Hæstiréttur íslands
Mál nr. 324/2001
Lykilorð
- Skuldamál
- Gögn
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2002. |
|
Nr. 324/2001. |
Einar Guðjónsson(Haraldur Blöndal hrl.) gegn Eymundsson ehf. (Reynir Karlsson hrl.) |
Skuldamál. Gögn.
Með hliðsjón af gögnum málsins og atvikum þess var ekki talið að E hefði tekist að sanna að tilteknir reikningar hefðu borist E hf. eða að þeir væru vegna sölu á vörum til E hf. eða þjónustu í félagsins þágu enda hafði E ekki lagt fram neinar kvittanir frá E hf. fyrir móttöku þeirrar vöru eða þjónustu. Var E hf. því sýknað af kröfum E.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. september 2001. Endanlegar kröfur hans eru að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.053.846 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. mars 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og honum tildæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda.
I.
Málavextir eru þeir að áfrýjandi annaðist innflutning á erlendum dagböðum, sölu þeirra og dreifingu í verslanir. Átti hann meðal annars viðskipti við stefnda. Af gögnum málsins verður ráðið að þau viðskipti hafi staðið á árunum 1993 og 1994, en þeim virðist hafa lokið um mánaðamót nóvember og desember síðara árið. Stefndi keypti blöð til sölu í fjórum verslunum, sem hann rak á þessum tíma. Hafði hann skilarétt á óseldum dagblöðum. Gerði áfrýjandi eftirá reikninga á hendur stefnda vegna viðskiptanna. Af þeim reikningum, sem lagðir hafa verið fram í málinu, verður ráðið að áfrýjandi hafi gert reikning fyrir þau blöð sem hver einstök verslun stefnda hafði móttekið á tímabili, sem tiltekið var í reikningnum, að frádregnum blöðum sem skilað hafði verið á tímabilinu. Virðist hvorki hafa verið regla á því yfir hve langt afhendingartímabil hver reikningur tók né hversu löngu eftir lok hvers tímabils reikningur var dagsettur. Greiðslur stefnda vegna viðskiptanna voru stundum vegna tiltekinna reikninga, en í öðrum tilvikum greiddi stefndi inná viðskiptin og voru þær greiðslur oftast í heilum tugum þúsunda króna.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 29. september 1998 og krafðist þá greiðslu 1.322.245 króna, sem hann taldi eftirstöðvar reiknings dagsetts 2. september 1994 auk fjárhæða 29 annarra reikninga, sem hann hafi gefið út frá þeim degi til 18. nóvember sama árs, en það var samkvæmt framanskráðu í lok þess tímabils, sem aðilar áttu í viðskiptum. Stefndi tók til varna og taldi sig hafa greitt upp allar viðskiptaskuldir við áfrýjanda. Lagði hann jafnframt fram yfirlit um viðskipti aðila dagsett 5. október 1998, er tók til viðskiptanna frá 31. maí 1993. Taldi hann yfirlitið sýna að það hafi hann gert með greiðslu á 458.177 krónum 12. júní 1995, en það var síðasta færslan á yfirlitinu. Benti hann jafnframt á að á þessu yfirliti væru allir þeir reikningar, sem stefna áfýjanda lyti að utan einn og sýndi yfirlitið því að þeir væru greiddir. Þann eina reikning, sem ekki væri að finna á yfirlitinu, og áfrýjandi segði vera dagsettan 17. nóvember 1994 að fjárhæð 38.008 krónur, kvaðst hann hins vegar ekki hafa fengið og andmælti honum.
