Hæstiréttur íslands
Mál nr. 34/2006
Lykilorð
- Óvígð sambúð
- Fjárskipti
|
|
Fimmtudaginn 18. maí 2006. |
|
Nr. 34/2006. |
K(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn M (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Óvígð sambúð. Fjárskipti.
K og M hófu óvígða sambúð í júní 2000, en slitu henni í september 2003. Fyrir Hæstarétti deildu þau um hvort greiðslur M til K hinn 3. september 2001 að fjárhæð 250.000 krónur og 19. desember sama ár að fjárhæð 1.500.000 krónur hafi verið framlag M til eignamyndunar í fasteign K eða óafturkræft framlag hans til reksturs heimilis þeirra meðan á sambúð stóð. Þá deildu þau um hvort greiðslur M samtals að fjárhæð 101.970 krónur vegna endurbóta á fasteign K væri endurkræfar. Ágreiningslaust var að greiðsla M á 1.500.000 krónum átti að vera innborgun vegna kaupa hans á hlut í fasteign K. Talið var að forsendur þess samkomulags hefðu brostið er sambúð aðila lauk og M þá öðlast rétt til endurgreiðslu fjárhæðarinnar. Þá var talið að K bæri að endurgreiða M þá fjárhæð sem hann hafði greitt vegna endurbóta á fasteign hennar. K var hins vegar sýknuð af kröfu M um endurgreiðslu á 250.000 krónum. Litið var til þess að umrædd greiðsla hefði farið fram áður en greiðslan sem nam 1.500.000 krónum, en ekki verið tekið tillit til hennar í skuldabréfi sem útbúið hafði verið vegna síðarnefndrar greiðslu. Þá voru gögn málsins ekki talin bera með sér að greiðslan hefði verið framlag M til eignamyndunar aðila fremur en gjöf eða greiðsla vegna framfærslukostnaðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar með stefnu 30. nóvember 2005 til þingfestingar fyrir 11. janúar 2006. Málið varð ekki þingfest þá og skaut áfrýjandi því á ný til réttarins 18. janúar 2006 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti deila málsaðilar um hvort greiðslur stefnda til áfrýjanda 3. september 2001 að fjárhæð 250.000 krónur og 19. desember sama ár að fjárhæð 1.500.000 krónur hafi verið framlag stefnda til eignamyndunar í fasteign áfrýjanda eða óafturkræft framlag hans til reksturs heimilis þeirra meðan á sambúð stóð. Þá deila aðilar um hvort greiðslur stefnda að fjárhæð samtals 101.970 krónur vegna endurbóta á fasteign áfrýjanda sé endurkræf.
Ágreiningslaust er að greiðsla stefnda á 1.500.000 krónum 19. desember 2001 hafi átt að vera innborgun vegna kaupa hans á hlut í fasteign áfrýjanda. Er fallist á að forsendur þess samkomulags hafi brostið er sambúð aðilanna lauk og stefndi þá öðlast rétt til endurgreiðslu fjárhæðarinnar. Samkvæmt því en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans hvað þessa fjárhæð varðar. Með sama hætti er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að áfrýjanda beri að endurgreiða stefnda 101.970 krónur vegna endurbóta á fasteign áfrýjanda. Samkvæmt framanrituðu skulu þessar fjárhæðir bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júní 2004.
Aðilar gerðu með sér samkomulag um að stefndi greiddi áfrýjanda vegna sameiginlegs heimilishalds 50.000 krónur á mánuði frá desember 2001. Aðilar höfðu því ekki náð samkomulagi um slíkar reglulegar greiðslur stefnda til áfrýjanda á þeim tíma er stefndi greiddi 250.000 krónur 3. september 2001. Hins vegar hafði stefndi fyrir þann tíma innt af hendi með óreglubundnum hætti greiðslur vegna heimilisreksturs þeirra. Óumdeilt er að útbúið var sérstakt skuldabréf vegna þeirra 1.500.000 króna sem stefndi lét áfrýjanda í té 19. desember 2001. Bréfið mun hafa glatast. Við skýrslugjöf í héraði kvað stefndi bréfið hafa átt að vera tryggingu fyrir greiðslunni þar sem fasteignin hafi verið í „félagslega kerfinu“ og hann ekki getað „keypt sig inn í húsið sem slíkt“. Greiðsla á umþrættum 250.000 krónum fór fram áður en stefndi greiddi framangreindar 1.500.000 krónur. Ekki var tekið tillit til fyrri greiðslunnar er skuldabréfið var útbúið. Gögn málsins bera heldur ekki með sér að umrædd greiðsla hafi verið framlag stefnda til eignamyndunar aðila fremur en gjöf eða greiðsla vegna framfærslukostnaðar. Verður áfrýjandi því sýknuð af kröfu stefnda um endurgreiðslu á þessari fjárhæð.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest, en rétt er að áfrýjandi greiði stefnda upp í málskostnað hans fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, K, greiði stefnda, M, 1.601.970 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júní 2004 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. október 2005.
