Hæstiréttur íslands

Mál nr. 241/2007


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Lögskýring


         

Fimmtudaginn 13. desember 2007.

Nr. 241/2007.

Sigurbjörn Tryggvason

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Brimi hf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Lögskýring.

S hafði gegnt starfi 1. vélstjóra á skipum B frá árinu 1984 og var sagt upp með bréfi 3. febrúar 2005. Var ástæða uppsagnarinnar í bréfinu sögð sú að ákveðið hefði verið að selja skipið og var tekið fram að reynt yrði að afhenda það hið fyrsta. Skipið var afhent 19. mars sama ár en B voru greidd laun í þrjá mánuði í uppsagnarfresti í samræmi við 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ekki var fallist á að afhending skipsins gæti eins og hér stæði á falið í sér að S teldist hafa verið vikið úr starfi án nægrar ástæðu í skilningi 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga, sbr. og 3. mgr. sömu lagagreinar, og var kröfu hans um greiðslu sérstakrar launauppbótar samkvæmt lagaákvæðinu því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2007. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 960.859 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. maí 2005 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og honum verði dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 má víkja skipverja úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn ef til staðar eru aðstæður sem nánar eru greindar í 23. og 24. gr. laganna. Ella á skipverjinn rétt á launum í uppsagnarfresti, sbr. 9. gr. sömu laga. Hafi sjómaður samfellt verið 15 ár í þjónustu sama útgerðarmanns og honum er „vikið úr starfi án nægrar ástæðu“ á hann samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 25. gr. rétt á sérstakri launauppbót. Ef um yfirmann er að ræða nemur slík uppbót launum í einn mánuð til viðbótar kaupi samkvæmt 9. gr.

Áfrýjandi hafði gegnt starfi 1. vélstjóra hjá stefnda frá árinu 1984 og telur sig eiga rétt á launauppbót samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 25. gr. Ágreiningslaust er að honum var sagt upp störfum með bréfi 3. febrúar 2005 „með lögbundnum fyrirvara talið frá og með“ sama degi. Ástæða uppsagnarinnar var í bréfinu tilgreind sú að ákveðið hefði verið að selja skipið og var tekið fram að reynt yrði að afhenda það hið fyrsta. Skipið var afhent 19. mars sama ár. Áfrýjanda voru greidd laun í þrjá mánuði frá 3. febrúar 2005 í samræmi við ákvæði 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga um uppsagnarfrest yfirmanns. Ágreiningslaust er að starfslokin urðu ekki rakin til sakar áfrýjanda og að skilyrði 23. og 24. gr. laganna voru ekki fyrir hendi. Áfrýjandi heldur því hins vegar fram að afhending skipsins á uppsagnartímanum samsvari því að honum hafi þá verið vikið úr starfi í skilningi 1. mgr. 25. gr. þrátt fyrir uppsögnina og að hann eigi af þeirri ástæðu rétt á framangreindri launauppbót til viðbótar greiðslum í uppsagnarfresti. Hann heldur því hins vegar ekki fram að óheimilt hafi verið að segja honum upp störfum með lögmæltum fyrirvara af því tilefni að sala skipsins stóð fyrir dyrum. Eðli málsins samkvæmt getur lögmæt uppsögn ráðningarsamnings ekki breyst í ólögmæta riftun hans þegar sá atburður verður sem var tilgreindur sem réttmæt ástæða uppsagnarinnar.

