Hæstiréttur íslands
Mál nr. 569/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Veðleyfi
- Ógilding samnings
|
|
Mánudaginn 21. október 2013. |
|
Nr. 569/2013.
|
Þröstur Lýðsson (Ólafur Garðarsson hrl.) gegn AFLi sparisjóði (Kristinn Hallgrímsson hrl.) Mosfellsbæ (enginn) Íbúðarlánasjóði og (enginn) Berglindi Þrastardóttur (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Veðleyfi. Ógilding samnings.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Þ um að nauðungarsala á fasteign yrði ógilt hvað hans eignarhluta varðaði. Þ hafði sett eignarhluta sinn að veði með áritun á veðskuldabréf sem B dóttir hans gaf út til sparisjóðsins S á árinu 2008. Var B eigandi að 57% fasteignarinnar en Þ að 43%. Í málinu byggði Þ á því að samningur hans við sparisjóðinn væri ógildanlegur vegna þess að ekki hafi af hálfu sparisjóðsins verið gætt ákvæða samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Vísaði hann einkum til nánar tilgreindra ákvæða í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerning, þar á meðal 36. gr. laganna. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að þegar litið væri til þess hvernig að málum hafi verið staðið hvað varðaði mat á greiðslugetu B yrði að líta svo á að í raun hafi greiðslugeta B alls ekki verið metin þannig að fullnægði ákvæðum fyrrnefnds samkomulags. Yrði A að bera hallann af því að lánið hafi verið veitt án þess að viðhöfð væru þau vönduðu vinnubrögð sem samkomulagið gerði ráð fyrir. Var ekki fallist á með A að sú staðreynd að Þ væri faðir B og sameigandi hennar að fasteign veitti líkur fyrir því að honum hafi mátt vera kunnugt um fjárhag hennar þannig að hann gæti metið greiðslugeta hennar án þess að ákvæða samkomulagsins væri gætt. Taldi Hæstiréttur með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 ósanngjarnt af A að bera fyrir sig samþykki Þ við veðsetningunni. Þá var Þ ekki talinn hafa sýnt tómlæti við gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varðaði. Var nauðungarsala sú sem fram hafði farið felld úr gildi hvað eignarhluta Þ varðaði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nauðungarsala á fasteigninni Miðholti 11, Mosfellsbæ, fastanúmer 208-4141, sem lokið var 10. desember 2012 hjá sýslumanninum í Reykjavík, verði ógilt hvað varðar eignarhluta hans í fasteigninni. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind nauðungarsala verði ógilt hvað varðar eignarhluta sinn í fasteigninni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn AFL-sparisjóður krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Þar sem þessi varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms af sinni hálfu kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.
Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Mál þetta á rætur að rekja til veðskuldabréfs sem varnaraðilinn Berglind Þrastardóttir, sem er dóttir sóknaraðila, gaf út 28. mars 2006. Þar viðurkenndi hún að skulda Sparisjóði Siglufjarðar þrjár milljónir króna. Lánið var til 40 ára og skyldu afborganir greiddar mánaðarlega í fyrsta sinn 1. maí 2006. Lánið, sem var bundið vísitölu neysluverðs, var tryggt með fyrsta veðrétti í fasteigninni Miðholti 11, Mosfellsbæ, sem var í sameign varnaraðilans Berglindar sem átti 57% eignarhlut og sóknaraðila sem átti 43% eignarhlut. Áritaði sóknaraðili veðskuldabréfið og veitti veðheimild í sínum eignarhluta. Ofan við áritun hans á skuldabréfið var svofelldur texti: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni skuldabréfsins og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001.“
Varnaraðilinn AFL-sparisjóður hefur lagt fyrir Hæstarétt ódagsettan upplýsingabækling sem merktur er „Sparisjóðurinn“ og ber heitið „Ábyrgðarmenn og veðleyfisgjafar“, sem hann kveður vera þann bækling sem til sé vitnað í ofangreindum texta á veðskuldabréfinu. Í bæklingnum kemur meðal annars fram að sparisjóðnum beri, sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu, að meta greiðslugetu skuldara, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Þrátt fyrir það sé sparisjóðnum skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi meira en 1.000.000 króna. Í bæklingnum eru þeir sem ábyrgjast lán hvattir til að kanna fjárhag þess sem biður um að gengist sé í ábyrgð fyrir og það óháð því hversu vel þeir séu kunnugir lántaka. Þá segir að allir sem veita veðleyfi skuli hafa kynnt sér efni bæklingsins sem sé gerður með vísan til 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samband íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra standi að. Meðal gagna málsins er skjal sem ber fyrirsögnina „fjárhagsyfirlit“ sem virðist hafa verið ætlað að meta greiðslugetu varnaraðilans Berglindar. Skjalið er óundirritað og ekki útfyllt nema að hluta. Að því marki sem fyllt er í reiti eyðublaðsins er það bersýnilega gert á rangan hátt því sömu tölur eru færðar í alla dálka þess annars vegar varðandi stöðu lánþega fyrir lánveitingu og hins vegar eftir lánveitingu. Þannig er greiðslubyrði lána talin sú sama í báðum tilvikum. Skjalið er dagsett 16. júní 2006 eða tæpum þremur mánuðum eftir útgáfu framangreinds veðskuldabréfs, en á kaupnótu Sparisjóðs Siglufjarðar er þessi dagur tilgreindur sem kaupdagur lánsins og mun það samkvæmt skýrslu sparisjóðsstjóra fyrir héraðsdómi hafa verið greitt út þann dag eða daginn eftir.