Á meðan á rekstri málsins stóð fyrir héraðsdómi lagði áfrýjandi og þáverandi lögmaður hans tvívegis fram athuganir sérfróðra manna, sem fengnir hafi verið til að bera framangreint viðskiptayfirlit stefnda saman við bókhaldsgögn áfrýjanda. Eru það annars vegar athugasemdir Baldurs V. Hannessonar, viðskiptafræðings, 20. apríl 1999 og hins vegar bréf Þórarins Þ. Jónssonar, endurskoðanda, 7. nóvember 2000 ásamt fylgiskjölum. Enda þótt ekki sé fullt samræmi í niðurstöðu þessara manna eiga þær það þó sammerkt að telja að misræmið milli bókhaldsgagna aðila megi fyrst og fremst rekja til þess að tilteknir reikningar, sem sé að finna í bókhaldi áfrýjanda, séu ekki í fyrrnefndu viðskiptayfirliti stefnda. Eins og viðskiptum aðila var háttað verður að telja eðlilegt að áfrýjandi hafi fært greiðslur stefnda upp í elstu viðskipti aðila og því krafið hann um greiðslu á síðustu reikningum, sem áfrýjandi gaf út til stefnda, þegar hann taldi sig vanhaldinn í viðskiptunum. Kom sá málatibúnaður því ekki í veg fyrir að hann gæti undir rekstri málsins aflað nýrra gagna þegar skjöl, sem fram voru lögð með greinargerð stefnda, sýndu að skýringa á ágreiningi aðila var fyrst og fremst að leita í eldri reikningum áfrýjanda.
II.
Áfrýjandi krefst nú greiðslu á 1.053.846 krónum, sem hann kveður samtölu átta reikninga, sem hann hafi gefið út til stefnda á árinu 1994 en ekki sé að finna í viðskiptayfirliti stefnda. Er þessi krafa reist á niðurstöðum framangreindrar athugunar Þórarins Þ. Jónssonar. Eru þrír reikninganna, samtals að fjárhæð 787.188 krónur, dagsettir 3. febrúar 1994, reikningur að fjárhæð 37.500 krónur dagsettur 21. mars 1994, reikningur að fjárhæð 14.880 krónur dagsettur 23. apríl 1994, reikningur að fjárhæð 161.270 krónur dagsettur 16. júní 1994, reikningur að fjárhæð 15.000 krónur dagsettur 16. ágúst 1994 og loks fyrrnefndur reikningur að fjárhæð 38.008 krónur dagsettur 17. nóvember 1994. Hefur áfrýjandi lagt afrit sjö þessara reikninga fram í málinu, en áttundi reikningurinn að fjárhæð 161.270 frá 16. júlí 1994 er ekki meðal gagna málsins.
Stefndi mótmælir því að reikningar þessir séu vegna viðskipta aðila, enda hafi hann ekki séð þá fyrr en þeir voru lagðir fram í málinu. Hafi hann í þinghaldi 31. maí 1999, þegar áfrýjandi lagði þá fram, skorað á hann að leggja fram afhendingarnótur undirritaðar af stefnda fyrir móttöku vöru samkvæmt reikningunum en það hafi áfrýjandi ekki getað gert.
Skömmu fyrir munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lagði áfrýjandi fram vottorð þriggja manna. Lutu tvö þeirra að afhendingu á vörum samkvæmt hinum umdeildu reikningum til stefnda en eitt að afhendingu reikninganna sjálfra. Stefndi andmælti framlagningu vottorðanna. Framlagning þessara skjala var ekki boðuð í greinargerð áfrýjanda og eru þau allt of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eins og henni var breytt með 14. gr. laga nr. 38/1994. Koma þessi gögn þegar af þeirri ástæðu ekki til álita við úrlausn málsins.