Mál þetta var þingfest 1. desember 2004 og tekið til dóms 15. september sl. Stefnandi er [...], kt. [...], Reykjavík en stefnda er K, kt. [...], Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefnda verði dæmd til að greiða honum 3.050.000 krónur ásamt vöxtum skv. II. kafla laga nr. 38/2001 af 250.000 krónum frá 3. september 2001 til 19. desember sama ár og af 1.750.000 krónum frá þeim degi til 8. júní 2004 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. af 3.050.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu.
Til vara er þess krafist að stefndu verði gert að greiða 2.633.070 krónur með vöxtum skv. II. kafla laga nr. 38/2001 af 250.000 krónum frá 3. september 2001 til 19. desember sama ár, af 1.750.000 krónum frá þeim degi til 8. júní 2004 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. af 2.633.070 krónum frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu.
Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða 1.750.000 krónur ásamt vöxtum skv. II. kafla laga nr. 38/2001 af 250.000 krónum frá 3. september 2001 til 19. desember sama ár, af 1.750.000 krónum frá þeim degi til 8. júní 2004 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu.
Stefnda krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í fyrra tilvikinu er krafist málskostnaðar en verði varakrafa tekin til greina er þess krafist að málskostnaður verði látinn falla niður milli aðila.
I.
Aðilar hófu sambúð í júní 2000 og varði sambúð þeirra til 1. september 2003. Stefnandi heldur því fram að við slit sambúðar hafi stefnda staðið í skuld við sig og hefur því höfðað mál þetta til innheimtu þeirra skuldar.
Stefnandi kveður málavexti að öðru leyti þá að í maí 2001 hafi hann selt eignarhluta sinn í íbúð að [...] í Reykjavík en íbúðin hafi þá verið búin að vera í sölu einhvern tíma. Samkomulag hafi orðið milli aðila um að stefnandi myndi lána stefndu fjármuni svo hún gæti haldið sínu húsnæði að [...], Reykjavík þar sem þau hafi búið saman. Hafi hún átt í erfiðleikum á þessum tíma með greiðslu afborgana og vaxta. Þannig segist stefnandi hafa lánað stefndu 250.000 krónur 3. september 2001 og 1.500.000 krónur 13. desember 2001. Þetta fé hafi verið lagt inn á reikning stefndu. Stefnandi hafi fengið á sínum tíma skuldabréf að fjárhæð 1.500.000 krónur til tryggingar seinna láninu en það skuldabréf hafi glatast, sennilega í bruna sem hafi orðið í íbúð stefndu síðar á sambúðartímanum.
Stefnandi, sem er menntaður pípulagningamaður og byggingariðnfræðingur, kveðst fljótlega eftir að hann flutti inn til stefndu hafa hafist handa við umfangsmiklar viðgerðir og endurbætur á fasteigninni [...]. Hann hafi flísalagt forstofu og gert háloftsuppgöngu úr forstofu. Í ljós hafi komið skemmdir á steypu á ytra byrði hússins og hafi hann hafist handa við viðgerðir. Nauðsynlegt hafi verið að háþrýstiþvo húsið og sjá hverjar steypuskemmdir væru og gera við þær. Húsið hafi síðan verið málað. Háþrýstiþvottur hafi farið fram í maí 2001 á ytra byrði útveggja sem og á þaki. Að því búnu hafi eignin verið silanböðuð og máluð, bæði veggir og þak. Stefnandi hefur lagt fram kostnaðarmat Verkfræðistofu Hauks Ásgeirssonar um þennan verkþátt og er hann metinn á 554.800 krónur.