Samkvæmt gögnum málsins fór lánið í vanskil í nóvember 2010. Með beiðni um nauðungarsölu 15. maí 2012 til sýslumannsins í Reykjavík krafðist varnaraðilinn AFL-sparisjóður nauðungarsölu á eigninni á grundvelli framangreinds skuldabréfs. Nauðungarsalan hófst 14. nóvember 2012 og var fram haldið 10 desember sama ár. Sóknaraðili mótmælti því að nauðungarsalan færi fram að því er varðaði hans 43% hlut í fasteigninni en gerðarbeiðandi krafðist þess að nauðungarsalan næði fram að ganga. Sýslumaður hafnaði mótmælum sóknaraðila og ákvað að nauðungarsalan skyldi ná fram að ganga á fasteigninni í heild sinni. Tilboð varnaraðilans AFLs-sparisjóðs að fjárhæð 19.000.000 krónur var samþykkt og uppboðinu lokið. Sóknaraðili leitaði úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um gildi nauðungarsölunnar og var krafa hans móttekin 7. janúar 2013.
II
Sóknaraðili reisir kröfu sína fyrst og fremst á því að að samningur hans við Sparisjóð Siglufjarðar sé ógildanlegur vegna þess að ekki hafi af hálfu sparisjóðsins verið gætt ákvæða fyrrnefnds samkomulags frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Vísar hann í þeim efnum einkum til nánar tilgreindra ákvæða í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þeirra á meðal 36. gr. laganna.
Samkvæmt 3. grein samkomulagsins ber fjármálafyrirtæki, sé veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu einstaklings, að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Nemi ábyrgð á skuldum meiru en 1.000.000 krónum er þó ávallt skylt að meta greiðslugetu skuldara. Samkvæmt 4. grein skal tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina. Að framan er því lýst að eyðublað fyrir svonefnt fjárhagsyfirlit, sem af hálfu sparisjóðsins virðist hafa verið ætlað að meta greiðslugetu varnaraðilans Berglindar, er óundirritað, ranglega útfyllt og aðeins að hluta. Þá taldi varnaraðilinn Berglind í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að þær upplýsingar sem þar kæmu fram um tekjur sínar og greiðslubyrði væru efnislega rangar. Hefur ekki verið upplýst með fullnægjandi hætti á hvaða gögnum fjárhagsyfirlitið hafi verið byggt. Loks er þess að gæta að skjalið er dagsett tæpum þremur mánuðum eftir að sóknaraðili undirritaði veðskuldabréfið. Verður að þessu gættu að líta svo á að í raun hafi greiðslugeta varnaraðilans Berglindar alls ekki verið metin þannig að fullnægi ákvæðum fyrrnefnds samkomulags, en til þess bar sparisjóðnum skylda samkvæmt fortakslausu ákvæði 3. gr. samkomulagsins. Verður varnaraðilinn AFL-sparisjóður að bera hallann af því að lánið var veitt án þess að viðhöfð væru þau vönduðu vinnubrögð sem samkomulagið gerir ráð fyrir. Að öðrum kosti er vandséð að náð verði því meginmarkmiði samkomulagsins að tryggja að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga geri sér grein fyrir þeirri áhættu sem þeir takast á hendur með veitingu ábyrgðar. Verður ekki fallist á með varnaraðilanum AFLi-sparisjóði að sú staðreynd að sóknaraðili var faðir varnaraðilans Berglindar og sameigandi hennar að fasteign veiti líkur fyrir því að honum hafi mátt vera kunnugt um fjárhag hennar þannig að hann gæti metið greiðslugetu hennar án þess að gætt væri ákvæða samkomulagsins. Að teknu tilliti til framangreinds, þess trausts sem sóknaraðili mátti bera til vinnubragða sparisjóðsins sem var fjármálafyrirtæki og efnis loforðsins verður talið með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 að ósanngjarnt sé af varnaraðilanum AFLi-sparisjóði að bera fyrir sig samþykki sóknaraðila við því að veðsetja sinn eignarhluta í fasteigninni til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Þykir reynsla hans sem framkvæmdastjóri innflutningsfyrirtækis ekki eiga að leiða til þess að skilyrðum 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um mismun í stöðu aðila við samningsgerð sé ekki fullnægt. Þá verður sóknaraðili ekki talinn hafa sýnt tómlæti við gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varði. Samkvæmt því verður nauðungarsala sem fram fór á fasteigninni Miðholti 11, Mosfellsbæ, felld úr gildi að því er varðar eignarhlut sóknaraðila.
Eftir framangreindum málsúrslitum verður varnaraðilinn AFL-sparisjóður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Nauðungarsala á fasteigninni Miðholti 11, Mosfellsbæ, fastanúmer 208-4141, sem lokið var 10. desember 2012 hjá sýslumanninum í Reykjavík, er felld úr gildi hvað varðar 43% eignarhlut sóknaraðila, Þrastar Lýðssonar, í eigninni.
Varnaraðilinn AFL-sparisjóður greiði sóknaraðila samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2013.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 26. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Sóknaraðili er Þröstur Lýðsson, Krókabyggð 5, Mosfellsbæ en varnaraðilar eru AFL-sparisjóður, Aðalgötu 34, Siglufirði, sveitarfélagið Mosfellsbær, Þverholti 2, Mosfellsbæ, Íbúðalánasjóður, Borgartúni 21, Reykjavík og Berglind Þrastardóttir, Miðholti 11, Mosfellsbæ.
Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsala á fasteigninni Miðholti 11, Mosfellsbæ, fastanúmer 208-4141, sem var lokið 10. desember 2012 hjá sýslumanninum í Reykjavík, verði ógilt hvað varðar eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili AFL-sparisjóður krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili Mosfellsbær krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.
