sér.

Jóhannes Helgason gaf skýrslu fyrir dómi, en hann er sonur Helga Bergssonar og var 17 ára gamall þegar faðir hans fékk afsal fyrir spildunni sem nú tilheyrir áfrýjendum. Hann kannaðist við umræddan uppdrátt, sem sýnir merkjalínur umhverfis Myrkurtjörn. Kvað hann móður sína hafa gert uppdráttinn, en hún hafi á þeim tíma unnið á Raforkumálastofnun við gerð teikninga. Teikningin hafi verið gerð í framhaldi af mælingu á vettvangi, sem hann hafi sjálfur tekið þátt í að gera með seljandanum, líklega á árinu 1964 eða 1965. Vitnið kvaðst ekki hafa sjálfur framvísað afsalinu til þinglýsingar, en í fórum foreldra hans hafi teikningin jafnan fylgt því. Afsal föður hans var móttekið til þinglýsingar 13. maí 1966 og heldur stefndi fram að teikningin hafi þá fylgt afsalinu. Framburður vitnisins rennir stoðum undir að uppdrátturinn hafi verið gerður í tengslum við sölu landsins til Helga Bergssonar og áður en afsalinu var þinglýst 1966. Er einnig til þess að líta að skjalið stafar frá þeim, sem upphaflega öðlaðist rétt yfir spildunni, en frá honum leiða áfrýjendur rétt sinn. Uppdrátturinn styður málatilbúnað stefnda andstætt því sem áfrýjendur halda fram.

Áfrýjendur bera fyrir sig að niðurstaða héraðsdóms um merki sé ekki á sama stað og fjárgirðing Stefáns Thorarensen stóð áður. Staðhæfing stefnda um að girðingarstæðinu sé fylgt við kröfugerð standist því ekki, heldur hafi verið farið inn á óumdeilt land áfrýjenda. Hafa þau lagt fyrir Hæstarétt teikningu sem á að sýna þessar línur, þar sem nokkuð skilur á milli þeirra syðst á svæðinu en bilið minnkar þegar norðar dregur. Þessari málsástæðu var ekki hreyft í héraði, sem áfrýjendum var þó í lófa lagið að gera, heldur þvert á móti lýst yfir í greinargerð þeirra að óumdeilt væri að á kröfulínu stefnda „var á seinni árum fjárgirðing.“ Við þessa yfirlýsingu eru áfrýjendur bundin, sbr. 45. gr. laga nr. 91/1991, og kemur þessi málatilbúnaður þeirra ekki frekar til álita.

Samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Áfrýjendum verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfu áfrýjenda, Björns Erlendssonar og Sigríðar Á. Ásgrímsdóttur, um greiðslu málskostnaðar fyrir héraðsdómi er vísað frá Hæstarétti.

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur greiði óskipt stefnda, Gunnari Dungal, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Gunnari B. Dungal, Dallandi, Mosfellsbæ, á hendur Birni Erlendssyni, kt. [...], og Sigríði Á. Ásgrímsdóttur, kt. [...], báðum til heimilis að Aðallandi 15, Reykjavík, með stefnu birtri 15. mars 2005. 

Til réttargæslu er stefnt eigendum Miðdals II, Ólöfu Ríkarðsdóttur, kt. [...], Klukkurima 18, Reykjavík, Ásdísi Ríkarðsdóttur, kt. [...], Vesturgötu 70, Akranesi, Ríkarði Mássyni, kt. [...], Ártúni 3, Sauðárkróki, Birni Mássyni, kt. [...], Andrésarbrunni 4, Reykjavík, og Maríu Másdóttur, kt. [...], Fannafold 93, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að dæmt verði að landamerki landspildu hans úr landi Miðdals II, með landnúmer 199722, og landspildu stefndu við Myrkurtjörn, sem einnig er úr landi Miðdals II, séu frá suðri eftir línu úr punkti 101 (X=7160.520, Y=14598.420) norður í punkt 102 (X=6840.889, Y=14773.262) og þaðan norður í punkt 103 (X=6784.370, Y=14837.649) á uppdrætti sem unnin var af Ráðgjöf ehf., verkfræðistofu.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt málskostnaðar­reikningi.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og  tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.

Stefndu höfðuðu gagnsakarmál á hendur stefnanda með stefnu framlagðri í dóm 31. maí 2005 og settu fram sjálfstæðar kröfur um landamerki milli landspildna aðila. Fallið var frá gagnkröfunum við aðalmeðferð málsins. 

Vettvangsganga fór fram 26. apríl 2006.

 

Málsatvik

Forsaga málsins er sú að með afsali, dags. 25. janúar 1953, seldu þeir Pétur Þorsteinsson lögfræðingur og Ríkarður Jónssonar myndhöggvari, Stefáni Thorarensen, lögreglumanni, hluta úr landi jarðarinnar Miðdals II í Mosfellssveit. Hinn seldi eignar­hluti liggur að norðurlandamörkum Miðdals II og eru landamerkin rakin í afsalinu. Með yfirlýsingu, dags. 28. nóvember 1955, varð samkomulag með aðilum um breytingu á landamerkjum hins selda landshluta að sunnan og austan. Þau landskipti urðu með aðilum að Stefán Thorarensen skyldi fá landspildu suðaustanvert við Gildruás og eigendur Miðdals II norðanvert við línu dregna úr Þúfuhól í Seljadalsá, eins og nánar er gerð grein fyrir í samkomulagi þessu.

