Hæstiréttur íslands
Mál nr. 441/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Eignarréttur
- Sértökuréttur
- Réttindaröð
- Kröfugerð
- Skipting sakarefnis
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Mánudaginn 28. nóvember 2011. |
|
Nr. 441/2011. |
Landsbanki Íslands hf. (Pétur Örn Sverrisson hrl.) gegn Landsvaka hf. (Stefán Geir Þórisson hrl. Helga Melkorka Óttarsdóttir hdl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Eignarréttur. Sértökuréttur. Réttindaröð. Kröfugerð. Skipting sakarefnis. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem viðurkennt var að nánar tilteknar kröfur LV hf. nytu stöðu í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit LÍ hf. Málsatvik voru þau að félagið M gerði 10. október 2006 samning við sjö alþjóðleg fjármálafyrirtæki um lántöku, sem útibú DB í London átti að hafa umsjón með. LV hf. og LÍ hf. gerðu 14. nóvember sama ár með sér svokallað rammasamkomulag um þátttöku sjóðsins LMF í fjárfestingum LÍ hf. í lánaverkefnum, en samkvæmt samningnum var LÍ hf. í meginatriðum ætlað það hlutverk að koma auga á fjárfestingatækifæri fyrir LMF og hafa milligöngu um slíkar fjárfestingar. LÍ hf. og útibú DB í London gerðu 1. maí 2008 með sér yfirlýsingu um framsal á kröfu úr tilteknum flokki lánssamningsins frá 10. október 2006. Með samningi 20. maí 2008 tókst LV hf., fyrir hönd LMF, á hendur tilteknar skuldbindingar og réttindi LÍ hf. samkvæmt því sem nánar var rakið í samningnum og rammasamkomulaginu frá 14. nóvember 2006. Málsaðilar gerðu á ný með sér samning 28. sama mánaðar, sem var ætlað að koma í stað áðurgreinds samnings frá 20. maí 2008, þar sem meðal annars kom fram að LÍ hf. væri lánveitandi samkvæmt lánssamningnum 10. október 2006 og að LMF keypti tiltekna hlutdeild í áðurgreindum flokki samningsins. Deila aðila laut einkum að tvennu. Annars vegar að því hvort litið skyldi svo á að LMF, sem LV hf. kom fram fyrir, væri eigandi kröfu á hendur M á grundvelli lánssamnings 10. október 2006 og þar með greiðslna, sem lántakinn hefði innt af hendi til LÍ hf. eftir 7. október 2008 og myndi eftir atvikum síðar inna af hendi, frekar en að LV hf. yrði einungis talinn eiga kröfuréttindi á hendur LÍ hf. samkvæmt samningi þeirra frá 28. maí 2008. Hins vegar hvort þessar greiðslur, sem LÍ hafði tekið við, væru þannig sérgreindar í vörslum hans að LV hf. gæti gert tilkall til þeirra eftir 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, yrði hann talinn eigandi fjárins. Um fyrra atriðið segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að þótt LV hf. hafi greitt fyrir hlutdeildina 28. maí 2008 með hluta af innstæðu reiknings, sem fram að því stóð að handveði vegna skuldbindingar hans samkvæmt samningi aðila 20. maí 2008, gætu þau undanfarandi lögskipti ekki breytt því að samningurinn 28. sama mánaðar hefði berum orðum falið í sér kaup LMF, sem færðu sjóðnum eignarrétt yfir þessum kröfuréttindum. LV hf. var því, í þágu LMF, talinn eigandi kröfu samkvæmt lánssamningum 10. október 2006. Um hið síðara atriði vísaði Hæstiréttur til þess að dómaframkvæmd réttarins hefði áskilið að peningar í vörslum þrotabús, sem kröfuhafi kallaði til á grundvelli eignarréttar, þyrftu að vera nægilega sérgreindir til þess að kröfu yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Sá áskilnaður hefði þó ekki verið gerður þegar peningar hefðu ekki komist í vörslur þrotabús fyrr en eftir upphaf skipta. Taldi rétturinn að aðstöðu LÍ hf. á tímabilinu 7. október 2008 til 22. apríl 2009 mætti í þessu tilliti jafna til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans og því hefði sérgreining peningaeignar LV hf., í vörslum LÍ hf., enga þýðingu fyrir stöðu kröfu hans í réttindaröð við slit hins síðarnefnda. Því til samræmis var viðurkennt að krafa LV hf. nyti stöðu eftir 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 við slit LÍ hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2011, þar sem viðurkennt var að nánar tilteknar kröfur varnaraðila njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að kröfum varnaraðila verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 25. júlí 2011. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað, en til vara að krafa hans að fjárhæð 76.740 evrur verði viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 4. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, svo og að krafa hans til fjár, sem sóknaraðili hafi þegar tekið við eftir 22. apríl 2009 og muni taka við á grundvelli nánar tilgreindra samninga 14. nóvember 2006 og 28. maí 2008, njóti stöðu samkvæmt 3. tölulið sama lagaákvæðis. Að þessu frágengnu krefst varnaraðili þess að „viðurkennt verði með dómi að sóknaraðila sé á grundvelli 95. gr. laga nr. 21/1991 skylt að skila hlutdeild ... í þeim greiðslum sem sóknaraðili hefur tekið við og mun taka við eftir 22. apríl 2009“ á grundvelli sömu samninga. Í öllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Eftir ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 21. nóvember 2011.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerði franskt félag með takmarkaðri ábyrgð, sem bar heitið Mediannuaire Holding, samning 10. október 2006 við sjö alþjóðleg fjármálafyrirtæki um að taka lán að fjárhæð allt að 5.010.000.000 evrur, en útibú Deutsche Bank AG í London átti að hafa umsjón með þessum viðskiptum. Láninu var skipt í nánar tiltekna flokka og var þar á meðal einn, sem auðkenndur var D. Undir hann féll lán að fjárhæð 300.000.000 evrur, sem skyldi endurgreiða í einu lagi að liðnum níu árum og sex mánuðum, en vexti átti að greiða á lánstímanum öllum eftir nánari reglum. Lántakinn átti að inna greiðslur af hendi til fyrrnefnds banka, sem hafði umsjón með viðskiptunum, og skyldi bankinn síðan skipta hverri greiðslu milli kröfuhafa. Í samningnum voru ákvæði um framsal kröfu samkvæmt honum, en slíkt var lánveitanda eða framsalshafa heimilt hvort heldur með kröfu sína í heild eða hluta af henni, sem að meginreglu mátti þó ekki nema lægri fjárhæð en 2.000.000 evrum. Bæði framseljanda og framsalshafa bar að undirrita sérstaka yfirlýsingu um framsal, sem komið yrði til fyrrnefnds útibús Deutsche Bank AG, en bankinn héldi skrá um slík aðilaskipti og færi eftir henni við útborgun greiðslna frá lántakanum.
Málsaðilarnir gerðu 14. nóvember 2006 samning með heitinu: „Rammasamkomulag um þátttöku Landsbankans Mezzanine Fund II í fjárfestingum Landsbanka Íslands hf. í lánaverkefnum á evrópskum lánamarkaði“, en þar kom fram að varnaraðili stæði að samningnum fyrir hönd sjóðsins, sem hér um ræðir. Í samningnum var vísað til þess að sóknaraðili hefði nánar tiltekna fjárfestingarstefnu, sem fælist meðal annars í því að „fjárfesta á norður evrópskum lánamarkaði í „skuldsettum lánum“ ... sem annað hvort eru keypt af þeim deildum innan stærri evrópskra banka sem bera ábyrgð á sambankalánum og sérhæfðri fjármögnun ... eða sölutryggð að hluta eða öllu leiti af LÍ í samræmi við kröfur og/eða samstarf við ofangreindar deildir.“ Hver fjárfesting yrði „á bilinu fimm til þrjátíu milljónir sterlingspunda eða jafngildi í annarri mynt.“ Ætti sóknaraðili að finna tækifæri til fjárfestinga og frumgreina þau, en afhenda síðan sjóðnum gögn ef ákveðið væri að halda greiningu áfram. Ef til kæmi myndi sóknaraðili „tilkynna þeim banka sem selur fjárfestinguna og/eða annast hana sem umsýslubanki ... óskir LÍ um þátttöku m.t.t. óska LMF II og etv. annarra aðila um þátttöku“ og jafnframt vera „eini lögaðilinn og lánveitandi gagnvart þeim banka sem selur fjárfestinguna og/eða annast hana sem umsýslubanki ... og lántakanum.“ Sóknaraðila bæri að „tryggja að allar greiðslur frá umsýslubanka eða lántaka berist LMF II“, sem einnig fengi „öll sömu gögn og LÍ á líftíma fjárfestingarinnar“, svo og að „skipuleggja meirihlutakosningu ... milli LÍ og LMF II og etv. annarra aðila sem gerast aðilar að viðkomandi láni með sama hætti og LMF II, um álitamál, þegar óskað er eftir samþykki LÍ sem lánveitanda fyrir breytingum á lánasamning, millibankasamkomulagi ... og/eða öðru samþykki sem nauðsynlegt er að afla frá lánveitanda vegna brota á kvöðum, uppgreiðslu, vanskilum, gjaldfellingu eða öðrum álitamálum sem ber að greiða um atkvæði skv. efni lánsskjala.“ Sjóðnum væri á hinn bóginn ætlað meðal annars að „vinna sjálfstætt áhættumat á fjárfestingarkostum“ og senda sóknaraðila að því loknu „skuldbindandi tilkynningu með skriflegum hætti um vilja til þátttöku í fjárfestingu áður en LÍ tilkynnir umsýslubanka eða þeim banka sem selur fjárfestinguna ... óskir sínar um þátttöku, sem þá munu taka mið af sameiginlegri fjárhæð LMF II og LÍ og etv. annarra banka.“ Sóknaraðili fengi svo „uppgefið frá umsýslubanka eða þeim banka sem selur fjárfestinguna ... endanlega úthlutun og fjármögnunardag og tilkynnir það samstundis til LMF II“, en ekki síðar en þremur dögum fyrir svokallaðan fjármögnunardag myndi sóknaraðili óska eftir greiðslu frá sjóðnum, sem bæri að „senda þátttökufjárhæð sína til LÍ“ í síðasta lagi daginn eftir. Í samningnum var einnig tekið fram að aðilarnir myndu gera „sérstakan samning um aðild LMF II að hverri einstakri fjármögnun þar sem vísað er til viðkomandi lánsskjala og undirliggjandi gagna.“
Sóknaraðili og útibú Deutsche Bank AG í London gerðu 1. maí 2008 yfirlýsingu um framsal á kröfu að fjárhæð 2.000.000 evrur úr flokki D samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi Mediannuaire Holding, en framsal þetta átti að koma til framkvæmdar 16. sama mánaðar. Erlendi bankinn var í senn framseljandi kröfunnar og viðtakandi yfirlýsingarinnar vegna umsjónar sinnar með viðskiptum á grundvelli samningsins. Hann áritaði yfirlýsinguna síðastgreindan dag um samþykki framsalsins.
