Hæstiréttur íslands
Mál nr. 802/2017
Lykilorð
- Lögmaður
- Skaðabætur
- Starfsábyrgðartrygging
- Sönnun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Hildur Briem héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. október 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 22. nóvember 2017 og áfrýjaði hann öðru sinni 19. desember það ár. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.285.444 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 493.900 krónum frá 13. mars 2008 til 10. mars 2009, en af 5.285.444 krónum frá þeim degi til 9. maí 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í héraðsdómi lítur ágreiningur málsaðila að því hvort lögmaður, sem tryggður var starfsábyrgðartryggingu hjá stefnda, og áfrýjandi hafði falið hagsmunagæslu af sinni hálfu vegna vinnuslyss 30. apríl 2005, hafi vanrækt þá þjónustu með saknæmum og ólögmætum hætti og valdið áfrýjanda af þeim sökum fjártjóni.
Bótakrafa áfrýjanda af þessu tilefni er tvíþætt. Er hún annars vegar á því reist að lögmaðurinn hafi valdið áfrýjanda tjóni með því að stofna til útgjalda með öflun matsgerðar dómkvaddra manna en kostnaður við hana hafi ekki fengist endurgreiddur. Hins vegar telur áfrýjandi að tjón sitt megi rekja til ætlaðs mismunar fjárhæðar bóta sem hann fékk greiddar 11. mars 2009, frá viðkomandi tryggingarfélagi vegna afleiðinga slyssins 30. apríl 2005, og þeirrar fjárhæðar bóta sem hann telur sig hafa átt tilkall til hefði lögmaðurinn haldið rétt á máli hans.
Með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að hafna fjárkröfu áfrýjanda vegna kostnaðar hans af öflun mats dómkvaddra manna.
Hvað varðar síðari þátt bótakröfu áfrýjanda er til þess að líta að í málinu liggur fyrir yfirmatsgerð dómkvaddra manna, 27. febrúar 2009, um afleiðingar umrædds slyss áfrýjanda. Var hún lögð til grundvallar fyrrnefndu uppgjöri bóta til áfrýjanda og hefur niðurstöðum hennar ekki verið hnekkt. Þá er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki verði fallist á með áfrýjanda að við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku hans af völdum umrædds slyss hafi verið forsendur til þess að miða við árslaun sem metin yrðu sérstaklega vegna óvenjulegra aðstæðna, samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Bar þvert á móti, svo sem gert var í nefndu uppgjöri, að miða við meðalatvinnutekjur áfrýjanda síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Af þessu leiðir að áfrýjanda hefur ekki tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir neinu frekara tjóni en bætt var með uppgjöri því sem fram fór 11. mars 2009. Eru því engin efni til þess að fjalla frekar um hugsanlega bótaskylda háttsemi umrædds lögmanns í hagsmunagæslu hans fyrir áfrýjanda og verður stefndi því þegar af þessari ástæðu sýknaður af þessum hluta bótakröfu áfrýjanda.
Hinn áfrýjaði dómur verður samkvæmt þessu staðfestur, þar með talið um ákvörðun málskostnaðar.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2017.
Mál þetta, sem var höfðað með birtingu stefnu þann 3. maí 2016, var dómtekið 16. maí sl. Stefnandi er Sigurður Steinar Jónsson, Drekavöllum 20 í Hafnarfirði og stefndi er Vörður tryggingar hf., Borgartúni 26 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 5.285.444 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af af 493.900 krónum frá 13. mars 2009 til 10. mars 2009 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til 9. maí 2015 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
I.
Stefnandi slasaðist við vinnu sína hjá HB Granda hf. um borð í Venusi HF-519 þann 30. apríl 2005. Stefnandi tilkynnti slysið til Sjóvá-Almennra trygginga hf., sem var tryggingafélag vinnuveitanda hans, með tjóntilkynningu 7. september 2005. Kemur þar fram að slysið hafi orðið með þeim hætti að stefnandi hafi fallið úr koju og að hann sé algerlega óvinnufær um óákveðinn tíma.
Þann 8. september sama ár veitti stefnandi Steingrími Þormóðssyni hrl. fullt og ótakmarkað umboð til að gæta hagsmuna sinna vegna áverka eftir slysið. Steingrímur átti í bréfaskiptum og öðrum samskiptum við tryggingafélagið í september og október vegna máls stefnanda og með bréfi þess 23. október 2005 féllst félagið á að greiða stefnanda ósundurgreinda innborgun á tjónsbætur sem nam rétti hans til þjáningabóta frá slysdegi til 1. október en frekari bótagreiðslum var hafnað að svo stöddu.
Þann 7. nóvember afturkallaði stefnandi umboð Steingríms og fól Birni L. Bergssyni hrl. umboð til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Í bréfi til stefnanda 2. maí 2006 upplýsir Björn hann um að tímabært sé að leggja mat á afleiðingar slyssins enda hafði þá borist læknisvottorð frá Stefáni Dalberg bæklunarlækni sem var meðferðarlæknir stefnanda. Tilkynnir hann stefnanda að hann sé í viðræðum við tryggingafélagið um hvernig best sé að standa að því mati. Í tölvuskeyti 21. ágúst sama ár upplýsir lögmaðurinn stefnanda og þáverandi sambýliskonu hans, Elínu Hönnu Jóndóttur, um að hann og tryggingafélagið hafi sammælst um að fá tilgreinda matsmenn, lækni og lögfræðing, til að leggja mat á afleiðingar slyssins. Þau svara skeytinu daginn eftir og kveðast ósátt við þá ákvörðun að umræddir matmenn vinni verkið og kveða þá ekki hæfa til þess. Krefjast þau þess að tveir nánar tilgreindir læknar verði fengnir til að vinna matsgerð. Lögmaðurinn svarar þessu skeyti og úrskýrir hefðbundinn gang matsvinnu í málum af þessu tagi og stingur upp á því að stefnandi fái annan lögmann til að vinna fyrir sig, beri hann ekki fullt traust til vinnu lögmannsins. Þann 5. mars 2007 tilkynnir stefnandi lögmanninum að hann hafi ákveðið að leita annað og með umboði dagsettu 1. maí 2007 felur stefnandi Steingrími á ný að gæta hagsmuna sinna og afturkallar um leið umboð Björns.
