Hæstiréttur íslands
Mál nr. 676/2011
Lykilorð
- Vátrygging
- Vátryggingarsamningur
- Slysatrygging
|
|
Fimmtudaginn 14. júní 2012. |
|
Nr. 676/2011.
|
Oddrún Kristófersdóttir (Logi Guðbrandsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.) |
Vátrygging. Vátryggingarsamningur. Slysatrygging.
G, eiginmaður O, lést er vélbátnum Berki frænda hvolfdi í desember 2009 þegar verið var að sigla honum frá Vopnafirði til Reykjavíkur. O krafði V hf. um um greiðslu dánarbóta úr svokallaðri frítímaslysatryggingu fjölskyldutryggingar sem G hafði hjá V hf. Deildu aðilar um það hvort G hefði verið í vinnu er hann lést eða í frístund samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna, sagði að ekki yrði litið fram hjá því að G hefði setið í stjórn þess félags sem keypti vélbátinn auk þess að vera framkvæmdastjóri þess. Hafi kaupin á bátnum og flutningur hans verið liður í þeirri starfsemi sem félaginu hafi verið ætluð. Jafnvel þótt G hefði ekki verið launaður starfsmaður félagsins þótti ljóst að hann hefði verið við vinnu í þágu þess er hann lést. Voru atvik málsins því talin falla utan gildissviðs tryggingarinnar og var V hf. sýknað af kröfu O.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2011. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 6.509.000 krónur með 6% ársvöxtum frá 16. desember 2009 til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 15. mars sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. september sl., var höfðað 19. nóvember 2010.
Stefnandi er Oddrún Kristófersdóttir, Blikaási 21, Hafnarfirði.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 6.509.000 krónur með 6% ársvöxtum frá 16. desember 2009 til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 15. mars s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir
Málavextir eru þeir að Ívar Smári Guðmundsson og Guðmundur Sesar Magnússon lögðu af stað frá Reykjavík áleiðis til Egilsstaða hinn 15. desember 2009, kl. 7:30, með flugvél Flugfélags Íslands. Þegar þangað var komið héldu þeir för sinni áfram í bíl til Vopnafjarðar. Eini tilgangur þeirra með ferðinni var að sækja þangað vélbátinn Börk frænda NS055, sem ÍSG Ræktun ehf. hafði þá nýverið fest kaup á og sigla bátnum til Reykjavíkur. Frá Vopnafirði héldu þeir rakleiðis um borð í bátinn og lögðu af stað til Reykjavíkur um kl. 21:00.
Við skýrslutöku hjá sýslumanninum á Eskifirði skýrði Ívar Smári svo frá að þeir hefðu þeir skipst á að sigla um nóttina og tekið þriggja til fjögurra tíma hvíld á milli. Ívar Smári sagðist hafa verið búinn að vera við stjórn, en Guðmundur Sesar verið kominn í brúna til að taka við og hafi þeir ákveðið að sigla vel út fyrir eyjuna Skrúð til að forðast sker í kringum eyna. Ívar Smári sagði að þeir hefðu verið búnir að finna fyrir smáókyrrð skömmu áður en stór alda reis upp fyrir framan bátinn og skall á honum með þeim afleiðingum að báturinn fór strax á hvolf. Ívar Smári Guðmundsson komst lífs af en Guðmundur Sesar Magnússon drukknaði.
Þeir Ívar Smári og Guðmundur Sesar höfðu ásamt öðrum stofnað ÍSG Ræktun ehf. til þess að undirbúa kræklingaræktun og voru kaupin á bátnum liður í þeim undirbúningi. Stefnandi heldur því fram að þeir hafi ekki verið starfsmenn félagsins og að þeir hafi ekki verið á launum hjá félaginu. Þá heldur stefnandi því fram að sigling þeirra á bátnum, þegar slysið varð, hafi ekki verið þáttur í þeirri starfsemi sem fyrirhuguð var á vegum félagsins.
Í framlögðum gögnum kemur fram að Guðmundur Sesar stóð að rekstri félagsins, en hann sat í stjórn þess a.m.k. frá 2. september 2009 og sat sem framkvæmdastjóri þess frá 19. nóvember 2009.
