Hæstiréttur íslands
Mál nr. 29/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Skiptastjóri
|
|
Miðvikudaginn 3. febrúar 1999. |
|
Nr. 29/1999. |
Viðar Helgason (Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Sigurmar K. Albertssyni (enginn) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Skiptastjóri.
V krafðist þess að S, skiptastjóra í dánarbúi H, yrði vikið úr starfi samkvæmt 47. gr. laga nr. 21/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Einnig krafðist V skaðabóta úr hendi S. Héraðsdómur hafnaði kröfu V um að S yrði vikið úr starfi en vísaði kröfum hans að öðru leyti frá dómi. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest en fyrir Hæstarétti krafðist V ekki breytingar á þeirri niðurstöðu héraðsdóms að vísa skaðabótakröfunni frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 1998, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. janúar 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 1998, þar sem skaðabótakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi og hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði vikið úr starfi skiptastjóra í dánarbúi Helga Jakobssonar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Krefst sóknaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og tekin til greina krafa hans um að varnaraðila verði vikið úr starfi skiptastjóra í greindu dánarbúi. Hann krefst hins vegar ekki breytingar á þeirri niðurstöðu héraðsdómara að vísa skaðabótakröfunni frá dómi. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar þykir mega staðfesta hann.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 1998.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. nóvember sl. var þingfest 25. september sl.
Sóknaraðili, Viðar Helgason, kt. 151160-4689, Länna Gård, Skogås, Svíþjóð, krefst þess að varnaraðila, Sigurmar K. Albertssyni hrl., skiptastjóra í dánarbúi Helga Jakobssonar, verði umsvifalaust vikið úr starfi. „Þess er og krafist að varnaraðili bæti að fullu, eftir almennum skaðabótareglum, það efnahagslega tjón sem aðferðir hans hafa valdið dánarbúinu ásamt uppkomnu tjóni fyrir erfingja og kröfuhafa í sambandi við atvinnurekstur.“ Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili, Sigurmar K. Albertsson hrl., krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila um skaðabætur verði vísað frá dómi og kröfu um að sér verði vikið úr starfi skiptastjóra verði hrundið. Til vara er þess krafist að sýknað verði af skaðabótakröfunni og kröfu um brottvikningu úr starfi skiptastjóra verði hrundið. Þá er krafist málskostnaðar. „Jafnframt telur varnaraðili sig knúinn til að gera kröfu um að honum verði heimilað að draga frá væntanlegum arfshluta sóknaraðila fjármuni til skuldajafnaðar við málskostnað á grundvelli meginsjónarmiða a og b liða 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.“
II. Málavextir eru þeir að 27. maí 1997 lést faðir sóknaraðila, Helgi Jakobsson pípulagningameistari, er síðast var til heimilis að Skeiðarvogi 85 í Reykjavík. Sóknaraðili krafðist þess að bú Helga yrði tekið til opinberra skipta og úrskurður um það kveðinn upp 10. nóvember 1997 og varnaraðili skipaður skiptastjóri.
Með bréfi til dómsins 4. maí 1998 fundu tveir erfingja Helga og tveir kröfuhafar í dánarbúið að störfum skiptastjóra. Var sóknaraðili annar erfingjanna. Í þinghaldi 19. júní sl. voru þessar aðfinnslur bornar undir varnaraðila og svör hans við þeim bókuð. Í þinghaldi 22. júní greindi dómari frá þeirri niðurstöðu sinni að ekki væru efni til að víkja skiptastjóra frá störfum þar eð hann hefði sinnt starfi sínu í samræmi við skyldur sínar samkvæmt skiptalögum. Sóknaraðili vildi ekki una þessari niðurstöðu og krafðist úrskurðar um hana samkvæmt 3. mgr. 47. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Barst krafan dóminum 23. júní sl. og var þingfest eins og áður segir.
III. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi vanrækt starf sitt sem skiptastjóri á þann hátt að hann hafi með því valdið dánarbúinu, erfingjum og kröfuhöfum bæði beinu og óbeinu efnahagslegu tjóni. Þá hafi varnaraðili einnig á margvíslegan hátt brotið þau lög og þær reglur sem honum hafi borið skylda til að fylgja í starfi sínu sem skiptastjóri.
