Hæstiréttur íslands
Mál nr. 120/2017
Lykilorð
- Gagnaöflun
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. febrúar 2017. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að stefnda verði gert að greiða sér 2.389.268 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 19. janúar 2015 til 17. mars 2016 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er áfrýjandi heildverslun sem flytur meðal annars til landsins vöru er ber heitið Slökun. Varan mun vera í ýmsum útfærslum og innihalda magnesíumduft. Greinir málsaðila á um flokkun vörunnar í tollflokk samkvæmt gildandi reglum þar um og gerir áfrýjandi kröfu um endurgreiðslu oftekinna gjalda. Við flokkun vörunnar í tollflokk hefur þýðingu að komast að því hvers eðlis varan er. Er í héraðsdómi rakið til hvaða gagna málsaðilar telja að líta beri til við nánari úrlausn þar um. Var niðurstaða dómsins reist á upplýsingum af heimasíðu framleiðanda vörunnar og er jafnframt tiltekið í dóminum að þær séu öllum aðgengilegar þótt hvorugur málsaðila hafi séð ástæðu til að leggja þær fram.
Þótt lög heimili dómara að hafa tiltekin afskipti af sönnunarfærslu fyrir dómi er það meginregla að aðilar hafi forræði á öflun sönnunargagna og yfir sakarefni, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var þessa ekki gætt við meðferð málsins í héraði og verður heldur ekki séð að héraðsdómari hafi freistað þess að neyta heimildar í 2. mgr. 46. gr. laganna, eða eftir atvikum 104. gr. þeirra, og beina því til aðila að afla gagna um tiltekin atriði málsins eftir því sem hann taldi nauðsynlegt til skýringar á því. Þannig gafst aðilum ekki kostur á að reifa málið með tilliti til þeirra upplýsinga á heimasíðu framleiðanda vörunnar sem lágu til grundvallar niðurstöðu héraðsdóms.
Samkvæmt framansögðu fór meðferð málsins í bága við tilgreindar reglur réttarfarslaga. Verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember2016.
Þetta mál, sem var tekið til dóms 15. nóvember 2016, er höfðað af fyrirtækinu Mamma veit best ehf., kt. 520110-0700, Laufbrekku 30, Kópavogi, með stefnu birtri 17. mars 2016 á hendur íslenska ríkinu.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda 2.389.268 krónur auk vaxta, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 586.095 krónum frá 19. janúar 2015 til 3. febrúar 2015 en frá þeim degi af 1.267.785 krónum til 5. maí 2015 en frá þeim degi af 1.857.914 krónum til 26. maí 2015 en frá þeim degi af 2.048.881 krónu til 2. júlí 2015 en frá þeim degi af 2.389.268 krónum til birtingardags, 17. mars 2016, en frá þeim degi með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, til greiðsludags.
Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Hann krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málsatvik
Stefnandi er heildverslun sem kaupir og selur lífræn matvæli, bætiefni og snyrtivörur víðs vegar að úr heiminum. Stefnandi flytur meðal annars inn vöruna Slökun (hér eftir einnig nefnd „varan“). Það er magnesíumduft í sítrat-formi sem, að sögn stefnanda, líkaminn á gott með að nýta til þeirra mörgu starfa sem hann þarf magnesíum til. Varan hafi þann tilgang að auka upptöku neytandans á magnesíum, og eftir atvikum einnig kalki, en þannig geti hún til lengri tíma haft jákvæð áhrif á heilsu neytandans.
Varan er til í nokkrum útfærslum; bragðlaus, með appelsínubragði, með hindberja- og sítrónubragði, með sítrónubragði, með kirsuberjabragði, með hindberjabragði og kalki og með kalki. Sérhver pakkning inniheldur 226 grömm af vörunni.
Stefnandi hóf að flytja inn vöruna árið 2008. Að hans sögn var varan ávallt flokkuð í tollflokk 2106.9066, sem „Fæðubótarefni, ót.a.“, en sá tollflokkur ber ekki toll. Flokkun vörunnar sem fæðubótarefni sé í samræmi við flokkun framleiðandans á vörunni.
Í byrjun árs 2015 tollskoðaði Tollstjóri vöruna. Í kjölfarið var tollflokkun hennar breytt og hún flokkuð í tollflokk 2106.9025, sem „Tilreidd drykkjarvöruefni sem innihalda prótein og/eða önnur næringarefni, einnig vítamín, steinefni, jurtatrefjar, fjölómettaðar fitusýrur og bragðefni “, en sá flokkur ber 20% toll.
Stefnandi óskaði eftir svokallaðri afgreiðslu 2 fyrir vöruna. Í því felst beiðni um leiðréttingu á tollskýrslu eftir að tollafgreiðsla sendingar hefur farið fram. Tollstjóri hafnaði beiðni stefnanda um leiðréttingu og vísaði til þess að fyrri tollafgreiðsla væri rétt. Stefnandi óskaði 4. febrúar 2015 eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun Tollstjóra að hafna afgreiðslu 2 fyrir vöruna. Tollstjóri veitti þann rökstuðning 9. febrúar 2015 að ákvörðun embættisins byggðist á túlkunarreglu 3.a og samkvæmt vörulýsingu á umbúðum umræddrar vöru væri hún ætluð til blöndunar í vökva og því væri vörunni best lýst í tollflokki 2106.9025.