Málsaðilar eru eigendur aðliggjandi landspildna sem skildar hafa verið úr landi Miðdals II, Mosfellsbæ (nyrðri hálflendu Miðdals).  Stefndu eiga ca 8 ha landspildu er liggur umhverfis Myrkurtjörn og er eignarheimild þeirra samkvæmt ódagsettu afsali Guðmundar Ó. Ólafssonar, þinglýstu 7. júlí 1971. Fyrri eigandi var Helgi Bergsson, sem hafði keypt eignina af þáverandi eigendum Miðdals II, Pétri Þorsteinssyni og Ríkarði Jónssyni samkvæmt afsali, dags. 2. september 1963. Stefnandi keypti aftur á móti landspildu norðvestan landspildu stefndu með kaupsamningi við núverandi eigendur Miðdals II, dags. 16. september 1999, en afsal var gefið út fyrir þeirri landspildu til stefnanda 3. september 2004. Þá er sameignarfélagið B. Pálsson sf., sem m.a. er í eigu stefnanda, eigandi að svonefndu Búrfellslandi, sem liggur vestan fyrrgreindrar landspildu stefnanda og skipt var út úr landi Miðdals II með afsali Péturs Þorsteinssonar og Ríkarðs Jónssonar til Stefáns Thorarensen lögreglumanns hinn 25. janúar 1953.

Ágreiningur er með málsaðilum um landamörk.  Stefndu telja að norðvesturmörk landspildu sinnar liggi að austurmörkum Búrfellslandsins eftir línu samkvæmt afsalinu frá 1953 eða eftir landamerkjalínu þeirri sem ákveðin var með yfirlýsingu um landamörk, dags. 28. nóvember 1955. Stefndu hafi því raunverulega verið eigendur syðsta hluta þeirrar landspildu sem stefnandi keypti af eigendum Miðdals II hinn 16. september 1999.  Seljendurna hafi því brostið eignarheimild að þeim parti landsins, vegna þess að honum hafi áður verið afsalað til Helga Bergssonar með afsali Péturs Þorsteinssonar hinn 2. september 1963, en stefndu leiða rétt sinn til þess afsals eins og áður greinir.  Stefnandi telur aftur á móti að núverandi eigendur Miðdals II hafi verið eigendur þrætulandsins er þeir seldu honum það 16. september 1999. Byggir stefnandi á því, að norðvesturmörk landspildu stefndu hafi samkvæmt afsali Péturs Þorsteins­sonar til Helga Bergssonar, dags. 2. september 1963, verið ákveðin girðing umhverfis Búrfellsland Stefáns Thorarensen en ekki austurmörk þess lands eins og þau voru ákveðin í yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955. Hefur Björn Másson, fulltrúi nú­verandi eigenda Miðdals II, sagt stefnanda að þetta helgist af því, að Stefán Thorarensen hafi fengið leyfi þeirra Péturs og Ríkarðs til að reisa girðingu austan landamarkanna til þess að búfénaður hans hefði skjól í vondum veðrum í þeirri mýrarlægð sem liggur austan markanna og er nú þrætulandið.  Þegar Pétur og Rík­arður hófu síðan að selja sumarbústaðalönd austan Búrfellslandsins, m.a. landspildu þá sem stefndu eru nú eigendur að, hafi hann látið mörk þeirra til vesturs eða norðvesturs ná að girðingunni enda nýtti Stefán Thorarensen land að girðingunni vestanmegin í skjóli fyrrgreindrar heimildar.  Með þessu móti hafi myndast skák sú sem stefnandi keypti 16. september 1999 og kölluð er í afsali hans eystri landspildan.

Stefnandi hefur nýtt lönd sín vestan landspildu stefndu til hrossabeitar.  Haustið 2002 lét hann reisa búfjárhelda girðingu á landi því sem hann keypti af eigendum Miðdals II hinn 16. september 1999.  Stefndu kærðu þá framkvæmd til lögreglunnar í Reykjavík en málið var látið niður falla með ákvörðun lögreglustjórans 22. janúar 2004. Hinn 6. apríl 2004 varð stefnandi þess áskynja, að girðingin hafði verið fjarlægð á u.þ.b. hálfs km kafla.  Kærði  stefnandi þann þjófnað eða eignarspjöll til lögreglu og hefur stefndi, Björn, viðurkennt fyrir lögreglu að hafa þar verið að verki.  Aftur girti stefnandi land sitt en stefndi reif girðinguna að nýju niður.  

Hinn 8. apríl 2003 lagði stefndi, Björn, inn til þinglýsingar í Reykjavík uppdrætti og loftmyndir varðandi land sitt við Myrkurtjörn. Uppdrættir þessir bera með sér að stefndu telja sig vera eigendur þrætulandsins.