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi gefið utanaðkomandi aðila eignir dánarbúsins að Bryggjuvör 1 án vitundar eða heimildar frá sóknaraðila eða þeim lögerfingja, er hafi gert tilboð í lausaféð. Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa staðfest skriflega að hann hafi fengið peningatilboð í lausaféð frá tveimur lögerfingjum og kröfuhöfum, en þrátt fyrir það hafi hann gefið utanaðkomandi aðila allt lausaféð, bæði eignir dánarbúsins og persónulegar eigur annarra. Fyrir utan lausafé, sem var eign dánarbúsins, hafi verið um að ræða persónulegar eigur annarra í geymslu að Bryggjuvör 1 sem varnaraðili hafi einnig gefið án heimildar. Hluta af þessum persónulegu eigum hafi erfingjar og kröfuhafar fengið til baka með leyfi hins nýja eiganda. Þetta lausafé, sem var eign dánarbúsins og sem varnaraðili gaf, hafi verið nothæf verkfæri, tól og atvinnutæki pípulagningarmanna ásamt miklu af óflokkuðu efni til pípulagna. Þessir hlutir hafi verið ætlaðir til nota í atvinnurekstri, sem einn erfingjanna ásamt tveimur kröfuhöfum stundi. Þessar aðgerðir varnaraðila hafi ekki bara valdið dánarbúinu efnahagslegu tjóni heldur einnig valdið atvinnurekstri þessara manna tjóni. Sóknaraðili kveðst hafa gefið varnaraðila möguleika á að bæta úr þessari vanrækslu en varnaraðili sé búinn að staðfesta skriflega að hann ætli sér ekki að gera það.
Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ekki kært refsivert athæfi í dánarbúinu þrátt fyrir beiðnir og ítrekanir um það frá sóknaraðila og öðrum lögerfingjum. Varnaraðili hafi fengið vitneskju um hið refsiverða athæfi í dánarbúinu sem skiptastjóri og honum hafi verið skylt að tilkynna það ríkislögreglustjóra. Þetta hafi hann ekki gert þrátt fyrir að í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík frá 16. mars 1998 hafi hann bent varnaraðila á skyldu til að tilkynna um refsivert athæfi í samræmi við ákvæði laga um skipti á dánarbúum o.fl. Á meðan búið sé undir opinberum skiptum sé það skiptastjóri einn sem geti kært slíkt. Varnaraðili hafi þannig alvarlega vanrækt starf sitt og skyldu sína með því að tilkynna ekki um hið refsiverða athæfi. Hið refsiverða athæfi felist m.a. í því að einn af erfingjunum, eiginkona Helga heitins, hafi a.m.k. tvívegis reynt að leyna eignum í dánarbúinu og sé um að ræða verulegar fjárhæðir, á að giska 2,5-3 milljónir króna sem vitað sé um í dag. Sóknaraðili telur hér líklega vera um auðgunarbrot að ræða auk skilasvika og skattalagabrota og hafi varnaraðili ekki tilkynnt þetta til lögreglu. Varnaraðili hafi einnig fengið vitneskju um að lögmaður hafi gert dómsátt fyrir hönd dánarbúsins án þess að hafa umboð frá sóknaraðila, sem sé lögerfingi í búinu, og án þess að tilkynna þetta til lögreglu.
