Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/2004
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
|
|
Miðvikudaginn 19. maí 2004. |
|
Nr. 18/2004. |
Óskar Karl Guðmundsson (Andri Árnason hrl.) gegn Cox Försäkring A/S at Lloyd´s (Baldvin Hafsteinsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur.
Bátur í eigu Ó, sem vátryggður var hjá C fyrir 5.000.000 kr., fórst eftir að Ó setti fram beiðni um hækkað tryggingamat bátsins. Sýnt þótti að ekki hafi verið kominn á samningur milli aðila um hækkun vátryggingarverðmætis bátsins; ekki hafði verið greitt iðgjald vegna slíkrar hækkunar og ekki hafi verið lögð fyrir umboðsmann C gögn, sem gátu verið grundvöllur hækkunar. Kröfum Ó um hærri bætur en þær 5.000.000 kr., sem hann hafði þegar móttekið, var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2004. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 7.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. febrúar 2000 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 13. júlí 2000 að fjárhæð 5.000.000 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2003.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 2 október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Óskari Karli Guðmundssyni, kt.120849-7869, Hofgörðum 2, Seltjarnarnesi, með stefnu birtri 5. nóvember 2002 á hendur Cox försökring A/S at Lloyd's, Österlangatan 43, 103 - 15 Stokkholm, Svíþjóð.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 7.500.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. febrúar 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð kr. 5.000.000 þann 13. júlí 2000, sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans að skaðlausu, að mati dómsins.
II.
Málavextir:
Með beiðni, dags. 22. desember 1997, óskaði stefnandi eftir því, að Alþjóðleg miðlun ehf. annaðist milligöngu um húftryggingu á eikarbátnum Gunna RE 51, skipaskrárnr. 1319. Í beiðninni er vátryggingarverð bátsins tilgreint kr. 5.000.000. Það mat stefnanda var samþykkt af Alþjóðlegri miðlun ehf., með ódagsettri staðfestingu á vátryggingu fyrir tímabilið 01.01. 1998 til 31.12. 1998, undirritaðri af Gísla Maack. Alþjóðleg miðlun ehf. annaðist framkvæmd vátryggingarsamningsins milli stefnanda og vátryggjanda bátsins, stefnda, Cox försäkring A/S at Lloyd's.
Á árinu 1998 voru gerðar töluverðar endurbætur á bátnum. Var m.a. skipt um vél og settur í bátinn nýr siglinga- og tölvuplotter. Með bréfi, dags. 27. desember 1998, óskaði stefnandi eftir því, að tryggingarmat bátsins yrði hækkað vegna endurbótanna.
Stefnandi kveðst hafa farið, þann 15. febrúar 1999, í höfuðstöðvar Alþjóðlegrar miðlunar ehf. að Tryggvagötu 8 til þess að greiða vátryggingariðgjald vegna iðgjaldatímabilsins 1999. Þar hafi hann hitt fyrir Árna Þór Árnason, deildarstjóra sjótrygginga, sem hafði fjallað um hans mál áður. Hafi Árni tjáð stefnanda, að hann hefði ekki séð bréf hans, en hann myndi strax finna það og fara að vinna í málinu. Hafi stefnandi tjáð Árna, að hann mæti umrædda hækkun á bilinu 2 - 2.5 milljónir.
Þann 1. júní 1999 kveðst stefnandi aftur hafa farið í höfuðstöðvar Alþjóðlegrar miðlunar ehf. til þess að ganga frá áhafnartryggingu fyrir 2 menn sem voru starfandi á bátnum. Þar hafi hann aftur hitt nefndan Árna sem hafi tjáð honum, að málið væri í farvegi og hann þyrfti engar frekari áhyggjur að hafa. Að loknu þessu samtali hafi stefnandi staðið í þeirri meiningu, að málið væri leyst og báturinn væri kominn með hærra vátryggingarmat, þ.e. 7.500.000. Stefnandi kveðst ekki hafa haft neina ástæðu til þess að ætla, að vátryggingarverð bátsins yrði metið í þetta skipti á annan hátt en þegar hann tryggði bátinn upphaflega, en þá hefði hann tilgreint vátryggingarverðið í vátryggingarbeiðni, eftir samtal við nefndan Árna.