Frá áramótum 2001/2002 hafi orðið samkomulag milli aðila að stefnandi greiddi ákveðna upphæð, 50.000 krónur á mánuði, vegna húsnæðiskostnaðar inn á bankareikning stefndu en af þessum reikningi hafi verið greiddir allir reikningar og afborganir af lánum er varðaði fasteignina [...]. Áður hafi stefnandi innt af hendi óreglulegar greiðslur á árinu 2001. Stefnandi kveðst hafa staðið við þessar föstu mánaðargreiðslur út sambúðartímann nema þær hafi fallið niður tvisvar sinnum, í ágúst 2002 og september 2003.
Auk ofangreinds hafi stefnandi tekið þátt í kostnaði við venjubundið heimilishald svo sem innkaup á matvörum og heimilisvörum.
Rétt fyrir páska 2002 hafi kviknað í húsi stefndu að [...]. Verulegar skemmdir hafi orðið af völdum bruna en aðallega af hita og sóti. Þetta hafi leitt til þess að íbúðin hafi verið óíbúðarhæf og hafi hún verið endurbyggð en bætur hafi fengist úr brunatryggingu. Stefnandi kveðst hafa verið erlendis er bruninn varð en eftir heimkomuna hafi hann tekið verulegan þátt í uppbyggingunni og samningum við tryggingarfélög. Tryggingarfélög hafi gert húsnæðið upp á sinn kostnað nema tjón á gólfefni, eldhúsinnréttingu og eldhústækjum. Hafi aðilar samið við tryggingarfélögin um að það tjón yrði greitt út og hafi þau sjálf séð um framkvæmdir varðandi þessa þætti. Þannig hafi stefnandi tekið að sér að setja upp eldhúsinnréttingu ásamt iðnaðarmönnum, kunningjum sínum, sem hann hafi fengið til verksins í skiptivinnu. Hefur stefnandi tekið saman yfirlit vegna þessa verkhluta en parket hafi skyldmenni stefndu lagt og gerir stefnandi því ekki kröfu vegna þess.
Þann 13. mars 2003 kveðst stefnandi hafa greitt fyrir arkitektateikningu vegna bílskúra við [...] að fjárhæð 11.580 krónur.
Við sambúðarslit kveðst stefnandi hafa óskað eftir því að fá greitt það sem honum bæri en stefnda hafi sagt að hún gæti ekki greitt honum fyrr en hún væri búin að selja [...]. Hún hafi sett eignina á sölu í október 2003 og í janúar 2004 hafi aðilar hist og hafi stefnandi þá sett fram kröfu að fjárhæð 2.200.000 krónur. Stefnda hafi selt eignina 29. apríl 2004 á 16.500.000 krónur. Stefnandi kveðst hafa haft samband við stefndu 3. maí 2004 og óskað eftir uppgjöri og hafi stefnda sagt að það gæti orðið á næstu vikum. Síðan hafi hún sagt að hún væri ekki tilbúin að greiða stefnanda kröfu hans og vildi athuga sinn gang. Þann 17. maí 2004 hafi stefnandi fengið bréf frá þáverandi lögmanni stefndu sem hafi boðið fram greiðslu að fjárhæð 893.000 krónur. Stefnandi kveðst hafa hafnað þeirri greiðslu og frekari sáttatilraunir hafi ekki borið árangur.
Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom meðal annars fram að ekki hafi reynst unnt að hann keypti hlut í fasteigninni þar sem hún hafi verið í félagslega kerfinu. Þess vegna hafi verið ákveðið að stefnda gæfi út skuldabréf til tryggingar láni að fjárhæð 1.500.000 krónur. Stefnandi sagði að engin sérstök umræða hafi farið fram um mánaðarlegt framlag hans að fjárhæð 50.000 krónur. Framlagið hafi verið ætlað til reksturs fasteignarinnar og ekki verið ágreiningur um fjárhæðina á þeim tíma. Hann hafi greitt þessar fjárhæðir í góðri trú þar sem hann hafi gert ráð fyrir að sambúðin væri til frambúðar. Þá hafi þau reynt að hafa jafnræði í matarinnkaupum og öðrum almennum innkaupum til heimilisins. Varðandi múrviðgerðir á fasteigninni sagði stefnandi að í ljós hafi komið þegar þau hafi ætlað að fara að mála húsið að steypuhreiður hafi verið í veggjum hússins og steypustyrktarjárn sums staðar staðið út úr húsinu. Það hafi verið farið að ryðga og skemmt út frá sér. Hann hafi sem fagmaður gert sér grein fyrir að það þyrfti að gera við þetta til þess að forða frekari skemmdum á húsinu. Hafi það og verið sameiginlegt álit þeirra beggja. Varðandi uppsetningu á eldhúsinnréttingu sagði stefnandi að hann hafi fengið bróður sinn og vini til aðstoðar, þar á meðal pípulagningarmann og rafvirkja. Stefnandi kvaðst hafa átt sína eigin bifreið og notað hana til allra sinna ferða.