Sóknaraðili og annar lögerfinginn kveðast margoft hafa skilað inn beiðnum og ítrekað þær um að hugsanlegar eignir dánarbúsins í Færeyjum séu kannaðar tafarlaust. Þetta hafi fyrst verið tekið upp eftir að búið var tekið til opinberra skipta, á skiptafundi 14. nóvember 1997, og hafi þessar kröfur, sem séu á rökum reistar, verið ítrekaðar margoft. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að skiptastjóra hafi verið kunnugt um það að eiginkona Helga Jakobssonar, sem sé færeyskur ríkisborgari, hafi reynt að leyna verulegum eignum, er búið var í einkaskiptum. Um sé að ræða á að giska eina milljón króna á bankareikningi í Færeyjum. Í lok janúar 1998 hafi komið í ljós að konan hafi aftur reynt að leyna skiptastjóra eignum, m.a. rúmlega 1,5 milljón króna á gjaldeyrisreikningi á Íslandi. Skiptastjóra var einnig afhent uppkast af skiptagerningi á milli konunnar og fyrrverandi eiginmanns hennar í Færeyjum, þar sem hennar hluti er áætlaður á að giska 7 milljónir króna við skilnaðinn 1995. Skiptastjóri sé skyldugur, lögum samkvæmt, að kanna tafarlaust eignir búsins og sjá til þess að skiptum verði lokið án ástæðulauss dráttar. Honum beri einnig skylda til að gæta þess að réttindi búsins fari ekki forgörðum, enda hafi hann alla möguleika til að fá dómsúrskurð um að athuga eignir búsins í Færeyjum. Fullt tilefni sé til þess þegar ljóst sé að tvívegis hafi verið reynt að leyna eignum í búinu.
Það er álit sóknaraðila að varnaraðili hafi vanrækt starf sitt sem skiptastjóri á margvíslegan hátt og framferði hans og aðgerðir verið slíkar að dánarbúið og erfingjar hafi beðið tjón af. Varnaraðili hafi brotið á móti þeim lögum og reglum sem honum beri skylda til að fylgja sem skiptastjóri. Krefst sóknaraðili þess að honum sé umsvifalaust vikið úr starfi með vísan til ákvæða í lögum um skipti á dánarbúum o.fl. Þá er farið fram á að varnaraðili bæti að fullu það tjón sem hann hefur valdið eftir almennum skaðabótareglum.
IV. Varnaraðili kveðst, þegar eftir skipun sína sem skiptastjóri í framangreindu búi, hafa hafist handa við að tryggja hagsmuni þess, bæði með könnun á eignum búsins, varðveislu þeirra og innköllun krafna auk annarra starfa sem nauðsynleg voru. Í búinu hafi verið tvær fasteignir, íbúð að Skeiðarvogi 85 og iðnaðarhúsnæði að Bryggjuvör 1 í Kópavogi. Auk þessa tvær nær verðlausar bifreiðar, innbú, verkfæri, vélar og tæki auk annars lausafjár svo og viðskiptakröfu á hendur Hveragerðisbæ og fjármuna á bankareikningum. Í beiðni um leyfi til einkaskipta hafi erfingjar Helga Jakobssonar talið að verðmæti lausafjármuna búsins næmi alls 100.000 krónum.
Fasteignin að Bryggjuvör 1 hafi verið sett á fasteignasölu af hálfu sóknaraðila og annarra erfingja í ágúst 1997. Fasteignasölunni hafi verið afhentir lyklar að húseigninni og fulltrúum hennar falið að annast sölu og sýningu eignarinnar. Auk þess hafi bróðir sóknaraðila, Reynir Helgason, svo og þeir Sigurður Stefánsson og Jónas Helgi Ólafsson haft lyklavöld að eigninni og frjálsan aðgang að henni og þeim munum sem þar voru, en þessir þrír menn höfðu allir unnið við pípulagnir hjá Helga heitnum Jakobssyni. Sigurður Stefánsson er stjúpsonur Helga heitins og Jónas Helgi systursonur Sigurðar. Eftir að varnaraðili var skipaður skiptastjóri kveðst hann ekki hafa talið það þjóna hagsmunum búsins að breyta aðgangi þessara manna að fasteigninni eins og að framan er lýst.
Fyrsti skiptafundur í búinu hafi verið haldinn 14. nóvember 1997 og hafi þá komið upp ágreiningur meðal erfingja um eignarhald að Bryggjuvör 1 auk verkfæra og annarra hluta, sem þar voru. Því hafi verið haldið fram af sóknaraðila, og þeim sem honum tengdust, að eignin hefði, ásamt lausafé, verið seld úr búinu rétt fyrir andlát Helga Jakobssonar. Varnaraðila tókst ekki að jafna þennan ágreining og vísaði honum til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem ekki var fallist á eignartilkall sóknaraðila.