Meginmálsástæða áfrýjanda er sú að skýra beri 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga með hliðsjón af því markmiði 2. málsliðar 1. mgr. 25. gr. að umbuna skuli sjómanni sem lengi hefur starfað í þágu útgerðar með uppbótargreiðslu við starfslok, en ákvæði þetta var nýmæli þegar lögin voru sett 1985. Ákvæði 3. mgr. felur með orðum sínum í sér að réttur til launauppbótar samkvæmt 2. málslið 1. mgr. sé aðeins til staðar þegar skipverja er vikið úr starfi án nægrar ástæðu. Áfrýjandi telur að orðalag þess hafi fyrir mistök orðið svo þröngt sem raun ber vitni. Eru rök hans tilgreind í hinum áfrýjaða dómi þar sem fram kemur að hann vísar aðallega til athugasemda við 1. mgr. 25. gr. frumvarps til laganna. Ekki verður fallist á að unnt sé að gefa 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga þá merkingu sem áfrýjandi vill á þessum grundvelli. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sigurbjörn Tryggvason, greiði stefnda, Brimi hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Sigurbirni Tryggvasyni, Kleifargerði 5, Akureyri, á hendur Brimi hf., Fiskitanga 4, Akureyri, með stefnu áritaðri um birtingu  11. apríl 2006.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 960.859 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 2. maí 2005 til greiðsludags.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.   

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

Til vara er þess krafist að stefnukrafan verði lækkuð og hvor aðili málsins verði látinn bera sinn kostnað af málinu.                  

Málsatvik

Málsatvik eru þau að stefnandi var árið 1984 ráðinn til starfa hjá fyrirtæki stefnda sem þá hét Útgerðarfélag Akureyrar hf. Var stefnandi ráðinn sem 1. vélstjóri á skip stefnda. Heitir nú fyrirtækið Brim hf., og er stefndi þessa máls. Starfaði stefnandi sem 1. vélstjóri á skipi stefnda, b.v. Sléttbak EA-4 (2550) fram til ársins 2005.

Stefnanda og öðrum í áhöfn skipsins var með bréfi 3. febrúar 2005 sagt upp störfum hjá stefnda með lög- og kjarasamningsbundnum fyrirvara. Ástæða uppsagnarinnar var sú, að stefndi hafði fengið kauptilboð í skipið frá erlendum aðila, sem stefndi vildi ganga að.

Síðustu veiðiferð b.v. Sléttbaks EA-4 lauk 15. mars 2005.

Hinn 19. mars 2005 var skipið afhent kaupanda skipsins, en stefnanda var ekki gefinn kostur á að fylgja skipinu til kaupandans við sölu þess. Stefnandi heldur því fram að frá og með afhendingardegi skipsins hafi ráðningu stefnanda hjá stefnda verið rift. Stefndi mótmælir því að hafa rift ráðningarsamningi stefnanda. Stefnandi hafi starfað hjá stefnda, eftir að honum var sagt upp störfum, til 19. mars 2005 og fengið greidd laun til þess tíma.

Stefndi gerði upp við áhöfn skipsins með greiðslu 2. maí 2005. Til viðbótar launagreiðslum til 19. mars 2005 voru stefnanda greidd meðallaun vegna 47 daga í eftirstöðvum uppsagnarfrestsins.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 18. október 2005, var stefndi krafinn um greiðslu eins mánaðar launa til viðbótar venjulegum uppsagnarfresti á grundvelli 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 vegna langs starfsaldurs stefnanda. Stefndi hefur ekki fallist á að greiða þá kröfu. Um það snýst ágreiningur málsins.                

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga teljist ráðningarsamningi rift, þegar skip „missir rétt til að sigla undir íslenskum fána”. Segi í þessari lagagrein að um greiðslu á kaupi fari eftir 25. gr. sjómannalaga, þar sem vísað sé til 9. gr. sjómannalaga, um lengd uppsagnarfrestsins. Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að halda áfram störfum á skipinu hjá hinum erlenda aðila. Ekki sé ágreiningur milli aðila um að upphafsdag riftunar vegna sölu skipsins skuli miða við afhendingu b.v. Sléttbaks EA – 4 til hins erlenda kaupanda, sem hafi verið þann 19. mars 2005.

Þótt riftun hafi átt sér stað, þá sé athugunarefni, hvaða þýðingu það hafi samkvæmt íslenskum sjómannalögum að uppsögn hafi átt sér stað, áður en til riftunarinnar kom, þ.e. hvort sjálfstæður bótaréttur skapist frá riftunardegi (eins og gildi samkvæmt norskum sjómannalögum), þ.e.a.s hvort riftunin hafi sjálfstæða tilveru, eða hvort uppsagnartíminn haldi sér óbreyttur, þótt ráðningu skipverja sé rift á uppsagnartímanum (eins og gildi samkvæmt dönskum sjómannalögum), þ.e.a.s riftun raski ekki tímalengd uppsagnarfrests, hafi uppsögn átt sér stað áður en ráðningunni var rift.