Í febrúarmánuði árið 2000 fórst umræddur bátur og einn maður með honum. Þegar stefnandi krafði vátryggingarfélagið bóta vegna tjónsins, kom í ljós, að ekki var búið að ganga frá hækkun vátryggingarverðsins, og kannaðist félagið ekki við að hafa samþykkt slíka hækkun og ber því við, að það hafi óskað eftir frekari gögnum til þess að meta hækkun á vátryggingarmati bátsins, þegar hækkunarbeiðnin barst, en stefnandi hafi ekki orðið við því. Stefnandi kveðst ekki kannast við að hafa fengið slíka beiðni. Þann 13. júlí 2000 greiddi stefndi stefnanda kr. 5.000.000 í tjónabætur með millifærslu inn á reikning stefnanda gegnum bankalínu. Þann 23. júlí 2001 krafði stefnandi Alþjóðlega miðlun ehf., um greiðslu á meintum eftirstöðvum bótanna, þ.e. kr. 2.500.000 og var krafan framsend tjónauppgjörsfulltrúa hjá Cox hjá Lloyd's hér á landi.
Með bréfi, dags. 4. september 2001, var kröfu stefnanda hafnað með þeim rökum, að hann hefði ekki orðið við tilmælum Alþjóðlegrar miðlunar ehf. um að veita upplýsingar um þá verðmætisaukningu, sem umræddar endurbætur hefðu haft í för með sér. Af þeim sökum hefði tryggingin verið endurnýjuð óbreytt árin 1999 og 2000 án athugasemda af hálfu stefnda. Jafnframt taldi stefndi, að stefnandi hefði tekið við greiðslu á kr. 5.000.000 athugasemdalaust og þannig hefði hann samþykkt þá greiðslu sem fullnaðargreiðslu. Stefndi hefur fallið frá þeirri málsástæðu.
Stefnandi ítrekaði kröfu sína nokkrum sinnum bréflega, án árangurs.
Með bréfi, dags. 18. september 2002, óskaði stefnandi eftir því að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum fengi að taka mál stefnanda til úrskurðar, en þeirri umleitan var hafnað af hálfu stefnda.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að samkvæmt gr. 5 í 2. kafla skilmála fyrir vátryggingu milli stefnanda og stefnda skuli vátryggingartaki og vátryggjandi koma sér saman um vátryggingarverð í byrjun vátryggingartímabils, sbr. dskj. nr. 59. Það samkomulag sé bindandi fyrir vátryggjanda. Óumdeilt sé, að stefnandi hafi óskað eftir hækkun á vátryggingarmati á eikarbátnum Gunna RE 51 með bréfi, dags. 27. desember 1998, sbr. dskj. nr. 6. Jafnframt liggi fyrir, að Alþjóðleg miðlun ehf. sem sá um framkvæmd vátryggingarsamningsins fyrir hönd stefnda, hafi ekki sinnt skyldum sínum til þess að hækka matið í samræmi við fyrrgreint bréf. Alþjóðleg miðlun ehf. f.h. stefnda hafi kosið að svara ekki umræddu bréfi og ætli að láta stefnanda bera hallann af því. Geri hann það með því að færa sönnunarbyrðina á stefnanda um, hvað hafi farið fram í meintu "sambandi", sem aldrei hafi verið færð fram nein gögn fyrir, að hafi átt sér stað og stefnandi kannist ekki við, að hafi átt sér stað.
Stefnandi byggir jafnframt á því, að það hafi verið stefnda að óska eftir eða afla gagna til að hækka hið umrædda mat í samræmi við umrætt bréf, teldi félagið þær upplýsingar, sem fram hafi komið í bréfinu, ekki nægjanlegar. Vísi stefnandi til þess, að stefnda hefði verið í lófa lagið að hækka matið á grundvelli umrædds bréfs, þar sem nákvæmlega hafi verið gerð grein fyrir þeim breytingum, sem átt hafi sér stað við umræddar endurbætur. Stefndi selji sérfræðiþjónustu á sviði vátrygginga, sérstaklega smábátatrygginga, sbr. dskj. nr. 60, þannig að honum hefði verið í lófa lagið að meta verðmæti umræddrar verðmætisaukningar á bátnum út frá umræddu bréfi. Þessa ályktun megi einnig draga af framlagðri beiðni um tryggingar á smábáti, dags. 22. desember 1997, sbr. dskj. nr. 3, en þar hafi stefndi treyst sér til að meta vátryggingarverð bátsins út frá upplýsingum stefnanda um tæki í bátnum. Verðmæti tækjanna hafi ekki verið tilgreint, aðeins tegund tækjanna.