Guðmundur Sesar Magnússon hafði keypt svonefnda F plús 3 fjölskyldutryggingu hjá stefnda samkvæmt vátryggingarskilmálum nr. GH20. Er í máli þessu krafa gerð um greiðslu dánarbóta samkvæmt þeim hluta skilmálanna sem nefnd er Frítímaslysatrygging. Kröfuna gerir ekkja Guðmundar Sesars Magnússonar, Oddrún Kristófersdóttir, samkvæmt gr. 6.1.6 í skilmálum um þessa tryggingu, sbr. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 30/2004.
Stefnda var tilkynnt um slysið hinn 7. janúar 2010. Stefndi hafnaði greiðslu bóta úr umræddri fjölskyldutryggingu. Var höfnun einkum grundvölluð á því mati stefnda að hinn látni hefði orðið fyrir vinnuslysi en tryggingin greiði ekki bætur vegna slysa sem verði þegar vátryggður er í vinnu.
Málinu var skotið til úrskurðarnefndar vátryggingamála og kvað nefndin upp úrskurð hinn 13. júlí 2010. Var niðurstaða nefndarinnar sú að miðað við allar aðstæður og reynslu hins látna við sjómannsstörf, og aðkomu hans að flutningi bátsins, hafi allt bent til að hann hefði verið við vinnu í umrætt sinn, óháð því hvort formlegur samningur hafi verið gerður við hann. Þá hafi verið litið til þess að flutningur bátsins hafi verið vegna áætlana um atvinnu og arðskapandi veiðar á bátnum í framtíðinni. Leit úrskurðarnefndin því svo á að Guðmundur Sesar hefði ekki verið við frístundaiðju í umrætt sinn og því hafi ekki skapast réttur til handa stefnanda úr F+3 fjölskyldutryggingunni hjá stefnda.
Stefndi bendir á að útgerð bátsins, ÍSG Ræktun ehf., hafi keypt vátryggingu vegna skipverja um borð hjá Sjóvá-Almennum Tryggingum hf. Samkvæmt tryggingarskírteini hafi tveir skipverjar um borð verið tryggðir, frá 14. desember 2009 að telja, og sé um að ræða slysatryggingu sjómanna samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Auk þess hafi útgerðin verið með líftryggingu fiskimanna á smábátum hjá Sjóvá Líf. Hafi stefnandi fengið greiddar eingreiðslubætur úr slysatryggingu sjómanna frá Sjóvá í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaganna enda litið svo á að Guðmundur Sesar hafi verið ráðinn um borð í skipsrúm í umrætt sinn. Slysið hafi þannig staðið í beinu sambandi við störf útgerðarinnar og hann unnið fyrir hana.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveður að réttarsamband aðila máls þessa byggist á vátryggingarsamningi Guðmundar Sesars Magnússonar og stefnda.
Samkvæmt skilmálum samnings þessa beri stefnda að greiða dánarbætur að því skilyrði uppfylltu að vátryggður hafi látist af slysförum, nema í skilmálunum sé að finna einhverjar þær undanþágur sem leysi stefnda undan greiðsluskyldu. Sönnunarbyrðin um að þessar undanþágur eigi við í þessu tilfelli hvíli á stefnda.
Í tryggingarskilmálum þeim, sem hér sé byggt á, sé ekki að finna neina nánari skilgreiningu á því, hvað séu frístundir eða frítími (orðin séu bæði notuð í skilmálunum, að því er virðist í sömu merkingu), en aðeins bætt við öðrum aðstæðum sem gilt gætu til jafns, þ.e. heimilisstörfum, skólanámi eða almennum íþróttaiðkunum. Þá sé ekki að finna í skilmálunum neina takmörkun á hugtakinu frístund. Í millifyrirsögn segi: „Félagið greiðir ekki bætur vegna slysa sem verða ...“ og síðan séu talin þau tilvik sem þetta eigi við um í ákvæðum 4.3 - 4.15 Ekki sé vikið að neinu í þessum ákvæðum sem skýrt gæti frekar merkingu hugtaksins frístundir.
Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda segi að það sé mat stefnda að slysið sem hér um ræði sé vinnuslys. Þá segi að tryggingin greiði ekki bætur vegna slysa sem vátryggðir verði fyrir í vinnu og því skuli ekki greiddar bætur.
Í skilmálum þeim sem hér um ræði komi hvorki fyrir orðin vinna né vinnuslys.