Til þess að átta sig á því hvað gildi í þessum efnum á Íslandi þurfi að rekja forsögu þessa ákvæðis sjómannalaganna, en íslensku sjómannalögin hafi að meginstefnu alla tíð verið sniðin að dönsku sjómannalögunum, en sjómannalögin á Norðurlöndunum séu þó að uppistöðu í flestu eins, þ.e. þau séu samnorræn, en með nokkrum sérákvæðum, eins og umdeilt ákvæði hér á Íslandi.

Í greinargerð með 1. mgr. 25. gr. núgildandi sjómannalaga nr. 35/1985 segi að ákvæði fyrri hluta 1. mgr. eigi sér efnislega hliðstæðu í 34. gr. eldri sjómannalaganna, en samkvæmt ákvæði 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga, sbr. 9. gr., eigi yfirmaður á skipi rétt á kaupi í þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Í meðförum nefndar þeirrar sem vann að endurskoðun sjómannalaganna og lögmaður stefnanda sat í sem fulltrúi samtaka útvegsmanna, hafi komið fram tillaga frá fulltrúum sjómanna um viðbótarlaunamánuð í uppsagnarfresti, hafi viðkomandi skipverja starfað samfellt mjög lengi hjá útgerðarmanninum. Þeirri viðbót hafi verið bætt inn í 1. mgr. 25. gr. uppkastsins að frumvarpinu, en í 2. málslið 1. mgr. 25. gr. segi að hafi yfirmaður á skipi verið samfellt í þjónustu útgerðarmanns í 15 ár eða lengur, (eins og stefnandi) og hafi verið vikið úr skiprúmi án nægrar ástæðu, (eins og stefnandi vegna sölu skipsins), þá eigi hann auk venjulegs uppsagnarkaups, rétt á sérstakri uppbót, sem nemi eins mánaðar launum hjá yfirmanni á skipi. Sé í greinargerðinni sérstaklega tekið fram að þetta ákvæði sé nýmæli í lögunum og áréttar stefnandi það sérstaklega að þetta ákvæði sé ekki að finna í samsvarandi ákvæði dönsku sjómannalaganna, 18. gr. þeirra laga. Hér sé því um íslenskt sérákvæði að ræða.  

Með dómi Hæstaréttar Noregs, sbr. N.D.S 1928 – 449 sé niðurstaðan sú að riftunartíminn skuli teljast frá riftunardegi og skipti þá ekki máli þótt aðeins einn dagur sé eftir af uppsagnartíma, hafi uppsögn átt sér stað áður. Þessi túlkun gildi enn í Noregi, eins og fjölmargir norskir dómar staðfesti. Upphaf riftunartímans sé alltaf miðað við riftunina sjálfa, en ekki fyrr hafi uppsögn átt sér stað áður eða ráðningartíminn fyrir fram ákvarðaður.

Með dómi Hæstaréttar Danmerkur, sbr. N.D.S 1935 175, sé komist að sömu niðurstöðu og í Noregi.

Árið 1972 hafi dönsk nefnd skilað af sér tillögu um breytingu á dönsku sjómannalögunum frá 1952. Hafi þá verið gerð tillaga um breytingu á 3. mgr. 18. gr. dönsku sjómannalaganna í þá veru sem hún sé í dag, þar sem menn sættu sig ekki við áður nefnda túlkun Hæstaréttar Danmerkur. Tilgangurinn hafi verið sá að koma í veg fyrir að sjómenn gætu fengið laun í fullum uppsagnarfresti, ef ráðningu þeirra væri rift við afskráningu nokkrum dögum fyrir lok uppsagnarfrests, þar sem þeim væri greitt uppsagnarkaup út uppsagnartímann, þótt þeir væru lausir frá skipi. Væri með öllu óeðlilegt að skipverji væri í þeim tilvikum afskráður af skipi, stuttu áður en ráðningartímanum lyki, en á fullum launum, þannig að skipverjinn gæti fengið kaupgreiðslur allan riftunartímann.

