Hæstiréttur íslands
Mál nr. 281/1998
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Sýkna
|
|
Fimmtudaginn 4. febrúar 1999. |
|
Nr. 281/1998. |
Ákæruvaldið (Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Andri Árnason hrl.) |
Kynferðisbrot. Sýkna.
Læknirinn X var ákærður fyrir fyrir brot gegn 138. og 196. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa haft samfarir við Y þegar hún gat ekki spornað við samræðinu sökum sljóvgaðs ástands af völdum róandi lyfja er X hafði gefið henni. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum hafði sýknað X. Ekki þóttu efni til að hnekkja mati héraðsdóms á sönnunargögnum og mat þeirra á munnlegum framburði X sætti ekki endurskoðun Hæstaréttar. Var dómur héraðsdóms því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar samkvæmt 148. gr., sbr. b- og c-liði 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Krefst hann þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing, en til vara, að hinn áfrýjaði dómur og málsmeðferð í héraði frá upphafi aðalmeðferðar 29. maí 1998 verði ómerkt og málinu vísað heim í hérað til frekari gagnaöflunar, nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
Héraðsdómur var kveðinn upp af þremur dómurum, tveimur embættisdómurum og einum sérfróðum meðdómanda, sem er geðlæknir. Í dóminum er lýst mati þeirra á munnlegum framburði ákærða og verður niðurstaða þess ekki endurmetin af Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991.
Í málinu liggja fyrir gögn, sem gefa til kynna að kærandi hafi, fyrir og eftir afskipti ákærða af henni, neytt ýmissa annarra lyfja en sannað er að ákærði gaf henni. Er þetta nánar rakið í héraðsdómi. Það var niðurstaða dómsins að við mat á framburði kæranda yrði að líta til þessa. Ríki um það óvissa hvaða lyfja hún hafði neytt, í hvaða magni og hver áhrif þau hefðu haft á meðvitund hennar á þeim tíma, sem ákærði hafði kynmök við hana eftir hádegi 13. janúar 1998. Framburður kæranda ber með sér djúpstætt minnisleysi hennar um ýmislegt, sem hún aðhafðist sannanlega umrædda nótt og eftirfarandi dag. Er það álit héraðsdóms að hegðan fólks við slíkar aðstæður þurfi ekki að benda til þess að um óeðlilegt ástand sé að ræða.
Þegar gögn málsins í heild eru virt þykja ekki efni til að hnekkja mati hins áfrýjaða dóms á sönnunargögnum eða vísa málinu heim til nýrrar meðferðar, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt framansögðu og með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjunarkostnað ber að greiða úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.
Áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 1998
Ár 1998, föstudaginn 19. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara sem dómsformanni, Ásgeiri Karlssyni geðlækni og Sigurði T. Magnússyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 343/1998: Ákæruvaldið gegn X, sem tekið var til dóms 29. maí sl.
Málið er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara dagsettu 31. mars sl. gegn ákærða X, kt. ...., ..., ..., „fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi, með því að hafa laust eftir hádegi þriðjudaginn ... 1998, á heimili Y, að ..., þangað sem ákærði kom þá í fjórðu ferð sína á síðustu 12 klukkustundum sem vakthafandi læknir á bæjarvakt, misnotað aðstöðu sína sem læknir eftir að Y hafði með símtali við Læknavaktina sf. nóttina áður óskað eftir læknisaðstoð að heimili sínu, haft holdlegt samræði við konuna og notfært sér það að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum slæfðs ástands af völdum róandi lyfja, er ákærði hafði gefið henni sem læknir í fyrstu ferðum sínum til konunnar um nóttina og morguninn.
Telst þetta varða við 196. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992 og 138. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu krefst Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, héraðsdómslögmaður, miskabóta fyrir hönd Y úr hendi ákærða, 2.000.000 króna, auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti og dráttarvöxtum frá 14. janúar 1998 til greiðsludags.“
Málavextir eru þessir:
Um kl. 22.50 að kvöldi 13. janúar sl. kom Y á neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna ætlaðrar nauðgunar X læknis. Var hún í fylgd dóttur sinnar, .... Jafnframt kvaddi lögfræðingur neyðarmóttöku lögreglu á vettvang, en ekki var unnt að taka skýrslu af Y vegna ástands hennar. Samkvæmt skýrslu neyðarmóttöku var hún undir áhrifum lyfja, þvoglumælt, fjarræn og kvaðst hafa tekið fyrir komuna á neyðarmóttökuna noskiam, saroten og drukkið bjór. Hún sýndi ekki kreppueinkenni, en læknirinn á neyðarmóttöku, Ragnheiður Bjarnadóttir, kvað það geta stafað af ástandi hennar vegna töku róandi/kvíðastillandi lyfja. Þar skýrði hún svo frá að hún hafi farið út að skemmta sér kvöldið áður á Nellý's og lent þar í ryskingum við ókunnuga konu, sem kastaði henni utan í súlu og hafi hún lent á vinstri síðu. Y var síðan vísað út af staðnum. Vinur hennar hafi ekið henni heim. Hún hafi hringt á læknavaktina um nóttina og læknir fljótlega komið. Hann hafi verið hræddur um að hún hefði rifbrotnað og að lungað hefði fallið saman. Hann hafi viljað hlusta hana í rúmi í svefnherbergi og látið hana fara úr að ofan, sprautað hana svo í æð og hún orðið mjög sljó. Hann hafi beðið hana um lykil svo að hann gæti fylgst með henni um nóttina. Hún hafi vaknað við að hann hafi komið aftur og beðið um að fá að leggja sig hjá henni og hvíla sig. Hún hafi játað því, enda verið mjög sljó, en svo vaknað við það að hann var að hafa við hana samfarir, tvisvar að hana minnti. Eftir það hafi hún legið í móki allan daginn og ekki vaknað þótt lögreglan kæmi og hringdi, að beiðni fyrrverandi eiginmanns hennar. Dóttir hennar hafi komið fyrr um kvöldið og hún sagt henni frá þessu. Læknirinn hafi svo hringt um kl. 20.00 og viljað hitta hana aftur, en hún ekki viljað það. Aðspurð um lyfjaneyslu kvaðst hún neyta díazepam 5 mg x 3 á dag, oft fleiri, saroten og cipramíl, 1 á dag.
Fram kemur í niðurstöðu læknisskoðunar á Y í neyðarmóttöku að merki voru um stungu í æð á báðum handleggjum og þar umhverfis og hægra handarbaki. Nýir marblettir voru í kringum stunguför og einnig voru gamlir marblettir á báðum upphandleggjum. Grunur var um rifbrot og var slysadeildarlæknir fenginn til að meta það og áverka á vinstri úlnlið. Við skoðun fundust ekki merki um sæði og ekki voru áverkar á kynfærum. Hins vegar voru tekin sýni úr slími frá leggöngum kæranda. Lögregla sendi sýnin 16. janúar sl. Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði og var óskað rannsóknar á því, hvort sæði fyndist í sýnunum með tilliti til DNA greiningar. Fullnaðarniðurstaða Rettmedisinsk Institut í Osló frá 15. apríl sl. var sú að erfðaefni það, sem vannst úr sæðisfrumum í leggöngum Y kom heim og saman við það að vera frá ákærða og kemur fram í niðurstöðunni að líkurnar fyrir því að finna annan mann, honum óskyldan, sem hafi samskonar erfðagerð teldust vera 1:1.000.000.000.
Þann 16. janúar sl. bað lögreglan í Reykjavík Rannsóknastofu Háskólans um allsherjar lyfjaleit í blóðsýni og þvagsýni Y, sem tekin voru úr henni á neyðarmóttöku. Samkvæmt niðurstöðu Þorkels Jóhannessonar prófessors í lyfjafræði við rannsóknastofu Háskólans mældist alkóhól hvorki í blóði né þvagi. Um niðurstöðu lyfjaleitar segir svo í niðurstöðu hans:
Amfetamín eða kókaín/benzóýlekgónín voru ekki í mælanlegu magni í þvaginu, fundið með mótefnismælingu (TDX). Í þvaginu voru hins vegar benzó- díazepínsambönd, kannabínóíðar og morfínlyf. Staðfest var með gasgreiningu og massagreiningu að í þvaginu væri tetrahýdró-kannabínólsýra. Við staðlaða leit að basískum lyfjum í þvagi fundust tramadól og virkt umbrotsefni þess, O-desetýltramadól, og prómetazín. Við staðlaða leit að súrum og hlutlausum lyfjum í þvagi fannst paracetamól.
Með vökvagreiningu á súlu fannst díazepam í blóðinu, 750 ng/ml, nordíazepam 590 ng/ml. klórdíazepoxíð 200 ng/ml, desmetýlklórdíazepoxíð 500 ng/ml og demoxepam 400 ng/ml. Tramadól í blóðinu var 1 míkróg/ml og prómetazín 110 ng/ml, hvort tveggja fundið með gasgreiningu á súlu. O-desemtýltramadól var hins vegar ekki í mælanlegu magni í blóðinu (<100 ng/ml). Blóðsýnið var of lítið til ákvörðunar á paracetamóli.