Aðalkrafa stefnanda að fjárhæð 3.050.000 krónur sundurliðast þannig:
1. Lán í peningum 3. sept. 2001, 250.000 krónur
2. Lán í peningum 19. des. 2001, 1.500.000 krónur
3. Hlutur stefnanda í verðaukningu fasteignar umfram almennar verðhækkanir á markaði kr. 1.400.000 samkvæmt framansögðu.
4. Frá dragast kr. 100.000, sem eru 2 mánaðargreiðslur vegna húsnæðiskostnaðar.
Varakrafa stefnanda að fjárhæð 2.633.070 krónur sundurliðast þannig:
1. Lán í peningum 3. sept. 2001, 250.000 krónur.
2. Lán í peningum 19. des. 2001, 1.500.000 krónur.
3. Framlag í vinnu og efni, 983.070 krónur. Nánar sundurliðast þessi krafa þannnig að 554.800 krónur er kostnaðarmat verkfræðistofu, 326.300 krónur vegna vinnu stefnanda innanhúss, 11.580 krónur vegna teikningar á bílskúr og 90.390 krónur vena útlagðs kostnaðar.
4. Frá dragast 100.000 krónur sem eru tvær mánaðargreiðslur vegna húsnæðiskostnaðar.
Þrautavarakrafa stefnanda að fjárhæð 1.750.000 krónur sundurliðast þannig:
1. Lán í peningum 3. set. 2001, 250.000 krónur.
2. Lán í peningum 19. des. 2001, 1.500.000 krónur
II.
Stefnda kveðst hafa tekið við greiðslu að fjárhæð 1.500.000 krónur frá stefnanda 19. desember 2001. Sú greiðsla hafi upphaflega átt að vera innborgun vegna kaupa stefnanda á hlut í fasteign stefndu. Af kaupunum hafi þó ekki orðið þar sem samkomulag hafi ekki náðst milli aðila um kaupverð. Engin kaupsamningur hafi því verið gerður. Hins vegar hafi skuldabréf verið útbúið til tryggingar greiðslu af þessu tilefni en stefnda hafi aldrei skrifað undir bréfið. Kvaðst hún hafa litið svo á að ekki hafi stofnast til skuldar þar sem að ekkert hafi orðið af kaupunum. Hún hafi litið svo á að stefnandi hafi lagt sitt af mörkum til reksturs heimilisins með þessari fjárhæð enda hafi hann ekki gert neina kröfu um endurgreiðslu fyrr en eftir að sambúð lauk.
Þann 3. september 2001 hafi stefnandi afhent henni 250.000 krónur. Stefnda kvaðst hafa litið á þá greiðslu sem framlag stefnanda vegna framfærslu og húsnæðiskostnaðar enda hafi stefnandi á þeim tíma ekki lagt neina fjármuni fram til sameiginlegs heimilisrekstrar frá upphafi sambúðarinnar. Það hafi fyrst verið í janúar 2002 sem stefnandi hafi byrjað að greiða 50.000 krónur mánaðarlega til stefndu vegna sameiginlegs heimilishalds. Stefnda hafi ein staðið straum af öllum kostnaði vegna húsnæðisins, bæði fastan rekstrarkostnað sem og afborganir af veðskuldum. Greiðsla stefnanda hafi runnið inn í svokallaða heimilislínubanka sem stefnda hafi nýtt til greiðslu allra útgjalda sinna og heimilisins svo og til greiðslu rekstrarkostnaðar bifreiðar sinnar.