Þann 14. desember 2007 eru dómkvaddir tveir matsmenn til að meta tjón stefnanda. Í matsgerð þeirra frá 15. febrúar 2008 er niðurstaðan sú að stöðugleika skv. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi verið náð 30. október 2005, stefnandi hafi verið óvinnufær frá slysdegi til 1. júlí 2006, án þess að það hafi valdið honum fjártjóni og tímabil þjáninga hafi verið það sama. Þá telja matsmenn varanlegan miska skv. 4. gr. skaðabótalaga vera 25 stig og varanleg örorka skv. 5. gr. sömu laga sé 30%. Lögmaðurinn sendir tryggingafélaginu bótakröfu á grundvelli framangreindrar matsgerðar með kröfubréfi dagsettu sama dag og matsgerðinni er skilað 15. febrúar 2008. Þar gerir hann kröfu um að fjárhæð bóta verði miðuð við viðmiðunarlaun skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og að miðað verði við 6.000.000 króna árslaun og vísar til þess að það launaviðmið byggi á launum stefnanda fyrir sjósókn á árinu 2005. Krafan var ítrekuð með bréfi lögmannsins dags. 25. júní 2008.
Að beiðni tryggingafélagsins var óskað eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna. Skiluðu þeir yfirmatsgerð 27. febrúar 2009. Í millitíðinni aflaði lögmaður stefnanda vottorðs geðlæknis, varðandi andlegar afleiðingar slyssins og var það meðal gagna sem yfirmatsmenn höfðu undir höndum við mat sitt. Niðurstaða yfirmatsgerðar varðandi varanlegar afleiðingar slyssins var á þá leið að varanlegur miski stefnanda væri 20 stig og varanleg örorka 15%. Lögmaðurinn mótmælti niðurstöðu matsgerðar í bréfi til tryggingafélagsins og sendi stefnanda jafnframt afrit af því bréfi ásamt yfirmatgerðinni. Bæði þessi bréf eru dagsett 10. febrúar 2009 en líkur eru á að rétt dagsetning þeirra sé 10. mars það ár. Í bréfinu til tryggingafélagsins er handskrifuð athugasemd þess efnis að launaviðmiðið fái ekki staðist. Í bréfinu til stefnanda biður hann stefnanda að hafa samband sem fyrst.
Þann 10. mars 2009 sendi tryggingafélagið lögmanninum uppgjörstillögu félagsins sem byggði á niðurstöðu yfirmatsgerðar. Í tillögunni var miðað við uppreiknaðar meðaltekjur stefnanda sl. þrjú ár fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Lögmaðurinn undirritaði fullnaðaruppgjör með fyrirvara sem m.a. hljóðar þannig: „samþykkt með fyrir um bætur skv. undirmati [...].“ Daginn eftir sendir lögmaðurinn á ný bréf til tryggingafélagsins. Bréfið er dagsett 11. febrúar 2009 en ber með sér að hafa verið faxað til tryggingafélagsins þann 11. mars s.á. Í því bréfi lýsir lögmaðurinn því yfir að hann samþykki að taka við bótum með fyrirvara um „kröfur stefnanda skv. undirmati dómkvaddra matsmanna“. Segir jafnframt í bréfinu að niðurstaða yfirmatsmanna um miskastig sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Í tölvuskeyti Gunnars Péturssonar, starfsmanns tryggingafélagsins, sem sent var sama dag, innir hann lögmanninn eftir því hvort skilja megi hann þannig að fyrirvari hans einskorðist við þann mismun sem sé á yfirmati og undirmati hvað varðar varanlegan miska og varanlega örorku en ekki um árslaunaviðmiðið eða aðra uppgjörshluta. Ekki er að sjá af gögnum málsins að lögmaðurinn hafi svarað þessu skeyti. Greiðslur tryggingafélagins, samtals 3.997.436 krónur, voru inntar af hendi sama dag en félagið féllst ekki á að greiða útlagaðan kostnað stefnanda vegna undirmatgerðarinnar.
Með bréfi 14. mars 2009 sendi lögmaðurinn stefnanda skilagreinar og reikninga vegna málsins og yfirmatsgerðina og segir frá því að greiðslur séu inntar af hendi í samræmi við hana. Jafnframt segir í bréfinu að tekið hafi verið við bótum með ákveðnum fyrirvara og biður lögmaðurinn stefnanda að vera í sambandi sem fyrst. Þá liggur fyrir í málinu bréf frá Steingrími til Elínar Hönnu, dagsett 15. febrúar 2009, en efni þess ber með sér að það hafi verið skrifað eftir að framangreint bréf til stefnanda var sent og eftir að lögmaðurinn sendi tryggingafélaginu bréf með faxi þann 11. mars s.á. Í því bréfi segir að ef fara á í mál sé nauðsynlegt að fá skattframtöl til að biðja um gjafsókn. Þá kvartar hann yfir því að ná aldrei í stefnanda og biður þau að koma saman til fundar við sig þar sem óþægilegt sé að ræða við stefnanda í gegnum millilið. Stefnandi neitar því að þetta bréf hafi borist Elínu Hönnu.
Í ársbyrjun 2013 veitir stefnandi Elínu Hönnu umboð til að annast fyrir sína hönd sjóslysamál sem í umboðinu segir að Steingrímur Þormóðsson reki fyrir hönd stefnanda. Umboðið er dagsett 24. janúar 2013. Í bréfi frá Steingrími til Elínar Hönnu, sem dagsett er 6. apríl 2013, segir hann að málið eigi að vera opið til loka apríl 2015 og hann hafi verið að skoða möguleika á málaferlum og kröfugerð þar að lútandi. Tekur hann fram að sjálfsagt sé að fara í dómsmál en það sé kostnaðarsamt. Endar bréfið á því að lögmaðurinn segir nauðsynlegt að hittast og fara yfir málið. Stefnandi staðhæfir að þetta bréf hafi aldrei borist Elínu Hönnu. Þann 12. ágúst sama ár skrifar stefnandi lögmanninum og kveðst vilja gagna frá lokauppgjöri við tryggingafélagið á grundvelli yfirmatsins, sem hann kveðst þó ekki vera sáttur við. Óskar hann eftir því að lögmaðurinn afli þegar í stað tillögu að lokauppgjöri frá tryggingafélaginu og sendi stefnanda og kveðst síðan munu láta lögmanninn vita hvort hann sé sáttur við tillöguna. Í framhaldi af þessu skeyti sendir lögmaðurinn tryggingafélaginu bréf 14. ágúst s.á. og óskar eftir upplýsingum um það hvort lokauppgjör hafi ekki þegar farið fram og fær staðfestingu daginn eftir þess efnis að tryggingafélagið líti svo á að málinu sé lokið auk þess sem sennilegt sé að mati þess að frekari kröfur séu fyrndar. Ekki verður séð af gögnum málsins að lögmaðurinn hafi sent stefnanda upplýsingar um þessi samskipti hans við tryggingafélagið en fyrir liggja afrit margra tölvuskeyta frá stefnanda til lögmannsins á tímabilinu september 2013 til febrúar 2014 þar sem hann innir hann eftir svörum frá tryggingafélaginu. Í maí 2014 sneri stefnandi sér til tryggingafélagsins og spurðist fyrir um málið og fékk sömu svör og lögmaðurinn hafði fengið í ágúst 2013.