Stefnandi er ósammála flokkun Tollstjóra og telur hana ranga og í andstöðu við tollalög nr. 88/2005. Í ákvörðun embættisins felist að innheimtur sé af stefnanda hár tollur af vörunni í stað þess að hún sé tollfrjáls. Stefnandi hafi því mikla fjárhagslega hagsmuni af því að fá ákvörðun Tollstjóra leiðrétta og endurgreidd þau gjöld sem stefnandi hafi þegar greitt samkvæmt hinni röngu tollflokkun. Ákvörðun embættisins valdi stefnanda verulegu tjóni þar eð framlegð hans dragist saman. Ákvörðunin hafi þannig ótvírætt valdið stefnanda tjóni. Stefnandi eigi því ekki annan kost en að höfða mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur þá ákvörðun Tollstjóra að breyta tollflokkun vörunnar Slökun og flokka hana í tollflokk 2106.9025, ekki byggja á réttum forsendum. Þar af leiðandi sé ákvörðunin röng. Ákvörðunin sé andstæð ákvæðum tollskrár, sbr. viðauka I við tollalög, nr. 88/2005, og almennum reglum um túlkun tollskrárinnar sem séu birtar sem viðauki við tollalög. Þar með telji stefnandi að stefnda beri að endurgreiða sér þau gjöld sem hafi verið innheimt á grundvelli hinnar röngu ákvörðunar.
Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu ofgreiddra gjalda vegna ólögmætrar stjórnvaldsákvörðunar sem hafi beinst að honum. Hann hafi lögvarða hagsmuni af kröfunni því ákvörðun Tollstjóra hafi veruleg fjárhagsleg áhrif fyrir stefnanda, sem innflytjanda vörunnar. Hagsmunir hans felist í því að flokkun vörunnar Slökun sé í samræmi við ákvæði tollalaga. Ákvörðunin hafi þannig ótvírætt fjárhagsleg áhrif á stefnanda og framtíðaráform hans í rekstri.
Aðild stefnda fjármálaráðherra byggist á því að hann fari með yfirstjórn skatta- og tollamála sem tollalög, nr. 88/2005, taka til.
Vörulýsing vörunnar Slökun
Stefnandi áréttar að varan sem hann flytur inn og nefnist Slökun sé magnesíumduft sem neytandi getur blandað í örlítið magn af vatni til neyslu. Varan innihaldi hins vegar hvorki orkurík næringarefni né efni til uppbyggingar líkamans, t.d. prótein, kolvetni eða fitusýrur, heldur eingöngu steinefni. Til séu fleiri tegundir sömu vöru, sem innihalda lítils háttar bragðefni, sem sé fyrst og fremst bætt í vöruna til þess að auðvelda neyslu hennar. Varan hafi ekki örvandi áhrif og engin skammtímaáhrif á líðan neytandans. Henni sé ætlað að hjálpa neytandanum að auka upptöku líkamans á magnesíum þannig að það hafi til lengri tíma litið jákvæð áhrif á heilsu neytandans. Á umbúðum vörunnar sé skýrt tekið fram að þetta sé fæðubótarefni (e. food supplement) og að einungis sé ætlast til þess að neytt sé eins skammts á dag, sem nemi um 1-3 teskeiðum af vörunni, blandaðri í vatn.
Varan sé ekki drykkjarvöruefni enda sé hún ekki ætluð sem drykkur, þrátt fyrir að lagt sé til að henni sé blandað í vatn til að innbyrða hana. Varan sé því fæðubótarefni, en eins og eigi við um fæðubótarefni, sem algengt er að séu í töfluformi, sé alla jafna ráðlagt að neyta þeirra með vatnssopa eða öðrum vökva. Sama eigi við um neyslu fæðubótarefna í duftformi, vökvinn sem vörunni er blandað í sé einungis til þess að auðvelda neyslu fæðubótarefnisins.
Túlkunarreglur tollalaga
Stefnandi telur þá ákvörðun Tollstjóra, að flokka vöruna sem drykkjarvöruefni, þ.e. í tollflokk 2106.9025, í grundvallaratriðum ranga. Sú afstaða byggist á því að ákvörðun Tollstjóra sé andstæð ákvæðum tollskrár sem og túlkunarreglum tollskrárinnar sem er birt sem viðauki I við tollalög, nr. 88/2005. Tollflokkun skuli fara fram eftir fyrir fram ákveðnum hlutlægum mælikvörðum samkvæmt tollskrá og túlkunarreglum hennar. Samkvæmt 1. gr. túlkunarreglnanna skuli tollflokkun í lagalegu tilliti byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Þetta sýni að það sé fyrst og fremst orðalag sem ráði tollflokkun.
Tiltekinn vöruliður taki til fæðubótarefna og varan teljist til fæðubótarefna, eins og sjáist af umbúðum hennar. Því verði að telja að flokkun vörunnar í þann vörulið í samræmi við orðalag þess vöruliðar. Þannig sé flokkun vörunnar sem fæðubótarefnis í samræmi við orðalag vöruliðarins og þar með í samræmi við 1. gr. túlkunarreglna tollskrár. Af þeim sökum sé sú ákvörðun Tollstjóra, að flokka vöruna sem drykkjarvöruefni í stað þess að flokka vöruna sem fæðubótarefni, í andstöðu við framangreinda meginreglu.
