Hæstiréttur íslands
Mál nr. 644/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gagnsök
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 24. nóvember 2009. |
|
Nr. 644/2009. |
Nemendagarðar Samvinnuháskólans(Björn L. Bergsson hrl.) gegn Selfelli ehf. (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Gagnsök. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
NS kærði frávísun héraðsdóms á gagnsök sem hann höfðaði í máli S ehf. á hendur honum. Fram kom að NS hafi fyrst gert reka að því að afla matsgerðar sem lá til grundvallar gagnsök hans með beiðni fimm mánuðum eftir þingfestingu málsins. Talið var að í ljósi langvarandi ágreinings NS og S ehf. hafi verið tilefni fyrir NS að afla fyrr gagna til grundvallar kröfunni. Yrði að virða þetta NS til vanrækslu þannig að gagnsökin væri of seint höfðuð, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Var úrskurður héraðsdóms um frávísun gagnsakarinnar staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 28. október 2009, þar sem gagnsök, sem sóknaraðili höfðaði í máli varnaraðila á hendur honum, var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka gagnsök hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Nemendagarðar Samvinnuháskólans, greiði varnaraðila, Selfelli ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 28. október 2009.
Mál þetta höfðaði stefnandi 30. janúar, 16. febrúar og 15. september 2009 og var málið tekið til úrskurðar 21. október sama ár. Stefnandi er Selfell ehf., Þverholti 11 í Reykjavík, en stefndi er Nemendagarðar Samvinnuháskólans, Bifröst í Borgarbyggð.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 64.965.011 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefst sýknu af þessum kröfum auk málskostnaðar.
Hinn 2. apríl 2009 höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda þar sem þess er krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda 71.482.332 krónur, auk nánar tilgreindra dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði kyrrsetningargerð sýslumannsins í Borgarnesi frá 26. mars 2009 fyrir 18.405.642 krónum í sjö íbúðum stefnanda í byggingunni Sjónarhól að Bifröst. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Þótt tekið sé fram í stefnu að mál þetta sé höfðað sem gagnsök í fyrra máli milli aðila þingfesti stefndi mál þetta sérstaklega. Stefnandi krafðist þess aðallega að máli þessu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði réttarins 15. júní 2009. Til vara krefst stefnandi sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar. Með ákvörðun dómsins hefur mál þetta verið sameinað þessu máli.
Stefndi höfðaði einnig mál 18. maí 2009 á hendur stefnda, en þar er gerð sú krafa að stefnanda verði gert að greiða stefnda 408.360 krónur, auk tilgreindra dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Stefnandi krefst sýknu af þessari kröfu auk málskostnaðar. Með ákvörðun dómsins hefur mál þetta verið sameinað þessu máli.
Loks höfðaði stefndi gagnsök á hendur stefnanda 19. október 2009. Krefst gagnstefnandi (stefndi) þess að viðurkenndur verði réttur hans til að bæta úr ágöllum fasteignarinnar Sjónarhóls að metinni fjárhæð 42.853.000 krónur samkvæmt matsgerð 10. október 2009 og jafnframt að viðurkenndur verði réttur til að skuldajafna sömu fjárhæð á móti húsaleigugreiðslum til gagnstefnda (stefnanda) á gjalddögum slíkra greiðslna þar til krafan er að fullu greidd. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefnandi krefst þess aðallega að gagnsökinni verði vísað frá dómi en til vara að sýknað verði af kröfum stefnda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar krafa stefnanda um frávísun gagnsakarinnar. Krefst stefndi þess að þeirri kröfu verði hrundið en málskostnaður bíði efnisdóms.
I.
Hér á eftir verða málsatvik rakin að því marki sem nauðsynlegt þykir með hliðsjón af því réttarfarsatriði sem fjallað er um í úrskurðinum.