Áfrýjandi reisir kröfu sína á niðurstöðu endurskoðanda á athugun á bókhaldi sínu í samanburði við viðskiptayfirlit stefnda, og heldur fram að þeirri niðurstöðu hafi ekki verið hnekkt. Skuld stefnda sé vegna verslunarviðskipta aðila, sem staðið hafi samfellt um allangt skeið og hafi hann lagt fram trúverðugt yfirlit yfir viðskiptin á árinu 1994 úr bókhaldi sínu. Þá telur hann að viðskiptayfirlit það, sem stefndi lagði fram með greinargerð sinni og að framan er rakið, beri með sér að í mars og apríl 1994 hafi stefndi innt af hendi greiðslur sem bersýnilega séu vegna viðskipta, sem ekki sjái að öðru leyti stað í yfirlitinu. Þar sem viðskiptum aðila hafi verið þannig háttað að stefndi greiddi ekki alla reikninga áfrýjanda jafnharðan heldur greiddi hann að hluta viðskiptaskuld sína með innágreiðslum hafi staða viðskiptareikningsins eðlilega sýnt að jafnaði nokkra skuld stefnda við áfrýjanda. Eftir að stefndi hafi greitt áfrýjanda þrjár greiðslur í mars og apríl 1994, samtals að fjárhæð 500.000 krónur hafi þetta snúist við og sýni viðskiptayfirlitið eftir þetta allverulega inneign stefnda hjá áfrýjanda fram eftir árinu 1994. Sé afar ósennilegt að þessar greiðslur séu upp í óútgefinn reikning áfrýjanda. Langlíklegast sé að þessar greiðslur hafi verið upp í framangreinda þrjá reikninga að fjárhæð 787.188 krónur, sem áfrýjandi hafi gefið út 3. febrúar 1994, en af einhverjum ástæðum hafi ekki ratað inn í bókhald stefnda.
Þótt fallast megi á það með áfrýjanda að innborganir stefnda upp í óútgefna reikninga virðist ekki eiga sér hliðstæðu í viðskiptum aðila felst ekki í þessum greiðslum einum sönnun fyrir því að stefndi hafi með þeim verið að greiða upp í þrjá af þeim reikningum, sem hann kannast ekki við að varði viðskipti aðila. Í texta með framangreindum þrem innborgunum í reikningsyfirliti stefnda segir: „innb. v. reikn. 1453 K“. Reikningur nr. 1453 er bókaður skömmu neðar í yfirlitinu dagsettur 16. júní 1994 með svofelldum texta: „Ísl. Mark. 0107-31.1.“, en reikningurinn sjálfur hefur ekki verið lagður fram í málinu. Verður að fallast á með stefnda að þessi texti bendi til þess að reikningurinn hafi verið vegna viðskipta aðila á alllöngu tímabili og er því alls ekki útilokað að stefndi hafi greitt inn á þau viðskipti fyrir útgáfu reikningsins. Þá verður að líta til þess að yfirlit það, sem áfrýjandi lagði fram um viðskipti aðila við þingfestingu málsins, er hvorki glöggt né samfellt, sem og þess að ekki verður séð að áfrýjandi hafi hreyft athugasemdum við móttöku framangreindrar lokagreiðslu stefnda að fjárhæð 458.177 krónur 12. júní 1995 en texti greiðsluseðils, er henni fylgdi, bar með sér að stefndi teldi sig vera að greiða eftirstöðvar reikningsskuldar sinnar við áfrýjanda. Þegar til alls þessa er litið verður að telja að áfrýjanda hafi ekki tekist að sanna að framangreindir átta reikningar hafi borist stefnda eða að þeir séu vegna sölu á vörum til hans eða þjónustu í hans þágu enda hefur áfrýjandi ekki lagt fram neinar kvittanir frá stefnda fyrir móttöku þeirrar vöru eða þjónustu. Ber því að sýkna stefnda af kröfum áfrýjanda og verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest um annað en málskostnað.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Einar Guðjónsson, greiði stefnda, Eymundsson ehf., samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. mars sl. en endurflutt í dag og dómtekið á ný, er höfðað af Einari Guðjónssyni, Bjargarstíg 14, Reykjavík gegn Eymundsson ehf., Höfðabakka 7, Reykjavík.
