Hæstiréttur íslands
Mál nr. 507/2017
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Matsgerð
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Ragnheiður Harðardóttir landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2017. Hún krefst þess að sér verði falin forsjá barnanna A, B og C. Þá krefst hún þess að „regluleg umgengni verði aðra hverja helgi frá föstudagseftirmiðdegi til sunnudags kl. 20.00, að undanskildu því tveggja ára tímabili sem fyrirhugað er að börnin dveljist erlendis“. Loks krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi hafa aðilar farið sameiginlega með forsjá barna sinna þriggja, A, B og C frá því er þau slitu samvistum árið 2012, en lögheimili barnanna hefur verið hjá áfrýjanda. Þá er einnig í héraðsdómi gerð grein fyrir þeim atvikum sem urðu til þess að áfrýjandi höfðaði mál þetta og krafðist þess að henni yrði einni dæmd forsjá barnanna. Eins og þar kemur fram var ætlun áfrýjanda og sambýlismanns hennar að flytja búferlum með börnin til [...] þar sem sambýlismaðurinn hugðist leggja stund á [...]. Niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómendum, var sú að aðilar skyldu áfram fara sameiginlega með forsjá barnanna en þau eiga lögheimili hjá móður, auk þess sem mælt var fyrir um umgengni stefnda við þau með tilgreindum hætti. Í gögnum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt kemur fram að sambýlismaður áfrýjanda hafi haldið utan til náms í júní 2017. Hún hafi hins vegar orðið eftir hér á landi ásamt ungri dóttur þeirra og börnum hennar og stefnda, en auk þeirra búi eldri dóttir áfrýjanda á heimilinu.
II
Í hinum áfrýjaða dómi er rakin matsgerð G sálfræðings 5. maí 2017 sem aflað var undir rekstri málsins í héraði. Að beiðni áfrýjanda var aflað viðbótarmats sálfræðingsins í tengslum við áfrýjun málsins til Hæstaréttar. Var þess óskað að matsmaður ræddi að nýju við aðila og eldri börn þeirra, A og B, í því skyni að meta hvort hagir þeirra, tengsl og önnur atriði sem skipt gætu máli við ákvörðun um hvernig skipa skyldi forsjá, hefðu breyst frá fyrra mati. Í niðurstöðum viðbótarmatsgerðar 27. nóvember 2017 sagði að samskipti aðila væru slæm og þar væntanlega við bæði að sakast. Fram kom að aðilar ættu samskipti vegna barnanna með síma- og tölvuskilaboðum. Stefndi hafi greint matsmanni frá því að hann hafi rétt áfrýjanda sáttarhönd eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir með því að setja stöðufærslu á Facebook. Hann hafi hins vegar ekki hringt í hana eða reynt að ræða við hana. Fram kom að matsmaður teldi stefnda skorta dómgreind á stöðu og alvarleika málsins, enda væru samfélagsmiðlar ekki vettvangur sátta í viðkvæmu máli sem þessu. Nokkuð skorti á samvinnu aðila, sem að mestu yrði rakið til slæms samskiptamynsturs þeirra. Stefndi virtist setja sig inn í mál barnanna að einhverju leyti, að minnsta kosti því sem lyti að námi þeirra, en ekki hlúa eins vel að tómstundum og félagslífi. Þar sem börnin væru að komast á þann aldur að félagslegir þættir vegi þyngra en áður hafi þetta komið nokkuð niður á þeim. Þá þyrfti áfrýjandi að gæta þess að upplýsa stefnda vel og tímanlega um það sem börnin varði. Það samrýmdist ekki hagsmunum barnanna hvernig samskiptum aðila væri nú háttað.
Þá sagði í viðbótarmatinu að umhugsunarefni væri hvað tengslamyndun barnanna við stefnda væri tvíbent. Þeim þætti vænt um hann en liði hins vegar ekki sérlega vel hjá honum. Þeim fyndist hann sinna sér illa og stýra hlutum út frá eigin forsendum frekar en að horfa til þarfa þeirra. Áfrýjandi virtist vera mun virkari þátttakandi í lífi barnanna og nálgast þarfir þeirra á innihaldsríkari hátt en stefndi. Þá skipti máli hvað börnin hefðu sterk og heilbrigð tengsl við fósturföður sinn, sem jafnframt væri líffræðilegur faðir hálfsystur þeirra. Í viðtölum matsmanns við börnin hafi ítrekað komið fram að hann væri mikilvægur í lífi þeirra og hafi þau verið farin að telja dagana þar til hann kæmi til landsins í jólafrí. Taldi matsmaður að einnig ætti að líta til tengslamyndunar barnanna við fósturföður þegar teknar væru ákvarðanir í málinu. Það þjónaði ekki hagsmunum barnanna að búa við þær aðstæður sem nú væru uppi. Vegna tengslamyndunar barnanna við áfrýjanda og fósturföður þjónaði það heldur ekki hagsmunum þeirra best að verða eftir hér á landi hjá stefnda ef áfrýjandi færi til dvalar ytra. Í ljósi málsins í heild væri það álit matsmanns að farsælast væri fyrir börnin að fara utan með móður sinni en um leið þyrfti að tryggja að samskipti við föður yrðu sem ríkulegust og allar skynsamlegar leiðir nýttar til þess. Sú niðurstaða væri byggð á þeirri forsendu að ætlun áfrýjanda væri að snúa aftur til Íslands þegar námi sambýlismanns hennar lyki.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram ný gögn er varða námsvist sambýlismanns áfrýjanda við tiltekið [...] á [...]. Samkvæmt þeim gögnum hefur honum ekki verið tryggð sérfræðingsstaða [...] að loknu námi. Hins vegar liggur fyrir staðfesting [...] á því að sambýlismanninum hafi verið boðið [...] eftir útskrift. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram hjá lögmanni áfrýjanda að um 25 mánuðir væru nú eftir af áætluðum námstíma sambýlismannsins.
III
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 skal dómari kveða á um hvernig forsjá barns eða lögheimili skuli háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Þá kemur fram að við mat á því skuli meðal annars litið til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla þess við báða foreldra og skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar getur dómari ákveðið að annað foreldri fái forsjá barns. Þá getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Við mat á því hvort forsjáin skuli vera sameiginleg ber dómara, auk þeirra atriða sem nefnd eru í 2. mgr., að taka mið af því hvort forsjá hafi áður verið sameiginleg og aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar.
Heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá foreldra var lögfest með 13. gr. laga nr. 61/2012, um breytingu á barnalögum, en tillaga um hana kom fram í meðförum Alþingis á frumvarpi til breytingalaganna. Í nefndaráliti kemur fram að lögð sé áhersla á að dómara beri aðeins að dæma sameiginlega forsjá ef fyrir liggur að um jafnhæfa forsjárforeldra sé að ræða, ágreiningur þeirra á milli sé ekki svo djúpstæður að hann sé líklegur til að hafa áhrif á barnið, að foreldrarnir séu líklegir til að geta unnið í sameiningu að velferð barnsins og síðast en ekki síst að í hverju tilfelli fari fram mat á því hvort sameiginleg forsjá sé barni fyrir bestu. Þótt líta beri til þess hvort forsjá hafi áður verið sameiginleg er í nefndarálitinu áréttað að það beri ekki að skilja þannig að sérstaklega ríka ástæðu þurfi til að sameiginlegri forsjá verði slitið heldur þurfi að fara fram heildstætt mat hverju sinni. Sé ágreiningur foreldra þannig að ætla megi að hann stríði gegn hagsmunum barns beri ekki að dæma sameiginlega forsjá. Þá megi raunar einnig telja að forsenda þess að dómara sé fært að dæma sameiginlega forsjá sé að ágreiningur foreldra lúti að tiltölulega veigalitlum atriðum.
Við mat á því hvernig forsjá barna aðila skuli skipað verður ekki litið fram hjá því að framburður aðila fyrir dómi og gögn málsins bera með sér að samskiptavandi þeirra sé mikill. Jafnframt er fram komið að sá vandi hefur aukist til muna eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Þannig kom fram í viðtölum aðila við matsmann vegna viðbótarmats að þau ræði ekki saman um málefni barnanna, heldur skiptist á síma- og tölvuskilaboðum þegar nauðsyn beri til. Þá hefur samstarf þeirra um uppeldi barnanna ekki gengið vel. Samkvæmt framansögðu og þá einkum með hliðsjón af niðurstöðu viðbótarmatsgerðarinnar er fram komið að samskiptavandi aðila og skortur á samvinnu þeirra í milli sé slíkur að forsendur sameiginlegrar forsjár þeirra með börnunum þremur séu brostnar. Er þá einkum horft til þeirra sjónarmiða sem reifuð eru í 4. mgr. 34. gr. barnalaga og lögskýringargögnum með lögum nr. 61/2012 sem að framan greinir.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var það niðurstaða matsgerðar að báðir aðilar væru hæfir til að fara með forsjá barnanna en að veikleikar væru á forsjárhæfni stefnda. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi lagði matsmaður áherslu á að þótt stefndi væri hæfur til að fara með forsjá barnanna þyrfti hann að vinna með samskipti þeirra. Í forsendum dómsins er rakið að stefndi hafi virst átta sig á vandanum og lýst einlægum vilja til þess að vinna að því að vera í góðum samskiptum og tengslum við börnin og sækja tíma hjá sálfræðingi í því skyni. Í viðtali matsmanns við eldri börnin tvö vegna viðbótarmats sagðist hvorugt þeirra hins vegar upplifa neina breytingu á stefnda eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir. Hann væri enn strangur við þau og leyfði þeim ekki að hringja í móður sína þegar þau væru hjá honum í umgengni. Þá merkti matsmaður einkenni depurðar og uppgjafar hjá drengnum þegar hann lýsti sambandi sínu við stefnda. Hjá báðum börnunum hafi komið fram ótti við að stefndi fengi upplýsingar um hvað þau létu uppi um þetta.
Það var afdráttarlaus niðurstaða matsmanns að hæfni áfrýjanda til að fara með forsjá barnanna væri meiri en stefnda. Jafnframt kom fram í viðbótarmatsgerð að tengsl barnanna við fósturföður þeirra væru sterk og heilbrigð. Þá hafa áfrýjandi og sambýlismaður hennar byggt saman upp fjölskyldu sem er börnunum afar mikilvæg. Áform áfrýjanda um að flytja tímabundið til [...] með börnin geta ein og sér ekki leitt til þess að hafnað verði kröfu hennar um forsjá þeirra. Í viðtölum matsmanns við eldri börnin tvö kom jafnframt fram skýr vilji þeirra til að flytjast búferlum með fjölskyldunni. Þá eru engar vísbendingar um annað en að áfrýjandi muni leggja sig fram við að tryggja eins ríkulega umgengni stefnda við börnin og kostur er.
Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaðan að það samrýmist best högum og þörfum barnanna A, B og C, að áfrýjandi fari ein með forsjá þeirra. Verður því fallist á kröfu hennar þess efnis.
Áfrýjandi gerir jafnframt kröfu um að kveðið verði nánar á um inntak umgengni barnanna við stefnda, þar með talið ef til búferlaflutnings kemur. Ekki eru efni til að breyta því fyrirkomulagi um umgengni sem ákveðið var með hinum áfrýjaða dómi.
Ef til þess kemur að börnin dvelji erlendis á því rúmlega tveggja ára tímabili 2018 til 2020 sem fyrirhugað er skal stefndi eiga samfellda umgengni við börnin að lágmarki tvisvar á ári á Íslandi. Skal umgengni um jól og áramót vera að lágmarki í þrjár vikur og að lágmarki í þrjár vikur í sumarleyfum. Þá skal stefndi eiga kost á vikulegum myndsímtölum við börnin, auk þess sem hann skal eiga þess kost samkvæmt nánara samkomulagi við áfrýjanda að hitta þau ytra á þeim tíma sem þau dvelja þar. Kostnaður af ferðalögum barnanna í og úr umgengni við stefnda skal skiptast jafnt á milli aðila, þar á meðal kostnaður af nauðsynlegri fylgd annarra en aðila sjálfra í flugi.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, K, skal fara með forsjá barnanna A, B og C frá uppsögu dóms þessa að telja til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um umgengni stefnda, M, við börnin skal vera óraskað.
Flytjist áfrýjandi og börnin búferlum til [...] og dvelji þar í um tveggja ára skeið árin 2018 til 2020 skal stefndi eiga umgengni við börnin að lágmarki tvisvar á ári. Skal umgengni um jól og áramót og í sumarleyfum vera samfelld og að lágmarki þrjár vikur í senn. Þá skal stefndi eiga kost á vikulegum myndsímtölum við börnin, auk þess að hitta þau ytra samkvæmt nánara samkomulagi við áfrýjanda. Kostnaður af ferðalögum barnanna í og úr umgengni við stefnda skal skiptast jafnt á milli aðila, þar á meðal kostnaður af nauðsynlegri fylgd annarra en aðila sjálfra í flugi.
Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 1.200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júlí 2017.
Mál þetta var höfðað 12. desember 2016 og dómtekið 3. júlí 2017. Stefnandi er K, [...], [...]. Stefndi er M, [...], [...].