Í bréfi umboðsmanns stefnda, dags. 2. ágúst 2002, komi eftirfarandi fram: "Engar frekari upplýsingar bárust og var húftrygging bátsins endurnýjuð óbreytt á árinu 2000 án athugasemda af hans hálfu," sbr. dskj. nr. 17. Stefnandi byggir á því í þessu sambandi, að umrætt vátryggingarskírteini hafi ekki borizt fyrr en í maí 2000, eða eftir að báturinn hafði sokkið. Þessu til áréttingar bendi hann á, að hann hafi verið í stöðugu sambandi við Alþjóðlega miðlun ehf., sem hafi verið milligöngumaður við stefnda, eftir að hann hafi fengið umrætt skírteini. Rétt sé að benda á, að umrætt skírteini sé ódagsett.
Stefnandi byggir einnig á því, að vátryggingafélag, sem kjósi að hafa munnleg samskipti við viðskiptamenn sína, þurfi að sýna fram á með óyggjandi hætti, hvert hafi verið eðli samskiptanna, en geti ekki varpað þeirri ábyrgð á herðar viðskiptamanna sinna.
Þá byggir stefnandi á því, að það verði að teljast mjög óeðlilegt, að þeir, sem sjái um framkvæmd vátryggingarsamnings fyrir vátryggingafélag, svari ekki bréfum, sem þeim séu send, líkt og bréfum stefnanda frá 27. desember 1998 og bréfi hans frá 14. ágúst 2002 og komi þannig í veg fyrir, að mál fáist upplýst.
Stefnandi byggir einnig á því, að stefndi hafi hafnað því án nokkurra raka, að leyst yrði úr máli þessu hjá úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sem sé bæði ódýrari og fljótvirkari leið fyrir báða aðila. Stefnandi óski sérstaklega eftir því, að það verði haft í huga við ákvörðun málskostnaðar.
Stefnandi byggir kröfur sínar á vátryggingasamningi aðila og I. og II. kafla laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga. Stefnandi byggir einnig kröfur sínar á meginreglum kröfu- og samningaréttar. Þá er byggt á 12. gr. og 83. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfssemi.
Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi krefst dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. febrúar 2000 til 1. júlí 2001, en dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954 falli krafa um greiðslu bóta í gjalddaga 14 dögum eftir að tryggingafélag hafi getað aflað þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar hafi verið til að meta vátryggingaratburðinn og upphæð bótanna. Stefnandi miði gjalddaga við 28. febrúar, eða 14 dögum eftir skipsskaðann.
Varðandi varnarþing sé vísað í gr. 23 í 2. kafla skilmála fyrir vátryggingu smábáta, sbr. dskj. nr. 59 og gr. 26 í vátryggingarskilmálum um húftryggingu smábáta, sbr. dskj. nr. 9.
Stefnufjárhæðin sé miðuð við verðmætisaukningu á bátnum Gunna RE 51 vegna ofangreindra endurbóta stefnanda. Líkt og áður greini, hafi stefnandi látið setja nýja vél í bátinn af gerðinni Perkins/Sabre. Verð vélarinnar hafi verið kr. 1.206.900, sbr. dskj. nr. 53. Kostnaður stefnanda vegna vinnu verktaka og efnis, sem verktaki lagði til vegna endurbótanna, hafi numið kr. 1.012.694, sbr. dskj. nr. 43. Vinna stefnanda sjálfs vegna endurbótanna miðist við áætlað tímagjald, kr. 1.000 fyrir hvern tíma. Stefnandi hafi unnið samtals 480 tíma sjálfur við endurbætur á bátnum. Verðmætisaukning vegna eigin vinnu hans hafi numið kr. 480.000. Efniskaup stefnanda vegna endurbótanna hafi numið samtals kr. 118.032, sbr. dskj. nr. 32 - 42. Verðmætisaukning vegna kaupa og niðursetningar á tölvuplotter hafi numið kr. 467.328, sbr. dskj. nr. 54. Verðmætisaukning stefnanda vegna endurbótanna hafi numið kr. 3.284.954. Frá því dragist kr. 600.000 vegna afskriftar á gömlu vélinni. Mismunur á verðmætisaukningu vegna endurbótanna á Gunna RE S 1 og afskrift á þeirri vél, sem tekin var úr bátnum, nemi kr. 2.684.954. Út frá þessari verðmætisaukningu vegna endurbótanna hafi stefnandi reiknað beiðni sína um hækkað vátryggingarverðmæti bátsins um kr. 2.500.000, úr kr. 5.000.000 í 7.500.000. Stefnufjárhæð þessa máls miðist við umbeðna hækkun stefnanda með hliðsjón af ofangreindri verðmætisaukningu vegna endurbóta á bátnum sbr. dskj. nr. 61.