Í bréfi sem lögmaðurinn ritar og dagsett er 16. ágúst 2013 kveðst hann vera reiðubúinn að höfða mál fyrir stefnanda og vísar til samskipta sinna við Elínu Hönnu en óskar eftir innágreiðslu á málið áður. Þá segir í sama bréfi að lögmaðurinn telji ekki líkur á að stefnandi geti fengið gjafsókn í málinu og jafnframt að tvísýnt sé um að árangur náist í kröfu um árslaunaviðmið skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Stefnandi kveðst aldrei hafa fengið þetta bréf.
Með umboði dags. 10. mars 2015 veitti stefnandi Steini S. Finnbogasyni hdl. umboð til að fara með mál hans vegna slyssins árið 2005. Skömmu síðar krafði sá lögmaður tryggingafélagið um bætur til handa stefnanda fyrir varanlega örorku þar sem árslaun til ákvörðunar bóta yrðu metin sérstaklega með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Miðaði krafa hans við meðaltekjur stefnanda á því tímabili árið 2006 sem hann var í fullu starfi. Tryggingafélagið hafnaði kröfu hans með tölvuskeyti 25. mars 2015 og vísaði til þess að félagið teldi að fyrirvarinn sem gerður var við móttöku bóta hefði ekki tekið til árslaunaviðmiðsins heldur einvörðungu lotið að mismun á milli undirmatsgerðar og yfirmatsgerðar að því er varðar varanlegan miska og örorku. Auk þess taldi félagið að allar kröfur stefnanda hefðu fyrnst skv. 29. gr. þágildandi laga um vátryggingasamninga, nr. 20/1954, í síðasta lagi í árslok 2012.
Stefnandi telur sig hafa átt rétt til hærri bóta vegna tjóns af völdum slyssins í apríl 2005 og að ástæða þess að sú krafa hafi ekki náð fram að gagna sé sú að lögmaður hans, Steingrímur Þormóðsson hrl., hafi sýnt af sér gáleysi við gæslu hagsmuna hans. Í máli þessu krefur hann stefnda um bætur á grundvelli starfsábyrgðartryggingar lögmannsins.
Stefnandi, Steingrímur Þormóðsson hrl., Skorri Steingrímsson hdl. og Gunnar Pétursson hdl., lögmaður Sjóvá-Almennra trygginga hf., gáfu skýrslu fyrir dómi. Framburður þeirra er rakinn í niðurstöðukafla dómsins eftir því sem tilefni er til.
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að Steingrímur Þormóðsson hrl. hafi valdið sér tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Steingrímur hafi sýnt af sér gáleysi við gæslu hagsmuna stefnanda annars vegar við innheimtu fullra og réttra bóta vegna vinnuslyss hans og hins vegar við ranga ráðgjöf vegna kostnaðar af matsgerð dómkvaddra matsmanna. Steingrímur hafi ekki lagt sig fram um að gæta hagsmuna stefnanda, hann hafi ekki rækt verkið, sem stefnandi hafi trúað honum fyrir, af alúð og ekki neytt allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna hans. Þjónusta Steingríms teljist því gölluð og hafi valdið stefnandi tjóni og stefnandi eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta. Þá hafi skort á hlutlausa sérfræðiráðgjöf, heiðarleika og fagmennsku sem telja verði áskilið þegar um sérfræðing á tilteknu þjónustusviði sé að ræða.
Stefnandi byggir fjárkröfur sínar á hendur stefnda á vátryggingarábyrgð félagsins vegna starfsábyrgðartryggingar sem Steingrímur hafði í gildi hjá félaginu á þeim tíma sem hann veitti stefnanda sérfræðiþjónustu.
Sú bótaskylda háttsemi sem stefnandi byggir á að Steingrímur hafi sýnt af sér og valdið honum tjóni felst í því að hafa vanrækt að sækja kröfu stefnanda um bætur miðað við árslaun skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, eins og honum hafði verið falið og hann fallist á að gera. Við uppgjör bóta hafi Steingrími borið að árita uppgjörið með skilmerkilegum fyrirvara um rétt stefnanda til að krefjast fullra bóta, og að við útreikning þeirra yrðu árslaun metin sérstaklega skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, og gera starfsmanni tryggingafélagsins ljóst efni fyrirvarans þegar eftir því hafi verið leitað. Þá hafi honum borið að höfða dómsmál gegn tryggingafélaginu í samræmi við þá kröfu sem hann hafði gert innan hæfilegs tíma og áður en krafa stefnanda fyrndist auk þess sem honum hafi borið að veita stefnanda fullnægjandi upplýsingar um framvindu verksins og ástæður tafa.
Stefnandi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að Steingrímur hafi metið stöðuna þannig að ekki hafi verið tilefni til að meta árslaun sérstaklega skv. 2. mgr. 7. gr. Þá beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu að tryggingafélagið hefði ekki fallist á þá kröfu enda láðist Steingrími að færa rök fyrir kröfu um bætur á grundvelli 2. mgr. 7. gr. í bótakröfu dags. 25. júní 2008.
Lögmaðurinn hafi einnig vanrækt að veita stefnanda fullnægjandi upplýsingar í málinu og hlutlægt álit á réttarstöðu sinni og því hafi stefnanda ekki gefist kostur á að taka upplýsta ákvörðun um framhald málsins.
Stefnandi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að Steingrímur hafi metið það svo að gjafsókn fengist ekki, að hann hafi upplýst stefnanda um að dómsmál yrði áhættusamt, að Steingrímur hafi farið fram á innborgun á verkið áður en hafist yrði handa við málshöfðun og að stefnandi hafi ekki haft frekara samband við Steingrím vegna mögulegrar málshöfðunar. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum um að málið hafi verið í biðstöðu vegna athafnaleysis stefnanda enda sé það í engu samræmi við gögn málsins sem benda eindregið til þess að stefnandi og umboðsmaður hans hafi ítrekað reynt að fá upplýsingar um gang málsins frá Steingrími en erfitt hafi reynst á fá samband við hann og ná fundi með honum. Gögn sýni skilmerkilega að stefnandi og sambýliskona hans hafi aldrei verið upplýst um annað en að fullnaðaruppgjör með fyrirvara hafi að mati lögmannsins eingöngu verið innborgun og lögmaðurinn væri að vinna að uppgjöri fullra bóta eftir þeirri kröfu sem hann gerði 25. júní 2008.
Stefnandi byggir á því að vegna sérreglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð hvíli sönnunarbyrði á stefnda um að lögmaðurinn hafi ekki sýnt af sér gáleysislega háttsemi og athafnaleysi við hagsmunagæslu stefnanda enda liggur fyrir í gögnum málsins að Steingrímur hafi talið stefnanda eiga frekari bótarétt sem Steingrími hafði verið falið að sækja en ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi tekið ákvörðun um að falla frá frekari innheimtu á þeim bótarétti. Hefði Steingrímur haldið rétti stefnanda til laga þá hefði réttur hans til bóta samkvæmt árslaunaviðmiði 2. mgr. 7. gr. verið viðurkenndur hjá úrskurðarnefnd eða fyrir dómstólum og stefnandi því fengið hærri bætur. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvílir á stefnda samkvæmt sérreglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð.
