Hæstiréttur íslands
Mál nr. 543/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 3. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2016 þar sem nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi var framlengd í allt að tólf vikur frá 28. júlí 2016 að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Braga Björnssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2016
Með kröfu, sem dagsett er 26. júlí sl. og barst réttinum sama dag, hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að nauðungarvistun varnaraðila, A, kt. [...], [...], [...], í 21 sólarhring frá 8. júlí sl., verði framlengd til 12 vikna með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, sbr. 29. gr. a. lögræðislaga nr. 71/1997. Aðild sóknaraðila styðst við 20. gr. laga nr. 71/1997, með síðari breytingum.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá er þess krafist af hans hálfu að þóknun skipaðs verjanda hans greiðist úr ríkissjóði í samræmi við 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.
Málið var þingfest í dag og var tekið til úrskurðar að lokinni skýrslutöku og munnlegum málflutningi.
Beiðnin er sett fram í framhaldi af nauðungarvistun varnaraðila í 21 dag sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samþykkti 8. júlí sl. og rennur út í lok dags 28. júlí nk.
Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé [...] ára gamall karlmaður, ókvæntur og barnlaus sem hefur búið hjá foreldrum sínum undanfarin 2 – 3 ár og verið án atvinnu til lengri tíma. Varnaraðili hafi komið nauðugur á bráðageðdeild 6. júlí sl. þar sem hann hafi verið metinn verulega hugsanatruflaður og sterkur grunur verið um þróun geðrofssjúkdóms. Hafi hann hvorki viljað þiggja innlögn né lyfjameðferð og því verið nauðungarvistaður í 72 klst.
Varnaraðili sé nú í virku geðrofi og neiti allri meðferð. Samkvæmt læknisvottorði sé hann með einkenni sem samræmist þróun geðklofa með neikvæðum einkennum og líklegt sé að hann hafi verið í ómeðhöndluðu geðrofsástandi í nokkur ár. Varnaraðili hafi í um 4-5 ára skeið jafnframt neytt örvandi efna en nýlega hafi hann mestmegnis neitt kannabisefna. Verulegra neikvæðra einkenna gæti hjá honum en til að mynda hirði hann lítið um sjálfan sig, hafi ranghugmyndir um eitrun frá vatni og rafmagni ásamt því að glíma við hugsanafátækt. Líklegt sé að mati lækna að hann sé búinn að vera í ómeðhöndluðu geðrofsástandi í nokkur ár. Hann sé með takmarkað innsæi í veikindi sín og sé áframhaldandi meðferð og sjúkrahúsdvöl talin óhjákvæmileg.
Varnaraðili hafi verið á bráðageðdeild 32c í tæpar 3 vikur og hafi enn takmarkað innsæi í veikindi sín og sé að mati lækna í brýnni þörf fyrir sjúkrahúsvist og lyfjameðferð. Af þessum sökum sé talið nauðsynlegt að krefjast framlengingar nauðungarvistunar varnaraðila til 12 vikna, með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis.
Krafa um framlengingu nauðungarvistunar til 12 vikna grundvallist á heimild í 29. gr. a lögræðislaga nr. 71/1997 og byggist á því að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða og hafi átt um árabil og á því að læknar telji framlengingu nauðungarvistunar óhjákvæmilega. Samvinna hafi ekki náðst varðandi lyfjameðferð og ekki hafi náðst samvinna um áframhaldandi innlögn að 21 degi loknum. Varnaraðili sé enn mikið veikur, innsæislaus í veikindin, í virku geðrofi og að mati lækna ekki fær um að sjá um sig sjálfur. Með hliðsjón af framangreindu, gögnum málsins og aðstæðum öllum telji sóknaraðili að framlenging nauðungarvistunar til 12 vikna sé nauðsynleg svo unnt sé að veita varnaraðila viðeigandi læknismeðferð en henni verði ekki komið við með öðrum hætti.
Krafa sóknaraðila um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur byggist á ítarlegu læknisvottorði B, sérfræðilæknis í geðlækningum á bráðageðdeild 32C, Landspítala háskólasjúkrahúsi, sem dagsett er 22. júlí sl. Þar kemur m.a. fram að varnaraðili sé í sinni fyrstu innlögn á geðdeild. Hann sé nýlega byrjaður á zypadhera sprautum. Vaxandi geðrofseinkenni síðastliðin 2-4 ár. Fjögurra til fimm ára saga um neyslu örvandi efna, en aðallega kannabis undanfarið. Hann hafi einangrast mjög félagslega, hætt í háskóla, ekki tollað í vinnu og í raun tapað allri virkni. Mikil neikvæð einkenni séu til staðar, m.a. skert umhirða og hann sé í hugsanafátækt ásamt eitrunarranghugmyndum sem tengist m.a. mat, vatni og rafmagni. Einkennaþróun varnaraðila samræmist best þróun geðklofa með miklum neikvæðum einkennum og líklegt sé að hann sé búinn að vera í ómeðhöndluðu geðrofsástandi í nokkur ár. Búast megi við því að meðferð hans muni taka nokkuð langan tíma í ljósi þess að hann hafi líklega verið veikur nokkuð lengi án íhlutunar og vegna þess að mikil neikvæð einkenni séu til staðar hjá honum.