Málsaðilar gerðu 20. maí 2008 samning á ensku, sem ber í framlagðri þýðingu heitið afleiðusamningur vegna útlánaáhættu. Í upphafi samningsins sagði að varnaraðili samþykki fyrir hönd Landsbanka Mezzanine Fund II að taka yfir skuldbindingar og réttindi sóknaraðila samkvæmt því, sem nánar væri ákveðið þar og í rammasamkomulagi þeirra frá 14. nóvember 2006. Vísað var til þess að sóknaraðili væri lánveitandi gagnvart Mediannuaire Holding samkvæmt lánssamningi 10. október 2006. Landsbanki Mezzanine Fund II legði við undirritun afleiðusamningsins 2.000.000 evrur inn á tiltekinn reikning hjá sóknaraðila eða veitti honum „með öðrum hætti aðgang að þeirri fjárhæð“ og setti hana að veði til tryggingar endurgreiðslu lánsins frá Mediannuaire Holding, en sjóðurinn félli um leið frá tilkalli til vaxta af fénu. Í staðinn bæri sóknaraðila að greiða sjóðnum vexti og afborganir af höfuðstóli lánsins, sem þeim fyrrnefnda myndu berast, og væri honum skylt að beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja að sjóðurinn fengi umsamdar greiðslur af því. Sóknaraðila væri þó í eitt ár frá gerð afleiðusamningsins heimilt að segja honum upp og standa sjóðnum skil á tryggingu hans, auk þess sem sóknaraðila væri á öllum stigum heimilt að framselja réttindi sín samkvæmt lánssamningnum að hluta eða öllu leyti, en bæri þá eftir sem áður skyldur við sjóðinn eftir afleiðusamningnum. Sjóðnum væri á hinn bóginn óheimilt að framselja réttindi eða færa á aðra skyldur samkvæmt samningnum án samþykkis sóknaraðila.
Sóknaraðili og varnaraðili fyrir hönd Landsbanka Mezzanine Fund II gerðu 28. maí 2008 samning „um aðild að fjárfestingu“. Þar kom fram að sóknaraðili væri lánveitandi gagnvart Mediannuaire Holding samkvæmt lánssamningi 10. október 2006 og „kaupir LMF II hlutdeild í Facility D ... að fjárhæð EUR 2.000.000,00“, en vextir af láninu skyldu reiknast frá 16. maí 2008 og væri næsti gjalddagi þeirra 13. júní sama ár. Tekið var fram að „LMF II kaupir hlutdeild í láninu á genginu 84,50%“ og skyldi greiðsla samkvæmt því fara fram þann dag, sem sóknaraðili myndi tilgreina, en hann skuldbatt sig til að „greiða LMF II vexti og afborganir ... jafnóðum og þær berast frá lántaka.“ Kveðið var á um að sjóðnum væri óheimilt án samþykkis sóknaraðili að „framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningi þessum“. Sóknaraðila væri á hinn bóginn „heimilt að selja hlut sinn í láni því sem samningur þessi tekur til að hluta eða öllu leyti“, en um slíka ráðstöfun skyldi sjóðnum tilkynnt og bæri sóknaraðili eftir sem áður „skyldur gagnvart LMF II eins og samningur þessi og rammasamkomulag aðila kveður á um.“ Loks var þess getið að samningurinn ætti að gilda „út líftíma“ skuldbindingarinnar, sem hann tók til, svo og að honum yrði ekki slitið eða sagt upp „nema LÍ kaupi lánshluta LMF II ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði“, en við undirritun samningsins félli úr gildi fyrrgreindur afleiðusamningur frá 20. maí 2008.
Samkvæmt gögnum málsins lagði Landsbanki Mezzanine Fund II 2.000.000 evrur inn á sérstakan reikning hjá sóknaraðila 16. maí 2008, en reikningnum var lokað 28. sama mánaðar þegar sú fjárhæð var tekin út af honum með tveimur færslum, sem auðkenndar voru „Mediannuai“, annars vegar að fjárhæð 311.125 evrur og hins vegar 1.688.875 evrur. Fyrir liggur í málinu að aðilarnir hafi í upphafi ætlað að láta viðskipti sín um framangreint efni fara eftir því, sem ákveðið var í afleiðusamningnum 20. maí 2008, en vegna vandkvæða við færslur hjá sóknaraðila hafi þeir sammælst um að fella þann samning niður og gera þess í stað samninginn um aðild að fjárfestingu 28. sama mánaðar. Óumdeilt er að sóknaraðili hafi ekki framselt Landsbanka Mezzanine Fund II réttindi sín samkvæmt lánssamningi Mediannuaire Holding frá 10. október 2006 eftir þeim fyrirmælum, sem komu fram í þeim samningi.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Eftir að lögum nr. 161/2002 hafði verið breytt með lögum nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, var sóknaraðila skipuð slitastjórn, sem gaf út innköllun til kröfuhafa. Fyrir liggur í málinu að sóknaraðili hafi á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 tekið við greiðslum vegna fyrrgreinds láns til Mediannuaire Holding að fjárhæð samtals 76.737,12 evrur, en á þeim hafi hann ekki staðið skil til Landsbanka Mezzanine Fund II. Vegna þessa lýsti varnaraðili kröfu á hendur sóknaraðila 6. október 2009, þar sem hann krafðist þess meðal annars að viðurkennd yrði krafa sín vegna þessara viðskipta, sem þá hafi verið 124.158,95 evrur vegna frekari greiðslna eftir 22. apríl sama ár, og skyldi hún njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Í bréfi til varnaraðila 12. nóvember 2009 lýsti slitastjórnin þeirri afstöðu til kröfu hans að hafnað væri að hún nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði, enda væri þetta ekki eign varnaraðila í vörslum sóknaraðila að mati slitastjórnar. Þessu til viðbótar sagði meðal annars eftirfarandi í bréfinu: „Til álita kemur hvort krafan muni verða viðurkennd sem almenn krafa á hendur bankanum skv. 113. gr. laga ... nr. 21/1991. Vegna fjölda lýstra krafna er hins vegar óhjákvæmilegt að fresta því að taka afstöðu til kröfunnar að því leyti og mun því eingöngu fjallað um rétthæð hennar á áður auglýstum kröfuhafafundi sem haldinn verður mánudaginn 23. nóvember 2009“. Varnaraðili mótmælti þessari afstöðu á fundinum, en með því að ekki tókst að jafna ágreining aðilanna beindi slitastjórn honum til héraðsdóms 29. apríl 2010. Í máli þessu, sem var þingfest af þessu tilefni 22. júní sama ár, gerði varnaraðili aðallega þá kröfu að viðurkennt yrði að krafa sín að fjárhæð 76.740 evrur, sem svari til fjárhæðarinnar sem sóknaraðili hafi tekið við frá Mediannuaire Holding á tímabilinu frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009 og ekki greitt varnaraðila í samræmi við rammasamkomulag þeirra 14. nóvember 2006 og samning um aðild að fjárfestingu 28. maí 2008, nyti stöðu í réttindaröð við slit sóknaraðila samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt að viðurkennt yrði að krafa varnaraðila um fé, sem sóknaraðili hafði þá þegar tekið við eftir 22. apríl 2009 og myndi síðar taka við og varnaraðili ætti tilkall til samkvæmt samningunum, nyti sömu stöðu í réttindaröð við slitin. Í hinum kærða úrskurði voru þessar kröfur teknar til greina.