Varnaraðili Berglind Þrastardóttir og Íbúðalánasjóður hafa ekki látið þetta mál til sín taka.
Málsatvik
Á árunum 2005 og 2006 gaf varnaraðilinn Berglind Þrastardóttir út tvö veðskuldabréf til Sparisjóðs Siglufjarðar, sem í dag er varnaraðilinn AFL-sparisjóður. Fyrra veðskuldabréfið, gefið út 21. mars 2005, er að fjárhæð 9.000.000 króna. Síðara veðskuldabréfið, gefið út 28. mars 2006, er að fjárhæð 3.000.000 króna. Einnig gaf sambýlismaður varnaraðilans, Svavar Þórisson, út veðskuldabréf, 23. október 2008, til Sparisjóðs Siglufjarðar. Til tryggingar greiðslu þessara veðskuldabréfa var fasteignin að Miðholti 11 í Mosfellsbæ, með fastanúmerið 208-4141, sett sparisjóðnum að veði. Varnaraðili Berglind er eigandi að 57% fasteignarinnar en sóknaraðili er eigandi að 43% fasteignarinnar. Sóknaraðili heimilaði veðsetningu í eignarhluta sínum með áritun á veðskuldabréfin.
Hinn 19. september 2012 sendi sóknaraðili Ólafi Jónssyni, sparisjóðsstjóra varnaraðila AFL-sparisjóðs, tölvuskeyti þar sem fram kom að honum hefði aldrei verið kynnt greiðslumat vegna lántöku varnaraðilans Berglindar og Svavars.
Með beiðni um nauðungarsölu, móttekinni 15. maí 2012 hjá sýslumanninum í Reykjavík, krafðist varnaraðili AFL-sparisjóður nauðungarsölu á fasteigninni á grundvelli skuldabréfsins sem varnaraðili Berglind gaf út 28. mars 2006. Samkvæmt gögnum málsins féllu afborganir af því skuldabréfi í vanskil á árinu 2010. Nauðungarsalan hófst 14. nóvember 2012 og var uppboðinu fram haldið 10. desember 2012. Sóknaraðili krafðist þá stöðvunar nauðungarsölunnar en varnaraðili AFL-sparisjóður hafnaði mótmælum sóknaraðila. Sýslumaður hafnaði mótmælum sóknaraðila og ákvað að nauðungarsalan skyldi ná fram að ganga á fasteigninni í heild sinni. Tilboð varnaraðila AFL-sparisjóðs að fjárhæð 19.000.000 króna var samþykkt og uppboði á fasteigninni þar með lokið.
Sóknaraðili sendi Héraðsdómi Reykjavíkur kröfu um úrlausn um gildi nauðungarsölunnar samkvæmt 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sem móttekin var 7. janúar sl.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því í fyrsta lagi að samningur hans við varnaraðila AFL-sparisjóð um veðsetningu fasteignar hans sé ógildanlegur á grundvelli nánar tilgreindra ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem og ólögfestra reglna samningaréttarins og ekki skuldbindandi fyrir sóknaraðila. Nauðungarsalan sem fram fór á eign hans á grundvelli samningsins sé því ólögmæt og beri að ógilda.
Engar forsendur séu til að líta svo á að varnaraðili hafi í raun metið greiðslufærni Berglindar eða sambýlismanns hennar Svavars áður en þau stofnuðu til skulda við sparisjóðinn eða áður en sóknaraðili veðsetti fasteign sína til tryggingar skuldum þeirra. Sóknaraðili hefur mótmælt því að byggt verði á því greiðslumati sem lagt var fram við aðalmeðferð málsins, það sé of seint fram komið sem og þær málsástæður, sem varnaraðili vilji á því byggja.
Varnaraðili AFL-Sparisjóður sé bundinn af samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 milli Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Sambands íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda. Samkvæmt 1. gr. samkomulagsins sé markmið þess að vernda ábyrgðarmenn í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings sé sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Í 1. mgr. 3. gr. samkomulagsins segi að sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því skriflega að svo verði ekki gert. Í 3. mgr. 4. gr. sama samkomulags segi að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það.
Samkvæmt þessu hafi varnaraðila AFL-sparisjóði borið að meta greiðslugetu varnaraðila Berglindar Þrastardóttur áður en gert var samkomulag við sóknaraðila um veðsetningu eignarhluta fasteignar hans. AFL-sparisjóður hafi hins vegar ekki sinnt þeirri ófrávíkjanlegu skyldu sinni. Mátti sóknaraðili með réttu ganga út frá því að fjármálafyrirtæki kannaði greiðslugetu lántaka áður en honum voru greiddar út nokkrar milljónir króna.
Við munnlegan málflutning kom fram hjá lögmanni sóknaraðila að framlagt greiðslumat sýni ekki fram á greiðslugetu varnaraðilans Berglindar og virðist byggja á röngum forsendum. Varnaraðili Berglind hafi ekki látið varnaraðila AFL-sparisjóð fá nein gögn. Ekki sé mögulegt að staðreyna á hvaða gögnum greiðslumatið hafi byggst. Vitnið Ólafur Jónsson, fyrirsvarsmaður varnaraðila AFL-sparisjóðs, hafi viðurkennt að niðurstaða greiðslumatsins hafi verið röng. Þá hafi varnaraðili Berglind sagt að ekki hafi verið tekið tillit til bílaláns hennar. Loks sé greiðslumatið óundirritað og óklárað, þar sem reitir séu óútfylltir.