Stefnandi telur þinglýsingu á þessum teikningum fara í bága við réttindi sín.   Telur stefnandi því nauðsyn til bera að höfða mál þetta til þess að fá landamörk staðreynd með dómi.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi telur augljóst að landmörk landspildu hans úr landi Miðdals II, með landnúmer 199722 og landspildu stefndu við Myrkurtjörn, séu eins og krafist sé.  Stefnandi hafi fengið verkfræðistofuna Ráðgjöf ehf. til að mæla upp landspildur sínar og stefndu að því marki sem máli skipti. Mæliblað þetta sé lagt fram í málinu. Krafa stefnanda, um að landamerki milli landspildu hans og stefndu verði ákveðin eins og krafist sé, byggir á mæliblaðinu.  Gerð er krafa til þess að þau verði ákveðin frá punkti 201 eftir línu í punkt 212 og þaðan beina stefnu í punkt 211.  Á mæliblaðinu séu tilgreind hnit hvers þessara þriggja punkta og séu hnitin samkvæmt hnitakerfi Mælingadeildar Reykjavíkurborgar. 

    Máli sínu til stuðnings bendir stefnandi á eftirfarandi málsástæður:

    1.          Girðing sú sem tilgreind sé í afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga

    Bergssonar, dags. 2. september 1963, og sögð sé vera umhverfis land Stefáns

    Thorarensen lögreglumanns, hafi á afsalsdegi legið eftir sömu línu og

    dómkröfur stefnanda lúti að. Hér hafi ekki verið um þá girðingu að ræða sem

    tilgreind sé í yfirlýsingu um landamerki milli Miðdals II og Búrfells, dags. 28.

    nóvember 1955. Á það sé bent að Stefán Thorarensen hafi fengið sérstaka

    heimild til að reisa girðingu þessa til þess að skepnur hans hefðu skjól í

    illviðrum.

       2.       Notkun orðsins „umhverfis“ í afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga

       Bergssonar bendi til þess að ekki sé átt við girðingu sem beinlínis sé á

       landamörkum Búrfells og Miðdals II.  Ef sú aðstaða hefði verið uppi hefði

       verið nærtækara fyrir afsalsgjafa að tilgreina að um girðingu á landamörkum

       væri að ræða.

       3.       Með afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar hafi fylgt

       sérstakur uppdráttur og sé honum þinglýst. Komi þar glögglega fram að

       landamörk landspildu stefndu til norðvesturs séu í samræmi við dómkröfur

       stefnanda. Uppdráttur þessi hafi síðan fylgt áfram afsali Helga til Guðmundar

       Ólafssonar, dags. 8. ágúst 1969, og ódagsettu afsali Guðmundar til stefndu,

       sem þinglýst var 7. júlí 1971.

       4.       Önnur sumarbústaðalönd, sem skipt hafi verið úr landi Miðdals II, og

       liggi norðan landspildu stefndu, nái öll norðvestur að sömu línu og krafa

       stefnanda lúti að, sbr. framlagðan uppdrátt Ágústs Böðvarssonar. 

       5.       Í afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar sé tilgreint að hin

       afsalaða landspilda sé ca 8 ha.  Sömu stærðartilgreiningu sé að finna í síðari

       afsölum, þ.e. til Guðmundar Ólafssonar og í afsali hans til stefndu. Uppdrættir

       þeir sem stefndu létu þinglýsa, 8. apríl 2003, sýni hins vegar að landspilda

       þeirra sé 15-16 ha.  Þetta frávik sé svo stórkostlegt að það geti ekki staðist en

       bent er á að samkvæmt þeim uppdrætti er fylgdi öllum fyrri afsölunum sé

       afmarkað land stefndu u.þ.b. 8 ha.

       6.       Samkvæmt uppdrætti er fylgdi afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga

       Bergssonar sé lengd á landamörkum landspildu stefndu til norðurs talin vera

       ca. 215 metrar.  Samkvæmt nýrri teikningu stefndu sé samsvarandi lengd á

       landamörkum talin vera 400 m.  Þetta frávik sé svo stórkostlegt að það geti

       ekki staðist. 

       7.       Í tengslum við sölumeðferð á landspildu sinni hafi stefndu afhent

       Magnúsi Leópoldssyni, lögg. fasteignasala, uppdrátt er unninn var vegna

       endurmælingar 12. ágúst 1989. Stefnandi telur að leggja beri til grundvallar að

       stefndu hafi látið gera þennan uppdrátt og séu honum samþykk en þar komi

       berlega fram að landamörk séu í samræmi við kröfur stefnanda.

       8.       Staðhættir bendi til þess að sú frásögn Björns Mássonar um að Stefán

       Thorarensen hafi fengið að reisa girðingu austan landamarka Búrfells og

       Miðdals II sé rétt.  Mýrin, sem þrætumál þetta snúist um, standi mun lægra en

       Búrfellslandið og hæðirnar í kring myndi ákjósanlegt skjól fyrir búfénað.

       9.       Stefnandi telur stefndu vera í vondri trú um meint réttindi sín.  Þau hafi

       enn fremur verið það þegar þau fengu uppdráttum sínum þinglýst 8. apríl 2003.

       Við ákvörðun málskostnaðar verði að taka mið af þessu og dæma stefndu til að

       greiða álag á málskostnað, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð

       einkamála.     

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til almennra reglna eigna- og kröfuréttar.  Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og  til 129. gr., 130. og 131. gr. s.l. varðandi málskostnað.

