Hæstiréttur íslands
Mál nr. 402/2006
Lykilorð
- Aðild
- Lausafjárkaup
- Skuldabréf
|
|
Fimmtudaginn 25. janúar 2007. |
|
Nr. 402/2006. |
Hilda R. Hansen (Björgvin Þorsteinsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Aðild. Lausafjárkaup. Skuldabréf.
H gaf fyrirsvarsmanni bifreiðasölu umboð til að selja bifreið sína. J keypti bifreiðina og til að fjármagna kaupin veitti V honum bílalán. V lagði andvirði lánsins inn á reikning fyrrnefndrar bifreiðasölu en bifreiðasalan kom greiðslunni hins vegar ekki til skila til H. Í kjölfarið krafðist H þess að V og bifreiðasölunni yrði in solidum gert að greiða sér skuld eða skaðabætur sem næmi þeirri fjárhæð sem bílalánið hljóðaði upp á. Krafa H á hendur bifreiðasölunni var tekin til greina. V var hins vegar sýknað af kröfu H í héraði og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að það sé lántakandi sem eigi aðild að kröfu sem reist sé á því að V hafi greitt lánsfé til rangs aðila. Þá hafi V mátt líta svo á að honum væri rétt að greiða lánsféð til bifreiðasölunnar enda væri ósannað að kaupandinn eða bifreiðasalinn hefðu gefið sérstök fyrirmæli um að ráðstafa skyldi lánsfénu á annan hátt en gert var.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.350.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 2000 til 1. júlí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi stefndi Jóhanni Sigurðssyni til réttargæslu í héraði en ekki fyrir Hæstarétt.
Eins og fram er komið í málinu tók Jóhann lán hjá stefnda til kaupa á bifreið af áfrýjanda. Var lánið tryggt með veði í bifreiðinni. Stefndi lagði andvirði lánsins inn á bankareikning bílasölu þeirrar sem hafði milligöngu um kaupin. Er það lántakandi sem á aðild að kröfu sem reist er á því að stefndi hafi greitt lánsféð til rangs aðila. Þá mátti stefndi líta svo á að honum væri rétt að greiða lánsféð til þess sem annaðist öflun lánsins fyrir hönd kaupanda og framvísaði skuldabréfinu til stefnda, enda er ósannað að kaupandinn eða bifreiðasalinn hafi gefið stefnda sérstök fyrirmæli um að ráðstafa skyldi lánsfénu á annan hátt en gert var. Verður því hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hilda R. Hansen, greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. febrúar 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hildu R. Hansen, kt. 290547-2109, Oddagötu 8, Reykjavík, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, og Tryggva Rúnari Guðjónssyni, kt. 080665-2969, Engihlíð 14, Reykjavík, með stefnu sem dagsett er 9. júlí 2004.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda skuld eða skaðabætur að fjárhæð 1.350.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 2000 til 1. júlí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. desember 2001, en síðan árlega á þeim mánaðardegi. Til vara er krafist vaxta (og vaxtavaxta) af skaðabótakröfum samkvæmt sömu lögum, frá sama tíma. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað, auk 24,5% virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfum stefnanda er aðallega beint gegn stefndu sameiginlega (in solidum) hverjum með öðrum, en til vara á hendur hvorum þeirra um sig.
Dómkröfur stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru að félagið verið sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Er málið var tekið fyrir á dómþingi 2. nóvember 2004 féll þingsókn niður af hálfu stefnda, Tryggva Rúnars Guðjónssonar, án þess að hann legði fram greinargerð.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda, Jóhanns Sigurðssonar, og hann gerir engar kröfur á hendur öðrum í málinu.
Mál þetta er risið út af kaupum og sölu bifreiðar, KP-255, Jeep Wrangler, árgerð 1997, í júlí 2000. Seljandinn bifreiðarinnar var stefnandi þessa máls en kaupandinn réttargæslu-stefndi. Viðskiptin fóru fram fyrir milligöngu Bílasölunnar Skeifunni 5 í Reykjavík, en rekstraraðili bílasölunnar var HTH ehf. og var stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, framkvæmdastjóri félagsins og bílasölunnar.