Sóknaraðili hafi aldrei óskað þess að varnaraðili Berglind gengist ekki undir greiðslumat áður en fasteign hans var veðsett varnaraðila AFL-sparisjóði.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að veðsamningur hans og varnaraðila AFL-sparisjóðs sé svo bersýnilega ósanngjarn í garð sóknaraðila að hann sé ógildanlegur á grundvelli ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936. Af því leiði að ógilda beri nauðungarsöluna. Til stuðnings kröfum sínum byggir sóknaraðili einkum á eftirfarandi atriðum. Í fyrsta lagi hafi varnaraðila AFL-sparisjóði, samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi, ótvírætt verið skylt að meta greiðslufærni varnaraðila Berglindar áður en veðsamningur var gerður við sóknaraðila. Samkomulagið hafi samkvæmt 1. gr. verið gert til hagsbóta fyrir ábyrgðarmenn og veðsala og þeir geti byggt beinan rétt á samkomulaginu. Fram kom hjá lögmanni sóknaraðila við munnlegan málflutning að ekki sé nóg að greiðslumat sé gert, heldur verði að vinna það á réttan hátt. Varnaraðili AFL-sparisjóður hafi brotið gegn rétti sóknaraðila samkvæmt samkomulaginu og sé verulega ósanngjarnt að krefjast fullnustu skuldarinnar úr hendi sóknaraðila.
Í öðru lagi sé verulega ósanngjarnt af varnaraðila AFL-sparisjóði að byggja einhliða rétt á þeim lánssamningi sem var grundvöllur nauðungarsölu fasteignar sóknaraðila, án tillits til annarra skuldbindinga sem varnaraðili bar sjálfur gagnvart sóknaraðila samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi. Á grundvelli lánssamningsins hafi sóknaraðili verið krafinn um skuld að fjárhæð 5.429.129 krónur, auk þess sem fasteign hans var seld nauðungarsölu til fullnustu skuldarinnar. Sú skuld hafi verið til komin vegna skuldbindinga varnaraðila Berglindar en féll á sóknaraðila sökum áskilnaðar sparisjóðsins um tryggingu til greiðslu skuldarinnar. Sóknaraðili og varnaraðili Berglind hafi borið alla áhættu vegna hugsanlegra vanskila Berglindar á kröfum sparisjóðsins. Varnaraðili AFL-sparisjóður hafi hins vegar enga áhættu borið. Krafa varnaraðilans hafi verið tryggð að öllu leyti með veðsetningu sóknaraðila á fasteign sinni, hvað sem leið greiðslugetu varnaraðilans Berglindar. Andvara- og aðgæsluleysi varnaraðila AFL-sparisjóðs um hag varnaraðila Berglindar og sóknaraðila hafi þannig beinlínis valdið því að fasteign sóknaraðila hafi verið seld á nauðungarsölu.
Í þriðja lagi bendir sóknaraðili á að það sé andstætt góðri viðskiptavenju að bera umræddan samning fyrir sig gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili AFL-sparisjóður sé fjármálafyrirtæki í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 10. tl. 1. gr. a sömu laga, og beri því að haga starfsháttum sínum í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laganna. Á varnaraðila AFL-sparisjóði hafi því hvílt ríkar skyldur til að haga starfsemi sinni í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sem og venjur á fjármálamörkuðum. Varnaraðilinn hafi brotið gegn lögbundnum skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 161/2002 þar sem honum hafi samkvæmt 19. gr. laganna verið skylt að gera greiðslumat. Sú háttsemi varnaraðilans að krefjast nauðungarsölu á fasteign hans til greiðslu skuldar varnaraðila Berglindar gangi því í berhögg við góðar viðskiptavenjur og eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Samningurinn sé því ógildanlegur á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, með vísan til 19. gr. laga nr. 161/2002.
Í fjórða lagi telur sóknaraðili að við mat á því hvort veðsamningur aðila hafi verið ósanngjarn í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 verði að líta til þeirrar yfirburðastöðu sem varnaraðili AFL-sparisjóður hafi notið við samningsgerðina. Varnaraðilinn sé fjármálafyrirtæki sem hafi innlán og útlán að meginstarfsemi. Sóknaraðili sé hins vegar einstaklingur sem hafi enga sérstaka þekkingu eða reynslu af viðskiptum af þessu tagi. Veðsamningurinn hafi verið saminn af sérfræðingum varnaraðila AFL-sparisjóðs og sóknaraðili hafi hvergi komið nærri þeirri vinnu, auk þess sem sjálf framkvæmd lánveitingarinnar hafi á allan hátt verið á ábyrgð sóknaraðila. Einnig verði að líta til atvika við samningsgerð, sem og þeirra atvika sem upp komi eftir samningsgerðina. Er samningurinn var undirritaður hafi sóknaraðili staðið í þeirri trú að varnaraðili AFL-sparisjóður hefði metið greiðslufærni varnaraðila Berglindar og talið hana færa um að greiða lánið til baka. Sóknaraðili beri ekki ábyrgð á því að varnaraðilinn hafi vanrækt samningsbundna skyldu sína. Þau atvik sem upp komu eftir samningsgerðina sjálfa séu þau að varnaraðili Berglind hafi ekki verið fær um að greiða lánið til baka. Þar sé um að ræða atvik sem sóknaraðili beri enga ábyrgð á, en þurfi nú engu að síður að bera alla áhættu af. Í ljósi þess að varnaraðila AFL-sparisjóði hafi borið að meta greiðslufærni varnaraðila Berglindar sé sanngjarnt að varnaraðilinn beri sjálfur hallann vegna þess samningsbrots.