Fyrir liggi í málinu að Guðmundur Sesar Magnússon heitinn var ekki á launum við störf um borð í Berki frænda, hann hafi ekki verið lögskráður á bátinn og hafði ekki verið gerður við hann skipsrúmssamningur, hvorki munnlegur né skriflegur.
Þá hafi þau verk, sem Guðmundur Sesar skilaði á ferð sinni ekki getað talist arðsöm að neinu leyti.
Slysið hafi verið tilkynnt Sjúkratryggingum Íslands. Í svarbréfi SÍ segi m.a. : ,,Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun er ekki að sjá laun hjá Guðmundi heitnum vegna vinnu fyrir útgerðina ÍSG ræktun. Þá var hann hvorki með skráðan atvinnurekstur á eigin kennitölu né reiknað endurgjald vegna hans á slystíma. Samkvæmt upplýsingum úr lögskráningarkerfi sjómanna hjá sýslumönnum var hann ekki lögskráður á sjó á slysdegi. Málið var því ekki skoðað frekar efnislega þar sem ekki er að sjá að um bótaskylt vinnuslys samkvæmt almannatryggingalögum sé að ræða.“
Í áliti úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum segi: ,,Ágreiningur í málinu eins og það er lagt fyrir af málsaðilum snýst um gildissvið frítímaslysatryggingar og hvort eiginmaður M hafi verið í vinnu í umrætt sinn eða ekki. Af hálfu V hafa verið leiddar líkur að því að [hann] hafi verið við vinnu þegar slysið varð, en hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á það með óyggjandi gögnum. Þegar allar aðstæður eru skoðaðar og reynsla hins látna og starfa um langa hríð sem sjóðmaður og aðkoma að flutningi bátsins, bendir allt til þess að hann hafi verið í vinnu þegar hann tók að sér að flytja bátinn, óháð því, hvort gerður var við hann formelgur samningur eða ekki. Þá ber einnig á það að líta að flutningur bátsins var vegna áætlana um atvinnu og arðskapandi veiðar á bátnum alla vega í náinni framtíð. Ekki verður því séð, að eiginmaður M hafi verið við frístundaiðju í umrætt sinn. M á því ekki rétt á bótum úr F+3 fjölskyldutryggingu hjá V.“
Eins og álitið sé sett fram leggi nefndin sönnunarbyrðina á stefnanda um greiðsluskyldu stefnda. Engin nánari skilgreining sé á því hvað sé frístund. Í þess stað sé komin frístundaiðja. Þá sé komin vinna og vinnuslys sem séu hugtök sem stefnandi hafi komið með inn í þessa röksemdafærslu, án þess að þeirra sjái nokkurn stað í vátryggingarskilmálum.
Eins og málið liggi fyrir sé á því byggt að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að slysið hafi ekki orðið í frístundum Guðmundar Sesars.
Krafan sé byggð á vátryggingarsamningi aðilanna og skilmálum stefnanda nr. GH20.
Aðild stefnanda sé byggð á gr. 6.1.6 í skilmálum nr. GH20 og 2. mgr. 100. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.
Vaxtakrafa sé byggð á 123. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málsástæður stefnda og lagarök
Sýknukrafa stefnda er byggð á því að atvik það sem stefnandi byggi kröfu sína á falli utan bótasviðs F+3 fjölskyldutryggingarinnar sem stefnandi var með hjá stefnda og krafa hennar byggist á.
Rétt þyki í upphafi að benda á að því sé ekki haldið fram af hálfu stefnda að einhverjar þær undanþágur sem taldar séu upp í gr. 4.3 til 4.15. í skilmálunum eigi við og bótaréttur því ekki fyrir hendi af þeim sökum. Þessar undanþágur komi einungis til álita þegar atvik sem leiða til bótaréttar geta fallið undir bótasvið tryggingarinnar, þ.e. verða í þeim tilvikum sem talin eru í 4 gr., þar á meðal í frístundum.
Því sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda, sem stefnandi haldi fram, að slysið hafi ekki orðið við vinnu heldur í frístundum Guðmunar Sesars. Bendi stefndi á að sönnunarbyrðin um að umrætt atvik eigi undir tryggingu, þannig að bótaréttur hafi stofnast, þ.e. að Guðmundur Sesar hafi verið við frístundaiðju þegar hann lést, sé alfarið hjá stefnanda.