II
Eins og sóknaraðili lagði mál þetta fyrir héraðsdóm og í samræmi við kröfugerð varnaraðila sneri úrlausnarefnið að því einu hvort lýstar kröfur þess síðarnefnda á grundvelli samnings þeirra 28. maí 2008 nytu stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, en svo sem að framan greinir hafði sóknaraðili ekki á því stigi tekið afstöðu til þess hvort hann teldi að krafan ætti að standa í réttindaröð eftir 113. gr. sömu laga og þá eftir atvikum með hvaða fjárhæð. Í hinum kærða úrskurði var leyst úr þessu ágreiningsefni án þess að vikið væri frekar að því hvernig málið hefði verið lagt fyrir dóminn.
Ákvæði laga nr. 21/1991 miða að því að ágreiningi um viðurkenningu lýstrar kröfu við gjaldþrotaskipti verði til fullnaðar ráðið til lykta í einu máli sé honum beint til dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar 10. júní 2011 í máli nr. 201/2011. Eins og mál þetta var lagt fyrir héraðsdóm var því skilyrði ekki fullnægt, enda alls óljóst hvernig færi um kröfur varnaraðila ef ekki yrði viðurkennt að þær stæðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Til þess verður á hinn bóginn að líta að samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur dómari ákveðið eftir ósk annars eða beggja aðila að skipta sakarefni þannig að fyrst verði dæmt sérstaklega um tiltekin atriði máls meðan önnur atriði þess hvíli og bíði þess að verða dæmd. Með þessu er gengið út frá því að mál sé höfðað um sakarefni í heild, en dómari geti hvort heldur við þingfestingu máls eða þegar tekið hafi verið til varna í því og eftir ósk annars eða beggja aðilanna ákveðið að skipta sakarefninu þannig að fyrst verði aðeins leyst úr afmörkuðu ágreiningsefni. Heimilt er að hafa þennan hátt á máli, sem rekið er fyrir dómi eftir sérreglum XXIV. kafla laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laganna. Af málatilbúnaði aðilanna er ljóst að fyrirmælum 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 var ekki fylgt fyrir héraðsdómi, enda lögðu þeir ágreining sinn um kröfur varnaraðila fyrir í þeim takmarkaða búningi, sem að framan greinir. Þótt ekkert sé fært í þingbók um ákvörðun héraðsdómara, svo sem gert er ráð fyrir í lagaákvæðinu, má líta svo á að í úrskurði hans felist að hann hafi fallist á að fara með málið eins og réttilega hefði verið staðið að því að skipta sakarefninu. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili lýst því yfir að hann viðurkenni nú kröfu varnaraðila með þeirri fjárhæð, sem lýst var, með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafa báðir aðilar lýst því yfir hér fyrir dómi að þeir líti svo á að fyrir héraðsdómi hafi sakarefni í málinu í reynd verið skipt, svo sem heimilt hefði verið samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu öllu virtu er ekki alveg næg ástæða til að láta þennan annmarka leiða til þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
III
Ágreiningur aðilanna um stöðu lýstra krafna varnaraðila í réttindaröð við slit sóknaraðila snýr annars vegar að því hvort litið skuli svo á að Landsbanki Mezzanine Fund II, sem sá fyrrnefndi kemur fram fyrir, sé eigandi kröfu á hendur Mediannuaire Holding á grundvelli fyrrnefnds lánssamnings 10. október 2006 og þar með greiðslna, sem lántakinn hefur innt af hendi eftir 7. október 2008 og mun eftir atvikum síðar inna af hendi, frekar en að varnaraðili verði einungis talinn eiga kröfuréttindi á hendur sóknaraðila samkvæmt samningi þeirra frá 28. maí 2008. Hins vegar er deilt um hvort þessar greiðslur, sem sóknaraðili hefur tekið við, séu þannig sérgreindar í vörslum hans að varnaraðili geti gert tilkall til þeirra eftir 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, verði hann talinn eigandi fjárins.
Í málinu liggur ekkert fyrir um aðdragandann að kaupum sóknaraðila á hlutdeild í kröfu á hendur Mediannuaire Holding samkvæmt lánssamningnum 10. október 2006 fram að því að hann fékk úr hendi Deutsche Bank AG framsal, sem til framkvæmdar kom 16. maí 2008, á kröfu til greiðslu á 2.000.000 evrum með nánar tilgreindum skilmálum. Eins og áður segir tók sóknaraðili síðastgreindan dag við greiðslu frá varnaraðila á sömu fjárhæð, sem fyrst í stað var lögð á innlánsreikning hjá sóknaraðila. Að þessu virtu er ekki ástæða til annars en að ætla að aðdragandi þessara viðskipta hafi farið eftir rammasamkomulagi þeirra frá 14. nóvember 2006. Aðilarnir gerðu síðan 20. maí 2008 áðurnefndan afleiðusamning. Hann fól í sér að varnaraðili fyrir hönd Landsbanka Mezzanine Fund II tæki á sig alla áhættu af því hvort Mediannuaire Holding myndi standa í skilum við sóknaraðila, en fengi þess í stað allar greiðslur, þar með talið á vöxtum, sem lántakinn myndi inna af hendi. Til tryggingar á skuldbindingu varnaraðila samkvæmt afleiðusamningnum átti innstæðan að fjárhæð 2.000.000 evrur að standa að handveði. Ljóst er að varnaraðili varð ekki eigandi kröfu á hendur Mediannuaire Holding með þessum samningi, heldur beindist krafa hans að sóknaraðila og átti hún ekki stoð í öðru en afleiðusamningnum. Sá samningur var á hinn bóginn felldur niður með samningi aðilanna 28. maí 2008 „um aðild að fjárfestingu“. Í honum sagði meðal annars að Landsbanki Mezzanine Fund II „kaupir hlutdeild í láninu“ til Mediannuaire Holding að fjárhæð 2.000.000 evrur „á genginu 84,50%“ og skuldbindi sjóðurinn sig til að greiða sóknaraðila „fyrir hlutdeild sína“ á þeim degi, sem hann tiltaki. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sama dag hafi verið teknar út af áðurnefndum reikningi Landsbanka Mezzanine Fund II hjá sóknaraðila 1.688.875 evrur eða sem næst 84,50% af nafnverði kröfunnar á hendur Mediannuaire Holding. Þótt varnaraðili hafi samkvæmt þessu greitt kaupverðið með hluta af innstæðu reiknings, sem fram að því stóð að handveði vegna skuldbindingar hans samkvæmt afleiðusamningnum frá 20. maí 2008, geta þau undanfarandi lögskipti ekki breytt því að samningurinn 28. sama mánaðar fól berum orðum í sér kaup Landsbanka Mezzanine Fund II, sem færðu í hendur sjóðsins eignarrétt yfir þessum kröfuréttindum. Þá getur heldur engu skipt um innbyrðis réttarstöðu aðilanna að þeir hafi ekki gert að því reka að fá réttindi á hendur Mediannuaire Holding framseld til varnaraðila eftir þeim fyrirmælum, sem fram komu í lánssamningnum 10. október 2006. Að þessu virtu verður að fallast á með varnaraðila að hann sé í þágu Landsbanka Mezzanine Fund II réttur eigandi kröfu að fjárhæð 2.000.000 evrur samkvæmt lánssamningnum, þótt hún sé enn skráð á nafni sóknaraðila hjá útibúi Deutsche Bank AG í London.
Í málinu er ekki deilt um að sóknaraðili hafi á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 tekið við greiðslu á samtals 76.740 evrum á grundvelli lánssamnings Mediannuaire Holding. Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að varnaraðili sé eigandi þess fjár. Af þessu einu leiðir þó ekki að kröfu varnaraðila til fjárins verði skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, enda hefur í dómaframkvæmd jafnframt verið áskilið að peningar í vörslum þrotabús, sem kröfuhafi kallar til á grundvelli eignarréttar, þurfi að vera nægilega sérgreindir, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 15. febrúar 1971 í máli nr. 130/1970 og 11. maí 1987 í máli nr. 327/1986, sem birtir eru í dómasafni 1971 bls. 133 og 1987 bls. 664. Þessi áskilnaður hefur þó ekki verið gerður þegar atvikum hefur verið þannig háttað að peningar hafi ekki komist í vörslur þrotabús fyrr en eftir upphaf skipta, sbr. dóm Hæstaréttar 11. mars 1988 í máli nr. 226/1987, sem birtur er í dómasafni 1988 bls. 358. Verður í því sambandi að líta til þess að í reynd væri að öðrum kosti á valdi þess, sem stýrir skiptum, að ráða skipun kröfu til peninganna í réttindaröð með ákvörðun sinni um að láta þá renna saman við annað fé þrotabús í stað þess að sérgreina þá, sbr. að nokkru 2. mgr. 109. gr. og 2. mgr. 123. gr. laga nr. 21/1991.