Þann 7. júlí 2000 samþykkti stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hér eftir nefnt VÍS, að veita réttargæslustefnda, Jóhanni, bílalán að fjárhæð 1.350.000 kr., og sama dag undirritaði Jóhann skuldabréf, þar sem hann skuldbatt sig til að greiða VÍS þessa fjárhæð, setja að veði áðurgreinda bifreið og taka sjálfskuldarábyrgð á skilvísri greiðslu. Þann 10. sama mánaðar var gengið frá kaupum Jóhanns á bifreiðinni á bílasölunni. Undir samninginn ritaði stefndi, Tryggvi Rúnar, í umboði stefnanda. Umboðið er dagsett 10. júlí 2000 og hljóðar svo:
Ég, undirrituð, Hilda R. Hansen, kt. 290547-2109, veiti hér með Tryggva Rúnari Guðjónssyni, kt. 080665-2969, fullt og ótakmarkað umboð til að selja bifreiðina KP-255, sem er Jeep Wrangler, árg. 1997 og kaupa bifreiðina IF-867 sem er Vovo 744, árg. 1987 og undirrita öll gögn þar að lútandi.
Umsamið kaupverð samkvæmt samningi er 1.550.000 kr. og segir þar, að kaupverðið sé að fullu greitt með láni frá VÍS að upphæð 1.350.000 kr. og með bifreið IF-867 að verðmæti 200.000 kr.
Af hálfu stefnda, VÍS, segir, að eftir að félagið hafði samþykkt að veita Jóhanni bílalánið 7. júlí 2000, hafi veðskuldabréfið verið útbúið í beinu framhaldi og sótt sama dag. Fyrirsvarsmaður bílasölunnar hafi síðan komið með veðskuldabréfið til VÍS 12. júlí 2000 undirritað og frágengið til þinglýsingar. Af hálfu VÍS hafi þá verið gengið úr skugga um að bifreiðin væri umskráð yfir á nafn lántakanda og lánsféð hafi síðan verið greitt út til handhafa skuldabréfsins með millifærslu í gegnum bankalínu inn á umbeðinn reikning. Þá hafi bréfið verið sent í þinglýsingu, þar sem það hafi verið innfært 14. júlí 2000 á 1. veðrétt bifreiðarinnar samkvæmt ákvæðum bréfsins.
Dómskjal nr. 7 í málinu tjáist vera yfirlýsing frá Tryggva Guðjónssyni. Þar segir frá því að stefnandi hafi gefið Tryggva umboð til að selja bifreiðina KP-255. Bifreiðin hafi verið seld réttargæslustefnda, Jóhanni, 11. júlí fyrir 1.550.000 kr. og hafi bifreiðin IF-867 verið tekin upp í kaupverðið sem 200.000 kr. greiðsla. Hafi hann haft milligöngu um að útvega Jóhanni bílalán hjá VÍS að fjárhæð 1.350.000 kr. Rætt hafi verið um að leggja lánið inn á reikning stefnanda „en vegna starfsvenju hjá VÍS lögðu þeir lánið inn á reikning bílasölunnar, sem ég veitti ekki athygli fyrr en seinna þegar ég hafði misst húsnæði bílasölunnar, og þar með hætti bílasalan öllum rekstri, og ég hefi ekki enn getað greitt Hildu þessa upphæð“.
Ekki er deilt um í málinu að stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, hefur ekki staðið stefnanda skil á andvirði umræddrar bifreiðar að fjárhæð 1.350.000 kr.
Stefnandi byggir á því að stefnda VÍS hafi greitt lánsfé sitt til kaupa réttargæslustefnda á bifreiðinni KP-255 inn á bankareikning bifreiðasalans HTH ehf. án heimildar og án þess að ganga úr skugga um að bifreiðasalinn hefði heimild til að taka við lánsfé með þessum hætti. Umboð Tryggva Rúnars hafi ekki náð til þess að taka við greiðslu kaupverðs fyrir hönd stefnanda.
Þá er byggt á því að veiting bílalána á vegum VÍS sé snar þáttur í atvinnurekstri þess og stunduð í ábataskyni, ásamt því að vera fallin til að styrkja starfsemi þess á sviði vátrygginga. Hafi VÍS þannig stöðu almennrar lánastofnunar í viðskiptalegu tilliti, en stefnandi og kaupandi stöðu neytenda.
Dómkröfu á hendur stefnda Tryggva Rúnari byggir stefnandi á því að mistök hans gagnvart stefnanda hafi verið alvarlegs eðlis.