Sóknaraðili kveðst til viðbótar ofangreindu byggja á ákvæðum 36. gr. a-d laga nr. 7/1936.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að veðsamningur hans og varnaraðila AFL-sparisjóðs sé ógildanlegur á grundvelli ólögfestra sjónarmiða og meginreglna samningaréttarins um brostnar forsendur. Samningurinn sé ógildanlegur og óskuldbindandi fyrir sóknaraðila, þar sem ákvörðunarástæður hans við veðsetninguna hafi verið þær að greiðsluhæfi varnaraðila Berglindar hefði verið metið af sérfræðingum á vegum fjármálastofnunar áður en lánið sjálft var veitt. Sóknaraðili hafi enn fremur talið að varnaraðili Berglind hefði verið metin hæf til að standa við skuldbindingar sínar. Sóknaraðili hafi ekki viljað gangast í ábyrgð vegna skulda sem líklegt væri að féllu á hann. Hann hefði neitað því alfarið hefði hann verið upplýstur um að ólíklegt væri að varnaraðili Berglind gæti staðið í skilum með afborganir skulda sinna, eins og raunin varð síðan. Samningurinn sé því ógildanlegur, sem og nauðungarsalan sem fram fór á grundvelli hans. Að sama skapi byggir sóknaraðili á því að hann hafi haft rangar forsendur, sbr. ákvæði 38. gr. sml., er hann ritaði undir nefndan veðsamning, en ástæða þess sé röng upplýsingagjöf AFL-sparisjóðs.
Þá byggir sóknaraðili á því að háttsemi AFL-sparisjóðs að meta ekki greiðslufærni varnaraðila Berglindar áður en gerður var veðsamningur við sóknaraðila til tryggingar skuldum hennar, hafi brotið í bága við ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Nánar tiltekið hafi háttsemin brotið í bága við ákvæði 1. mgr. 19. gr. laganna, sem kveður á um að fjármálafyrirtæki skuli starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Er jafnframt á því byggt að með framgöngu sinni hafi AFL-sparisjóður brotið gegn nefndu ákvæði laganna.
Loks byggir sóknaraðili á því að veðsamningur aðila sé ógildanlegur á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936. Sóknaraðili byggir á því að það sé óheiðarlegt af varnaraðila AFL-sparisjóði að bera fyrir sig samning um veðsetningu sóknaraðila á fasteign hans, þegar ljóst sé að varnaraðili hafi sjálfur vanrækt við samningsgerðina að framkvæma greiðslumat vegna aðalskuldara, með þeim afleiðingum að öll áhætta vegna vanefnda á samningnum færðist á sóknaraðila sjálfan.
Sóknaraðili vísar til meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar um brostnar forsendur. Þá byggir sóknaraðili á ákvæðum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum ákvæði 36. gr. laganna, ákvæðum 36. gr. a til d, en að auki ákvæðum 33. og 38. gr. laganna. Sóknaraðili vísar jafnframt til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 1. og 19. gr. laganna. Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök varnaraðila AFL-sparisjóðs
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi með fúsum og frjálsum vilja sett eignarhluta fasteignar sinnar að veði með undirritun á veðskuldabréf sem gefin voru út 21. mars 2005 og 28. mars 2006, og að engin skilyrði séu til þess að ógilda þá veðsetningu. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi gert sér fulla grein fyrir þeirri áhættu sem fylgdi því að heimila veðsetninguna. Í umræddum veðskuldabréfum segi berum orðum, fyrir ofan undirritun sóknaraðila, að hann hafi kynnt sér efni bréfsins og geri sér grein fyrir í hverju ábyrgð sín sem veðleyfishafa sé fólgin og telji hana samrýmast greiðslugetu sinni. Jafnframt hafi hann kynnt sér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni gildandi samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Sóknaraðili hafi ekki óskað eftir því að framkvæmt yrði greiðslumat hjá varnaraðila Berglindi. Það bendi ótvírætt til þess að sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um fjárhagsstöðu hennar og greiðslugetu. Sóknaraðili sé faðir varnaraðila Berglindar, auk þess sem þau hafi átt hina veðsettu fasteign saman.
Varnaraðili byggir á þeirri meginreglu samningaréttarins að samninga skuli halda og að sóknaraðili sé bundinn af þeim samningum sem hann hafi gert við varnaraðila.
Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 hafi hvorki stöðu settra laga né reglugerðar. Þá séu ekki í því ófrávíkjanlegar formreglur sem sjálfkrafa hafi þær afleiðingar að ógilda beri veðsetningu, hafi samkomulaginu ekki verið fylgt til hlítar. Varnaraðili byggir á því að ekki sé unnt að víkja frá fyrrgreindri meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga með vísan til ákvæða ólögfests samkomulags.
Varnaraðili byggir á því að nauðsynlegt sé að fram fari heildstætt mat á atvikum máls við mat á því hvort það yrði talið ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga fyrir varnaraðila að bera fyrir sig ábyrgðaryfirlýsingu sóknaraðila. Það eitt að greiðslumat hafi ekki farið fram geti ekki réttlætt beitingu 36. gr. samningalaga. Sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði 36. gr. laganna séu uppfyllt. Í málinu liggi ekkert fyrir um að varnaraðili hafi með ósanngjörnum hætti nýtt sér aðstöðumun gagnvart sóknaraðila eða að nokkur önnur atvik við samningsgerð aðila geti réttlætt frávik frá meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga með vísan til undanþágureglu 36. gr., en þeirri reglu hafi verið beitt af mikilli varfærni af dómstólum. Fram kom hjá lögmanni varnaraðilans við munnlegan flutning málsins að greiðslumat hafi verið unnið á hefðbundinn hátt og hafi byggst á gögnum frá varnaraðila Berglindi sem varnaraðili hafi treyst. Eðlilegt sé að sóknaraðili og varnaraðili Berglind beri alla áhættu af umræddum viðskiptum, líkt og venjan sé, enda sé hugmyndin sú að lánveitendur beri ekki skarðan hlut frá borði standi aðalskuldari ekki við skuldbindingar sínar. Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að ósanngjarnt sé af hálfu varnaraðila að bera fyrir sig samþykki hans um veðsetningu að eignarhluta hans í umræddri fasteign. Ekki séu því uppfyllt skilyrði til að beita ákvæði 36. gr. samningalaga.