Samanlagt magn díazepams og klórdíazepoxíðs, sem hvort tveggja eru róandi lyf og svefnlyf, og virkra umbrotsefna þeirra í blóðinu var vel umfram lækningalega þéttni. Magn prómetazíns, sem einnig er róandi lyf, var einnig öllu meira í blóði en búast má við eftir töku lækningalegra skammta. Tramadól er morfínlyf (sterkt verkjadeyfandi lyf) með nokkuð sérstæða verkun. Óljóst er um þéttni þess í blóði eftir töku lækningalegra skammta. Samt má ætla, að það magn, sem hér um ræðir, gæti samrýmst töku lyfsins í lækningalegum skömmtum. Hins vegar má ætla, að öll fyrrnefnd lyf hafi samverkandi slævandi verkun. Hefur því hlutaðeigandi án efa verið í mjög slævðu ástandi, þegar sýnin voru tekin.“
Við rannsókn málsins var með leyfi kæranda aflað vottorðs Gunnars Inga Gunnarssonar, heimilislæknis hennar, sem dagsett er 9. mars sl., um lyfjaávísanir læknisins til hennar. Þar kemur fram að kærandi er skjólstæðingur læknisins og að þau hafi gert um það samkomulag að hann einn myndi sjá um allar lyfjaávísanir til hennar. Hún hafi síðast fengið ávísuð eftirfarandi lyf 29. desember 1997:
1.T. Rhohyphnol 1 mg., 30 stk, 1 fyrir svefn.
2.T. Saroten 25 mg., 100 stk, 1 fyrir svefn.
3.T. Díazepame 5 mg., 50 stk, 1-2 á dag.
4.T. Cipramil 20 mg., 28 stk, 1 á dag.
5.T. Parkodin forte 40 stk, 1-3 á dag.
Í málinu liggur einnig frammi vottorð Ragnheiðar Indriðadóttur sálfræðings dags. 25. maí sl. Þar kemur fram að Y hafi verið vísað til hennar af neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur, en þangað hafi hún leitað „eftir að hafa orðið fyrir kynferðisbroti“. Um ástand hennar þá segir í vottorðinu: „Þegar hún kom var hún mjög óörugg og kvíðin. Hún átti erfitt með að tjá sig og virtist vera á varðbergi gagnvart mér. Síðan höfum við hist sex sinnum. Að sögn Y hefur líðan hennar verið mjög bágborin eftir áfallið er hún varð fyrir. Hún finnur fyrir öryggisleysi og mikilli spennu. Hún á erfitt með að fara út á meðal fólks af ótta við að rekast á meintan geranda. Hún sefur óvært, hvílist illa og fær oft martraðir sem eru tengdar kynferðisbrotinu. Hún á erfitt með einbeitingu og finnur fyrir miklu eirðarleysi. Ofangreinda erfiðleika er algengt að sjá sem afleiðingar nauðgunar.“
Y hefur átt við erfiðleika að stríða í sínu lífi. Líðan hennar nú er slæm og virðist sem þessi atburður hafi enn aukið á vanlíðan hennar og erfiðleika. Met ég það þannig að hún eigi enn eftir töluvert „í land“ með að ná jafnvægi í tilfinningalífi sínu.“
Sjá má af skýrslu lögreglu 13. febrúar sl. að lögregla hafi verið send að boði stjórnastöðvar á heimili kæranda til að kanna ástand hennar og komið þangað kl. 17.45, en ekki hafi verið svarað er knúð var á dyr. Ekki kemur fram í skýrslunni hver óskaði lögregluaðstoðar í þessu efni, en samkvæmt símtali rannsóknarlögreglu við eiginmann kæranda 16. janúar sl., sem þá var í áfengismeðferð á Vogi, hringdi hann í lögreglu og bað um að að ástand Y yrði kannað þar sem hann hafði af henni áhyggjur. Fram kom að hann hafi hringt til hennar fyrr um morguninn og þá rætt við ákærða.
Fyrir liggja í málinu útskriftir Landsíma Íslands um hringingar úr og í síma kæranda frá miðnætti 13. janúar sl. til miðnættis daginn eftir, en þessar upplýsingar voru veittar að undangengnum dómsúrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur. Þar kemur fram að hringt var úr númeri Y kl. 2.34 til Landspítalans og á læknavaktina kl. 2.38, en þessar hringingar kannast Y við. Efni þeirrar síðarnefndu er rakið hér á eftir. Þá er skráð hringing hennar til H.B. kl. 4.04, en þann mann kveðst hún þekkja og tvö stutt símtöl úr síma hennar nokkrum mínútum síðar og enn tvö símtöl á læknavaktina, kl. 5.42 og 6.58. Fram kemur að hringt er um nóttina tvívegis frá læknavaktinni í síma Y, kl. 4.45 og 6.04, og er efni þeirra einnig rakið hér á eftir. Um hádegi þennan dag, kl. 12.19 er hringt úr síma kæranda á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur. Hvorki ákærði né kærandi kannast við þá hringingu. Þá kemur fram að hringt hafi verið úr síma norður í landi kl. 12.24 og er það langt símtal. Kærandi kannast við mann í þessu númeri, en man ekki eftir símtalinu, svo sem síðar verður rakið. Tvær hringingar eru skráðar úr síma hennar til læknavaktarinnar um kl. 12.35 auk tveggja hringinga, kl. 14.37 og 14.41, til ættingja ákærða annars vegar og Flugleiða hins vegar, en tvö síðargreind símtöl kannaðist ákærði við að hafa átt.
Samkvæmt vottorði Heilsugæslustöðvarinnar á Seltjarnarnesi 28. maí sl. var könnuð skráning á samskiptum ákærða við sjúklinga þennan dag. Kom í ljós að skráð voru samskipti hans við tvo sjúklinga, kl. 10.00 og símtal kl. 12.00.
Við rannsókn málsins var aflað útskriftar af samtölum læknavaktarinnar við kæranda og samtali ákærða við hjúkrunarfræðing vaktarinnar þessa nótt. Þar kemur fram að kl. 2.35 hringdi Y í læknavaktina og bað um næturlækni þar sem hún hefði fengið högg á bringubein eða brjóst og hún vilji vita hvort lungun hafi fallið saman. Segist hún eiga „ofsalega erfitt“ með andardrátt og hafi mikil særindi frá lunganu, en hún komist ekki til að láta hlusta sig. Aðspurð vildi hún ekki gefa upp hver væri heimilislæknir hennar. Var ákveðið að senda lækni á vakt til hennar. Næsta símtal er skráð kl. 4.00. Hjúkrunarfræðingurinn segir við Y að læknirinn vilji tala við hana. Í framhaldi af því spyr hann um líðan hennar, meðal annars um andardrátt. Hún segist vera „slöpp“, það blási í brjósti hennar en hún sé að reyna að vera róleg. Kl. 4.40 er skráð annað símtal ákærða við Y. Hann spyr hana hvort „þetta“ hafi slegið á, en hún svarar að henni sé mjög þungt. Í framhaldi þess spyr ákærði hvort hún vilji fara á spítala, en hún svarar einhverju út í hött og segist vera móð og sér líði illa. Hann spyr hvort hann eigi að koma við hjá henni, hvort rétt sé að sjá til eftir klukkustund. Hann hafi af henni áhyggjur þar sem honum hafi fundist hún svo móð áðan. Hún svarar því til að hún sé móð og eigi erfitt með andardrátt. Á ný spyr hann hana hvort hún vilji ekki leggjast inn, en hún svarar því ekki og spyr ákærði þá hvort mæðin sé að aukast, hún andi svo ótt. Hann kveðst ekki sáttur við að geta ekki gert fyrir hana það sem hann vilji. Hún sé á hans ábyrgð þar sem hún hafi kallað á aðstoð læknavaktarinnar. Í lok samtalsins kveðst hann munu hringja í hana eftir klukkustund, en ef henni þyngi skuli hún hringja og hann spyr hvort hún komist til dyra, en segist hafa tekið úr lás. Hún svarar að hún komist til dyra og hann segist munu koma á eftir, en ítrekar að hún skuli hringja ef henni versni og segir jafnframt að hann geti ekkert gert sem hún samþykki ekki. Í viðtalinu kemur einnig fram að hann spyr hvar börn hennar séu, en hún svari því til að þau séu að heiman. Hún segir m.a.: „Ef ég reyni að að hvíla mig þá getur verið að ég sé aðeins rólegri... ekki æpandi á meðan.“ Hann svarar því til: „Reyndu að slaka á. Þú ert allavega róleg núna.“ Hann kveðst munu sjá hana á eftir og samtalinu lýkur skömmu síðar. Kl. 4.57. eru ákærði og hjúkrunarfræðingurinn á vakt í símsambandi og hún tilkynnir um konu í Kópavogi, sem eigi erfitt með að kyngja, og kveðst ákærði ætla til hennar. Kl. 6.04 hringir ákærði í vaktina og segist vera kominn eina ferðina enn (nefnir ekki hvert), en segist þurfa að vera mættur á röntgen eftir þrjá stundarfjórðunga, en verði þarna í ca. 20 mínútur. Kl. 7.26 hringir ákærði enn á vaktina og segist hringja frá Y og vera á leið á „röntgen“. Hann ræðir við hjúkrunarfræðinginn um það að hann hafi gert allt fyrir konuna sem hann geti. Hann hafi loks náð í mann hennar á Vogi, sem hafi sagt að hún væri alkóhólisti og hafi verið á pillum, fari á milli lækna. Þeir ætli að reyna að taka hana inn, en hann viti ekki hvað úr verði, hún hafi ekki fengist til að fara neitt. Hann hafi gefið henni sprautu og díazepamstíl og hlustað hana, hún andi ágætlega og sé sofnuð. Hún sé þá e.t.v. eitthvað „skárri“. Í þessu samtalinu kveðst ákærði vera búinn að gera allt fyrir konuna sem hægt sé. Hann hafi orðið að bera hana í rúmið, þarna hafi verið fullt af bjór og lyfjum og þessi kona eigi að fara inn á Vog, hún sé búin að fara í meðferð og þurfi að fara aftur, hún sé mun meiri „alki“ en hann hafi gert sér grein fyrir. Fram kemur í samtalinu að hann hafi áhyggjur af konunni og hann sé orðinn þreyttur, þetta sé búið að vera erfitt, enda „taki hann inn á sig“ vandamál sjúklinga sinna.