Stefndi,VÍS, byggir á því að réttargæslustefndi hafi beint viðskiptum sínum til stefnda til að fá bílalán til kaupa á bifreiðinni K-255. Hafi hann fengið bílasalann, Tryggva Rúnar, til milligöngu um bílaviðskiptin. Bílasalinn hafi sent stefnda fyrirspurn fyrir hönd réttar-gæslustefnda 7. júlí 2000. Þegar nauðsynlegar upplýsingar lágu fyrir hafi lánsbeiðnin hlotið jákvæða afgreiðslu sama dag. Kaupin hafi átt sér stað 10. júlí 2000. Kaup- og sölugögn, þ.m.t. afsalið, hafi Tryggvi Rúnar undirritað f.h. stefnanda.
Byggt er á því að Tryggvi Rúnar hafi borið ábyrgð á að tilkynning um eigendaskipti væru send ökutækjaskrá án tafar, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu. Bifreiðin hafi verið umskráð 11. júlí 2000 yfir á kaupanda og hafi Tryggvi Rúnar komið til VÍS í beinu framhaldi og afhent veðskuldabréf. VÍS hafi greitt andvirði bréfsins inn á reikning bílasölunnar að beiðni Tryggva Rúnars eftir að gengið hafði verið úr skugga um að búið var að umskrá bifreiðina yfir á nafn réttargæslustefnda, skuldara bréfsins.
Byggt er á því að aðkoma VÍS að þessu máli séu viðskipti félagsins og réttargæslustefnda, þ.e. VÍS lánaði réttargæslustefnda 1.350.000 kr. til kaupa á bifreiðinni K-255 og fékk veð í bifreiðinni. Bílasalinn, stefndi Tryggvi Rúnar, tók að sér að flytja fjármuni milli aðila. Til þess hafði hann umboð frá stefnanda, samþykki réttargæslu-stefnda og stöðuumboð sem bílasali. Umsýslan fólst í þeim starfsskyldum sem honum bar að sinna sem bílasali, sbr. 15. gr. laga nr. 28/1998. Þessi umsýsla fól ekki í sér réttarsamband milli VÍS og stefnanda. VÍS gat enga ábyrgð borið á því að bílasalinn stóð ekki skil á fjármunum sem bílasalinn hafði tekið við í umboði stefnanda.
Réttargæslustefndi, Jóhann Sigurðsson, gaf skýrslu fyrir rétti. Lagt var fyrir Jóhann dskj. nr. 35, sem er greinargerð hans í málinu. Lögmaður stefnanda las upp lokamálsgrein greinargerðarinnar þar sem stendur:
Af hálfu réttargæslustefnda skal tekið fram að eftir afhendingu skuldabréfsins telur hann stefnanda eiga réttindi til skuldabréfsins og andvirði þess. Réttargæslustefndi gerir því engar athugsemdir við að stefnandi kalli eftir bótum frá stefndu vegna þess að hann fékk ekki í hendur söluandvirði skuldabréfsins frá stefnda VÍS.
Lögmaður stefnanda spurði Jóhann hvort hann væri nokkuð á móti því að stefnandi kallaði eftir bótum. Kvaðst Jóhann ekkert hafa á móti því að stefnandi kallaði eftir bótum frá VÍS.
Jóhannes Þorgeir Arason Fossdal, eiginmaður stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði staðið að kaupum bifreiðarinnar KP-255 með eiginkonu sinni. Aðspurður kvaðst hann samþykkur þeirri málavaxtalýsingu sem fram kemur í stefnu málsins. Hann kvað dskj. nr. 36, vera fax frá sér til lögmannsins [Hjartar Torfasonar hrl.]. Jóhannes sagði að bifreiðin KP-255 hefði verið keypt frá Kanada. Kvað hann bifreiðina hafa verið keypta fyrir ágætis vin sinn, Hafstein Hafsteinsson, hrl., en bifreiðin hafi verið með svo leiðinlegum lit að Hafsteinn gat ekki hugsað sér að eiga bílinn og hafi hann beðið hann um að hjálpa sér að selja hann. Hafi hann þá farið með hann á umrædda bílasölu. Hafi þetta allt gengið eðlilega fyrir sig til að byrja með en hann kvaðst ekki skilja þá aðferð, sem þarna var viðhöfð, að tryggingafélagið afhenti bílasalanum peningana, hún hafi verið ástæðulaus og hæfði ekki.
Jóhannes sagði að umrædda greiðslu hafi Hafsteinn átt að fá inn á sinn reikning, enda hafi hann verið búinn að greiða fyrir bifreiðina og átt að fá þessa greiðslu til baka. Kvaðst Jóhann því hafa talið sér skylt að greiða Hafsteini þessa fjárhæð til baka vegna tengsla sinna við málið.