Þetta nýja ákvæði hafi verið sett inn í dönsku sjómannalögin frá 1973. Með dómi sjó- og verslunarréttar Kaupmannahafnar, sbr. N.D.S 1978-361 sé ákvæðið víkkað með vísan til dönsku Funktionærloven, sbr. 3. gr., þannig að ákvæðið taki til allra tilvika, þegar riftun falli inn í uppsagnartímann, en ekki eingöngu í þeim tilvikum, þegar skipverji sé afskráður fyrir lok ráðningartímans, sem hafi verið upphaflegi tilgangurinn með þessari lagabreytingu. Þetta þýði það að sjómaður, sem sagt hefði verið upp, haldi sínum launum allan uppsagnarfrestinn, en öðlist ekki nýjan launarétt frá og með riftunardegi í þrjá mánuði þaðan í frá.

Við endurskoðun íslensku sjómannalaganna, sbr. lög nr. 35/1985, sé danska ákvæðið í 3. mgr. 18. gr. dönsku sjómannalaganna tekið inn í uppkastið af frumvarpi til íslensku sjómannalaga og afgreitt óbreytt, án þess að nefndarmenn átti sig á þýðingu þess, einkum með tilliti til þess, að viðbótarmánuðinum hafði verið bætt inn í uppkastið að frumvarpinu varðandi 1. mgr. 25. gr. í meðförum sjómannalaganefndarinnar.

Hæstiréttur Íslands hafi nú túlkað 3. mgr. 25. gr. á sama hátt og gert sé í Danmörku, sbr. H. 2004, bls. 4639. Liggi þar með ljóst fyrir að skipverji geti ekki í neinum tilvikum krafist hvors tveggja, launa í uppsagnarfresti og launa vegna riftunar ráðningarsamnings. Hafi uppsögn átt sér stað og útgerðin rifti ráðningunni síðar á uppsagnartímanum, greiðist samt ekki laun, nema út uppsagnartímann, þrátt fyrir riftunina, sem hafi ekki sjálfstæða þýðingu á Íslandi og Danmörku, eins og gildi í Noregi. Í þessum hæstaréttardómi hafi ekki verið fjallað um viðbótarmánuðinn, enda hafi málið ekki fjallað um það atriði, eins og hér og álitamálið ekki í því tilviki um það, hvort greiða ætti viðkomandi sjómanni einu sinni eða tvisvar sinnum uppbótarlaun í mánuð, þegar uppsögn og riftun skarist.

Með vísan til framan rakinnar forsögu ágreiningsefnisins, þá sé stefnandi kominn að kjarna málsins, þegar hann haldi því fram, að í þessu tilviki eigi að beita þrengjandi lögskýringu, þrátt fyrir orð lagatextans í 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga.

Stefnandi byggi mál sitt á því, að þrátt fyrir skýrt orðalag 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, að ákvæði 1. mgr. 25. gr., þ.m.t. laun í þennan umþráttaða viðbótarmánuð, greiðist ekki í því tilviki að uppsögn hafi átt sér stað, áður en ráðningarsamningi skipverja var rift, þá beri að lögskýra 3. mgr  25. gr. þrengjandi lögskýringu og í samræmi við tilganginn með ákvæðinu um viðbótarmánuðinn, en um hann snúist dómsmál þetta.

Tilgangurinn með ákvæði 2. ml. 1. mgr. 25. gr. um viðbótarmánuðinn hafi verið sá, eins og komi skýrlega fram í greinargerð frumvarpsins varðandi 1. mgr. 25. gr., að launa viðkomandi skipverja trygglyndið við útgerðarmanninn með því að hafa unnið í 15 ár eða lengur samfellt hjá þessum sama útgerðarmanni. Í greinargerðinni segi þetta orðrétt um tilganginn með þessum viðbótarmánuði. Er hér um að ræða uppbót sem viðurkenningu fyrir langan samfelldan starfstíma.