Meðal gagna málsins eru greiðslukortakvittanir, undirritaðar af ákærða, yfir viðskipti hans við apótek á Seltjarnarnesi kl. 11.58 og kl. 12.30 við Póst og síma þann 13. janúar.
Fundargerð læknaráðsfundar lækna Heilsugæslustöðvar Seltjarnarness að morgni 13. janúar sl. er meðal gagna málsins. Hún ber með sér að fundurinn hafi staðið frá kl. 8.25 til kl. 9.30. Er ákærði bókaður á þann fund ásamt sjö öðrum læknum. Eftir upplýsingaskýrslu Björgvins Björgvinssonar rannsóknarlögreglumanns, sem hafði samband við sex þessara lækna, staðfestu þeir að ákærði hefði setið allan fundinn.
Y gaf skýrslu um atburðinn hjá lögreglu daginn eftir, 14. janúar sl., svo og daginn þar á eftir og hálfum mánuði síðar. Þar bar hún á svipaðan veg og hjá neyðarmóttöku. Hún kvaðst hafa drukkið áfengi á Nellý's og lent þar í ryskingum en farið heim er barnum þar var lokað kl. 1.00. Hún hafi komið heim um hálfri stundu síðar. Kunningi hennar, sem ók henni heim, hafi staldrað við heima hjá henni stutta stund, en eftir að hann var farinn hafi hún hringt á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur þar sem hún vildi láta lækni skoða sig vegna sársauka í vinstri síðu. Þar hafi henni verið ráðlagt að hringja á læknavaktina. Þangað hafi hún hringt um kl. 2.00 og talað við konu í símann og lýst fyrir henni verknum og jafnframt sagt henni að hún vildi fá lækni til að koma og hlusta sig, þar sem hún væri hrædd um að vinstra lungað hefði fallið saman, en það hefði áður gerst. Konan hafi sagst mundu senda lækni. Skömmu síðar hafi útidyrabjöllunni verið hringt og var læknirinn kominn. Gat vitnið gefið greinargóða lýsingu á honum. Hún hafi ætlað að ganga til stofu en læknirinn sagt henni að þau skyldu koma inn í svefnherbergi. Þar hafi hann beðið hana um að fara úr að ofan, hvað hún gerði. Þau hafi sest á hjónarúmið og hann hlustað hana. Eftir að hafa hlustað hana hafi hann sagst mundu gefa henni verkjasprautu til að lina kvalirnar og síðan sprautað hana í hægri handlegginn og sagt henni að leggja sig. Eftir sprautuna hafi hún munað atburði óljóst, en læknirinn hafi sprautað hana oftar, meðal annars í hægri handlegginn gegnum sprautulegg, en slíkt hafi áður verið gert er hún var á spítala. Hún minntist þess að hafa farið framúr og allt hafi hringsnúist í höfði hennar, hann teymt hana aftur upp í rúm og sagt að hún gæti ekki gengið og hún skyldi leggjast í rúmið. Taldi hún að þá hafi hann sprautað hana aftur og sagt að hann gerði það til þess að hún gæti sofið. Þegar hún lá þarna hafi hann sagt að hann þyrfti að koma aftur og beðið hana um lykil til þess að hann kæmist inn því það þyrfti að fylgjast með henni. Hún hafi látið hann hafi aukalykil og hann farið út. Hún minntist þess óljóst að hann hefði komið aftur, en hún gat ekki um það borið hversu löng stund leið, því hún hafi „dottið út“. Þá hafi hann gefið henni sprautu í vinstra handarbakið. Í framhaldi þess hafi hann spurt hana hvort hann mætti ekki leggja sig því hann væri þreyttur og nennti ekki að fara heim til sín. Hún hafi leyft honum þetta, enda verið í móki eftir lyfjagjafir hans og ekki vitað hvað hún var að gera. Síðan hafi hún vaknað við það að hann var að hafa við hana samfarir. Taldi hún að það hefði verið um nóttina. Hún hafi reynt að ýta honum í burtu en hann gert sig þyngri, lagst ofan á hana með öllum sínum þunga. Hún áttaði sig ekki á því hvort þetta gerðist einu sinni eða oftar, en mundi óljóst eftir er hann klæddi sig. Þegar hún bað hann um lykilinn hafi hún átt erfitt með mál, eins og hún væri mjög undir áhrifum lyfja og öll mjög dofin. Hún hafi vaknað seint og þá enn verið undir áhrifum þeirra lyfja er hann sprautaði hana með, en þá fundið að hún var blaut að neðan. Um kvöldmatinn hafi dóttir hennar komið og staldrað stutt við. Í fyrstu hafi hún haldið að læknirinn væri kominn aftur og orðið mjög hrædd. Hún hafi ekki treyst sér til að segja dóttur sinni hvað hafði komið fyrir. Um átta um kvöldið hafi læknirinn hringt og spurt um líðan hennar og hvort hún þyrfti sprautu. Henni hafi brugðið mjög og sagt að hún væri að lagast. Hann hafi þá sagt að ef henni snerist hugur gæti hún hringt á morgun og jafnframt gefið henni númar farsíma síns. Hann hafi þá sagt henni til nafns. Um klukkan tíu um kvöldið hafi hún hringt til dóttur sinnar og sagt henni frá öllu saman. Dóttirin hafi sagt henni að hún yrði að fara á neyðarmóttökuna í skoðun og féllst Y á það og kom dóttirin og sótti hana. Y kvaðst ekki hafa drukkið bjór eftir að hún kom heim um nóttina, hún hafi ekki verið með bjór í íbúðinni, en tómar bjórdósir hafi verið í eldhúsi. Hún hafi ekki verið á neinum lyfjum þessa nótt, „enda orðin lyfjalaus“, tekið inn mogadontöflu í síðustu viku og eina nobligan verkjatöflu mánudaginn 12. janúar. Y sagði við yfirheyrslu 6. mars sl. að á heimili hennar hafi verið lyfin nobligan, saroten, cipramil og miasin, en þau tvö síðarnefndu, kvíðastillandi lyf, hafi hún ekki notað þar sem þau fóru illa í hana. Hún kvaðst ekki muna eftir að hafa svarað í símann þessa nótt, minntist hvorki símtals við hjúkrunarkonu né lækni. Y kvaðst hafa verið sofandi allan daginn og ekki farið á fætur og það væri ekki sannleikanum samkvæmt að hún hefði verið hress um eða eftir hádegið og haft samfarir við ákærða af fúsum og frjálsum vilja.
Við meðferð málsins bar vitnið í meginatriðum á sama veg. Hún kvaðst aðallega hafa drukkið bjór á Nellý's fyrr um kvöldið, farið út þar sem hún átti ekki áfengi heima við. Í ryskingunum þar hafi hún rifbrotnað og þar sem hún hafi áður orðið fyrir meiðslum á sama stað og lungað fallið saman hafi hún óttast að það hefði endurtekið sig. Því hafi hún hún hringt á læknavaktina. Er henni var bent á að fram kæmi í útskrift samtals hennar við læknavaktina að hún hefði spurt hver væri á vaktinni sagði hún ástæðu þess vera þá að hún vildi ekki að heimilislæknir hennar, Gunnar Ingi Gunnarsson, kæmist að því að hún væri undir áhrifum, en hún hafi þurft á róandi lyfjum að halda og ekki mátt drekka ofan í þau lyf. Hún hafi verið alveg róleg er læknirinn kom, aðallega verið hrædd við meiðslin, hún hafi haft mikla verki, aðallega við öndun og kvartað við lækninn vegna þess. Y mundi mjög takmarkað eftir samskiptum sínum við lækninn, að öðru leyti en því að hann hafi sprautað hana er hann kom fyrst og hann þá sagt að þar sem hún væri ein væri ástæða til þess að hann kæmi aftur til að kanna nánar með lungað. Henni hafi fundist það skrýtið að hún væri þá ekki lögð inn á spítala, en hann hafi beðið hana um lykil og ætlað að líta aftur til hennar. Hún hafi spurt hvaða lyf hann væri að gefa henni í æð en hann ekki svarað henni, að öðru leyti en því að hann hafi sagt að þetta væru verkjalyf. Einnig minntist hún þess að hann hafi spurt um hagi hennar, meðal annars hvar börn hennar væru og hún svarað því að annað væri flutt að heiman en hitt að heiman. Hann hafi komið aftur, en hún mundi lítið sem ekkert eftir því að öðru leyti og kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir hvort það var fyrir eða eftir endurkomu hans að hann hafi haft við hana samfarir, taldi að það hafi frekar verið eftir síðara skiptið. Hún hafi vaknað við það og verið mjög dofin og lítið getað hreyft sig. Hún hafi reynt að lyfta hendinni og orðið mjög hrædd. Hún minntist þess ekki að hún hefði talað í síma þessa nótt eftir að hún hringdi á læknavaktina eða næsta dag en hana rámaði þó í að hafa hringt í systur sína. Nánar spurð um þetta minntist hún þess að ákærði hafi rætt við fyrrum eiginmann hennar í síma þennan morgun og sagt að hún kæmist ekki í símann þar sem hún væri ofurölvi. Hún kannaðist við manninn að norðan sem tengdist símtalinu kl. 12.24, en minntist þess ekki að hafa rætt við hann um hádegi þennan dag, en hún kvaðst hafa rætt við þennan mann tvisvar til þrisvar sinnum eftir atburðinn. Um lyfjatöku fyrir atburðinn bar hún að hún hafi verið nýbúin með diazepam- og rópan lyfjaskammtinn frá heimilislækninum daginn áður eða tveim dögum áður og ætlað að fá lyf daginn eftir, enda hafi verið komið að því að hún ætti að fá skammt og hún hafi yfirleitt ekki verið lyfjalaus. Y kvaðst telja að hún hefði myndað „þokkalegt“ lyfjaþol. Hún kvaðst telja að ef hún hefði fengið þann lyfjaskammt sem ákærði kveðst hafa gefið henni, samtals 30 mg af díazepam og 50 mg af phenergan, hefði hún ekki komist í svo slævt ástand, sem hún ber, hún hefði ekki „dottið út“ af þeim lyfjaskammti. Nánar aðspurð um það hvort hún hefði neytt lyfja áður en hún fór á neyðarmóttökuna kvaðst hún nú telja að hún hafi tekið inn 1-2 töflur af verkjalyfinu nobligan, en það hafi verið eina verkjalyfið sem til var á heimilinu. Y kannaðist við að hún hefði áður misst minni, fengið „black-out“ vegna drykkju. Hún kvaðst í þetta sinn hafa misst úr mjög langan tíma, lítið sem ekkert muna eftir sér frá því að hún lét ákærða fá lykilinn og uns dóttir hennar kom um áttaleytið um kvöldið og ennþá verið undir áhrifum lyfja þegar hún fór á neyðarmóttöku. Hún kvað ákærða hafa hringt úr bílasíma til sín þetta kvöld, það hafi hún séð þar sem hún hefði númerabirti. Y kvaðst vera alkóhólisti og hún hafi verið á leið í meðferð þegar þessi atburður átti sér stað og hún hafi átt við þunglyndi að stríða. Eftir þennan atburð hafi henni liðið mjög illa, verið hrædd við að vera ein heima og átt erfitt með svefn og farið í kjölfarið í sálfræðimeðferð.