Jóhannes sagði að það hefði verið á hreinu að Tryggvi, bílasalinn, hafi vitað hvert peningarnir áttu að fara, þ.e. inn á reikning Hafsteins. Jóhannes kvaðst ekki hafa verið á landinu þegar þetta gerðist. Hafi hann því ekki kannað þetta fyrr en mörgum dögum síðar enda ekki komið til hugar að neitt óeðlilegt væri í gangi. Þegar hann hafi komið heim þá hafi verið búið að reka bílasalann út úr húsnæðinu og bílasalan lokuð.
Aðspurður sagði Jóhannes að Hafsteinn Hafsteinsson hafi ekki verið skráður fyrir umræddri bifreið. Bifreiðin hafi verið flutt inn á nafni stefnanda, konu sinnar. Hann kvað konu sína ekki stunda bílainnflutning en sjálfur kvaðst hann vera búinn að flytja inn nokkra bíla í gegnum tíðina, einn og einn síðan 1998, sökum þess að vinur hans í Kanada hafi aðstöðu [til að útvega bifeiðar] fyrir vini og kunningja til gamans, án þess að um fasta atvinnustarfsemi hans sé að ræða. Kvaðst Jóhannes oft fara til að heimsækja þetta fólk í Kanada, góða vini sína. Hafsteinn hafi vitað um þetta, en sjálfur kvaðst Jóhannes hafa nýlega verið búinn að fá bíl, þá hafi Hafsteinn beðið hann um þetta [að útvega sér bifreið frá Kanada]. En þegar bifreiðin kom til landsins hafi hún verið svo ömurleg á litinn að Hafsteinn gat ekki hugsað sér að eiga hana.
Jóhannes sagði að bílasalinn [Tryggvi] hefði tvisvar eða þrisvar áður selt fyrir sig bíla. Allt hefði gengið með eðlilegum hætti og hefði hann ekki haft undan neinu að kvarta.
Lögmaður stefnda vísaði til málsgreinar á dskj. nr. 27, þar sem segir:
Í framhaldi af þessu skal bent á að í málinu liggur einnig fyrir að bílasalan aflétti ekki áhvílandi veðskuld á bifreið sem stefnandi sjálf keypti fyrir milligöngu bílasölunnar 14. október 1999, sbr. dskj. nr. 32. Tók bílasalan að sér að aflétta láninu fyrir 1. desember 1999 en stóð ekki við það. Var stefnanda a.m.k. kunnugt frá 8. febrúar 2000, þegar greiðsluáskorun vegna veðskuldarinnar barst, að bílasölunni væri ekki treystandi.
Þá vísaði lögmaður stefnda til dóms í sakamáli frá 1. nóvember 2002 gegn Hörpu Halldórsdóttur og stefnda, Tryggva Rúnari Guðjónssyni, þar sem Tryggvi er dæmdur í refsingu fyrir fjársvik, sbr. dskj. nr. 34.
Jóhannes kvaðst ekki kannast við að tengsl væru á milli staðhæfinga á dskj. nr. 27, forsenda og niðurstöður dómsins frá 1. nóvember og málsóknar stefnanda í því máli sem hér um ræðir.
Aðspurður sagði Jóhannes að yfirlýsingin á dskj. nr. 36 hafi komið í pósti til sín frá Tryggva og hann hafi faxað hana til Hjartar Torfasonar hrl. sama dag.
Starfsmaður stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., Helgi Magnús Baldvinsson, gaf skýrslu fyrir rétti. Lagt var fyrir Helga dskj. nr. 4, sem er tölvubréf innan VÍS, dags. 7. júlí 2000, um lánsbeiðni réttargæslustefnda, með áritunum, í ljósriti. Kvaðst Helgi kannast við þetta skjal. Hann sagði m.a. að þetta væri skjal út úr bílalánakerfi VÍS, lánsbeiðni. Sérstakt lánakerfi væri sem héldi utan um lánsfyrirgreiðsluna. Í þessu tilfelli hafi verið um að ræða að starfsmaður VÍS hafi útbúið þessa beiðni. Verkgangurinn á þessu sé að annaðhvort berist beiðnirnar í gegnum lánakerfið sjálft eða gegnum símann frá bílasala, ef hann hefur ekki bílalánakerfið, eins og í þessu tilviki. Starfsmaður VÍS, Ásgrímur Helgi Einarsson, hafi útbúið þetta.
