Hæstiréttur íslands

Mál nr. 388/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Mánudaginn 13

 

Mánudaginn 13. júlí 2009.

Nr. 388/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 1. mgr. 100 gr.  laga nr. 88/2008, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til miðvikudagsins 5. ágúst 2009 klukkan 24. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ætla verður að sá tími sem farbann varnaraðila skal standa samkvæmt hinum kærða úrskurði muni duga til að ljúka rannsókn málsins og taka ákvörðun um saksókn á hendur henni verði sú raunin. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðila, X, er áfram bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 5. ágúst 2009 klukkan 24.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði áfram bönnuð för frá Íslandi, allt til og með miðvikudeginum 5. ágúst 2009 kl. 24:00. 

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að hann hafi haft til rannsóknar milligöngu vændis kærðu, þ.e. að hún hafi flutt til Íslands stúlkur sem hún hafi síðan haft milligöngu um að stundi vændi og taki hluta þóknunar sem greidd er fyrir. Við rannsókn málsins hafi stúlkur borið um að þær starfi við vændi á vegum X og að hún fái hluta þóknunar, þ.e. að hún hafi milligöngu um vændi þeirra hér á landi.

Hinn 12. febrúar sl. hafi X farið til Hollands með kærasta sínum, A. Hafi lögreglu borist upplýsingar um að þau hygðust koma með mikið magn fíkniefna til baka úr ferðinni. X hafi komið aftur til Íslands fyrr en áætlað var og hafi A verið handtekinn í Amsterdam fyrir innflutning til Hollands á 12 kg af kókaíni.  X hafi í kjölfarið verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á grundvelli hins ætlaða fíkniefnamáls og milligöngu vændis. 

Hafi rannsókn lögreglu frá þeim tíma einnig beinst að ætluðum stórfelldum fíkniefnabrotum X. Á grundvelli rannsóknar lögreglu hafi aðilar, sem taldir séu hafa komið hingað til lands á vegum X, verið handteknir við komu til landsins með fíkniefni innvortis, samtals um 400-500 g af kókaíni og fengið dóma fyrir að flytja efnin til landsins.  Greind efni hafi verið flutt til landsins 2. og 12. apríl sl. Hafi lögregla upplýsingar um tengingu X við greinda aðila og ferðir þeirra hingað til lands. Sé flutningur efnanna hingað til lands talinn tengjast umfangsmeiri fíkniefnabrotum sem til rannsóknar séu.                Kærða hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 30. apríl sl. til 12. maí sl. og farbanni frá þeim tíma. Rannsókn lögreglu sé á lokastigi, en beðið sé gagna m.a. frá erlendum lögregluyfirvöldum sem nauðsynlegt sé talið að bera undir kærðu í málinu áður en rannsókn málsins lýkur. Þannig hefur verið send beiðni til Hollands um skýrslu af A, auk skýrslutöku af konu sem upplýsingar sem fram hafa komið við rannsókn málsins benda til að eigi þátt í ætluðum brotum X.

Rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnabrot og milligöngu vændis kærðu. Kærða sé íslenskur ríkisborgari en hafi takmörkuð tengsl við landið. Fjölskylda hennar búi erlendis og kærasti hennar sé nú í gæsluvarðhaldi í Amsterdam. Nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærðu hér á landi til að hún geti ekki komið sér undan frekari rannsókn málsins, mögulegri saksókn og málsmeðferð fyrir dómi. Sé því nauðsynlegt að kærða sæti farbanni meðan á meðferð máls þessa stendur. Kærða hefur sætt farbanni vegna málsins, er síðast var framlengt með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness til dagsins í dag.

Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 173. gr. a og 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, en fyrrgreinda brotið geti varðað allt að 12 ára fangelsi.

Vísað er til framangreinds, framlagðra gagna og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærða undur rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærða hefur takmörkuð tengsl við landið og er fallist á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hennar meðan máli hennar er ekki lokið, enda skilyrðum b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 fullnægt til þess að henni verði bönnuð för úr landinu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.

                Úrskurð þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kærðu, X, er áfram bönnuð för frá Íslandi, allt til og með miðvikudeginum 5. ágúst 2009 kl. 24:00.