Málsástæður stefnda:
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að sátt hafi verið með aðilum varðandi bótagreiðslur vegna bátstapans. Stefnandi hafi athugasemda- og fyrirvaralaust móttekið lokagreiðslu úr hendi stefnda að fjárhæð kr. 5.000.000, sem sé sama fjárhæð og vátryggingarverð bátsins nam, þegar hann fórst. Stefnandi eigi því engan rétt á frekari greiðslum.
Það sé rangt, sem haldið sé fram af stefnanda, að vátryggingarverðmæti bátsins hafi verið háð samkomulagi stefnanda og stefnda. Samkvæmt skilmálum þeim, sem um trygginguna giltu, sbr. dskj. nr. 55 og lagt sé fram af stefnanda, hafi ákvæði þau, sem getið sé á bls. 8 í skilmálum um bátinn, gilt, en GUNNI RE- 51 hafi verið þilfarsskip og því háð lögum um bátaábyrgðarfélög, að því er varðar húftrygginguna, sbr. ákvæði laga nr. 18/1976, 2. gr. Samkvæmt reglugerð nr. 673/1994, sem sett hafi verið með stoð í nefndum lögum, skyldu sérstakir skoðunar- og virðingarmenn meta fiskiskip til fjár. Það matsverð hafi síðan verið grundvöllur vátryggingarverðs skipsins.
Staðhæfingum stefnanda um, að stefndi, eða vátryggingarmiðlunin, hafi verið fær um að meta verðmæti þeirra breytinga, sem gerðar voru á bátnum, sé alfarið vísað á bug og hafnað sem tilhæfulausum. Vísi stefndi til þess, sem að framan geti um verðmætisákvörðun fiskiskipa og þess, að það sé fyrst við þingfestingu málsins að stefnandi leggi fram reikninga og önnur haldbær gögn um kostnað þeirra breytinga, sem gerðar hafi verið. Hafi honum verið í lófa lagið að leggja þessi gögn fyrir vátryggjanda á sínum tíma. Þá bendi stefndi á, að það hafi alfarið verið stefnanda að annast um og sjá til þess, að nýs mats og virðingarvottorðs fyrir GUNNA RE -51 yrði aflað.
Jafnvel þó svo að talið verði, að ákvörðun vátryggingarverðs bátsins hafi verið háð samkomulagi aðila, hafi samkomulag um hækkun á vátryggingarverði ekki legið fyrir, og eigi stefnandi engan rétt til viðbótargreiðslna þess vegna.
Þá mótmælir stefndi því sem röngu, sem haldið sé fram í stefnu, að stefnandi hafi ekki átt þess kost að gera athugasemd við vátryggingarverð bátsins árið 2000 fyrr en 12 maí þ.á., þar sem þá fyrst hafi vátryggingarskírteinið borizt. Hið rétta sé, að nýir skilmálar hafi tekið gildi í byrjun árs 2000, en hafi ekki verið sendir út fyrr en í maí. Vátryggingarskírteinið, þar sem vátryggingarverðmætis bátsins sé getið, hafi verið sent út með reikningi þann 13. janúar 2000.
Stefndi kveðst sérstaklega vilja mótmæla dskj. nr. 57. Skjalið sé bæði ódagsett og óundirritað og virðist gert sérstaklega í tengslum við málshöfðun stefnanda til að reyna að renna stoðum undir annars tilhæfulausa kröfugerð hans og málshöfðun.