Fyrir slysið þann 30. apríl 2005 hafi stefnandi haft fulla starfsorku. Atvinnusaga stefnanda á tímabilinu 2000-2005 sýni að stefnandi hafi sóst eftir fullu starf eftir því sem honum hafi boðist en þess á milli hafi hann notið takmarkaðra tekna vegna atvinnuleysis auk þess sem hann hafi á sama tímabili sinnt járnabindingum án þess að staðgreiðsluyfirlit beri þess merki. Á árunum 2002 til 2004 hafi hann unnið fulla vinnu þegar honum hafi boðist það, þ.e. samtals í sex mánuði á þessum árum. Þess á milli hafi hann þegið atvinnuleysisbætur og haft tekjur sem ekki hafi verið gefnar upp til skatts. Þá liggi fyrir að stefnandi sé vel menntaður og búi yfir mikilli starfsreynslu. Í ljósi þessa og atvinnusögu hans fyrir og eftir viðmiðunartímabilið, sbr. 1. mgr. 7. gr., sé ljóst að óvenjulegar aðstæður hafi verið uppi á því tímabili og skilyrði 2. mgr. til að meta tekjur hans sérstaklega hafi verið fyrir hendi. Með réttu hefðu bætur vegna varanlegrar örorku átt að miðast við árslaun sem byggðust á launum stefnanda hjá Íbúðalánasjóði á árunum 2002 til 2004 þá mánuði sem hann var í fullu starfi. Sé krafa hans í málinu miðuð við það. Til viðbótar komi 6% lífeyrissjóðsiðgjald og verðbætur miðað við launavísitölu októbermánaðar 2005. Viðmiðunarlaunatekjur verði þannig 3.921.302 kr. vegna ársins 2002, 4.391.499 kr. vegna ársins 2003 og 3.570.795 kr. vegna ársins 2004. Samtals verði árslaun skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga meðaltal þessara ára eða 3.961.199 kr. Við útreikning kröfunnar sé miðað við að stuðullinn skv. 6. gr. skaðabótalaga sé 10,533 en stefnandi hafi verið 40 ára og 73 daga gamall þegar stöðugleika var náð þann 30. október 2005. Þá sé miðað við 15% varanlega örorku. Samkvæmt þessu séu réttar bætur til stefnanda 6.258.496 kr. (3.961.199 x 10,533 x 15%). Stefnandi hafi fengið greiddar 2.125.933 kr. vegna varanlegrar örorku og nemi því fjárhæð vangreiddra bóta 4.132.563 kr. Krafist sé 4,5% vaxta skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 30. október 2005 til 10. mars 2009, samtals 658.981 kr., og nemi því tjón stefnanda vegna þessa liðar 4.791.544 kr. Krafist er vaxta skv. 8. gr.laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. mars 2009 til 9. maí 2015, en þá hafi mánuður verið liðinn frá bótakröfu stefnanda, og sé krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags.
Auk framangreindrar kröfu gerir stefnandi kröfu um að stefndi greiði honum 493.900 kr. með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 13. mars 2008 til 9. maí 2015, en þá var mánuður liðinn frá bótakröfu stefnanda, og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags. Þessi þáttur kröfu stefnanda er byggður á því að Steingrímur hafi sýnt af sér gáleysi þegar hann fór fram á dómkvaðningu matsmanna. Í fyrsta lagi hafi hann án samráðs við stefnanda afturkallað drög fyrri lögmanns að sameiginlegri matsbeiðni hans og tryggingafélagsins. Þá hafi hann veitt stefnanda ranga ráðgjöf þegar hann sagði stefnanda að tryggingafélagið myndi endurgreiða honum kostnað af öflun matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Hann hafi þannig brotið gegn skyldu sinni að veita stefnanda hlutlægar upplýsingar um kostnað og hagkvæmni þess að afla matsgerðar með dómkvaðningu matsmanna og þjónusta hans að þessu leyti verið gölluð í skilningi laga nr. 42/2000, um þjónustukaup. Kostnaðurinn af undirmatsgerðinni hafi ekki fengist endurgreiddur og tjón stefnanda sem af því hlaust hafi numið 493.900 krónum sem stefnda beri að greiða stefnanda með vöxtum eins og rakið er að framan. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að þetta tjón megi ekki rekja til hinnar röngu ráðgjafar lögmannsins.
III.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að hagsmunagæslu Steingríms Þormóðssonar hrl. fyrir stefnanda hafi í engu verið ábótavant, gögn málsins beri með sér að málið hafi verið rekið af festu og á eðlilegum hraða. Ósannað sé að Steingrímur Þormóðsson hafi sýnt af sér saknæma háttsemi auk þess sem tjón og orsakatengsl séu ósönnuð. Þá mótmælir stefndi því að beita eigi ströngu sakarmati og öfugri sönnunarbyrði svo sem stefnandi byggi á.
Stefndi byggir á því að fyrirvarinn sem Steingrímur hafi gert þegar hann tók við bótum fyrir hönd stefnanda hafi verið fullnægjandi. Í kröfubréfi lögmannsins frá 25. júní 2008 og í fyrra kröfubréfi hans frá 15. febrúar sama ár, sé krafist bóta miðað við 6.000.000 króna árslaun og vísað til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna til stuðnings þeirri kröfu. Í fyrra bréfinu sé sú krafa sérstaklega rökstudd. Í báðum bréfunum sé gerð bótakrafa á grundvelli undirmatsgerðar. Þessi krafa sé ítrekuð með handskrifaðri athugasemd á bréfi til Sjóvá, dags. 10. febrúar 2009, sem sent hafi verið í kjölfar yfirmatsgerðar sem tryggingafélagið hafi aflað. Krafan sé loks einnig rituð á uppgjörskvittun tryggingafélagsins. Stefnandi hafi sérstaklega verið upplýstur um þessa fyrirvara, m.a. með bréfi lögmannsins frá 14. mars 2009.