Dómkröfur
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.144.145 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. mars 1997 til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Málavextir
Málavextir eru þeir að stefnandi annaðist innflutning, sölu og dreifingu á erlendum dagblöðum í verslanir og átti m.a. viðskipti við stefnda á árunum 1993 til 1995. Stefndi keypti blöð fyrir verslanir sínar sem þá voru í Austurstræti, við Hlemm, í Kringlunni og á Keflavíkurflugvelli. Kveður stefnandi stefnda hafa haft skilarétt á óseldum dagblöðum. Þegar óseldum dagblöðum hafi verið skilað hafi stefnandi útbúið reikning fyrir mótteknum dagblöðum að frádregnum þeim sem skilað hafði verið. Upphæð reikninga hafi verið nettósala, leiðrétt eftir handfærðum móttökublöðum sem stefndi hafi útbúið og afhent stefnanda, að teknu tilliti til söluþóknunar stefnda og umsamins afsláttar. Afhendingarblöð þessi hafi síðan fylgt reikningum stefnanda. Kveður stefnandi greiðslur hafa borist seint og illa frá stefnda.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveður umstefnda skuld vera samkvæmt reikningsyfirliti dags. 31. 12. 1994 að fjárhæð 1.780.636 krónur auk dráttarvaxta. Síðan hafi komið til innborgun 458.177 krónur þann 12. júní 1995. Stefnufjárhæðin sé því 1.322.245 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt vaxtalögum. Um sé að ræða eftirstöðvar reiknings nr. 1542 dags. 2.9.1994 41.367 kr., auk reikninga nr. 1543 dags. 2.9.1994 117.891 kr., nr. 1544 dags. 2.9.1994 38.719 kr., nr.1545 dags. 2.9.1994 46.889 kr., nr. 1546 dags. 2.9. 1994 12.737 kr., nr.1547 dags. 2.9. 1994 74.194 kr., alls 331.797 kr. á gjalddaga 2.10. 1994. Reikninga nr. 1558 dags. 21.9. 1994 44.628 kr., nr. 1559 dags. 21.9. 1994 35.949 kr.,
nr. 1553 dags. 27.9. 1994 93.374 kr., nr. 1564 dags. 29.9. 1994 20.917 kr., nr.1565 dags. 29.9. 1994 37.900 kr., nr. 1566 dags. 29.9. 1994 39.833 kr., nr.1569 dags. 29.9. 1994 5.569 kr., alls 278.170 kr. á gjalddaga 1.11. 1994. Reikninga nr. 1575 dags. 12.10.1994 17.117 kr., nr. 1576 dags. 12.10.1994 15.593 kr., nr. 1577 dags. 12.10.1994 13.135 kr., nr. 1582 dags. 19.10. 1994 11.126 kr., nr. 1583 dags. 19.10.1994 10.275 kr., nr. 1584 dags. 19.10.1994 14.560 kr., nr. 1585 dags 19.10.1994 26.567 kr., nr. 1586 dags. 19.10.1994 26.785 kr., nr. 1590 dags. 21.10.1994 18.962 kr., nr. 1591 dags. 21.10.1994 9.158 kr., nr. 1592 dags. 21.10.1994 24.396 kr., nr. 1593 dags. 21.10.1994 7.161 kr., nr. 1588 dags. 21.10.1994 35.383 kr., nr. 1589 dags. 21.10.1994 413. 226 kr., alls 643.444 kr. á gjalddaga 1.12.1994, og reikninga dags. 11. 11.1994 nr. 1623 20.580 kr., 1627 dags. 17.11.1994 38.008 kr og 1638 dags. 18.11.1994 10.246 kr., samtals alls 68. 834 kr. á gjalddaga 31.12. 1994.
Samtals kr. 1.322.245.
Varaðandi lagarök er vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og III kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir á því að hann hafi greitt upp allar viðskiptaskuldir sínar við stefnanda. Þetta sjáist vel á viðskiptayfirliti stefnda á dskj. nr. 7. Lokastaða þess sé 0,00 hinn 12. júní 1995. Á yfirlitinu komi fram þeir reikningar sem stefnandi krefji stefnda um og lýst sé í stefnu. Þeir séu allir greiddir. Reikningur nr. 1627 dags. 17.11. 1994 að upphæð 38.008.00 kr., sem lýst sé í stefnu, hafi hins vegar aldrei borist stefnanda og komi því ekki fram á viðskiptayfirlitinu.