Dómkröfur stefnanda eru þær að hún fái forsjá barna aðila: A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...]. Einnig er þess krafist að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá barnanna. Auk þess er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefndi gerir einnig þá kröfu að málsaðilum verði dæmd sameiginleg forsjá barna þeirra, A, B og C, og að umgengni verði ákvörðuð þannig að stefndi sæki börnin annan hvern fimmtudag í skóla og skili þeim aftur þangað á mánudagsmorgni. Börnin skuli dvelja hjá stefnda fjórar vikur á hverju sumri og til skiptis hjá stefnanda og stefnda um páska, jól og áramót. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Málsatvik eru þau að aðilar hófu sambúð sumarið 2005. Þau eiga saman þrjú börn, A, fæddur [...] 2007, B, fædd [...] 2009 og C, fæddur [...] 2011. Fyrir átti stefnandi dóttur, D, fædd í [...] 1999. Aðilar slitu samvistum í febrúar 2012. Samkvæmt staðfestu samkomulagi hjá sýslumanni, dags. 20. mars 2012, voru þau sammála um að fara áfram sameiginlega með forsjá barnanna, sbr. 1. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 76/2003, en lögheimili barnanna skyldi vera hjá stefnanda. Þá skyldi stefndi greiða einfalt meðlag með börnunum. Einnig hefur verið samkomulag um umgengni.
Stefnandi kynntist núverandi sambýlismanni sínum, E, árið 2013. Þau hófu sambúð í ágúst 2014 og eiga saman eina dóttur, F, fædd í [...] 2015. Þau búa að [...] í [...]. Stefnandi er [...] og starfar á [...]. Sambýlismaður stefnanda er [...].
Í stefnu málsins segir stefnandi að það sé ætlun fjölskyldunnar að fara saman til [...] og dvelja þar í tvö ár, en sambýlismaður stefnanda sé nú hálfnaður [...] og þurfi að ljúka því í [...], en það séu tvö og hálft ár eftir af náminu. Þannig muni hann dvelja hálfu ári lengur en fjölskyldan á [...].
Fyrir liggur bréf sem stefnandi og sambýlismaður hennar sendu stefnda, dags. 19. júní 2016, þar sem þess var farið á leit að stefnandi veitti samþykki sitt fyrir því að börnin flytji með þeim til [...]. Í bréfinu segir að ef allt gengi upp gætu þau farið um haustið, sennilega í nóvember. Það sem þau hefðu hugsað sér væri að börnin gætu verið hjá stefnda í allt að sex vikur samfellt á ári, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar og þau myndu fljúga börnunum og stefnda í rauninni hvert sem er, t.d. ef stefndi vildi vera með þeim á [...]. Þau myndu svo sækja börnin og fljúga stefnda heim. Þetta þyrfti að gerast í samvinnu við skólann hjá börnunum úti. Skólaárinu væri skipt í fjórar annir, 9-11 vikur að lengd, og tveggja vikna frí á milli. Svo væri langt frí frá miðjum desember og fram í byrjun febrúar og stefndi gæti tekið það allt. Annars mætti örugglega semja um eitthvað annað, en samt þannig að börnin misstu ekki of mikið úr skóla. Einnig kom fram í bréfinu að þau væru tilbúin til að skrifa undir skjöl til að tryggja að þau væru ekki að fara með börnin til frambúðar. Einnig sagði í bréfinu: „Við erum mjög ánægð með samskipti okkar við þig eins og þau eru og viljum ekki breyta því.“ Að lokum sagði í bréfinu að þau þyrftu að gefa [...] svar helst innan viku.
Stefndi hafnaði málaleitan stefnanda. Stefnandi leitaði þá til lögmanns og með bréfi lögmanns, dags. 30. júní 2016, var þess farið á leit að stefndi gengi frá samkomulagi þess efnis að börnin fari til [...] og búi þar í tvö ár. Sem hluta af því samkomulagi kvaðst stefnandi reiðubúin til að greiða fyrir stefnda/börnin fargjald tvisvar sinnum á umræddu tímabili svo að umgengni mætti vera allt að sex vikur hvort sinn. Þá gæfist stefnda kostur á að hitta börnin oftar á þessu tímabili ef hann óskaði þess. Í tölvuskeyti lögmanns stefnda 8. júlí 2016 kom fram að stefndi gæti ekki sæst á að börn hans flytji úr landi og að hann teldi það ekki börnunum fyrir bestu, en stefndi væri tilbúinn til að ræða möguleika sem gætu stuðlað að lausn málsins, án þess að til þess þyrfti að koma að börnin flytji úr landi. Sættir tókust ekki með aðilum og var hinn 11. nóvember 2016 gefið út hjá sýslumanni vottorð um sáttameðferð skv. 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003, þess efnis að sættir hefðu ekki tekist með aðilum. Var málinu vísað frá sýslumanni með bréfi 14. nóvember 2016. Stefnandi höfðaði í kjölfarið mál þetta.
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar í stefnu á því að forsendur fyrir sameiginlegri forsjá séu brostnar þar sem stefndi meini stefnanda að fara með börnin til [...] og dvelja þar um tveggja ára skeið, þrátt fyrir boð um greiðslu fargjalda fyrir börnin til Íslands. Vegna þessa sé stefnanda nauðsynlegt að leggja fram kröfu um fulla forsjá barnanna.
Stefnandi telur að hún sé hæfari en stefndi til að fara með forsjá barnanna. Börnin hafi alfarið búið hjá henni síðastliðin tæp fimm ár eða frá því aðilar slitu samvistum í ársbyrjun 2012.
Stefnandi kveðst búa í góðu húsnæði sem hún og sambýlismaður hennar eigi að [...] í [...]. Þau ætli ekki að selja fasteignina þar sem þau muni flytja aftur í hana þegar þau komi aftur til landsins eftir tveggja ára dvöl í [...]. Skóli og leikskóli séu í nágrenninu sem og vinir barnanna. Stefnandi og sambýlismaður hennar séu með góða menntun og tekjumöguleika. Stefnandi geti og hafi boðið börnunum öryggi hvað varðar búsetu, fjárhag og stöðugleika, auk tengsla og stuðnings stóru systur.
Stefnandi telur að börnin séu vel tengd henni. Stefnandi hafi annast þau og sinnt þeim öllum vel allt frá fæðingu þeirra. Stefnandi telur það einlægan vilja barnanna að búa áfram hjá sér og fara með þeim til [...] um tveggja ára skeið, en sú dvöl muni að mati stefnanda veita börnunum gott tækifæri sem fáum börnum standi til boða. Þau muni kynnast annarri menningu, nýju landi, annarri veðráttu og læra nýtt tungumál.
Stefnandi telur sig afar ábyrga, trausta, ástríka og góða móður, sem njóti liðsinnis sambýlismanns og eldri systur barnanna.
III.