Túlkunarreglur tollskrár taki einnig á þeim aðstæðum þegar til greina komi að flokka vöru í tvo flokka eftir framangreindri meginreglu. Í túlkunarreglu 3.a, sem Tollstjóri byggi ákvörðun sína á, komi fram hvernig með skuli fara þegar til álita kemur að telja vörur til tveggja eða fleiri vöruliða. Í þeim tilfellum skuli vöruliður sem felur í sér nákvæmustu vörulýsinguna tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu.
Þar eð varan sé í duftformi fari neysla hennar fram þannig að vörunni er blandað í örlítið magn af vatni til að auðvelda neyslu hennar. Meginvirkni vörunnar felist eftir sem áður í því að vera fæðubótarefni. Það sé því nákvæmari vörulýsing, í skilningi túlkunarreglu 3.a, að flokka vöruna eftir eiginleikum hennar og fella vöruna undir fæðubótarefni frekar en drykkjarvöru. Með hliðsjón af þessu sé ákvörðun Tollstjóra röng.
Brot gegn stjórnarskrárvörðum rétti og hindrun á samkeppni
Stefnandi kveðst vera einn fjölmargra innflytjenda á magnesíum, hvort sem það sé í duftformi eða töfluformi. Óháð því í hvaða formi magnesíum er, sé tilgangurinn með neyslu þess sá sami. Þar af leiðandi sé varan sem stefnandi flytji inn í beinni samkeppni við aðrar magnesíumvörur.
Í ákvörðun stefnda felist að ólíkt því sem eigi við um sambærilegar vörur beri vara stefnanda háan toll. Engin málefnaleg rök liggi til grundvallar slíkri mismunun og af þeim sökum verði að telja tollflokkunina brot gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, enda sé um að ræða skýra mismunun í tollálagningu vara sem eru fluttar til landsins og eru ætlaðar til sambærilegra nota.
Ákvörðun Tollstjóra sé enn fremur í andstöðu við þá meginreglu samkeppnisréttar að opinberir aðilar skuli ekki takmarka samkeppni, sbr. t.d. c-lið 1. mgr. 8. gr. og b-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, en handhöfum ríkisvalds beri að hafa samkeppnissjónarmið til hliðsjónar við ákvarðanir sínar.
Jafnframt verði að telja ákvörðunina skerða atvinnufrelsi stefnda á ólögmætan hátt þannig að hún brjóti í bága við skilyrði 75. gr. stjórnarskrárinnar. Í ákvörðuninni felist takmörkun á frelsi stefnanda sem geri honum erfitt að flytja inn og selja vöruna. Það fari gegn hagsmunum almennings að skerða atvinnufrelsi stefnanda á þennan hátt enda leiði sú skerðing af sér hækkað verð og skertar samkeppnisaðstæður á íslenskum markaði, almenningi til tjóns.
Krafa um endurgreiðslu oftekinna gjalda
Kröfu sína um greiðslu byggir stefnandi á meginreglum kröfu- og stjórnsýsluréttar um endurgreiðslu oftekinna gjalda og lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995. Samkvæmt 1. gr. laganna skuli stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum. Stefnandi hafi þegar flutt vöruna Slökun til landsins og leyst hana út samkvæmt tollafgreiðslu í flokk 2106.9025 og greitt af henni gjöld í samræmi við þá flokkun. Þannig hafi stefnandi greitt gjöld af vörunni í samræmi við ranga tollflokkun.
Fjárkrafa stefnanda sé samtala þeirra fjárhæða sem hann hafi greitt í toll fyrir vöruna. Það séu eftirtaldar greiðslur:
|
Dagsetning skýrslu |
Tollur |
|
19.01.2015 |
586.095 kr. |
|
03.02.2015 |
681.690 kr. |
|
05.05.2015 |
590.129 kr. |
|
26.05.2015 |
190.967 kr. |
|
02.07.2015 |
340.387 kr. |
|
Samtals |
2.389.268 kr. |
Samtals hafi stefnandi því ofgreitt 2.389.268 krónur vegna rangrar tollflokkunar. Samkvæmt 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995, skuli stefndi endurgreiða framangreindar fjárhæðir með vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi og dráttarvexti frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.
Stefnandi byggir á ákvæðum tollalaga, nr. 88/2005, einkum tollskrá í viðauka I við lögin. Stefnandi byggir einnig á almennum meginreglum stjórnsýsluréttar og meginreglum kröfuréttar. Hann byggir einnig á ákvæðum laga um endurgreiðslu oftekinna gjalda og skatta, nr. 29/1995, og samkeppnislögum, nr. 44/2005, svo og á stjórnarskránni, nr. 33/1944, einkum 65. og 75. gr. Að auki byggir hann á meginreglum einkamálaréttarfars. Fyrirsvar á stoð í 4. og 5. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Um varnarþing stefnda er vísað til 3. mgr. 33. gr. sömu laga. Krafa um vexti og dráttarvexti byggist á ákvæðum laga nr. 38/2001, einkum 6. og 8. gr. laganna, en einnig 125. gr. laga nr. 88/2005. Upphafsdagur vaxta sé greiðsludagur oftekinna gjalda en upphafsdagur dráttarvaxta sé stefnubirtingardagur. Málskostnaðarkrafa stefnenda byggist á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Ákvæði tollalaga og tollskrár
Stefndi vísar kröfum og málsástæðum stefnanda á bug. Hann áréttar að í 5. gr. tollalaga, nr. 88/2005, sé kveðið á um tollskyldar vörur og tollskrá. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 5. gr. skuli greiða toll af vörum sem eru fluttar inn á tollsvæði ríkisins, eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með lögunum. Tollskráin hafi verið birt í A-deild Stjórnartíðinda 18. maí 2005, en hafi verið breytt nokkrum sinnum frá þeim tíma, síðast með auglýsingu nr. 121/2015.