Helgi sagði að ferlið hjá bílalánadeild, eftir að svona lánsbeiðni hefur verið samþykkt, væri að fyrirspurn bærist frá bílasala til VÍS eða bílalánadeildar um lán. Þar væri síðan málið afgreitt ef lánið væri samþykkt eins og í þessu tilviki, pappírar undirritaðir á bílasölunni og skilað inn til VÍS. Í framhaldi af því væri handhafa greitt út lánið með millifærslu inn á reikning handhafa. Litið sé svo á að handhafi bréfsins sé umráðamaður yfir því og greitt er inn á þann reikning sem hann óskar eftir og gefur upp.
Helgi sagði að áður en skuldabréfið væri greitt út þyrfti að uppfylla ákveðin skilyrði. Skjalið þyrfti að vera fyllt út með réttum hætti, bifreiðin að vera á nafni lántakanda, kaskótryggð og veðbandalaus.
Helgi sagði að í 99% tilvika væru það bílasalar eða bílaumboð sem kæmu með bréfin, og greitt væri inn á þeirra reikning. Ef greitt væri inn á aðra reikninga væri það gert að beiðni bílasalans. Bílasalinn sé umboðmaður kaupanda og seljanda og miðli málum þeirra í milli. Hann tæki við greiðslunni og þyrfti oft að skipta henni, greiða bifreiðagjöld af bifreiðinni, halda eftir sölulaunum fyrir sig og greiða síðan seljanda mismuninn.
Aðspurður kvað Helgi engum vandkvæðum bundið að greiða til annars en bílasalans ef þess er óskað. Þá sagði hann að síðastliðin ár hafi afsali eða kaupsamningi verið framvísað þegar lánin væru greidd út en á þeim tíma sem hér um ræðir hafi þess ekki verið krafist en í ljósi breytinga á markaði hafi önnur skipan orðið á þessu. Starfsmenn VÍS hafi orðið varir við að ekki stefndi saman í öllum tilvikum söluverði bifreiðarinnar á afsali og því verði sem þeim var gefið upp þegar óskað var eftir láni. VÍS hafi sett ákveðin skilyrði fyrir lánveitingum, þ.e. að lánað væri ákveðið hlutfall af söluverði bifreiðar eftir aldri hennar, en menn hefðu verið að gefa upp hærra söluverð til að fá hærra lán til kaupa á bifreiðum hjá VÍS, eins og reyndar hafi komið á daginn í þessu máli. Í framhaldi af því að upp komst um svona svik hafi skilyrði verið sett um að afhent væri afsöl fyrir bifreiðunum.
Stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, gaf skýrslu fyrir rétti símleiðis. Lögmaður stefnanda las upp yfirlýsingu sem fram kemur á dskj. nr. 36 og dagsett er 12. maí 2001 í áheyrn Tryggva. Tryggvi sagði að þetta væri yfirlýsing frá sér. Aðspurður kvað hann Ólaf Axelsson hrl. hafa leitað til sín á sínum tíma til að fá þessa yfirlýsingum frá honum. Tryggvi sagði að hann hefði sérstaklega beðið um að peningarnir frá VÍS yrðu lagðir inn á reikninginn hjá seljanda af því að hann sjálfur hefði verið komin í fjárhagsvanda á þessum tíma.
Aðspurður kvaðst Tryggvi líklega hafa selt fyrir stefnanda tvo eða þrjá bíla.
Ályktunarorð: Stefnandi seldi 10. júlí 2000 réttargæslustefnda bifreiðina KP-255, Jeep Wrangler, árgerð 1997. Stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, skrifaði undir kaupsamning-inn sem seljandi fyrir hönd stefnanda, og fyrir liggur í málinu skjal, sem dagsett er sama dag og kaupsamningurinn, þar sem stefnandi lýsir því m.a. yfir að hún veiti Tryggva Rúnari Guðjónssyni fullt og ótakmarkað umboð til að selja umrædda bifreið og undirrita öll gögn þar að lútandi. Í kaupsamningi segir m.a. að kaupandi [réttargæslustefndi] hafi staðið seljanda að fullu skil á andvirði ökutækisins og teljist kaupandi hér með löglegur eigandi þess.