Stefndi byggir á því í greinargerð sinni að í gildi sé staðfest samkomulag um forsjá barna aðila frá 20. mars 2012, þar sem kveðið sé á um að forsjá barnanna skuli vera sameiginleg með aðilum. Engin efni séu til að breyta þeim samningi. Stefndi kveður að af öllum málatilbúnaði stefnanda megi ráða að einungis ein ástæða búi að baki kröfu hennar um að henni verði falin forsjá barnanna. Hún sé sú að stefndi hafi ekki viljað samþykkja að börnin flytji af landi brott til [...], þar sem sambýlismaður stefnanda sé nú þegar í námi [...]. Stefndi telur að þarna ráði hagsmunir barnanna ekki för. Að baki kröfunni búi eingöngu áhugi stefnanda á því að búa í [...], á meðan sambýlismaður hennar lýkur námi og hugsanlega lengur. Slík ástæða geti ekki með nokkru móti talist forsendubrestur á gildandi samkomulagi sem réttlæti það að stefndi verði sviptur forsjá barna sinna.
Stefndi mótmælir því að stefnandi sé hæfari en hann til að fara með forsjá barnanna. Aðilar hafi alla tíð farið sameiginlega með forsjá barnanna og hafi það fyrirkomulag gefist mjög vel. Gögn málsins styðji þá fullyrðingu stefnda, sbr. bréf stefnanda 19. júní 2016, en þar segi stefnandi um samskipti hennar við stefnda vegna barnanna: „Við erum mjög ánægð með samskipti okkar við þig eins og þau eru og viljum ekki breyta því. Við gerum okkur því grein fyrir að þetta gæti komið eins og þruma úr heiðskýru lofti.“
Stefndi telur sig mjög hæfan sem faðir og hann hafi alla tíð sinnt börnunum vel og sýnt þeim umhyggju og virðingu. Stefndi taki virkan þátt í þeirra daglega lífi og eigi þau sitt heimili hjá honum.
Stefndi og börn hans séu mjög náin, sambandið gott og tengslin sterk. Stefndi sé mjög duglegur að styðja börnin í íþróttaiðkun þeirra, hann mæti á æfingar og langflesta leiki og viðburði. Þá hafi stefndi reynt að styðja við börn sín í skólanum eftir fremsta megni. Það sé því augljóslega börnunum fyrir bestu að eiga áfram gott samband við föður sinn, þ.e.a.s. óbreytt ástand.
Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda að börnin hafi alfarið búið hjá henni síðastliðin tæp fimm ár, eða frá því að aðilar slitu samvistir í ársbyrjun 2012. Stefndi bendir á að börnin hafi búið hjá honum í samræmi við gildandi samkomulag um umgengni, þ.e. frá fimmtudegi til mánudags, aðra hvora viku, fjórar vikur yfir sumarið, og helminginn af helgidögum og skólaleyfum. Þá hafi stefndi verið með börnin þegar frídagar hafi verið í leikskólum og skólum. Einnig hafi stefndi verið með börnin umfram umsaminn umgengnistíma í 2-4 vikur í senn, sumrin 2012, 2013 og 2014, þegar stefnandi hafi ýmist verið erlendis eða í orlofi. Stefndi telur að hann hafi verið með börnin í um 140 daga á ári, sem samsvari meira en þriðjung úr ári. Fullyrðing stefnanda um að börnin hafi alfarið búið hjá henni sé því beinlínis röng.
Þá segir stefndi að málsástæður stefnanda um að hún og börnin búi í góðu húsnæði sem þau eigi að [...], í grennd við skóla og leikskóla, vini barnanna og að ekki standi til að selja fasteignina meðan á dvölinni erlendis stendur, séu haldslausar. Að sama skapi sé haldlaust að halda því fram að stefnandi og sambýlingur hennar séu með góða menntun og tekjumöguleika og þau geti boðið börnunum öryggi hvað varðar búsetu, fjárhag og stöðugleika. Stefndi telur óljóst hvaða tilgangi lýsing á fjölskylduaðstæðum stefnanda hér á landi þjóni í ljósi þess að markmið stefnanda sé að flytja til [...]. Þá bendir stefndi á að stefnandi sé ekki skráður eigandi að fasteigninni að [...], og því beinlínis rangt sem fram komi í stefnu að hún eigi fasteignina. Stefnandi sé því upp á sambýlismann sinn kominn hvað varðar húsnæði fyrir sig og börnin. Þá ætli stefnandi að vera heimavinnandi á meðan hún dvelji í [...] og sé hún því að sama skapi þá væntanlega undir sambýlismanni sínum kominn hvað varði framfærslu. Engin gögn hafi verið lögð fram um húsnæði né aðrar aðstæður þar sem stefnandi hyggst dvelja með börnin í [...].
Stefndi mótmælir fullyrðingu stefnanda um að það sé einlægur vilji barnanna að fara til [...] um tveggja ára skeið. Stefndi hafi rætt við börn sín um þann möguleika og virðist honum sem ferðin hafi verið kynnt fyrir börnunum sem einhvers konar ævintýraferð. Eftir að stefndi hafi útskýrt fyrir börnunum að hlutirnir myndu breytast gagnvart honum, og að umgengnistími yrði verulega skertur flyttust þau á brott, hafi börnin alls ekki viljað fara út. Annars telur stefndi að börnin séu á þeim aldri að þau hafi takmarkaðan skilning á því sem sé í vændum og þau hafi takmarkaðan þroska til að tjá sig um vilja sinn í þessum efnum.
Stefndi mótmælir einnig þeirri málsástæðu stefnanda að dvöl í [...] sé gott tækifæri sem fáum börnum standi til boða. Stefndi ítrekar þá afstöðu sína að hann telji þessa ráðagerð alls ekki þjóna hagsmunum barnanna og betra sé fyrir börnin að alast áfram upp á Íslandi í þeim góðu aðstæðum sem þau búi við í dag. Þá brjóti ráðagerð þessi beinlínis gegn 1. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að barn eigi rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða. Börnin eigi skýlausan rétt á því að njóta áfram forsjá stefnda og þeirrar umhyggju og virðingu sem hann hafi sýnt þeim allt frá fæðingu. Krafa stefnanda um að fá gildandi forsjársamning felldan úr gildi, þar sem það henti henni ekki tímabundið að fara sameiginlega með forsjána, stuðli að því að rjúfa tengsl barnanna við föður sinn. Fyrirsjáanlegt sé að tengslin muni rofna, enda fjarlægðin mikil sem og tímamismunur milli landanna. Erfitt sé að eiga samskipti við svo ung börn í gegnum fjarskiptabúnað. Stefndi bendir einnig á að stefnandi hafi oft á tíðum átt erfitt með að standa við umsamda umgengni. Hafi hún oft breytt eða reynt að breyta umgengnistímum stefnda við börnin án þess að bera það sérstaklega undir hann. Þá myndi þessi ráðagerð einnig rjúfa tengsl barnanna við stórfjölskyldu þeirra og vini hér á Íslandi. Börnin séu í góðum tengslum við föðurfjölskyldu sína, einkum ömmu sína og afa, sem og systkinabörn stefnda.