Með áðurnefndri ákvörðun 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila og vék stjórn hans frá. Um leið setti það skilanefnd yfir sóknaraðila, sem fór samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, með allar heimildir félagsstjórnar og öll málefni hans, þar á meðal að hafa umsjón með eignum og annast rekstur hans. Sóknaraðili kom á hinn bóginn ekki til slita eftir sérreglum laga nr. 161/2002 fyrr en 22. apríl 2009, þegar lög nr. 44/2009 um breyting á fyrrnefndu lögunum tóku gildi, sbr. 2. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 44/2009. Frá sama tíma hafa því gilt um sóknaraðila ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, sem leiða til þess að reglur laga nr. 21/1991 ráða í meginatriðum hvernig fari um réttindi annarra á hendur honum. Þrátt fyrir þetta verður að gæta að því að þótt í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og hún hljóðaði samkvæmt 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi ekki verið mælt fyrir um sérstaka málsmeðferð í framhaldi af ákvörðun eins og þeirri, sem Fjármálaeftirlitið tók um sóknaraðila 7. október 2008, voru öll málefni hans sett undir skilanefnd, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og hlaut samkvæmt heiti sínu að hafa verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila sóknaraðila. Að því virtu verður að líta svo á að á tímabilinu frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009 hafi sóknaraðili verið í aðstöðu, sem leggja má að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar tilkall annarra á grundvelli eignarréttinda til peninga í vörslum hans. Getur því samkvæmt áðurgreindri dómaframkvæmd engu breytt um stöðu kröfu varnaraðila í réttindaröð hvort peningarnir, sem hún beinist að, hafi verið sérgreindir í vörslum sóknaraðila. Því til samræmis verður viðurkennt að krafa varnaraðila um greiðslu á 76.740 evrum njóti stöðu eftir 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila.
Í málinu hefur varnaraðili hvorki krafist þess að sóknaraðila verði gert að framselja til sín réttindi á hendur Mediannuaire Holding samkvæmt lánssamningi þess félags frá 10. október 2006, sem samningur aðilanna 28. maí 2008 tók til, né að viðurkennd verði að því frágengnu fjárkrafa varnaraðila, sem ákveða mætti eftir 2. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 ef sóknaraðila reyndist ekki fært að verða við skyldu til framsals. Þess í stað hefur varnaraðili krafist þess að „viðurkennt verði með dómi að hlutdeild“ sín í fjárhæðum, sem sóknaraðili hafi þegar tekið við eftir 22. apríl 2009 og muni framvegis taka við á grundvelli þessa lánssamnings, „njóti rétthæðar sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991“, svo sem komist var að orði í endanlegri kröfugerð varnaraðila fyrir héraðsdómi. Slit á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 hafa á sama hátt og gjaldþrotaskipti það markmið að ljúka endanlega réttindum slíks fyrirtækis og skyldum. Leiðir því af eðli máls að ekki verður felld skylda á sóknaraðila til að veita varnaraðila um ókomna framtíð slíka milligöngu við miðlun greiðslna, sem þessi krafa varnaraðila tekur mið af. Vegna þessa verður að vísa frá héraðsdómi þessum þætti í dómkröfum varnaraðila ásamt þeim varakröfum, sem honum tengjast.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennd er krafa varnaraðila, Landsvaka hf., að fjárhæð 76.740 evrur við slit sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., og nýtur hún stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Vísað er frá héraðsdómi öðrum þáttum í aðalkröfu varnaraðila ásamt varakröfum hans.
Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 27. júní 2011.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 22. júní sl., var þingfest 22. júní 2010.
Sóknaraðili er Landsvaki hf., Reykjavík.
Varnaraðili er Landsbanki Íslands hf., Reykjavík.
Endanleg kröfugerð sóknaraðila er aðallega:
a) að viðurkennt verði með dómi að krafa sóknaraðila að fjárhæð 76.740 evrur sem varnaraðili tók við á tímabilinu 8. október 2008 22. apríl 2009 en skilaði ekki til sóknaraðila á grundvelli rammasamkomulags Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf. dags. 14. nóvember 2006 og samnings um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008, njóti rétthæðar sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991.
b) að viðurkennt verði með dómi að hlutdeild sóknaraðila í þeim fjárhæðum sem varnaraðili hefur tekið við og mun taka við eftir 22. apríl 2009 og hann á rétt til á grundvelli rammasamkomulags Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf. dags. 14. nóvember 2006, og samnings um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008, njóti rétthæðar sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991.
1. varakrafa sóknaraðila er:
a) að viðurkennt verði með dómi að varnaraðili hafi tekist á hendur réttindi og skyldur samkvæmt gagnkvæmum samningum samkvæmt XV. kafla laga nr. 21/1991 með eftirtöldum samningum: Rammasamkomulag Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf. dags. 14. nóvember 2006 og samningi um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008 og að viðurkennt verði að krafa sóknaraðila að fjárhæð 76.740 evrur sem varnaraðili tók við á tímabilinu 8. október 2008 22. apríl 2009, en skilaði ekki til sóknaraðila, njóti rétthæðar sem búskrafa á grundvelli 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
b) að viðurkennt verði með dómi að varnaraðili hafi tekist á hendur réttindi og skyldur samkvæmt gagnkvæmum samningum samkvæmt XV. kafla laga nr. 21/1991 með eftirtöldum samningum: Rammasamkomulag Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf. dags. 14. nóvember 2006 og samningi um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008 og að viðurkennt verði að hlutdeild sóknaraðila í þeim fjárhæðum sem varnaraðili hefur tekið við og mun taka við eftir 22. apríl 2009 á grundvelli samninganna njóti rétthæðar sem búskröfur á grundvelli 3. tl. 110. gr., sbr. 91. gr. laga nr. 21/1991.
2. varakrafa sóknaraðila er að viðurkennt verði með dómi að varnaraðila sé á grundvelli 95. gr. laga nr. 21/1991 skylt að skila hlutdeild sóknaraðila í þeim greiðslum sem varnaraðili hefur tekið við og mun taka við eftir 22. apríl 2009 á grundvelli eftirtalinna samninga: Rammasamkomulag Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf. dags. 14. nóvember 2006 og samningi um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008, til sóknaraðila.
Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik
Sóknaraðili, fyrir hönd tveggja sjóða sem hann rekur, Landsbanki Mezzanine Fund, kt. 630704-9870 og Landsbanki Mezzanine Fund II, kt. 460306-9490, samdi við varnaraðila um samstarf milli aðila í tengslum við lánaverkefni á evrópskum lánamarkaði.
Samstarf sóknaraðila og varnaraðila var byggt á grunnsamningi, svokölluðu rammasamkomulagi, milli varnaraðila og viðkomandi sjóðs. Í rammasamkomulaginu er kveðið á um helstu atriði varðandi samningssamband sóknaraðila og varnaraðila. Samningarnir fyrir báða sjóðina eru samhljóða. Á grundvelli samkomulagsins voru gerðir sérstakir samningar um hvert einstakt lánaverkefni. Einstakir samningar eru samhljóða að öðru leyti en hvað varðar skilmála og fjárhæðir hvers láns.
Samningar sóknaraðila við varnaraðila munu upphaflega hafa verið í formi afleiðusamninga, en um mitt ár 2008 var samningunum breytt í samninga um hlutdeild í lánum. Sóknaraðili greiddi fyrir hlutdeildina með því að tryggingar sem stóðu fyrir afleiðusamningunum voru teknar út af reikningum félagsins hjá varnaraðila.
Í fyrrnefndu rammasamkomulagi sem ber yfirskriftina ,,um þátttöku Landsbankans Mezzanine fund í fjárfestingum Landsbanka Íslands hf. í lánaverkefnum á evrópskum lánamarkaði“ kemur fram að Landsbanki Íslands og Landsvaki f.h. Landsbanki Mezzanine Fund, hér eftir nefnd LMF geri með sér rammasamning um samstarf milli aðila í tengslum við ýmis lánaverkefndi á evrópskum lánamarkaði. Tekið er fram að af hálfu Landsbanka Íslands hf. liggi fyrir ákveðin fjárfestingastefna. Hlutverk varnaraðila var skilgreint í 1. gr. rammasamkomulagsins. Þar segir m.a. að hlutverk varnaraðila hafi verið að finna fjárfestingatækifæri í gegnum tengslanet á evrópskum lánamarkaði í samræmi við fjárfestingastefnu. Í e-lið 1. gr. segir að hlutverk varnaraðila sé að tilkynna þeim banka sem selji fjárfestinguna og/eða annist hana sem umsýslubanki (e Agent/Arranger) óskir varnaraðila um þátttöku, m.t.t. óska LMF og e.t.v. annarra aðila um þátttöku.