Stefndi byggir á því að tryggingafélagið hafi synjað kröfu um að miða bætur til stefnanda við árslaunaviðmið skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Félagið hafi greitt bætur í samræmi við niðurstöðu yfirmatsgerðar og miðað bótauppgjör við meðallaun stefnanda þrjú síðustu ár fyrir slysdag, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Fyrirvarinn sem lögmaðurinn hafi gert þegar hann hafi tekið við bótunum hafi vísað til framangreindra kröfubréfa hans en orðrétt standi „samþykkt með fyrirvara um kröfu skv. undirmati“. Innan þessa fyrirvara rúmist mismunurinn á þeirri kröfu sem gerð var samkvæmt undirmati og þeirri greiðslu sem tekið hafi verið á móti, þ.m.t. mismunurinn sem felst í meðallaunum skv. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga annars vegar og sérstökum viðmiðunarlaunum skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem krafa hafi verið gerð um. Fyrirvarinn hafi verið fullnægjandi og viðbrögð eða túlkun tryggingafélagsins breyti engu þar um. Í öllu falli sé það ósannað að fyrirvarinn hafi verið ófullnægjandi og sönnunarbyrðin um það atriði hvíli á stefnanda.
Jafnvel þótt fyrirvarinn teldist ófullnægjandi sé ekki um saknæma háttsemi að ræða af hálfu lögmannsins. Honum hafi verið veitt heimild til að semja um og taka við greiðslu með umboði frá stefnanda dagsettu 1. maí 2007 og hafi ekki þurft frekari heimild frá stefnanda til að inna það verk af hendi. Hvorki í umboðinu né öðrum gögnum sé að finna fyrirmæli frá stefnanda um að taka eigi við greiðslu með fyrirvara um að hafa uppi frekari kröfur. Móttaka greiðslna án fyrirvara rúmist innan þess umboðs sem stefnandi hafi veitt lögmanninum.
Stefndi byggir einnig á því að upplýsingagjöf og ráðgjöf Steingríms hafi verið fullnægjandi. Í kjölfar uppgjörs frá tryggingafélaginu árið 2009 hafi hann, bæði munnlega og skriflega, upplýst stefnanda og þáverandi sambýliskonu hans, Elínu Hönnu Jónsdóttur, sem hafi alfarið séð um samskipti við lögmenn vegna málsins, um stöðu mála og sagt þeim að á brattann væri að sækja í dómsmáli varðandi kröfu um launaviðmið á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í kjölfar þessara samskipta hafi Steingrímur gert þeim ljóst að ef stefnandi hygðist sækja frekari rétt sinn ætti hann að hafa samband við Steingrím. Það hafi stefnandi ekki gert fyrr en um áramót 2012-2013 þegar Elín Hanna, sem þá hafði slitið sambúð með stefnanda, hafi haft samband við Steingrím. Eftir að lögmaðurinn hafi gengið eftir því að hún legði fram umboð frá stefnanda hafi hann upplýst hana munnlega um stöðu mála og mögulegt framhald þess og ítrekað þær upplýsingar með bréfi dagsettu 6. apríl 2013. Þar segir m.a. ,,auðvitað er hægt að fara í mál en það er kostnaðarsamt, þ.e. leggja þarf í vinnu“. Þetta sé ítrekað í bréfi til stefnanda sjálfs í kjölfar síðari fyrirspurnar hans 16. ágúst 2013. Sérstaklega sé því mótmælt að Steingrímur hafi vanrækt að gefa stefnanda hlutlægt álit á málinu. Það gerði hann ítrekað svo sem að framan hefur verð greint frá, bæði munnlega og skriflega. Þá komi fram í bréfaskiptum lögmannsins að hann fari fram á að fá greitt inn á verkið áður en mál verði höfðað og það hafi hann einnig gert munnlega á fyrri stigum. Sérstaklega sé þetta skýrt í áðurnefndu bréfi til stefnanda frá 16. ágúst 2013. Staðhæfingum um annað sé mótmælt sem röngum.
Stefndi byggir jafnframt á því að lögmanninum hafi ekki verið heimilt að höfða mál fyrir dómi án þess að fá bein fyrirmæli um slíkt. Umboð stefnanda hafi ekki náð til málshöfðunar. Ósannað sé að fyrirmæli um málshöfðun hafi borist frá stefnanda og beri stefnandi hallann af skorti um sönnun hvað það atriði varðar. Skjalfest sé og sannað að Steingrímur hafi upplýst stefnanda um að nauðsynlegt væri að greiða inn á verkið ef halda ætti áfram með málið fyrir dómi. Fyrir liggi að engin slík innborgun hafi borist lögmanninum. Hvorki stefnandi né sambýliskona hans hafi haft samband við lögmanninn í hartnær fjögur ár, frá miðju ári 2009 til áramóta 2012-2013. Þá liggi að auki fyrir skrifleg yfirlýsing stefnanda frá 12. ágúst 2013 um að hann hafi ekki áhuga á frekari málarekstri. Ekkert í nefndu bréfi hafi gefið Steingrími ástæðu til að höfða mál vegna launaviðmiðs án tafar eða grípa til einhverra annarra aðgerða. Þvert á móti beri bréfið með sér að stefnanda hafi verið ljóst að ekki væri hægt að aðhafast frekar nema með því að fara fyrir dóm.
Stefndi byggir á því að atvik og gögn þessa máls gefi enga vísbendingu um að líklegt hefði verið að árangur hefði náðst í málshöfðun á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og lögmaðurinn hafi réttilega bent stefnanda á það. Út frá atvinnusögu og menntun stefnanda hafi úrslit málaferla í öllu falli verið tvísýn. Í þessu efni verði að líta til þeirra dómafordæma varðandi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sem legið hafi fyrir árið 2009 þegar uppgjör til stefnanda hafi farið fram. Við þessar kringumstæður sé það ekki saknæm vanræksla lögmanns að halda ekki áfram málarekstri gagnvart tryggingafélaginu, eftir atvikum með málaferlum, án beinna fyrirmæla frá stefnanda og samkomulags við hann um greiðslu fyrir þá þjónustu. Einu gildir hvort unnt hefði verið að fá gjafsókn eða ekki enda útiloki gjafsókn ekki að kostnaður falli á stefnanda máls.
Þá mótmælir stefndi því að möguleg krafa stefnanda hafi fyrnst í síðasti lagi 1. janúar 2013. Það sé í öllu falli óljóst og ósannað og beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni.