 

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu telja að þrjár markalínur geti komið til greina um mörk þeirra landspildna er seldar voru úr landi Miðdals II og deilt er um. Það sé enginn ágreiningur svo vitað sé um það hvar þessar línur séu í landinu, þ.e. um hnitasetningu endapunkta þeirra. Í málinu sé deilt um það hver af þessum þremur línum eigi að gilda sem markalína. Línur þessar séu á framlögðum uppdrætti frá ágúst 1969 og sýni land Guðmundar Ó. Ólafssonar við Myrkurtjörn. Efsta línan, sú norðvestasta, sem stefndu settu fram sem aðalkröfu í gagnsökinni, sé auðkennd með orðunum Land Stefáns Thorarensen sbr. afsal dags 25. jan. 1953. Girðing áður umhverfis landið. Þessi lína byggist á afsalinu frá 25. janúar 1953. Ekki liggi annað fyrir en að línan sé í samræmi við það skjal. Stefndu telja að í samræmi við línu þessa séu landamerki landspildu stefnanda og landspildu stefndu úr landi Miðdals II úr punkti, hnit X 7271.7300 Y 14659.7700, vörðu á mel sunnan Leirtjarnar er nefnist Gildruás (punktur 45), þaðan í punkt X 7008.7500 Y 15141.3200 sem er á línu er hugsast dregin beint í Seljadalsá um tvo smáhnjúka, sem bera því nær saman austanvert við mýrarsund, sem er austan Búrfells (punktur 655). Punktar þessir séu auðkenndir 45 og 655 á hnitsettu korti sem hafi verið lagt fram í málinu. Við línuna sé skráð á kortið: Land Stefáns Thorarensen sbr. afsal dags 25. jan. 1953. Stefna á Þúfustein.

       Miðlínan var sett fram sem varakrafa í gagnsökinni. Hún sé auðkennd með

       orðunum Land Stefáns Thorarensen, lögreglumanns, samkvæmt yfirlýsingu um

       breytingu dags. 28. nóvember 1955. Girðing umhverfis landið. Þessi lína

       byggist á greindri yfirlýsingu um breytingu á mörkum. Ekki sé annað vitað en

       að línan sé í samræmi við það skjal.  Stefndu byggja til vara á því

       landamerki landspildu stefnanda og stefndu úr landi Miðdals II, séu úr punkti,

       hnit X 7169.6048  Y 14603.4317, sem er á mel austanvert við Gildruás

       (punktur 677), þaðan í punkt X 6894.3800 Y 14989.0500 sem er á beinni línu

       er hugsast dregin um Þúfuhól í Seljadalsá (punktur 661).  Punktar þessir séu

       auðkenndir 677 og 661 fyrrgreindu korti sem hafi verið lagt fram í málinu. Við

       línuna sé skráð á kortið: Land Stefáns Thorarensen samkvæmt yfirlýsingu um

       breytingu dags. 28. nóvember 1955. Stefna á Þúfuhól.

    Neðsta línan (syðsta) sé auðkennd með orðunum fjárgirðing. Þetta sé kröfulína stefnanda  í málinu, sem nánar verði fjallað um síðar.

    Af hálfu stefndu er öllum þeim uppdráttum, sem lagðir eru fram sem hluti af framlögðum kaupsamningum og afsölum í máli þessu, mótmælt. Þeir hafi lítið sönnunargildi og alls ekkert gildi varðandi sönnun um eignarrétt, svo fremi að ekki sé þess getið í skjalinu (afsalinu eða kaupsamningnum) að uppdráttur fylgi, eða þá að uppdrátturinn sé áritaður af aðilum eða þá með áritun þinglýsingardómara.

    Einkum og sér í lagi er slíkum uppdráttum mótmælt ef þeir eru í ósamræmi við skjal það sem þeir ættu þó að vera hluti af. Svo sé um uppdráttinn sem lagður sé fram með einu þýðingarmesta skjalinu í máli þessu, afsalinu frá 2. september 1963. Hann sé ósamrýmanlegur skjalinu sem hann fylgir, sem styðji með fleiru að hann sé síðari tíma gjörð.

    Stefndu benda á að lykilatriði málsins felist í því hvort þær liggi saman, spildan sem Stefán Thorarensen keypti með afsali dags. 25. jan. 1953, og stefnandi sé nú eigandi að, og spildan sem Helgi Bergsson keypti 1963 og stefndu eiga nú. Þegar það liggi ljóst fyrir ætti að vera einfalt að gera sér grein fyrir því hvaða lína sé markalína milli þeirra tveggja landspildna sem um ræðir í málinu.

    Stofnskjalið fyrir spildu stefnanda sé, sem fyrr segi, afsal til Stefáns Thorarensen lögreglumanns, dags. 25 jan. 1953. Þar sé fyrst lýst suðurmörkum og þar tilgreind varða á mel sunnan Leirtjarnar. Þetta sé varðan á Gildruási, punktur 45 á hnitsettu korti. Síðan sé austurmörkum lýst þannig: Frá fyrrnefndri vörðu ræður landamerkjum lína, sem hugsast dregin beint í Seljadalsá um tvo smáhnjúka, sem bera því nær saman austanvert við mýrarsund sem er austan Búrfells. Á þessari línu hafi verið sett upp girðing.