Um kröfur sínar að öðru leyti vísar stefndi til ákvæða vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954, laga um bátaábyrgðarfélög nr. 18/1976, sbr. reglugerð nr. 673/1994. Þá vísar hann til 130. gr., sbr. 129. gr. s.l. um málskostnað.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum, og enn fremur vitnið, Árni Þór Árnason, fyrrum deildarstjóri sjótrygginga hjá Alþjóðlegri miðlun ehf.
Fyrir liggur, að þegar stefnandi tryggði bátinn upphaflega hjá stefnda varð samkomulag með aðilum um vátryggingarfjárhæðina á grundvelli upplýsinga frá stefnda. Ekki liggja fyrir upplýsingar um, hvort einhver gögn, mats- eða virðingargerðir lágu að baki því samkomulagi, en báturinn hafði áður verið í vátryggingu hjá öðru tryggingafélagi. Er í sjálfu sér ekki deilt um gildi þessa samkomulags.
Í málinu liggur fyrir ósk stefnanda um að hækka vátryggingarfjárhæðina vegna endurbóta á bátnum. Er beiðnin á dskj. nr. 6, dags. 27. desember 1998, og hljóðar svo:
“Undirritaður óskar eftir að tryggingarmat Gunna RE-51 verði hækkað, þar sem ný aðalvél hefur verið sett í bátinn:
Perkins/Sabre gerð M215C (158 kw), ennfremur ný siglinga og tölvuplotter gerð Quod Fish. 110.
.............. “
Hvorki fylgdu þessu bréfi upplýsingar um kostnað við endurbæturnar, reikningar vegna efniskaupa eða vinnu né mat á verðmætaaukningu bátsins vegna endurbótanna.
Bátur stefnanda var svokallaður þilfarsbátur, háður þálgildandi lögum nr. 18/1976, sem felld voru úr gildi á árinu 2000. Var stefnda samkvæmt þeim lögum því rétt að krefja stefnanda um mats- og virðingargerð, sbr. og rgl. nr. 673/1994. Ekki liggur fyrir skriflega, að umboðsmaður stefnda hafi beint tilmælum þar að lútandi til stefnanda, en áletranir Árna Þórs Árnasonar, þáverandi deildarstjóra hjá Alþjóðlegri miðlun ehf., á dskj. nr. 59, dags. 11. janúar 1999 og 11. maí s.á., sem hann hefur staðfest fyrir dómi, að stafi frá sér, styðja fullyrðingar stefnda um, að þeim tilmælum hafi verið beint til stefnanda munnlega. Sama verður ráðið af útskrift úr tölvudagbók á dskj. nr. 60, frá 11. janúar 1999.
Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði farið í tryggingafélagið til að greiða reikninga í febrúar 1999 og hefði hann þá rætt við Árna Þór. Aðspurður kvað hann þá ekki hafa rætt beint um matið á bátnum, heldur hefði komið í ljós, að Árni hefði ekki verið búinn að fá bréfið með hækkunarbeiðninni í hendur. Hann hefði síðan haft samband við stefnanda næsta dag, og hafi hann þá verið kominn með bréfið og hafi ætlað að fara á fullu inn í málið. Stefnandi bar einnig, að hann hefði gefið Árna Þór Árnasyni upplýsingar um verðmætaaukningu bátsins í símtali í maí 1999, sem Árni Þór hefði samþykkt í sama símtali. Í júní 1999 hafi stefnandi átt erindi til Alþjóðlegrar miðlunar ehf. og hafi hann þá hitt nefndan Árna og innt hann eftir því, hvort búið væri að “færa þetta inn”, og hafi Árni svarað því játandi. Eftir þann fund hafi stefnandi litið svo á, að matið hefði verið hækkað. Aðspurður hvort iðgjaldið, sem stefnandi greiddi vegna bátsins í janúar 2000, hefði gefið til kynna, að hann væri að greiða fyrir hærra mat, svaraði stefnandi því til, að hann hefði ekki gengið úr skugga um það. Kona hans hefði séð um að greiða reikninginn, og hefði hann aldrei farið um hendur stefnanda. Þá kvað stefnandi vátryggingarskírteini fyrst hafa borizt til hans í maí 2000 með bréfi á dskj. nr. 9, eða eftir að báturinn var sokkinn.