Við upphaf skiptanna hafi verið til staðar upplýsingar um bankareikninga Malenu Andreasen, ekkju Helga heitins Jakobssonar, á Íslandi og í Færeyjum. Á skiptafundinum hafi komið fram krafa af hálfu lögmanns sóknaraðila þess efnis að varnaraðili kannaði eignir Malenu í Færeyjum. Á þessum fundi kveðst varnaraðili hafa lagt fyrir lögmann Malenu að afla skilnaðarsamnings hennar og fyrrum eiginmanns hennar. Lögmanninum hafi ekki tekist að afla þessara gagna og hafi því varnaraðili tekið það að sér. Eftir mikinn eftirrekstur hafi honum borist í ágúst sl. drög að skilnaðarsamningnum. Í ljós hafi komið að um var að ræða nær tíu ára gamlan skilnað. Varnaraðili kveðst samstundis hafa sent samninginn til lögmanna erfingjanna og jafnframt kynnt þeim þá afstöðu sína að ekki væri þörf á að eyða meiri tíma í þessa eignakönnun. Á skiptafundi 2. september sl. hafi engar athugasemdir verið gerðar við þessa afstöðu varnaraðila af hálfu viðkomandi lögmanna.
Á skiptafundinum 14. nóvember 1997 kveðst varnaraðili jafnframt hafa verið upplýstur um það að tæki, vélar og ýmislegt lauslegt hefði verið að Bryggjuvör 1, sem tengst hafi rekstri fyrirtækis Helga heitins Jakobssonar, HJ pípulögnum. Þáverandi lögmaður sóknaraðila hafi upplýst að Reynir Helgason og samstarfsmenn hans, áðurnefndir Sigurður og Jónas Helgi, hefðu talsvert af þessum munum í fórum sínum. Varnaraðili kveðst hafa óskað eftir að tekinn yrði saman listi yfir öll þau verkfæri og lausafé sem um hafi verið að ræða. Þessi listi hafi borist síðar og hafi verið merkt á honum við þá muni sem þessir menn höfðu í fórum sínum en aðrir munir hafi átt að vera að Bryggjuvör 1.
14. janúar 1998 hafi komið tilboð í Bryggjuvör 1 en ekki hafi verið fallist á það og nokkrum dögum síðar hafi borist annað tilboð, sem samþykkt hafi verið, bæði af hálfu varnaraðila og erfingja. Samkvæmt kauptilboðinu átti eignin að afhendast strax en við undirritun kaupsamningsins 27. febrúar sl. var samið um afhendinguna 1. mars sl. Sóknaraðila hafi verið kunnugt um sölu eignarinnar þegar 19. janúar sl. og hafi honum jafnframt verið kunnugt um afhendingardag hennar eftir að hann hafi verið endanlega ákveðinn.
Varnaraðili kveðst hafa staðið í þeirri trú, m.a. á grundvelli samskipta við sóknaraðila og aðra kunnuga, að þau verkfæri og annað lausafé sem enn hafi verið að Bryggjuvör 1 væru verðlaus. Ljóst var að hagsmunir búsins kröfðust þess að húsnæðið yrði rýmt vegna sölunnar og 2. mars sl. hafi varnaraðila verið tilkynnt um þann vilja sóknaraðila og fyrrgreindra aðila, sem höfðu lyklavöld að húsnæðinu, að fjarlægja innanstokksmuni þar gegn því að fá að eiga þá. Er kaupandi eignarinnar hafi orðið þess áskynja hafi hann boðist til þess að greiða 50.000 krónur fyrir munina og fá að halda þeim. Sóknaraðili, ásamt fyrrnefndum mönnum, hafi þá boðist til að greiða sama verð fyrir hlutinn og fjarlægja þá. Er hér var komið sögu hafi lögmaður Malenu Andreasen gert þá kröfu að verðmæti munanna yrði kannað áður en frekar yrði aðhafst. Þá hafi maður nokkur verið fenginn til að meta þá og hafi hann farið á staðinn en þá komið í ljós að flest verðmætt í húsinu hafði verið fjarlægt þaðan af Reyni Helgasyni og fyrrgreindum Sigurði og Jónasi Helga. Kveðst varnaraðili hafa reynt að ná tal af þeim og sóknaraðila í gegnum lögmann þeirra en án árangurs. Ekki hafi því orðið af mati á verðmæti munanna að svo stöddu. Síðar hafi komið í ljós að sóknaraðili og félagar hans hafi verið reiðubúnir til að greiða 75.000 krónur fyrir munina en tilboð þar að lútandi hafi ekki borist varnaraðila fyrr en um seinan.