    Stofnskjalið fyrir spildu stefndu sé afsal til Helga Bergssonar, dags. 2. september 1963. Þar segir: að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis  land Stefáns Thorarensen lögreglumanns (sbr. afsal dags. 25. jan. 1953) á 450 m löngu svæði.

    Helgi Bergsson selur Guðmundi Ó. Ólafssyni spilduna 8. ágúst 1969. Þar segir: að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen, lögreglumanns ( sbr. afsal, dags. 25. jan. 1953 ) á 450 m löngu svæði.

    Guðmundur Ó. Ólafsson seldi stefndu, Birni og Sigríði, spilduna með afsali þinglýstu 7. júlí 1971. Þar segir: Að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen, lögreglumanns ( sbr. afsal, dags. 25. jan. 1953 ) á 450 m. löngu svæði.

    Ofvaxið sé skilningi stefndu hvernig hægt sé að segja í afsali að girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen ráði mörkum lands stefndu og halda því svo fram að löndin séu ekki samliggjandi. Stefndu hafi ekki verið í vafa um að þau væru að kaupa land sem lægi að landi Stefáns Thorarensen samkvæmt afsalinu árið 1971. Það hafi staðið skýrum stöfum í afsalinu svo og stofnskjalinu fyrir lóðinni.

    Samt sem áður sé málsókn stefnanda á því byggð að löndin hafi ekki legið saman.  Það hafi verið breið skák á milli. Þá ímynduðu skák hafi stefnandi svo  keypt að eigin frumkvæði árið 1999.

    Stefndu gera grein fyrir málsástæðum sínum með tilvísan til eftirgreindra skjala, sem rakin eru í tímaröð.

    Stofnskjalið fyrir spildu stefnanda, þ.e. afsal eigenda Miðdals II, þeirra Péturs Þorsteinssonar og Ríkarðs Jónssonar, til Stefáns Thorarensen lögreglumanns sé mjög mikilvægt vegna þess að í öllum síðari afsölum fyrir spildu stefndu sé til þess vísað með orðunum, sbr. afsal dags. 25. jan. 1953, þegar norðvesturmörkum spildu stefndu sé lýst. Sem áður greinir séu mörkin úr vörðu á  Gildruási, beint í Seljadalsá um tvo smáhnjúka, sem bera því nær saman austanvert við mýrarsund sem er austan Búrfells. Á þessari línu hafi verið girðing. Það hljóti að vera þessi girðing sem ítrekað sé vísað til í málsskjölum með orðunum: „...girðing umhverfis  land Stefáns Thorarensen lögreglumanns (sbr. afsal dags. 25. jan. 1953)“?

    Yfirlýsingin frá 28. nóvember 1955 sé makaskiptasamningur: „Stefán Thorarensen fær landspildu suðaustanvert við Gildruás og eigendur Miðdals II norðanvert við línu dregna úr Þúfuhól í Seljadalsá.“  Með skjali þessu hafi verið gert samkomulag um að mörk landspildu stefnanda í máli þessu að sunnan og austan skuli vera úr mel austanvert við Gildruás, (þ.e. hinum ágreiningslausa punkti 101 í stefnu), og  þaðan hugsast dregin bein lína um Þúfuhól í Seljadalsá[...]

    Það þurfi ekki annað en draga línu frá ágreiningslausum punkti (101 í stefnu) beint í stefnu á þekkt kennileiti, Þúfuhól. Þá sé hin umsamda landamerkjalína samkvæmt yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955 komin. Hún hafi verið dregin á framlagt hnitsett kort, mælt í ágúst 2002, teiknað í apríl 2003. Í niðurlagsorðum  2. mgr. yfirlýsingarinnar frá 28. nóvember 1955 segir: ... en þaðan hugsast dregin bein lína um Þúfuhól í Seljadalsá og ræður girðing sem sett er á landamörkum þessum að austan verðu. Þarna sé getið um girðingu. Svo virðist sem á þessum mörkum hafi verið sett upp girðing. Stefndu telja sig hafa rekist á leifar af járnstaurum þarna í mýrinni, og geti sér þess til, að á einhverju skeiði hafi verið sett upp girðing á járnstaurum og með fáum strengjum sem auðvelt hafi verið að fjarlægja.

    Það hefði vissulega verið betra og líklega forðað málaferlum þessum ef umsamin girðing hefði verið varanleg girðing. Hin umsömdu landamerki séu þó glögg og skýr: Línan úr mel austanvert við Gildruás í stefnu á Þúfuhól.

    En svo undarlega virðist bregða við að eigendur Miðdals II hafi ekki byggt á samningi þessum við síðari löggerninga. Þeir hafi litið fram hjá honum. Alltaf sé vitnað til afsalsins frá 25. janúar 1953 um mörkin á spildu stefndu, en ekki til þessa samnings frá 1955.  Ekki sé ljóst hvers vegna svo sé, hvort ástæðan sé sú að fullgildur samningur hafi ekki stofnast, eða hvort gagnaðilinn, Stefán Thorarensen, hafi ekki staðið við það að afsala hinni umsömdu landspildu norðanvert við línu dregna úr Þúfuhól í Seljadalsá? Það hvíli á stefnanda að upplýsa um hið síðargreinda.

    Stefndu byggja aðallega á því að samningur þessi hafi aldrei öðlast gildi eða verið felldur úr gildi eftir atvikum þannig að aðilar hafi orðið sammála um að byggja ekki á honum eða bera hann fyrir sig.