Stefndi telur að engin trygging sé fyrir því að stefnandi komi aftur til Íslands með börnin, fallist dómurinn á kröfu hennar um að hún fari ein með forsjána. Sambýlismaður hennar hafi til að mynda lýst því með afgerandi hætti, svo ekki verði um villst, að áhugi hans til að starfa í íslensku heilbrigðiskerfi sé enginn. Sú raunverulega hætta sé því til staðar að stefnandi komi ekki aftur til Íslands með börnin, sem myndi þýða að tengsl þeirra við föður sinn myndu aldrei verða söm aftur. Stefndi telur einnig að það væri börnunum fyrir bestu ef sambýlismaður stefnanda tæki þann fórnarkostnað á sig að fljúga á milli til að vera með fjölskyldunni sinni. Slík tilhögun hefði í för með sér mun minna rask fyrir börn málsaðila. Þá hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn þess að sambýlismaðurinn ljúki námi í [...]. Námið sé kennt víðar og því ekki brýn nauðsyn á að hann dvelji þar í landi. Hins vegar sýni þetta vilja hans í verki til að sækjast eftir starfi þar í landi og því sé harla ólíklegt að hann komi aftur til Íslands, takist stefnanda að flytja börnin á brott.
Stefndi telur að hagsmunum barnanna sé best borgið með sem minnstri röskun á þeirra högum. Stefndi bendir í því samhengi á að börnunum gangi vel í skóla, leikskóla og félagsstarfi. Þau eigi góða foreldra sem bæði séu mjög hæf til að sinna þeim og styðji þau eftir bestu getu og á sinn hátt. Stefndi telur að börnin búi við stöðugleika og öryggi, eins og málum sé háttað í dag. Börnin séu tengd báðum foreldrum sínum sterkum böndum. Þá telur stefndi það vera skyldu sína að tryggja rétt barnanna til umgengni við sig og geti hann því ekki heimilað að börnin flytjist búferlaflutningum til [...]. Í því myndi felast að börnin yrðu tekin upp með rótum úr því góða umhverfi sem þau búi við í dag. Tengsl þeirra við fjölskyldu og vini á Íslandi myndu raskast til muna og með öllu óvíst hvernig þau myndu aðlagast lífinu svo óra fjarri heimahögunum. Stefndi bendir á að elsta barn þeirra, A, sé frekar viðkvæmur strákur, sem hafi á tímabili átt í erfiðleikum í skólanum með námið. Hann hafi þó náð sér á strik í dag og sé á góðum stað með aðstoð sérkennara. Því kæmi brottflutningurinn hvað verst niður á honum, þ.e. að fara að taka hann úr því góða umhverfi sem hann hafi nú fundið og setja hann í nýjar og gjörólíkar aðstæður.
Með vísan til alls framangreinds er það álit stefnda að ekki sé nein ástæða til þess að gera breytingu á forsjá barnanna, heldur sé hagsmunum þeirra best borgið með því að málsaðilar fari áfram sameiginlega með forsjá þeirra og að lögheimili þeirra verði hjá stefnanda, svo sem verið hafi frá því aðilar slitu sambúð sinni. Í þessu samhengi vísar stefndi til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem lögfestur hafi verið hér á landi með lögum nr. 19/2013, sbr. 1. mgr. 3. gr. samningsins, en þar segi að dómstólar skuli ávallt hafa í forgangi það sem er barni fyrir bestu við ráðstafanir sem varða börn, sbr. einnig 2. mgr. 34. gr. barnalaga.
Stefndi leggur áherslu á eðlilega umgengni sína við börnin með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Telur stefndi það börnunum fyrir bestu að vera í fastri rútínu, þannig að þau dvelji hjá stefnanda að jafnaði, en dvelji hjá honum aðra hvora helgi frá fimmtudegi eftir skóla/leikskóla til mánudagsmorguns, þegar börnin fari í skóla/leikskóla. Að sumri dvelji börnin hjá stefnda í fjórar vikur samkvæmt nánara samkomulagi sem aðilar skuli gera fyrir 15. maí ár hvert. Á meðan víkur regluleg umgengni. Á aðfangadegi og jóladegi dvelji börnin til skiptis hjá stefnda og stefnanda, þannig að þau dvelji í fyrsta skipti hjá stefnda árið 2017 frá hádegi á Þorláksmessu og fram til morguns á jóladag, en dvelji hjá stefnanda á jóladag fram á hádegi annan í jólum, og svo öfugt. Um áramót dvelji börnin til skiptis hjá stefnda og stefnanda, í fyrsta skipti hjá stefnanda árið 2017, frá hádegi 30. desember til hádegis á nýársdag, og svo öfugt. Um páska dvelji börnin til skiptis hjá stefnda og stefnanda, þannig að það dvelji í fyrsta skipti hjá stefnda árið 2017, en hjá stefnanda um páskana 2018 og þannig koll af kolli. Með öðrum orðum að ástandið verði óbreytt frá núgildandi samkomulagi um umgegni málsaðila.
Stefndi segir að það sé ágreiningslaust að börnin geti verið áfram með lögheimili hjá stefnanda, kjósi hún að búa hér á landi. Stefndi hafi þó allt frá upphafi málsins boðið stefnanda upp á þá lausn að börnin geti búið hjá honum, meðan á þessu tveggja ára tímabili stendur, kjósi hún að flytja út til sambýlismanns síns. Forsjáin verði eftir sem áður sameiginleg. Stefndi hafi því engan áhuga á því að standa í vegi fyrir utanför stefnanda. Stefndi telur þessa lausn hafa mun minna rask í för með sér fyrir börnin heldur en kröfur stefnanda um breytingu á forsjánni og í kjölfarið búferlaflutningar til [...] með börnin.
Hvað varðar umgengniskröfu stefnanda, þ.e. að dómari kveði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fái forsjána, segir stefndi að hún sé sett fram líkt og ekkert samkomulag liggi fyrir um forsjá barnanna og að nauðsynlegt sé fyrir dómara að velja annað hvort foreldrið til að fara með forsjá barnanna. Dóminum sé heimilt að dæma foreldrum sameiginlega forsjá, líkt og stefndi geri kröfu um, sbr. 3. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þess fyrir utan sé vandkvæðum bundið fyrir dóminn að kveða á um umgegni stefnda við börnin út frá þeirra hagsmunum, fallist hann á annað borð á kröfu stefnanda um að hún fái forsjá barnanna. Ástæðan fyrir því sé sú að ekkert liggi fyrir í gögnum málsins um frí barnanna frá skóla/leikskóla í [...], annað en óljósar hugmyndir stefnanda um hvernig skólakerfið þar í landi virki. Kröfugerðin beri því með sér að stefnandi hafi ekki nákvæma vitneskju um hvernig fríum barnanna verði háttað og þar með hvenær hentugast sé að umgengni stefnda við börnin verði. Gögn málsins beri þetta jafnframt með sér.
Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. aðallega 130. gr. laganna. Við ákvörðun málskostnaðar beri að líta til þess að stefndi sé ekki með virðisaukaskattskylda starfsemi og sé því nauðsynlegt að tekið verði tillit til þess kostnaðar við ákvörðun á fjárhæð dæmds málskostnaðar. Vísast í því samhengi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV.
Í þinghaldi 10. febrúar 2016 var að beiðni stefnanda dómkvaddur matsmaður, G sálfræðingur.
Í niðurstöðum matsgerðar, dags. 5. maí 2017, segir að aðstæður beggja aðila til barnauppeldis séu góðar. Ekki hafi verið gerð úttekt á væntanlegum aðstæðum móður í [...], enda hafi þess ekki verið óskað á matsfundi. Faðir og móðir hafi bæði góða menntun og góðar tekjur og ættu að hafa fjárhagslega burði til að skapa sér og sínum góða framtíð.
Um forsjárhæfni aðila segir matsmaður að báðir aðilar hafi komið vel fyrir í samskiptum við matsmann. Á persónuleikaprófi hafi móðir haft tilhneigingu til sjálfsfegrunar en þetta hafi þó verið innan skikkanlegra marka. Próf bendi til þess að geðræn líðan móður sé góð. Sjálfsmat hennar virðist vera stöðugt og jákvætt. Hún sé bjartsýn og örugg og virðist hafa skýran tilgang með lífinu. Svör hennar gefi til kynna að hún sé opin, einlæg og sjálfri sér samkvæmt. Hún hafi sig ekki mikið í frammi en samt sé líklegt að félagsleg hæfni hennar sé með ágætum og að hún komi fyrir sem hlý og þægileg manneskja.
Á persónuleikaprófi hafi faðir haft tilhneigingu til sjálfsfegrunar og hann ekki gengist fyllilega við neikvæðum afleiðingum hegðunar sinnar. Fyrir vikið megi vera að hann geri lítið úr eða átti sig ekki fyllilega á gjörðum eða atvikum sem hafi haft neikvæð áhrif á líf hans eða annarra. Allir klínískir kvarðar hafi verið innan eðlilegra marka sem beri vott um góða geðræna líðan. Sjálfsmynd föður sé almennt stöðug og með jákvæðum formerkjum. Hann virðist vera sjálfsöruggur og bjartsýnn að eðlisfari. Samkvæmt svörum virðist hann öruggur með sig og fremur stjórnsamur. Það gæti verið að hann virki metnaðargjarn og ráðríkur á fólk. Honum virðist líða vel í félagslegum aðstæðum en sæki meira í aðstæður þar sem hann geti haft eitthvað um þær að segja og haft stjórnun á.
Í matsgerðinni segir að að heildarútkoma á persónuleikaprófi sé góð hjá báðum aðilum. Persónuleikar þeirra séu hins vegar ólíkir. Móðir sé hlý og þægileg í samskiptum og virðist ekki vera mjög krefjandi eða stjórnsöm. Faðir sé aftur á móti öruggur með sig, fremur stjórnsamur og leiti í aðstæður þar sem hann hafi töluverða stjórn þar á.
Þá kemur fram í matsgerðinni að helstu atriði forsjárhæfni séu ást, vernd, öryggi, líkamleg umönnun, atlæti, örvun, hvatning, stuðningur, fyrirmynd og tengsl. Einnig beri að líta til persónulegra eiginleika foreldra. Sé þetta haft til hliðsjónar sé ljóst að móðir uppfylli öll skilyrði og teljist forsjárhæfni hennar vera góð. Faðir uppfylli skilmerkin að hluta en samkvæmt upplýsingum frá börnunum sjálfum sé hann ekki alltaf styðjandi eða hvetjandi og töluverðir veikleikar komi fram í tengslamyndun þeirra til hans. Matsmaður telur samt ekki að um vanrækslu eða ofbeldi sé að ræða en eitthvað sé það í samskiptum hans við börnin sem megi fara betur. Í ljósi þessa verði að teljast einhverjir veikleikar á forsjárhæfni föður.
Um tengsl barnanna við foreldra sína segir í matsgerðinni að ekkert bendi til annars en að líðan barnanna sé góð í umsjón móður en margvísleg gögn bendi til þess að börnunum líði ekki nægilega vel hjá föður. Sérstaklega eigi það við um elsta barnið en einnig hafi fengist vísbendingar um vanlíðan hjá miðbarninu. Ekki var lagt tengslapróf fyrir yngsta barnið vegna ungs aldurs þess. Tengslamyndun við föður virðist vera tvíbent, a.m.k. hvað varðar eldri börnin. Þegar matsmaður hafi komið inn á heimili föður hafi ekki verið annað að sjá en að það færi vel á með öllum og að börnin væru örugg í kringum hann. Reyndar hafi mátt sjá eitt augnablik þar sem hik hafi komið á B þegar faðir hækkaði róminn. Börnin hafi tjáð matsmanni í viðtölum að þeim líði ekki alltaf vel hjá föður sínum þó að einnig megi merkja jákvæðar tilfinningar til hans. Fjölskyldupróf sem hafi verið lagt fyrir A gefi þá mynd að hann upplifi jákvæð samskipti við móður sína en neikvæð við föður. Hjá B hafi myndin ekki verið eins afgerandi, enda hafi allir í fjölskyldunni komið hlutfallslega vel út og flest neikvæð skilaboð verið sett til hliðar. Faðir hafi samt fengið fjögur neikvæð skilaboð og hafi innihald þeirra verið í samræmi við það sem kom fram í viðtali við B, þ.e. að hann geti öskrað og skammi o.fl. Gögn málsins gefi til kynna að tengslamyndun móður við börnin séu heilbrigð og gagnkvæm. Hins vegar séu brestir til staðar í tengslamyndun föður við börnin. Matsmaður kveðst upplifa föður einlægan í frásögn sinni og efast ekki um vilja föður til að standa sig vel í uppeldishlutverkinu gagnvart börnum sínum en það sé erfitt að líta fram hjá niðurstöðum sem hafi fengist í þessu mati úr mörgum áttum. Hugsanlega skorti föður innsýn í þennan vanda og að hann átti sig ekki alltaf fyllilega á neikvæðum afleiðingum hegðunar sinnar á aðra.