Varnaraðili kveður kaupanda eignarinnar hafa haft samband við sig 4. mars sl. og gert þá kröfu að húsnæðið yrði rýmt og afhent í lögmætu formi í samræmi við kaupsamning og afsal. Þá tilkynnti hann jafnframt varnaraðila að hann hefði fallið frá fyrra kauptilboði sínu í munina. Kveður varnaraðili kaupandann hafa haft í hyggju að flytja munina á brott og hreinsa húsnæðið á kostnað dánarbúsins, kveðst hann því hafa óskað eftir stuttum fresti og fengið matsmanninn aftur til að meta þá muni sem enn hafi verið á staðnum. Matsmaðurinn hafi tilkynnt sér skömmu síðar að umræddir munir væru það verðlitlir að það svaraði hvorki kostnaði að meta þá né fjarlægja. Í því skyni að stofna ekki fasteignaviðskiptunum í voða og stofna ekki til óþarfa kostnaðar búsins við flutning munanna kveðst varnaraðili hafa tekið þá ákvörðun að kaupandi eignarinnar mætti eiga munina gegn því að rýma sjálfur húsnæðið. Þessi ráðstöfun hafi verið gerð með samþykki lögmanns Malenu Andreasen.
Í því skyni að fullvissa sig um verðmæti þess sem eftir var í Bryggjuvör 1 kveðst varnaraðili hafa fengið fulltrúa sinn til að fara á staðinn 11. mars sl. og meta munina til verðs. Niðurstaða hans hafi verið í raun sú sama og matsmannsins, en teknar hafi verið myndir af vettvangi, sem séu meðal gagna málsins. Fulltrúinn hafi gefið út verðmat í maí sl. m.a. vegna málatilbúnaðar sóknaraðila.
Fyrir utan þá muni sem framangreindir menn höfðu þá þegar fjarlægt úr húsnæðinu afhenti kaupandi þess þeim nokkra muni til viðbótar, auk þess sem þeim var boðið að koma á tilteknum dögum og fjarlægja annað lauslegt, sem þeir töldu nothæft, en þeir hafi ekki nýtt sér þetta. Því sem eftir var í húsnæðinu var því ráðstafað af hálfu kaupanda þess en eins og fram kemur í bréfi, sem er á meðal gagna málsins, hafi verið talsverður kostnaður samfara förgun munanna og hreinsun húsnæðisins en þessi kostnaður hafi ekki fallið á dánarbúið vegna ráðstafana varnaraðila.
Kröfu sína um að vísa beri skaðabótakröfunni frá dómi byggir varnaraðili í fyrsta lagi á því að hún sé ekki tæk til efnismeðferðar í málinu á grundvelli laga um skipti á dánarbúum o. fl. Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að sóknaraðili eigi ekki aðild að skaðabótakröfunni eins og hún sé sett fram, enda byggi sóknaraðili hluta skaðabótakröfu sinnar á meintu tjóni sem athafnir varnaraðila hafi valdið öðrum en sóknaraðila sem séu menntaðir í pípulögnum og hafi atvinnu af þeim starfa. Í þriðja og síðasta lagi byggir varnaraðili frávísunarkröfu sína á því að skaðabótakrafa sóknaraðila sé algjörlega vanreifuð, bæði hvað varðar bótagrundvöll og fjárhæð kröfugerðar og hún því ekki tæk til efnismeðferðar í þessu horfi.