Þá telur varnaraðili að sóknaraðili hafi gert sér grein fyrir eða mátt gera sér grein fyrir fjárhagsstöðu og greiðslugetu varnaraðila Berglindar og því hafi ekki verið þörf á greiðslumati. Varnaraðili segir meginmarkmið samkomulagsins frá árinu 2001 að koma í veg fyrir að einstaklingar taki óupplýsta ákvörðun um að gangast í ábyrgð eða heimila veðsetningu eigna sinna, til tryggingar skuldum annarra, og að ábyrgðarmaður/veðsali geri sér grein fyrir greiðslugetu skuldara. Sóknaraðili og varnaraðili Berglind séu feðgin og hafi sameiginlega fest kaup á hinni veðsettu fasteign einungis tveimur dögum eftir að hið fyrra lán var tekið og sóknaraðili veitti veðleyfi í eignarhluta sínum í sömu fasteign, eða 23. mars 2005. Ekki sé vafi á því að áður en kaup á fasteigninni gengu í gegn hafi ljósi verið varpað á fjárhag og greiðsluhæfni þeirra beggja og þau gert sér grein fyrir fjárhag hvors annars. Varnaraðili hafi mátt gera ráð fyrir að sóknaraðila væri fullkunnugt um fjárhagsstöðu og greiðslugetu varnaraðila Berglindar. Varnaraðili hafi því mátt gera ráð fyrir því að sóknaraðili hefði allar nauðsynlegar forsendur til þess að taka upplýsta ákvörðun um að heimila veðsetningu á eignarhluta sínum í fasteigninni. Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi aldrei óskað eftir að mat færi fram á greiðslugetu dóttur hans við veðsetninguna. Varnaraðili hafnar því að sá annmarki sem virðist til staðar, að hafa ekki aflað formlegrar staðfestingar sóknaraðila á því að greiðslumat væri afþakkað, geti sjálfkrafa leitt til þess að veðsetningin sé ógild.
Varnaraðili fullyrðir að niðurstaða greiðslumats varnaraðila hefði engu breytt um ákvörðun sóknaraðila. Á þeim tíma sem umrætt lán var veitt hafi fjárhagsstaða varnaraðila Berglindar verið viðunandi og engin teikn á lofti sem hafi gefið tilefni til að ætla að hún gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart varnaraðila. Því verði að leggja til grundvallar að niðurstaða greiðslumats hefði engu skipt um ákvörðun sóknaraðila að heimila veðsetningu fasteignarinnar.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að sóknaraðili hafi sýnt af sér verulegt tómlæti. Tæplega átta ár hafi liðið frá því sóknaraðili undirritaði fyrsta veðskuldabréfið 21. mars 2005, og þar til sóknaraðili vakti fyrst athygli á því að greiðslumat hefði ekki farið fram. Fullt tilefni hafi verið af hálfu sóknaraðila til að hafa uppi mótmæli og kröfur fyrr taldi hann á sér brotið. Kröfum um ógildi veðsetninga beri að koma á framfæri innan eðlilegs tíma og án ástæðulausrar tafar. Engar nýjar upplýsingar hafi komið fram eftir undirritun veðskuldabréfanna sem réttlæti þann mikla drátt sem hafi orðið á því að sóknaraðili bæri fyrir sig formreglur samkomulagsins. Varnaraðili hafi hagsmuni af því að kröfum af þessu tagi verði komið á framfæri sem fyrst, enda erfiðara að verjast slíkum kröfum eftir því sem lengri tími líði frá því að málsatvik urðu. Sökum þess langa tíma sem liðinn sé hafi reynst erfitt að finna gögn málsins. Þetta tómlæti sóknaraðila eigi að leiða til þess að ekki verði fallist á kröfur sóknaraðila í málinu.
Fallist dómurinn ekki á að tómlæti sóknaraðila eigi að leiða til þess að kröfum hans verði hafnað, sé á því byggt að meta beri allan vafa, tengdan mögulegum sönnunarskorti, varnaraðila í hag, sökum tómlætisins.