Tilgangur ákvæðisins sé ljós. Hann hafi alls ekki verið sá að þessi launauppbót glataðist í því tilviki að uppsögn hefði átt sér stað, áður en útgerðarmaðurinn rifti ráðningunni, t.d. með sölu skips til útlanda, þannig að tilviljun eða ákvörðun útgerðarmanns réði því hvort útgerðarmaðurinn þyrfti að greiða þennan viðbótarmánuð eða ekki. Í slíkum tilvikum gæti útgerðarmaður, sem væri að selja skip sitt, svipt skipverja í þjónustu hans til áratuga þessari launauppbót, eingöngu með því t.d. að afhenda hinum trygglynda skipverja uppsagnarbréf degi fyrir afhendingu skipsins til hins erlenda kaupanda, sem væri þar með riftun ráðningarsamningsins.

Tilgangur þessarar launaviðbótar hafi verið að launa skipverjanum trygglyndið vegna langs starfsaldurs, en ekki að gefa útgerðarmanninum um leið kost á að svipta skipverjann launarétti hans. Riftun vegna sölu á skipi, þar sem uppsögn fari fram áður, breyti engu um trygglyndi skipverjans. Forsendur greiðslu viðbótarmánaðarins breytist ekkert, hvort heldur útgerðarmaðurinn hafi sagt upp ráðningarsamningi skipverjans áður en til riftunar ráðningarsamningsins kom eða ekki. Það hafi ekki verið ætlan nefndarmanna í sjómannalaganefndinni að gefa útgerðarmanni valið um það í tilviki riftunar, t.d. vegna sölu skips til útlanda, að ráða því hvort hann þurfi að greiða hinum trygglynda skipverja þessa launauppbót eða ekki.

Þrengjandi lögskýring hafi verið skilgreind þannig:

Með þrengjandi lögskýringu sé átt við þann lögskýringarkost, sem felist í að ákvarða efni lagaákvæðis þrengra en orð þess gefi til kynna. Eftir orðan sinni taki ákvæði bæði til tilvikanna x (laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti) og y (laun í viðbótarmánuðnum), en lögskýrandinn telji að lögskýringargögn eða lögskýringarsjónarmið hnígi að því að láta ákvæðið taka aðeins til x flokksins, en flokkurinn y falli utan efnismarka ákvæðis.

Það sé skoðun stefnanda, að fella eigi tilvikið með viðbótarmánuðinn undan 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga með þrengjandi lögskýringu.  

Stefnandi ítrekar það að fram komi skýrt í greinargerðinni með 1. mgr. 25. gr. að tilgangurinn hafi verið sá að launa skipverja, sem hafi starfað samfellt í meira en 15 ár hjá útgerðarmanni trygglyndið, með uppbót á laun í hefðbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ákvæði þetta sé sett til hagsbóta fyrir sjómanninn. Verði að virða vilja löggjafans í þessum efnum og túlka umdeilt ákvæði á grundvelli tilgangs þess og jafnframt út frá sanngirnissjónarmiðum. Einnig verði að hafa í huga þá almennu reglu við lögskýringu að skýra beri þröngt ákvæði sem með einum eða öðrum hætti skerði réttindi manna sem þeim hafi verið ætluð með lögum. Þá einnig þau tilvik, þar sem ósanngjarnt væri að túlka lagaákvæði eftir orðanna hljóðan, eins og í þessu tilviki hér, þegar haft sé í huga, að það hafi ekki verið tilgangur þeirra, sem sömdu frumvarpið til sjómannalaga að réttur viðkomandi skipverja í þessum efnum yrði skertur í einhverjum tilvikum. Fullljóst sé, hver hafi verið tilgangur nefndarmanna (löggjafans) með þessu ákvæði. Hér sé ljóst að orðið hafi mistök í uppsetningu ákvæðisins hjá nefndarmönnum. Ætlunin hafi verið sú, að í stað 1. mgr. 25. gr., eins og segi í lögunum, hafi átt að standa  1. ml. 1. mgr. 25. gr., því aldrei hafi ætlunin verið sú að skerða launauppbótina vegna 15 ára samfellds starfsaldurs hjá sama útgerðarmanni, sbr. 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaganna. Ákvæði 3. mgr. 25. gr. varð rýmra, en ætlun nefndarmanna (löggjafans) hafi orðið. Því beri hér að leiðrétta mistökin með því að beita þrengjandi lögskýringu við túlkun ákvæðisins.