Hinn 3. nóvember 2006 tók stefndi á leigu af stefnanda 48 íbúðir í tveimur sambyggðum húsum, sem stefnandi lét reisa á lóð Háskólans á Bifröst, en byggingar þessar hafa gengið undir nafninu Sjónarhóll. Samkvæmt samningnum átti að afhenda fyrra húsið (B-hluta) 1. febrúar 2007 en síðara húsið (A-hluta) 15. ágúst sama ár að viðlögðum 10.000 króna tafabótum á dag fyrir hverja íbúð. Var leigutíminn til 30 ára miðað við afhendingu húsanna. Um leigukjör fyrir eignina fór eftir fylgiskjali með samningnum, sem undirritað var sama dag, en leigan er breytileg eftir stærð íbúða.
Stefnandi er félag sem Háskólinn á Bifröst stofnaði með Fellsási ehf., en það félag reisti Sjónarhól samkvæmt verksamningi við stefnanda frá 16. júní 2006. Skiptist hlutafé í stefnanda þannig að 60% er í eigu Fellsáss ehf. en 40% í eigu Háskólans á Bifröst.
Um og upp úr miðju ári 2007 reis ágreiningur með málsaðilum um efndir leigusamningsins vegna dráttar á afhendingu eignarinnar, auk þess sem stefndi taldi ýmsa annmarka vera á húsnæðinu. Eftir nokkur bréfaskipti milli aðila fór svo að stefndi rifti leigusamningi af þessu tilefni með bréfi 3. desember 2007 og tók sú ráðstöfun til A-hluta eignarinnar. Af hálfu stefnanda var riftuninni mótmælt með bréfi 4. sama mánaðar.
Hinn 15. maí 2008 gerðu málsaðilar ásamt Fellsási ehf. með sér samkomulag um byggingu og leigu Sjónarhóls. Það samkomulag átti að vera viðauki við verksamning stefnanda og Fellsás ehf. annars vegar og leigusamning málsaðila hins vegar. Samkvæmt samkomulaginu féll stefndi frá riftun leigusamnings og kröfu um tafabætur. Einnig var ákveðið að stefndi greiddi leigu af B-hluta byggingarinnar frá 1. apríl 2008 en af A-hluta frá og með þeim tíma sem íbúðir yrðu leigðar út til nemenda skólans en í síðasta lagi af öllum íbúðum frá 1. september 2008. Þá hafði samkomulagið að geyma nánari ákvæði um úrbætur á hinu leigða, auk þess sem gert var ráð fyrir að verkfræðistofan VSÓ ráðgjöf ehf. tæki út húsnæðið og legði til úrbætur. Tekið var fram í samkomulaginu að stefnda væri heimilt að framkvæma nauðsynlegar úrbætur yrði ekki brugðist við athugasemdum VSÓ ráðgjafar ehf. með fullnægjandi hætti eða innan umsaminna tímamarka. Kostnað sem af því leiddi átti að draga frá leigugreiðslum frá og með júní 2009.
Með bréfi 9. desember 2008 var stefnanda tilkynnt að stefndi myndi halda að sér höndum við greiðslu leigu þar sem ekki hefði verið staðið við fyrirheit um úrbætur og verklok. Einnig var því haldið fram að hitakerfi hússins væri ófullnægjandi og því hefði þurft að veita afslátt af leigu sem nam leigu í einn mánuð. Með bréfi 28. sama mánaðar var þessu andmælt og skorað á stefnda að greiða gjaldfallna leigu. Nokkur bréfaskipti voru milli aðila í kjölfarið án þess að efni séu til að rekja þau nánar. Í kjölfarið höfðaði síðan stefnandi málið til heimtu leigu fyrir tímabilið frá október 2008 til ágúst 2009, auk greiðslu annarra rekstrarliða, sem stefnandi telur að stefndi eigi að standa skil á.
Hinn 2. febrúar 2009 rifti stefndi samkomulaginu frá 15. maí 2008 þar sem fallið var frá fyrri riftun leigusamningsins og kröfu um tafabætur. Jafnframt var áréttuð krafa um tafabætur vegna B-hluta eignarinnar að fjárhæð 57.120.000 krónur. Með bréfi stefnanda 24. sama mánaðar var riftuninni mótmælt.