Þau tollskrárnúmer sem deilt sé um séu í IV. flokki tollskrár, sem hefur fyrirsögnina: Unnin matvæli; drykkjarvörur, áfengir vökvar og edik; tóbak og framleitt tóbakslíki. Í flokki IV. séu tollskrárnúmerin í 21. kafla sem hefur fyrirsögnina: Ýmis matvælaframleiðsla. Í 21. kafla séu númerin í vörulið 2106, sem hefur fyrirsögnina: Matvæli, ót.a. Vöruliðurinn 2106 skiptist í tvo undirliði sem ásamt fyrirsögn orðast svo 2106.10 Próteínseyði og textúruð próteínefni og 2106.90 Önnur.
Tollskrárnúmerið 2106.9025 var fellt brott úr tollskrá með auglýsingu nr. 121/2015 (sbr. c-lið 3. tölulið 1. gr. auglýsingarinnar). Þess í stað hafi komið tvö ný tollskrárnúmer, þ.e. 2106.9020 og 2106.9021. Breytingin hafi verið gerð því gefa hafi þurft tollyfirvöldum möguleika á að greina á milli tveggja vara sem fallið hafi í tollskrárnúmerið 2106.9025: annars vegar vara sem innihalda 50% eða meira af mjólkurafurðum og eru eftirlitsskyldar samkvæmt matvælalöggjöfinni og hins vegar þeirra vara sem innhalda minna en 50% af mjólkurafurðum. Áhrif breytinganna séu þau að vörur sem áður féllu í 2106.9025 falli nú annað hvort í 2106.9020 eða 2106.9021, en beri sömu aðflutningsgjöld og áður eða 20%.
Áður en tollskrárnúmerið 2106.9025 var fellt brott úr tollskrá hljóðaði það svo ásamt fyrirsögn: 2106.9025 – – – Tilreidd drykkjarvöruefni, sem innihalda próteín og/eða önnur næringarefni, einnig vítamín, steinefni, jurtatrefjar, fjölómettaðar fitusýrur og bragðefni. Eins og áður sé rakið telji stefnandi að flokka hefði átt vöruna Slökun í tollskrárnúmerið 2106.9066, sem orðast svo ásamt fyrirsögn: 2106.9066 – – Fæðubótarefni, ót.a.
Ljóst sé að bæði tollskrárnúmerin falli undir vöruliðinn 2106: Matvæli ót.a. Það virðist ágreiningslaust. Tollskrárnúmerið 2106.9025 hafi á sínum tíma fallið undir skiptiliðinn 2106.9020 sem bar fyrirsögnina: Efni til framleiðslu á drykkjarvörum. Tollskrárnúmerið 2106.9066 falli hins vegar beint undir undirliðinn 2106.90 sem hafi fyrirsögnina: Önnur, það er önnur matvæli ót.a., sbr. fyrirsögn vöruliðar 2106. Nánar tiltekið séu fæðubótarefni, sem flokkast í tollnúmerið 2106.9066, vörur sem eru ótaldar annars staðar undir öðrum tollskrárnúmerum sem innihalda fæðubótarefni.
Almennar reglur um túlkun tollskrár
Stefndi bendir á að í tollskránni, í viðauka I með tollalögum, séu almennar reglur um túlkun tollskrárinnar, sem hafi verið lagðar til grundvallar við ákvörðun þess hvernig flokka beri vörur í tollskrárnúmer.
Samkvæmt 1. túlkunarreglu séu fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis til leiðbeiningar. Í 2. málslið 1. túlkunarreglu segi að flokkun vara samkvæmt tollskránni skuli í lagalegu tilliti að meginstefnu byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Samkvæmt lokamálslið b-liðar 2. túlkunarreglu fari tollflokkun blandaðra og samsettra vara eftir 3. túlkunarreglu. Orðalag inngangsmálsliðar 3. túlkunarreglu beri með sér að reglan eigi aðeins við þegar til álita komi að telja vöru til tveggja eða fleiri vöruliða. Í 6. túlkunarreglu segi hins vegar að í lagalegu tilliti skuli flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemd við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verða bornir saman.
