Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-175
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Kynferðisleg áreitni
- Vitni
- Málsmeðferð
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 2. desember 2024 leitar Kristján Jónsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. október sama ár í máli nr. 794/2023: Ákæruvaldið gegn Kristjáni Jónssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 6. nóvember sama ár. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir kynferðislega áreitni samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa inn á salerni íbúðar strokið andlit og varir brotaþola, ítrekað fært hendur sínar inn undir klæði hennar og snert brjóst hennar innanklæða, ítrekað gripið um og þuklað kynfæri hennar utanklæða og með því að hafa síðar í bifreið káfað á rassi hennar utanklæða. Var refsing ákveðin fangelsi í fimm mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola 800.000 krónur í miskabætur.
4. Í greinargerð til Landsréttar óskaði leyfisbeiðandi eftir því meðal annars að tiltekið vitni kæmi fyrir réttinn og gæfi viðbótarskýrslu auk þess sem skýrsla þess í héraði yrði spiluð í heild. Með ákvörðun réttarins var beiðni hans um þessa viðbótarskýrslutöku hafnað, með vísan til e-liðar 2. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008, þar sem hún hefði ekki verið rökstudd sérstaklega í greinargerð hans. Hins vegar kom fram í ákvörðuninni að skýrsla vitnisins fyrir héraðsdómi skyldi spiluð.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði verulega hagsmuni hans enda sé hann ekki með sakaferil og sakfelling hafi verið mikið áfall fyrir hann og fjölskyldu hans. Engum sönnunargögnum sé til að dreifa sem styðji framburð brotaþola í málinu um ætlaða refsiverða háttsemi. Þrjú vitni hafi verið á staðnum en ekkert þeirra hafi orðið vart við hið ætlaða brot. Þá hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið ábótavant. Landsréttur hafi hafnað beiðni leyfisbeiðanda um að tilgreint vitni gæfi þar viðbótarskýrslu og telur leyfisbeiðandi að með þessu hafi verið brotið gegn meginreglu um milliliðalausa sönnunarfærslu og sannsleiksreglu. Að lokum telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Háttsemi brotaþola eftir að hin ætluðu brot áttu sér stað beri ekki með sér að brotið hafi verið með alvarlegum hætti gegn kynfrelsi hennar. Uppi sé skynsamlegur vafi um sök leyfisbeiðanda og undirliggjandi álitaefni varði réttláta málsmeðferð.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.