Þá verður gerð grein fyrir framburði annarra vitna.
..., dóttir kæranda, kom fyrir dóm og bar að hún hefði komið um kl. sjö til hálfátta á heimili móður sinnar og hún þá verið sofandi uppi í rúmi. Y hafi vart verið viðræðuhæf, mjög einkennileg og skrýtin og greinilega undir áhrifum lyfja en ekki undir áhrifum áfengis. Hún hafi farið um tuttugu mínútum síðar. Um kl. ellefu um kvöldið hafi móðir hennar hringt og sagt henni frá því sem gerst hafði. Hún hafi sagt að læknirinn hafi látið hana fá fullt af töflum og spurt hana svo hvort hún vildi fá sprautu. ... rakti frásögn Y í samræmi við framburð hennar. ... kvaðst eftir símtalið hafa farið og sótt móður sína. Y hafi í fyrstu ætlað að bíða með kæru og ætlað fyrst í meðferð, haldið að enginn myndi trúa þessu. Kvaðst ... hafa sagt að það gengi ekki og ekið henni á neyðarmóttöku. Hún kvaðst hafa talað við móður sína í síma daginn áður en minntist þess ekki hvort hún var þá undir áhrifum, en þá hafi hún verið búin með venjulegan lyfjaskammt. Næstu daga hafi líðan Y verið hræðileg. Hún hafi verið mjög hrædd og ekki þorað að vera ein. Þá hafi hún verið mjög taugaveikluð og hrædd þegar ákærði hringdi í hana daginn eftir. Hún hafi talað mjög mikið um atburðinn, ekki trúað að þetta hefði getað gerst. ... kvaðst ekki hafa veitt því athygli hvort bjórflöskur voru á heimili móður hennar, hún hafi ekki hreyft við neinu uns lögregla kom á vettvang.
Ragnheiður Bjarnadóttir læknir á neyðarmóttöku kom einnig fyrir dóminn og staðfesti framangreind gögn sín. Hún minntist þess að Y hafi verið þvoglumælt og fjarræn og hún hafi greint veruleg lyfjaáhrif eða/og áfengisáhrif, enda hafi Y sagt að hún hefði bæði drukkið nokkra bjóra og tekið inn lyf. Frásögn hennar hafi verið óskýr og hún sagt að hún hefði fengið lyf, sem hún hefði orðið mjög sljó af, og síðan hafði hún vaknað við það að maðurinn hafði komið aftur og við það að hann væri ofan á henni og var að hafa samfarir við hana. Hún hafi hins vegar ekki getað greint frá þessu í smáatriðum og sagt að minnisleysið stafaði af þeim lyfjum sem hún hefði fengið. Vitnið sagði að henni hafi fundist sú frásögn trúverðug. Y hafi verið yfirveguð á yfirborðinu, en undir talsverðum lyfjaáhrifum sem vitnið taldi að hafi dregið úr venjulegum kreppueinkennum, sem fórnarlömb kynferðisbrota hefðu, svo sem vöðvaspennu og oföndun. Í samtali þeirra hafi komið fram að Y væri háð lyfjum og hefði misnotað róandi lyf. Hún hafi haft 6-7 stunguför og marbletti þar í kring. Þetta hafi verið áberandi og óvenjulegt væri að sjá svo mörg stunguför og marbletti. Af þessum ummerkjum hafi verið greinilegt að illa hafi gengið að koma lyfjunum í æð, hvort sem það hefði verið vegna lélegrar samvinnu við sjúkling eða af öðrum orsökum, og bent til þess að þetta hafi verið misheppnaðar stungur og nálin hafi farið út og gera hefði þurft margar tilraunir til að koma lyfjunum aftur í æð. Y hafi sagt að læknirinn hafi sett upp æðalegg og lýst því á réttan hátt. Vitnið bar að áfengislykt hafi verið af Y og hún hafi sagt að hún hefði drukkið nokkra bjóra og neytt lyfjanna nobligan og saroten áður en hún kom á neyðarmóttökuna. Fram hefði komið í viðtalinu við hana að hún hefði verið reið og sár, bæði vegna þessa atburðar og einnig vegna drykkju sinnar. Slíkt væri algengt hjá fórnarlömbum kynferðislegrar misnotkunar. Y hafi komið í endurkomu um tveimur vikum síðar og þá verið í meðferð vegna lyfjamisnotkunar.
Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar í Árbæ, staðfesti fyrir dóminum framangreint vottorð sitt. Um lyfjagjafir til Y sagði hann að haustið ´97 hafi endurnýjun lyfja ekki farið fram reglulega, en í nóvember sl. hafi hann gert samkomulag við Y um fyrirkomulag á þessu. Y hafi átt í erfiðleikum bæði með alkóhól og róandi lyf og hann hafi oftsinnis rætt við hana um það að það þyrfti að taka á þeim málum. Samkomulagið hafi gengið út á það að hann einn myndi frá og með þeim tíma sjá um lyfjagjafir til hennar og hann hafi gert henni það ljóst að ef hún bryti það fyrirkomulag myndi hann ekki treysta sér til þess að sinna starfi sem heimilislæknir hennar. Hún yrði að taka sig á. Þau lyf sem getið er um í vottorðinu, og hún átti að taka daglega, eins og þar er getið, hafi hún fengið og honum var ekki kunnugt um að hún hefði fengið önnur lyf. Lyfjaskammtinn hafi svo átt að endurnýja með sama hætti og um getur í vottorðinu. Y hafi haft tilhneigingu til að fara út fyrir ramma samkomulagsins og það hafi verið sveiflukennt með sum lyfin hvort hún fylgdi því nákvæmlega. Hún hafi haft tilhneigingu til að taka fleiri svefntöflur en hún átti að gera og kvaðst vitnið því hafa búist við að heyra frá henni upp úr miðjum janúar. Hún hafi svo fengið næsta lyfjaskammt 20. mars sl., en hún hafi verið í meðferð í millitíðinni. Hún hafi ekki rætt um það við sig að hún þyldi ekki eitthvert lyfjanna sem hún tók í samráði við hann og ekki hafi sér verið kunnugt um að hún þyldi ekki phenergan og ekki væri getið um slíkt ofnæmi í sjúkraskýrslu hennar.
Um lyfjaþol hennar sagði vitnið að miðað við neyslu hennar hefði hún að hans mati töluvert lyfjaþol, en t.d. væri ljóst af frásögn hennar að hún þyrfti 2-3 svefntöflur til að geta sofið. Hún hafi átt að fá 1-2 díazepam töflur á dag, en hann hafi vitað að hún myndi fara út fyrir þann ramma. Hann hafi reynt að halda henni við réttan skammt, en ljóst væri að hún hafi tekið frekar 3 töflur á dag en 2 að jafnaði, þetta hafi verið mjög sveiflukennt.
Vitnið taldi að Y myndi ekki finna fyrir miklum lyfjaáhrifum af 10-20 mg af diazepam í æð og 50 mg af phenergan ef litið væri til fyrrum lyfja- og alkóhólneyslu hennar. Hið sama mætti segja þótt hún hefði neytt einhvers magns af bjór. Þessi lyf myndu að hans mati hafa sáralítil áhrif, þau myndu e.t.v. slá á kvíða eða vanlíðan og gætu slegið á fráhvarfseinkenni. Þótt phenerganskammturinn yrði aukinn í 100 mg væri ósennilegt að það hefði valdið öðrum áhrifum. Vitnið sagði að eðlilegra hefði verið að sprauta með lyfjunum í vöðva eða rasskinn. Undir þessum kringumstæðum væri undantekning að sprauta í æð, það væri gert í algjöru bráðatilviki ef lyf þyrfti að virka á stundinni, það sé þekkt. Ef grunur léki á rifbroti væri slík lyfjagjöf að hans mati fráleit, nema ástandið væri svo brýnt eða verkirnir slíkir að þetta væri spurning um að lyfið þyrfti að virka strax. Vitnið sagði að slík lyfjagjöf væri óeðlileg við þær aðstæður eins og ákærði lýsir, eðlilegra hefði verið að koma sjúklingnum á sjúkrahús. Vitnið sagði að Y hafi misnotað lyf í mörg ár. Hún hefði a.m.k. 14 ára sögu skráða, þó með miklum sveiflum. Hún ætti misheppnaðar áfengismeðferðir að baki, en hann hafi verið reiðubúinn sl. haust að gefa henni kost á þessu samkomulagi, þótt hún hafi yfirleitt ekki farið eftir fyrirmælum um lyfjagjafir, þar sem hann hefði aldrei staðið hana að ósannsögli og hún sinnt móðurhlutverki sínu. Hann sagði að þau lyf, sem mælst hafi í blóði hennar og þvagi samkvæmt matsgerð Þorkels Jóhannessonar og ekki stöfuðu frá vitninu kæmu annars staðar frá.
