Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Vörslur


Nr

Nr. 135/2001.

Miðvikudaginn 23. maí 2001.

 

E. P. Verk ehf. og

 

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

 

Íslensk sjóefni hf.

 

(Sigurður Jakob Halldórsson)

 

gegn

 

Nordam Investments Ltd. og

 

(Árni Grétar Finnsson hrl.)

 

Hitaveitu Suðurnesja hf.

 

(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.)

 

Kærumál. Aðför. Vörslur.

Við framkvæmd tveggja aðfarargerða sem fram fóru hjá Í hf. að beiðni E ehf. benti fyrirsvarsmaður Í hf. á verðmæti sem staðsett voru á athafnasvæði N og var gerðinni lokið með fjárnámi sýslumanns í þeim. N, sem kvaðst vera eigandi hinna fjárnumdu verðmæta krafðist ógildingar fjárnámsgerðanna, ásamt H hf. Af gögnum málsins þótti ekki annað verða ráðið en að vörslur hinna fjárnumdu verðmæta hefðu verið hjá N er hin umdeildu fjárnám fóru fram og álitið var að E ehf. og Í hf. hefðu ekki fært fram nægjanlegar sönnur á eignarhaldi Í hf. á hinu fjárnumda. Var því staðfestur úrskurður héraðsdóms um ógildingu fjárnámsgerðanna.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir. 

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 6. apríl 2001, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2001, þar sem felldar voru úr gildi tvær aðfarargerðir sýslumannsins í Keflavík 12. október 2000 í nánar tilgreindu lausafé og munum. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að staðfest verði fjárnám í lausafjármunum samkvæmt fyrrnefndum aðfarargerðum, sem fram fóru að kröfu sóknaraðila E.P. Verks ehf. gagnvart Íslenskum sjóefnum hf. sem gerðarþola. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi beggja varnaraðila.

Varnaraðili Nordam Investments Ltd. krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sóknaraðilar dæmdir óskipt til þess að greiða honum kærumálskostnað. Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði réttur félagsins til að skuldajafna við sóknaraðila Íslensk sjóefni hf. inneign sinni hjá því fyrirtæki, samtals 19.146.827 krónur. Að öðrum kosti er krafist skuldajöfnuðar við Íslensk sjóefni hf. á skuld að fjárhæð 13.995.952 krónur. Á móti haldi Nordam Investments Ltd. öllu hinu fjárnumda sem kvaðalausri eign sinni. Jafnframt verði aðfarargerðirnar ógiltar. Til þrautavara er þess krafist að framangreindar aðfarargerðir verði ógiltar í nánar tilgreindu lausafé og munum svo og tilgreindum framleiðsluvörum og hráefni. Þá verði Nordam Investments Ltd. „jafnframt heimiluð skuldajöfnun svo sem krafist er undir varakröfu, gagnvart þeim munum og lausafé, sem fjárnámin tækju þá til, þannig að það lausafé og munir yrðu metnir að álitum sem kr. 2.000.000 innborgun Íslenskra sjóefna hf. á áðurnefnda skuld hlutafélagsins við Nordam Investment Ltd. ... og Nordam Investment Ltd. teljist þá eigandi hins fjárnumda á sama hátt og greinir í varakröfu.“ Jafnframt verði aðfarargerðirnar ógiltar. Í vara- og þrautavarakröfum er einnig krafist kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila eins og í aðalkröfu.    

Varnaraðili Hitaveita Suðurnesja hf. krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Til vara er þess krafist að ógiltar verði ofangreindar aðfarargerðir í nánar tilgreindu lausafé, framleiðsluvörum og hráefni. Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðilar verði dæmdir óskipt til greiðslu kærumálskostnaðar.

Fram er komið að 31. mars 2001 var Hitaveita Suðurnesja gerð að hlutafélagi og hefur félagið tekið við aðild málsins.

Af hálfu sóknaraðila E.P. Verks ehf. hefur verið teflt fram nýrri málsástæðu fyrir Hæstarétti. Byggir félagið nú á því að það hafi verið eigandi að hluta verðmætanna, sem fjárnámsgerðirnar tóku til, á grundvelli eignaréttarfyrirvara í verksamningi þess og Íslenskra sjóefna hf. og tiltekinna ákvæða laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þessi nýja málsástæða er of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og henni var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994, sbr. einnig 94. gr. laga nr. 90/1989.  Kemur hún því ekki til álita fyrir Hæstarétti.

Með bréfi lögmanns sóknaraðila E. P. Verks ehf. 18. október 2000 til varnaraðila Nordam Investments Ltd. tilkynnti lögmaðurinn að umbjóðandi hans myndi mæta á athafnasvæði saltverksmiðjunnar í Höfnum til að fá vörslur hins fjárnumda samkvæmt fjárnámsgerðunum 12. sama mánaðar í því skyni „að fá framangreindum réttindum sínum fullnægt og vörslur hins fjárnumda og þeirra muna, sem enn eru í verksmiðjunni, og fram koma í úrskurði héraðsdóms.“ Bréfinu er beint til „Nordam Investment c/o Saltverksmiðjan á Reykjanesi.“ Af bréfi þessu og öðrum gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að vörslur hinna fjárnumdu verðmæta hafi verið hjá varnaraðila Nordam Investments Ltd. er hin umdeildu fjárnám fóru fram 12. október 2000. Verður á það fallist með héraðsdómara að sóknaraðilar hafi ekki fært fram í máli þessu sönnur á eignarhaldi Íslenskra sjóefna hf. á þeim munum sem fjárnámsgerðir tóku til. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt þykir að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2001.

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 21. febrúar sl.

Sóknaraðili er Nordam Investments Ltd., 300 Guildford Landmark Building, 15127 100 th Avenue Surey, British Columbia, Kanada.

Sóknaraðili fyrir meðalgöngu er Hitaveita Suðurnesja, kt. 680475-0169, Brekkustíg 36, Njarðvík.

Varnaraðili er E.P. verk ehf., kt. 610695-2999, Vörðusundi 5, Grindavík.

Varnaraðili fyrir meðalgöngu er Íslensk sjóefni hf., kt. 510794-2739, Vitabraut 1, Höfnum, Reykjanesbæ.

Málinu er skotið til dómsins af hálfu sóknaraðila með heimild í 1.mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Dómkröfur sóknaraðila Nordam Investments Ltd., eru þær að aðfarargerðir nr. 034-2000-02382 og nr. 034-2000-02383, sem fram fóru hjá sýslumanninum í Keflavík þann 12. október 2000 verði ógiltar og felldar niður í öllu því lausafé og munum sem upp eru talin í aðfarargerðunum að undanskilinni bifreiðinni OY-499, svo og í öllum framleiðsluvörum og hráefni, það er í eðalsalti, kryddsalti og hráefni, sem upp er talið í aðfarargerðunum.

Þá er þess krafist, verði aðfarargerðirnar ekki ógiltar svo skjóta þurfi úrskurðinum til æðra dóms, að úrskurðað verði að frekari fullnustugerðir frestist, þar á meðal ákvörðun sýslumanns um vörslusviptingu, uns niðurstaða æðra dóms kynni að liggja fyrir

Til vara krefst sóknaraðili þess að framangreindar aðfarargerðir verði ógiltar og felldar niður í nánar neðangreindu lausafé og munum sóknaraðila, þar á meðal heimild til vörslusviptingar.  Nánar tiltekið lausafé og munir sóknaraðila, sem krafist er að fjárnámið verði ógilt og fellt niður í: Allt það, sem talið er upp á lista í aðfarargerðunum frá og með lofthamri keyptum í Bílabúðinni ehf. til og með háfs úr ryðfríu stáli, keyptur í Héðni hf., allt sagt keypt á tímabilinu frá og með 20. júlí 1999 til og með 15. júní 2000. Enn fremur allar framleiðsluvörur og hráefni, það er eðalsalt, kryddsalt og hráefni sem upp er talið í aðfarargerðinni.  Þá er á sama hátt og í aðalkröfu krafist úrskurðar um að frekari fullnustuaðgerðir frestist, ef skjóta þarf málinu til æðra dóms, uns niðurstaða hans liggur fyrir.

Þá er bæði í aðalkröfu og varakröfu krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

 

Dómkröfur sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, eru aðallega þær að tvær framangreindar aðfarargerðir sýslumannsins í Keflavík þar sem E.P. verk ehf. var gerðarbeiðandi, en Íslensk sjóefni hf. gerðarþoli, verði ógiltar og felldar niður í öllu því lausafé sem talið er upp á lista í aðfarargerðunum frá og með andlagi auðkenndu sem grammavog keypt í Deiglunni ehf. til og með andlagi auðkenndu sem brunndælu keyptri í Vald. Poulsen, allt sagt keypt á tímabilinu frá og með 12. september 1994 til l. nóvember 1999, að undanskilinni bifreiðinni OY-499, svo og í öllum framleiðsluvörum og hráefni, það er eðalsalti, kryddsalti og hráefni sem upp er talið í aðfarargerðunum, svo og ákvörðun um vörslusviptingu hins fjármunda, sem samþykkt var af gerðarþola.

Til vara krefst sóknaraðili fyrir meðalgöngu þess að áðurnefndar tvær aðfarargerðir sýslumannsins í Keflavík þar sem E.P. verk ehf. var gerðarbeiðandi, en Íslensk sjóefni hf. gerðarþoli, verði ógiltar og felldar niður í öllu því lausafé sem talið er upp á lista í aðfarargerðunum frá og með andlagi auðkenndu sem lofthamar keyptur í Bílabúðinni ehf. til og með andlagi auðkenndu sem brunndæla keypt í Vald. Poulsen, allt sagt keypt á tímabilinu frá og með 20. júlí 1999 til 1. nóvember 1999, svo og í öllum framleiðsluvörum og hráefni, það er eðalsalti, kryddsalti og hráefni sem upp er talið í aðfarargerðunum, svo og ákvörðun um vörslusviptingu hins fjárnumda sem samþykkt var af gerðarþola.

Í báðum tilvikum er þess enn fremur krafist, verði aðfarargerðirnar ekki felldar niður og ógiltar svo skjóta þurfi úrskurðinum til æðra dóms, að úrskurðað verði að frekari fullnustugerðir frestist, þar á meðal ákvörðun sýslumanns um vörslusviptingu, uns niðurstaða æðra dóms kynni að liggja fyrir.

Þá er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila in solidum auk virðisaukaskatts.

 

Dómkröfur varnaraðila, E.P. verks ehf., eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða varnaraðila málskostnað auk álags á málskostnað.

 

Dómkröfur varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., eru þær að öllum kröfum sóknaraðila er varða aðfarargerðir sýslumannsins í Keflavík samkvæmt aðfarargerðum nr. 034-2000-02382 og nr. 034-2000-02383, dagsettum 12. október 2000, verði hafnað og sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða varnaraðilum allan málskostnað. Jafnframt er þess krafist að frekari fullnustugerðum verði ekki frestað uns niðurstaða æðra dóms kynni að liggja fyrir, komi til slíks málareksturs.

 

I.

Þann 12. október 2000 tók sýslumaðurinn í Keflavík fyrir tvær aðfararbeiðnir E.P. verks ehf. á hendur Íslenskum sjóefnum hf.  Fyrirsvarsmaður gerðarþola benti á lausafé staðsett á athafnasvæði Nordam Investments Ltd. við saltverksmiðjuna á Reykjanesi og var gerðinni lokið með fjárnámi sýslumanns í lausafénu, nánar tilgreindu á fylgiskjölum. Var annarsvegar um að ræða fjárnmám fyrir kröfu að fjárhæð 8.724.918 krónum  og hins vegar kröfu að fjárhæð 83.200 krónur.

Með tilkynningu sem barst dóminum 20. október sl. krafðist sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., ógildingar aðfarargerðanna.

 

II.

Málavextir, rök og heimildir sóknaraðila

Sóknaraðili kveður varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., ekki vera og aldrei hafa verið eiganda að saltverksmiðjunni á Reykjanesi, heldur aðeins leigutaka.  Hitaveita Suðurnesja hafi þann 27. maí 1994 keypt af þrotabúi Íslenska saltfélagsins hf. lausafé tilheyrandi verksmiðjunni samkvæmt lista sem fylgdi kaupsamningnum, svo og hugsanleg réttindi þrotabúsins tengdum saltvinnslu á Reykjanesi.  Þann 29. desember 1994 hafi hitaveitan keypt af Sjóefnavinnslunni hf. fasteignina Vitabraut 1 í Höfnum, þ.e. saltverksmiðjuna, ásamt tilheyrandi leigulóð, svo og öllu er eigninni fylgir, þar með talin öll tæki og áhöld seljanda, er tilheyrðu þáverandi vinnslu.

Þann 20. desember 1996 hafi hitaveitan gert leigusamning með kauprétti við varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., en af kaupum hafi aldrei orðið sökum vanefnda Íslenskra sjóefna ehf.

Samkvæmt grein 5.4. í samningnum hafi Íslenskum sjóefnum hf. við samningslok borið að koma mannvirkjum og búnaði í sama horf og var við upphaf leigutímans, nema samið yrði um annað, sem ekki hafi verið gert.  Lausafé og annað sem Íslensk sjóefni hf. keypti til verksmiðjunnar á tímabilinu 12. september 1994 til 25. júní 1998 og talið er upp í aðfarargerðunum séu því hlutir sem fari til viðhalds á þeim hlutum, sem fylgdu verksmiðjunni við upphaf leigutímans og hafi komið í stað þess sem fyrir var.  Hafi þeir því verið eign Hitaveitu Suðurnesja og hluti þess sem hún seldi sóknaraðila.

Þann 23. júní 1999 hafi Hitaveita Suðurnesja samið við Íslensk sjóefni hf. um að nefnt félag tæki að sér að annast til bráðabirgða framleiðslu á 150 tonnum af heilsusalti, en hitaveitan myndi fjármagna dæmið, þar á meðal viðhald, viðgerðir og fleira til þess að koma verksmiðjunni í gang.  Starfræksla verksmiðjunnar hafi þá legið niðri í rúmt ár.  Heildarkostnaður við þennan samning hafi verið áætlaður 15.798.000 krónur, þar af viðgerðir, viðhald og fleira 5.298.000 krónur og efniskaup á hráefni til framleiðslunnar 6.925.000 krónur.  Heildarkostnaður hafi hins vegar orðið 20.522.778 krónur, þar af endurbætur á verksmiðju 10.447.142 krónur og hráefni og vinnulaun 10.115.637 krónur og hafi hitaveitan greitt þann kostnað allan til Íslenskra sjóefna hf. og nokkru betur, eða samtals 20.812.252 krónur.  Framleiðslunni hafi átt að ljúka 15. september 2000, en henni hafi ekki lokið fyrr en 22. nóvember það ár.  Þrátt fyrir það hafi framleiðslan aðeins orðið 115 tonn í stað 150 tonna, svo sem um hafði verið samið.

Samkvæmt samningnum hafi Íslenskum sjóefnum hf. borið að upplýsa Hitaveitu Suðurnesja a.m.k. tvisvar í viku um framgang verkefnisins.  Á því hafi orðið verulegur misbrestur.  Enn fremur hafi félagið átt að leggja fram, allt að vikulega yfirlit, ásamt fylgigögnum til hitaveitunnar yfir þann kostnað sem til hafði fallið og myndi hitaveitan þá innan tveggja virkra daga greiða félaginu kostnaðinn, sem og hitaveitan hafi gert.  Jafnframt hafi Íslensk sjóefni hf. ábyrgst að allar greiðslur hitaveitunnar rynnu eingöngu til greiðslu þess kostnaðar.

Af þessu megi vera ljóst að það var Hitaveita Suðurnesja sem staðið hafi fyrir því að hefja framleiðslu að nýju í saltverksmiðjunni sumarið 1999 og borið af því allan kostnað, en falið Íslenskum sjóefnum hf. framkvæmdina.  Allar endurbætur, viðhald og áhalda- og tækjakaup, svo og kaup á hráefni og framleiðsla á þessum tíma séu því eign hitaveitunnar, en ekki varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf.  Þetta eigi við um alla liði sem skráðir eru í aðfarargerðunum keyptir frá og með 20. júlí 1999 til og með l. nóvember 1999, svo og hráefnið og framleiðsluna.  Allt það sem keypt hafi verið til verksmiðjunnar á þessum tíma, lausafé og munir, þar á meðal áhöld og tæki, hafi verið keypt beint til þess að hefja framleiðslu að nýju og margir hlutir þegar áfastir við verksmiðjuna og því hluti af fasteigninni.

Hafi Íslensk sjóefni hf. látið skrá reikninga á sig fyrir þeim innkaupum sem félagið gerði á þessum tíma til saltverksmiðjunnar og lýst er að framan veiti það Íslenskum sjóefnum hf. ekki neinn eignarrétt í hinu keypta, sbr. samning þess og hitaveitunnar frá 23. júní 1999, heldur sé hér aðeins um að ræða fylgiskjöl sem afhenda skyldi hitaveitunni til sannindamerkis um það hvernig Íslensk sjóefni hf. hefðu ráðstafað peningunum frá hitaveitunni, og m.a. hvað það hafi verið að kaupa fyrir hitaveituna til þess að koma verksmiðjunni í gang og geta unnið umrædda bráðabirgðaframleiðslu.  Einhliða ákvörðun framkvæmdastjóra Íslenskra sjóefna hf. um að láta skrá innkaupin á það félag veiti félaginu ekki eignarétt á hinu keypta sem greitt hafi verið og í raun keypt fyrir Hitaveitu Suðurnesja samkvæmt sérstökum samningi.

Þann 7. september 1999 hafi sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., samið við Íslensk sjóefni hf. um að kaupa 2/3 hluta í félaginu fyrir tvær milljónir bandaríkjadala.  Hafi það verið gert í þeirri trú að félagið hefði forgangsrétt að kaupum á saltverksmiðjunni.  Þegar til átti að taka hafi komið í ljós að Hitaveita Suðurnesja vildi ekki selja Íslenskum sjóefnum hf. verksmiðjuna sökum reynslu af fyrri viðskiptum.  Sóknaraðili hafi síðan af ýmsum ástæðum rift samningnum við Íslensk sjóefni hf.

Þegar fyrir lá að Hitaveita Suðurnesja vildi ekki selja Íslenskum sjóefnum hf. saltverksmiðjuna hafi verið ákveðið að sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., keypti sjálfur saltverksmiðjuna af hitaveitunni.  Hafi þau kaup farið fram þann 11. október 1999 og hafi þetta verið gert með vitund og samþykki Íslenskra sjóefna hf.  Sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., hafi keypt fasteignir verksmiðjunnar ásamt öllu fylgifé, það er framleiðslubúnaði, áhöldum og tækjum, svo og öllu hráefni og framleiðslu á staðnum, allt eign hitaveitunnar, þar með talið allt það lausafé og búnaður, sem keyptur hafði verið til verksmiðjunnar samkvæmt samningi hitaveitunnar við Íslensk sjóefni hf. frá 23.júní 1999, svo og hráefni og framleiðslubirgðir verksmiðjunnar, sem orðið höfðu til samkvæmt þeim samningi.  Sýni þetta ljóslega að sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, hafi litið á sig sem eiganda þeirra verðmæta, sem lögð voru í verksmiðjuna samkvæmt samningnum frá 23. júní 1999.

Við kaupin hafi sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., tekið að sér að greiða hitaveitunni um það bil 386.000 bandaríkjadali, eða sem samsvaraði rúmum tuttugu milljónum króna, vegna kostnaðar hennar við framkvæmd samningsins við Íslensk sjóefni hf. frá 23. júní 1999, enda hafi framleiðslan og það sem keypt var til verksmiðjunnar á þessum tíma fylgt með í kaupunum, svo sem að framan greinir.  Ljóst sé því að með samningnum hafi sóknarðaili orðið lögmætur eigandi að öllum endurbótum, tækjum, áhöldum, hráefni og framleiðslu, sem til varð samkvæmt samningnum frá 23. júní 1999 og hitaveitan hafði áður greitt.

Sóknaraðili hafi unnið að undirbúningi og standsetningu verksmiðjunnar frá því að hann eignaðist hana í október 1999 og séu öll kaup á tækjum og áhöldum og öllu öðru sem snertir verksmiðjuna eftir 15. janúar 2000 fjármögnuð af honum.  Framkvæmdastjóri varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., Sigurður Jakob Halldórsson, hafi verið áfram í því starfi, en jafnframt hafi hann sinnt umsjón með endurbótum á saltverksmiðjunni fyrir sóknaraðila.  Hafi sóknaraðili treyst Sigurði á þessum tíma og vænst þess að geta notið góðs af reynslu hans.

Sóknaraðili hafi greitt til Sigurðar Jakobs Halldórssonar á tímabilinu frá því í janúar og fram til vors 2000 alls um 34 milljónir króna til þess að kosta endurbætur á verksmiðjunni og koma henni í starfrækslu.  Auk þess muni Sigurður Jakob hafa tekið við endurgreiðslum á virðisaukaskatti frá sýslumanninum í Keflavík á þessum tíma, en það fé hafi að sjálfsögðu verið eign sóknaraðila sem eiganda verksmiðjunnar.  Sóknaraðila sé ekki kunnugt um hve há endurgreiðslan var.  Allir þessir peningar hafi að sjálfsögðu átt að fara til endurbóta á verksmiðjunni.  Allt það lausafé og munir sem taldir eru upp í fjárnámsgerðunum og sagðir eru keyptir á tímabilinu frá og með 15. janúar 2000 til og með 15. júní 2000 séu því keyptir fyrir peninga sóknaraðila og í þeim eina tilgangi að koma verksmiðjunni í rekstur á ný.  Þarna séu meðal annars margir hlutir sem tengdir hafa verið við fasteign verksmiðjunnar, svo sem t.d.miðstöðvarkerfi og lokar.

Hafi Sigurður Jakob Halldórsson látið skrá innkaupin á þessu tímabili á Íslensk sjóefni hf. og fært þau til eignar hjá því félagi, hafi hann að sjálfsögðu brugðist þeim trúnaði sem honum var sýndur með afhendingu peninga frá sóknaraðila til að kosta endurbætur á verksmiðjunni og koma henni í rekstur.  Honum hafi verið það algjörlega óheimilt og veiti þær gjörðir hans Íslenskum sjóefnum hf. vitaskuld ekki eignarrétt á hinu keypta.  Það sé sóknaraðili sem sé eigandi verksmiðjunnar, en ekki Íslensk sjóefni hf.

Sigurður Jakob hafi sagt fyrirvaralaust upp störfum hjá Íslenskum sjóefnum hf. í lok maí 2000.  Hann hafi enn hvorki skilað bókhaldi né gert grein fyrir því hvernig hann ráðstafaði þeim peningum sem hann fékk frá sóknaraðila. Að ætla nú að borga skuldir Íslenskra sjóefna hf. með því að vísa á eignir sóknaraðila tilheyrandi saltverksmiðjunni til fjárnáms sé furðulegt.

Til frekari stuðnings málatilbúnaði sínum tekur sóknaraðili eftirfarandi fram:

1.  Sóknaraðili mótmælir öllum eignarétti varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., í hinu fjárnumda lausafé og munum, að undanskilinni bifreiðinni OY- 499.  Öll sönnunarbyrði um að hið fjárnumda sé eign Íslenskra sjóefna hf. hvíli að sjálfsögðu á Íslenskum sjóefnum hf. sem bent hafi á þessar eignir í vörslum sóknaraðila til fjárnáms fyrir skuldum sínum. Ekki verði séð að Íslensk sjóefni hf. hafi á nokkurn hátt fullnægt þessari sönnunarskyldu sinni.  Til viðbótar því sem segir í beiðni sóknaraðila til héraðsdóms frá 20.október 2000, séu mótmælin rökstudd með eftirfarandi:

a) Þegar sóknaraðili samdi um kaup á saltverksmiðjunni af Hitaveitu Suðurnesja 11. október 1999 hafi sama dag verið gengið frá yfirlýsingu milli Hitaveitu Suðurnesja og Íslenskra sjóefna hf. þar sem kaupleigusamningur þessara aðila frá 20. desember 1996 var framseldur og honum afsalað til sóknaraðila án allra undantekninga með öllum fylgiskjölum, breytingum, viðbótum, bréfaskriftum og breytingum, sbr. dómskjal nr. 42.  Íslensk sjóefni hf. hafi aldrei síðan gert tilkall til neinna eigna hjá saltverksmiðjunni fyrr en næstum ári síðar við þessar fjárnámsgerðir.

Ljóst sé að með þessari yfirlýsingu hafi öll hugsanleg réttindi Íslenskra sjóefna hf. samkvæmt kaupleigusamningnum frá 20. desember 1996 færst yfir til sóknaraðila, þar með talin þau réttindi sem Íslenskum sjóefnum hf. voru áskilin í grein samningsins nr. 5.3. um eignarétt á birgðum, fullunnum vörum, tækjum og öðrum búnaði sem fyrirtækið notar í rekstri sínum og sem félagið hefur keypt.

Yfirlýsingin frá 11.október 1999 sé afdráttarlaus.  Hafi það verið ætlun Íslenskra sjóefna hf. að áskilja sér rétt til að gera tilkall til þess lausafjár og muna sem það hafi nú vísað á til fjárnáms, hefði það að sjálfsögðu tekið það fram og undanþegið þessi verðmæti í yfirlýsingunni.  Það hafi Íslensk sjóefni hf. ekki gert, heldur hafi félagið framselt saminginn frá 20. desember 1996 til sóknaraðila að öllu leyti og án undantekninga, svo sem standi í yfirlýsingunni og hafi Íslensk sjóefni hf. aldrei hreyft neinni athugasemd þar um.  Það hafi verið Hitaveita Suðurnesja og Íslensk sjóefni hf. sem gengu frá yfirlýsingunni l. október 1999. Ástæðan sé sú að sama dag hafi Hitaveita Suðurnesja selt sóknaraðila saltverksmiðjuna ásamt öllum tækjum og lager.  Hitaveitan hafi því verið að selja saltverksmiðjuna með því sem henni fylgdi og að tryggja það að Íslensk sjóefni hf. kæmu ekki eftir á og gerðu tilkall til einhverra þeirra eigna á staðnum, sem hitaveitan var að selja. Til þess að ekkert færi hér milli mála og engin eftirkaup yrðu, hafi Íslensk sjóefni hf. afsalað kaupleigusamningnum frá 20. desember 1996 með öllum síðari breytingum og án alls fyrirvara, til hins nýja eiganda verksmiðjunnar, þ.e. sóknaraðila.  Tilraunir Íslenskra sjóefna hf. til þess að bera nú fyrir sig samninginn frá 20. desember 1996 og byggja rétt sinn á honum og telja sig eiganda að margs konar lausafé og munum, sem Hitaveita Suðunesja seldi sóknaraðila fái því ekki staðist.

2)  Vísað sé til þess, sem sagt er á dómskjali nr. 1 um framleiðslusamning milli Hitaveitu Suðurnesja og Íslenskra sjóefna hf. frá 23. júní 1999.  Samkvæmt yfirliti frá Íslenskum sjóefnum hf. hafi hitaveitan greitt 20.812.252 krónur vegna þessa verkefnis.  Þar af hafi um helmingur farið til kaupa á áhöldum og tækjum og til endurbóta á verksmiðjunni, sbr. dómskjöl nr. 44 og 45.

a) Samkvæmt yfirliti frá Hitaveitu Suðurnesja 31. desember 1999 hafi hitaveitan þá verið búin að fá endurgreiddar vegna þessa verkefnis 2.870.887 krónur, sem hafi verið fyrir saltsölu.  Einnig muni hafa borist greiðsla frá Íslenskum sjóefnum hf. til viðbótar vegna þessa verkefnis að fjárhæð 7.276 krónur, en hún sé ranglega skuldfærð á Íslensk sjóefni hf. á yfirlitinu á dómskjali nr. 47, en eigi að færast sem innborgun og sé það hér með leiðrétt. Samtals hafi hitaveitunni því verið endurgreiddar 2.878.163 krónur í árslok 1999 og hafi þá staðið eftir skuld Íslenskra sjóefna hf. að fjárhæð 17.934.089 krónur vegna samningsins frá 23. júní 1999, sbr. dómskjal nr.47.  Hitaveitan hafi fengið tvær endurgreislur vegna saltsölu árið 2000, þann 4. janúar 1.445.625 krónur og þann 28. febrúar 1.640.009 krónur, eða samtals 3.085.634 krónur vegna þessa verkefnis. Hafi þá heildarinnborganir vegna þessa numið samtals 5.963.797 krónum.  Skuld Íslenskra sjóefna hf. við sóknaraðila (áður Hitaveitu Suðurnesja) þann 28. febrúar 2000, vegna samningsins frá 23. júní 1999 hafi því að eftirstöðvum numið 14.848.455 krónum. Endurgreiðslur vegna virðisaukaskatts muni hvorki sóknaraðili né hitaveitan hafa fengið.  Eftir standi því ógreiddar af kostnaði við umrætt verkefni 14.848.455 krónur.

b) Íslensk sjóefni hf. hafi skuldað Hitaveitu Suðurnesja ekki aðeins vegna samningsins frá 23. júní 1999, þegar félagið framseldi kaupleigusamninginn frá 20. desember 1996 til sóknaraðila.  Íslensk sjóefni hf. hafi þá einnig skuldað hitaveitunni vegna rafmagns, einkaleyfisgjalda, trygginga og fasteignagjalda.  Samtals nemi skuld saltverksmiðjunar við hitaveituna vegna þessara liða í árslok 1999 5.731.162 krónum, sbr. dskj. nr. 47.  Rétt sé að draga frá þessari skuld Íslenskra sjóefna hf. þrjá síðustu mánuði ársins 1999 eftir að sóknaraðili keypti verksmiðjuna, þ.e. 1/4 eða 1.432,790 krónur.  Eftir standi því skuld Íslenskra sjóefna hf. við sóknaraðila (áður Hitaveitu Suðurnesja) 30. september 1999 vegna þessara liða 4.298.372 krónur.

c) Heildarskuld Íslenskra sjóefna hf. við sóknaraðila (áður Hitaveitu Suðurnesja), sé því samtals 19.146.827 krónur, 14.848.455 krónur + 4.298.372 krónur. Skuldin sundurliðist nánar þannig skv. a- og b-liðum hér að framan:

Greiðslur hitaveitunnar til Íslenskra sjóefna vegna samnings frá 23. júní 1999, kr. 20.812.252. Innborganir árið 1999 kr. 2.870.887 + kr. 7.276 + kr. 2.878.163.  Innborganir árið 2000 kr. 1.445.625 + kr. 1.670.009 + kr. 3.085.634 + kr. 5.963.797.  Samtals eftirstöðvar skuldar vegna samnings frá 23.júní.1999, kr. 14.848.455.  Skuld Íslenskra sjóefna hf. vegna rafmagns, einkaleyfisgjalda, trygginga og fasteignagjalda 30.9.1999 kr. 4.298.372.  Því nemi heildarskuld Íslenskra sjóefna hf. við sóknaraðila (áður Hitaveitur Suðurnesja) 28. febrúar 2000 alls 19.146.827 krónum.

d) Eins og yfirlitið að framan sýni, séu Íslensk sjóefni hf. stórskuldug við sóknaraðila. (Hitaveitu Suðurnesja).  Vilji Íslensk sjóefni hf., þrátt fyrir yfirlýsinguna frá l. október 1999, í alvöru slá eign sinni á framleiðsluna og ýmis tæki og áhöld verksmiðjunnar, ætti félagið að byrja á því að greiða sóknaraðila (hitaveitunni) skuld sína og þá að sjálfsögðu með vöxtum. Það hafi Íslensk sjóefni hf. ekki gert.  Félagið vilji bæði halda og sleppa.  Það vilji bæði slá eign sinni á þau verðmæti sem það vísar á til fjárnáms, og sem hitaveitan seldi sóknaraðila, en sleppa við að endurgreiða inneign sóknaraðila (áður hitaveitunnar) hjá félaginu.  Hvorki í yfirlýsingunni frá l. október 1999 né annarsstaðar sé minnst á að þessi skuld Íslenskra sjóefna hf. hafi verið felld niður.

3.  Telja verði, eins og þetta mál er vaxið, að það standist ekki réttarfarslega, að gert sé fjárnám í eignum, sem eru í vörslu þriðja aðila án þess, að sá aðili sé látinn vita og gefinn kostur á að gæta réttar síns við aðfarargerðirnar. Sérstaklega eigi það við í þessu tilfelli, þar sem bæði gerðarbeiðanda og gerðarþola (varnaraðilar í þessu máli) hafi sem hluthöfum í gerðarþola verið kunnugt um kaup og eignarrétt sóknaraðila á saltverksmiðjunni. Þeir geti því ekki talist í góðri trú með þessar innheimtuaðferðir sínar.

a) Sem fyrr segir hafi sóknaraðili yfirtekið inneign Hitaveitu Suðurnesja hjá Íslenskum sjóefnum hf. við kaupin á verksmiðjunni og sé því eigandi hennar. Það fái því ekki staðist réttarfarslega að aðili geti vísað á lausafé og muni í vörslum annars aðila til fullnustu skuldum sínum meðan hann stendur í miklu hærri skuld við þennan sama aðila en nemur verðmæti þessa lausafjár.  Samt sé til ítrustu varúðar krafist skuldajöfnunar á inneign sóknaraðila hjá Íslenskum sjóefnum hf. við fjárnámskröfurnar, eins og þær koma fram í fjárnámsbeiðnunum ef svo kynni að verða litið á að Íslensk sjóefni hf. teldust eiga einhvern rétt til hins fjárnumda, sbr. varakröfu að framan.

4.  Áður hafi verið á það bent að sú leið sem Íslensk sjóefni hf. hafa valið í þessu máli til greiðslu skulda sinna sé furðuleg og fái ekki staðist réttarfarslega.  Telji Íslensk sjóefni hf. sig raunverulega eiga það lausafé og muni, sem hér um ræðir sé rétta leiðin sú að félagið höfði mál á hendur Hitaveitu Suðurnesja og sóknaraðila til að fá þessi verðmæti afhent.  Ef á eignarrétt Íslenskra sjóefna hf. yrði fallist kæmi að sjálfsögðu á móti fjárkrafan á hendur félaginu og skuldajöfnuði yrði beitt.  Þá kynni einnig að reyna á haldsrétt.  Það virðist því liggja nokkuð ljóst fyrir að til þess að komast hjá uppgjöri og greiðslum á umræddri skuld Íslenskra sjóefna hf. við sóknaraðila (áður Hitaveitu Suðurnesja) hyggist félagið beita þeirri leið að benda á eignir hjá þessum lánardrottni sínum til fullnustu á skuldum sínum við varnaraðila, E.P.verk ehf.  Slík réttarframkvæmd sé ekki lögmæt og geti ekki notið viðurkenningar dómstóla.

5.  Því sé mótmælt að eignarréttarfyrirvari í verksamningi milli beggja varnaraðila,

sem lagður hafi verið fram sem dskj. nr. 20 hafi nokkurt gildi í máli þessu, enda sé hann einhliða gerður af þeim, án vitneskju eða samþykkis eiganda saltverksmiðjunnar, sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., og bindi það félag því ekki á nokkurn hátt.

Lagarök o.fl.

1.  Um lagarök vísar sóknaraðili til eftirfarandi ákvæða laga nr.90/1989:  a)  l. mgr. 92. gr. veiti sóknaraðila sem þriðja manni rétt til að krefjast úrlausnar héraðsdóms um fjárnámsgerðirnar þar sem þær fari í bága við réttindi hans.  b) Í 1. mgr. 36. gr. segi að gera megi fjárnám í eignum sem tilheyra gerðarþola.  Þær eignir sem gert var fjárnám í og frá er greint að framan, tilheyri ekki varnaraðila, heldur sóknaraðila.  Þær geti því ekki verið fjárnámsandlag fyrir skuldum varnaraðila.  c) Þá beri að líta til reglna eignaréttarins um vörslur eigna og tilheyrslu.

2.  Í fjárnámsgerðinni nr. 034-2000-02382 sé bókað að lagður hafi verið fram dómur og krafa gerðarbeiðanda byggð á þeim dómi.  Enginn dómur liggi fyrir í því máli, aðeins „sátt” milli varnaraðila og Sigurðar Jakobs Halldórssonar f.h. varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., gerð fyrir Héraðsdómi Reykjaness 6. september 2000. Þá séu engir vottar að aðfarargerðunum.  Telja verði að þessi ranga bókun valdi ógildingu gerðarinnar, enda sé ógildingar hennar krafist m.a. á þeim forsendum.  Þessi sátt bindi sóknaraðila að sjálfsögðu í engu, enda sé hann ekki aðili að henni.  Sama sé að segja um úrskurðinn frá 8. september 2000.  Þar sé varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., dæmdur til greiðslu, en ekki sóknaraðili og sú krafa því honum óviðkomandi.

3.  Ástæða sé til að vekja athygli á því að varnaraðili, E.P. verk ehf., hafi ekki hirt um að tilkynna sóknaraðila um þær réttarathafnir sem hann hefur beitt sér fyrir gegn Íslenskum sjóefnum hf. til innheimtu skuldarinnar.  Hann hafi ekki stefnt sóknaraðila í málinu, ekki einu sinni til réttargæslu.  Varnaraðili, E.P. verk ehf., og Sigurður Jakob Halldórsson f.h. varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., geri eins konar „sátt” fyrir sýslumanninum í Keflavík 23. ágúst 2000, þar sem Sigurður Jakob f.h. Íslenskra sjóefna hf. samþykki allar kröfur E.P.verks ehf. og bendi jafnframt á eignir sóknaraðila til löghalds.  Sama sagan endurtaki sig svo fyrir Héraðsdómi Reykjaness 6. september 2000, þar sem sömu aðilar geri með sér „réttarsátt” í sama máli.  Á grundvelli þessarar „sáttar” krefjist varnaraðili, E.P. verk ehf., síðan aðfarar og enn sé Sigurður Jakob sem stjórnarformður Íslenskra sjóefna hf. mættur og bendi endurtekið á eignir sóknaraðila til fjárnáms fyrir skuldum Íslenskra sjóefna hf.  Ekki sé hirt um að láta sóknaraðila vita af þessari réttargerð og hann hafi fyrst fengið vitneskju um hana þegar E.P. verk ehf. krafðist vörslusviptingar hjá sóknaraðila.  Sóknaraðili hafi óskað eftir endurupptöku aðfarargerðanna hjá sýslumanninum í Keflavík þegar er honum varð kunnugt um þær, m.a. með vísan til 67. gr. og 36.gr. aðfararlaga, en sýslumaður hafi synjað beiðninni.

Varnaraðili, E.P verk ehf., sé hluthafi í Íslenskum sjóefnum hf.  Þess vegna sé honum vel kunnugt um kaup sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., á saltverksmiðjunni og vinnu þess félags við standsetningu hennar, sbr. þau skjöl sem varnaraðili lagði fram í innsetningarmálinu nr. A-70/2000 fyrir Héraðsdómi Reykjaness, og enn fremur sem hluthafa, að Íslensk sjóefni hf. hafi aldrei verið eigandi verksmiðjunnar.  Í því máli hafi Sigurður Jakob Halldórsson verið aðalvitni varnaraðila.  Sóknaraðili telji að öll meðferð málsins sýni að um meint samstarf milli varnaraðila og Sigurðar Jakobs Halldórssonar sé að ræða í þessum aðförum að sóknaraðila og eignum hans.

4. Eftir að sóknaraðili keypti saltverksmiðjuna hafi aldrei verið samið við varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., um að hann yrði rekstraraðili hennar.  Sú framleiðsla sem fram fór eftir að framleiðslu samkvæmt samningnum við hitaveituna frá 23. júní 2000 var lokið hafi því verið á vegum sóknaraðila.  Sama sé að segja um allar endurbætur og innkaup á áhöldum og tækjum til verksmiðjunnar.  Sóknaraðili hafi kostað þær allar sem eigandi verksmiðjunnar og því séu engin rök fyrir því, hvorki efnisleg né lagaleg, að Íslensk sjóefni hf. geti talið sig vera  eiganda að endurbótunum eða einhverjum þeim munum, sem keyptir voru til verksmiðjunar og greiddir voru með peningum sóknaraðila.

 

Málavextir, rök og heimildir sóknaraðila fyrir meðalgöngu

Varðandi málavexti og rökstuðning fyrir kröfum sóknaraðila vísar sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, til greinargerðar sóknaraðila og dómskjals nr. 1. Því til viðbótar bendir sóknaraðili fyrir meðalgöngu á eftirfarandi:

Á árinu 1994 hafi sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, keypt allar eignir, hvort sem voru fasteignir, lausafé eða önnur þau réttindi er tengust saltvinnslu á Reykjanesi, einkum staðsett að Vitabraut 1 í Höfnum, Reykjanesbæ, ásamt tilheyrandi leigulóð.  Sama ár hafi verið gert samkomulag við varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., um að sjá um viðhald verksmiðjunnar.  Árið 1996 hafi verið tekin sú ákvörðun af sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, að hætta öllun rekstri saltvinnslu.  Gerður hafi verið leigusamningur með kauprétti við Íslensk sjóefni hf. þann 20. desember það ár, en af kaupum Íslenskra sjóefna hf. hafi hins vegar aldrei orðið sökum vanefnda félagsins.

Sérstaklega sé vakin athygli á því að samkvæmt ákvæðum leigusamningsins hafi Íslenskum sjóefnum hf. við samningslok borið að koma mannvirkjum og búnaði í sama horf og var við upphaf leigutímans.  Ljóst megi því vera að það lausafé sem varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., keypti til verksmiðjunnar á tímabilinu 12. september 1994 til 25. júní 1998 og tilgreint er að hluta sem andlag hinna umdeildu aðfarargerða tilheyri umsömdu viðhaldi á þeim hlutum sem fylgdu verksmiðjunni við upphaf leigutímans og hafi komið í stað þess sem fyrir var og því eign Hitaveitu Suðurnesja og nú framselt til sóknaraðila, Nordam Investment Ltd., sbr. kaupsamning dags. l l. október 1999.

Þegar sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., keypti verksmiðjuna þann 11. október 1999 hafi verið undirrituð yfirlýsing, dagsett sama dag, þar sem Íslensk sjóefni hf. framseldu (hugsanleg) réttindi og skyldur sínar til sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., samkvæmt áðurnefndum leigusamningi með kauprétti, dagsettum 20. desember 1996. Við undirritun þeirrar yfirlýsingar hafi engar athugasemdir verið gerðar af hálfu varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., hvorki við orðalag né um að undanskilja ætti eitthvað af því lausafé sem til staðar var á fasteign sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, að Vitabraut 1 í Höfnum.  Aðilum hafi verið fullkunnugt eða a.m.k. mátt vera kunnugt um að með yfirlýsingunni var sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, að tryggja það að varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., kæmi ekki eftirá og gerði eftir atvikum tilkall til einhverra þeirra eigna á staðnum, sem hitaveitan seldi sóknaraðila, Nordam lnvestments Ltd.  Þetta hafi verið gert þótt engar kröfur hafi þá verið gerðar af hálfu varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., í þessa veru og aðilar að mati sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, þyrftu í raun ekki að velkjast í vafa um rétt sinn og skyldur.

Ljóst sé að hafi varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., átt eignaréttindi yfir þessum munum og réttindum, sem reyndar sé mótmælt, þá hafi félagið með yfirlýsingu þessari afsalað öllum slíkum eignum til sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., þ.m.t. þeim fjárnámsandlögum sem um er deilt í máli þessu.

Með samningi dagsettum 23. júní 1999, dómskal nr. 43, hafi sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, og varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., samið um að síðarnefnda félagið tæki að sér að annast framleiðslu til bráðabirgða á 150 tonnum af heilsusalti, en hitaveitan myndi fjármagna framleiðsluna, þar með talið viðhald og viðgerðir.  Hafi þetta verið gert til að koma verksmiðjunni í gang á ný.  Áætlaður kostnaður vegna þessa hafi verið á bilinu frá 11.342.000 krónum til 15.798.000 króna, þar af viðgerðir og viðhald 5.298.000 krónur ­og efniskaup á hráefni til framleiðslu að hámarki 6.925.000 krónur.

Sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, hafi hins vegar greitt a.m.k. 20.812.252 krónur vegna verkefnisins og hafi það því farið 5.014.252 krónum fram úr áætlun.   Þar af hafi kostnaður vegna endurbóta á verksmiðju numið 10.190.171 krónum og hráefni og vinnulaun 10.622.081 krónum.  Hitaveitan hafi greitt allan þennan kostnað.  Framleiða hafi átt 150 tonn, en niðurstaðan hafi, þrátt fyrir aukinn kostnað, einungis orðið framleiðsla á 115 tonnum og henni hafi lokið mun síðar en áætlanir gerðu ráð fyrir, eða 22. nóvember 1999. Varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., hafi aldrei uppfyllt að fullu skyldu sína um að gefa upplýsingar um framgang verkefnisins.  Þá hafi verið í samningi þessum ákvæði um að Íslensk sjóefni hf. framseldu Hitaveitu Suðurnesja allar tekjur sem sköpuðust af þessari framleiðslu.  Hitaveitan hafi fengið greiddar 5.963.797 krónur vegna sölu á salti vegna þessa verkefnis eða sem nemur andvirði 66 tonna, sbr. dómskjal nr. 56.

Ágreiningslaust ætti að vera að sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, greiddi allan kostnað vegna þessarar bráðabirgðaframleiðslu, svo sem vegna viðhalds, endurbóta, áhalda- og tækjakaupa og jafnframt allt hráefni.  Öll framleiðsla á þessum tíma hafi því verið eign sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðuruesja.  Áréttað sé í þessu sambandi að á þessum tíma hafi sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, verið eigandi verksmiðjunnar.

Grundvallaratriðið hér sé að sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, sé eigandi allra þeirra fjárnámsandlaga sem skráð eru sem eign Íslenskra sjóefna hf. í aðfarargerðunum frá og með 20. júlí 1999 til og með 1. nóvember s.á., svo og hráefnis og framleiðslu, þ.e. lagers og birgða fullunninar vöru.  Ítrekað sé að allt sem keypt var á þessum tíma, lausafé og munir, þar á meðal áhöld og tæki, hafi verið keypt beint til þess að hefja framleiðslu að nýju.  Margir þessara hluta séu áfastir verksmiðjuhúsinu og því hluti af fasteigninni.  Þessi skilningur sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, komi greinilega fram á dómskjali nr. 48 sem sé skýrsla forstjóra Hitaveitu Suðurnesja.

Því sé mótmælt að einhverja þýðingu hafi í málinu að varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., hafi látið skrá reikninga á sitt nafn fyrir innkaupum í tengslum við bráðabirgðaframleiðsluna.  Sú ákvörðun varnaraðila skapi honum að sjálfsögðu ekki ein og sér eignarrétt í hinu keypta.  Hér sé einungis um að ræða fylgiskjöl sem afhent skyldu hitaveitunni til sannindamerkis um það hvernig Íslensk sjóefni hf. hefðu ráðstafað peningum hitaveitunnar.  Í því sambandi sé nauðsynlegt að átta sig á því hvers eðlis samningurinn frá 23. júní 1999 er.  Sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, sem var á þeim tíma eigandi saltverksmiðjunnar, hafi gert samning við Íslensk sjóefni hf. um að setja af stað saltverksmiðjuna á sinn kostnað gegn endurgreiðslu í formi salts, samkvæmt áætlun frá varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskum sjóefnum hf., sbr. dómskjal nr. 43.  Þetta sé alls ekki flókinn samningur.  Ljóst sé að tilgangur aðilanna hafi verið sá að tryggja markaðsstarf og að fá nýja fjárfesta til að kaupa og reka saltverksmiðjuna.  Með þessu móti hafi sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, opnast möguleiki til að selja saltverksmiðjuna ásamt öllu því sem henni fylgdi.  Hafi Hitaveita Suðurnesja þannig verið að skapa möguleika fyrir því að fá eitthvað til baka af þeim miklu fjármunum sem hún hafði lagt í verksmiðjuna.  Ljóst sé að sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, stundi ekki lánaviðskipti eins og bankastofnanir og ekki sé með nokkru móti hægt að telja að svo hafi verið í þessu tilfelli eins og varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., haldi fram.  Sú einhliða ákvörðun Íslenskra sjóefna hf. að skrá innkaupin á félagið veiti félaginu engan eignarétt á hinu keypta, sem keypt sé fyrir og á kostnað Hitaveitu Suðurnesja samkvæmt áðurnefndum samningi um bráðabirgðaframleiðslu, sbr. og yfirlit um uppgjör og skýrslur frá varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskum sjóefnum hf.

Sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, hafi með samningi við sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., framselt því fyrirtæki réttindi og skyldur samkvæmt áðurnefndum samningi, dagsettum 23. júní 1999, sbr. yfirlýsingu á dómskjali nr. 57.  Með samningi dagsettum 11. október 1999 hafi sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., þannig keypt saltverksmiðjuna af Hitaveitu Suðunesja ásamt öllum réttindum og skyldum með vitund, vilja og samþykki varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf.  Ljóst sé því að allt það viðhald, endurbætur, áhöld og tækjakaup og jafnframt allt hráefni og afurðir sem var eign sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, samkvæmt áðurnefndum samningum sé nú eign sóknaraðila, Nordam Investments Ltd.

Af öllu framangreindu leiði að allt viðhald, endurbætur, áhöld og tækjakaup, lager, hráefni og fullunnar afurðir á því tímabili sem bráðbirgðaframleiðslan átti sér stað, eða frá 23. júní 1999 til 22. nóvember 1999, hafi verið eign Hitaveitu Suðurnesja, en sú eign hafi síðan verið framseld sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., og sé varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskum sjóefnum hf., með öllu óviðkomandi í eignarréttarlegum skilningi og geti því ekki undir neinum kringumstæðum staðið til fullnustu skuldbindinga þess félags án samþykkis réttmætra eigenda.

Ljóst megi vera af því sem að framan greinir að skilyrðum 1. mgr. 36. gr. og l. mgr. 37. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 sé ekki fullnægt, þ.e. að gerðþoli hafi bent á eignir sínar til tryggingar hugsanlegri skuld gerðarbeiðanda.  Leiði það til þess að ógilda verði aðfarargerðir sýslumannsins í Keflavík frá 12. október sl., nr. 034-2000-02382 og nr. 034-2000-02383.  Þá séu aðfarargerðirnar ranglega bókaðar og þar sagt að aðfararheimild byggist á dómi, en svo sé ekki.  Þá sé ljóst að vottun gerðanna sé ábótavant.  Telja verði að þessar röngu bókanir valdi einar og sér ógildingu aðfarargerðanna.

Það sem veki sérstaka eftirtekt í máli þessu sé samstarf varnaraðilanna við innheimtu á meintri kröfu varnaraðila, E.P. verks ehf., á hendur varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskum sjóefnum hf.  Ljóst sé að E.P. verk ehf. geri af einhverri óskiljanlegri ástæðu verksamning við Íslensk sjóefni hf. um gangsetningu saltverksmiðjunnar, vitandi það að Íslensk sjóefni hf. er ekki eigandi verksmiðjunnar.  Þegar varnaraðila, E.P. verki ehf., verði ljóst að ágreiningur sé uppi milli Íslenskra sjóefna hf. og Nordam Investments Ltd., sem leiði að lokum til riftunar á hlutabréfakaupum Nordam Investments Ltd. í Íslenskum sjóefnum hf., sé gripið til þess ráðs að reyna að tryggja viðskiptakröfu E.P. verks ehf. með eignum sóknaraðila.  Eins og sjá megi af gögnum málsins séu forsvarsmenn varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., reiðubúnir að aðstoða þá í þeirri ætlan.  Hér verði jafnframt að líta til þess að varnaraðili, E.P. verk ehf., sé eða hafi a.m.k. verið hluthafi í Íslenskum sjóefnum hf. og geti því með engu móti talist hafa verið í góðri trú í málinu.  Telji Íslensk sjóefni hf. sig raunverulega eiga það lausafé, muni, hráefni og afurðir sem hér um ræðir væri rétta leiðin sennilega sú að félagið höfðaði mál á hendur sóknaraðilum þessa máls til þess að fá viðurkenningu á eignarétti sínum og vörslur eignanna.  Íslensk sjóefni hf. hafi ekki gert neinn reka að því að fá hugsanlegan rétt sinn viðurkenndan.  Ljóst sé að varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., sé með yfirlýsingu búinn að framselja sóknaraðila, Nordam Investments Ltd, öll réttindi og skyldur samkvæmt samningi með kauprétti, dagsettum 20. desember 1996, samkvæmt yfirlýsingu, sbr. dómskjal nr. 42.  Það að varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., byggi rétt sinn á ákvæði 5.3. í leigusamningi með kauprétti, dagsettum 10. desember 1996, gangi ekki þar sem samningurinn í heild sinni með öllum réttindum og skyldum hafi verið framseldur og honum afsalað til sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., án nokkurs fyrirvara um að undanskilja eigi einhverja eign við framsalið.  Þetta viðurkenni varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., reyndar á dómskjali nr. 15.

Fari svo að eignaréttur Íslenskra sjóefna hf. verði viðurkenndur kæmi að sjálfsögðu á móti fjárkrafa á hendur félaginu frá sóknaraðila og skuldajöfnun yrði beitt.  Sé af þeim sökum tekið undir varakröfu sóknaraðila, Nordam Investments Ltd.

Til þess að undirstrika hve sérstakur málatilbúnaður varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., er sé einnig vakin athygli á því að í samningi um bráðabirgðaframleiðsluna, sem er dagsettur 23. júní 1999, hafi varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., framselt allar tekjur af framleiðslunni til sóknaraðila fyrir meðalgöngu Hitaveitu Suðurnesja.  Þann 17. maí 2000 hafi varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., síðan veðsett allt hráefni og fullunna vöru til Landsbanka Íslands hf., sbr. dómskjal nr. 34.  Í október 2000 hafi varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., nýtt þetta sama hráefni og afurðir sem andlag aðfarargerða.

Sönnunarbyrðin fyrir því að allt hið fjárnumda sé eign varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., hvíli á varnaraðilum máls þessa.  Slík sönnum hafi ekki tekist og vart að tilraun hafi verið gerð til slíks.  Varakrafan sé byggð á sömu rökum og reifuð hafa verið að framan um aðalkröfu.

Ítrekuð sé tilvísun til frekari stuðnings kröfum sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, til greinargerðar sóknaraðila, Nordam lnvestments Ltd., og til framlagðra gagna í málinu.

Um lagarök vísar sóknaraðili fyrir meðalgöngu til meginreglna laga um aðför, meginreglna kröfu- og samningaréttar, auk meginreglna eignaréttarins um eignarétt og vörslur eigna og tilheyrslu.  Kröfu um málskostnað byggir sóknaraðili fyrir meðalgöngu á 130. gr., sbr. 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög um aðför nr. 90/1989.

Málavextir, rök og heimildir varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er á það bent að hann geri hvorki né hafi gert neinn ágreining um að sóknaraðili sé eigandi fasteignarinnar að Vitabraut 1, Höfnum.  Með hinum umdeildu aðfarargerðum hafi ekki verið gert fjárnám í neinni fasteign, aðeins lausafjármunum í eigu varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf.  Hafi svo verið gert samkvæmt ábendingum forsvarsmanns hans í samræmi við 1. mgr. 39. gr. aðfararlaga, sem hafi verið skylt að segja satt og rétt frá öllu er sýslumaður krafði hann svara um og máli skipti um framgang gerðarinnar, sbr. 5. mgr. 25. gr. aðfararlaga.  Fjárnámin hafi síðan farið fram í samræmi við 51. gr. aðfararlaga, sbr. dskj. 5, í nákvæmlega tilgreindum lausafjármunum sem flestir séu staðsettir á athafnasvæði sóknaraðila, en aðrir sem eru sérstaklega tilgreindir í endurriti aðfarargerðarinnar séu í vörslum forsvarsmanns varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf.

Sóknaraðili hafi áður blandað sér í mál milli varnaraðila og gerðarþola vegna vanefnda gerðarþola á skuldbindingum við varnaraðila tengdri alhliða verktakastarfsemi varnaraðila á tímabilinu eftir 3. desember 1999 fram til maí 2000 við endurbætur og gangsetningu Saltverksmiðjunnar á Reykjanesi, en við það verkefni hafi varnaraðili bæði lagt fram efni, varahluti og vinnu í samræmi við verksamning, dagsettan 3. desember 1999.  Þessi afskipti sóknaraðila komi fram í máli dómsins nr. A-70/2000, sbr. dskj. 6.  Ýmislegt í þeim málatilbúnaði sóknarðila gangi nú aftur í þessu máli.  Í nefndu máli hafi allar kröfur varnaraðila verið teknar til greina, þrátt fyrir eindregin mótmæli sóknaraðila, þ.m.t. að þar taldar eignir væru orðinn hluti fasteignarinnar.  Þegar að vörslusviptingu þeirra eigna kom hafi engar athugasemdir verið gerðar við það af hálfu sóknarðila, sbr. dskj. 10 og 11.

Allar þær fjárskuldbindingar varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., sem séu grundvöllur aðfarargerðanna hafi stofnast á grundvelli nefnds verksamnings frá 3. desember 1999.  Varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf. hafi verið viðsemjandi varnaraðila og ekkert réttarsamband vegna þessa hafi verið milli varnaraðila og sóknaraðila.  Af málatilbúnaði sóknaraðila verði ráðið að gerðarþoli hafi mátt og átt að skuldbinda hann beint gagnvart þeim aðilum sem tóku að sér verk, svo sem varnaraðili, við standsetningu verksmiðju sóknaraðila.  Það sé því löngu kominn tími til þess sóknaraðili axli ábyrgð á þeim skuldbindingum sem framkvæmdaraðili hans, varnaraðili fyrir meðalgöngu og forsvarsmaður hans, stofnaði til gagnvart varnaraðila.  Ekki gangi saman hjá sóknarðila að halda því fram að hann sé eigandi alls þess sem varnaraðili lagði til, nema vera þá jafnframt skyldugur til að greiða fullt verð fyrir til varnaraðila.  Sé löngu kominn tími til þess eins og látið hafi verið liggja að sumarið 2000.

Er kyrrsetningarbeiðni varnaraðila var fyrst tekin fyrir, 13. júlí 2000, hafi verið við hana af hálfu varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., lögmaður sóknaraðila.  Hafi hann þá lýst því yfir að ekki væri unnt að benda á neitt andlag til kyrrsetningar þar sem þáverandi framkvæmdastjóri varnaraðila fyrir meðalgöngu hefði engin bókhaldsgögn eða yfirlit um fjárhagsstöðu varnaraðila fyrir meðalgöngu.  Kyrrsetning hafi síðan farið fram 23. ágúst 2000 eins og fram komi á dskj. 2 og hafi hún verið staðfest með réttarsátt, sbr. dskj. 3.  Við hinar umdeildu aðfarargerðir hafi forsvarsmaður varnaraðila fyrir meðalgöngu mætt eins og áður segir og bent á þær eignir sem fjárnumdar voru.  Byggist sú ábending á bókhaldsgögnum varnaraðila fyrir meðalgöngu og hafi sóknaraðili hvorki fært fram gögn né gild rök fyrir því að hann sé eigandi þeirra eigna.  Hvorki þeirra sem staðsettar eru á athafnasvæði hans né annars staðar.  Í þessu sambandi gangi aftur þau rök sem sóknarðili byggði á í fyrra dómsmáli vegna innsetningar að “meðal annars margir hlutir” hafi verið tengdir “við fasteign verksmiðjunnar, eins og t.d. miðstöðvarkerfi og lokar.”  Þessu sé eindregið mótmælt sem röngu.  Hitablásarar og það sem þeim fylgdi og innsetningargerðin náði til hafi varnaraðili þegar fengið í sínar vörslur svo sem áður segir og þegar farið var á athafnasvæðið með fulltrúa sýslumanns í framhaldi af fjárnámsgerðunum 12. október 2000 til þess að taka hið fjárnumda í vörslur varnaraðila hafi lokar verið þar í kössum í tuga- ef ekki hundraðavís.  Hafi  sýslumaður frestað vörslusviptingu vegna andmæla sóknaraðila, en jafnframt lagt ríkt á við hann að hrófla ekki við hinu fjárnumda, þannig að ganga mætti að því síðar og réttindum varnaraðila yrði ekki raskað.  Sóknaraðili geti ekki borið því við nú að þessir hlutir hafi verið tengdir verksmiðjunni.

Í öllu falli haldi sóknaraðili því ekki fram að allir hinir fjárnumdu hlutir hafi verið tengdir verksmiðjunni.  Aðra verði hann að sjálfsögðu að láta af hendi, en hvað þá varðar verði að reyna á við vörslusviptingu eða nauðungarsölu, enda sé fjárnám í öllum hinum fjárnumdu hlutum í eigu gerðarþola að fullu gilt.  Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á hið gagnstæða.  Í þessu sambandi sé þó lögð áhersla á að því fari fjarri að allir hinir fjárnumdu munir hafi verið öðrum tengdir og séu aðrir því sannkallaðir lausafjármunir.

Því sé sérstaklega og eindregið mótmælt að sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, eða sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., hafi verið eða séu nú eigendur hinna fjárnumdu muna.  Sé í því sambandi t.a.m. vísað til greinargerðar á dskj. 15 og gagna sem þar er vísað til. Hér skuli heldur ekki kveðið fastar að orði en svo að telja verði ósæmilegt af hálfu sóknaraðila að halda því fram að hann sé réttur og löglegur eigandi allra þeirra verðmæta sem varnaraðili hefur lagt fram til að uppfylla þá gangsetningaráætlun verksmiðjunnar sem sammæli var um milli sóknaraðila og varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., og varnaraðili hefur ekki fengið greidd nema að hluta.

Varnaraðili viti ekki til þess að hann geti gert sóknaraðila reikning fyrir þeim verðmætum sem hann afhenti varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskum sjóefnum hf.  Formælendur sóknaraðila hafi hins vegar haft uppi fögur orð um greiðslur til varnaraðila sem stóðust ekki, sbr. samantekt varnaraðila.  Varnaraðili sé hins vegar hvenær sem er tilbúinn til að taka við greiðslu úr hendi sóknaraðila fyrir þau verðmæti sem eru tilefni máls þessa, en sóknaraðili vilji slá eign sinni á án þess að varnaraðili fái réttmætt endurgjald fyrir.

Nauðsynlegt sé að varnaraðili nái fram rétti sínum og sóknaraðili komist ekki áfram upp með að níðast á þeim rétti á óbilgjarnan og óvandaðan hátt með því að reyna að sölsa undir sig annarra eigur og það endurgjaldslaust.

Kröfur um málskostnað og álag á málskostnað styður varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr., a og c-liði 1. mgr. og 2. mgr. 131. gr. sömu laga, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna, komi til framlagningar málskostnaðarreiknings, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989.

 

Málavextir, rök og heimildir varnaraðila fyrir meðalgöngu

Varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., bendir á að mikið magn skjala sé komið fram í máli þessu.  Við athugun þegar fram lagðra gagna virðist ljóst að stór hluti þeirra koma máli þessu ekki við, þó svo að einstök skjöl varði viðskipti og/eða samskipti málsaðila.  Varnaraðili fyrir meðalgöngu leggi þó fram nokkurt magn skjala, þar sem skorað hafi verið á hann að hálfu sóknaraðila að sanna eignarétt varnaraðila fyrir meðalgöngu varðandi mál þetta.

Málið varði eignarétt varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., og heimildir þess félags til ráðstöfunar og umráða á eignum sínum, aðallega lausafé.  Því verði að mestu fjallað um uppruna lausafár félagsins og annarra eigna auk þess sem ekki verði komist hjá því að drepa á nokkur atriði er fram koma í málatilbúnaði beggja sóknaraðila.

Til glöggvunar verði fyrst raktar nokkrar tímasetningar og atburðir í samskiptum aðila sem skipti miklu máli í umræðu um eignarétt Íslenskra sjóefna hf.

1.  Árið 1994 hafi Hitaveita Suðurnesja eignast allar eignir er tilheyri og kallað hefur verið ýmist Sjóefnavinnslan eða Saltverksmiðjan á Reykjanesi.  Eignarhald Hitaveitu Suðurnesja muni hafa myndast með: a) Kaupum Hitaveitu Suðurnesja á lausafé og hugsanlegum réttindum tengdum saltvinnslu á Reykjanesi af þrotabúi Íslenska saltfélagsins hf. skv. samningi dagsettum 27. maí, 1994: b) Kaupum Hitaveitu Suðurnesja á vélbúnaði fasteignum, mannvirkjum og fleiru er viðkom saltvinnslu á Reykjanesi af þrotabúi Saga Food Ingredients a/s í Danmörku.  Kaup þessi séu talin hafa farið fram í júní-júlí 1994.  c) Kaupum Hitaveitu Suðurnesja á öllum eignum og réttindum Sjóefnavinnslunar hf., þ.m.t. fasteignir, borholur, lagnir ásamt afnotum af landspildu á Reykjanesi.

2.  Þann 8. júlí 1994 hafi hlutafélagið Íslensk sjóefni hf. verið stofnað með það að markmiði að koma starfrækslu Saltverksmiðjunnar á að nýju.  Margir lykilstarfsmenn sem störfuðu hjá hinum gjaldþrota félögum hafi gerst stofnfélagar Íslenskra sjóefna hf.  Þann 15. júlí 1994, eftir gerð samkomulags við Hitaveitu Suðunesja, hafi Íslensk sjóefni hf. hafið starfsemi á Reykjanesi, fyrst við hreinsun verksmiðjunnar og viðhald ásamt því sem mikil vinna hafi farið í gang við markaðsstarf og markaðsleit fyrir hina einstöku afurð sem þróuð hafði verið í tíð fyrri rekstraraðila, en gangi á Íslandi almennt undir vöruheitinu eðalsalt. Markaðsstarf, þróun söluafurða og pakkninga hafi svo haldið áfram allt til ársloka 1999.  Eins og fram hafi komið hafi margir óvæntir erfiðleikar komið upp á þessu nær sex ára tímabili. Það hafi alltaf verið ljóst að til fullrar starfsemi Salverksmiðjunnar þyrftu öflugir fjárfestar að koma til.  Íslensk sjóefni hf. hafi unnið að því allan þennan þróunartíma jöfnum höndum að markaðssetja saltafurðirnar, afla félaginu fárfesta og sjá um lágmarksviðhald sjálfrar verksmiðjunnar.

3.  Þann 20. desember 1996 hafi verið gerður leigusamningur með kauprétti milli Hitaveitu Suðurnesja og Íslenskra sjóefna hf., sbr. dómskjöl nr. 40 og 74. Íslenskum sjóefnum hf. hafi strax við upphaf starfsemi, þ.e. í júlí 1994, verið kynnt rækilega sú ákvörðun Hitaveitu Suðurnesja að taka ekki þátt í rekstri saltvinnslu hvorki með beinum né óbeinum hætti.  Fullyrðing sóknaraðila fyrir meðalgöngu um að ákvörðun þessa sóknaraðila hafi verið tekin 1996 og tengd kaupleigusamningi milli Íslenskra sjóefna hf. og Hitaveitu Suðurnesja, sbr. dómskjal 54, sé röng.

4.  Þann 7. september 1999 hafi Íslensk sjóefni hf. og sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., undirritað samning um kaup hins síðarnefnda á nýju hlutafé í Íslenskum sjóefnum hf. að nafnverði 20.000.000 króna fyrir eina milljón bandaríkjadala.  Við þessi hlutafjárkaup hafi sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., eignast rúm 66% heildarhlutafjár í Íslenskum sjóefnum hf.  Staðfestingu þessara kaupa sé að finna á dómskjali nr. 27, en í því skjali staðfesti sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., jafnframt í 4. mgr. þeirrar yfirlýsingar að hann hyggist greiða inn hlutafé í samræmi við samkomulag aðila, sem ætlað sé til endurbóta og reksturs á Saltverksmiðjunni á Reykjanesi.  Í þessari málsgrein megi ótvírætt sjá að sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., hafi ráðið varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., til þess að annast og framkvæma endurbætur á saltverksmiðjunni og sjá um rekstur hennar.  Einnig sé í þessu tilviki vísað dómskjals nr. 75.

5.  Þann 23. júní 1999 hafi Íslensk sjóefni hf. og Hitaveita Suðurnesja undirritað samning vegna áætlaðrar framleiðslu Íslenskra sjóefna hf. á 150 tonnum af heilsusalti. Framleiðsla þessi hafi í málsskjölum gjarnan verið nefnd bráðabirgðaframleiðsla.  Tekið skuli skýrt fram að þegar undirbúningur að verkefni þessu um bráðabirgða­framleiðslu hófst hafi sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., ekki verið kominn til sögunnar sem aðili að Íslenskum sjóefnum og/eða saltvinnslu á Íslandi.  Þá beri að undirstrika að Íslensk sjóefni hf. og væntanlegur erlendur kaupandi, Tifomo International APS, hafi leitað til Hitaveitu Suðurnesja eingöngu um að Hitaveita Suðurnesja lánaði fjármagn til verkefnisins. Þetta sé staðfest í gögnum varnaraðila fyrir meðalgöngu til Hitaveitu Suðurnesja, en í niðurlagi bréfs varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., dagsetts 5. júní 1999, komi glögglega fram að félagið leggi fram beiðni um fjármögnun bráðabirgðaframleiðslu.  Þó svo að pöntun Tifomo International APS hafi hljóðað upp á 150 tonn komi einnig fram í fyrrgreindu bréfi Íslenskra sjóefna hf., dagsettu 5. júní 1999, að í samstarfi aðila, þ.e. Íslenskra sjóefna hf. og Tifomo International APS sé „fullt samkomulag um að framleiðsla verksmiðjunnar geti skiptst nokkuð að jöfnu milli Evrópu og USA markaðar.”  Þetta undirstriki yfirráð og heimildir Íslenskra sjóefna hf. til að ráðstafa bráðabirgðaframleiðslu sinni.

Í bréfi forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, dagsettu 17. október, 2000, staðfesti forstjórinn að fram hafi komið ósk um að Hitaveita Suðurnesja fjármagnaði viðkomandi framleiðslu.  Aldrei hafi verið sett nein skilyrði gagnvart eignarhaldi, enda hafi aldrei verið rætt um annað en framleiðsla þessi og kostnaður við hana yrði á ábyrgð Íslenskra sjóefna hf.  Framsal tekna, þ.e. söluandvirðis þessarar bráðabirgðaframleiðslu komi eignaréttinum ekki við.  Vísað sé til dómskjala nr. 59, 63 og 64, er varði m.a. innkaup vegna þessarar bráðabirgðaframleiðslu.  Þá sé vísað í dómskjal nr. 65, sýnishorn útflutningsskjala varðandi útflutning hluta hinnar svokölluðu bráðabirgðaframleiðu, sem sé tollafgreiðsla Tollstjórans í Reykjavík ásamt afriti vörureiknings.

Nákvæm uppgjör Íslenskra sjóefna hf. til Hitaveitu Suðurnesja, sbr. dómskjal nr. 56, ásamt ljósriti kostnaðarreikninga er varða fyrrgreinda framleiðslu hafi verið gerð til þess að sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, gæti ávallt fylgst með að þeim fjármunum sem þessi sóknaraðili lánaði vegna þessa verkefnis væri til þess varið, en ekki í önnur málefni er varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., vann að á sama tíma.

Hinni nýju skýringu sóknaraðila um eignarhald á lausafé og framleiðslu tengt fyrrgreindum samningi Íslenskra sjóefna hf. og Hitaveitu Suðurnesja sem er dagsettur 23. júní 1999, sé algjörlega vísað á bug.

6.  Þann 11. október 1999 hafi sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., keypt eignir og búnað saltverksmiðjunar á Reykjanesi af Hitaveitu Suðurnesja, en Íslensk sjóefni hf. höfðu þá framselt sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., leigusamning með kauprétti sem Íslensk sjóefni hf. höfðu gert við Hitaveitu Suðurnesja, dags. 20. desember 1996.

Þegar hér var komið sögu, þ.e. eftir kaup sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., á saltverksmiðjunni sjálfri, hafi fulltrúar Íslenskra sjóefna hf. og Nordam Investments Ltd. hafið viðræður um sameiningu félaganna, þ.e. uppkaup Nordam Investments Ltd. á öllu hlutafé í Íslenskum sjóefnum hf. og/eða stofnun nýs eignarhaldfélags sem yfirtæki allar eignir er snertu saltvinnslu á Íslandi og dreifingu saltsins víðs vegar um heim.  Fulltrúar Íslenskra sjóefna hf. hafi á þessum tíma ekki áttað sig á því að þá þegar í þeim viðræðum hafi af hálfu sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., verið uppi blekkingar og svik í þeim eina tilgangi að komast yfir eignir og samninga Íslenskra sjóefna hf. sbr. yfirlýsingar á dómskjali nr. 15.

Af hálfu varnaraðila fyrir meðalgöngu er á því byggt að félagið hafi starfað sem sjálfstætt hlutafélag frá stofnun þess þann 8. júlí 1994.  Frá upphafi hafi félagið haft aðsetur í Saltverksmiðjunni á Reykjanesi, fyrstu árin í frírri húsaleigu samkvæmt samkomulagi við Hitaveitu Suðurnesja og á síðari stigum með ákvæðum um leigugreiðslur samkvæmt ákvæðum í samningi dagsettum 20. desember 1996.  Frá stofnun Íslenskra sjóefna hf. hafi félagið eignast til nota við starfsemi sína margs konar lausafé og búnað sem ýmist hafi verið færður í bókhaldi félagsins á rekstrarreikninga og/eða á efnahagsreikninga.  Þeir munir sem færðir hafi verið á efnahagsreikninga í tímans rás komi fram í ársreikningum félagsins í gegnum fyrningarskýrslur.  Aldrei hafi verið ágreiningur um eignir á Reykjanesi, þ.e. eignarétt hvers aðila um sig fyrr en á sl. ári er sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., vildi slá eign sinni á nánast allar eignir varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf.  Meiri furðu veki yfirlýsingar sóknaraðila, Hitaveitu Suðurnesja, sbr. dómskjal 54, og ekki síður bréf forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, dagsett 17. okt. 2000, þar sem sóknaraðili fyrir meðalgöngu, Hitaveita Suðurnesja, reyni að færa rök fyrir eign sinni á lausafé Íslenskra sjóefna hf. í skjóli þess að Hitaveita Suðurnesja hafi lánað fé til framleiðslu Íslenskra sjóefna hf.

Í upptalningu varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., samkvæmt lista sem ber heitið:  „Lausafé í eigu Íslenskra sjóefna hf. - Áhalda og tækjalisti,” sem hafi einnig verið málsgagn í aðfarargerð nr. 034-2000-02382 hjá sýslumanninum í Keflavík og sé eitt megininntak í máli þessu, sbr. dómskjöl nr. 5 og 59, sé að finna einstakar eignir sem Íslensk sjóefni hf keyptu til starfsemi sinnar á tímabilinu 12. september 1994 til og með maí 2000. Allar viðkomandi eignir hafi verið keyptar og reikningsfærðar hjá Íslenskum sjóefnum hf. burtséð frá því hvernig viðkomandi kaup voru fjármögnuð.  Fjármögnum einstakra kaupa á lausafé eða búnaði sé að finna í bókahaldi félagsins, bæði einstök kaup svo og heildarsummur.  Fram séu lögð í dóminn ljósrit frumgagna allra reikninga fyrir árin 1999 og 2000, dómskjal nr. 59 eins og fyrr er greint.  Þess skuli getið að fylgiskjöl áranna 1994 til 1998 séu enn í “gíslingu” sóknaraðila, Nordam Investments Ltd., sem hafi á síðastliðnu sumri fjarlægt öll gögn varnaraðila fyrir meðalgöngu sem staðsett voru á Reykjanesi og hafi enn ekki skilað þeim, þótt þráfaldlega hafi verið leitað eftir.

Sjá megi í skýringu 3 að sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., hafi keypt hlutafé í Íslenskum sjóefnum hf. með samningi, dagsettum 7. september.  Á núvirði láti nærri að sú fjárhæð sé 170 milljónir íslenskra króna.  Röskum mánuði síðar hafi sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., eftir samráð við varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., keypt sjálfa verksmiðjuna af Hitaveitu Suðurnesja fyrir 1.277.133 bandaríkjadala eins og fram komi á dómskjali nr. 25.  Ljóst hljóti að vera að sóknaraðili, Nordam Investments Ltd., hafi verið að kaupa einhver verðmæti af Íslenskum sjóefnum hf. með samningnum frá 7. september 1999.

 

Með framsali varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., samkvæmt yfirlýsingu, dagsettri 11. október 1999, á hinum margumrædda leigusamningi með kauprétti, dagsettum 20. desember 1996, hafi varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf., eingöngu framselt þau réttindi sem félagið hafði samið um við sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, og skjalfest séu í viðkomandi samningi.  Samningur þessi kveði m.a. á um fast kaupverð, allt fylgifé, hugverkaréttindi, orkukaup og fleira með gildistíma til 31. desember árið 2017.  Í fylgiskjali I með samningnum sé nákvæm upptalning á öllu því lausafé, mannvirkjum og búnaði sem fylgir Saltverksmiðjunni, dómskjal nr. 40, frá hnífapörum til mannvirkja, frá hendi sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja.  Framsal varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., takmarkist eingöngu við þau réttindi sem samningur þessi greinir, en ekki eignir sem Íslensk sjóefni hf. eignuðust fyrir og/eða eftir framsal og samning sinn við sóknaraðila, Nordam Investments Ltd.  Íslensk sjóefni hf. hafi keypt margs konar búnað efir samning sinn við Nordam Investments Ltd. og því megi spyrja hvort þeir haldi að þeir eigi allar eignir Íslenskra sjóefna hf. til allrar framtíðar.  Jafnframt veki furðu að sóknaraðili vilji slá eign sinni á lausafé og aðrar eignir er félagið eignaðist fyrir samning þess við sóknaraðila, Nordam Investments Ltd.

Öllum kröfum sóknaraðila um eignarhald í löglegum og skráðum eignum varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf., sé vísað á bug.

 

III.

Í upphafi skal þess getið að aðild til meðalgöngu sóknar- og varnarmegin er talin heimil í máli þessu með vísan til heimildar í 20. og 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Einnig er rétt að fjalla í upphafi um þær kröfur sóknaraðila er varða ógildingar fjárnmámanna vegna formskilyrða.

Við fyrirtöku sýslumannsins í Keflavík á aðfararbeiðnnum gerðarbeiðanda var lagt fram skjal sem ranglega var nefnt dómur, en var í raun sátt gerð fyrir Héraðsdómi Reykjaness milli gerðarbeiðanda og gerðarþola og myndaði hún grundvöll fjárnámanna.  Hefur sóknaraðili krafist þess að fjárnámin verði felld úr gildi vegna þessarar röngu bókunar. Ljóst er að á grundvelli réttarsáttarinnar sem lögð var fram við fyrirtöku aðfarargerðanna hjá sýslumanni var fulltrúa sýslumanns heimilt að framkvæma umrædd fjárnám.  Sú ranga bókun sem að framan er vitnað til þykir því þegar af þeirri ástæðu ekki valda ógildingu fjárnámsgerðanna.

Sóknaraðili hefur einnig krafist ógildingu fjárnámanna á þeim grundvelli að engir vottar hafi verið að aðfarargerðunum.  Með vísan í 34. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og með vísan til þess að mætt var fyrir gerðarþola við fyrirtökurnar er kröfu um ógildingu gerðanna, vegna skorts á vottum, vísað á bug.

 

Á árinu 1994 keypti Hitaveita Suðurnesja eignir þrotabús Íslenska saltfélagsins hf. á Reykjanesi.  Sama ár keypti hitaveitan af Sjóefnavinnslunni hf. fasteignina Vitabraut 1, Höfnum, sem þá var húsnæði fyrir saltverksmiðju Sjóefnavinnslunnar.  Árið 1994 gerði hitaveitan einnig samkomulag við Íslensk sjóefni ehf., hér eftir nefnt Íssjó, sem fólst í því að Íssjó var falið að sjá um viðhald saltverksmiðjunnar að Vitabraut 1, Höfnum, Reykjanesbæ.

Þann 20. desember 1996 undirrita Hitaveita Suðurnesja og Íssjó leigusamning um umrædda verksmiðju með kauprétti, en óumdeilt er í málinu að af kaupum Íssjó samkvæmt þeim samningi varð þó ekki.  Hið leigða skv. grein 5.1. í samningnum var saltverksmiðjan ásamt fylgifé samkvæmt nákvæmri upptalningu á fylgiskjali 1, þ.m.t. öll tæki og búnaður sem tilheyrðu saltverksmiðjunni, svo og öll hugverkaréttindi.  Í grein 5.3. í samningnum er eftirfarandi ákvæði: „Þurfi Íssjó að reisa mannvirki á svæðinu eða gera breytingar á núverandi mannvirkjum eða búnaði skal slíkt gert með samþykki HS, en auk þess skal Íssjó á eigin kostnað afla nauðsynlegra opinberra leyfa. Sama gildir ef bæta þarf við nýjum búnaði. HS samþykkir að hafna ekki slíkum beiðnum án gildra raka og mun leitast við að aðstoða Íssjó við að afla opinberra leyfa. Íssjó hefur fullt eignarhald á öllum slíkum viðbótum og hefur heimild til að fjarlægja þær ef samningur þessi fellur úr gildi. Íssjó á fullan eignarétt á birgðum, fullunnum vörum, tækjum og öðrum búnaði sem fyrirtækið notar í rekstri sínum og sem félagið hefur sjálft keypt.” 

Í grein 5.4. í samningnum segir að falli samningurinn úr gildi beri Íssjó að koma mannvirkjum og búnaði í sama horf og var við upphaf leigutíma, nema um annað verði samið. Slíkar endurbætur skuli þó skoða með hliðsjón af eðlilegu sliti vegna notkunar og aldurs.

Með samningi 23. júní 1999 sömdu Hitaveita Suðurnesja, þáverandi eigandi saltverksmiðjunnar, og Íssjó um að Íssjó framleiddi salt í verksmiðju hitaveitunnar og má ráða af samkomulaginu að megintilgangur framleiðslunnar hafi verið sá að glata ekki þeirri markaðsvinnu sem unnin hafði verið í tenglsum við markaðssetningu afurða saltverksmiðjunnar.  Í grein 2 í samningnum kemur fram að framleiða skyldi 150 tonn af heilsusalti og átti Íssjó að annast um framleiðslu saltsins, en hitaveitan átti að fjármanga hana í samræmi við framleiðsluáætlun.  Í grein 3 í samningnum kemur fram að Íssjó bar að upplýsa hitaveituna a.m.k. tvisvar í viku um framgang verksins, t.d. um erfiðleika í framleiðslu, bilanir eða ef einstaka kostnaðarliðir breyttust.  Samkvæmt grein 5 í samningnum framseldi Íssjó hitaveitunni allar tekjur sem sköpuðust vegna fjármögnunar hitaveitunnar á framleiðslu saltsins.  Óumdeilt er í málinu að kostnaður vegna framleiðslu þessarar fór nokkuð fram úr áætlun og greiddi hitaveitan þann kostnað. Einnig er óumdeilt að framleiðslan varð ekki 150 tonn heldur 115 tonn.

Með samningi frá nóvember 1999 kaupir Nordam Investments Ltd, hér eftir nefnt Nordam, hlutafé í Íssjó fyrir 2 milljónir bandaríkjadala og eignast félagið þar með ráðandi hlut í Íssjó. Óumdeilt er að aðeins lítill hluti þess fjár var greiddur og er upplýst að Nordam hefur nú rift hlutafjárkaupum þessum.

Þann 11. október 1999 undirritaði Nordam samning um kaup saltverksmiðjunnar af Hitaveitu Suðurnesja og undirritaði Íssjó þann sama dag yfirlýsingu þar sem Íssjó framselur öll réttindi og skyldur sínar skv. samningnum frá 20. desember 1996 til Nordam en Íssjó var þá í meirihlutaeigu Nordam. Óumdeilt er að við undirritun þeirrar yfirlýsingar voru ekki gerðar neinar sérstakar athugasemdir af hálfu Íssjó eða að undanskilin verðmæti sem væru ekki framseld í hendur Nordam skv. samningnum, en af gögnum málsins má ráða að lausafé það sem talið er upp á dskj. nr. 3 og fjárnám var gert í, eru m.a. ýmis verkfæri og vörur til endurnýjunar verksmiðjunnar og margt annað lausafé sem ætla má að nauðsynlegt væri fyrir nýjan eiganda að hafa til reksturs verksmiðjunnar.  Kom fram við flutning málsins að Íssjó var áfram falið af hálfu Nordam að sjá um gangsetningaráætlun verksmiðjunnar fyrir Nordam.

Af gögnum málsins er ljóst að fljótlega hætta fjármunir að berast til Íssjó frá Nordam og að endingu riftir Nordam hlutafjárkaupum sínum í Íssjó eins og áður sagði. Þá hafði Íssjó þegar látið framkvæma ákveðnar endurbætur á saltverksmiðjunni og m.a. fengið til verksins varnaraðila máls þessa, E.P verk ehf., og gert við hann verksamning sem fól í sér vinnu í samræmi við gangsetningaráætlun.

 

Af þeim samningum sem að framan er vitnað til verður eigi annað ráðið en Íssjó hafi með yfirlýsingu sinni í tengslum við samning Hitaveitu Suðurnesja og Nordam frá 11. október 1999, framselt í hendur sóknaraðila máls þessa, Nordam, öll réttindi sín skv. samningi sínum við hitaveituna frá 20. desember 1996, þar á meðal réttindi skv. grein 5.3 í nefndum samningi sem áður hefur verið vitnað til og á þetta, skv. orðalagi greinarinnar, m.a. beint við um birgðir salts og lager. Síðari samskipti Íssjó við Nordam þykja benda til þess að Íssjó hafi sem félag í meirihlutaeigu Nordam og gegn greiðslum frá þeim unnið og látið vinna við gangsetningu verksmiðjunnar, en þó í eigin nafni gagnvart viðsemjendum sínum.

Samkvæmt gögnum málsins virðast töluverðar endurbætur og lagfæringar hafa farið fram í tengslum við saltframleiðslu Íssjó fyrir reikning hitaveitunnar vegna samnings þeirra frá 23 júní 1999.  Af gögnum málsins má ráða að hitaveitan greiddi beint fyrir þessar lagfæringar og vísast þar m.a. til dómskjals nr. 36, en þar óskar fyrrum forstjóri Íssjó eftir því að kostnaður vegna vinnu frá tiltekinni vélsmiðju vegna tveggja saltkara samtals að fjárhæð 1.643.400 krónur verði greiddur inn á reikning Íssjó.  Af þessu má ráða að hitaveitan hafi lagt fjármuni á reikning Íssjó, en Íssjó hafi síðan greitt kostnaðarreikninga fyrir þá fjármuni.  Skiptir því ekki máli þótt reikningar fyrir vörum eða lausafé séu á nafni Íssjó, greiðslur hafi allt að einu komið frá hitaveitunni.  Það er óumdeilt að þegar umræddar lagfæringar fóru fram var Hitaveita Suðurnesja enn eigandi saltverksmiðjunnar, en frá henni leiðir sóknaraðili rétt sinn. Þykir því eigi óvarlegt að áætla að þær breytingar og lagfæringar og þær vörur sem greitt var fyrir af hitaveitunni væru eign hennar, enda var samningur hitaveitunnar og Íssjó um framleiðslu saltsins óháður fyrri samningi aðila. Má af gögnum málsins ráða að aðgerðir hitaveitunnar umrætt sinn hafi verið framkvæmdar með það að markmiði að liðka fyrir sölu verksmiðjunnar og því óeðlilegt annað en hitaveitan ætti allar lagfæringar og viðbætur við saltverksmiðjuna.

Með hliðsjón af öllu framansögðu er það álit réttarins að varnaraðilum hafi ekki tekist að sýna fram á eignarétt varnaraðila fyrir meðalgöngu að lausafé því í vörslum sóknaraðila sem fjárnámsgerðir sýslumannsins í Keflavík frá 12. október 2000 ná til.

Ekki verður talið sannað með þeim gögnum sem fram hafa verið lögð og með þeirri sönnunarfærslu sem leyfð er skv. 83. gr. laga um aðför nr. 90/1989, að Íssjó eigi í vörslum sóknaraðila lausafé sem félagið telur sig hafa eignast eftir 11. desember 1999 og ekki var þegar framselt til sóknaraðila með samningnum frá 11. desember 1999.  Það verður heldur eigi talið sannað að umrætt lausafé hafi átt að vera eign varnaraðila fyrir meðalgöngu, óháð viðskiptum hans við Nordam, og er hitt líklegra að lausafé þetta hafi verið ætlað til verksmiðjunnar í tengslum við samstarf Íssjó og Nordam.

 

Það er því niðurstaða þessa máls að fallist er á aðalkröfu sóknaraðila og sóknaraðila fyrir meðalgöngu að felldar verði úr gildi aðfarargerðir nr. 034-2000-02382 og nr. 034-2000-02383, sem fram fóru hjá Sýslumanninum í Keflavík þann 12. október 2000 í öllu því lausafé og munum sem upp eru talin í aðfarargerðunum, að undanskilinni bifreiðinni OY-499, svo og í öllum framleiðsluvörum og hráefni, það er í eðalsalti, kryddsalti og hráefni, sem upp er talið í aðfarargerðunum þó ber að undanskilja það lausafé sem er í vörslum varnaraðila fyrir meðalgöngu og upp er talið í aðfarargerðunum, en sóknaraðili Nordam hefur hvorki sýnt fram á að hann sé réttmætur eigandi þess lausafjár né að honum beri það samkvæmt fram lögðum samningum, enda verða vörslur þess hjá varnaraðila fyrir meðalgöngu, taldar veita löglíkur fyrir eignarétti hans á því.

Með vísan til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma varnaraðila og varnaraðila fyrir meðalgöngu til að greiða sóknaraðila og sóknaraðila fyrir meðalgöngu málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Júlíus B. Georgsson, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi aðfarargerðir nr. 034-2000-02382 og nr. 034-2000-02383, sem fram fóru hjá sýslumanninum í Keflavík þann 12. október 2000 í öllu því lausafé og munum sem upp eru talin í aðfarargerðunum, að undanskilinni bifreiðinni OY-499, svo og í öllum framleiðsluvörum og hráefni, það er í eðalsalti, kryddsalti og hráefni, sem þar er upp talið þó að undanskildu því lausafé sem upp er talið í aðfarargerðunum og er í vörslum varnaraðila fyrir meðalgöngu, Íslenskra sjóefna hf.

Varnaraðili, E.P. verk ehf., greiði sóknaraðila Nordam Investments Ltd. 180.000 krónur í málskostnað og sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, 100.000 krónur í málskostnað.

Varnaraðili fyrir meðalgöngu, Íslensk sjóefni hf. greiði sóknaraðila, Nordam Investments Ltd. 100.000 krónur í málskostnað og sóknaraðila fyrir meðalgöngu, Hitaveitu Suðurnesja, 80.000 krónur í málskostnað.