Með beiðni 19. mars 2009 krafðist stefndi kyrrsetningar hjá stefnanda vegna ógreiddrar lóðarleigu fyrir Sjónarhól, auk útlagðs kostnaðar við úrbætur á húsnæðinu og lóðinni. Samtals nam fjárhæð kröfunnar 18.405.642 krónum, en kröfur þessar fékk stefndi framseldar frá Háskólanum á Bifröst. Hinn 26. mars 2009 tók sýslumaðurinn í Borgarnesi kröfuna til greina og kyrrsetti átta íbúðir stefnanda í leiguhúsnæðinu. Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál til staðfestingar á þeirri gerð, auk þess sem stefnandi hafði uppi framangreindar fjárkröfur að meðtöldum tafabótum. Svo sem áður greinir hefur mál þetta verið sameinað þessu máli.
Hinn 2. mars og 8. maí 2009 krafðist stefnandi kyrrsetningar hjá stefnda til tryggingar á ógreiddri húsaleigu. Sú beiðni féll hins vegar niður þar sem stefnandi lagði ekki fram tryggingu í samræmi við ákvörðun sýslumanns. Í kjölfarið höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda til heimtu málskostnaðar vegna þessa kyrrsetningarmáls. Það mál var síðan sameinað þessu máli eins og áður getur.
Með matsbeiðnum 7. júlí og 11. september 2009 óskaði stefndi eftir að matsmaður yrði dómkvaddur til að meta tilgreinda annmarka á hinu leigða húsnæði. Nánar tiltekið var þess farið á leit í fyrri matsbeiðni að matsmaður fjallaði um hvort hiti, einangrun og rakavörn hússins væri fullnægjandi og um áhrif annmarka á hagnýtingarmöguleika hússins. Einnig var þess farið á leit að matsmaður áætlaði kostnað við úrbætur. Með síðari matsbeiðni var óskað eftir áliti á því hvort filtun á húsinu að utan væri ábótavant og hvort annmarkar væru á eldvarnarkerfi. Einnig var óskað eftir kostnaðaráætlun hvað þessa liði varðar. Til að taka saman matsgerð samkvæmt þessum beiðnum var dómkvaddur Hjalti Sigmundsson, byggingatæknifræðingur og húsasmíðameistari, og skilaði hann matsgerð sinni 10. október 2009. Samkvæmt matsgerðinni eru ýmsir annmarkar taldir á húsnæðinu og telur matsmaður að kostnaður við úrbætur nemi samtals 42.853.000 krónum.
Samhliða því að stefndi lagði fram matsgerðina í þinghaldi 19. október 2009 var gagnsök höfðuð á hendur stefnanda til viðurkenningar á úrbótarétti stefnda og jafnframt til viðurkenningar á heimild til að skuldajafna matsfjárhæðinni á móti húsaleigugreiðslum. Þegar dómurinn fór þess á leit við stefnda að þessi málatilbúnaður yrði skýrður í ljósi riftunar stefnda að því er varðar A-hluta húsnæðisins var bókað að krafa til úrbóta tæki eingöngu til B-hluta eignarinnar. Eins og áður greinir hefur stefnandi krafist frávísunar gagnsakarinnar og er sá ágreiningur hér til úrlausnar.
II.
Stefnandi reisir kröfu um frávísun gagnsakar á því að gagnsökin sé of seint höfðuð og því sé ekki fullnægt skilyrði 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Jafnframt telur stefnandi að ekki standi heimild til að höfða gagnsökina eftir ákvæðum 3. mgr. 28. gr. og 29. gr. laganna. Í því sambandi bendir stefnandi á að stefndi hafi frá öndverðu borið fyrir sig að húsnæðið væri illa byggt þótt nokkur misbrestur hafi verið á því að tilgreina þetta nægjanlega. Stefnda hafi hins vegar verið í lófa lagið að skilgreina þetta nánar og hafa uppi kröfur á fyrri stigum.