Að öðru leyti byggir varnaraðili á því að engin rök séu til þess að taka kröfur sóknaraðila til greina og málareksturinn sé eingöngu til þess fallinn að auka kostnað við skiptin og draga skiptalok í búinu. Kveður varnaraðili jafnframt aðgerðir sínar við skiptastjórn hafa verið í samræmi við góða starfshætti, enda hafi honum borið sem skiptastjóra að tryggja hagsmuni búsins í hvívetna, m.a. með því að stofna ekki til óþarfa kostnaðar við skiptin.
Varnaraðili kveður fullyrðingar sóknaraðila um ráðstafanir varðandi inanstokksmuni að Bryggjuvör ekki eiga við rök að styðjast. Varnaraðili hafi gert það sem nauðsynlegt hafi verið til að tryggja hagsmuni búsins og athafnir hans verði síður en svo taldar grundvöllur þess að honum verði vikið úr starfi. Hann bendir á að þessar ráðstafanir sínar hafi verið samþykktar af hálfu Malenu Andreasen, sem átt hafi helming hinna umdeildu muna á grundvelli 6. gr., sbr. VIII. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993 og þriðjung að auki á grundvelli 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Hið meinta tjón sóknaraðila væri af þessum sökum þegar orðið óverulegt, einkum að teknu tilliti til þess hvert verðmæti munanna var, m.a. að mati sóknaraðila og annarra sem til þekktu. Þá byggir varnaraðili jafnframt á því að röksemdir sóknaraðila, er lúti að afhendingu persónulegra eigna annarra, eigi ekki við rök að styðjast, enda hafi engum slíkum kröfum verið lýst í búið né hafi með nokkrum hætti verið sannaður eignaréttur utanaðkomandi aðila á nokkrum munum sem hér um ræðir. Þá verði ekki litið fram hjá því að viðkomandi aðilum hafi verið gefinn kostur á að taka þessa hluti og þeir nýtt sér það.
Varðandi vanrækslu á að kæra Malenu Andreasen fyrir að hafa reynt að leyna eignum við skiptin tekur varnaraðili fram að sóknaraðili hafi sjálfur kært Malenu og lögmann, er unnið hafi fyrir Helga heitinn Jakobsson, til lögreglu. Lögreglustjórinn í Reykjavík hafi svarað þessari kæru með bréfi 16. mars sl. þar sem fram komnar kærur eru kynntar og jafnframt er sérstaklega tekið fram að ekki sé krafist frekari aðgerða í málinu.
Varðandi vanrækslu á að kanna eignastöðu Malenu í Færeyjum þá tekur varnaraðili fram að kröfur sóknaraðila að þessu leyti séu algjörlega vanreifaðar. Varnaraðili hafi sinnt starfi sínu að þessu leyti með óaðfinnanlegum hætti eins og gögn málsins beri eindregið með sér. Þá beri að hafa í huga varðandi þetta atriði að varnaraðili hafi ekki sömu heimildir til athafna og aðgerða erlendis og hér á landi.
Varðandi varakröfu sóknaraðila bendir varnaraðili á, að verði talið að krafa til greiðslu skaðabóta komist að í málinu, sé alfarið sé ósannað að athafnir varnaraðila hafi valdið búinu eða einstökum erfingjum tjóni. Sóknaraðili hafi ekki fært sönnur á eða rökstutt með fullnægjandi hætti hverra bóta sé krafist. Þá verði ekki fram hjá því litið að meint tjón vegna starfa varnaraðila er ekki á hans ábyrgð þar sem hinir meintu tjónþolar hafi augljóslega ekki takmarkað tjón sitt með neinum hætti svo sem þeim hafi verið skylt. Efnisleg skilyrði fyrir bótaskyldu varnaraðila séu þar af leiðandi ekki fyrir hendi.
V. Krafa sóknaraðila um að varnaraðila verði vikið frá skiptastjórn byggist á tveimur atriðum. Hið fyrra varðar meðferð varnaraðila á hluta af lausafé að Bryggjuvör 1 og hið síðara snýr að upplýsingaöflun varnaraðila varðandi eigur Malenu Andreasen í Færeyjum.