    Með afsali Péturs Þorsteinssonar til Helga Bergssonar, dags. 2. september 1963, hafi landspildu stefndu verið skipt út úr Miðdal. Um norðvesturmörk landsins sé vísað til upprunalega afsalsins til Stefáns frá 1953 en ekki makaskiptasamningsins frá 28. nóvember 1955. Annað hvort séu eigendur Miðdals að tvíselja, þ.e. selja aftur viðbótar spilduna sem Stefán fékk með makaskiptasamningnum, eða þá að þeir líti fram hjá honum, að líkindum vegna þess að Stefán virðist aldrei hafa afsalað til eigenda Miðdals landi því sem þeir áttu að fá samkvæmt honum. Á þessum tíma virðist girðing sú, sem stefndi telur sig hafa fundið leifar af, hafa verið komin.

    Í afsali Helga Bergssonar til Guðmundar Ó. Ólafssonar, dags. 8. ágúst 1969, fyrir landspildu þessari sé enn vísað til hins upprunalega afsals til Stefáns Thorarensen eins og makaskiptasamningurinn sé ekki til.

    Í eignarheimild stefndu fyrir landspildu sinni frá árinu 1971 sé enn vísað til hins upprunalega afsals til Stefáns Thorarensen eins og makaskiptasamningurinn sé ekki til.         

    Skal nú vikið að kröfulínu stefnanda. Það sé óumdeilt að á þeirri línu hafi á seinni árum verið fjárgirðing. Ekki njóti við skjallegra heimilda um það hvernig girðingarlínan eða girðingarstæðið hafi verið valið, girðingin hafi ekki verið á neinni af þeim markalínum sem lýst sé í framangreindum afsölum. Vakin sé sérstök athygli á neðstu málsgreininni á bls. 1 í afsalinu frá 25. janúar 1953: Hinni seldu eign fylgir réttur til beitar í landi Miðdals II um 25 ára skeið frá deginum í dag að telja fyrir allt að 150 fjár. Stefndu telja nærtækt að ætla að í þessu samningsákvæði sé að finna ástæðuna fyrir því að fjárgirðing þessi var sett upp á þeim stað sem raun varð á, inni á landi Miðdals II. Það hafi verið vegna þess að kaupandi spildunnar, Stefán Thorarensen, hafði, auk spildunnar, keypt beitarrétt í landi Miðdals. Þennan beitarrétt hafi hann nýtt með því  girða til sín og afgirða frá Miðdal II spildu af því landi sem beitarrétturinn tók til. Nánar til tekið: Þrætulandið í máli þessu.

    Auk þess hafi þarna verið besta girðingarstæðið, m. a. vegna snjóalaga, sem í sjálfu sér geti verið fullnægjandi skýring á því hvers vegna girðingin hafi verið sett þarna.

    Loks sé sannfærandi sú skýring á tilvist girðingarinnar sem fram komi í stefnu að Stefán Thorarensen hafi fengið sérstaka heimild til að reisa girðingu þessa til þess að skepnur hans hefðu skjól í illviðrum. Eins og nánar sé greint í stefnu hafi Stefán Thorarensen fengið leyfi þeirra Péturs og Ríkarðs til að reisa girðingu austan landamarkanna til þess að búfénaður hans hefði skjól í vondum veðrum í þeirri mýrarlægð sem liggur austan markanna og nú sé þrætulandið. Stefndu fái ekki betur séð en með þessum orðum sé beinlínis verið að viðurkenna að fjárgirðingin hafi verið inni á landi Miðdals II en ekki umhverfis land Stefáns Thorarensen.

    Í tilvist þessarar girðingar sé síðan að leita ástæðunnar fyrir því að uppdrættirnir sem fjallað sé um hér að framan sýni ekki annað hvort  samningslínuna frá 1953 eða þá hina endurskoðuðu samningslínu frá 1955. Þegar uppdrættirnir voru gerðir hafi girðingarnar á þessum samningslínum verið ofan teknar. Fjárgirðingin hafi verið eina girðingin sem greinilega hafi staðið uppi á svæðinu. Maðurinn sem uppdráttinn gerði hafi í fljótræði sett fjárgirðingarlínuna sem landamörk á uppdráttinn og ekki athugað að fjárgirðingin hafi alls ekki verið á þeirri línu sem lýst sé í skjölunum sjálfum með skýrum og óvefengjanlegum hætti, fyrst í afsalinu frá 25. janúar 1953, síðan í yfirlýsingu frá 28. nóvember 1955 en í þessi skjöl vísi síðan afsölin fyrir spildu stefndu sem hinir röngu uppdrættir nú fylgja. Kröfulína stefnanda eigi sér ekki stoð í texta neins af hinum framlögðu skjölum. Hennar eina stoð séu uppdrættir sem séu rangir vegna óvandvirkni og mistaka.

Í samantekt séu helstu málsástæður stefndu þessar:

 1. Í stofnskjalinu fyrir spildu gagnstefnanda og öllum síðari afsölum sé þrætulínunni í máli þessu lýst  með því að vísa í annað skjal: Það sé sagt að hún liggi að landspildu Stefáns Thorarensen. Nánar tiltekið: Að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis  land Stefáns Thorarensen lögreglumanns (sbr. afsal dags. 25. jan. 1953).

