Hæstiréttur íslands
Mál nr. 440/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Þriðjudaginn 2. júlí 2013. |
|
Nr. 440/2013.
|
Lögreglustjórinn á Selfossi (Gunnar Örn Jónsson fulltrúi) gegn X (Ólafur Björnsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. júní 2013, þar sem varnaraðila var gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem honum var gerð með tveimur nánar tilgreindum dómum. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. júní 2013.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur farið fram á það við dóminn að X, kt. [...]-[...], til lögheimilis að [...], [...], verði með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga gert að afplána 170 daga eftirstöðvar óafplánaðra fangelsisrefsinga sem varnaraðila var veitt reynslulausn á af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 17. mars sl.
Skipaður verjandi varnaraðila krefst þess að kröfunni verði hafnað og þá krefst hann þóknunar sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að varnaraðila hafi verið veitt reynslulausn þann 17. mars sl. þegar hann hafði afplánað 2/3 hluta af:
1. 2½ árs fangelsisdómi Hæstaréttar Íslands frá [...]. [...] [...] í máli nr. [...]/[...], að frádregnu 6 daga gæsluvarðhaldi.
2. 7 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]. [...] [...] í máli nr. S-[...]/[...].
Samtals sé um að ræða 170 daga eftirstöðvar ofangreindra refsinga og hafi Fangelsismálastofnun ákveðið að reynslutíminn skyldi vera eitt ár. Skilyrði reynslulausnarinnar hafi verið að varnaraðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslulausnartímanum. Varnaraðili hafi samþykkt skilyrði reynslulausnarinnar með undirritun sinni þann 27. febrúar s.l.
Samkvæmt málaskrá lögreglu og sakavottorði hafi varnaraðili margoft komið við sögu hjá lögreglu og margoft hlotið dóma og fangelsisrefsingar fyrir hegningarlaga- og sérrefsilagabrot. Lögregla rannsaki nú málið lögreglu nr. 033-2013-[...] þar sem varnaraðili sé grunaður um að hafa hlaupist undan því að greiða fyrir leigubifreið sem hann hafði tekið frá Reykjavík til Selfoss. Lögregla rannsaki nú einnig mál lögreglu nr. 033-2013-[...], þjófnað og eignaspjöll úr þremur bifreiðum á Selfossi síðastliðna nótt en lögreglumenn á eftirlitsferð hafi komið auga á varnaraðila þar sem hann var á gangi yfir [...] á Selfossi og fylgdust með varnaraðila sem hefði farið inn í tvær bifreiðar. Auk þess hefði varnaraðili leitað að verðmætum í þriðju bifreiðinni. Þegar lögregla hafði afskipti af varnaraðila reyndist hann hafa í fórum sínum þýfi úr framangreindum bifreiðum, nánar tiltekið framhliðar af hljómflutningstækjum, fjarstýringu af bílskúrshurð auk kveikjuláslykla og þá hafi innrétting í einni bifreiðinni verið skemmd. Varnaraðili hafi verið ölvaður þegar lögregla handtók hann og vart viðræðuhæfur. Þá hafi þýfi úr bifreiðum fundist við húsleit lögreglu í íbúð sem varnaraðili upplýsti lögreglu um að hafa dvalið í síðastliðið kvöld.
Við skýrslutöku hjá lögreglu í dag hafi varnaraðili viðurkennt sakarefni í fyrra málinu sem rakið er hér að framan, þ.e. máli lögreglu nr. 033-2013-[...], en borið við minnisleysi að því varðar mál lögreglu nr. 033-2013-[...].
Það sé mat lögreglustjórans á Selfossi að öll lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga séu uppfyllt, enda hafi varnaraðili með ofangreindri háttsemi rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Þá sé líka ljóst, m.a. í ljósi játninga varnaraðila sjálfs að því er varðar mál lögreglu nr. 033-2013- [...]og í ljósi gagna í máli lögreglu nr. 033-2013-[...], að varnaraðili sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga sé þess farið á leit að krafan nái fram að ganga.
Við þingfestingu málsins kom fram hjá sóknaraðila að varnaraðili væri grunaður um brot gegn 244. gr., 248. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Eftir að varnaraðila var veitt reynslulausn þann 17. mars sl. er hann grunaður um að hafa aðfaranótt mánudagsins 24. júní sl. framið brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hefur hann viðurkennt þá háttsemi í skýrslutöku hjá lögreglu í dag. Þá stóð lögregla varnaraðila að verki við þjófnað úr tveimur bifreiðum og skemmdarverk á innréttingu í bifreið á Selfossi síðastliðna nótt og að hafa með greindri háttsemi brotið gegn 244. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í yfirheyrslu hjá lögreglu í dag bar varnaraðili við minnisleysi um atburði næturinnar.
Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga getur dómstóll að kröfu ákæranda úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutímanum rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Það er almennt skilyrði reynslulausnar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma.
Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu og játningu varnaraðila hvað varðar mál lögreglu nr. 033-2103-[...], er það mat dómsins að varnaraðili hafi með framangreindri háttsemi sinni á reynslutímanum rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og jafnframt að sterkur grunur liggi fyrir um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn þeim lagagreinum varðar fangelsi allt að sex árum. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga til að fallast á kröfu ákæranda um að varnaraðila verði gert að afplána 170 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Samkvæmt næstsíðasta málslið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 frestar kæra til Hæstaréttar Íslands ekki framkvæmd úrskurðar.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ólafs Björnssonar hrl., vegna vinnu verjanda við meðferð málsins fyrir dómi, 50.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Varnaraðili, X, kt. [...]-[...], skal afplána 170 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómum Hæstaréttar Íslands frá [...]. [...] [...] í máli nr. S-[...]/[...] og dómi Héraðsdóms Reykjaness frá [...]. [...] [...] í máli nr. S-[...]/[...], sbr. reynslulausn sem Fangelsismálastofnun ríkisins veitti varnaraðila þann 17. mars 2013.
Kæra til Hæstaréttar Íslands frestar ekki framkvæmd úrskurðarins.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ólafs Björnssonar hrl., 50.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.