Hæstiréttur íslands

Mál nr. 157/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. mars 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. mars nk. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Krafan er reist á a lið 1. mgr. 95. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Lögregla telur að kærði sé undir grun um brot gegn 1. mgr. 194. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess til vara að honum verði einungis gert að sæta farbanni. 

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur m.a. fram að í gær hafi þau A og  B komið á lögreglustöðina í Kópavogi og skýrt frá því að vinkona þeirra, C, kt. [...], hafi hringt í þau og beðið þau um aðstoð. Hún hafi ekki getað hringt í 112 vegna tungumálaörðugleika. Hafi hún sagt þeim að fyrrverandi eiginmaður hennar, X, héldi henni nauðugri inni í íbúð hans að [...], Kópavogi. Hún hafi búið þar meðan þau voru saman en flutt út fyrir nokkru síðan. Kváðu þau að X væri að ógna henni og hefði tekið símann af henni, þannig að hún hafi ekki getað hringt frekar.

                Lögregla hafi farið á vettvang í kjölfarið og bankað á dyr íbúðarinnar en enginn svarað. Vegna fyrra mála hjá lögreglu er varði Cog kærða X hafi verið ákveðið að brjóta upp hurðina til þess að tryggja ástand. Íbúðin hafi þá reynst mannlaus. Hringt hafi verið í farsíma kærða og C en verið slökkt á þeim. Við athugun reyndist bifreið hans ekki vera fyrir utan húsið. Er lögregla var á vettvangi hafi níu ára sonur  kærða og C komið heim. Hafi hann gefið lögreglu upp nýtt símanúmer móður sinnar sem lögregla hafi hringt nokkrum sinnum í án þess að væri svarað. Ákveðið hafi verið að fara með drenginn á lögreglustöðina en á leiðinni þangað hafi  C hringt í son sinn. Drengurinn hafi sagt henni að hann væri á leiðina á lögreglustöðina og skilað því til hennar frá lögreglu að koma þangað ef hún gæti. C hafi komið í kjölfarið á lögreglustöðina í Kópavogi ásamt kærða.

                Í viðræðum við C á lögreglustöð hafi komið fram að hún hefði farið í skólann í morgun og kærði birst þar og verið með yfirgang við hana og skammast út í hana fyrir að vera með slökkt á símanum þegar hann væri að hringja í hana. Hafi hann síðan verið að sniglast við skólann allan morguninn og verið að ónáða hana í frímínútum og sagt við hana að hún fengi aldrei að skilja við hann og þetta hafi gert hana mjög skelkaða. Þegar skólinn hafi verið búinn hafi hún farið að bílnum sínum og ekki orðið vör við kærða. Hún hafi farið upp í bílinn og þegar hún hafi verið að bakka úr stæðinu hafi kærði skyndilega birst og ruðst inn í bílinn til hennar og skipað henni að aka heim til hans að [...] í Kópavogi. Hún hafi verið mjög hrædd og ekki þorað öðru en að hlýða honum. Þegar þangað var komið hafi hann skipað henni að koma með sér í íbúð hans og hún ekki þorað öðru. Þegar inn var komið hafi hann tekið af henni farsímann og lyklana hennar. Kærði hafi ítrekað sagt henni að hún gæti gleymt því að fá að skilja við hann, það myndi aldrei gerast. Kærði hafi næst skipað henni að klippa hann og hún orðið við því og að því loknu hafi hann krafið hana að stunda kynlíf með sér en hún hafi neitað því. Hann hafi þá tekið hana og lagt hana í sófann og neytt hana til munnmaka við sig og einnig hafi hann neytt hana að til að fróa honum. Sagðist hún þarna hafa fengið nóg af öllu ofbeldinu og sagt við hann að ef hann léti ekki af ofbeldinu myndi hún hafa samband við lögregluna og kæra hann fyrir nauðgun. Hafi kærða brugðið nokkuð við þetta en í kjölfarið farið með hana út í bíl og ekið með hana um bæinn uns lögreglan hafði samband og gerði þeim að koma á lögreglustöðina í Kópavogi. C hafi einnig sagt að kærði hefði nauðgað henni í gærdag en vildi ekki lýsa því nánar og brostið í grát og verið mjög buguð.