Stefndi vísar til þess að frumgagnsök hafi verið höfðuð 2. apríl 2009 og þá hafi verið áskilinn réttur til að dómkveðja matsmann til að meta galla á fasteigninni. Sú dómkvaðning hafi farið fram 7. júlí 2009, jafnskjótt og frávísun frumgagnsakar var hafnað með úrskurði dómsins 15. júní sama ár. Matsgerð hafi síðan verið skilað 10. október það ár og verið lögð fram í fyrsta þinghaldi þar á eftir eða 19. þess mánaðar. Sama dag hafi framhaldsgagnsökin verið höfðuð. Samkvæmt þessu telur stefndi fullnægt skilyrðum 3. mgr. 28. gr. og 29. gr. laga nr. 91/1991, enda sé engri vanrækslu til að dreifa af hálfu stefnda. Þvert á móti sé verið að bregðast við með aukinni kröfugerð um leið og tilefni gefst til.
III.
Aðalsök málsins var upphaflega þingfest 3. febrúar 2009. Stefndi lagði síðan fram greinargerð sína 7. apríl sama ár. Báðir málsaðilar hafa höfðað önnur mál vegna sömu lögskipta og hafa þau mál verið sameinuð þessu máli, svo sem áður er rakið.
Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður gagnsök ekki höfðuð eftir að mánuður er liðinn frá þingfestingu aðalsakar nema það sé gert fyrir aðalmeðferð málsins og það verði ekki metið til vanrækslu að gagnkrafan var ekki höfð uppi í tæka tíð.
Eins og áður er rakið reis ágreiningur með málsaðilum þegar líða tók á árið 2007. Af þessu tilefni ritaði lögmaður stefnda bréf til stefnanda 14. nóvember það ár þar sem því var meðal annars haldið fram að B-hluti eignarinnar væri haldinn miklum og alvarlegum göllum. Í eigninni læki með gluggum og hurðum og um steypuskil á veggjum, auk þess sem allur frágangur væri mjög hroðvirknislegur og óvandaður þannig að stappaði nærri fúski á köflum. Til stuðnings þessu var vísað til ástandsskýrslu, sem tekin var saman í október 2007 og lögð fram á stjórnarfundi stefnanda 31. þess mánaðar af fulltrúa Háskólans á Bifröst. Auk þess sem stefndi telur mikla galla og missmíði á báðum hlutum hússins heldur hann því fram að stefnandi hafi í raun ekki enn efnt þá skyldu samkvæmt leigusamningi aðila að afhenda eignina fullkláraða. Vegna annmarka á húsnæðinu hefur stefndi tvívegis rift samningi gagnvart stefnanda vegna A-hluta hússins, fyrst 3. desember 2007 og síðan 2. febrúar 2009, auk þess sem stefndi hafi haldið að sér höndum við greiðslu leigu frá október 2008.
Stefndi gerði fyrst reka að því að afla þeirrar matsgerðar sem liggur til grundvallar kröfugerð hans með beiðni 7. júlí 2009. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið um langvarandi ágreining aðila var ærið tilefni fyrir stefnda til að afla fyrr gagna til grundvallar kröfugerð á hendur stefnanda. Breytir þá engu þótt allt það sem stefndi telur annmarka á eigninni hafi ekki verið komið fram þegar í öndverðu, enda mátti stefndi reikna með að ætlaðir gallar á eigninni væru missýnilegir. Verður að virða þetta stefnda til vanrækslu þannig að gagnsökin sé of seint höfðuð. Þegar af þeirri ástæðu og án þess að skera þurfi úr hvort kröfugerð stefnda, eins og hún er sett fram í gagnsökinni, sé yfir höfuð dómtæk verður tekin til greina krafa stefnanda um frávísun gagnasakarinnar.
Rétt þykir að málskostnaður bíði efnisdóms.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Vísað er frá dómi gagnsök sem stefndi, Nemendagarðar Samvinnuháskólans, höfðaði 19. október 2009 á hendur stefnanda, Selfelli ehf.
Málskostnaður úrskurðast ekki.