Varðandi fyrra atriðið þá heldur sóknaraðili því fram að varnaraðili hafi gefið lausaféð eða látið henda því, eins og rakið var hér að framan. Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu þeir Reynir Helgason, bróðir sóknaraðila, Sigurður Stefánsson, hálfbróðir hans og Jónas Helgi Ólafsson, systursonur Sigurðar en þessir þrír unnu lengi hjá Helga heitnum Jakobssyni við pípulagnir og höfðu allan þann tíma óheftan aðgang að Bryggjuvör 1. Þá kom og fram hjá þeim að þeir höfðu hug á að kaupa lausafé af dánarbúinu og höfðu boðið 50.000 krónur í það í upphafi. Hafi þeir gefið lögmanni sínum umboð til að bjóða allt að 100.000 krónur í það án þess að hann þyrfti að ráðfæra sig við þá en sjálfir kváðust þeir vel hafa getað hugsað sér að bjóða 4 - 500.000 krónur í munina.
Meðal gagna málsins er bréf þáverandi lögmanns framangreindra þriggja manna og sóknaraðila um boð þeirra í lausaféð að Bryggjuvör 1. Í því kemur fram að þeir hafi fyrst boðið það að þeir eignuðust hlutina gegn því að fjarlægja þá, næsta boð hafi verið á sömu nótum að viðbættum 50.000 krónum og þeir hafi verið tilbúnir að hækka sig í 75.000 krónur en þá hafi atburðarásin tekið aðra stefnu eins og segir í bréfinu.
Í IV. kafla hér að framan var lýst aðdraganda að sölu Bryggjuvarar 1 og hvernig hagsmunir búsins kröfðust þess að það yrði rýmt þegar eftir að það hafði verið selt. Í ljósi þess að framangreindir menn höfðu, allt frá andláti Helga Jakobssonar, haft óheftan aðgang að húsnæðinu auk þess sem þeim hafði gefist kostur á að fjarlægja það, sem þeim tilheyrði, úr húsinu, verður ekki talið að varnaraðili hafi brotið af sér gagnvart þeim með því að leyfa kaupanda hússins að ráðstafa því, sem eftir hafði orðið. Þá hefur og þeirri fullyrðingu varnaraðila ekki verið hnekkt, að hér hafi verið um að ræða verðlitla muni og jafnvel hafi þurft að greiða með förgun þeirra. Verður að hafa í huga að ekki hafa verið leidd önnur vitni í málinu en framangreindir þrír menn, er allir hafa hagsmuna að gæta í málinu og tengjast auk þess sóknaraðila. Loks ber boð þessara manna í munina ekki með sér að þeir hafi talið þessa hluti verðmikla.
Samkvæmt framanrituðu er það því niðurstaðan að meðferð varnaraðila á umræddu lausafé getur ekki valdið því að honum verði vikið frá skiptastjórn í búinu.
Varðandi eigur Malenu Andreasen í Færeyjum er fyrst til að taka að í beiðni um einkaskipti á dánarbúinu eru ekki tilgreindir neinir bankareikningar en sóknaraðili er meðal þeirra, sem undirrita beiðnina. Á fyrsta skiptafundi 14. nóvember 1997 tók lögmaður sóknaraðila fram að til væri bankabók í færeyskum banka á nafni Malenu og jafnframt óskaði hann eftir að kannað yrði hvort Malena ætti eignir í Færeyjum. Í framhaldi af þessu beindi varnaraðili því til lögmanns Malenu að gefin yrði yfirlýsing um hugsanlegar eigur hennar í Færeyjum.