Stefnda mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að hún hafi verið í greiðsluerfiðleikum í upphafi sambúðar. Greiðslubyrði stefndu af veðlánum hafi að vísu verið þung en hún hafi staðið í skilum með allar afborganir.
Aðilar hafi haft aðskilinn fjárhag á sambúðartímanum að öðru leyti en því að stefnandi hafi lagt henni til 50.000 krónur á mánuði. Aðra hverja helgi, í sumarfríum og á stórhátíðum hafi dóttir stefnanda dvalið á heimili málsaðila. Stefnda hafi sinnt henni, haldið afmælisveislur og aðstoðað við fermingarveislu hennar.
Stefnda mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda í stefnu að nauðsynlegt hafi verið að ráðast í viðgerðir og endurbætur á fasteign hennar. Það hafi að vísu verið nauðsynlegt að mála húsið að utan og hafi málsaðilar gert það sameiginlega. Stefnandi hafi hins vegar einhliða ráðist í múrviðgerðir á húsinu áður en það var málað en enga nauðsyn hafi borið til þess og hafi það verið gert án samráðs við stefndu.
Tjón hafi orðið á fasteign stefndu í eldsvoða 24. mars 2002. Til hafi staðið að A húsasmíðameistari, bróðir stefndu, myndi setja upp nýja eldhúsinnréttingu en stefnandi hafi óskað eindregið eftir að gera það ásamt vinum sínum. Stefnda kveðst sjálf hafa lagt gólfefni ásamt bróður sínum og fleiri skyldmennum. Enginn hafi krafist endurgjalds fyrir vinnu sína, hvorki skyldmenni stefndu né vinir stefnanda.
Stefnda telur kostnað vegna bílskúrsteikningar sér óviðkomandi.
Í máli stefndu fyrir dómi kom meðal annars fram að til hafi staðið að stefnandi keypti helmingshlut í fasteigninni. Um það leyti hafi hann byrjað að greiða 50.000 krónur á mánuði til stefndu og hafi þær greiðslur beinlínis tengst þeim áformum þeirra að stefnandi eignaðist helmingshlut í fasteigninni. Á þeim tíma hafi heildargreiðslur vegna reksturs á húsinu verið 112.000 krónur á mánuði. Stefnda taldi verðmætaaukningu hússins fyrst og fremst stafa af þeim breytingum sem gerðar voru á eldhúsi eftir brunann. Þá hafi fyrirkomulagi eldhússins verið breytt með því að opna inn í stofu og keypt hafi verið vönduð og glæsileg eldhúsinnrétting. Varðandi framlag stefnanda að fjárhæð 250.000 krónur þann 3. september 2001 sagði stefnda að hún hafi þá verið með þunga greiðslubyrði og hafi stefnandi verið að létta undir með henni.
III.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til almennra óskráðra reglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Krafa stefnanda um endurgreiðslu á láni sé viðurkennd af stefndu í bréfum lögmanns stefndu og jafnframt sönnuð með innleggsnótum á bankareikningi stefndu. Gjalddagi skuldarinnar hafi ekki verið ákveðinn fyrirfram og því beri að greiða vexti skv. II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá stofndegi kröfu til þess tíma er mánuður var liðinn frá því skuldari var sannarlega krafinn um greiðslu, sbr. 3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Viðurkennt sé að stefnandi hafi sett fram kröfu sína 8. maí 2004.
Stefnandi gerir kröfu til að fá verðaukningu á fasteigninni [...]. Hann hafi unnið að endurnýjun íbúðarinnar með eigin vinnuframlagi, vinnuframlagi annarra og einnig greitt kostnað. Krafan sé byggð á því að verðmætaaukning 1. júní 2000 til 21. apríl 2004 sé 2.800.000 krónur umfram sambærilegar eignir. Gerir stefnandi kröfu til þess að fá helming þeirrar fjárhæðar eða 1.400.000 krónur. Þessi verðmætaaukning sé grundvölluð með samanburði á fasteigninni [...] sem sé eins fasteign og fasteignin [...]. Fasteignin [...] hafi verið keypt 31. júlí 2001 á 12.100.000 krónur en seld 28. febrúar 2003 á 13.700.000 krónur. Frá febrúar 2003 til apríl 2004 hafi ekki orðið hækkanir á fermetraverði í sérbýli á Reykjavíkursvæðinu samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins og verði því að telja að hrein verðaukning sé mismunurinn á söluverði [...], 16.500.000 krónur, og söluverði [...], 13.700.000 krónur, eða 2.800.000 krónur. Stefnandi hafi stuðlað að verðaukningu með sínu framlagi fyrir brunann í apríl 2002 og lagt fram fé og vinnu eftir brunann.
