Hæstiréttur íslands
Mál nr. 294/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2001: |
|
Nr. 294/2001. |
K(Helgi Jóhannesson hrl.) gegn M (Sigurbjörn Magnússon hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
K höfðaði mál á hendur M og krafðist þess að samkomulag þeirra um sameiginlega forsjá dætra þeirra yrði fellt úr gildi. Svo fór að gerð var dómsátt milli þeirra að öðru leyti en um málskostnað. K kærði úrskurð héraðsdóms um þann ágreining. Talið var óhjákvæmilegt að líta svo á að K hefði með dómsáttinni tapað málinu í öllu verulegu. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 varð því til samræmis að dæma hana til að greiða M málskostnað fyrir héraðsdómi. Kærumálskostnaður var ekki dæmdur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2001, þar sem sóknaraðili var dæmd til að greiða varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað í máli hennar gegn honum, sem lokið var að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að málskostnaður í héraði verði látinn falla niður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Samkvæmt gögnum málsins gengu aðilar þess í hjúskap á árinu 1984. Meðan á hjúskapnum stóð eignuðust þau þrjár dætur, fæddar 1985, 1989 og 1990. Þeim var veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng 5. júlí 1995. Gerðu þau þá samkomulag um að þau færu sameiginlega með forsjá dætra sinna, sem skyldu eiga lögheimili hjá varnaraðila. Mun sóknaraðili hafa flust snemma árs 1997 til Noregs, þar sem hún er búsett enn.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðila með stefnu 23. mars 2000, þar sem hún krafðist þess að samkomulag þeirra um sameiginlega forsjá yrði fellt úr gildi og henni falin forsjá dætra þeirra. Varnaraðili tók til varna í málinu og krafðist þess að sér yrði falin forsjáin. Í þinghaldi 14. júlí 2000 ákvað héraðsdómari að leita álitsgerðar nafngreinds sálfræðings um félagslegar aðstæður dætra aðilanna, andlega líðan þeirra og uppeldissskilyrði, sem þeim væru búin. Jafnframt um hagi sóknaraðila, svo og um félagslegar aðstæður beggja aðilanna og hæfni þeirra sem uppalenda. Álitsgerð um þetta efni frá 30. janúar 2001 var lögð fram í næsta þinghaldi í málinu 8. maí sama árs. Lagði varnaraðili þá einnig fram ódagsetta álitsgerð annars sálfræðings um sama efni, sem tók þó ekki til atriða varðandi sóknaraðila. Eftir þetta var málið þrívegis tekið fyrir, síðast 6. júlí 2001, en þá var gerð dómsátt milli aðilanna. Í henni var kveðið á um að varnaraðili færi einn með forsjá dætra aðilanna, en sóknaraðili hefði nánar tilgreindan umgengnisrétt við þær. Um málskostnað varð ekki sátt og lögðu aðilarnir ágreining um hann í úrskurð héraðsdómara. Gekk hinn kærði úrskurður um það efni, auk þess sem þar var kveðið á um gjafsóknarkostnað sóknaraðila af málinu.
Af framansögðu er ljóst að með rekstri málsins fékk sóknaraðili í engu framgengt dómkröfum sínum, heldur var gerð sátt um málalok í samræmi við dómkröfu varnaraðila um forsjá. Af málatilbúnaði varnaraðila fyrir héraðsdómi verður ekki ráðið að ágreiningur hafi staðið um umgengni sóknaraðila við dætur þeirra, enda tekið fram í greinargerð hans að hann væri tilbúinn til að gera það, sem í hans valdi stæði, til að þær fengju notið umgengni við sóknaraðila, en hann teldi brýnt að komið yrði á samkomulagi um það efni og því markaður ákveðinn farvegur. Í þessu ljósi er óhjákvæmilegt að líta svo á að með dómsáttinni hafi sóknaraðili tapað málinu í öllu verulegu. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður því til samræmis að dæma hana til að greiða varnaraðila málskostnað. Hann er hæfilega ákveðinn með hinum kærða úrskurði, sem verður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2001.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 6. þ.m. var höfðað með stefnu birtri 30. mars 2000 af K, [...], Noregi á hendur M, [...].
Dómkröfur stefnanda voru þær að samkomulag milli hennar og stefnda frá 5. júlí 1995, um sameiginlega forsjá þeirra yfir börnum þeirra S [...], B [...] og C [...] sem öll búa að [...], verði fellt úr gildi, og að stefnanda yrði með dómi falin óskipt forsjá stúílknanna.
Dómkröfur stefnda voru þær að honum yrði falin forsjá stúlknanna.
Í samráði við lögmenn aðilja var Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur fenginn til þess að kanna félagslegar aðstæður barnanna og hæfni og félagslegar aðstæður beggja foreldra. Skilaði hann síðan matsgerð dags. 30. janúar 2001. Að því er best verður séð leiddi niðurstaða matsgerðarinnar til þess að gerð var sátt með aðiljum á þann veg að stefndi fékk fulla forsjá stúlknanna en stefnandi umgengnisrétt eftir nánara samkomulagi. Ekki er annað að sjá af gögnum málsins en að sá umgengnisréttur hafi verið til staðar áður að öðru leyti en því að stefndi vildi ekki að yngri dæturnar færu út til stefnanda á meðan forsjárdeilumálinu væri ólokið.
Lögmaður stefnanda krafðist þess að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, en stefnandi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dómsmálaráðuneytisins frá 1. febrúar 1999.
Lögmaður stefnda krafðist þess að stefnandi yrði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Viðfangsefni dómsins er að leysa úr ágreiningi um málskostnað og taka afstöðu til gjafsóknarkostnaðar.
Þegar litið er til atvika málsins og efnis réttarsáttarinnar þykir rétt að stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.
Málskostnaður stefnanda þar með talin þóknun lögmanns hennar Sigurðar Kára Kristjánssonar héraðsdómslögmanns 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið gert ráð fyrir virðisaukaskattskyldu lögmannsþóknunar.
Kostnaður vegna öflunar matsgerðar, Sæmundar Hafsteinssonar sálfræðings 175.000 krónur greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun dómara sbr. 2. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Stefnandi, K, greiði stefnda, M, 250.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður þar með talin þóknun Sigurðar Kára Kristjánssonar héraðsdómslögmanns 500.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.