Þorkell Jóhannesson prófessor bar vitni við meðferð málsins og staðfesti matsgerð sína þar. Hann sagði að ýmis lyf hafi mælst í blóði Y umfram sum þeirra lyfja sem ávísað hafi verið á hana af heimilislækni. Þannig hafi fundist lyfin klórdíazepoxíð, prómetazín (þ.e. sérlyfjaheiti phenergans), og einnig tramadol (sérlyfjaheiti nobligan) sem sé tiltölulega nýtt lyf hér á markaði. Þeir hafi framkvæmt staðlaða leit að lyfjum og sagði vitnið að það væri ákaflega sennilegt að þau lyf sem heimilislæknir hennar hafi ávísað á hana, en sem ekki fundust við lyfjaleit hans, þ.e. rohypnól, saroten og cipramil, hefðu komið fram við þá leit, en þau hafi ekki fundist. Sagði vitnið að klórdíazepoxíð væri lyf með svipaða verkun og díazepam, hvort tveggja væru róandi lyf og svefnlyf með samverkandi verkun. Tramadol væri hins vegar verkjadeyfandi lyf og væri nýrra lyf hér á markaði en klórdíazepoxíð og díazepam. Frá því að matsgerðin var unnin í febrúar sl. hefðu komið fram talsverðar nýjar upplýsingar um þetta lyf. Þannig væri nú komið í ljós að lyfið væri mun hættulegra og hefði meira slævandi verkun á miðtaugakerfis en áður var talið og einnig reynst veigameiri þáttur í dauðsföllum en menn gerðu sér grein fyrir. Eituráhrif lyfsins væru miklu meiri en vitað var um fyrir fáum mánuðum, og ætti það sérstaklega við ef þau væru tekin með öðrum lyfjum. Prómetasín væri gefið sem stungulyf við skurðaðgerðir, en annars í töfluformi.
Vitnið skýrði svo frá að ekki væri unnt að lesa út úr lyfjunum sem mældust í blóð- og þvagsýni hvaða skammtar hafi verið gefnir, en þegar litið væri til þeirra efna sem myndast út frá díazepam og klórdíazepoxíði í líkamanum kæmi í ljós að þau lyf hefðu verið gefin í marga daga og ætti það sérstaklega við um klórdíazepoxíðið. Ef þessi tvö efni hefðu verið gefin með 1-2 lyfjagjöfum hefðu svokölluð umbrotsefni, sem mynduðust í líkamanum, ekki verið fyrir hendi í svona miklu magni. Magnið benti til þess að díazepam hafi verið tekið í allnokkra daga og klórdíazepoxíð í viku eða svo, jafnvel lengur. Magn þessara tveggja lyfja væri vel umfram lækningalega þéttni, þ.e.a.s. vel umfram það sem leitast er eftir í lækningarskyni og því mætti álykta að viðkomandi hafi verið undir miklum lyfjaáhrifum, verið í slævðu ástandi er sýnin voru tekin.
Vitnið bar að efni sem mældust í sýnunum væru öll lyfseðilsskyld og þau hefðu samverkandi verkun. Magn lyfjanna væri vel umfram lækningalega þéttni. Ef um væri að ræða einstakling með mjög mikið lyfjaþol sagði vitnið að draga myndi úr verkuninni, en skammtarnir væru það stórir að böndin bærust að því að viðkomandi hefði verið í mjög slævðu ástandi. Vitnið kvaðst ekki geta borið um það hvert lyfjanna sem fundust hefði mesta virkni, miðað við magn, en taldi að díazepamið hefði mest áhrif ef litið væri til áhrifa þeirra á meðvitund og viðbrögð einstaklingsins. Þetta væri þó matsatriði.
Vitnið sagði að algengasta sérlyfjanafn klórdíazepoxiðs væri librium. Það lyf hafi sérstaklega verið ofnotað áður fyrr og enn væru þess dæmi að drykkjumenn væru meðhöndlaðir með Libríum vegna þess að talið væri að það hefði minnst samverkandi verkun, en það stæðist ekki. Þá upplýsti vitnið að kannabínóíðar, sem fundust í þvagi, hafi ekki fundist í blóði, sem þýddi að viðkomandi hafi neytt kannabis einhvern tíma innan tveggja til þriggja vikna, en eftir svo langan tíma finnist engin merki efnisins í blóðinu.
Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu 14. janúar sl. Hann kvaðst hafa verið á læknavaktinni frá miðnætti aðfaranótt þriðjudagsins 13. janúar sl. og fram til kl. 8.00 morguninn eftir. Nóttin hafi verið erilsöm, 15 útköll hafi borist. Hann hafi haft bílstjóra með sér. Ósk hafi borist til hans kl. 2.46 um að fara til Y, en þetta kæmi fram á samskiptaseðli, sem venja væri að skrá. Vegna anna hafi hann ekki komist fyrr en töluvert löngu síðar, á að giska klukkustund síðar. Hann hafi farið út en bílstjóri hans beðið í bílnum á meðan. Hann hafi hringt dyrabjöllu og Y, sem hann ekki þekkti, komið til dyra. Hún hafi verið alklædd og boðið honum til stofu. Hún hafi verið greinilega ölvuð, slagað, dottið um sjónvarpið og nærri verið búin að henda því um koll, en hann gripið það. Konan hafi verið með opna bjórdós og hann hafi séð aðra óopnaða. Hún hafi kvartað um mikla verki í vinstri síðu og litlar upplýsingar viljað gefa, en sagt að hún hafi dottið eða orðið fyrir áverkum af annarra völdum. Hann hafi skoðað hana í stofunni, lyft fatnaði hennar, tveimur peysum, en ekki klætt hana úr, en hún bara öskrað þegar hann setti hlustunarpípuna á hana. Því hafi hann gefið henni verkjastillandi og slakandi lyf í æð, handleggina og e.t.v. annað handarbakið, phenergan 50 mg og díazepam 10 mg. Þetta hafi hann gert í stofunni því hann hafi ekki getað hlustað hana vegna verkjanna, það hafi gengið illa því hún hafi látið svo illa og sagst finna svo til í handleggjunum. Hún hafi staðið á fótunum, en slagað. Um hálftíma síðar hafi henni liðið miklu betur og hann getað skoðað hana með hlustun og þreifingu. Hann hafi fundið að hún andaði báðum megin, en var greinilega mjög aum undir rifjunum og átti erfitt með að hreyfa báða handleggi. Hún hafi látið hátt og veinað af sársauka og hann stutt hana inn í svefnherbergi og lagt hana þar á hliðina á hjónarúmið. Hún hafi beðið um meiri bjór en hann neitað henni um það. Áður en hann fór hafi hann sagst mundu athuga ástand hennar síðar um nóttina og einnig beðið hana að hringja ef henni versnaði. Á meðan hann var þarna hafi hann reynt að fá hana inn á sjúkrahús, viljað hringja á sjúkrabíl, en hún alls ekki viljað það. Hann hafi farið eftir að hafa komið henni í rúmið. Hann hafi svo sinnt fleiri útköllum og farið inn á vaktina um kl. 6.00 um morguninn og þá hringt til Y til þess að vita hvernig henni liði. Í því símtali við hana hafi komið fram að hún var mjög móð og leið illa og vildi að hann kæmi aftur. Lyfin hafi þá greinilega verið hætt að virka. Hann hafi sagt við bílstjóra sinn að hann (ákærði) ætlaði að reyna að leggja Y inn og hann skyldi fara að leggja sig. Fór ákærði því einn á einkabíl sínum heim til hennar. Þegar hann kom þangað lá hún í rúminu og hann reyndi sem fyrr að koma henni á spítala en hún þvertók fyrir það. Hann hafi engin lyf gefið henni í það skiptið, staldrað við í um 5 mínútur, því hringt var þangað frá læknavaktinni rétt er hann var kominn og honum tilkynnt um sjúkling í Kópavogi sem væri með bráðaofnæmi. Því hafi hann farið strax í Kópavoginn til að sinna þeim sjúklingi. Þaðan hafi hann farið aftur heim til Y og ætlað að gera eina tilraun enn til að leggja hana inn. Hann hafi komið á heimili hennar skömmu eftir kl. 7.00. Útidyrnar hafi verið ólæstar og er hann kom inn hafi Y setið á hjónarúminu og verið „alveg að drepast„ vegna verkja og stunið einhverja vitleysu. Þess vegna hafi hann gefið henni sama skammt og áður í æð. Í því hafi fyrrum eiginmaður Y hringt og sagst vera búinn að vera 60 daga á Vogi. Kvaðst ákærði hafa kynnt sig sem lækni frá læknavaktinni. Eiginmaðurinn hafi reyndar hringt í tvígang, en skellt á í fyrra sinnið þar sem hann taldi þetta skakkt númer. Hann hafi sagt manninum að Y hafi lent í einhverjum ryskingum og væri sennilega rifbrotin. Samtalið hafi meðal annars snúist um það hvort ákærði gæti ekki komið henni inn á Vog, og hafi maðurinn sagt að hún mætti koma þangað þennan sama dag. Y hafi legið í rúminu eftir lyfjagjöfina og verið farin að dofna. Hún hafi rætt við sig um ýmis persónuleg mál. Hann hafi hvað eftir annað þessa nótt spurt Y um það hver væri heimilislæknir hennar en hún ekki viljað segja honum það. Hann hafi hringt í læknavaktina eftir að hann fór frá henni og þar sem ekkert var fyrirliggjandi hafi hann farið á fund í Domus Medica, en þar hittist læknarnir alltaf á þriðjudagsmorgna kl. 7.45. Fundurinn hafi staðið til rúmlega 8.00, en þá hafi hann farið á Heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi. Hann hafi ekki hitt Y eftir þetta en hringt um kvöldið eftir að hann frétti að lögregla leitaði hans. Hann hafi þá haldið að hún væri látin eða eitthvað því um líkt.