Eins og áður segi, falli tollskrárnúmerið 2106.9066 beint undir undirliðinn 2106.90 sem hefur fyrirsögnina Önnur, þ.e. önnur matvæli ót.a., sbr. fyrirsögn vöruliðar 2106. Tollskrárnúmerið 2106.9025 hafi hins vegar fallið undir skiptiliðinn 2106.9020. Þetta sjáist af því að tvö tilstrik eru fyrir framan tollskrárnúmerið 2106.9066 í tollskrá, en þrjú tilstrik eru fyrir framan númerið 2106.9025. Tvö tilstrik eru hins vegar á undan skiptiliðnum 2106.9020. Orðalag þeirra tollskrárnúmera sem deilt er um í málinu er annars vegar Tilreidd drykkjarvöruefni, sem innihalda próteín og/eða önnur næringarefni, einnig vítamín, steinefni, jurtatrefjar, fjölómettaðar fitusýrur og bragðefni (9025) og hins vegar Fæðubótarefni, ót.a. (9066).
Stefndi telur meginágreiningsefni þessa máls vera hvort varan Slökun geti fallið undir orðalag tollskrárnúmersins 2106.9025. Því þurfi að skoða orðskýringar. Sögnin að tilreiða hafi samkvæmt orðabók merkinguna að útbúa, gera tilbúinn. Samheiti hennar séu meðal annars orðin undirbúa, útbúa og verka. Skoða verði merkingu orðsins í samhengi við fyrirsögn undirliðarins 2106.90 sem er efni til framleiðslu á drykkjarvörum. Í þessu samhengi verði að líta svo á að orðið tilreidd hafi sömu merkingu og orðið tilbúið og tilreitt efni sé tilbúið til tiltekinna nota. Orðið drykkjarvara er samsett úr orðunum drykkur og vara.
Orðið drykkur merkir það sem drukkið er, sopi eða teygur. Orðið vara merkir varningur, eitthvað sem er framleitt og gengur kaupum og sölu. Orðið efni hafi meðal annars sömu merkingu og orðin efniviður, föng eða tilföng. Samandregið verði sú ályktun dregin að orðin tilreidd drykkjarvöruefni merki tilbúinn efnivið til einhvers sem er drukkið.
Næst beri að skoða afmörkun inntaks orðanna sem innihalda próteín og/eða önnur næringarefni. Magnesíum sé ekki prótein. Samkvæmt skýringu orðabókar á orðinu næringarefni, nái það til efna sem nýtast líkamanum sem orkugjafi eða bætiefni. Orðið bætiefni sé þannig skýrt í orðabók að það sé efni sem er nauðsynlegt fyrir efnaskipti og vöxt líkamans og þurfi að vera í fæðu í dálitlu magni, s.s. vítamín og ýmis steinefni.
Samkvæmt lýsingu stefnanda á vörunni Slökun í stefnu sé hún magnesíumduft sem inniheldur hvorki orkurík næringarefni né efni til uppbyggingar líkamans, eins og t.d. prótein, kolvetni og fitusýrur, heldur „eingöngu steinefni“. Lýsingu vörunnar í fram lagðri vörulýsingu sé reyndar verulega ábótavant, því þar sé ekki nein nákvæm innihaldslýsing. Stefndi leggi fram lýsingu vörunnar, sem einnig er af heimasíðu stefnanda, en þar er í innihaldslýsingu vörunnar ekki uppgefið orkuinnihald (kcal).
Í 4. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, sé hugtakið bætiefni skilgreint svo: Bætiefni eru vítamín, steinefni, þar með talin snefilefni, og lífsnauðsynlegar fitu- og amínósýrur. Almennt virðist magnesíum talið til steinefna. Ítrekað segi í stefnu að varan Slökun sé fæðubótarefni, að því er virðist í þeim tilgangi að gera greinarmun á því og orkuríkum næringarefnum. Samkvæmt orðabók sé fæðubótarefni efni sem er ætlað að bæta úr skorti líkamans á næringarefnum og tengist oft líkamsrækt og megrun.
Samkvæmt gögnum málsins virðist það vera nauðsynlegt eða í það minnsta æskilegt að blanda duftinu Slökun saman við vatn og að það sé drukkið eða þess neytt í vökvaformi. Raunar verði vart séð hvernig mögulegt eigi að vera að neyta þessa dufts á annan hátt en í vökvaformi. Þannig komi eftirfarandi leiðbeiningar fram á vefsíðu stefnanda: Best að blanda við sjóðandi vatn – setja duftið í bolla, hella smá heitu vatni yfir og láta duftið freyða og leysast alveg upp, hella því næst meira vatni (heitu eða köldu) og drekka.
Varan Slökun sé því duft sem ætlast er til að sé leyst upp í vökva og þess neytt í fljótandi formi. Þessi ályktun sé í samræmi við niðurstöðu ríkistollanefndar í úrskurði nr. 3/2010, þar sem deilt var um tollflokkun á ProM3 prótein-dufti, sem leysa átti upp í vökva og neyta í fljótandi formi.
Samkvæmt a-lið 3. túlkunarreglu tollskrár skuli vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu. Vöruliður 2106.9025 taki sérstaklega til fæðubótarefna til drykkjarvöruframleiðslu og sé nákvæmari lýsing en vöruliður 2106.9066 sem sé fyrir annars konar fæðubótarefni sem hafi ekki verið talin upp annars staðar, sbr. orðalag tollskrárnúmersins „ót.a.“.
Magnesíum sé steinefni sem teljist til næringarefna, eins og rakið hafi verið, og falli þar með berum orðum undir fyrirsögn tollskrárnúmersins. Umrædd vara hafi þar af leiðandi flokkast í vörulið 2106.9025 samkvæmt almennum túlkunarreglum tollskrár nr. 1., 3.a og 6.