Krafa stefnanda um helmingshlut í verðaukningu eignarinnar byggist aðallega á sjónarmiðum sifjaréttar um að eignamyndum í sambúð skuli skiptast að jöfnu milli sambúðaraðila. Þá byggir stefnandi til vara á því að hann eigi auðgunarkröfu á hendur stefndu vegna verðaukans. Auðgunarreglan sé óskráð réttarregla í norrænum rétti en hún sé skilgreind þannig að við tilteknar aðstæður verði þeim aðila sem í heimildarleysi en á ósaknæman hátt hefur notað verðmæti annars aðila, og þannig auðgast á hann kostnað, gert að skila andvirði þeirrar auðgunar. Varakrafa stefnanda um endurgreiðslu á framlagi að fjárhæð 983.070 krónur byggist á áðurnefndum sjónarmiðum og lagarökum en einnig á 45. gr. og 49. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.
Krafa stefndu um húsnæðiskostnað eigi ekki við rök að styðjast fram yfir það sem um hafi verið samið. Stefnda geri kröfu um húsnæðiskostnað frá fyrstu kynnum aðila en eins og rakið sé að framan hafi verið samið um fastar greiðslur frá stefnanda vegna húsnæðiskostnaðar að fjárhæð 50.000 krónur á mánuði frá janúar 2002. Stefnandi hafi staðið við þann samning og því dragi hann frá aðal- og varakröfu þær tvær mánaðargreiðslur sem vantaði upp á. Þær komi aftur á móti ekki til frádráttar þrautavarakröfu þar sem gert sé ráð fyrir í henni að greiðslurnar jafnist upp á móti framlögum stefnanda að öðru leyti.
Stefnda byggir kröfu sína um sýknu af því er varðar aðalkröfu stefnanda um endurgreiðslu á 250.000 krónum á því að ekki hafi verið um lán að ræða. Ekkert slíkt samkomulag hafi legið fyrir og stefnandi hafi aldrei rætt um endurkröfu þessarar fjárhæðar fyrr en mörgum mánuðum eftir samvistarslit eða þann 8. maí 2004. Stefnda hafi tekið við greiðslunni í september árið 2001. Þá hafi aðilar búið saman í um það bil eitt og hálft ár án þess að stefnandi hafi nokkuð lagt af mörkum til sameiginlegs heimilishalds. Stuttu síðar, eða í ársbyrjun 2002, hafi stefnandi byrjað að greiða reglulega 50.000 krónur vegna slíks kostnaðar. Framlagið samsvari því fimm mánaða greiðslu samkvæmt því fyrirkomulagi er síðar komst á.
Þá krefst stefnda sýknu af kröfum stefnanda um endurgreiðslu á fjárframlagi að fjárhæð 1.500.000 krónur. Stefnda viðurkennir að hún hafi tekið við þessari fjárhæð og hafi hún upphaflega verið ætluð sem innborgun vegna kaupa stefnanda á eignarhlut í fasteign stefndu að [...]. Af þeim kaupum hafi hins vegar ekki orðið þar sem aðilar hafi ekki náð samkomulagi um kaupverð. Þegar ekkert hafi orðið úr kaupunum hafi stefnda litið svo á að með fjárhæðinni væri stefnandi að greiða upp í eigin framfærslukostnað meðan á sambúð stóð.
Samkvæmt opinberum tölum frá Hagstofu Íslands hafi meðalneysluútgjöld sambýlisfólks án barna á árunum 2000 til 2003 verið 3.506.520 krónur á ári eða 292.210 krónur á mánuði. Fyrir liggi að á heimilinu hafi verið barn stefnanda aðra hverja helgi og í öllum leyfum. Stefnandi eigi að bera allan kostnað vegna dvalar barnsins á heimilinu þar sem stefnda sé ekki framfærsluskyld gagnvart barninu. Samkvæmt opinberum viðmiðunartölum hafi því framlag stefnanda til heimilisins átt að vera að minnsta kosti 145.000 krónur á mánuði. Stefnandi hafi hins vegar einungis greitt 50.000 krónur á mánuði og einungis hluta af tímabilinu.