Næsti skiptafundur var haldinn 10. desember og er bókað að tilgangur hans sé að afla upplýsinga um eignir dánarbúsins og þá sérstaklega Malenu Andreasen. Eftir Malenu er bókað að hún eigi ekki aðrar eignir í Færeyjum en bankabók og sé ljósrit af henni í gögnum málsins. Hún kvaðst hafa átt í skilnaðarmáli í Færeyjum, skiptum í því sé lokið og stafi bankabókin frá þeim. „Malena segist ekki eiga aðrar eignir en voru í búi hennar og Helga s.s. bankabækur eða samsvarandi eignir.“
Á skiptafundi 12. febrúar 1998 er bókað að lögmaður Malenu muni kanna hjá henni hvort bankabækur, sem upplýsingar hafi fengist um, séu á heimilinu svo og lykill að bankahólfi. Þá tók lögmaðurinn fram að reikningur í Landsbankanum, skráður á Malenu, væri í raun eign sonar hennar, er búsettur væri í Færeyjum. Kvaðst hann mundu útvega gögn er styddu þetta. Á fundinum óskaði varnaraðili eftir því að lögmaður Malenu útvegaði skiptagerning á milli hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar.
Á skiptafundi 29. júní sl. upplýsti varnaraðili að hann hefði margítrekað reynt að ná til fyrrverandi lögmanns Malenu í Færeyjum en ekki tekist. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa tekið við afriti eða uppkasti af skiptagerningi á milli hennar og eiginmannsins í Færeyjum. Og á skiptafundi 2. september sl., þar sem lögmaður sóknaraðila var viðstaddur, er bókað að ekki séu gerðar athugasemdir við upplýsingar frá Færeyjum um skilnað Malenu og fyrri eiginmanns hennar.
Þá er meðal gagna málsins bréf frá varnaraðila til lögmanns sóknaraðila þar sem fram kemur að ágreiningslaust sé að í vörslu Malenu séu þrír bankareikningar, er teknir verði með í frumvarp að væntanlegri úthlutun þegar þar að komi. Enn fremur hefur verið lagt fram endurrit úr dómabók Færeyja og kemur þar fram að Malena og fyrri eiginmaður hennar skildu á og borð á sæng 1990 og fengu lögskilnað 1992. Í lögskilnaðarleyfinu segir að búi þeirra hafi ekki verið skipt heldur muni því annaðhvort skipt einka- eða opinberum skiptum.
Af því, sem nú hefur rakið um aðgerðir varnaraðila til að upplýsa um eigur Malenu Andreasen í Færeyjum, og með vísan til þess, er segir í IV. kafla hér að framan, verður ekki séð að hann hafi á nokkurn hátt vanrækt skyldur sínar sem skiptastjóri. Hér verður ekkert um það fjallað hvernig hún stóð að því að upplýsa um eigurnar eða hvenær, en ljóst má vera að varnaraðili getur ekki borið ábyrgð á því, hafi eitthvað verið vantalið eða seint fram talið af hennar hálfu í þeim efnum. Þá er Malena ekki aðili þessa máls og engin gögn verið lögð fram af hennar hálfu í málinu.
Samkvæmt öllu framanrituðu er það niðurstaða dómsins að hafna kröfu sóknaraðila um að víkja varnaraðila frá skiptastjórn í dánarbúi Helga Jakobssonar.
Í málinu krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði vikið frá skiptastjórn, sbr. 3. mgr. 47. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 og hefur verið farið með málið samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laganna, sbr. 121. gr. þeirra. Samkvæmt 4. mgr. 48. gr. laganna skal skiptastjóri bæta tjón, sem hann kann að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum. Ekki er í þessum ákvæðum að finna heimild til handa þeim er krefjast brottvikningar skiptastjóra, til að hafa jafnframt uppi skaðabótakröfur á hendur honum í sama máli og verður þar af leiðandi að vísa skaðabótakröfum sóknaraðila frá dómi.
Loks verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað. Kröfu varnaraðila um að honum verði heimilað að draga frá væntanlegum arfshluta sóknaraðila fjármuni til skuldajafnaðar við málskostnað á grundvelli meginsjónarmiða a og b liða 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er hafnað, enda eru kröfur þessar ekki af sömu rót runnar og ekki hefur verið sýnt fram á að nefndir liðir einkamálalaganna eigi við um sóknaraðila.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Skaðabótakröfu sóknaraðila, Viðars Helgasonar, er vísað frá dómi en að öðru leyti er kröfum hans hafnað og skal hann greiða varnaraðila, Sigurmar K. Albertssyni hrl., 200.000 krónur í málskostnað.