Með vísan til alls framangreinds hafnar stefndi þeim fullyrðingum stefnanda að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun umræddrar vöru sé byggð á rangri túlkun á tollskránni og túlkunarreglum hennar.
Meint brot gegn stjórnarskrá og hindrun á samkeppni
Stefnandi haldi því fram að með flokkun vörunnar Slökun í tollskrárnúmerið 2106.9025 sé brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, því það geti ekki talist málefnalegt að gera greinarmun við skattlagningu innflytjenda á vöru sem er í duftformi og þannig ætluð til blöndunar í vatn og öðrum þeim sem flytja inn magnesíum á öðru formi. Enn fremur haldi stefnandi því fram að meginreglur samkeppnisréttar tálmi því að unnt hafi verið að flokka vöruna Slökun í tollskrárnúmerið 2106.9025. Þessum málsástæðum stefnanda hafi stefndi alfarið.
Jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár
Í jafnræðisreglunni felist að gæta skuli samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Að mati stefnda hafi verið gætt fulls samræmis og jafnræðis við álagningu tolls á vöruna. Stefnandi haldi því fram að vörur sambærilegar þeirri sem hér er deilt um beri ekki sömu gjöld og því felist mismunun í tollflokkuninni. Stefnandi vísi í því sambandi til þess að magnesíum í töfluformi og magnesíum í duftformi séu sambærilegar vörur. Stefndi hafnar því. Vörurnar séu ekki sambærilegar í skilningi tollskrárinnar eins og rakið hafi verið. Í tollskránni, sem hafi lagagildi, sé gerður skýr greinarmunur á vöru í töfluformi og vöru sem er ætluð til drykkjar. Það sé í samræmi við dómafordæmi að löggjafinn hafi heimildir til að gera greinarmun á ólíku formi vara við álagningu tolla, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 424/2015.
Stefndi áréttar að þau gjöld sem eru lögð á tiltekna vöru ráði ekki tollflokkun hennar. Tollayfirvöld séu bundin af lögum við tollflokkun vara og innheimti gjöld í samræmi við þá gjaldstofna sem hvert tollskrárnúmer beri með sér. Farið sé eftir túlkunarreglum tollskrárinnar og einnig sé litið til skýringarbóka til leiðbeininga, þar á meðal orðabóka varðandi orðskýringar. Þannig sé sama eða sambærileg vara ávallt tollflokkuð á sama hátt og allir innflytjendur sambærilegrar vöru og hér er deilt um þurfi að greiða 20% toll af vörunni. Þannig stoði ekki að vísa til jafnræðisreglu við samanburð á ólíkum vörum sem beri þess vegna mismunandi toll samkvæmt tollskrá. Mismunandi tollar séu lagðir á mismunandi vörur og það geti ekki talist brot gegn jafnræðisreglu.
Meginreglur samkeppnisréttar
Með sömu rökum hafnar stefndi því að gjaldtakan og það fyrirkomulag sem er við lýði sé í andstöðu við meginreglur samkeppnisréttar þess efnis að opinberir aðilar skuli ekki takmarka samkeppni, sbr. c-lið 1. mgr. 8. gr. og b-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Gjaldtakan byggist á gildri lagaheimild eins og rakið hafi verið og innflytjendum sambærilegrar vöru sé ekki mismunað á nokkurn hátt. Tollayfirvöld séu bundin af lögum við tollflokkun og litið sé til tollskrárinnar og túlkunarreglna með henni þegar vara sé tollflokkuð, en gjöld eða önnur sjónarmið, eins og samkeppni, komi ekki til álita. Sjónarmið stefnanda um að tollyfirvöld hafi ekki virt meginreglur samkeppnisréttar við ákvörðun um tollflokkun umræddrar vöru eigi því ekki við í þessu máli.
Atvinnufrelsi, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar
Stefndi hafnar því jafnframt að ákvörðun um tollflokkun vörunnar feli í sér skerðingu á atvinnufrelsi stefnanda þannig að hún brjóti í bága við 75. gr. stjórnarskrárinnar. Tollskráin hafi lagagildi sem viðauki I við tollalög, nr. 88/2005. Vörur beri mishá gjöld eftir tollskrárnúmerum, en sama vara beri ávallt sömu gjöld. Þannig greiði allir aðilar, sem markaðssetji sambærilega vöru, jafnhá gjöld af vörunni við innflutning. Ljóst sé að vörur beri mishá gjöld eftir tollflokkum og því séu þær, eðli máls samkvæmt, mishagkvæmar til innflutnings. Stefnanda sé frjálst að haga innflutningi sínum á annan hátt telji hann gjöldin, sem þessi tiltekna vara beri, of há. Það standist því ekki að atvinnufrelsi stefnanda sé takmarkað á ólögmætan hátt.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi einkum til tollalaga, nr. 88/2005, og þar með tollskrár í viðauka I og túlkunarreglna tollskrárinnar, auk samkeppnislaga, nr. 44/2005, og stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Dráttarvaxtakröfu í stefnu er mótmælt, einkum upphafstíma dráttarvaxta.
Niðurstaða
Þetta mál snýst um það í hvaða tollskrárnúmer eigi að flokka vöruna Slökun, sem er magnesíum-duft sem skal blanda með vatni fyrir neyslu.