Stefndi mótmælir því að Steingrímur hafi viðhaft saknæma háttsemi við dómkvaðningu undirmatsmanna sem hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Jafnframt sé því mótmælt bæði sem röngu og ósönnuðu að hann hafi einhliða afturkallað samkomulag fyrri lögmanns stefnanda við tryggingafélagið um öflun sameiginlegar matsgerðar. Bréfaskipti stefnanda og sambýliskonu hans til fyrri lögmanns stefnanda sýni að stefnandi hafi ekki fellt sig við þá matsmenn sem samkomulag hafi náðst um að ynnu verkið. Staðhæfingar hans um að unnt hefði verið að ná samkomulagi við tryggingafélagið um að nánar tilgreindir matsmenn ynnu verkið er ósönnuð og ólíkleg. Einnig megi ráða af bréfi sambýliskonu stefnanda til fyrri lögmanns stefnda að hann sjálfur hafi óskað eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn enda sé það eina leiðin til að ráða vali á matsmönnum og ekki einu sinni öruggt að hún nægi. Í öllu falli er ófær sú leið sem fyrri lögmaður stefnanda hafi ætlað að fara. Því sé mótmælt, bæði almennt og í ljósi atvika þessa máls, að dómkvaðning matsmanna án samráðs við tryggingafélag feli í sér saknæma háttsemi lögmanns. Ýmsar réttmætar ástæður geti verið fyrir því að slík leið sé valin. Að jafnaði greiðist slíkar matsgerðir af tryggingafélögum. Í þessu máli hafi hins vegar verið krafist yfirmats. Niðurstaða þess hafi orðið önnur en undirmats og sé meginskýringin á því sú að í ljós hafi komið ný gögn um eldri áverka stefnanda sem höfðu áhrif á niðurstöðu matsmanna um orsakir varanlegs tjóns hans. Stefnandi hafi ekki upplýst um þetta atvik í upprunalegri slysatilkynningu og hvorki lögmaðurinn né undirmatsmenn höfðu vitneskju um þetta atvik. Þetta hafi leitt til þess að tryggingafélagið hafi neitað að greiða fyrir undirmatsgerðina. Á því beri stefnandi sjálfur ábyrgð.
Af grunnreglum skaðabótaréttar leiði, jafnvel þótt fallist verði á sök Steingríms, að stefnanda beri að sanna hvaða tjón leiddi af þeirri saknæmu háttsemi. Slíkt sé ósannað í máli þessu. Ósannað sé að niðurstaða dómsmáls eða úrlausn ágreinings við tryggingafélagið utan réttar hefði orðið sú sem stefnandi haldi fram. Grundvöllur fjárkröfu hans vegna varanlegs tjóns sé hæpinn og ósannað að hún hefði getað orðið grundvöllur kröfu sem tekin hefði verið til greina fyrir dómi. Miði hann kröfu sína við laun sem hann naut í ágúst og september á hverju ári þrjú síðustu árin fyrir slysdag, sem séu einu mánuðir þeirra ára sem hann hafi verið í fullri vinnu. Óútskýrt sé hvers vegna stefnandi hafi verið að mestu atvinnulaus í hina 39 mánuðina og þarfnist það sérstakra skýringa í ljósi þess að stefnandi staðhæfi að hann hafi haft fulla starfsorku og sé vel menntaður. Miðað við þau dómafordæmi sem hafi legið fyrir hafi ekki verið ástæða til að ætla að vænlegt væri að byggja kröfu skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga á launum sem stefnandi hafi aflað eftir slys, eða að slíkt hefði einhverju breytt. Sama eigi við um launatekjur sem ekki komi fram á skattframtölum. Sérstaklega mótmælir stefndi því að atvinnusaga stefnanda á tímabilinu 2000-2005 beri þess merki að hann hafi sóst eftir fullu starfi. Sú staðhæfing sé ósönnuð og gögn málsins bendi til hins gagnstæða.
Loks mótmælir stefndi vaxtakröfum stefnanda sem vanreifuðum auk þess sem ósannað sé að lagarök standi til að taka þær til greina.
IV.
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort lögmaður, sem stefnandi fól að gæta hagsmuna sinna í bótamáli vegna vinnuslyss, hafi með mistökum og vanrækslu við hagsmunagæsluna valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Beinir stefnandi kröfu sinni að stefnda sem seldi lögmanninum starfsábyrgðartryggingu á því tímabili sem umdeild þjónusta var veitt.
Bótakrafa stefnanda nemur 5.285.444 krónum. Hún er annars vegar reist á því að hann hafi orðið fyrir tjóni með því að hafa stofnað til útgjalda við öflun matsgerðar dómkvaddra matsmanna sem ekki hafi fengist endurgreidd. Stefnandi greiddi 493.900 krónur fyrir matsgerðina. Hins vegar krefst hann 4.791.544 króna bóta, sem hann kveður vera mismun bóta sem hann fékk greiddar frá Sjóvá-Almennum tryggingum fyrir varanlegt tjón af völdum vinnuslyssins og þeirra bóta sem hann hefði fengið frá félaginu vegna sama tjóns ef lögmaðurinn hefði haldið rétt á máli hans.
Hvað fyrri bótaliðinn varðar, kostnaðinn af matsgerðinni, má af gögnum málsins sjá að stefnandi naut um tíma aðstoðar annars lögmanns. Sá hafði í ágúst 2006 gengið frá samkomulagi við tryggingafélagið um að afla matsgerðar nafngreindra matsmanna utan réttar. Stefnandi felldi sig ekki við að matsgerðar yrði aflað með þeim hætti og krafðist þess að fengnir yrðu tveir aðrir nafngreindir matsmenn til verksins. Lögmaðurinn útskýrir í tölvuskeytum ítarlega fyrir stefnanda hvers vegna hann hafi leitað eftir samkomulagi við tryggingafélagið um öflun sameiginlegrar matsgerðar og og til hvaða úrræða hægt sé að grípa verði niðurstaða matsins óásættanleg fyrir tjónþola. Nefnir hann í því sambandi að við þær aðstæður sé unnt að afla álits örorkunefndar eða mats dómkvaddra matsmanna. Í kjölfar þessara samskipta ákveður stefnandi að afturkalla umboð sitt til lögmannsins og felur Steingrími Þormóðssyni nokkru síðar að taka við málinu á ný með umboði sem dagsett er 1. maí 2007.
Bréf stefnanda til fyrri lögmanns hans verða ekki skilin öðru vísi en svo að stefnandi sjálfur hafi verið andvígur því að afla sameiginlegrar matsgerðar með tryggingafélaginu. Í áðurnefndu tölvuskeyti til lögmannsins gerir hann skýra kröfu um að óhlutdrægir matsmenn með tiltekna sérþekkingu verði fengir til að vinna matsgerðina og krefst þess að tveir nafngreindir menn verði fengnir til verksins. Í ljósi þessa er sú staðhæfing stefnanda að Steingrímur hafi upp á sitt eindæmi tekið ákvörðun um að óska eftir mati dómkvaddra matsmanna ótrúverðug eða að minnsta kosti ósönnuð en engra gagna nýtur við um að beiðnin hafi verið afturkölluð með formlegum hætti. Auk þess verður, í ljósi þeirra ítarlegu upplýsinga sem fyrri lögmaður stefnanda veitti honum í tölvupóstsamskiptum þeirra, að gera ráð fyrir að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að til að verða við eindreginni kröfu hans um að velja sjálfur nafngreinda matsmenn með tiltekna sérfræðiþekkingu væri torvelt að afla matsgerðar í samráði við tryggingafélagið utan réttar.