Með skuldabréfi 7. júlí 2000 veitti stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., réttargæslustefnda bílalán að fjárhæð 1.396.595 kr. til kaupa á framangreindri bifreið stefnanda. Fjárhæðin var færð inn á reikning bílasölunnar sem Tryggvi Rúnar stjórnaði. Með yfirlýsingu, dags. 12. maí 2001, greinir Tryggvi Rúnar m.a. frá því að hann hafi haft milligöngu um að útvega réttargæslustefnda umrætt bílalán hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Talað hafi verið um að leggja lánið inn á reikning seljanda „en vegna stafsvenju hjá VÍS lögðu þeir lánið inná reikning bílasölunnar sem ég veitti ekki athygli fyrr en seinna ... og ég hefi ekki enn getað greitt Hildu [stefnanda] þessa upphæð“.
Í greinargerð stefnanda segir að dómkrafa stefnanda á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. sé „skuldakrafa, að því leyti sem hún verður rakin til réttar kaupanda bifreiðarinnar KP-255 og til þess, að við veitingu hins umdeilda bílaláns var félagið í raun háð stefnanda um öflun hins óbeina eignarréttar í bifreiðinni, sem það áskildi sér til tryggingar endurgreiðslu lánsins. En um leið er krafan skaðabótakrafa vegna þess tjóns, sem stefnandi beið við að láta eign sína af hendi án þess að tilskilið endurgjald kæmi fyrir, við aðstæður, sem voru og/eða áttu að vera ljósar fyrir stefnda VÍS, þegar félagið gekk frá sínum þætti í viðskiptunum.“ Við flutning málsins staðhæfði lögmaður stefnanda að í framangreindu umboði bílasalans fælist ekki heimild fyrir hann til að taka við umræddri fjárhæð frá Vátryggingafélagi Íslands hf. og þá andmælti hann því að stefndi, Tryggvi Rúnar, hefði haft til þess stöðuumboð sem bifreiðasali notaðra ökutækja, sbr. IV. kafla laga um verslunaratvinnu nr. 28/1998.
Stefnandi valdi bílasölu til að selja bifreið sína og þar með stefnda, Tryggva Rúnar, sem umsýslumann sölunnar. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., gat engu ráðið hver kæmi fram í umboði stefnanda í viðskiptum við réttargæslustefnda, Jóhann Sigurðsson, en Jóhann var sá aðili, sem var lántakandi hjá vátryggingafélaginu, og hefur hann ekki haldið fram í þessu máli að vátryggingafélagið hafi hlunnfarið sig í þessum viðskiptum, enda væri það annað mál. Þá verður ekki séð að forsvarsmenn stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., haft sýnt af sér vítavert gáleysi með því að setja umrædda fjárhæð inn á reikning bílasölunnar, sem sannarlega kom bæði fram fyrir hönd stefnanda og réttargæslustefnda. Vátryggingafélagið veitti réttargæslustefnda lánið á grundvelli skilyrða er vörðuðu réttargæslustefnda alveg óháðum stefnanda. Stefnandi átti raunar enga aðild að samningi réttargæslustefnda og vátryggingafélagsins um bílalánið. Féð var lagt inn á reikning bílasölunnar á sama hátt og algengast var og þykir staðhæfing bílasalans um að hann hafi lagt fyrir forsvarsmenn vátryggingafélagsins að leggja féð inn á reikning stefnanda ekki trúverðug.
Samkvæmt framangreindu verður Vátryggingafélag Íslands hf. sýknað af kröfum stefnanda.
Mál þetta var þingfest 7. september 2004. Á dómþingi 2. nóvember 2004 féll þingsókn niður af hálfu stefnda, Tryggva Rúnars Guðjónssonar. Óumdeilt er að stefndi, Tryggvi Rúnar, skuldar stefnanda hina umstefndu fjárhæð sem lögð var inn á reikning bílasölu, sem Tryggvi Rúnar var í forsvari fyrir, og hann hefði átt að standa stefnanda skil á 12. júlí 2000. Ber þegar af þeirri ástæðu að taka til greina dómkröfur stefnanda á hendur stefnda, Tryggva Rúnari Guðjónssyni.
Stefnandi verður dæmdur til að greiða stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., málskostnað og stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, verður dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað allt eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hildu R. Hansen.
Stefnandi greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 200.000 krónur í máls-kostnað.
Stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, greiði stefnanda, Hildu R. Hansen, 1.350.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 2000 til 1. júlí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi, Tryggvi Rúnar Guðjónsson, greiði stefnanda 200.000 krónur í máls-kostnað.