Árni Þór Árnason skýrði svo frá fyrir dómi, að það hafi aldrei komið fyrir, að hann hafi gert undanþágu á því að láta leggja fram mats- og virðingargerðir í tilvikum sem þessum. Hann hefði alltaf krafizt þess, þegar um þilfarsbáta var að ræða. Hann kvaðst ekki muna vel eftir munnlegum samtölum, sem hann átti við stefnda, eða hvað þeim fór á milli, en vísaði í dagbókarfærslu í tölvu, dskj. nr. 60, og áritanir á dskj. nr. 59. Hann kvað venju að senda vátryggingarskírteini með reikningi vegna iðgjalds, en kvaðst ekki þora að fullyrða, að skírteini stefnda hafi ekki borizt honum með bréfi á dskj. nr. 9.
Ljóst er, af því sem fram hefur komið í málinu, að aldrei lá fyrir staðfest samkomulag með aðilum um hækkun á vátryggingarfjárhæð og er ósannað, að slíkt hafi verið gert munnlega. Er ósannað, að sú fjárhæð, sem stefnandi byggir kröfur sínar á, hafi nokkru sinni verið lögð fyrir stefnda eða umboðsmann hans til samþykkis. Þá renna gögn málsins, dskj. nr. 59-60, stoðum undir þá fullyrðingu stefnda, svo sem fyrr er rakið, að þeim tilmælum hafi verið beint til stefnanda munnlega að afla mats- og virðingargerðar, og stóðu lög jafnframt til þess, að svo væri gert, áður en unnt væri að taka afstöðu til vátryggingarverðmætisins. Því sinnti stefnandi ekki. Þá liggur fyrir, að stefnandi fékk aldrei skriflega staðfestingu á því, að hækkunin hefði verið tekin til greina, og er ósannað, að hann hafi fengið á því munnlega staðfestingu, svo sem hann heldur fram. Þá liggur ekki fyrir, að hann hafi verið krafinn um viðbótariðgjald vegna meintrar hækkunar á árinu 1999, og þá mátti stefnandi ráða af fjárhæð iðgjaldsgreiðslu í janúar 2000, að vátryggingarverðmætið hefði ekki verið hækkað um 50%. Gildir þá einu, hvort greiðsla fór um hendur stefnanda eða eiginkonu hans. Hníga öll rök í máli þessu að því, að ekki hafi verið kominn á samningur milli aðila um hækkun vátryggingarverðmætis bátsins; ekki hafði verið greitt iðgjald vegna slíkrar hækkunar og höfðu aldrei verið lögð fyrir umboðsmann stefnda gögn, sem gátu verið grundvöllur hækkunar. Stefnandi á því ekki rétt á hærri tjónabótum, en hann hefur þegar fengið.
Í kröfu stefnanda felst m.a. dráttarvaxtakrafa af þeirri fjárhæð, sem hann hefur þegar fengið greidda, frá 28. febrúar 2000 til 13. júlí s.á. Byggir krafan á 1. mgr. 24. gr. l. nr. 20/1954, og telur stefnandi, að stefndi hefði átt að geta aflað sér nauðsynlegra upplýsinga til að meta vátryggingaratburðinn og upphæð bótanna þann 28. febrúar, eða 14 dögum eftir tjónið.
Í kröfubréfi stefnanda á hendur Alþjóðlegri miðlun ehf., á dskj. nr. 10, dags. 23. júlí 2001, fer stefnandi fram á greiðslu vangreiddra tjónabóta að fjárhæð kr. 2.500.000 ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð, en af orðalagi bréfsins verður ráðið, að hann hafi á þeim tíma ekki talið sig eiga kröfu á dráttarvöxtum vegna þegar greiddra bóta. Sýnist krafa um dráttarvexti af þeirri fjárhæð fyrst sett fram í kröfubréfi á dskj. nr. 13., dags. 11. janúar 2002 eða rétt um hálfu öðru ári eftir að stefnandi móttók greiðsluna án athugasemda eða fyrirvara um gjalddaga hennar. Verður því að líta svo á, að stefnandi hafi, með þessu tómlæti sínu, samþykkt gjalddaga kröfunnar.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefna af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Cox försäkring A/S at Lloyd's, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Óskars Karls Guðmundssonar.
Aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.