Hæstiréttur íslands

Mál nr. 585/2016

Jóhann Júlíus Jóhannsson, Anton Konráðsson og Kristín Anna Gunnþórsdóttir (Árni Pálsson hrl.)
gegn
Fiskmarkaði Siglufjarðar ehf. (Valtýr Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Laun
  • Uppsagnarfrestur

Reifun

J, A og K störfuðu hjá R hf. og unnu við að landa úr skipum.Var þeim sagt upp í mars 2013 þar sem ákveðið var að færa þann hluta starfsemi R hf. í annað fyrirtæki. J, A og K hófu störf hjá F ehf. í júlí 2013 en var sagt upp í september 2014. Ágreiningur málsins snérist um það hvort að J, A og K ættu rétt á lengri uppsagnarfresti en sem næmi einum mánuði á grundvelli réttinda sem þau hefðu áunnið sér hjá R hf. Var vísað til þess að F ehf. hefði ekki keypt nein áþreifanleg verðmæti af R hf. eða fengið einhver óáþreifanleg verðmæti framseld. Meðal annars með vísan til þess var talið að ekki hefði orðið aðilaskipti á efnahagslegri einingu eða skipulagðri heild verðmæta samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Var F ehf. því sýknað af kröfum J, A og K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 2016. Áfrýjandinn Jóhann Júlíus Jóhannsson krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 860.780 krónur. Áfrýjandinn Anton Konráðsson krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 900.026 krónur. Áfrýjandinn Kristín Anna Gunnólfsdóttir krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 820.147 krónur. Í öllum tilvikum gera áfrýjendur kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. desember 2014 til 1. janúar 2015, en af nánar tilgreindum fjárhæðum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.  

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Jóhann Júlíus Jóhannsson, Anton Konráðsson og Kristín Anna Gunnólfsdóttir, greiði óskipt stefnda, Fiskmarkaði Siglufjarðar ehf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.               

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. júní 2016.

Mál þetta var dómtekið 14. apríl sl. Það var höfðað 29. október sl.

Stefnendur eru Jóhann Júlíus Jóhannsson, Mararbyggð 12, Ólafsfirði, Anton Konráðsson, Ólafsvegi 51, Ólafsfirði og Kristín Anna Gunnólfsdóttir, Ólafsvegi 43, Ólafsfirði.

Stefndi er Fiskmarkaður Siglufjarðar ehf., Norðurgötu 24, Siglufirði. Til fyrirsvars er stefnt stjórnarformanni, Ragnari Hirti Kristjánssyni.

Stefnandi Jóhann Júlíus krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 860.780 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 361.148 krónum frá 1. desember 2014 til 1. janúar 2015, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi.

Stefnandi Anton krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 900.026 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 389.763 krónum frá 1. desember 2014 til 1. janúar 2015, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi.

Stefnandi Kristín Anna krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 820.147 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 454.370 krónum frá 1. desember 2014 til 1. janúar 2015, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi.

Stefnendur krefjast einnig hvert um sig málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar.    

I

Stefnendur störfuðu hjá Ramma hf. á Siglufirði og unnu við að landa úr skipum. Þeim var sagt upp með bréfi 26. mars 2013. Segir þar að vegna aukinna umsvifa í löndunarþjónustu þyki fyrirkomulagið orðið óheppilegt. Hafi verið ákveðið að færa þennan hluta starfsemi Ramma hf. í annað fyrirtæki. Áður en uppsagnarfrestur renni út verði haft samband og boðið áframhaldandi starf hjá nýju fyrirtæki.

Stefnendur hófu störf hjá stefnda 1. júlí 2013. Tók stefndi við verkefnum við löndun úr skipum Ramma hf. Þeim var sagt upp störfum þann 30 september 2014. Kom þar fram sá skilningur stefnda að þau ættu ekki rétt á lengri uppsagnarfresti en sem næmi einum mánuði. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort stefnendur hafi átt að njóta hjá stefnda þeirra réttinda sem þau höfðu áunnið sér hjá Ramma hf., þ.e. hvort orðið hafi aðilaskipti samkvæmt lögum nr. 72/2002.    

II

Stefnendur segja að stefndi hafi tekið við þeim hluta starfsemi Ramma hf. sem stefnendur hafi unnið við. Engin breyting hafi orðið við það á störfum stefnenda. Hafi ekkert breyst annað en að ný aðstaða hafi verið til að klæðast vinnufötum, við hlið hinnar fyrri. Verkefni hafi verið hin sömu og unnin með sömu tækjum og tólum sem fyrr.