Stefnandi sundurliði kröfur sínar þannig:

Samkvæmt launaseðli frá stefnda, dags. 2. maí 2005, sem sé vegna uppgjörs á launum stefnanda í uppsagnarfresti, þá hafi stefndi reiknað út, að meðallaunadagur hjá stefnanda hafi verið 26.639. kr., sem margfaldað með 30 dögum geri 799.170 kr. Þá komi þar fram að aðrir launaliðir geri 2.433 kr. pr. dag (101.40 + 272.83 + 945.00 + 107.90 + 1.005.57) margfaldað með 30 dögum þ.e. 72.990 kr.  Samtals  872.160 kr. (799.190 +  72.990) + 10.17% orlof kr. 88.699.-.

Samtals dómkrafa. 960.859kr. ( 872.160.- +  88.699)

Upphæð dráttarvaxta sé miðuð við 2. maí 2005, en þann dag greiddi stefndi stefnanda uppsagnarfrestinn, sbr. uppgjör stefnda til stefnanda, nema umþráttaðan viðbótarmánuð, sem þá hefði verið gerður upp, hefði stefndi fallist á að greiða stefnanda hann.            

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að ráðningarsamningur stefnanda og stefnda hafi ekki verið vanefndur og þar af leiðandi eigi 1. mgr. 25. gr. laga nr. 35/1985 ekki við í málinu. Í stefnu komi fram að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga teljist ráðningarsamningi rift, þegar skip missir rétt til að sigla undir íslenskum fána. Í dómi Hæstaréttar nr. 191/2001 í máli Útgerðarfélags Akureyringa hf. gegn Þóri Sigurgeirssyni, komi fram í niðurstöðu dómsins:

„ Á það verður að fallast að taka skips af skipaskrá feli í sér missi réttar til að sigla undir íslenskum fána í skilningi 1. mgr. 22. gr. sjómannalaga, sbr. og 5. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Fyrrnefnda ákvæðið felur þó ekki í sér sjálfkrafa riftun af hálfu útgerðarmanns heldur veitir það skipverja rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi nema um annað hafi sérstaklega verið samið. Um greiðslu á kaupi, ferðakostnaði og fæðispeningum fer þá sem segir í 25. gr. sjómannalaga.”

Í dómi Hæstaréttar nr. 326/2000 í máli Róberts Pálssonar gegn Þormóði ramma – Sæbergi hf. komi eftirfarandi fram:

„Þótt eðli máls samkvæmt sé á því byggt við ráðningu sjómanns á fiskiskip að því sé haldið til fiskveiða verður ekki séð að útgerðarmanni sé meinað að segja sjómanninum upp störfum vegna þess að skipi eigi að leggja, jafnvel þótt það sé gert samtímis því að skipinu er lagt. Hvorki í sjómannalögum né kjarasamningi, sem gilti milli áfrýjanda og stefnda, eru ákvæði, sem takmarka rétt útgerðarmanna til uppsagnar að þessu leyti.  Er ekki unnt að telja að um vanefnd ráðningarsamnings hafi verið að ræða. Ákvæði 3. þáttar II. kafla sjómannalaganna, svo sem 19. gr. og 22. gr., sem áfrýjandi vísar einkum til, þykja ekki geta leitt til annarrar niðurstöðu. Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, verður staðfest sú niðurstaða hans að ekki komi til álita að dæma áfrýjanda bætur samkvæmt 25. gr. sjómannalaga.”