Um trygginguna gildi vátryggingaskilmálar nr. GH20. Í kafla III sem fjalli um frítímaslysatryggingu sé fjallað um bótasviðið í 4. gr. og segi þar: „Félagið greiðir bætur vegna slyss er vátryggður verður fyrir í frístundum, við heimilisstörf, skólanám eða almennar íþróttaiðkanir,...“
Það sé því skilyrði þess að bótaréttur stofnist að slys hafi orðið í frístundum hins vátryggða. Utan tryggingarinnar falli því slys sem verði þegar hinn vátryggði sé við vinnu, hvort sem það sé á eigin vegum eða fyrir aðra.
Ekki sé í máli þessu ágreiningur um að slys hafi orðið sem leiddi til andláts eiginmanns stefnanda. Ágreiningurinn snúist um það hvort slysið varð í frístundum hans í skilningi tryggingarskilmálanna eða þegar hann var við vinnu.
Sé óumdeilt að umrædd trygging eigi einungis við um slys sem verða við frístundaiðju en ekki þegar viðkomandi er við vinnu eða á ferð til og frá vinnu. Stefndi telji að umræddur atburður, sem leiddi til andláts eiginmanns stefnanda, hafi ekki orðið í frístundum hans heldur þegar hann var við vinnu. Hann hafi verið að vinna fyrir fyrirtækið ÍSG Ræktun ehf. þegar slysið varð og hafi vinnan verið fólgin í því að sigla bátnum frá Vopnafirði til Reykjavíkur. Það að bátur sé á siglingu eða á leið milli hafna breyti ekki vinnu sjómanns um borð í frístundaiðju. Þar af leiðandi falli atvikið utan við skilmála tryggingarinnar og bætist ekki úr henni.
Hugtakið frístund sé almennt skilgreint sem svo að það sé frjáls tími, utan vinnutíma. Hér sé átt við tíma sem notaður sé að eigin vali til annars en vinnu og annars vinnutengds, hvort sem það er fyrir annan eða viðkomandi sjálfan. Slíkur frjáls tími geti snúið hvort sem er að heimili, skóla eða tómstundum, sbr. gr. 4.1 í skilmálunum. Frístund eða frítími sé því eitthvað sem gert sé utan við hvers kyns vinnu, tími sem notaður sé í eigin þágu, t.d. til ýmiskonar tómstundastarfa, samveru með fjölskyldunni eða til afslöppunar.
Almennt sé litið svo á að utan við frístundir falli athafnir þegar viðkomandi sé við störf, hvort sem þau séu launuð af öðrum eða arðberandi í eigin þágu eða annarra og einhver atvinnuslysaáhætta fylgi. Sé litið svo á að atvinnustarfsemi, hver svo sem hún sé, eigi að bera kostnað sem verði af slysum sem verða við ástundun hennar.
Umrætt slys varð þegar Guðmundur Sesar var að sigla bát sem félag, þar sem hann var bæði framkvæmdastjóri og í stjórn, hafði keypt og ætlaði að nota sem vinnutæki. Hafi flutningur bátsins verið nauðsynlegt skilyrði þess að unnt væri að nota hann til þeirra starfa sem hann var ætlaður. Sé því augljóst að Guðmundur Sesar hafi verið að vinna að einhverju arðberandi fyrir sjálfan sig, sem og aðra, þegar hann tók að sér að sigla bátnum suður. Skipti því ekki máli í þessu sambandi hvort hann þáði laun fyrir eða var sérstaklega ráðinn til verksins með samningi. Aðalatriðið sé að þetta var liður í fyrirhugaðri atvinnustarfsemi sem m.a. var á vegum hans sjálfs. Falli atvikið því augljóslega utan við bótasvið frítímaslysatryggingarinnar enda geti þessi athöfn hans ekki flokkast sem „í frístundum“ í skilningi skilmálanna og samkvæmt almennum orðskýringum orðsins „frístund“.