Stefnendur kveðast byggja á því að þegar metið sé hvort aðilaskipti hafi átt sér stað verði að horfa til þess að stærstur hluti lausafjár tengdu starfseminni hafi flust yfir, sem og viðskiptasambönd og saga Ramma hf. varðandi þessa tilteknu starfsemi. Allir þeir starfsmenn sem hafi sinnt löndunarþjónustu hjá Ramma hf. hafi flust yfir til stefnda og sem fyrr greini hafi ekki orðið nein skil þar á milli. Starfsemin hafi haldist óslitin. Uppsagnarfrestur stefnenda hjá Ramma hf. hafi runnið út í lok júní 2013 og þegar 1. júlí hafi þau byrjað störf hjá stefnda í samræmi við það sem fram hafi komið í uppsagnarbréfum. Um nákvæmlega sömu starfsemi hafi verið að ræða og verkefni unnin af sama fólki og áður.

Stefnendur byggja á því samkvæmt þessu að þau hafi átt rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests hjá stefnda, vegna áunnins starfsaldurs hjá Ramma hf.    

III

Stefndi kveðst ekki hafa yfirtekið löndunarþjónustu Ramma hf. Kveður hann Ramma hf. ekkert hafa átt í stefnda frá árinu 2006, en áður hafi hann átt lítinn hlut. Séu engin eignatengsl milli félaganna.

Stefndi hafi starfrækt löndunarþjónustu frá árinu 2004. Hafi verið notaður búnaður stefnda, en af og til leigð tæki frá Ramma hf.

Eftir opnun Héðinsfjarðarganga árið 2010 hafi viðskiptamenn í auknum mæli leitað til stefnda um löndunarþjónustu, sem hann hafi ekki að öllu leyti getað orðið við. Hann hafi þá keypt löndunarþjónustu af Ramma hf. og fyrirtæki á Dalvík. Hafi starfsmenn þeirra þá séð um löndunina, en stefndi greitt fyrir samkvæmt reikningi.

Þegar fyrir hafi legið að Rammi hf. myndi hætta eigin löndunarþjónustu hafi stefndi kynnt honum sína. Viðræður hafi aðeins lotið að gjaldskrá stefnda. Ekki hafi verið um að ræða samning og alveg ljóst að Rammi hf. hafi ekki verið bundinn við að láta skip sín landa í Fjallabyggð eða hjá stefnda. Ekki hafi komið til tals að stefndi keypti eða tæki yfir löndunarþjónustu Ramma hf. Engir samningar hafi því verið gerðir þar um. Hvorki áþreifanleg né óhlutbundin verðmæti hafi verið framseld. Fyrirsvarsmenn Ramma hf. og stefnda hafi aldrei rætt í raun um möguleg kaup stefnda á löndunarþjónustunni. Hún hafi einfaldlega verið lögð niður.

Stefnendur hafi byrjað störf hjá stefnda í júlí 2013. Stefnandi Jóhann Júlíus hafi komið til framkvæmdastjóra stefnda með uppsagnarbréf Ramma hf. og óskað eftir vinnu. Hafi hann verið ráðinn í fullt starf við að hafa umsjón með löndunarþjónustu, en í því hafi falist að kalla til mannskap í landanir, auk þess sem hann hafi sinnt öðrum störfum hjá stefnda. Aðrir stefnendur hafi aðeins sinnt löndunarþjónustu þegar stefnandi Jóhann Júlíus hafi kallað þau til. Hafi stefnendur gengið inn í hefðbundna launasamninga stefnda, líkt og annað nýtt starfsfólk. Eftir að hafa unnið hjá stefnda í rúmlega ár hafi þeim verið sagt upp störfum með eins mánaðar uppsagnarfresti í samræmi við starfstíma þeirra hjá stefnda og í samræmi við kjarasamninga. Stefnendur Jóhann Júlíus og Kristín Anna hafi unnið í uppsagnarfresti, en stefnandi Anton ekki.