Ákærði sagði að hann hafi í fyrstu ekki gert sér grein fyrir því að konan var lyfjaneytandi, hann hafi talið hana vera undir áhrifum áfengis. Hann hafi séð hjá henni geðlyfin cipramil og saroten og einnig minocin. Þarna hafi verið talsvert af lyfjum m.a. valium. Eiginmaður hennar hafi einnig sagt honum í símtalinu að hún feldi svefnlyf og róandi lyf. Hann neitaði því að hann hefði notað sprautulegg við lyfjagjafirnar, slíkt hefði hann ekki haft meðferðis. Hann hafi viljandi ekki gefið henni lyf til að sofna af þar sem hún hafi verið drukkin.
Í þessari yfirheyrslu neitaði ákærði því að hann hefði verið í einhverju kynferðissambandi við konuna þessa nótt og neitaði einnig að hann hefði spurt hvort hann mætti leggjast upp í rúm til hennar þar sem hann væri þreyttur og nennti ekki heim. Er hann var inntur eftir ástæðu þess að hún bæri þetta á hann sagði ákærði að hún hefði ekki viljað leggjast inn á sjúkrahús, en hann hafi lagt mjög hart að henni að gera það og sagt að hann gæti ekki gefið henni þau lyf sem hún vildi eða þyrfti. Hugsanlega væri hún haldin ranghugmyndum eftir langvarandi lyfjaneyslu, en eiginmaður hennar hafi tjáð honum um lyfjaneyslu hennar í símanum. Ákærði kvað það einnig rangt að í fyrstu ferðinni hefði hann fengið lykil hjá Y til að komast inn.
Ákærði var yfirheyrður á ný við rannsókn málsins 29. janúar sl. og 6. febrúar sl. Kvað hann fyrri skýrslu sína rétta að öðru leyti en því að hann viðurkenndi nú að hafa hitt Y eftir hádegi umræddan dag og haft við hana kynmök. Hann hafi farið af læknaráðsfundinum um kl. 9.30 til vinnu sinnar í læknastofu Heilsugæslustöðvarinnar og verið þar til rúmlega 11.00, en þá farið þaðan til ættingja í Kópavogi og borðað þar, síðan greitt reikninga og farið í pósthús, þaðan á læknavaktina og til Y. Hann rámaði í að hann hefði hringt til hennar úr vinnunni eða bílasíma til að vita hvernig henni liði og hún hafi þá viljað að hann kæmi. Hann kvaðst þó ekki viss um þetta, enda þreyttur og ósofinn er hér var komið sögu og minnið því gloppótt. Við komuna heim til hennar hafi hann hringt á dyrabjöllu og hún kallað að það væri opið og hann farið inn. Þetta hafi verið einhvern tíma milli kl. 12.00 og 13.00. Ákærða var bent á að samkvæmt útskrift Landsímans komi fram að hringt hafi verið úr síma Y á slysadeild kl. 12.19 og í læknavaktina kl. 12.35. Hann kvað útilokað að hann hefði hringt á þessa staði, læknavaktin væri lokuð á þessum tíma og enginn þar við. Hann kvað hins vegar ekki ólíklegt að hann hefði hringt í tvö önnur símanúmer kl. 14.37 (númer nákomins ættingja hans) og 14.41. Ekki minntist hann þess að Y hafi hringt á meðan hann var hjá henni. Hann minntist þess ekki að hafa verið með læknatöskuna meðferðis eins og í þrjú fyrri skiptin og kannaðist ekki við að hafa gefið henni díazepam eða phenergan þá, þótt hann útilokaði ekki að svo kynni að hafa verið. Hann hafi séð að hún átti fullt af lyfjum, bæði róandi og verkjalyf, en hún hafi ekki tekið þau inn eftir að hann kom eftir hádegið. Hann hafi sagt henni að hann væri mjög þreyttur og hún þá boðið honum upp í rúm til sín. Sagt eitthvað í þeim dúr: „Úr því þú ert svona þreyttur af hverju kemur þú þá ekki uppí til mín“, eða: „Þú mátt koma uppí til mín“. Þau hafi svo haft samfarir með vilja hennar einu sinni. Hann kvað andlegt ástand hennar hafi verið miklu betra en um morguninn, hún hafi verið gjörbreytt frá því fyrr um morguninn, með fullri rænu og viljað vera með honum, hún hafi verið hress og „í stuði“. [...] Þau hafi svo sofnað, að minnsta kosti hann, í um það bil hálftíma til þrjá stundarfjórðunga, en hrokkið upp við það um kl. 15.00 að einhver henti inn Dagblaðinu. Hann hafi þá klætt sig, þau kvaðst með kossi og hann sagst mundu hringja um kvöldið í hana. Í því samtali hafi hún þá sagt að hún ætlaði að fara til dóttur sinnar í kvöldmat, en haft áhyggjur af því að geta ekki farið vegna einhvers sem á undan var gengið. Hún hafi verið slöpp og þreytt og sagst ekki vera í stuði og ætlað að hvíla sig og þá hafi verið rætt um það að hann myndi hringja í hana aftur. Í þessari yfirheyrslu sagði hann að hann hafi gefið Y í fyrri vitjunum díazepam og phenergan, mundi ekki magnið, bæði í æð og vöðva, taldi að hann hefði gefið henni 30 mg af díazepam og 100 mg af phenergan. Magnið sagðist hann ekki muna svo gjörla þar sem erfitt væri að muna slíkt þegar erfitt væri að eigi við fólk og erfitt að segja hve mikið magn þyrfti þá til „að ná því niður“ en ákærði ítrekaði að Y hafi verið mjög erfið og henni liðið illa. Lyfjagjöfin hafi verið eðlileg miðað við það að við hlustun hafi hún andað rétt báðum megin og hann hafi ekki getað hrint á sjúkrabíl til að leggja hana inn, þar sem hún vildi það ekki. Önnur úrræði hafi ekki verið fyrir hendi. Y hafi ekki viljað gefa honum upp nafn dóttur sinnar svo hann gæti haft samband við hana og rætt þennan vanda.
Um það hvers vegna hann hélt því leyndu í fyrri yfirheyrslu að hann hefði farið heim til Y og haft við hana samfarir sagði ákærði að honum hafi orðið mjög brugðið við það að vera ranglega sakaður um nauðgun og hann hafi ekki viljað viðurkenna framhjáhald til að bjarga hjónabandi sínu.
Við meðferð málsins neitaði ákærði enn sakargiftum. Hann kvaðst hafa verið vakthafandi læknir á bæjarvaktinni og farið á heimili kæranda í þrjár ferðir og gefið henni lyf í fyrsta og síðasta skiptið. Í miðferðinni hafi hann staldrað við skamma stund og þá hafi hann ekki gefið konunni lyf. Síðustu ferðina hafi hann farið klukkan 7:00 að morgni og þá gefið konunni eina ambúlu 10 mg díazepam og í fyrstu ferðinni hafi hann gefið henni 20 mg díazepam og phenergan í vöðva. Hann hafi gefið henni díazepamið í bæði skiptin í æð. Hann segir að hér hafi verið um eðlilegan skammt lyfja að ræða og útilokað að konan hafi ekki getað spornað við samræði vegna þessara lyfjagjafa hans eða ástands hennar að öðru leyti. Hann kvaðst hafa haft samfarir við konuna um klukkan 14:00 eftir hádegi daginn eftir með fullum vilja hennar. Í þessa heimsókn hafi hann farið í einkaerindum. Hann kvaðst ekki hafa þekkt Y fyrir þennan atburð, en hann hafi síðar séð er hann fletti því upp, að hún hafi einu sinni komið til hans sem sjúklingur á móttöku á læknavaktinni löngu fyrir þennan atburð, en því hafi hann verið búinn að gleyma.