Stefndi byggir á því að ómögulegt sé að átta sig á viðskiptayfirliti stefnanda á dskj. nr. 4 því upphafsstöðu þess vanti. Fyrsta færsla sé frá 24. febrúar 1994 og því vanti yfirlit yfir það sem á undan sé gengið. Þá sé viðskiptayfirlitið óskiljanlegt að því er varði niðurstöðutölur þess og ekki í samræmi við stefnukröfur. Þá sé ómögulegt að átta sig á hvernig innborgunum frá stefnda hafi verið ráðstafað. Í raun virðist yfirlitið vera handfært eftirá. Allt framangreint leiði til þess að um sé að ræða vanreifun af hálfu stefnanda sem ein út af fyrir sig ætti að nægja til þess að málinu væri vísað frá dómi ex officio, þó ekki sé af hálfu stefnda gerð krafa um frávísun þess.
Varðandi lagarök að öðru leyti vísar stefndi til alm. kröfu- og samningaréttarreglna um vanefndir, til meginreglna kaupalaga nr. 39/1922 og samningalaga nr. 7/1936.
Varakröfu sína styður stefndi við sömu sjónarmið og fram koma varðandi aðalkröfu hans um sýknu. Hann hafi greitt stefnanda alla þá reikninga sem honum hafi borist, að frátöldum einum sem hann kannist ekki við að hafa fengið. Viðskiptayfirlit stefnda á dskj. nr. 7 sýni þetta svo ekki verði um villst.
Stefndi mótmælir því að hafa fengið innheimtubréfið frá stefnda á dskj. 5 svo og hreyfingarlistann og reikningsyfirlitið á dskj. nr. 3 og 4. Hann hafi fyrst fengið að sjá þessi gögn við þingfestingu málsins.
Niðurstaða
Stefnandi byggði í upphafi málssókna sína á hreyfingarlista sem gerður var af stefnanda yfir reikning stefnda, dags. 9. maí 1995. Þá lagði hann fram reikningsyfirlit dags. 30. júní 1995 yfir ógreidda reikninga stefnda.
Greinargerð stefnda var lögð fram sem dskj. nr. 6. Þar heldur stefndi því fram að hann hafi gert upp allar viðskiptaskuldir sínar við stefnanda og vísar til lista yfir hreyfingar lánadrottna stefnda dags. 5. október 1998 þar sem lokastaða sé 0,00.
Eftir framlagningu greinargerðar stefnda voru lögð fram fjölmörg skjöl og eru framlögð skjöl málsins 120. Með tilliti til þess lagði dómari fyrir lögmenn aðila, með vísan til 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991, að leggja fram skriflega kröfugerð ásamt talningu málsástæðna og að tilgreint væri við hverja málsástæðu á hvern hátt aðili hygðist sanna hana, þ.e. með vísan til skjala og/eða vitna sem bera ættu um málsástæðuna.
Í samantekt stefnanda er aðallega að finna skýringar á einstökum dómskjölum en þar kemur einnig fram að fyrir utan stefnu komi skuld stefnda fram í aðilaskýrslu stefnanda á dskj. nr. 40, þar sem byggt sé á ákveðnum reikningum.
Í samantekt stefnda segir m.a. að allir þeir reikningar sem byggt sé á í stefnu komi fram á hreyfingarlista stefnda á dskj. nr. 7, nema einn, og séu þeir allir greiddir. Reikning nr. 1627 á dskj. nr. 50 kannist stefndi ekki við og mótmælir honum. Þá kannist stefndi ekki við þá reikninga sem ekki séu á hreyfingarlista á dskj. nr. 7, sbr. framlögð ljósrit þeirra á dskj. nr. 44-50, sem hann hafi fengið afhenta undir rekstri málsins. Stefndi mótmælir því að reikningarnir séu vegna viðskipta aðila. Þá hafi stefndi ekki, þrátt fyrir áskorun stefnda þar um, getað lagt fram móttökukvittanir fyrir vörur samkvæmt þeim reikningum sem ekki séu á hreyfingarlista á dskj. nr. 7, sbr. 7 reikninga á dskj. nr. 44-50. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að þessi viðskipti hafi farið fram. Auk þess séu umræddir reikningar fyrndir. Niðurstaða á reikningsyfirliti því sem stefnandi byggi á sé í ósamræmi við stefnukröfurnar og upphafsstöðu vanti. Yfirlitið sýni ekki heildarmynd af viðskiptum aðila. Stefnandi hafi einnig ítrekað vanreiknað umsamda afslætti á reikninga sína. Umsaminn afláttur í vesluninni á Keflavíkurflugvelli hafi verið 35% og 30% í öðrum verslunum. Þar sem stefndi hafi ekki leiðrétt þetta hafi stefndi gripið til þess ráðs að búa til fylgiskjöl til þess að þetta gengi upp í bókhaldi.