Hvað varðar vilja barnanna segir í matsgerðinni að vilji A og B sé skýr. Þau vilji bæði vera meira hjá móður sinni og hafi vart getað hugsað sér annað form þar á. Þetta hafi komið fram í viðtali hjá þeim báðum og einnig að þau myndu frekar vilja draga úr þeim tíma sem þau séu hjá föður sínum fremur en að auka hann. Ekki hafi verið gert mat á yngsta barninu vegna ungs aldurs. Matsmaður tekur undir það viðhorf föður að börnin hafi ekki nægilegan þroska eða aldur til að skilja hvað búseta í öðru landi feli fyllilega í sér. Þau hafi hins vegar skilning á því hvað það feli í sér að búa annars vegar hjá móður og hins vegar hjá föður og sé ljóst að vilji þeirra sé mjög afgerandi hvað það varðar.
Þá segir matsmaður að þær niðurstöður sem hafi fengist í þessu mati bendi til mikillar innri togstreitu og vanlíðunar hjá A. Það sé erfitt að átta sig fyllilega á því hvað veldur eða hver sé undirliggjandi rót þessarar vanlíðunar. Það sé hins vegar ljóst að það þurfi að gefa þessu áfram gaum og hjálpa honum til þess að vinna úr þessu betur. A sé með eðlislægan kvíða og sé einnig mjög háður móður sinni. Viðskilnaður við hana myndi reynast honum verulega þungbær. Samband við föður sé hins vegar flókið og séu þessar tilfinningar sem hann ber til hans eflaust mjög íþyngjandi fyrir hann. Hann virðist bera tvíbentar tilfinningar til hans og eiga erfitt með að greiða úr þeim og ná sátt í eigin skinni. Það verði samt að teljast líklegast að A ýki vanlíðan sína hjá föður vegna þess hvað hann er háður móður sinni. Það samræmist a.m.k. grunsemdum sálfræðings sem hafi meðhöndlað drenginn. Engar vísbendingar hafi fundist um innrætingu af hálfu móður.
Að lokum segir í matsgerðinni að hver sem niðurstaðan verði varðandi búsetumál næstu árin sé það eindregið mat matsmannsins að það sé mikilvægt að vinna með tengsl þeirra feðga og draga úr þeirri spennu sem A upplifi í dag. Einnig að vinna með samskipti og tengsl föður við hin börnin, eða a.m.k. við B. Matsmaður efist ekki um einlægan vilja föður til þess að vera í góðum samskiptum við börn sín og að þeim líði vel hjá honum, en það virðist vera eitthvað í samskiptum við þau sem veldur vanlíðan hjá þeim.
V.
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 kveður dómari á um forsjá barns eða lögheimili eftir því sem barni er fyrir bestu. Þannig ber dómara í hverju einstöku máli að taka fyrst og fremst mið af þörfum barns og verður niðurstaða að ráðast af því sem líklegast er til að skapa barninu þroskavænleg skilyrði. Ber dómara við úrlausn mála m.a. að líta til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.
Þá segir í 3. mgr. 34. gr. barnalaga að dómari getur ákveðið að annað foreldra fái forsjá barns en dómari getur ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Ef dómari dæmir sameiginlega forsjá ber jafnframt að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili.
Í 4. mgr. 34. gr. barnalaga segir enn fremur að við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg ber dómara, auk atriða sem nefnd eru í 2. mgr., að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg og aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.
Eins og rakið hefur verið eiga málsaðilar saman þrjú börn, A sem er níu ára, B sem er átta ára og C sex ára. Aðilar slitu sambúð í febrúar 2012 og hafa alla tíð farið sameiginlega með forsjá barnanna. Stefnandi á einnig eina dóttur fædda í apríl 1999. Þá á stefnandi tæplega tveggja ára dóttur með núverandi sambýlismanni sínum. Stefnandi hefur leitað eftir samþykki stefnda fyrir tímabundinni dvöl barna þeirra á [...], þar sem sambýlismaður stefnanda er í [...] námi. Í aðilaskýrslu stefnanda fyrir dómi kom skýrt fram að hún myndi ekki flytja til [...] án barna aðila. Þá kom fram fyrir dómi að elsta dóttir stefnanda muni ekki flytja með þeim nú til [...] þar sem hún sé í námi hér á landi en muni útskrifast vorið 2018.
Flutningur á milli landa, sérstaklega þegar um jafn mikla fjarlægð er að ræða og í máli þessu, hefur að jafnaði mikla röskun í för með sér fyrir barn, en stöðugleiki og öryggi eru meðal þeirra lykilsjónarmiða sem þykja til þess fallin að tryggja börnum þroskavænleg skilyrði. Af stefnu málsins og öðrum gögnum verður ekki annað ráðið en að eina ástæðan fyrir höfðun máls þessa, og kröfu stefnanda um að henni verði einni falin forsjá barnanna, sé sú að henni hefur ekki tekist að ná samkomulagi við stefnda um að börnin flytji tímabundið til [...]. Í bréfi stefnanda til stefnda, dags. 19. júní 2016, sagði stefnandi að stefndi gæti verið með börnin samfellt í sex vikur á ári og að hún væri tilbúin til að fljúga með börnin til Íslands, eða hvert sem er. Einnig kvaðst stefnandi reiðubúin til að skrifa undir skjöl til að tryggja að hún væri ekki að fara með börnin til frambúðar. Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 30. júní 2016, kvaðst stefnandi tilbúin til að greiða fyrir stefnda og börnin fargjald tvisvar sinnum á umræddu tímabili, þannig að umgengni gæti verið allt að sex vikur í hvort skipti. Þá gæti stefndi hitt börnin oftar á þessu tímabili ef hann óskaði þess. Þegar á reyndi var ekki vilji til þess hjá stefnanda. Dómurinn leitaði sátta með aðilum við aðalmeðferð málsins með hliðsjón af 106. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 76/2003. Við þær sáttaumleitanir var stefndi tilbúinn til að fallast á samkomulag þess efnis að börnin flytji með stefnanda í tvö ár til [...] en að börnin flytji þá aftur til Íslands, eins og stefnandi hefur lýst yfir að þau ætli að gera, og að stefnandi komi með börnin tvisvar til Íslands á umræddu tímabili. Í fyrra skiptið væri umgengni stefnda við börnin í tvær vikur og hitt skiptið í sex vikur, en stefnandi fengi þá samt sem áður umgengni við börnin í samtals sjö daga. Þá gæfist stefnda kostur á að hafa umgengni við börnin á [...] í 2-3 vikur í þrjú skipti á tímabilinu ef aðstæður hans leyfðu, en fram kom að það væri ólíklegt að til þess kæmi. Slíkt samkomulag hefði í raun gengið skemur en það sem stefnandi lagði til í bréfi 30. júní 2016. Eins og áður segir var málshöfðun stefnanda og krafa hennar um að henni verði einni falin forsjá barnanna einungis byggð á því að hún vildi flytja í tvö ár til [...] meðan sambýlismaður hennar væri í námi, en ekki á því að samstarfsörðugleikar væru milli málsaðila um börnin, eins og stefnandi hélt fram fyrir dómi þegar hún kvaðst ekki reiðubúin til að fallast á tillögu um samkomulag. Hvorki í stefnu né í öðrum gögnum málsins hefur verið sýnt fram á að ágreiningur aðila sé með þeim hætti að ekki sé forsenda fyrir því að aðilar hafi sameiginlega forsjá með börnum sínum.
