Hæstiréttur íslands

Mál nr. 711/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


                                     

Föstudaginn 15. nóvember 2013.

Nr. 711/2013.

Eignarhaldsfélagið Fengur hf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Höllu Rannveigu Halldórsdóttur

(Guðmundur Birgir Ólafsson hrl.)

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu E hf. um að H yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hennar á hendur E hf. til heimtu greiðslu vegna launa og orlofs á uppsagnarfresti, þar sem ekki hefðu verið lögð fram í málinu gögn er leiddu nægar líkur að því að H væri ófær um greiðslu málskostnaðar þannig að fullnægt væri skilyrðum b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli hennar á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Eignarhaldsfélagið Fengur hf., greiði varnaraðila, Höllu Rannveigu Halldórsdóttur, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2013.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. september sl., er höfðað af Höllu Rannveigu Halldórsdóttur, Meistaravöllum 33, Reykjavík, á hendur Eignarhaldsfélaginu Feng hf., Ármúla 7, Reykjavík. Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda vegna launa og orlofs 3.253.233 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2010 af 533.641 krónu til 1. ágúst 2012 og frá þeim degi af 1.879.141 krónu til 1. október 2012 og frá þeim degi  af 3.252.233 krónum til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar.

Mál þetta var þingfest 14. mars 2013 og fékk stefndi þá frest til að skila greinargerð til 11. apríl sama ár. Var sá frestur framlengdur við fyrirtöku málsins þann dag og síðan aftur við fyrirtökur hinn 16. og 30. sama mánaðar. Í þinghaldi 14. maí 2013 skilaði stefndi greinargerð þar sem hann krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á stefnukröfum, auk málskostnaðar. Var málinu frestað til frekari gagnaöflunar aðila og það síðan tekið fyrir á ný hinn 27. júní og 12. september sl. Í þinghaldi þann dag krafðist stefndi þess, gegn mótmælum stefnanda, að stefnanda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu. Var málinu þá frestað til málflutnings um þá kröfu stefnda til miðvikudagsins 18. september sl.

Krafa stefnda um málskostnaðartryggingu er reist á b-lið 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem fram kemur að stefndi geti krafist þess að stefnandi setji slíka tryggingu ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Vísar stefndi til þess að fyrir liggi í málinu að lögmaður, sem gæti hagsmuna stefnanda í öðru máli sem hún reki hér fyrir dómi, hafi í þinghaldi í því hinn 7. maí sl., lýst því yfir að hún væri atvinnulaus og gæti því ekki ábyrgst greiðslu matskostnaðar. Hafi hún sótt um gjafsókn í því máli og fengið gjafsóknarleyfi hinn 22. sama mánaðar. Samkvæmt þessu liggi fyrir málflutningsyfirlýsing sem staðfesti að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar í máli þessu.

Stefnandi krefst þess að kröfu stefnda verði hafnað og krefst málskostnaðar vegna þessar þáttar málsins. Á því sé byggt að sú yfirlýsing sem stefndi vísi til hafi enga þýðingu varðandi mat á því hvort líkur séu á að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar í þessu máli í skilningi b-liðar 133. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé krafa stefnda um málskostnaðartryggingu of seint fram komin.

Niðurstaða

Ekki verður á það fallist með stefnda að framangreind yfirlýsing sem bókuð var eftir lögmanni stefnanda í öðru máli hér fyrir dómi, eða sú staðreynd að stefnanda hafi verið veitt gjafsóknarleyfi í því sama máli, staðfesti að stefnandi sé ógjaldfær. Verður ekki talið að lögð hafi verið fram í málinu gögn sem leiði nægar líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar þannig að fullnægt sé skilyrðum b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að stefnanda verði gert að setja tryggingu vegna þess. Verður kröfu stefnda því hafnað.

Ákvörðun um málskostnað bíður endanlegs dóms í málinu.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu stefnda, Eignarhaldsfélagsins Fengs hf., um að stefnanda, Höllu Rannveigu Halldórsdóttur, verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar.