Hæstiréttur íslands
Mál nr. 372/2008
Lykilorð
- Hylming
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 2. október 2008. |
|
Nr. 372/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn Páli Þórðarsyni (Jón Höskuldsson hrl.) |
Hylming. Hegningarauki.
P var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tekið við ýmsum munum til geymslu á heimili sínu þótt honum hafi verið fullkunnugt að um þýfi hafi verið að ræða. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að gagnvart broti samkvæmt ákvæðinu væri áskilnaði 243. gr. almennra hegningarlaga fullnægt um auðgunarásetning, ef sá sem í hlut ætti, hefði af ásetningi veitt öðrum manni, sem framið hefði þjófnað, liðsinni til að halda þýfi frá réttum eiganda, þótt sá fyrstnefndi hefði engan ábata haft af því. Var brot það er P var nú sakfelldur fyrir framið fyrir dóm er hann hafði hlotið 30. október 2007 og bar því að dæma honum hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þótti refsing P hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.
Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara vægustu refsingar, sem lög leyfa.
Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa föstudaginn 5. janúar 2007 tekið við til geymslu á heimili sínu að Baldursgötu 6 í Reykjavík frá X í beinu framhaldi af þjófnaðarbroti þess síðarnefnda sex veggklukkum, fjarstýrðum bensínbíl, tveimur útvarpsbíltækjum, loftverkfærum og svokallaðri bilanatölvu að verðmæti samtals um 670.000 krónur, þótt ákærða væri fullkunnugt að um þýfi væri að ræða. Í ákæru var þessi háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með ákærunni var X jafnframt sóttur til saka meðal annars fyrir þjófnaðarbrot þetta. Hann játaði sök og var honum gerð refsing fyrir brotið með hinum áfrýjaða dómi, sem ekki er til endurskoðunar fyrir Hæstarétti að því er hann varðar. Ákærði var á hinn bóginn sýknaður þar af þeim sökum, sem hann var borinn samkvæmt framansögðu.
Í skýrslu fyrir héraðsdómi lýsti ákærði atvikum varðandi ætlað brot sitt í meginatriðum á þann veg að fyrrnefndur X, sem hann væri vel kunnugur, hafi komið á heimili hans um kl. 6 að morgni 5. janúar 2007 ásamt tveimur mönnum, sem ákærði þekkti ekki. Þeir hafi verið með svarta ruslapoka, sem hafi verið fullir af „einhvers konar dóti“. Hann hafi séð hvað var í pokunum eftir að komið var með þá inn í eldhús hjá honum og hafi þeir X síðan farið í þvottahús til að ræðast við. Þar hafi sá síðastnefndi sagt ákærða að þessir munir væru illa fengnir, en fyrr hafi hann ekki vitað það. X hafi boðið ákærða peninga eða raftæki fyrir að geyma munina, en hann hafi þá beðið þann fyrrnefnda „bara í guðanna bænum að taka þessa hluti sem fyrst af heimilinu.“ Ákærði kvaðst síðan hafa farið til vinnu, en munirnir hefðu verið farnir af heimili hans þegar hann kom aftur að kvöldi þessa dags. Hann hafi haldið að X hefði fjarlægt munina, en síðar hafi komið í ljós að lögregla hafi lagt hald á þá.
Háttsemi ákærða, eins og hann lýsti henni sjálfur fyrir dómi samkvæmt framansögðu, fellur efnislega að brotalýsingu í 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga með því að hann hafi, án þess að verknaður hans varði við 244. gr. laganna, stuðlað að því að halda við afleiðingum brots annars manns gegn síðarnefnda lagaákvæðinu. Gagnvart broti sem þessu telst fullnægt áskilnaði 243. gr. almennra hegningarlaga um auðgunarásetning ef sá, sem í hlut á, hefur af ásetningi veitt öðrum manni, sem framið hefur þjófnað, liðsinni til að halda þýfi frá réttum eiganda, þótt sá fyrstnefndi hafi engan ábata átt að hafa af því. Samkvæmt þessu standa engin efni til annars en að sakfella ákærða fyrir brotið, sem honum er gefið að sök í ákæru.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann á árabilinu frá 1992 til 2007 hlotið refsidóm í sex skipti, þar af fjórum sinnum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og tvívegis fyrir brot gegn umferðarlögum, síðast 30. október 2007 fyrir ölvunarakstur, en þar var honum gerð sekt að fjárhæð 160.000 krónur og hann sviptur ökurétti í átján mánuði. Auk þessa hefur hann tvívegis gengist undir viðurlög fyrir umferðarlagabrot. Refsingu fyrir brotið, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, verður að ákveða sem hegningarauka við áðurnefndan dóm frá 30. október 2007, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, en að öðru leyti hefur sakaferill hans ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Að virtu öllu framangreindu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.
Ákærði verður dæmdur til að greiða sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Páll Þórðarson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði greiði í ríkissjóð 389.394 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur á hvoru dómstigi.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2008.
I
Málið, sem dómtekið var 5. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 13. nóvember 2007 á hendur „X, [...]kt. og heimilisfang , og Páli Þórðarsyni, kt. 100264-2429, Baldursgötu 6, Reykjavík fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík, nema annars sé getið, á tímabilinu frá 2. nóvember 2006 til 29. júlí 2007:
I. Ákærða X:
1.
Sækjandinn féll frá þessum ákærulið 5. febrúar 2008.
2.
Sækjandinn féll frá þessum ákærulið 22. janúar 2008.
3.
Þjófnað með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 5. janúar brotist inn í iðnaðarhúsnæðið að [...], rými nr. 4, í félagi við 2 aðra menn og stolið sex veggklukkum, samtals að verðmæti um 500.000 kr., fjarstýrðum bensínbíl að verðmæti um 80.000 kr., tveimur útvarpsbíltækjum af gerðunum Pioneer og JVC samtals að verðmæti um 35.000 kr., loftverkfærum að verðmæti um 40.000 kr. og bilanatölvu að verðmæti um 15.000 kr.
Telst háttsemin samkvæmt ákæruliðum I.1 3 varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
4.
Sækjandinn féll frá þessum ákærulið 22. janúar 2008.
5.
Vegna misritunar er enginn ákæruliður nr. 5.
6.
Fíkniefnabrot með því að hafa, sunnudaginn 31. desember 2006 haft í vörslum sínum 3,57 g af vímuefninu MDMA (ecstacy), sem lögreglan fann við leit.
7.
Fíkniefnabrot með því að hafa, sunnudaginn 29. júlí 2007 haft í sínum vörslum í bifreiðinni [...] í X í Reykjavík, 6.52 g af hassi og 1.33 g af amfetamíni, sem lögreglan fann við leit.
Telst háttsemin samkvæmt ákæruliðum I.6 og 7 varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985, 1980, og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
8.
Brot á umferðarlögum með því að hafa, miðvikudaginn 25. júlí ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna um götur Reykjavíkur og því óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega uns lögreglan stöðvaði akstur hans í Bankastræti.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 6, 2006.
II. Á hendur ákærða Páli fyrir hylmingu með því að hafa, föstudaginn 5. janúar 2007, í framhaldi af innbroti meðákærða X samkvæmt ákærulið I.3 tekið við til geymslu á heimili sínu að Baldursgötu 6, Reykjavík, hjá ákærða X, A, kt. [...] og B, kt. [...] öllu þýfinu samkvæmt þeim ákærulið: sex veggklukkum, samtals að verðmæti um 500.000 kr., fjarstýrðum bensínbíl að verðmæti um 80.000 kr., tveimur útvarpsbíltækjum af gerðunum Pioneer og JVC samtals að verðmæti um 35.000 kr., loftverkfærum að verðmæti um 40.000 kr. og bilanatölvu að verðmæti um 15.000 kr., þrátt fyrir að honum væri fullkunnugt að um þýfi var að ræða.
Telst þetta varða við 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, ákærði X til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga og að gerð verði upptæk 6.52 g af hassi, 1.33 g af amfetamíni og 3.57 g af MDMA samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001, sem lögreglan lagði hald á hjá ákærða X.
Í málinu krefst C, kt. [...], þess að ákærði X verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 154.120 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 31.12.2006 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags“.
Ákærði, X, hefur játað fyrir dómi að hafa framið brot þau sem hann er ákærður fyrir. Hann krefst vægustu refsingar og að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi. Þá er krafist málsvarnarlauna.
Við þingfestingu kannaðist ákærði, Páll, við að hafa tekið við þeim munum sem upp eru taldir í II. kafla ákærunnar, en ekki hafa vitað að um þýfi væri að ræða. Hann krefst sýknu en til vara vægustu refsingar. Þá er krafist málsvarnarlauna.
II
Ákærði, X, hefur játað brot þau fyrir dóminum sem hann er ákærður fyrir. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brotin, en þau eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. Hann hefur samþykkt upptökukröfuna.
Ákærði á að baki langan sakarferil, eða allt frá nóvember 1990 er hann var dæmdur í skilorðsbundið varðhald fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot. Hann var síðan dæmdur í skilorðsbundið varðhald og fangelsi þrisvar sinnum þar til hann var dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi að hluta til 1992 fyrir hegningarlagabrot. Síðan þá hefur hann verið dæmdur alls 17 sinnum í óskilorðsbundið fangelsi, síðast 2. nóvember 2006 í 60 daga fangelsi fyrir þjófnað. Þá var hann, 27. nóvember sl., dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir fíknilagabrot og 28. janúar sl. í 2 mánaða fangelsi fyrir sams konar brot og var sú refsing einnig skilorðsbundin í 2 ár, en ekki er ljóst af síðastgreinda dómnum hvort dómurinn frá 27. nóvember sl. sé dæmdur með honum. Loks var ákærði dæmdur í sekt og 3 mánaða ökuleyfissviptingu 28. nóvember sl. fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr.a umferðarlaga.
Af hálfu ákærða er krafan um vægustu refsingu, það er skilorðsbundna refsingu, byggð á því að hann hafi haldið sig frá vímuefnum frá því um mitt síðasta sumar og eigi nú von um fasta vinnu. Það sé eindreginn ásetningur hans að snúa af braut afbrota og þetta mál sé hið síðasta sem hann eigi eftir óuppgert.
Refsing ákærða nú er ákveðin 4 mánaða fangelsi. Með hliðsjón af sakferli hans er ekki mögulegt að skilorðsbinda hana. Við ákvörðunina er höfð hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem skilorðsbundnu dómarnir frá 27. nóvember 2007 og 28. janúar 2008 eru dæmdir með þessu máli, sbr. 60. gr. sömu laga. Þá ber að svipta ákærða ökurétti í 3 mánuði frá 28. febrúar 2008 að telja. Upptæk til ríkissjóðs skulu vera haldlögð fíkniefni eins og nánar greinir í ákæru. Skaðabótakröfu C er vísað frá dómi, enda hefur verið fallið frá ákærulið 1 sem krafan byggðist á. Loks verður ákærði dæmdur til að greiða 115.985 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, að tveimur þriðju hlutum, en að einum þriðja skulu þau greidd úr ríkissjóði sem helgast af því að fallið hefur verið frá upphaflegum ákæruliðum eins og rakið var.
III
Ákærði Páll bar að meðákærði X hefði komið heim til sín ásamt öðrum mönnum, sem hann þekkti ekki, mjög snemma morguns föstudaginn 5. janúar 2007 og haft meðferðis svarta ruslapoka sem hafi verið fullir af einhvers konar dóti. Ákærði kvaðst hafa boðið honum að koma inn, enda hafi hann ekki viljað að nágrannarnir yrðu varir við þetta. Hann kvaðst ekki hafa séð hvað var í pokunum fyrr en inn var komið, en þá hafi meðákærði tjáð sér að það væri illa fengið. Það hafi ákærði ekki vitað er hann bauð meðákærða og mönnunum að koma inn. Meðákærði hafi boðið honum fé og raftæki fyrir að geyma hlutina, en ákærði hafi beðið hann að fara með hlutina sem fyrst af heimilinu og losa sig við þá. Ákærði kvaðst hafa farið í beinu framhaldi í vinnu og þegar hann hafi komið heim um kvöldið hafi hlutirnir verið horfnir og kvaðst ákærði hafa haldið að meðákærði hefði tekið þá. Daginn eftir hafi hins vegar komið í ljós að lögreglan hefði tekið þá. Lögreglan hafi hins vegar ekki tekið allt og kveðst ákærði hafi skilað hlutunum til lögreglu, en ekki muni hafa verið gerð skýrsla um það.
Varðandi fyrri samskipti sín við meðákærða bar ákærði að hann hafi komið til sín nokkrum dögum áður með föggur sínar og tjáð sér að sambýliskona hans hefði vísað sér á dyr og hann hefði ekki í nein hús að venda. Þeir hafi þekkst frá því 1992 og meðákærði hafi áður búið hjá sér. Þá kvaðst ákærði hafa stutt við bakið á meðákærða í viðureign hans við vímuefni og þeir þannig þekkst vel.
Meðákærði X bar að hann hafi komið heim til ákærða Páls að morgni 5. janúar 2007 og haft meðferðis muni er hann hefði stolið fyrr um nóttina. Með honum hafi verið fólk sem hafi verið með honum í innbrotinu. Þýfið hafi verið borið inn til ákærða og hafi hann óskað eftir því að ákærði geymdi þetta fyrir sig. Ekki mundi hann eftir því hvort ákærði hafi eitthvað spurt um tilurð hlutanna.
Brot ákærða Páls er talið hylming í ákærunni og heimfært undir 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga. Sú grein er í XXVI. kafla hegningarlaganna sem fjallar um auðgunarbrot og í 243. gr., sem er upphafsgrein kaflans, segir að fyrir brot er í kaflanum greini skuli því aðeins refsa að þau hafi verið framin í auðgunarskyni. Þrátt fyrir að ákærði hafi játað að hafa tekið umrædda muni til geymslu og vitað, eftir að þeir voru komnir inn á heimili hans, að um illa fengna muni hafi verið að ræða, er ósannað að hann hafi gert þetta í auðgunarskyni. Eins og broti hans er lýst í ákærunni verður því að sýkna hann og skulu málsvarnarlaun verjanda hans, Jóns Höskuldssonar hrl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greidd úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Ákærði, X, sæti fangelsi í 4 mánuði. Ákærði er sviptur ökurétti í 3 mánuði frá 28. febrúar 2008 að telja.
Ákærði, Páll Þórðarson, er sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Upptæk til ríkissjóðs skulu vera 6.52 grömm af hassi, 1.33 grömm af amfetamíni og 3.57 grömm af MDMA.
Skaðabótakröfu C er vísað frá dómi.
Ákærði, X, greiði 115.985 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Brynjars Níelssonar hrl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, að 2/3 hlutum, en að 1/3 skulu þau greidd úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Páls, Jóns Höskuldssonar hrl., 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skulu greidd úr ríkissjóði.