Lagagreinar númer 23, 24, 25 og 26 í sjómannalögum nr. 35/1985 falli undir 4. tölulið II. kafla laganna og sé heiti 4 töluliðs II. kafla: „Um rétt skipstjóra til að víkja skipverja úr skiprúmi.”

Í 9. gr. sjómannalaga sé fjallað um uppsagnarfrest og flokkist greinin samkvæmt efnisskipan laganna undir 2. tölulið laga nr. 35/1985, sem beri heitið „Um ráðningartímann.

Í 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaganna komi fram orðavalið „... verið vikið úr starfi án nægrar ástæðu...” Hér sé greinilega vísað til ákvæða 23. gr. og 24. gr. laga nr. 35/1985, samanber sérstaklega 2. mgr. 23. gr. og 2. og 3. mgr. 24. gr. laga nr. 35/1985. Ákvæði 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga vísi greinilega til brottvísunar úr starfi en ekki til uppsagnar úr starfi, eins og í tilviki stefnanda.

Stefndi hafi ekki vikið stefnanda úr skiprúmi, með heimild í 4. tölulið II. kafla sjómannalaga nr. 35/1985. Stefnanda hafi verið sagt upp starfi með vísan til ákvæða 2. töluliðs II. kafla sjómannalaga, nánar tiltekið 9. gr. laganna.

Skipið sem stefnandi hafði starfað á var afhent nýjum eiganda 19. mars 2005. Stefnanda hafi verið greidd meðallaun til 3. maí 2005. Stefnandi geri enga athugasemd við uppgjör fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsett 18. október 2005.

Stefndi hafi ekki nýtt rétt sinn til riftunar ráðningarsamnings samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 35/1985, hafi hann yfirleitt átt þann rétt.

Uppsagnarfrestur stefnanda ráðist af 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og meðallaunagreiðslur að loknu starfi til loka uppsagnarfrests miðist við niðurstöðu dóms Hæstaréttar nr. 326/2000 í máli Róberts Pálssonar gegn Þormóði ramma – Sæbergi hf.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína einnig á því að 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 útiloki samkvæmt efni sínu bætur samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Ákvæði 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga tilgreini sérstaklega að víki skipverji úr skiprúmi eftir uppsögn á þeim stað sem fyrir fram hafi verið um samið, áður en uppsagnarfrestur sé úti, þá eigi ákvæði 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 35/1985 ekki við, en réttur sá er stefnandi byggi kröfu sína á komi fram í 1. mgr. 25. gr. laganna.

Stefnandi hafi lokið starfi 19. mars 2005, áður en uppsagnarfrestur var úti, án athugasemda eða riftunar af hálfu stefnanda. Samkvæmt efni 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 eigi ákvæði 1. mgr. 25. gr. laganna ekki við um atvik þessi.

Stefnandi sjálfur hafi ekki véfengt efni 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga en telji að vilji löggjafans hafi verið annar en greinilega komi fram í lagaákvæðinu.

Orðaval lagatexta 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga gefi ekki tilefni til skýringa eins og fram komi í greinargerð með frumvarpi til laganna. Ákvæðinu sé sérstaklega beint að mjög sérgreindu tilviki, það sé þegar skipverji víki úr skiprúmi eftir uppsögn áður en uppsagnarfrestur sé úti, en um slíkt tilvik sé fjallað í máli þessu og skýrt tekið fram að 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 eigi ekki við, en á því ákvæði byggi stefnandi kröfu sína.

Varakrafa

Fallist dómurinn ekki á aðalkröfu stefnda geri stefndi kröfu til þess að héraðsdómur lækki fjárhæð kröfu stefnanda. Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 eigi skipverji rétt á sérstakri uppbót, sem nemi eins mánaðar launum, sé um yfirmann að ræða. Sérstök uppbót taki ekki breytingum eftir aflaverðmæti skipa, heldur sé fjárhæð háð stöðu skipverja en óháð aflahlut.