Þessu til enn frekari stuðnings megi benda á að keypt hafði verið svokölluð áhafnartrygging hjá Sjóvá. Sé þeirri tryggingu ætlað að greiða bætur í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ef sjómaður verður fyrir slysi við vinnu um borð í skipi eða í beinum tengslum við rekstur skips. Fyrir liggi að stefnandi hafi fengið greiddar dánarbætur úr þessari tryggingu, þ.e. bætur vegna vinnuslyss. Þegar af þeim sökum beri að hafna bótarétti úr frítímaslysatryggingunni hjá stefnda, enda geti bótaréttur tæplega stofnast samhliða vegna sama atviks úr tryggingu sem greiði bætur vegna vinnuslysa og tryggingu sem greiði bætur vegna slysa sem verða í frístundum.
Stefndi mótmæli því sem stefnandi virðist halda fram að niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands um að slysið teljist ekki vinnuslys samkvæmt lögum nr. 100/2007 skipti hér máli. Skilyrði þess að bótaréttur úr almannatryggingum stofnist sé ekki til skoðunar í þessu máli enda séu þau ekki þau sömu og þegar metið sé hvort atvik falli undir bótasvið frítímaslysatryggingarinnar.
Vegna ummæla í stefnu skuli bent á að þar sem um frístundatryggingu er að ræða skiptir ekki máli þó ekki sé fjallað um skilgreiningu hugtakanna „vinna“ eða „vinnuslys“ í skilmálunum enda eigi það ekki við.
Stefndi vísar einkum til almennra reglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og vátryggingarskilmála VÍS nr. GH20. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefnandi er ekkja Guðmundar Sesars Magnússonar er fórst þegar vélbátnum Berki frænda NS055 hvolfdi í desember 2009. Guðmundur Sesar hafði keypt svonefnda F plús 3 fjölskyldutryggingu hjá stefnda samkvæmt vátryggingarskilmálum nr. GH20. Stefnandi, sem er ekkja Guðmundar Sesars, krefst í máli þessu greiðslu dánarbóta samkvæmt þeim hluta skilmálanna sem nefnd er frítímaslysatrygging. Krafa hennar byggist á gr. 6.1.6 í skilmálum um trygginguna og 2. mgr. 100. gr. laga nr. 30/2004.
Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort þau atvik sem stefnandi byggir kröfu sína á falli undir bótasvið F+3 fjölskyldutryggingarinnar.
Í gr. 4.1 í skilmálunum segir um bótasvið að félagið greiði bætur vegna slyss er vátryggður verði fyrir í frístundum, við heimilisstörf, skólanám eða almennar íþróttaiðkanir.
Fyrir liggur að félagið ÍSG Ræktun ehf. hafði keypt bátinn Börk frænda NS055 skömmu áður en umræddur atburður gerðist. Tilgangur ferðar Guðmundar Sesars og Ívars var að sækja bátinn og sigla honum til Reykjavíkur. Guðmundur Sesar og Ívar höfðu, ásamt öðrum, stofnað félagið ÍSG Ræktun ehf. til þess að undirbúa kræklingaræktun og voru kaupin á bátnum liður í þeim undirbúningi. Byggir stefnandi á því að Guðmundur Sesar hafi ekki verið á launum um borð í Berki frænda, hann hafi ekki verið lögskráður á bátinn og ekki hafi verið gerður við hann skiprúmssamningur. Þá geti þau verk sem hann skilaði í ferð sinni ekki talist arðsöm að neinu leyti.
Í almennri orðnotkun merkir frístund frjálsa stund utan vinnutíma.
Þegar metið er hvort Guðmundur Sesar var í vinnu er slysið varð eða við frístundaiðju verður ekki fram hjá því litið að hann sat í stjórn ÍSG Ræktunar ehf. og var jafnframt framkvæmdastjóri félagsins. Þá verður heldur ekki fram hjá því litið að kaupin á bátnum voru liður í þeirri starfsemi sem félaginu var ætluð og flutningur bátsins til Reykjavíkur sömuleiðis. Enda þótt Guðmundur Sesar hafi ekki verið launaður starfsmaður félagsins þykir ljóst að hann hafi, er slysið varð, verið við vinnu í þágu félagsins. Er því fallist á með stefnda að þau atvik sem stefnandi byggir kröfu sína á falli utan gildissviðs F+3 fjölskyldutryggingarinnar sem stefnandi var með hjá stefnda.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Oddrúnar Kristófersdóttur.
Málskostnaður fellur niður.