Að sögn stefnanda, innflytjanda vörunnar, var hún flokkuð frá árinu 2008 til loka árs 2014 þannig að hann greiddi ekki af henni toll. Hér ber að geta þess að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. tollalaga, nr. 88/2005, skulu inn- og útflytjendur færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar í viðauka I við lögin.
Í 2. mgr. 20. gr. er tekið fram að leiki vafi á um tollflokkun vöru, eða óski inn- eða útflytjandi eftir staðfestingu Tollstjóra á tollflokkun vöru, geti hann leitað eftir bindandi áliti Tollstjóra á tollflokkun vörunnar sem er nánar lýst í 21. gr. laganna.
Þegar Tollstjóri tollskoðaði vöruna í byrjun árs 2015 hafði hún ekki áður verið tollflokkuð af embættinu. Ekki hefur verið upplýst hver ákvað tollflokk vörunnar fyrir þann tíma. Sá hinn sami óskaði í það minnsta ekki eftir staðfestingu Tollstjóra á þessari tollflokkun né bindandi áliti embættisins samkvæmt 21. gr. laganna.
Nauðsynlegt er að taka fram að það er ekki auðvelt að útskýra tollflokkun og túlkun tollskrárinnar án þess að lesandinn hafi hana við höndina. Flokkunin er þó sú að fyrst er fundinn flokkur í tollskránni, næst kafli, svo vöruliður (með fjórum tölustöfum), þá undirliður (með sex tölustöfum, ef undir honum eru skiptiliðir, en átta tölustöfum, ef hann skiptist ekki) og að lokum skiptiliður (með átta tölustöfum).
Túlkunarreglunum sex er einnig raðað í forgangsröð þannig að sú fyrsta er sú æðsta og síðan koll af kolli.
Stefnandi bendir á að það sé ágreiningslaust að varan falli undir vöruliðinn 2106. Ágreiningurinn varði það hvort varan eigi að falla í skiptiliðinn 2106.9025, eins og stefndi telur, eða undirliðinn 2016.9066, eins og stefnandi telur. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt fyrstu túlkunarreglu skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og samkvæmt sjöttu túlkunarreglu megi einvörðungu bera saman jafnsetta undirliði, það er undirliði í sama vörulið. Því eigi að meta það hvort það lýsi vörunni best að hún sé „efni til framleiðslu á drykkjarvörum“ sem er heiti undirliðarins 2106.90 eða „fæðubótarefni ótalið annarsstaðar“ sem er heiti undirliðarins 2106.9066.
Stefndi leggur hins vegar áherslu á að samkvæmt a-lið 3. túlkunarreglu tollskrár skuli vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu.
Í innihaldslýsingu vörunnar á umbúðunum segir að hún sé jónað magnesíum sítrat sem sé myndað úr sérstakri blöndu af sítrónusýru og magnesíum karbónati, sem frásogist mjög vel (Ionic magnesium citrate (created from a highly absorbable proprietary blend of citric acid and magnesium carbonate)).
Í leiðbeiningum um notkun á íslenskum umbúðum vörunnar segir: Best að blanda við sjóðandi vatn – setja duftið í bolla, hella smá heitu vatni yfir og láta duftið freyða og leysast alveg upp, hella því næst meira vatni (heitu eða köldu) og drekka.
Það er ekki að ástæðulausu að framleiðandinn veitir þessar leiðbeiningar um notkun því efnasambandið magnesíum sítrat (magnesium citrate) myndast þegar þau tvö efnasambönd sem eru í pakkningunni þ.e. sítrónusýra (citric acid) og magnesíum karbónat (magnesium carbonate) ganga í efnasamband hvort við annað. Það gerist hraðast við það að heitu vatni er hellt yfir þau. Þá losnar koltvísýringurinn frá magnesíumjóninni. Hún sameinast sítrónusýrunni og efnasambandið magnesíum sítrat myndast. Þegar koltvísýringurinn losnar frá magnesíumjóninni rýkur hann úr vatninu og það freyðir. Þegar vatnið hættir að freyða er efnasamrunanum lokið og magnesíum sítratið, sem er í raun „varan“, hefur myndast. Hið sama gerist þegar köldu vatni er hellt yfir efnin en þá tekur mun lengri tíma fyrir efnasambandið magnesíum sítrat að myndast. Til þess að gera það hæft til neyslu þarf að hella meira vatni, heitu eða köldu, saman við.
Þessi efnahvörf eru þeim kunn sem hafa nokkra efnafræðiþekkingu. Þar fyrir utan er þeim lýst á heimasíðu framleiðanda vörunnar: http://naturalvitality.com/ Þótt upplýsingar á þessari heimasíðu séu öllum aðgengilegar hefur hvorugur málsaðila séð ástæðu til að leggja þær fram.
Á einum hluta síðunnar er algengum spurningum svarað: http://naturalvitality.com/natural-calm-faqs/ Ekki verður betur séð en að þar sé mælt með því að drykkjarins sé neytt milli máltíða. Efnið þurfi tilstilli magasýranna til þess að það sogist sem best úr meltingarveginum út í blóðið. Sé þess neytt með mat kunni það að lækka sýrustig magasýrunnar og trufla þar með meltinguna. Því verður að draga í efa að efnið nýtist eins og til er ætlast sé því stráð yfir eða blandað við önnur matvæli en vökva eins og lögmaður stefnanda lýsti við aðalmeðferð.