Varnaraðili telur forsendur sóknaraðila fyrir veðsetningunni hvorki brostnar né rangar. Almennt hafi verið talið að aðili geti ekki borið fyrir sig brostna forsendu, nema hún hafi haft úrslitaáhrif á það, að löggerningur var gerður. Ekki sé unnt að líta svo á að framkvæmd greiðslumats hjá varnaraðila Berglindi hafi verið ákvörðunarástæða fyrir veðsetningunni, þar sem allt bendi til þess að sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um fjárhagsstöðu hennar. Varnaraðili telji ljóst að sóknaraðili hefði heimilað veðsetninguna hvort sem greiðslumat hefði farið fram eða ekki. Varnaraðili bendi á að almennt hafi verið litið svo á að menn verði sjálfir að bera áhættuna af því að forsenda þeirra fyrir samningsgerð bresti. Þá sé það skilyrði að löggerningsmóttakanda, í þessu tilviki varnaraðila AFL-sparisjóði, hafi verið eða mátt vera ljóst að forsendan hafi verið ákvörðunarástæða fyrir löggerningsgjafann og jafnframt veruleg. Sóknaraðili hafi ekki rætt við starfsmenn varnaraðila að gerð greiðslumats væri forsenda fyrir því að hann veðsetti eignarhluta sinn í umræddri fasteign, enda hafi hann ekki óskað eftir því að greiðslumat færi fram. Viðurkenning á því að brostin forsenda sé ógildingarástæða eða víki til hliðar samningsákvæði sé alger undantekning frá meginreglunni um að samninga og gerða löggerninga beri að halda. Engar forsendur séu fyrir því að hinni þröngu undantekningarreglu sé beitt í þessu máli. Varnaraðili hafnar því alfarið að sóknaraðili hafi byggt veðsetningu eignarhluta síns á röngum forsendum. Upplýsingagjöf varnaraðila geti á engan hátt talist röng, enda hafi ekkert gefið tilefni til þess að efast um greiðsluhæfi varnaraðila Berglindar á þeim tíma þegar lánin voru veitt. Upplýsingar varnaraðila hafi því verið veittar samkvæmt bestu vitund.
Varnaraðili kveður það ekki óheiðarlegt að bera fyrir sig umrædda veðsetningu. Varnaraðili hafi verið í góðri trú um greiðsluhæfni varnaraðila Berglindar á þeim tíma þegar veðsetningin fór fram. Greiðsluhæfni geti snarversnað á skömmum tíma, en það sé nokkuð sem varnaraðili geti ekki borið ábyrgð á. Að auki sé þessi regla undantekning frá meginreglunni um skuldbindingargildi samninga, sem beri að skýra þröngt.
Loks byggir varnaraðili á því að viðskiptahættir hans gagnvart sóknaraðila hafi verið heilbrigðir og eðlilegir og í samræmi við venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Greiðslumat sé ekki ófrávíkjanlegt formskilyrði fyrir því að gildandi samningur stofnist milli ábyrgðarmanns og banka. Það geti því hvorki talist ósanngjarnt né brot á góðri viðskiptavenju af hálfu varnaraðila að bera slíkan samning fyrir sig.
Varnaraðili vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi samninga og um efndir loforða. Þá er vísað til meginreglna um áhrif tómlætis og tillitsskyldu samningsaðila. Varnaraðili vísar til almennra og viðurkenndra lögskýringarsjónarmiða um beitingu 33. gr., 36. gr. og 38. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Krafa varnaraðila um málskostnað grundvallist á 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila Mosfellsbæjar
Varnaraðili byggir einkum á því að ekki séu skilyrði til að fallast á kröfu sóknaraðila um ógildingu nauðungarsölu fasteignarinnar Miðholts 11 í Mosfellsbæ, fastanúmer 208-4141, hvað varðar eignarhlut sóknaraðila.
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að sóknaraðili hafi með undirritun sinni samþykkt þá veðsetningu sem lá að baki nauðungarsölu eignarinnar, og jafnvel þótt ekki hafi verið staðið að greiðslumati í fyllsta samræmi við samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, réttlæti það eitt og sér ekki beitingu 36. eða 33. gr. laga nr. 7/1936 og ógildingu veðsetningarinnar. Við mat á því hvort umrædd veðsetning skuli ógilt verði að líta til allra atvika í heild. Ekki hátti svo til að um óheiðarleika eða slíka ósanngirni sé að ræða í skilningi 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 og því séu ekki skilyrði fyrir ógildingu nauðungarsölu á eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni.
Varnaraðili byggir einnig á því að sóknaraðila hafi verið eða mátt vera ljós fjárhagsstaða og greiðslugeta skuldara, er hann féllst á veðsetningu, einkum vegna náinna fjölskyldutengsla. Með vísan til þess hvað sóknaraðili hafi mátt vita verði að telja að ekki hafi verið þörf á greiðslumati í þessu tilviki, og því varði það ekki ógildingu þótt það vanti. Ljóst sé að niðurstaða greiðslumats hefði í engu breytt ákvörðun sóknaraðila, sem hafi heimilað veðsetningu vegna náinna fjölskyldutengsla.
Varnaraðili segir tilgang og markmið samkomulags um notkun ábyrgða einkum hafa verið að tryggja að einstaklingar gengjust ekki í ábyrgð fyrir aðra, með öllu grandlausir um fjárhagsstöðu skuldara. Svo hátti ekki til í þessu tilviki, enda fjölskyldutengsl náin og því umtalsvert meiri þekking veðsala á skuldbindingum og tekjumöguleikum skuldara en þegar aðilar séu minna tengdir.
Loks telur varnaraðili sóknaraðila hafa sýnt af sér slíkt tómlæti eftir að honum varð með vissu kunn fjárhagsstaða skuldara, varnaraðila Berglindar, að hann hafi með athafnaleysi sínu í raun veitt eftirfarandi samþykki fyrir veðsetningunni, sem leiði til þess að ekki séu tilefni til að ógilda veðsetninguna með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936.
Að endingu byggir varnaraðili kröfu sína á sömu málsástæðum og fram komi í greinargerð varnaraðila AFL- sparisjóðs.