Stefndi byggir á því að ekki hafi átt sér stað aðilaskipti í skilningi laga nr. 72/2002. Rammi hf. hafi lagt niður sína löndunarþjónustu árið 2013. Stefndi hafi byrjað starfsemi árið 2004 og hafi verið með eigin löndunarþjónustu síðan. Hann hafi hvorki keypt þjónustu Ramma hf. né yfirtekið starfsemina. Þannig hafi hann ekki yfirtekið starfsemi Ramma hf. eða keypt viðskiptavild eða rekstur. Fjórir starfsmenn frá Ramma hf. hafi verið ráðnir til stefnda. Það eitt þýði ekki að aðilaskipti hafi orðið. Hafi stefndi þannig ekki komið að rekstri löndunarþjónustu Ramma hf., þótt Rammi hf. hafi í framhaldinu keypt þjónustu af stefnda þegar það hafi hentað.

IV

Stefnendur gáfu skýrslur fyrir dómi, svo og Steingrímur Óli Hákonarson, fram­kvæmdastjóri stefnda og Ólafur Helgi Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma hf.

Eins og áður er getið segir í uppsagnarbréfum til stefnenda að ákveðið hafi verið að færa löndunarþjónustu Ramma hf. í annað fyrirtæki. Verði haft samband og boðið áframhaldandi starf hjá nýju fyrirtæki.

Meðal málsgagna er tölvupóstur frá framkvæmdastjóra Ramma hf. til fram­kvæmdastjóra stefnda, dagsettur 11. desember 2014. Kemur þar fram að þegar starfs­mönnum Ramma hf. hafi verið sagt upp hafi verið uppi áform um að stofna dótturfyrirtæki sem tæki að sér alhliða skipaþjónustu. Einnig hafi verið rætt að félag sem Rammi hf. hafi átt hlut í tæki að sér þessa þjónustu. Því hafi fyrrnefnd ráðagerð verið í uppsagnarbréfunum. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en á seinni stigum sem viðræður og í kjölfarið samningar, hafi tekist við stefnda.

Samkvæmt 4. tl. 2. gr. laga nr. 72/2002 eru aðilaskipti í skilningi laganna aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Segir í frumvarpi til laganna að það sé lagt fram m.a. til innleiðingar á tilskipun nr. 2001/23/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti. Einnig er þar rakið að í máli nr. C-24/85 hafi Evrópudómstóllinn talið meginviðmiðið til að ákvarða hvort um væri að ræða aðilaskipti vera hvort fyrirtæki héldi einkennum sínum. Hafi hann gefið dómstólum aðildarríkjanna ákveðnar leiðbeiningar um þau atriði sem hafi skuli í huga við mat á því hvort aðilaskipti að fyrirtæki féllu undir gildissvið tilskipunarinnar. Þar á meðal þurfi að líta til þess um hvaða tegund fyrirtækis sé að ræða. Einnig geti skipt máli hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld og hvert sé verðmæti óhlutbundinna verðmæta þegar aðilaskipti fari fram. Jafnframt sé litið til þess hvort meiri hluti starfsmanna flytjist til hins nýja vinnuveitanda og hvort hann haldi viðskiptavinum framseljanda. Þá geti tími sem starfsemi liggi niðri haft áhrif á matið, svo og að hve miklu leyti rekstur sé sambærilegur eftir aðilaskipti. Skyldi líta heildstætt á þessi atriði.

Eins og þetta mál liggur fyrir tók Rammi hf. ákvörðun um að hætta alfarið löndun á eigin vegum. Ráðagerð var um að stofna dótturfyrirtæki um löndunina eða sameina þennan þátt öðru félagi sem Rammi hf. átti að hluta, en af hvorugu varð. Varð úr að Rammi hf. fór að kaupa þessa þjónustu af stefnda, sem hafði fyrir þetta boðið upp á löndun. Stefndi réð til sín fjóra starfsmenn Ramma hf. af þessu tilefni, eftir því sem segir í greinargerð stefnda, en ekki liggur fyrir að stefndi hafi keypt nein áþreifanleg verðmæti af Ramma hf. eða fengið einhver óáþreifanleg verðmæti framseld. Þegar þetta er virt í heild þykir ekki verða miðað við að orðið hafi aðilaskipti á efnahagslegri einingu eða skipulagðri heild verðmæta. Verður því að leggja til grundvallar að stofnað hafi verið til nýs og sjálf­stæðs réttarsambands þegar stefnendur hófu störf hjá stefnda.

Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda, en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Fiskmarkaður Siglufjarðar ehf., er sýkn af kröfum stefnenda, Jóhanns Júlíusar Jóhannssonar, Antons Konráðssonar og Kristínar Önnu Gunnólfsdóttur í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.