Stefnda krefst sýknu af aðalkröfu stefnanda um helmingshlutdeild í verðmætaaukningu fasteignarinnar. Stefnandi hafi aldrei orðið eigandi fasteignarinnar og hafi ekki gert kröfu um hlutdeild í eignarmyndun fasteignarinnar á sambúðartíma. Þá mótmælir stefnda því að stefnandi geti lagt til grundvallar mismun á söluverði tveggja fasteigna við [...]. Ekkert liggi fyrir í málinu um að þessar fasteignir séu sambærilegar að öðru leyti en því að í báðum tilvikum er um raðhús að svipaðri stærð að ræða. Hafi orðið einhver verðmætaaukning á fasteign stefndu umfram aðrar sambærilegar eignir stafi sú verðmætaaukning fyrst og fremst af þeim endurbótum sem unnar hafi verið í kjölfar brunans 2002. Þær endurbætur hafi verið fjármagnaðar að öllu leyti með tryggingarbótum sem stefnda hafi fengið greiddar frá tryggingarfélögum. Ekki sé unnt að rekja meinta verðaukningu á fasteigninni til sprunguviðgerða sem stefnandi hafi séð um árið 2001. Líklegast sé að verðgildi fasteignarinnar hafi aukist við að ný gólfefni voru lögð, lagnir endurnýjaðar og settar upp nýjar innréttingar.
Þá beri einnig að líta til þess að fasteign stefndu hafi verið háð ákvæðum laga um félagslegar eignaríbúðir. Breyting hafi orðið á húsnæðiskerfinu að þessu leyti og megi væntanlega rekja hækkun að einhverju leyti til þess.
Þá mótmælir stefnda því að vinnuframlag stefnanda við endurbætur í kjölfar brunans geti skapað honum rétt til að krefjast hlutdeildar í meintri verðmætaaukningu eignarinnar. Ítreka verði að stefnandi hafi ekki átt hlut í fasteigninni heldur hafi stefnda átt fasteignina sjálf til margra ára. Þá beri einnig að líta til þess að stefnda hafi ekki þurft á því að halda að stefnandi tæki þessi verk að sér.
IV.
Aðilar hófu sambúð í júní 2000 er stefnandi flutti inn á heimili stefndu í parhús að [...], Reykjavík. Stefnda hafði þá átt eignina um 10 ára skeið og búið þar. Sambúð aðila lauk 1. september 2003.
Aðilar eru sammála um að fjárhagur þeirra hafi verið aðskilinn og töldu þau fram til skatts í sitt hvoru lagi. Þá eru þau einnig sammála um að þau hafi skipt með sér matarinnkaupum og áttu og ráku sitt hvora bifreiðina. Fram hefur komið í málinu að stefnandi hóf að greiða til stefndu framlög á árinu 2001. Greiddi hann á því ári 48.000 krónur í mars, 78.000 krónur í júlí, 73.000 krónur í október og 40.000 krónur í nóvember. Í desember 2001 ákváðu þau að stefnandi greiddi 50.000 krónur á mánuði til stefndu og hélst sú skipan til sambúðarslita að undanskildum tveimur mánaðargreiðslum. Á þennan hátt greiddi stefnandi stefndu samtals 1.254.000 krónur til stefndu meðan á sambúð þeirra stóð. Í málinu gerir stefnandi ekki kröfu til endurgreiðslu þessara fjármuna en aðilar segja að samkomulag hafi verið um þetta framlag stefnanda til reksturs á heimilinu þar á meðal til greiðslu afborgana af skuldum. Ágreiningur er því ekki um þessar greiðslur.