Varnaraðili vísar aðallega til ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 33. og 36. gr. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að samningur hans við varnaraðila AFL-sparisjóð um veðsetningu fasteignar hans að Miðholti 11, Mosfellsbæ, sé svo bersýnilega ósanngjarn í hans garð að hann sé ógildanlegur á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Varnaraðila hafi ótvírætt verið skylt að meta greiðslugetu varnaraðila Berglindar Þrastardóttur áður en veðsamningur var gerður við sóknaraðila. Í því efni sé varnaraðili bundinn af samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 milli Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Sambands íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda. Í 1. mgr. 3. gr. samkomulagsins segi að sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því skriflega að svo verði ekki gert. Í 3. mgr. 4. gr. sama samkomulags segi að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það.
Við aðalmeðferð málsins var lagt fram greiðslumat, dags. 16. júní 2006, sem fór að sögn varnaraðila fram vegna lánveitingar til varnaraðila Berglindar samkvæmt veðskuldabréfi, dags. 28. mars 2006, og sem veðsamningur sóknaraðila tekur til. Greiðslumat þetta virðist ekki vera að fullu útfyllt, auk þess sem niðurstaða þess er röng samkvæmt framburði vitnisins Ólafs Jónssonar, fyrirsvarsmanns varnaraðila AFL-sparisjóðs, fyrir dómi. Þá bar varnaraðili Berglind Þrastardóttir fyrir dómi að í matinu hafi ekki verið tekið tillit til bílaláns hennar. Sóknaraðili hefur mótmælt því að byggt verði á þessu greiðslumati, sem sé of seint fram komið. Í ljósi þessa og þar sem greiðslumatið er hvorki trúverðugt né til þess vandað verður ekki á því byggt við úrlausn málsins. Verður því lagt til grundvallar að ekki hafi farið fram mat á greiðslugetu Berglindar í samræmi við framangreint samkomulag frá 1. nóvember 2001.
Þótt greiðslugeta varnaraðila Berglindar hafi ekki verið metin í samræmi við framangreint samkomulag leiðir það eitt út af fyrir sig ekki til þess að ábyrgðarskuldbindingu sóknaraðila verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Við mat á því hvort veðsamningur við sóknaraðila sé ógildanlegur á grundvelli þess lagaákvæðis skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til auk þess sem uppfyllt þurfa að vera þau skilyrði ákvæðisins að ósanngjarnt yrði talið eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig.
Með undirskrift sinni á veðskuldabréfið, sem hér um ræðir, samþykkti sóknaraðili veðsetningu á eignarhluta sínum í fasteigninni Miðholti 11, Mosfellsbæ, til tryggingar skuldinni. Sú undirskrift hans fól einnig í sér yfirlýsingu um að hann hefði kynnt sér efni skuldabréfsins og gert sér grein fyrir í hverju ábyrgð hans sem veðleyfisgjafa væri fólgin og jafnframt talið hana samrýmast greiðslugetu sinni. Einnig að hann hefði kynnt sér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Mátti varnaraðili því ætla að sóknaraðila væri fullkunnugt um þá áhættu, sem veðsetningunni fylgdi. Þá skiptir hér máli að sóknaraðili er faðir varnaraðila Berglindar og þau áttu saman hina veðsettu fasteign. Verður því að ætla að honum hafi verið kunnugt um fjárhagsstöðu og greiðslugetu hennar er hann veitti heimild til veðsetningar eignarinnar. Þegar til þessa er litið verður ekki talið að varnaraðili AFL-sparisjóður hafi með starfsháttum sínum vegna greindrar lántöku brotið gegn eðlilegum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði, sbr. ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Hefur og ekki verið sýnt fram á að atvik við samningsgerð eða staða samningsaðila hafi verið slík að eigi að leiða til ógildingar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá verður ekki heldur talið að atvik hafi verið með þeim hætti að óheiðarlegt hafi verið af hálfu varnaraðila að bera samninginn fyrir sig samkvæmt 33. gr. laganna.
Þá hefur sóknaraðili ekki skýrt það sérstaklega með hvaða hætti kröfur hans verði studdar við ákvæði 36. gr. a-d laga nr. 7/1936.
Þá byggir sóknaraðili kröfu sína á því að veðsamningur hans og varnaraðila AFL-sparisjóðs sé ógildanlegur á grundvelli ólögfestra sjónarmiða og meginreglna samningaréttarins um brostnar forsendur. Samningurinn sé ógildanlegur og óskuldbindandi fyrir sóknaraðila, þar sem ákvörðunarástæður hans við veðsetninguna hafi verið þær að greiðsluhæfi varnaraðila Berglindar hefði verið metið af sérfræðingum á vegum fjármálastofnunar áður en lánið sjálft var veitt. Á þetta verður ekki fallist. Þegar litið er til þeirrar yfirlýsingar sem undirritun sóknaraðila á veðskuldabréfið fól í sér og þá vitneskju sem ætla má að hann hafi búið yfir um fjárhagstöðu og greiðslugetu dóttur sinnar er hann veitti veðheimild sína er ósannað að greiðslumat sem varnaraðili hefði framkvæmt hjá henni hefði verið ákvörðunarástæða fyrir veðsetningunni. Að sama skapi verður ekki heldur á því byggt að um rangar forsendur hafi verið að ræða, sbr. ákvæði 38. gr. samningalaga.
Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu sóknaraðila um að nauðungarsala á fasteigninni Miðholti 11, Mosfellsbæ, verði ógilt að því er hvað varðar eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Þrastar Lýðssonar, að nauðungarsala á fasteigninni Miðholti 11, Mosfellsbæ, fastanúmer 208-4141, sem var lokið 10. desember 2012 hjá sýslumanninum í Reykjavík, verði ógilt hvað varðar eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni.
Málskostnaður fellur niður.