Um launauppbót sé ekki vísað til 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 um uppsagnarfrest, líkt og gert sé í 1. ml. 1. mgr. 25. gr. laganna. Réttur stefnanda sé því til greiðslu eins mánaðar kauptryggingar frá 3. maí 2005, er uppsagnarfrestur sé liðinn, í einn mánuð, það sé til 3. júní 2005. Skipverjar eigi launauppbót eftir stöðu sinni, yfirmenn eigi rétt til greiðslu eins mánaðar launa, aðrir skipverjar eigi 15 daga laun.

Stefndi vísi til þess að ákvæði 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 lengi ekki gagnkvæman uppsagnarfrest stefnanda, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna, heldur sé um að ræða uppbót á laun.

Samkvæmt kjarasamningi, sem var í gildi milli stefnanda og stefnda í febrúar 2005 þegar stefnanda var sagt upp störfum, var vélstjóra tryggðar 162.934 kr. í kauptryggingu. Krafa stefnanda sé því til greiðslu þeirrar fjárhæðar auk dráttarvaxta, sem reiknist frá birtingu dóms, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, þar sem óvissa sé um bótaskyldu stefnda, vegna þess að túlkun lagatexta sé óljós.

Um rök fyrir því að málskostnaður verði felldur niður vísar stefndi til 3. tl. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Svo sem fram er komið starfaði stefnandi sem 1. vélstjóri  á skipi stefnda, b.v. Sléttbak EA-4 um langt skeið. Óumdeilt er að stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda með bréfi dagsettu 3. febrúar 2005 og var uppsagnarfrestur hans þrír mánuðir samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ástæða uppsagnarinnar var sala skipsins til  erlendra aðila. Í uppsagnarbréfinu var tekið fram að nýir kaupendur óski eftir að fá skipið afhent við fyrsta hentugleika og verði leitast við að koma til móts við þá ósk eins og við verði komið.

Stefnandi heldur því fram að hinn 19. mars 2005, er skipið var afhent kaupanda, hafi stefndi rift ráðningu stefnanda. Þar sem stefnandi hafi starfað í 15 ár hjá stefnda eigi hann rétt til greiðslu eins mánaðar launa til viðbótar venjulegum uppsagnarfresti á grundvelli 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Stefndi byggir á því að ekki hafi verið um neina riftun á ráðningu stefnanda að ræða. Stefndi hafi sagt stefnda upp störfum frá 3. febrúar og hafi stefnandi starfað hjá stefnda til 19. mars 2005 og fengið greidd laun til þess tíma. Á tímabilinu 19. mars 2005 til loka uppsagnarfrestsins, 3. maí 2006, hafi stefnanda verið greidd meðallaun. Bendir stefndi jafnframt á að jafnvel þótt um riftun hefði verið að ræða myndi stefnandi ekki eiga rétt á greiðslu viðbótarlauna skv. 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga, þar sem 3. mgr. 25. gr. laganna útilokaði rétt stefnanda til slíkrar greiðslu.

Til stuðnings þeirri málsástæðu að stefndi hafi rift ráðningu stefnanda 19. mars 2005 vísar stefnandi til 22. gr. sjómannalaga, en samkvæmt því ákvæði á skipverji rétt á að krefjast lausnar úr skiprúmi ef skip missir rétt til að sigla undir íslenskum fána. Það ákvæði á ekki við um stefnanda eins og starfslokum hans var háttað.

Réttur til sérstakrar launauppbótar samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga er, auk 15 ára starfsstíma, bundinn því skilyrði að skipverja hafi verið vikið úr starfi án nægrar ástæðu. Eins og fram er komið var stefnanda sagt upp starfi með lögboðnum uppsagnarfresti samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Hann á því ekki rétt til þeirrar launauppbótar, sem kveðið er á um í fyrrgreindu lagaákvæði. Ákvæði 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga leiða og til sömu niðurstöðu, enda verður ekki fallist á sjónarmið stefnanda um þrönga lögskýringu á því ákvæði.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, en málskostnaður verður felldur niður.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Brim hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigurbjörns Tryggvasonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.