Um ferðir sínar til kæranda þessa nótt sagði ákærði að klukkan hafi verið að ganga þrjú um nóttina er hann fór í fyrstu vitjunina og hafi hún aðallega kvartað um verki fyrir brjósti eftir einhvers konar áverka sem hún vildi ekkert skýra nánar og það væri sárt að anda. Lýsti hann komu sinni á staðinn á sama veg og fyrr og sagði að honum hafi virst konan vera eitthvað undir áhrifum áfengis, en ekki mikið. Hún hafi fyrst og fremst verið mjög æst og alfarið neitað að gefa upp hvað hefði fyrir hana komið og aðspurð neitað allri lyfjatöku, en sagst hafa drukkið eitthvað lítillega af bjór. Hann hafi séð flöskubjór á borði, en ekki séð hana drekka bjór, en hún hafi einu sinni beðið hann að rétta sér flösku, en hann neitað því. Honum hafi ekki verið kunnugt um það þá að hún ætti við lyfjavandamál að stríða og því ekki farið frekar út í þá sálma og hún ekki rætt um nein lyf. Mjög erfitt hafi verið að skoða hana. Hún hafi verið marin á brjóstkassa og upphandleggjum. Hann hafi ætlað að fá að hlusta hjartslátt og öndunarhljóð, en það hafi varla reynst unnt að koma hlustunarpípunni við hana þar sem hún streittist á móti. Hann hafi því tekið það til bragðs að róa hana með því að gefa henni lyf, fyrst díazepam í æð 10 mg. Hún hafi þá sagt að hún væri vön lyfjum og hefði þol og þetta hefði nánast engin áhrif haft á hana. Þá hafi hann gefið henni phenergan 50 mg í vöðva og fljótlega eftir það getað hlustað hana og fengið að skoða hana. Áður en hann fór hafi hann gefið henni aftur 10 mg díazepam í æð og talið að hún væri rifbrotin og séð að hún var með gamla marbletti. Hann hafi viljað leggja hana inn, jafnvel koma henni í myndatöku eða betri skoðun, en hún þvertekið fyrir það. Því hafi orðið úr að hann hafi gefið henni þessi lyf til að róa hana og sagt henni að hringja ef eitthvað breyttist og við svo búið farið. Þessi vitjun hafi tekið 20-30 mínútur. Síðan hafi hjúkrunarfræðingurinn sem var með honum á vaktinni hringt í hana til að vita hvernig henni liði klukkan um fjögurleytið um nóttina. Hann hafi í því símtali fengið að tala við hana og þá fundist hún vera móð. Hún hafi viljað afdráttarlaust að hann kæmi aftur í vitjun. Hann hafi verið orðinn þreyttur og ætlað að sjá til, fengið bakþanka og farið að óskum hennar. Þetta hafi verið rúmlega fjögur að ganga fimm um morguninn. Um leið og hann kom inn til hennar hafi síminn hringt. Það hafi verið hjúkrunarfræðingurinn, sem bæði hafi númer bílasímans hans og síma þess staðar sem farið er í vitjun, þar sem nauðsynlegt sé að geta alltaf náð í vakthafandi lækni. Hjúkrunarfræðingurinn hafi þá sagt frá tilviki um bráðaofnæmi í Kópavogi. Hann hafi því farið strax út. Það væri rangt að hann hafi gefið Y lyf í þessari heimsókn, eins og hann minnti við yfirheyrslu lögreglu á geðdeild, en þar kvaðst hann hafa verið að læknisráði og fengið stóra skammta af róandi lyfjum. Við nánari íhugun væri hann viss um að hann hafi ekki gefið Y nein lyf í þetta sinn. Hann hafi séð að allt var í lagi með hana og sagst mundu reyna að koma aftur, hann hafi ekki þorað að láta þessa vitjun í Kópavoginum bíða. Eftir að þeirri vitjun lauk hafi hann rennt upp eftir til hennar í ...hverfi rétt fyrir klukkan sjö um morguninn. Hún hafi þá verið vakandi og enn kvartað um þessi eymsli. Þegar hann kom þarna inn hafi síminn hringt í tvígang. Það hafi verið maður, sem kvaðst vera eiginmaður Y og kvaðst heita .... Hann hafi sagt að hann væri inni á Vogi og hann hringdi rétt eftir 7:00. Y hafi ekkert viljað við hann tala, hún hafi áður sagt að hún væri skilin við þennan mann, sem aldrei gæti látið sig í friði. ... hafði sagt að hún ætti pláss inni á Vogi þennan sama dag og gæti fengið að koma og kvaðst ákærði hafa hvatt hana til að þiggja þá innlögn en hún gaf lítið fyrir það. Áður en hann fór, klukkan rúmlega sjö um morguninn, hafi hann gefið henni diazipam í æð, 10 mg, en ekkert phenergan, svo sem hann áður hafi talið við rannsókn málsins. Önnur lyf en framangreind hafi hann ekki gefið henni. Y hafi setið uppi í rúminu þegar hann fór um korter eða tuttugu mínútur yfir sjö. Þegar hann fór hafi ástand hennar verið svipað og áður, hún hafi þolað þessi lyf mjög vel og hún lítið breyst við lyfjagjafirnar, þó hafi hún róast eftir fyrstu lyfjagjöfina. Honum hafi helst dottið í hug að hún væri með sprungu í rifbeini, sem væri ekki hættulegt en geti verið sársaukafullt. Hún hafi verið marin, en andað vel báðum megin þegar hann hlustaði hana, en hún hafi virkað móð í símann, sennilega frekar vegna geðshræringar. Hann hafi því ekki verið hræddur um að það væri eitthvað alvarlegt að henni, en engu að síður viljað leggja hana inn vegna ástands hennar. Lyfjagjafirnar hafi eingöngu verið í því skyni að minnka sársauka, róa hana og til slökunar. Díazepamið sé vöðvaslakandi og róandi en hafi lítil áhrif á öndun og hafi því hentað vel í þessu tilviki.
Ákærði kvaðst hafa farið frá kæranda úr þriðju ferðinni klukkan rúmlega 7.00 um morguninn á röntgenfund í Domus Medica, sem hefst á hverjum þriðjudagsmorgni kl. 7.45. Þangað hafi hann komið skömmu fyrir fundartímann og farið þaðan á heilsugæslustöðina á Seltjarnarnesi um kl. 8.30. Þar hafi tekið við læknaráðsfundur sem venja sé að halda í framhaldinu þessa morgna til kl. 10:00. Að loknum þeim fundi hafi hann sinnt símaviðtölum sjúklinga þar til langt gengið í tólf. Ákærði bar um ferðir sínar um morguninn, uns hann fór á heimili Y eftir hádegi á sama veg og við rannsókn málsins. Hann kvaðst hafa reynt að ná símasambandi við hana í hádeginu, en mundi ekki hvort honum tókst það, taldi að það hefði ekki tekist, hann hafi verið með rangt símanúmer. Hann hafi því ákveðið að fara heim til hennar til að vita hvernig henni liði, viljað hjálpa henni, þar sem hennar mál hafi verið í ólestri. Það væri misminni sitt að hann hefði náð við hana símasambandi, eins og hann hélt fram við rannsókn málsins. [...]
Hann hafi ekki farið með læknatöskuna í þessa heimsókn, enda ekki vitað hvort hún yrði heima og frekar farið til hennar til að ræða við hana, [...]. Er hann kom að heimili Y kl. rúmlega 13.00 hafi hann hringt dyrabjöllunni og hún hrópað „það er opið“ hann gengið inn og hún gengið á móti sér út úr herberginu, þekkt hann strax og verið ánægð að sjá hann. Hún hafi verið léttklæddari en áður og miklu hressari en áður og hvorki æst né reið eins og fyrr, allt önnur en um nóttina. Honum hafi ekki fundist hún undir óeðlilegum áhrifum lyfja, en svolítið þreytt og borið þess merki að hún hefði verið að skemmta sér um kvöldið, röddin hafi verið styrk. Þau hafi spjallað um „svokallaðan mann hennar“ sem hún hafi afneitað algjörlega og sagt að þau væru löngu skilin og hann nánast lagt hana í einelti. Þau hafi rætt um heima og geima, meðal annars alkóhólismann, sameiginlegt vandamál beggja, og hann sagt henni frá eigin reynslu í þeim efnum. Hann hafi svo fengið leyfi hennar til að hringja tvö símtöl, í náinn ættingja og á ferðaskrifstofu, og þau haldið áfram samræðum eftir það. Hann hafi rætt um að hann væri orðinn þreyttur og þyrfti að fara að koma sér heim. Hún hafi þá sagt: „Af hverju leggur þú þig ekki bara hjá mér.“ Hann hafi fallið fyrir freistingunni, farið upp í rúm, þau látið vel hvort að öðru og haft samfarir með vilja hennar og hann svo sofnað. Hún hafi alveg vitað hvað fram fór. Áhrif lyfjagjafa hans um nóttina, sem ekki teldust stórar, hafi örugglega ekki verið fjöruð út, þar sem lyfin hafi langan helmingunartíma, en hins vegar hafi hún þolað þau mjög vel og hann hafi ekki séð mikla breytingu á henni eftir þessar lyfjagjafir. Honum hafi ekki verið kunnugt um að hún hefði tekið einhver lyf sjálf, en hann hafi séð að hún átti einhver þunglyndislyf, t.d. verkjalyfið nobligan. Ákærði kvaðst hafa farið heim til sín um fjögurleytið um daginn. Hann lýsti samtali sínu við Y um kvöldið á sama veg og fyrr.
Um misræmi í framburði sínum við rannsókn og meðferð málsins sagði ákærði að framburður hans hjá lögreglu hafi ekki verið nákvæmur um ýmis atriði, meðal annars vegna þess að honum hafi verið mjög brugðið vegna rangrar kæru og alvarlegs andlegs ástands síns. Hann hafi þó viljað gefa skýrslu [...] við þessar aðstæður, þar sem hann vildi koma þessu frá. [...] Ákærði sagði að ljóst væri að dómgreind sín hafi ekki verið í lagi er hann hafði samfarir við sjúkling, sem hann hafi verið að sinna um nóttina, en hafnaði því hins vegar alfarið að hann hefði þröngvað henni til samræðis eða gefið henni lyf fyrir samfarirnar.
Samkvæmt bréfi heilbrigðisráðuneytis 14. apríl sl. svipti ráðuneytið ákærða læknaleyfi 11. mars sl. á grundvelli 27. og 28. gr. læknalaga nr. 53/1988 samkvæmt tillögu landlæknis vegna „alvarlegs brots á læknalögum, en X hafði viðurkennt að hafa haft kynmök við sjúkling sinn kl. 14.00 daginn eftir að hann hafði farið í vitjun til sjúklings þrisvar um nóttina og gefið henni diazepam og phenergan í æð í hvert skipti“. Taldi landlæknir framangreint atferli ósamboðið lækni.
Niðurstaða.
Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt að hann hafi haft samfarir við kæranda er hann kom á heimili hennar upp úr klukkan 13.00, eftir að hafa farið þrívegis í vitjun til hennar nóttina áður, í fyrsta sinn á þriðja tímanum en síðasta sinn um kl. 7.00, eins og að framan er lýst. Í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði hann að hafa farið til hennar í síðasta skiptið og haft við hana kynmök. Framburður ákærða um lyfjagjafir hans hefur verið nokkuð á reiki, en hann hefur þó ávallt haldið sig við það að hann hafi gefið henni tvö lyf, díazepam og phenergan. Skýringar hans á því í hvaða tilgangi og hvenær hann fór í þrígang á heimili Y þessa nótt eru í samræmi við útskriftir af samtölum læknavaktarinnar við kæranda og samtali ákærða við hjúkrunarfræðing vaktarinnar þessa nótt, en þar kemur glögglega fram að ákærði hafði miklar áhyggjur af kæranda og heilsu hennar og vildi leggja hana inn á sjúkrahús en hún færðist undan því.
Frásögn hans um það að hann hafi í fyrstu gefið henni lyfin til að róa hana niður, þar sem hún hafi verið mjög æst og illviðráðanleg auk þess sem hún hafi kvartað um mikla verki, kemur einnig heim og saman við samtöl þeirra um nóttina sem skráð eru á læknavaktinni. Í símtalinu sem hefst kl. 4.40 segir Y meðal annars: „Ef ég reyni að að hvíla mig þá getur verið að ég sé aðeins rólegri...ekki æpandi á meðan“, og svaraði ákærði því til að hún skyldi reyna að slaka á, því hún væri „allavega róleg núna“. Þá kemur einnig fram í því símtali að ákærði hafi spurt hana hvort hún treysti sér fram ef hann kæmi aftur, en hann hafi tekið úr lás, og svarar hún því til að hún komist til dyra. Bendir þetta til þess að sú frásögn ákærða sé rétt að hann hafi tekið úr lás, en ekki fengið lykil, eins og kærandi hefur borið.
Eins og rakið hefur verið hér að framan hafa verið lögð fram gögn í málinu, sem renna stoðum undir þann framburð ákærða að hann hafi farið af heimili kæranda eftir síðustu vitjun sína kl. rúmlega sjö um morguninn og ekki komið þangað aftur fyrr en um kl. 13.00 þennan dag og verið þar að minnsta kosti fram til kl. 15.00, er hann hringdi ofangreind tvö símtöl til ættingja og í Flugleiðir. Lýtur ákæran að því að ákærði hafi á þessum tíma haft við hana samræði og notfært sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum slævðs ástands, eins og nánar er greint frá í ákæru.
Y hefur borið að hún muni lítið sem ekkert eftir sér þessa nótt. Hún gat ekki um það borið hversu oft né hvenær ákærði kom, taldi að hann hefði komið í tvígang og gerði sér ekki grein fyrir hvenær hann hafði við hana samfarir. Hún minntist þess heldur ekki að hún hefði talað í síma þessa nótt eftir að hún hringdi á læknavaktina eða næsta dag, að öðru leyti en því að hana rámaði í að hafa hringt í systur sína. Hana rámaði einnig í að ákærði hefði rætt við fyrrum eiginmann hennar í síma þennan morgun. Af útskrift hringinga úr og í síma hennar þessa nótt er ljóst að Y átti nokkur símtöl auk símtala við læknavaktina og skömmu eftir hádegi þennan dag, kl. 12.24, er skráð langt símtal úr síma norður í landi í hennar símanúmer. Kannast hún við að þekkja þar mann, en man ekki eftir að hafa rætt við hann þetta sinn. Maður þessi hefur staðfest að hann þekki kæranda og að hann hafi rætt við hana í síma í janúar sl. og hafi ástand hennar verið með þeim hætti að hún hafi ekki verið með sjálfri sér, hún hafi verið eitthvað miður sín. Samkvæmt greiðslukortakvittunum ákærða yfir viðskipti hans við lyfjaverslun á Seltjarnarnesi og við Póst og síma var hann ekki á heimili Y er þetta símtal fór fram, en kvittanirnar bera með sér að hann var á þessum stöðum kl. 11.58 og 12.30.
Y bar um lyfjatöku fyrir atburðinn á þann veg að hún hafi verið búin með díazepam- og rópan (rhohyphnol) lyfjaskammtinn frá heimilislækninum daginn áður eða tveimur dögum áður og ætlað að fá lyf daginn eftir, enda hafi verið komið að því að hún ætti að fá skammt og hún hafi yfirleitt ekki verið lyfjalaus. Ljóst er af framburði heimilislæknis hennar, Gunnars Inga Gunnarssonar, að hún fékk lyfin síðast 29. desember sl. og átti sá skammtur að endast henni að minnsta kosti helmingi lengur en raun varð á. Fram er komið að hún hefur misnotað lyf og áfengi árum saman og hefur mikið lyfjaþol. Sjálf hefur hún borið að ef hún hafi fengið þann lyfjaskammt sem ákærði kveðst hafa gefið henni, samtals 30 mg af díazepam og 50 mg af phenergan, hefði hún ekki komist í það ástand sem hún kveðst hafa verið í við samfarirnar, hún hefði ekki „dottið út“ af þeim lyfjaskammti. Samkvæmt vætti hennar tók hún inn 1-2 töflur af verkjalyfinu nobligan áður en hún fór á neyðarmóttökuna um kvöldið, en þangað kom hún kl. 22.50. Y kannast við að það hafi komið fyrir að hún hafi misst minni, fengið „black-out“ vegna drykkju, stundum í mjög langan tíma og þetta sinn hafi hún misst úr mjög langan tíma og muni lítið sem ekkert eftir sér á þeim tíma er samfarirnar hafi átt sér stað.
Af niðurstöðu lyfjaleitar í blóðsýni og þvagsýni, sem tekin voru úr Y á neyðarmóttöku eftir komu hennar þangað um kl. 22.50 umrætt kvöld, er ljóst að hún var þá í mjög slævðu ástandi. Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi farið frá heimili hennar um klukkan fjögur um daginn, en síðasta vísbending þess að hann hafi verið þar eru hringingar hans til ættmennis síns og í Flugleiði skömmu fyrir klukkan þrjú. Er því ljóst að 7-8 klukkustundir liðu frá brottför ákærða uns Y kom á neyðarmóttöku. Ljóst er af framburði hennar, sem er í samræmi við matsgerð Þorkels Jóhannessonar prófessors, að hún tók verkjalyfið nobligan eftir brottför ákærða og jafnframt er ljóst af niðurstöðu lyfjaleitarinnar að auk þess lyfs fannst klórdíazepoxíð, róandi lyf, sem ekki er á skrá heimilislæknis hennar yfir þau lyf sem hann hafði ávísað til hennar 29. desember sl. og ákærði kannast ekki við að hafa gefið henni það. Af vætti Þorkels er ljóst að lyfið nobligan (tramadol) er verkjadeyfandi lyf, með mun hættulegri- og slævandi áhrifum á miðtaugakerfi og með mun meiri eituráhrif en díazepam og klórdíazepoxið. Þá má einnig ráða af vitnisburði Þorkels að sá framburður kæranda stenst vart að hún hafi verið lyfjalaus í um 2 daga, því samkvæmt vitnisburði hans er ljóst að hún hefur tekið inn díazepam og klórdíazepoxíðið í marga daga, einkum það síðarnefnda. Sagði vitnið að ef þessi tvö efni hefðu verið gefin með 1-2 lyfjagjöfum hefðu umbrotsefni þeirra ekki verið fyrir hendi í svo miklu magni sem raun var á, en magnið hafi bent til þess að díazepam hefði verið tekið í allnokkra daga og klórdíazepoxíð í viku eða svo, jafnvel lengur.
Kærandi á langa sögu um ofneyslu lyfja og er fram komið að hún hefur mikið lyfjaþol. Verður ekki litið fram hjá þeim möguleika að hún hafi útvegað sér og tekið inn lyf sem hvorki stafa frá ákærða né heimilislækni hennar og tekið þau inn bæði fyrir og eftir að ákærði hafði við hana samfarir. Ríkir því óvissa um það hvaða lyfja hún neytti, magn þeirra og áhrif á meðvitundarástand hennar á þeim tíma sem ákærði hafi við hana samræði.
Y hefur ekki borið á móti því að hún hafi leyft ákærða að leggjast upp í rúm hjá sér, rámar í að hann hafi beðið sig um þetta, en síðan vaknað við að hann var að hafa við hana samfarir. Símtöl sem hún átti, meðal annars við læknavakt og nafngreindan kunningja sinn norður í landi og hún mundi síðar ekki eftir, þykja benda til þess að lyfjaneyslan hafi fremur valdið minnisleysi en rænuskerðingu. Ekki eru bornar brigður á að Y hafi verið í „black-out“ ástandi, eða minnisleysi, en hegðun og framkoma fólks undir slíkum kringumstæðum þarf ekki að benda til þess að um óeðlilegt ástand sé að ræða.
Það er mat dómsins að framburður ákærða hafi í heild sinni verið fremur trúverðugur, þrátt fyrir að hann hafi í fyrstu neitað samræðinu og verið reikull um lyfjagjafir sínar, en skoða verður framburð hans við rannsókn málsins í ljósi aðstæðna við yfirheyrslur hans þá.
Þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið, einkum minnisleysis kæranda um atburði, þess að hún á vanda til langvarandi minnisleysis í kjölfar áfengis- og lyfjaneyslu og óvissu um ástand hennar er ákærði hafði kynmök við hana, þykir ekki fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi framið það brot sem hann er ákærður fyrir, sbr. 45. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Ber því að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Eftir þessum úrslitum ber að vísa frá dómi framkominni skaðabótakröfu, sbr. 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Allur sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, 150.000 krónur.
Dómsorð:
Ákærði, X, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, 150.000 krónur.