Stefndi hefur hætt allri starfsemi. Arndís Kristjánsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri stefnda, upplýsti fyrir dómi að hún hefði prentað hreyfingalista dags. 5. október 1998 úr tölvukerfi stefnda, Eymundsson hf. Hún upplýsti einnig að búið væri að pakka niður öllu bókhaldi félagsins og hefði hún séð um að leita að og útvega þau gögn sem stefndi hafi talið nauðsynlegt að leggja fram vegna málssóknar þessarar.
Sólveig Haraldsdóttir fyrrverandi gjaldkeri stefnda kom fyrir dóm til skýrslugjafar. Bar hún að í starfi sínu hafi hún haft samskipti við stefnanda. Hafi þau samskipti oft á tíðum verið þreytandi þar sem stefnandi hafi yfirleitt komið með reikninga sem ekki voru réttir, annaðhvort hafi tilgreindur afsláttur verið rangur eða að vantað hafi með reikningunum skýrslur um innkomin blöð í verslanir. Útbúnar hafi verið vikuskýrslur sem látnar hafi verið í verslanirnar sem sáu um blaðasölu svo unnt væri að gera skýrslu um innkomin blöð og blöð sem skilað var og fá þannig nettósölu vikunnar. Stefnandi hafi notað blöðin fyrst í stað en ekki alltaf. Reikningunum hafi fylgt afhendingarseðlar úr einhveri frumbók en þeir hafi ekki verið fullnægjandi. Kannaðist vitnið við að hreyfingarlisti dags. 5. október 1998, á dskj. nr. 7, væri keyrður úr lánadrottnakerfi stefnda, Eymundsson ehf.
Í stefnu og í aðilaskýrslu stefnanda er gerð grein fyrir þeim reikningum sem krafa stefnanda tekur til og hefur stefnandi einnig lagt fram ljósrit þeirra reikninga. Ekki hafa verið lagðar fram kvittanir fyrir móttöku þeirra blaða sem þar greinir.
Stefndi hefur lagt fram hreyfingarlista sem vitnið Arndís Kristjánsdóttir bar að hún hefði prentað úr tölvukerfi stefnda. Er hreyfingarlistinn í samfellu og tekur til tímabilsins 31. maí 1993 til 1. janúar 1995. Hefur því ekki verið hnekkt í málinu að hreyfingarlisti þessi sé úr bókhaldi stefnda. Allir þeir reikningar sem stefnandi byggir kröfur sínar á í málinu, nema einn, eru færðir í kredit lið listans á tímabilinu 1. til 18. nóvember 1994. Þykir stefndi því hafa sýnt fram á að umræddir reikningar séu þegar greiddir.
Reikning nr. 1627 að fjárhæð 38.008 krónur og dagsettur er 17. nóvember 1994 er hins vegar ekki að finna á nefndum hreyfingarlista. Stefnandi hefur einungis lagt fram ljósrit þessa reiknings en enga viðurkenningu af hálfu stefnda að hafa þegið umrædda þjónustu, en samkvæmt reikningnum er um að ræða flutning á dagblöðum fyrir Jens Gíslason frá Kastrup í Kaupmannahöfn í verslun í Austurstræti 18. Gegn andmælum stefnda er ósannað að stefnda hafi borist þessi reikningur. Þá þykir ekki hafa verið sýnt fram á að umrædd þjónusta hafi verið veitt í þágu stefnda.
Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 250.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
Dómsuppkvaðning dróst vegna mikils annríkis dómara.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Eymundsson ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Einars Guðjónssonar.
Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.