Ekki nýtur við gagna um það hvaða upplýsingar Steingrímur veitti stefnanda um kostnað af öflun matgerðarinnar en fyrir liggur að tryggingafélagið féllst ekki á að greiða fyrir hana enda aflaði það síðar yfirmatsgerðar og byggði bótagreiðslur til stefnanda á þeirri matsgerð. Sú staðhæfing stefnanda að Steingrímur hafi fullyrt að kostnaður af öflun hennar fengist endurgreidd er ósönnuð. Verður stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti og er ekki fallist á að víkja beri frá almennum sönnunarreglum í þessu tilviki jafnvel þótt deilt sé um sérfræðiábyrgð lögmanns. Í því efni ber að líta til þess að Steingrímur hafi fullt umboð frá stefnanda til að vinna að málinu og ekki verður gerð sú krafa til lögmanna að þeir tryggi sér sönnun á öllum samskiptum við umbjóðanda sinn eða því hvaða leiðbeiningar þeir veita þeim á sérhverju stigi málsins.
Síðari kröfuliður stefnanda lýtur að tjóni sem stefnandi byggir á að Steingrímur hafi valdið honum með því að halda ekki rétt á máli hans. Svo sem rakið er í atvikalýsingu dómsins greiddu Sjóvá-Almennar tryggingar stefnanda bætur á grundvelli niðurstöðu yfirmatsgerðar þar sem varanleg örorka hans var metin 15% og varanlegur miski 20 stig. Stefnandi hafði á hinn bóginn sett fram kröfu á grundvelli niðurstöðu undirmatsgerðar sem mat varanlegt tjón stefnanda talsvert hærra. Þá lagði tryggingafélagið til grundvallar bótaútreikningi meðallaun stefnanda sl. þrjú árin fyrir slys svo sem meginreglan gerir ráð fyrir, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna, en stefnandi hafði áður krafist þess að árslaun yrðu metin sérstaklega á grundvelli 2. mgr. sömu greinar og að miðað yrði við 6 milljóna króna árslaun.
Mistökin sem stefnandi byggir á að lögmaðurinn hafi gert felast aðallega í tvennu. Annars vegar hafi hann gert ófullnægjandi fyrirvara við uppgjör tryggingafélagsins og með því komið í veg fyrir að unnt væri að krefja félagið um frekari bætur á síðari stigum. Hins vegar hafi hann ekki gert reka að því að innheimta frekari bætur frá tryggingafélaginu, á grundvelli annars og hærra árslaunaviðmiðs, annað hvort utan réttar eða með höfðun dómsmáls. Auk þessa telur stefnandi að lögmaðurinn hafi veitt honum ófullnægjandi upplýsingar og ráðgjöf.
Svo sem að framan greinir tók lögmaðurinn við bótum fyrir hönd stefnanda með tilteknum fyrirvara sem hann handskrifaði á fullnaðaruppgjör félagsins 11. mars 2009. Sá hluti fyrirvarans sem deilt er um hvort sé nægilega skýr er svohljóðandi: „Samþykkt með fyrirvara um kröfu skv. undirmati [...].“ Sama orðalag kemur fram í bréfi lögmannsins sem sent er tryggingafélaginu sama dag. Við mat á skýrleika fyrirvarans verður að líta til þess að áður hafði lögmaðurinn sent tryggingafélaginu kröfu um bætur sem byggðust á mati á varanlegu tjóni eins og það var metið af undirmatsmönnum og jafnframt lagt til grundvallar kröfugerðinni að árslaun stefnanda yrðu metin sérstaklega. Í tveimur kröfubréfum, dagsettum 15. febrúar og 25. júní 2008, er bótakrafan sundurliðuð og miðað við árslaun upp á 6 milljónir króna auk lífeyrissjóðsiðgjalds. Í fyrra bréfinu er tekið fram að sú fjárhæð byggist á launum stefnanda fyrir sjómennsku á árinu 2005, sem hann stundaði hluta af árinu. Þá gerir lögmaðurinn athugasemd við launaviðmiðið sem tryggingafélagið notar í bréfi hans til félagsins 10. febrúar 2009.
Jafnvel þótt unnt hefði verið að orða fyrirvarann með skýrari hætti verður, með hliðsjón af framangreindum gögnum, að skilja fyrirvara lögmannsins á þann veg að hann lúti bæði að örorkustigi og árslaunaviðmiði bótagreiðslunnar, enda er það í samræmi við þá kröfugerð sem lögmaðurinn hafði ítrekað sett fram á þeim tíma þegar hann ritar umdeildan fyrirvara. Breytir engu í því efni þótt tryggingafélagið kunni að hafa verið annarrar skoðunar á síðari stigum. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að lögmaðurinn hafi gert ófullnægjandi fyrirvara þegar hann tók við bótum fyrir hans hönd.
Í öðru lagi heldur stefnandi því fram að lögmaðurinn hafi vanrækt skyldu sína til að halda rekstri málsins áfram eftir að tryggingafélagið greiddi honum bætur og ekki veitt honum fullnægjandi upplýsingar og ráðgjöf um réttarstöðu sína. Er á því byggt að lögmaðurinn hafi ekki fullreynt að ná samkomulagi við tryggingafélagið um bætur á grundvelli hærra árslaunaviðmiðs og látið undir höfuð leggjast að höfða mál til heimtu hærri bóta.
Engin gögn liggja fyrir sem veita vísbendingu um að tryggingafélagið hefði fallist á kröfu stefnanda um að meta árslaun hans sérstaklega en lögmaðurinn hafði ítrekað sett fram slíka kröfu áður en félagið sendi honum uppgjörstillögu sína sem byggðist á meðallaunum sl. þrjú ár fyrir slysið. Í þeirri tillögu birtist afstaða félagsins til kröfu stefnanda. Staðhæfingar stefnanda um að unnt hefði verið að fá þeirri afstöðu breytt eru ósannaðar og verður stefnandi að bera hallann af skorti á sönnun um það atriði.
Ekki er fallist á það með stefnanda að lögmanninum hafi borið að höfða dómsmál fyrir hans hönd án frekari fyrirmæla frá stefnanda þar að lútandi. Umboðið sem stefnandi veitti lögmanninum 1. maí 2007 felur ekki í sér umboð til málshöfðunar enda verður að taka af tvímæli um það í umboðinu sjálfu eigi svo að vera.