Í f-lið 1. gr. kemur fram að hlutverk varnaraðila sé að vera eini lögaðilinn og lánveitandi gagnvart þeim banka sem selji fjárfestinguna og/eða annist hana sem umsýslubanki.
Í b-lið 2. gr. samkomulagsins segir að hlutverk LMF sé að senda varnaraðila að loknu áhættumati, skuldbindandi tilkynningu með skriflegum hætti um vilja til þátttöku í fjárfestingu, áður en varnaraðili tilkynni umsýslubanka eða þeim banka sem selji fjárfestinguna, óskir sínar um þátttöku, sem þá muni taka mið af sameiginlegri fjárhæð LMF og varnaraðila og e.t.v. annarra banka.
Í sérstökum samningi aðila um aðild að fjárfestingu frá 28. maí 2008, sem mál þetta tekur til, segir í 1. gr. að lántaki sé Mediaannuaire Holding. Lánstegund er tilgreind, Facility B1 og B2, 8 ára afborgunarlán, Equity Bridge, Facility C, 9 ára kúlulán, Facility D, 9,5 ára kúlulán, og RCF, 7 ára ádráttarlán. Lánsfjárhæð er tilgreind 5.010.000.000 evra og vextir tilgreindir.
Í 2. gr. samnings aðila segir að með þessum samningi kaupi LMF II hlutdeild í Facility D (Second Lien Facility) að fjárhæð 2.000.000 evra.
Í 3. gr. samningsins segir að LMF II skuldbindi sig til þess að greiða varnaraðila fyrir hlutdeild sína á þeim degi sem útlánaþjónusta fyrirtækjasviðs varnaraðila tiltaki. Þá segir að varnaraðili skuldbindi sig til þess að greiða LMF II vexti og afborganir í réttu hlutfalli við hlutdeild LMF II í lánshluta LÍ jafnóðum og þær berist frá lántaka.
Í 5. gr. samningsins segir að LMF II sé óheimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningi þessum nema með samþykki varnaraðila. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. að varnaraðila sé heimilt að selja hlut sinn í láni því sem samningur þessi taki til, að hluta eða öllu leyti, og skuli tilkynna LMF II um söluna jafnóðum og framsal eigi sér stað. Varnaraðili skuli þó áfram bera skyldur gagnvart LMF II eins og samningurinn og rammasamkomulagið kveði á um.
Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir starfsemi varnaraðila samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Fjármálaeftirlitið skipaði þá skilanefnd til að taka við stjórn varnaraðila. Nýi Landsbanki Íslands hf. (nú NBI hf.) var stofnaður og voru innlendar eignir varnaraðila og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans fluttar yfir til nýja bankans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008.
Hinn 5. desember 2008 veitti Héraðsdómur Reykjavíkur varnaraðila greiðslustöðvun að beiðni skilanefndar varnaraðila. Með gildistöku laga nr. 44/2009 hinn 22. apríl 2009 hófst slitameðferð varnaraðila. Slitameðferðin var kennd við greiðslustöðvun meðan varnaraðili hafði heimild til greiðslustöðvunar á grundvelli laga nr. 129/2008. Hinn 29. apríl 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn. Tilhögun laga nr. 44/2009 var breytt að nokkru leyti með lögum nr. 132/2010, sem tóku gildi 17. nóvember 2010 og var samkvæmt því nauðsynlegt að kveðinn yrði upp dómsúrskurður þess efnis til að slitameðferð yrði haldið áfram. Hinn 22. nóvember 2010 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila sem móttekin var 7. október 2009 af slitastjórn varnaraðila. Sóknaraðili lýsti kröfunni sem sértökukröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Kröfuhafafundur var haldinn 23. nóvember 2009 um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar varnaraðila til viðurkenningar þeirra. Krafa sóknaraðila er nr. 978 á kröfuskránni. Þar kom m.a. fram sú afstaða slitastjórnarinnar til kröfu sóknaraðila að henni væri hafnað. Af hálfu sóknaraðila var afstöðu slitastjórnar mótmælt á kröfuhafafundum. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila, dagsettu 29. apríl 2010 og mótteknu 10. maí s.á., var ágreiningi málsaðila um kröfuna beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveður að þetta mál snúist um tvö álitaefni: Hvort krafa sóknaraðila sé sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða búskrafa samkvæmt 110. gr. sömu laga.
Sóknaraðili vísar til þess að kröfum hans sé skipt upp í tvö tímabil, annars vegar tímabilið fyrir 22. apríl 2009 og hins vegar tímabilið eftir að formleg slitameðferð hafi byrjað. Hvað fyrra tímabilið varði liggi fyrir nákvæmlega hvaða fjárhæðir séu ógreiddar á grundvelli samninga aðila. Fjárhæð kröfunnar sé því sérstaklega tiltekin í kröfugerð sóknaraðila. Hvað varðar tímabilið eftir 22. apríl, sé hins vegar að hluta til um að ræða kröfur sem ekki séu enn fallnar í gjalddaga og því séu allar kröfur sóknaraðila fyrir þetta tímabil í formi viðurkenningarkrafna, enda liggi endanleg heildarfjárhæð ekki fyrir.
Sóknaraðili byggir á því að í 1. gr. rammasamkomulagsins séu skyldur varnaraðila tilgreindar. Skýrt komi fram í stafliðum e)-i) að varnaraðili gegni hlutverki umsýslubanka (e. Arranger eða Agent). Í 8. gr. samningsins komi fram að samningsaðilar muni gera sérstakan samning um aðild sjóðanna að hverri einstakri fjármögnun þar sem vísað sé til viðkomandi lánsskjala og undirliggjandi gagna. Þá segi að verði misræmi á milli ákvæða rammasamkomulagsins og einstakra samninga um aðild að fjárfestingu gildi ákvæði rammasamkomulagsins. Rammasamningurinn í heild sinni sé samningur um þátttöku í lánum og samningar sem gerðir séu um einstök verkefni falli innan þess ramma.
Einstakir samningar um aðild að fjárfestingu séu samhljóða að öðru leyti en því að skilmálar og fjárhæðir hvers láns séu mismunandi. Í 1. gr. samninganna sé tilgreint hver sé fjárfesting (lánveiting) sjóðsins. Í 2. gr. komi skýrt fram að um sé að ræða hlutdeild sjóðsins í stærra láni. Í 3. gr. komi fram að sjóðurinn skuldbindi sig til að greiða fyrir hlutdeildina og að varnaraðili skuldbindi sig til að greiða sjóðnum vexti og afborganir í réttu hlutfalli við hlutdeild sjóðsins í lánshluta varnaraðila jafnóðum og þær berist frá lántaka. Í 4. gr. sé fjallað um réttindi og skyldur. Þar segi orðrétt:
LÍ lýsir því að hann veiti LMF II hér með hlutfallslegan rétt samkvæmt framangreindu af þeim réttindum sem LÍ hefur sjálfur öðlast svo og aðild að öllum þeim tryggingum sem settar hafa verið vegna lánsins í samræmi við hlutdeild LMF II í viðkomandi lánshlutum.Um lánshluta LMF II gildir að öllu leyti ákvæði undirliggjandi lánasamnings sem LMF II hefur kynnt sér til hlítar og staðfestir með undirritun sinni að hann beri alfarið einn áhættu og ábyrgð á hluta lánsins sem hann eignast með samningi þessum eins og hann hefði lánað lántaka fjárhæðina einn og milliliðalaust.
Sóknaraðili byggir á því að ljóst sé af lestri þessara tveggja málsgreina að varnaraðili taki að sér hlutverk umsjónaraðila lánveitingarinnar og að umræddir sjóðir eigi óskoraðan rétt á þeim hlut í lánveitingunni sem þeir hafi greitt fyrir, hvort sem það sé í formi vaxtagreiðslna eða afborgana af lánveitingunni.
Í 5. gr. sé fjallað um framsal og sé ákvæðið svohljóðandi:
,LMF II er óheimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningi þessum nema með samþykki LÍ. LÍ er heimilt að selja hlut sinn í láni því sem samningur þessi tekur til að hluta eða öllu leyti og skal tilkynna LMF II um söluna jafnóðum og framsal á sér stað. LÍ skal þó áfram bera skyldur gagnvart LMF II eins og samningur þessi og rammasamkomulag aðila kveður á um.
Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili skuli þannig áfram bera skyldur gagnvart sjóðnum eins og samningurinn og rammasamkomulag aðila kveði á um. Ljóst sé að varnaraðila sé einungis heimilt að selja „sinn“ hlut. Í 2. mgr. 5. gr. i.f. samningsins komi því skýrt fram að varnaraðili skuli áfram bera skyldur gagnvart sjóðunum og bendi þetta eindregið til þess að ekki sé átt við að varnaraðili geti selt hlut sjóðanna án samþykkis þeirra síðarnefndu, þar sem gert sé ráð fyrir að varnaraðili þjónusti þann hluta lánsins eins og áður þrátt fyrir að hafa selt sinn hluta lánsins. Varnaraðili skuli áfram sinna þeim skyldum við sjóðinn að taka á móti afborgunum og vaxtagreiðslum frá skuldurunum og skila áfram til sjóðsins. Í 6. gr. sé fjallað um gildistíma samningsins o.fl. Af rammasamningnum og öðrum ákvæðum í samningum um aðild að fjárfestingu sé ljóst um hvers konar réttarsamband sé að ræða milli aðila.