Stefnda tók við úr hendi stefnanda 19. desember 2001 greiðslu að fjárhæð 1.500.000 krónur. Aðilar eru sammála um að á þeim tíma hafi staðið til að stefnandi eignaðist helmingshlut í eigninni en þau áform hafi runnið út í sandinn. Segir stefnandi að ástæðan hafi verið sú að húsið hafi verið í félagslega kerfinu og því ekki unnt að skrá hann sem eiganda en stefnda segir aftur á móti að ekki hafi samist um verð. Þegar ljóst var að þessi áform aðila gengju ekki eftir ákváðu þau að stefnda gæfi út skuldabréf til tryggingar þessari greiðslu en það bréf glataðist. Þá liggur einnig fyrir í málinu að stefnandi greiddi stefndu 250.000 krónur 3. september 2001. Telur stefnda að það hafi verið framlag stefnanda til framfærslu og húsnæðiskostnaðar en stefnandi telur að um lán til stefndu hafi verið að ræða. Þá gerir stefnandi kröfu um að honum verði dæmdur hlutur vegna verðmætaaukningar á fasteigninni umfram almennar verðhækkanir. Þessa verðmætaaukningu telur hann stafa meðal annars af vinnu sinni við eignina.
Ekki er unnt að fallast á aðalkröfu stefnanda er lýtur að verðmætaaukningu fasteignarinnar því stefnda þykir hafa sýnt fram á að sú hækkun hafi ekki síst stafað af endurnýun og endurbótum fasteignarinnar eftir brunan sem áður var minnst á.
Talið verður að ofangreindar greiðslur stefnanda til stefndu 3. september 2001 að fjárhæð 250.000 krónur og 13. desember 2001 að fjárhæð 1.500.000 krónur hafi verið lán til stefndu. Skuldabréf var útbúið fyrir hluta af láninu þegar ljóst var að kaup stefnanda á hlut í eigninni gengju ekki eftir. Ekki hafa komið fram haldbær rök fyrir því að þessar 1.750.000 krónur hafi verið greiðsla vegna framfærslu stefnanda eins og stefnda heldur fram enda er vandséð við hvaða framfærsla er átt fyrst stefnandi greiddi helming í fæði, rak sína eigin bifreið og greiddi auk þess með sér mánaðarlega eins og framan er rakið. Gjalddagi skuldarinnar var ekki ákveðinn fyrirfram og því ber stefndu að greiða vexti skv. II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá stofndegi kröfunnar til þess tíma er mánuður var liðinn frá því stefnda var sannarlega krafin um greiðslu, sbr. 3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Viðurkennt er að stefnandi setti fram kröfu sína 8. maí 2004 en ekki verður fallist á með stefndu að í sáttatilraunum aðila hafi falist yfirlýsing um skuldajöfnuð af hálfu stefndu.
Fallist verður á með stefnanda að hann hafi lagt fram fé til endurbóta á fasteigninni á þeirri forsendu að aðilar væru í óvígðri sambúð og hann væri að leggja fé af mörkum til eignamyndunar í þágu beggja málsaðila. Stefnandi hefur nægilega sýnt fram á að verðgildi eignarinnar jókst á sambúðartímanum. Viðurkenna ber kröfu stefnanda að þessu leyti að því marki sem hann getur sýnt fram á útlagðan kostnað í þessu skyni en ekki þykir unnt að fallast á kröfu hans vegna eigin vinnu hans og annarra sem ekki ætluðust til endurgjalds eða gerðu kröfu um endurgjald fyrir vinnu sína.
Stefnandi hefur lagt fram reikninga samtals að fjárhæð 90.390 krónur vegna kaupa á ýmsu til viðhalds fasteigninni og ber að taka þá kröfu til greina samkvæmt framansögðu ásamt kostnaði við teikningu á bílskúr að fjárhæð 11.580 krónur eða samtals 101.970 krónur. Að teknu tilliti til kröfugerðar stefnanda í varakröfu þykir rétt að þessi fjárhæð beri dráttarvexti frá 8. júní 2004 til greiðsludags.
Niðurstaða málsins verður því sú að varakrafa stefnanda verður tekin til greina með ofanrituðum breytingum. Verður stefndu gert að greiða stefnanda 1.851.970 krónur (1.500.000 + 250.000 + 101.970) ásamt vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 af 250.000 krónum frá 3. september 2001 til 19. desember 2001, af 1.750.000 krónum frá þeim degi til 8. júní 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.851.970 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefnda dæmd til þess að greiða stefnanda 450.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefnda, K, greiði stefnanda, M, 1.851.970 krónur með vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 af 250.000 krónum frá 3. september 2001 til 19. desember 2001, af 1.750.000 krónum frá þeim degi til 8. júní 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.851.970 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 450.000 krónur í málskostnað.