Á þessari upplýsingasíðu er einnig tekið fram að blanda megi duftinu við eitthvað annað en vatn. Engu að síður er mælt með því að efnasamrunanum sé komið af stað með því að hella 60-90 millilítrum af heitu vatni yfir 1-2 teskeiðar af dufti. Þegar efnið hafi hætt að freyða (og varan hafi því myndast) megi blanda því við ávaxtasafa, þeyting eða jurtate. Einnig megi blanda því við kalt vatn, setja í vatnsflösku eða drykk með klaka. Tekið er fram að varan leysist hægar upp í köldum drykkjum en þegar hún sé að fullu uppleyst hafi hún sömu áhrif og þegar henni sé blandað við heita drykki eða te.
Enn neðar á síðunni segir að margir notendur blandi drykkinn fyrir fram og dreypi á honum yfir daginn.
Á upphafssíðunni um vöruna (Natural Calm) http://naturalvitality.com/natural-calm/ segir að Náttúruleg slökun sé freyðandi drykkur með ávaxtabragði (Natural Calm is a fruity, effervescent drink...). Þar sést einnig að á umbúðum á ensku stendur að þetta sé slakandi drykkur (The Anti-Stress Drink). Þær upplýsingar voru ekki þýddar þegar texti umbúðanna var þýddur á íslensku.
Að mati dómsins er varan því efnasamband sem er byggt upp þannig að það auðveldar að steinefnið magnesíum sogist úr meltingarveginum út í blóðrásina. Þessi vara getur ekki myndast nema vatni, helst heitu, sé blandað við grunnefni vörunnar til þess að nauðsynleg efnahvörf verði milli þeirra tveggja. Þegar efnahvörfunum er lokið og „varan“ hefur myndast verður að blanda henni við meiri vökva eða fljótandi fæðu (t.d. þeyting) til þess að auðvelda neyslu.
Að mati dómsins er það því nákvæmari lýsing að þetta sé „efni til framleiðslu á drykkjarvöru“, enda getur það efni einnig verið fæðubótarefni, heldur en „fæðubótarefni ótalið annars staðar“. Dómurinn telur því að flokkun vörunnar í undirliðinn 2106.90 sé réttari en í undirliðinn 2106.9066. Að sama skapi telur dómurinn flokkun vörunnar í skiptiliðinn 2106.9025 rétta tollflokkun sem samrýmist bæði tollskrá og túlkunarreglum tollalaga.
Stefnandi telur tollflokkun Tollstjóra brjóta gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar því vörur sem séu ætlaðar til sambærilegra nota, það er magnesíum til neyslu, beri misháan toll eftir því á hvaða formi þær séu. Stefnandi hefur að vísu ekki lagt fram nein gögn sem sýna hvernig magnesíum sé tollflokkað eftir mismunandi formi, svo sem magnesíum í freyðitöflum, hylkjum og venjulegum pillum/töflum. Þó liggur fyrir að til er tollskrárnúmerið 2106.9066- -Fæðubótarefni ótalin annarsstaðar sem ber ekki toll. Hvaða fæðubótarefni Tollstjóri fellir í þann flokk liggur ekki fyrir.
Fyllilega málefnaleg rök kunna að vera fyrir því að tiltekin vara raðist í mismunandi tollflokka eftir því á hvaða formi hún er flutt inn, sé slíkur munur á tollflokkun nákvæmlega sömu vörunnar raunin. Að mati dómsins getur það eitt og sér að vara á ólíku formi sé felld í ólíka tollflokka ekki brotið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefnandi telur ákvörðun Tollstjóra hamla samkeppni án þess þó að hafa sýnt fram á að varan sem hann flytur inn sé í samkeppni við magnesíum sem er flutt inn í freyðitöflum, hylkjum, pillum/töflum eða hugsanlega öðru formi.
Enn fremur verður að hafna því að með þessari tollflokkun vörunnar sé atvinnufrelsi stefnanda skert og þau lög sem hún byggist á brjóti þannig gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt heimasíðu stefnanda selur hann fjöldamargar vörutegundir frá fjöldamörgum framleiðendum. Tiltekin tollflokkun einnar af þessum vörum getur varla kippt stoðunum undan allri verslun hans. Sé yfirhöfuð hægt að fallast á að tollalög geti skert atvinnufrelsi manna þurfa þeir væntanlega að sýna fram á að allur almenningur þurfi svo mjög að nota þá vöru sem þeir flytja inn eða neyta hennar að það væri andstætt almannahagsmunum að leggja toll á hana. Það hefur stefnandi ekki gert.
Það er því mat dómsins að Tollstjóri hafi tollflokkað vöruna Slökun rétt og að hvorki sú tollflokkun né þau lög sem hún byggist á brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár um jafnrétti og atvinnufrelsi eða gegn samkeppnislögum. Af þessum sökum verður að hafna kröfu stefnanda um endurgreiðslu þess tolls sem var lagður á vöruna frá janúar til júlí 2015.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
D Ó M s o r ð
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnanda, Mamma veit best ehf.
Hvor málsaðila ber sinn kostnað af málinu.