                Tekin hafi verið skýrsla af C í dag þar sem hún hafi lýst ofangreindum tilvikum nánar, auk þess sem hún hafi lýst því hvernig kærði hafi beitt hana miklu kynferðislegu- og líkamlegu ofbeldi í hjónabandi þeirra sem væri búið að standa í 10 ár. Hann hafi jafnframt beitt eldri son þeirra ofbeldi og horft á klámmyndir og fróað sér fyrir framan hann. Hafi hún lýst tilvikinu í fyrradag þannig að kærði hafi haldið henni og tekið hana úr fötunum. Hann hafi snúið henni á magann og haldið höndum hennar með annarri hendi sinni á meðan hann notaði hina til að stýra lim sínum í leggöng hennar.

                Lögregla hafi farið með C á neyðarmóttöku LSH til skoðunar í gær. Samkvæmt vottorði þaðan hafi hún lýst atburðum þar á sama hátt og hún hafi gert hjá lögreglu. Í vottorðinu komi fram að hún sé með nýlegan marbletti á vinstri framhandlegg og á hægri kálfa. Þá sé hún með marbletti á hægri mjöðm, vinstri sköflungi og innan vert á vinstra læri.

                Kærði hafi verið handtekinn kl. 18:05 í gær vegna málsins. Í skýrslutöku af honum í dag hafi hann alfarið neitað sök. hann hafi sagt að þau hafi stundað kynlíf 22. febrúar sl. en það hafi verið með samþykki þeirra beggja. Þau hafi ekki  stundað nein kynferðismök í gær. Einungis hafi verið um strokur að ræða á milli þeirra sem þau hafi bæði tekið þátt í. Kvað hann þau hafi farið saman að [...] í gær eftir hann hafði hitt hana í skóla hennar og engin frelsissvipting hafi átt sér stað.

                Lögregla hafi jafnframt annað mál til rannsóknar þar sem kærði sé undir sterkum grun um kynferðisbrot gegn bæði C og syni sínum, mál lögreglu nr. 007-2016-[...]. Málið hafi komið inn á borð lögreglu í janúar sl. en þá hafi barnaverndarnefnd Kópavogs óskað eftir lögreglurannsókn vegna gruns um líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi af hálfu kærða á heimilinu. Í skýrslutökum í málinu komi fram lýsingar á kynferðisbrotum kærða í garð bæði C og sonar þeirra. Hafi C búið í Kvennaathvarfinu síðan þetta mál kom upp ásamt sonum sínum.

                Að mati lögreglu sé fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi ítrekað brotið kynferðislega gegn C og það hafi átt sér stað tvívegis síðustu daga auk þess sem hann hafi svipt hana frelsi sínu í gær.  Eru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940  og varða allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé stutt á veg komin og telji lögreglustjórinn ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Meðal annars þurfi að taka ítarlegri skýrslu af C og kærða auk þess sem hafa þurfi upp á og taka skýrslur af öðrum vitnum í málinu. Mál þetta sé því á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.

                Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a liðar 1. mgr. 95. gr. og b liðar 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla brotaþola og lögregluskýrsla af syni aðila. Þá gaf sonur þeirra  skýrslu í Barnahúsi 8. febrúar sl. Samkvæmt þessum rannsóknargögnum er kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem geti varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 1. mgr. 194. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn másins er á frumstigi og ætla má að kærði geti torveldað rannsókn málins gangi hann laus. Að þessu virtu eru skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála uppfyllt í málinu. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi á þann hátt sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. mars nk. kl. 16:00.

         Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.