Þá liggur fyrir yfirlýsing sérfræðilæknisins, dags. 25. júlí 2016, þar sem fram kemur að frá komu á bráðageðdeild þann 6. júlí 2016 hafi varnaraðili verið innsæislaus í veikindi sín, þörf á sjúkrahúsvist og lyfjameðferð. Hann neiti allri meðferð og hafi þurft að fá forðalyfjasprautur til að tryggja bata. Hann sé með mikil geðrofseinkenni og sé í klárri þörf fyrir áframhaldandi sjúkrahúsvist. Var það mat sérfræðilæknisins að varnaraðili væri ekki fær um að þiggja meðferð sjálfviljugur.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða, og hafi átt um árabil, og læknar telji framlengingu nauðungarvistunar óhjákvæmilega. Samvinna hafi náðst varðandi lyfjameðferð en ekki hafi náðst samvinna um áframhaldandi innlögn að 21 degi loknum. Varnaraðili sé enn mikið veikur, innsæislaus í veikindin og að mati lækna ekki fær um að sjá um sig sjálfur. Öll lagaskilyrði séu fyrir hendi til þess að fallast á kröfu sóknaraðila.
Verjandi mótmælti kröfu sóknaraðila og taldi að ekki væru fyrir hendi skilyrði til að fallast á hana. Vottorð sérfræðilæknis nú og þess læknis sem rætt hafi við varnaraðila áður en nauðungarvistun var samþykkt væru nánast samhljóða um ástand varnaraðila og ítarleg rannsókn eða viðtöl virðist ekki hafa farið fram á þeim tíma sem nauðungarvistun hafi staðið. Hegðun varnaraðila megi líkja við það sem ekki sé óþekkt hjá fólki sem kosið hefur að vanda mataræði sitt og sumir telji jafnvel heilsusamlegt að ganga ætíð berfættir. Þar sem lyfjagjöf megi koma við með forðalyfjasprautum sé vandséð að ekki sé unnt að sinna varnaraðila með göngudeildarmeðferð án þess að grípa til íþyngjandi þvingunarráðstafana.
Geðlæknirinn gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Hún staðfesti efni vottorðs síns og svaraði spurningum um ástand varnaraðila. Taldi læknirinn óhjákvæmilegt að nauðungarvista varnaraðila áfram og tryggja honum þannig viðeigandi meðferð, lyfjagjöf og eftirfylgd. Aðspurð kvað hún hann enn vera ófæran um að annast um grunnþarfir sínar sjálfur þótt líkamlega hefði hann burði til þess. Hegðun hans varðandi mat, drykk og umhirðu væri langt umfram venjulega sérvisku. Einkennamynd hans samræmist geðklofagreiningu fremur en að um neyslutengt geðrof sé að ræða. Hann hefði verið mjög veikur mjög lengi og hefði ekkert innsæi sem sé nauðsynlegt til þess að tekin verði skref til meðhöndlunar á göngudeild.
Varnaraðili hefur verið nauðungarvistaður frá 8. júlí sl. á grundvelli 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997. Fram er komið í málinu að varnaraðili var við komu á bráðamóttöku geðdeildar gríðarlega órólegur og hugsanatruflaður. Hefur sögu um að beita foreldra sína ofbeldi, var þá í neyslu, en er ekki metinn í hættu á að beita ofbeldi nú, en talinn vera í verulegri strokhættu. Einkennaþróun samræmist að mati sérfræðilæknis best þróun geðklofa með miklum neikvæðum einkennum og líklegt er talið að hann sé búinn að vera í ómeðhöndluðu geðrofsástandi í nokkur ár. Búast megi við að meðferð hans muni taka nokkuð langan tíma, sótt hafi verið um innlögn á sérhæfðri endurhæfingardeild á Kleppi í framhaldi af vistun hans á bráðageðdeild.
Með vísan til gagna málsins og vættis áðurnefnds geðlæknis fyrir dóminum þykir nægilega í ljós leitt að nauðsynlegt sé að varnaraðili verði áfram nauðungarvistaður á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi lyfjagjöf, aðstoð, meðferð og eftirfylgni svo færa megi líðan hans til betri vegar. Við lok núverandi nauðungarvistunar er geðrænt ástand varnaraðila enn alvarlegt og innsæi hans verulega skert. Hefur því ekki tekist að ná nægilegum tökum á ástandi hans og ljóst að meiri tíma þarf til að ná utan um sjúkdómseinkenni hans. Verður því ekki talið að við þessar aðstæður dugi önnur eða vægari úrræði til að tryggja heilsu og batahorfur varnaraðila.
Er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 29. gr. a í lögræðislögum nr. 71/1997, sbr. 17. gr. laga nr. 84/2015, til að verða við kröfu sóknaraðila um framlengingu nauðungarvistunar varnaraðila í 12 vikur, en með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis, í samræmi við kröfu sóknaraðila og með velferð varnaraðila í huga.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Braga Björnssonar hdl., eins og nánar greinir í úrskurðarorði og er þóknunin ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Fallist er á þá kröfu sóknaraðila, Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, að framlengja til 12 vikna nauðungarvistun varnaraðila, A, kt. [...], á sjúkrahúsi, með heimild til rýmkunar samkvæmt mati yfirlæknis.
Kostnaður af málinu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Braga Björnssonar hdl., 160.000 krónur.