I-liður 1. gr. rammasamkomulagsins, sem fjalli um hlutverk varnaraðila, hljóði svo:
Að skipuleggja meirihlutakosningu skv. 9. gr., milli LÍ og LMF II og etv. annarra aðila sem gerast aðilar að viðkomandi láni með sama hætti og LMF II, um álitamál, þegar óskað er eftir samþykki LÍ sem lánveitanda fyrir breytingum á lánasamningi, millibankasamkomulagi (e. Intercreditor Agreement) og/eða öðru samþykki sem nauðsynlegt er að afla frá lánveitanda vegna brota á kvöðum, uppgreiðslu, vanskilum, gjaldfellingu og öðrum álitamálum sem ber að greiða um atkvæði samkvæmt efni lánsskjala.
Í 9. gr. segi að sjóðirnir geti greitt atkvæði í þessari kosningu miðað við sinn eignarhlut í láninu og að einfaldur meirihluti þeirra aðila sem gerst hafi þátttakendur með varnaraðila í þeim eignarhluta sem varnaraðili sé skráður fyrir hjá umsýslubanka (e. Agent/Arranger) ráði úrslitum. Falli atkvæði jöfn muni varnaraðili ekki greiða atkvæði vegna síns hlutar í láninu. Þetta bendi eindregið til þess að skilningur samningsaðila sé sá að sjóðirnir eigi sinn hluta í láninu og varnaraðili hafi í raun ekki yfirráðarétt yfir honum.
Sóknaraðili byggir a-lið aðalkröfu sinnar á því að ákvæði 109. gr. laga nr. 21/1991 mæli fyrir um rétthæstu kröfurnar við gjaldþrotaskipti, þ.e. eignaréttarkröfur eða sértökukröfur. Eigendur slíkra krafna þurfi ekki að sæta því að munum eða réttindum verði varið til fullnustu annarra krafna eftir stöðu þeirra í skuldaröð. Sóknaraðili byggir á því að framangreind krafa sé eignarréttarkrafa sem varnaraðila beri að afhenda utan skuldaraðar. Um sé að ræða sérgreinda fjárhæð sem sé með réttu eign sjóðsins, og af þeim sökum beri varnaraðila að skila henni utan skuldaraðar. Samningar um þátttöku sjóðsins í lánaverkefnum, þ. á m. umræddur rammasamningur, séu sönnun fyrir eignarétti sjóðanna að greiðslunum. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili sérstaklega til 2. mgr. 3. gr. samningsins um hlutdeild í lánasamningum. Samkvæmt ákvæðinu eigi varnaraðili að afhenda peningana jafnóðum og þeir berist. Sé því ekki hægt að líta svo á að peningarnir renni á neinum tímapunkti saman við annað fé þrotabús varnaraðila. Hlutverk varnaraðila sé einungis að taka við peningunum frá þriðja manni og millifæra þá til sóknaraðila.
Sóknaraðili segir b-lið aðalkröfu sinnar snúast um að krafa hans verði viðurkennd sem sértökukrafa skv. 109. gr. laga nr. 21/1991, verði ekki fallist á að varnaraðili hafi tekist á hendur réttindi og skyldur samkvæmt umræddum samningum. Um röksemdir fyrir þessari kröfu vísar sóknaraðili til rökstuðnings fyrir a-lið aðalkröfu sinnar.
Sóknaraðili byggir a-lið 1. varakröfu sinnar á sömu sjónarmiðum og b-lið 1. varakröfu sinnar. Hins vegar lítur sóknaraðili jafnframt svo á að fyrir 22. apríl hafi varnaraðili, sem þá hafi verið í greiðslustöðvun, tekist á hendur réttindi og skyldur samkvæmt umræddum samningum og að aðstoðarmaður við greiðslustöðvunina hafi samþykkt ráðstöfunina, sem leiði til þess að krafan verði búskrafa, sbr. 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Ljóst sé að á greiðslustöðvunartímanum hafi varnaraðili haldið áfram að taka við greiðslum frá skuldurum án þess að skila sóknaraðila þeim hlutum sem honum hafi borið samkvæmt framangreindum samningum um hlutdeild í lánum. Sóknaraðili telur að aðstoðarmaður við greiðslustöðvunina hafi á þessum tíma samþykkt þessar ráðstafanir með tómlæti sínu enda hefði hann og/eða skilanefnd varnaraðila átt að sjá til þess að greiðslum yrði skilað í samræmi við samningana. Sóknaraðili vísar um þetta til sérstakra athugasemda með 110. gr. laga nr. 21/1991. Beri því að viðurkenna umrædda kröfu sóknaraðila sem búskröfu á grundvelli 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggir b-lið 1. varakröfu sinnar á því að samningar aðila séu gagnkvæmir samningar. Varnaraðili hafi mótmælt því án þess að rökstyðja þá niðurstöðu nánar, en sóknaraðili telur hins vegar ljóst að samningarnir hafi öll einkenni gagnkvæmra samninga.
Ljóst sé að samningar aðila hafi lagt þá skyldu á sóknaraðila að greiða í upphafi fé til varnaraðila sem kaupverð á hlutdeild í nánar tilteknum lánum varnaraðila til þriðju aðila. Þá sé einnig ljóst að samningarnir leggi greiðsluskyldu á varnaraðila en sú skylda stofnist smátt og smátt yfir lengri tíma þegar lántakar samkvæmt undirliggjandi lánasamningum greiði af lánum sínum. Jafnframt liggi fyrir að greiðslur beggja aðila séu háðar skuldbindingu gagnaðilans. Að lokum leggi rammasamningur aðila ýmsar skyldur á aðila, sbr. 1. gr. og 2. gr. samningsins.
Þá hafi varnaraðili, eftir 22. apríl 2009, tekist á hendur réttindi og skyldur samkvæmt gagnkvæmum samningum aðila, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 Sóknaraðili lítur svo á að í kröfulýsingu sinni, dagsettri 6. október 2009, sem og viðbót við hana, dagsettri 30. október s.á, hafi falist fyrirspurn í skilningi 2. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991, um það hvort varnaraðili taki við réttindum og skyldum þrotamanns samkvæmt samningum aðila. Eftir að sóknaraðili hafi ítrekað fyrirspurnina með bréfi til varnaraðila, dagsettu 20. nóvember 2009, hafi honum borist bréf frá varnaraðila 16. febrúar 2010 þar sem tilkynnt hafi verið um afstöðu til krafna sóknaraðila. Í bréfinu hafi kröfunum verið hafnað en hvergi getið um það hvort varnaraðili hygðist taka við réttindum og skyldum samkvæmt hinum gagnkvæmu samningum. Varnaraðili hafi með bréfi til sóknaraðila dagsettu 23. febrúar 2010 ítrekað fyrirspurn sína og vakið sérstaka athygli á því að kröfuhafi ætti rétt á því að tekin yrði afstaða til gagnkvæmra samninga innan hæfilegs tíma. Ítrekuninni hafi ekki verið svarað. Á kröfuhafafundi sem fram fór 19. apríl 2010, hafi fyrst komið fram kom sú afstaða varnaraðila að ekki kæmi til álita að slitastjórn lýsti yfir því að hún tæki fyrir hönd búsins við skyldum samkvæmt gagnkvæmum samningi, eins og segi í fundargerð.
Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki tekið afstöðu innan hæfilegs frests í skilningi 2. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991, til þess hvort varnaraðili myndi ganga inn í hinn gagnkvæma samning, enda hafi afstaða varnaraðila ekki legið fyrir fyrr en rúmu hálfu ári eftir að fyrirspurn var upphaflega beint til varnaraðila. Sóknaraðili byggir á því að með þessu tómlæti sínu hafi varnaraðili fallist á að ganga inn í hina gagnkvæmu samninga samkvæmt 91. gr. laga nr. 21/1991, sbr. einnig 1. og 2. mgr. 92. gr. sömu laga. Varnaraðili hafi hvorki innt greiðslu sína af hendi né sett fram tryggingu samkvæmt þessum ákvæðum.
Verði fallist á framangreint beri að fallast á kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að krafan njóti rétthæðar sem búskrafa á grundvelli 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 91. gr. sömu laga. Ljóst sé að samningur aðila mæli fyrir um greiðslur smátt og smátt sem falli til á því tímabili sem um geti í 3. mgr. 91. gr. Verði fallist á að varnaraðili hafi gengið inn í hina gagnkvæmu samninga, leiði það til þess að skilyrði 3. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt.