2. Þriggja girðinga sé getið á þrætulandinu enda hafi Stefán Thorarensen þrisvar fengið land frá Miðdal II: Fyrst 1953 að línu sem tilgreind sé í afsalinu frá 25. janúar 1953. Næst árið 1955 að línu þeirri sem tilgreind sé í yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955. Loks hafi hann fengið, að líkindum með munnlegu samkomulagi, viðbótarland til afnota. Í öll skiptin hafi hann sett upp girðingu, í tvö hin fyrri hrossagirðingar sem erfitt sé að finna ummerki um eftir hálfa öld, en í síðasta sinnið vandaða fjárgirðingu sem stóð nokkru lengur en hinn umsamdi beitarréttar samkvæmt afsalinu frá 25. janúar 1953, en honum lauk 1978.

3. Þótt með engu móti verði séð að síðastnefnd fjárgirðing eigi að hafa sjálfstæðar réttarverkanir um eignarhald á landi,  þá sé hitt jafn ljóst að hún hafi haft óheppilegar afleiðingar. Hún, eða ummerki eftir hana, hafi valdið því að ónafngreindur mælingamaður teiknaði uppdrætti sem séu rangir og ósamrýmanlegir skjölum þeim sem þeir séu festir við í veðmálabókum.

4. Umræddum uppdráttum sé auk þess mótmælt sem óárituðum af samningsaðilum, óárituðum af þinglýsingardómara, ótölusettum í veðmálabók og óviðkomandi þeim skjölum sem þeir fylgja í veðmálabókinni þar sem þeirra sé að engu getið í skjölunum sjálfum.

5. Kröfulína stefnanda eigi sér enga skjallega stoð. Hún sé dregin eftir girðingarstæði fjárgirðingar sem girt hafi verið inni á landi Miðdals II, að líkindum samkvæmt munnlegu samkomulagi sem gert hafi verið af tímabundnum ástæðum. Þessari girðingarlínu sé ekki lýst í neinu af hinum framlögðu afsölum.

   

Niðurstaða

Með aðilum er ágreiningur um það hvar norðvesturmörk landspildu stefndu úr landi jarðarinnar Miðdals II, Mosfellsbæ, liggja.

Stefnandi gerir kröfu um það að landamerki landspildu hans og landspildu stefndu úr landi Miðdals II, séu frá suðri eftir línu úr punkti 101 (X=7160.520, Y=14598.420) norður í punkt 102 (X=6840.889, Y=14773.262) og þaðan norður í punkt 103 (X=6784.370, Y=14837.649) í samræmi við framlagðan uppdrátt.

Stefndu telja hins vegar að landamerki landspildu stefnanda og landspildu stefndu úr landi Miðdals II séu úr punkti, hnit X 7271.7300 Y 14659.7700, vörðu á mel sunnan Leirtjarnar er nefnist Gildruás (punktur 45), þaðan í punkt X 7008.7500 Y 15141.3200 sem er á línu er hugsast dregin beint í Seljadalsá um tvo smáhnjúka, sem bera því nær saman austanvert við mýrarsund, sem er austan Búrfells (punktur 655).

Punktar þessir eru auðkenndir 45 og 655 á hnitsettum uppdrætti.

    Lína þessi er upphafleg markalína á landi því, að sunnan og austan, sem Stefán Thorarensen keypti úr landi jarðarinnar Miðdals II samkvæmt afsali dags. 25. janúar 1953. Með yfirlýsingu, dags. 28. nóvember 1955, varð samkomulag með aðilum um breytingu á landamerkjum hins selda landshluta að sunnan og austan. Samkvæmt þeim makaskiptum skyldi Stefán Thorarensen fá landspildu suðaustanvert við Gildruás og eigendur Miðdals II norðanvert við línu dregna úr Þúfuhól í Seljadalsá, eins og nánar er gerð grein fyrir í samkomulagi þessu. Yfirlýsingu þessari var þinglýst og verður að líta svo á að hún hafi haft fullt gildi milli aðila efni sínu samkvæmt.  Verður því að miða við að afmörkun lands Stefáns Thorarensen og Miðdals II hafi miðast við þá línu, sem samkomulag varð um með yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefndu að upphafleg markalína samkvæmt afsalinu frá 25. janúar 1953 geti afmarkað land stefndu að norðvestan.

Til vara telja stefndu að landamerki landspildu stefnanda og landspildu stefndu, úr landi Miðdals II séu úr punkti, hnit X 7169.6048  Y 14603.4317 sem er á mel austanvert við Gildruás (punktur 677), þaðan í punkt X 6894.3800 Y 14989.0500 sem er á beinni línu er hugsast dregin um Þúfuhól í Seljadalsá (punktur 661).