Í málinu er einnig deilt um það hvort lögmaðurinn hafi gert stefnanda fullnægjandi grein fyrir því að hann myndi ekki höfða mál án frekari fyrirmæla og jafnframt að hann hafi óskað eftir innborgun frá stefnanda vegna vinnu við málshöfðun. Í málinu liggur fyrir bréf lögmannsins til stefnanda, dagsett 10. febrúar 2009, þar sem segir að meðfylgjandi bréfinu séu yfirmatsgerðin og athugasemdabréf lögmannsins til tryggingafélagsins og því beint til stefnanda að hafa samband sem fyrst. Þá er bréf til Elínar Hönnu, sambýliskonu stefnanda, sem dagsett er 15. febrúar s.á., þar sem segir að sama athugasemdabréf sé meðfylgjandi. Af því bréfi má ráða að lögmaðurinn sé að skoða málssókn þar sem hann óskar eftir skattframtölum stefnanda sl. tvö ár vegna gjafsóknarbeiðni. Segir hann jafnframt að hann nái engu sambandi við stefnanda og óskar eftir því að þau, Elín Hanna og stefnandi, komi saman til fundar við sig. Allar líkur eru á að dagsetning þessara bréfa sé röng með hliðsjón af því að yfirmatsgerðin, sem vísað er til í þeim, er dagsett 27. febrúar sama ár. Þá er bréf frá lögmanninum til stefnanda dagsett 14. mars 2009 þar sem hann upplýsir stefnanda um að hann hafi tekið á móti bótum með ákveðnum fyrirvara og biður hann að vera í sambandi sem fyrst.
Engin gögn liggja fyrir um það hvað stefnanda og lögmanninum fór á milli eftir að þessi bréfaskipti fóru fram og fram á árið 2012. Staðhæfing stefnanda um að Elínu Hönnu hafi aldrei borist framangreint bréf sem stílað er á hana verður hins vegar að teljast ósönnuð en Elín Hanna er nú látin þannig að vitnisburðar hennar nýtur ekki við. Þá bera gögn málsins með sér, andstætt því sem stefnandi bar fyrir dómi, að hún hafi að stórum hluta annast samskipti fyrir hans hönd við þá lögmenn sem komu að málinu.
Framburður stefnanda og lögmannsins fyrir dómi vörpuðu ekki frekara ljósi á samskipti þeirra á árunum sem í hönd fóru og gögn málsins bera ekki með sér að stefnandi hafi verið í sambandi við lögmanninn fyrr en rúmlega fjórum árum síðar eða 12. ágúst 2013. Þá skrifar hann honum bréf og kveðst vilja ganga frá lokauppgjöri við tryggingafélagið á grundvelli yfirmatsgerðarinnar. Hvorki í þessu bréfi né nokkrum öðrum gögnum málsins er að finna vísbendingu um að stefnandi hafi falið lögmanninum að höfða mál til heimtu frekari bóta. Verður því að mati dómsins að telja ósannað að lögmaðurinn hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu með því að hefjast ekki handa um málshöfðun án frekari fyrirmæla þar að lútandi. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt fallast megi á það með stefnanda að nokkuð hafi skort á að vinnubrögð lögmannsins væru eins vönduð og gera má kröfu til. Þannig liggur fyrir að nokkur bréfa hans eru ranglega dagsett, ekki er alltaf getið viðtakenda né skýrlega greint frá því hvaða gögn fylgi þeim. Þá andmælir lögmaðurinn ekki staðhæfingum stefnanda um að hann kunni að hafa gleymt að mæta á fund og ef til vill ekki alltaf svarað skilaboðum. Á hinn bóginn er ósönnuð sú staðhæfing stefnanda að hann hafi svo árum skiptir árangurslaust reynt að ná í lögmanninn en svo sem að framan greinir er engum gögnum til að dreifa sem styðja þá staðhæfingu. Hvað sem þessu líður verður eins og áður segir ekki hjá því komist að telja ósannað að lögmaðurinn hafi fengið fyrirmæli um að hefja málssókn og eins og atvikum er háttað verður stefnandi að bera hallann af skorti á sönnun um það atriði.
Jafnvel þótt fallist yrði á þá málsástæðu stefnanda að lögmanninum hafi borið án frekari fyrirmæla að grípa til aðgerða til að knýja á um frekari bótagreiðslur til stefnanda þá er það jafnframt niðurstaða dómsins að stefnandi hafi hvorki fært fram sönnun þess að hann hafi orðið fyrir tjóni né að tjónið nemi þeirri fjárhæð sem hann byggir bótakröfu sína á. Ekki er fallist á það með stefnanda að atvinnusaga hans á árunum fyrir slysið sýni að hann eigi rétt á því að því árslaun hans séu metin sérstaklega við útreikning bótafjárhæðar samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði þess að unnt sé að víkja frá því að miða bætur við meðallaun tjónþola síðastliðinna þriggja almanaksára fyrir slys, sbr. 1. mgr. sömu greinar, eru þau að aðstæður séu óvenjulegar á því tímabili og að þær aðstæður leiði til þess að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
Gögn málsins sem lúta að atvinnusögu stefnanda eru yfirlit úr staðgreiðsluskrá fyrir árin 2001-2004 og skattframtöl áranna 2007-2009, vegna tekna áranna 2006-2008. Þá er óumdeilt að stefnandi hafi verið í vinnu í sjö mánuði á árinu 2000 en án atvinnu aðra mánuði þess árs. Framangreind gögn bera ekki með sér að atvinnuþátttaka hans á árunum 2002-2004 hafi verið verulega frábrugðin árunum á undan. Þá verður ekki fram hjá því litið að bæði í stefnu og í skýrslu stefnanda fyrir dómi bar hann að hann hefði á viðmiðunarárunum unnið við járnabindingar, ýmist sem launþegi eða í eigin rekstri, án þess að upplýsingar um þær tekjur komi fram í gögnum skattyfirvalda. Af þessum yfirlýsingum leiðir að ósannað er hverjar raunverulegar tekjur hans voru á viðmiðunartímabilinu og jafnframt verður ekki af skattframtali eða öðrum gögnum frá skattyfirvöldum dregin ályktun um hvort eða að hve miklu leyti greiðslur úr atvinnutryggingasjóði endurspegli raunverulegt atvinnuleysi hans á sama tíma. Því er ósannað að aðstæður hans hafi verið óvanalegar á viðmiðunartímabilinu svo sem áskilið er í 2. mgr. 7. gr. Þá er því jafnframt hafnað að laun stefnanda hjá Íbúðalánasjóði, fyrir þá tvo mánuði á hverju viðmiðunaráranna sem hann starfaði þar, séu réttari mælikvarði á framtíðartekjur hans. Fyrir dómi upplýsti stefnandi að um hefði verið að ræða vinnu í sumarafleysingum hjá stofnuninni. Ekki er fallist á að laun fyrir slíka vinnu geti eins og hér standi á verið grundvöllur bótaútreiknings skv. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaganna. Af framangreindu leiðir að ósannað er að stefnandi hafi orðið fyrir því tjóni sem bótakrafa hans er byggð á.
Með ofangreindum rökstuðningi verður öllum kröfum stefnanda hafnað. Með hliðsjón af atvikum máls er rétt að hvor aðili beri sinn málskostnað af málinu.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
DÓMSORÐ
Stefndi, tryggingafélagið Vörður, er sýkn af kröfu stefnanda, Sigurðar Steinars Jónssonar. Málskostnaður fellur niður.