Sóknaraðili byggir 2. varakröfu sína á því að varnaraðili hafi gengið inn í umrædda gagnkvæma samninga. Verði á hinn bóginn talið að varnaraðili hafi ekki nýtt sér heimild sína samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laga nr. 21/1991 sé þess krafist að varnaraðili skili til sóknaraðila greiðslum sem inntar hafi verið af hendi til hans eftir 22. apríl 2009 á grundvelli umræddra samninga, í samræmi við ákvæði 95. gr. sömu laga. Sóknaraðili byggir á ákvæði 95. gr. um að þrotabúi beri að skila greiðslum sem inntar hafi verið af hendi eftir að bú hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, nýti það ekki heimild sína samkvæmt 1. mgr. 91. gr.
Sóknaraðili vísar kröfum sínum til stuðnings til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 91. gr., 92. gr., 109. gr., 110. gr. og 113. gr. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi sýnt fram á beinan eignarrétt sinn að fjármunum eða öðrum réttindum í vörslum varnaraðila sem hann geti krafist að fá afhent á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar sé ekki deilt um að sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila á grundvelli þeirra samninga sem sóknaraðili byggir kröfur sínar á.
Til stuðnings málatilbúnaði sínum þess efnis að sóknaraðili eigi ekki beinan eignarrétt að eign eða réttindum í vörslum varnaraðila, byggir varnaraðili á að sóknaraðili haldi því ranglega fram að varnaraðili hafi samkvæmt umræddum rammasamningi gegnt hlutverki umsýslubanka (e. Arranger eða Agent). Hið rétta sé að skyldur varnaraðila hafi meðal annars lotið að tilteknum samskiptum við umsýslubanka þeirra lána sem samningarnir nái til. Þetta komi fram í f-lið 1. gr. rammasamkomulagsins, sem hljóði svo:
Að vera eini lögaðilinn og lánveitandi gagnvart þeim banka sem selur fjárfestinguna og/eða annast hana sem umsýslubanki (e. Agent/Arrenger) og lántakanum.
Ákvæðið sýni ótvírætt fram á að ætlun aðila hafi verið að varnaraðili væri í samningssambandi við lántakendur samkvæmt undirliggjandi lánasamningum en sóknaraðili ætti einungis kröfurétt á hendur varnaraðila sem hafi byggt á lánasamningum varnaraðila og lántakenda. Ekki verði séð að sóknaraðili hafi verið í samningssambandi við aðra en varnaraðila, enda hafi sóknaraðili samkvæmt samningum ekki átt beinan kröfurétt á hendur lántakendum. Ákvæði i-liðar 1. gr. og 9. gr. rammasamkomulagsins hefðu verið óþörf ef sóknaraðili hefði verið beinn þátttakandi sem lánveitandi í þeim lánasamningum sem sóknaraðili hafi samið um við varnaraðila. Við þær aðstæður hefði sóknaraðili sjálfur farið með atkvæðisrétt lánveitanda og ekki hefði þurft að koma til meirihlutakosningar. Ljóst sé af þessu að kröfuréttarlegt samband sóknaraðila sé við varnaraðila einan en ekki lántakendur undirliggjandi lána. Krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila á grundvelli umræddra samninga geti því ekki verið annað en fjárkrafa en ekki sérgreind eign í vörslum varnaraðila.
Varnaraðili vísar til þess að í 5. gr. samninga um aðild að fjárfestingu sé kveðið á um að varnaraðila sé heimilt að selja hlut sinn í láni því sem samningarnir taki til án samþykkis sóknaraðila. Það skilyrði sé sett að skyldur varnaraðila gagnvart sóknaraðila samkvæmt rammasamkomulagi haldist við sölu lána. Réttur sóknaraðila samkvæmt samningum um aðild að fjárfestingu takmarki ekki á neinn hátt þessa heimild varnaraðila. Varnaraðili hafnar þeirri túlkun sóknaraðila að samkvæmt ákvæðinu sé varnaraðila einungis heimilt að selja „sinn“ hlut í láni að teknu tilliti til þess sem bankinn hefði þegar selt sóknaraðila. Heimild varnaraðila til að ráðstafa með sölu hlutdeild sinni í undirliggjandi lánasamningum styðji ótvírætt þá niðurstöðu að sóknaraðili eigi ekki tilkall til undirliggjandi lánasamninga og greiðslna skuldara þeirra á grundvelli beins eignarréttar.
Varnaraðili byggir á því að hvergi komi fram í samningum sóknaraðila og varnaraðila að bankanum hafi verið eða sé skylt að halda greiðslum frá skuldurum viðkomandi lána, aðskildum frá öðru fé varnaraðila. Það styðji eindregið að sóknaraðili hafi ekki verið eigandi umræddra fjármuna. Í samræmi við þetta hafi greiðslum sem borist hafi eftir fall varnaraðila haustið 2008 ekki verið haldið sérgreindum í vörslum varnaraðila.
Varnaraðili hafnar málatilbúnaði sóknaraðila þess efnis að telja beri réttarsamband aðila máls gagnkvæma samninga. Varnaraðili byggir á því að fyrir 22. apríl 2009 hafi XV. kafli laga nr. 21/1991 ekki átt við um aðilann og þegar af þeirri ástæðu geti 1. varakrafa sóknaraðila ekki komið til álita eins og hún er sett fram. Ekki fái heldur staðist að setja fram kröfu um að viðurkennt verði að slitastjórn varnaraðila hafi tekist á hendur réttindi og skyldur samkvæmt þeim samningum sem vísað sé til í kröfugerðinni. Varnaraðili hafnar því einnig að XV. kafli laga nr. 21/1991 um gagnkvæma samninga geti átt við, sbr. 89. gr. laga nr. 21/1991 um takmörkun á beitingu reglna XV. kafla sömu laga.
Varnaraðili telur að ekki verði annað séð en að hér sé aðstaðan sambærileg og um flestar kröfur sem lýst sé við slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðili hafi efnt sínar skyldur samkvæmt umræddum samningum við varnaraðila en bankinn hafi ekki verið búinn að efna sínar skyldur gagnvart sóknaraðila. XV. kafli laga nr. 21/1991 eigi einungis við sé um viðvarandi gagnkvæman samning að ræða þar sem greiðslur hvors samningsaðila séu inntar af hendi smátt og smátt og efndir annars séu háðar efndum hins. Í þessu tilviki sé ekki um slíkt að ræða heldur séu atvik í raun sambærileg því ef sóknaraðili hefði lánað varnaraðila fé sem skyldi endurgreiða með mörgum afborgunum á tilteknum gjalddögum og kjörum eftir lánveitinguna.
Varnaraðili byggir á því að skilningur sóknaraðila á hugtakinu gagnkvæmur samningur í skilningi XV. kafla laga nr. 21/1991 sé fjarri lagi og eigi hvorki stoð í lögum né réttarframkvæmd. Sóknaraðili virðist byggja á því að XV. kafli laga nr. 21/1991 eigi við vegna þess að varnaraðili hafi átt samkvæmt samningi við sóknaraðila að inna greiðslur sínar af hendi smátt og smátt til sóknaraðila.
Varnaraðili mótmælir öllum fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að varnaraðili hafi tekist á hendur réttindi og skyldur gagnvart sóknaraðila með þeim hætti að stofnast hafi krafa á grundvelli 110. gr. laga nr. 21/1991, hvort heldur á grundvelli 3. eða 4. tl. ákvæðisins, hvort sem er fyrir eða eftir 22. apríl 2009. Þá hafi reglur XV. kafla laga nr. 21/1991 ekki gilt um varnaraðila fyrr en eftir gildistöku laga nr. 44/2009.
Varnaraðili andmælir því að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun varnaraðila hafi með meintu tómlæti samþykkt ráðstafanir sem varði kröfur sóknaraðila sem leiði til þess að samþykkja beri 1. varakröfu samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Aldrei hafi komið til álita að skilanefnd varnaraðila bæri það undir aðstoðarmanninn hvort inna skyldi af hendi greiðslur til sóknaraðila á grundvelli umræddra samninga. Samþykki aðstoðarmanns samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 hafi hvorki fengist né getað fengist á grundvelli tómlætis. Þvert á móti hlyti tómlæti aðstoðarmanns að fela í sér höfnun á því að samþykkja ráðstöfun.
Varnaraðili mótmælir tilvísun sóknaraðila til athugasemda með 110. gr. laga nr. 21/1991 Ákvæðið eigi ekki við hér því að réttarsamband aðila þessa máls eigi rætur að rekja til löggerninga sem gerðir hafi verið löngu áður en varnaraðili hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar. Sóknaraðili hafi einungis lýst kröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 í kröfulýsingu sinni. Hann hafi síðan sett fram kröfur samkvæmt 110. gr. sömu laga þegar fundur hafi verið haldinn 19. apríl 2010 til að jafna ágreining um sértökukröfu hans. Á fundinum hafi kröfu samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991 verið hafnað, á þeim grunni sem hún hafi verið sett fram. Varnaraðili hafnar sjónarmiðum um að sóknaraðili hafi unnið einhvern rétt með meintu tómlæti varnaraðila. Sóknaraðili geti ekki unnið rétt á grundvelli fullyrðinga og fyrirspurna sem ekki eigi stoð í lögum með því að þeim sé ekki þegar andmælt eða svarað.
Niðurstaða
Aðalkrafa sóknaraðila samkvæmt breyttri kröfugerð hans er að viðurkennt verði að krafa sóknaraðila að fjárhæð 76.740 evrur sem varnaraðili tók við á tímabilinu 8. október 2008 - 22. apríl 2009, en skilaði ekki til sóknaraðila, njóti rétthæðar sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991. Þá lýtur b-liður aðalkröfu sóknaraðila að því að viðurkennt verði að hlutdeild sóknaraðila í þeim fjárhæðum sem varnaraðili hefur tekið við og mun taka við eftir 22. apríl 2009 og ,,hann á rétt til á grundvelli rammasamkomulags aðila frá 14. nóvember 2007 og samnings aðila um fjárfestingu frá 28. maí 2008“, njóti rétthæðar sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991.
Enginn ágreiningur er um fjárhæð kröfunnar eða útreikning hennar, en í kröfulýsingu sóknaraðila er gerð sú grein fyrir kröfunni að um sé að ræða kröfu um skil á vaxtagreiðslum og afborgunum er varnaraðili hafi ekki skilað til sjóða Landsvaka í samræmi við fyrirliggjandi samninga um hlutdeild í lánasamningum.
Í 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er mælt fyrir um rétthæstu kröfurnar á hendur þrotabúi, þar sem segir að afhenda skuli eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni, ef hann sanni eignarrétt sinn að þeim. Skilyrði þess að unnt sé að afhenda slík réttindi þriðja manni, eru því hvorutveggja vörslur þrotabús á eign eða réttindum, og sönnun þriðja manns að eignarrétti þess sem krafist er.
Í málinu liggja frammi samrit reikningsyfirlita varnaraðila vegna reikninga í eigu sóknaraðila þar sem fram koma inn- og útborganir vegna viðskipta þeirra sem mál þetta fjallar um. Í málinu hefur ekki verið á því byggt að sú fjárhæð sem krafist er að njóti rétthæðar sem sértökukrafa sé ekki í vörslum varnaraðila. Meginágreiningur vegna aðalkröfu málsins snýst því um hvort um sé að ræða eign eða réttindi sem varnaraðili á ekki tilkall til í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991.
Í málinu liggur fyrir rammasamkomulag aðila, þar sem kveðið er á um samstarf aðila í tengslum við ýmis lánaverkefni, eins og það er orðað í samkomulagi þessu. Þar segir í e-lið 1. gr. að hlutverk varnaraðila sé að tilkynna þeim banka sem selji fjárfestingu eða annist hana sem umsýslubanki, óskir varnaraðila um þátttöku með tilliti til óska sóknaraðila. Í f-lið 1. gr. rammasamkomulagsins segir jafnframt að hlutverk varnaraðila sé að vera eini lögaðilinn og lánveitandinn gagnvart þeim banka sem selji fjárfestinguna og/eða annist hana sem umsýslubanki og lántakandanum. Í h- lið 1. gr. segir og að hlutverk varnaraðila sé að tryggja að allar greiðslur frá umsýslubanka eða lántaka berist sóknaraðila.
Í 3. gr. samnings aðila um aðild að fjárfestingu frá 28. maí 2008 segir að sóknaraðili skuldbindi sig til þess að greiða varnaraðila fyrir hlutdeild sína á ákveðnum degi og skuldbindi varnaraðili sig til þess að greiða sóknaraðila vexti og afborganir í réttu hlutfalli við hlutdeild sóknaraðila í lánshluta varnaraðila, jafnóðum og þær berist frá lántaka.
Þá segir í 5. gr. samnings aðila að sóknaraðila sé óheimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningnum nema með samþykki varnaraðila og einnig segir þar að varnaraðila sé heimilt að selja ,,hlut sinn í láni því sem samningur þessi tekur til að hluta eða öllu leyti og skal tilkynna LMF söluna jafnóðum og framsal á sér stað. LÍ skal þó áfram bera skyldur gagnvart LMF eins og samningur þessi og rammasamkomulag aðila kveður á um“.
Af ákvæðum rammasamkomulags aðila, einkum þeirra sem að ofan er getið, verður ekki annað ráðið en að hlutverk varnaraðila hafi fyrst og fremst verið að hafa milligöngu um viðskipti milli sóknaraðila og þeirra fjármálafyrirtækja sem voru lántakar samkvæmt samningum aðila um aðild að fjárfestingu. Samkvæmt 3. gr. samnings aðila frá 28. maí 2008, um þá tilteknu fjárfestingu sem mál þetta lýtur að, skyldi varnaraðili afhenda sóknaraðila vexti og afborganir, jafnskjótt og þær bærust frá lántaka. Þær greiðslur áttu því aldrei að renna saman við aðrar eignir varnaraðila. Þá verður 5. gr. samnings aðila um aðild að fjárfestingu með engu móti túlkuð á annan veg en þann að varnaraðila hafi einvörðungu verið heimilt að selja þann hlut sem hann átti í láni því sem samningurinn tók til, enda skyldi bankinn áfram bera skyldur gagnvart sóknaraðila samkvæmt samningnum. Bendir orðalag þessa ákvæðis til þess að réttur varnaraðila yfir láninu og vaxtagreiðslum vegna þess, náði einvörðungu til þess hlutar, en ekki þess hlutar sem sóknaraðili hafði eignast hlutdeild í með samningi um aðild að fjárfestingu.
Þegar allt framangreint er virt og litið er til rammasamkomulags aðila, auk samnings um aðild að fjárfestingu, er það mat dómsins að sóknaraðili hafi sýnt fram á eignarrétt sinn að þeirri fjárhæð sem krafist er að njóti sértökuréttar við skipti varnaraðila og að varnaraðili eigi ekki tilkall til þessarar fjárhæðar.
Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að greiðslum sem borist hafa eftir fall varnaraðila haustið 2008 vegna ofangreindra samninga hafi ekki verið haldið sérgreindum í vörslum varnaraðila. Því séu skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 ekki uppfyllt.
Samkvæmt 11. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti skal fjármálafyrirtæki halda fjármálagerningum viðskiptavina tryggilega aðgreindum frá eignum fjármálafyrirtækisins. Þá skal fjármálafyrirtæki jafnframt halda öðrum fjármunum viðskiptavina tryggilega aðgreindum frá eignum fjármálafyrirtækisins, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Ákvæði þessu er ætlað að treysta réttarstöðu viðskiptavina við greiðsluörðugleika fjármálafyrirtækja, einkum þegar fjármálafyrirtæki hefur tekið að sér eignastýringu eða fjárvörslu. Þannig tengist ákvæðið 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti, eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 108/2007.
Samkvæmt ákvæði þessu bar varnaraðila að halda þeim greiðslum sem bárust honum á grundvelli þeirra samninga er mál þetta tekur til, sérgreindum frá öðrum eignum varnaraðila. Á sóknaraðili ekki að gjalda þess að svo var ekki gert. Að mati dómsins hefur sóknaraðili sannað eignarrétt að þeirri tilgreindu fjárhæð sem mál þetta varðar og að hún sé í vörslum varnaraðila. Verður því fallist á að krafa hans að fjárhæð 76.740 evrur, sem varnaraðili tók við á tímabilinu 8. október 2008 22. apríl 2009 en skilaði ekki til sóknaraðila á grundvelli rammasamkomulags Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf., dags. 14. nóvember 2006 og samnings um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008, njóti rétthæðar sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt er viðurkennt að hlutdeild sóknaraðila í þeim fjárhæðum sem varnaraðili hefur tekið við og mun taka við eftir 22. apríl 2009 og hann á rétt til á grundvelli rammasamkomulags Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf., dags. 14. nóvember 2006 og samnings um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008, njóti rétthæðar sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991.
Í ljósi atvika málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmaður og af hálfu varnaraðila flutti málið Pétur Örn Sverrisson héraðsdómslögmaður.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Krafa sóknaraðila, Landsvaka hf. að fjárhæð 76.740 evrur, sem varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., tók við á tímabilinu 8. október 2008 22. apríl 2009 en skilaði ekki til sóknaraðila á grundvelli rammasamkomulags Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf., dags. 14. nóvember 2006 og samnings um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008, er viðurkennd sem sértökukrafa við slitameðferð varnaraðila, á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991.
Jafnframt er viðurkennt að hlutdeild sóknaraðila í þeim fjárhæðum sem varnaraðili hefur tekið við og mun taka við eftir 22. apríl 2009 og hann á rétt til á grundvelli rammasamkomulags Landsvaka hf. f.h. Landsbanki Mezzanine Fund II og Landsbanka Íslands hf. dags. 14. nóvember 2006 og samnings um aðild að fjárfestingu dags. 28. maí 2008, njóti rétthæðar sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Málskostnaður fellur niður milli aðila.