                Lína þessi er sú markalína sem samkomulag varð um með yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955 og fyrr getur, og er við þá línu miðað sem vesturmörk hins umdeilda lands í kaupsamningi stefnanda og eigenda Miðdals II frá 16. september 1999. Eins og segir í kaupsamningi þessum mynda austurmörk spildunnar við Seljadalsá hvasst horn við vesturmörkin og liggja þaðan suður eftir girðingu og girðingarstæði, með tveimur gleiðum hornum, er afmarka sumarhúsabyggð við Silungatjörn og mynda austurmörkin síðan annað hvasst horn við vesturmörkin við framangreindan mel. Spilda þessi, sem nefnd er Eystri spildan í framangreindum kaupsamningi og afsali til stefnanda, dags. 3. september 2004, er sú landspilda sem ágreiningur aðila stendur um. Er tekið fram í afsali að stefndi vefengi tilgreind austurmörk spildunnar og telji sig eiga land vestur að austurmörkum Búrfellslands.

Samkvæmt ódagsettu afsali, en þinglýstu 7. júlí 1971, seldi Guðmundur Ó. Ólafsson stefndu landspildu sína úr landi jarðarinnar Miðdals II í Mosfellshreppi ca 8 ha. að flatarmáli. Tekið er fram í afsalinu að umrædd landspilda liggi umhverfis Myrkurtjörn norðanvert við sumarbústaðaveg út frá gamla Þingvallaveginum. Í afsalinu er ítarleg lýsing á mörkum landsins, sem einnig er afmarkað á uppdrætti, sem afsalinu fylgir samkvæmt staðfestingu sýslumannsins í Hafnarfirði. Afmörkun landsins er nákvæmlega sú sama og í fyrri afsölum varðandi landspildu þessa, þ.e. afsali dags. 8. ágúst 1969 og 2. september 1963. Þeim afsölum fylgdu einnig sambærilegir uppdrættir af landinu. Um norðvesturmörk landsins segir svo í afsölum þessum:

„Að norðvestan ræður mörkum girðing umhverfis land Stefáns Thorarensen lögreglumanns (sbr. afsal, dags. 25. jan. 1953) á 450 m löngu svæði.“ Er einnig vísað í girðingu þessa varðandi tilgreiningu á mörkum landsins að suðvestan og norðaustan. Í þeim uppdráttum, sem greindum afsölum fylgdu, er dregin inn lína, sem samræmist kröfulínu stefnanda. Óumdeilt er að á þeirri línu sem stefnandi krefst að ráði mörkum hafi verið reist fjárgirðing. Hafa stefndu ekki andmælt þeirri skýringu stefnanda að Stefán Thorarensen, sem átti beitarrétt í landi Miðdals II, hafi fengið leyfi eigenda jarðarinnar til þess að reisa þessa fjárgirðingu austan landamarkanna, eins og þau höfðu verið ákveðin með yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955. Landsvæði það sem þannig afmarkaðist af austurmörkum Búrfellslands samkvæmt greindri yfirlýsingu og fjárgirðingu þessari var því eftir sem áður eignarland Miðdals II. Syðst það við  þinglýsta uppdrætti sem fylgdu þeim afsölum, sem eignarheimild stefndu verður rakin til, þar sem norðvesturmörk landspildunnar eru tilgreind á þeim stað, sem fjárgirðing þessi var. Verður því að ætla að þegar vísað er um mörk til girðingar umhverfis land Stefáns Thorarensen sé átt við greinda fjárgirðingu. Þá verður ekki annað séð en uppdrættir þessir séu í meginatriðum í samræmi við þá lýsingu á mörkum sem tilgreind er í afsölunum og samræmist því að heildarstærð þess lands sem stefndu keyptu sé um 8 ha. að flatarmáli eins og tilgreint er. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum máls að önnur sumarbústaðalönd, sem seld hafa verið úr landi Miðdals II og liggja norðan landspildu stefndu, ná öll norðvestur að sömu línu og fjárgirðingin var og í framlögðum uppdrætti  Ágústs Böðvarssonar frá því í júní 1965 er lína þessi nefnd markagirðing. Sjónarmiðum stefndu og málsástæðum um það að uppdrættir þessir séu síðar til komnir eða ranglega gerðir, sem haldbær rök hafa ekki verið leidd að, er hafnað. Þá hafa stefndu engum stoðum undir það rennt að með tilvísun í greindum afsölum um girðingu umhverfis land Stefáns Thorarensen sé átt við girðingu á markalínu þeirri sem samkomulag varð um með yfirlýsingunni frá 28. nóvember 1955. Verður því fallist á málsástæður stefnanda og landamerki milli landspildu stefnanda og landspildu stefndu úr landi jarðarinnar Miðdals II verða ákveðin eins og stefnandi gerir kröfu til og nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 750.000 kr.   Hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar samkvæmt reikningi að fjárhæð 110.519 kr. og virðisaukaskatts.  Ekki þykja vera efni til að dæma 50% álag á málskostnað samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, eins og stefnandi gerir kröfu um.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

Landamerki landspildu stefnanda, Gunnars B. Dungal, úr landi Miðdals II, með landnúmer 199722 og landspildu stefndu, Björns Erlendssonar og Sigríðar Á. Ásgrímsdóttur, við Myrkurtjörn, sem einnig er úr landi Miðdals II, eru frá suðri eftir línu úr punkti 101 (X=7160.520, Y=14598.420) norður í punkt 102 (X=6840.889, Y=14773.262) og þaðan norður í punkt 103 (X=6784.370, Y=14837.649) á uppdrætti sem unninn var af Ráðgjöf ehf., verkfræðistofu.

Stefndu greiði stefnanda 750.000 kr. í málskostnað.