Dómurinn fellst á efasemdir stefnda að ekki sé hægt að treysta því alfarið að stefnandi muni flytja aftur til Íslands eftir tvö ár, heldur að hún muni ílengjast þar með sambýlismanni sínum. Ljóst er að búseta barnanna í tvö ár á [...], og hvað þá lengur, myndi óhjákvæmilega leiða til þess að börnin missi tengsl við stefnda, enda eru börnin á viðkvæmum aldri og um mjög mikla fjarlægð að ræða milli landa.
Samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð G sálfræðings eru báðir aðilar hæfir til að fara með forsjá barnanna. Í matsgerðinni kemur hins vegar fram að veikleikar séu á forsjárhæfni stefnda, en matsmaður lagði áherslu á það í vitnaskýrslu sinni fyrir dómi að stefndi væri hæfur til að fara með forsjá. Það þurfi hins vegar að vinna með samskipti stefnda og barnanna, hver sem niðurstaða forsjármálsins verður. Það er ljóst að samband stefnda við börnin er viðkvæmt. A og B virðist finnast hann of strangur og ekki líða alltaf nægilega vel hjá honum. Þau hafa hins vegar líka jákvæðar tilfinningar til hans. B virðist vera jákvæðari gagnvart stefnda en A. Ekkert verður fullyrt um yngsta barnið, C, vegna ungs aldur. Matsmaður telur erfitt að átta sig á undirliggjandi rót vanlíðunar A. Drengurinn sé með eðlislægan kvíða og mjög háður stefnanda og ýki vanlíðan sína hjá stefnda vegna þess hversu háður hann sé stefnanda. Þetta fær stoð í bréfi sálfræðings til matsmanns, dags. 5. maí 2017, sem hefur haft drenginn til meðferðar vegna kvíða og lágs sjálfstraust. Fyrir dómi kvaðst stefndi ekki upplifa sig eins og fram kemur í matsgerðinni og sagði að viðhorf barnanna til hans hefði komið honum á óvart. Stefndi virtist átta sig á vandanum og lýsti einlægum vilja til þess að vinna að því að vera í góðum samskiptum og tengslum við börn sín og sækja tíma hjá sálfræðingi því til stuðnings.
Börnin hafa myndað sterk og varanleg geðtengsl við stefnda og munu þessi djúpu tengsl alla tíð gera stefnda að mikilvægri persónu í lífi þeirra. Dómurinn lítur svo á að það sé réttur barnanna og þjóni hagsmunum þeirra að viðhalda grunntengslum við stefnda á viðkvæmum tímum í lífi þeirra. Þar sem samband stefnda við börnin, alla vega A og B, virðist viðkvæmt er enn meiri hætta en ella á því að tengsl þeirra við stefnda rofni fái stefnandi ein forsjá barnanna og flytji með þau til [...], nema aðilar geti komist að samkomulagi um tímabundna dvöl barnanna á [...] og að þau vinni saman að því að byggja upp traust og tryggja umgengni eins mikið og aðstæður leyfa. Það er ekki á valdi dómsins að dæma slíkt fyrirkomulag en dómur kemur ekki í veg fyrir eða hindrar að aðilar geri sátt sín í milli enda væri slík sátt byggð á velferð og hagsmunum barnanna fyrst og fremst. Dómurinn telur að verið sé að búa til óþarfa ágreining og skerpa deilur á milli aðila með því að ná ekki sátt. Stefndi var tilbúinn að gefa eftir og sjá á eftir börnum sínum tímabundið til að friður og ró skapaðist um málið og til að reyna að styrkja samskiptin á milli aðila. Þá er ekki unnt að líta fram hjá því að börnin myndu einnig missa tengsl við ættingja hér á landi og vini sína, fái stefnandi ein forsjána og flytji með börnin. Vilji barnanna getur ekki ráðið niðurstöðu í máli þessu vegna ungs aldurs þeirra.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að það sé börnunum fyrir bestu að aðilar fari áfram sameiginlega með forsjá barnanna og að lögheimili þeirra verði hjá stefnanda, eins og verið hefur frá því aðilar slitu sambúð sinni.
Stefnandi gerir ekki kröfu um meðlag og verður það því ekki dæmt.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu verður umgengni ákveðin með eftirfarandi hætti:
Regluleg umgengni barnanna við stefnda skal vera aðra hverja viku frá fimmtudagseftirmiðdegi til mánudagsmorguns.
Börnin skulu vera önnur hver jól hjá stefnda, fyrst árið 2017, frá hádegi á Þorláksmessu fram til hádegis annan í jólum, og dvelji þá hjá stefnanda um áramót, frá hádegi 30. desember fram til hádegis nýársdag, og svo öfugt til skiptis hvert ár.
Á sumrin dvelji börnin hjá hvoru foreldri fyrir sig í fjórar vikur í senn. Regluleg umgengni fellur niður á meðan. Tími sumarleyfa skal vera ákveðinn hjá hvoru foreldri fyrir sig eigi síðar en 15. maí ár hvert. Sumarleyfi árið 2017 skal ákveðið í kjölfar dóms þessa.
Þá skulu börnin vera í páskaleyfum annað hvert ár hjá stefnda, frá hádegi á skírdegi til kvölds annars í páskum, fyrst árið 2019.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.
Með vísan til 1. mgr. 44. gr. barnalaga nr. 76/2003 er ákveðið að áfrýjun dómsins fresti ekki réttaráhrifum hans.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Guðfinnu Eydal sálfræðingi og Helga Viborg sálfræðingi.
D ó m s o r ð:
Stefnandi, K, og stefndi, M, skulu fara sameiginlega með forsjá barnanna, A, B og C. Lögheimili barnanna skal vera hjá stefnanda.
Börnin skulu dvelja hjá stefnda aðra hverja viku frá fimmtudagseftirmiðdegi til mánudagsmorguns.
Börnin skulu vera önnur hver jól hjá stefnda, fyrst árið 2017, frá hádegi á Þorláksmessu fram til hádegis annan jóladag, og dvelji þá hjá stefnanda um áramót, frá hádegi 30. desember fram til hádegis nýársdag, og svo öfugt til skiptis hvert ár.
Á sumrin dvelji börnin hjá hvoru foreldri fyrir sig í fjórar vikur í senn. Regluleg umgengni fellur niður á meðan. Tími sumarleyfa skal vera ákveðinn hjá hvoru foreldri fyrir sig eigi síðar en 15. maí ár hvert. Sumarleyfi árið 2017 skal ákveðið í kjölfar dóms þessa.
Þá skulu börnin vera í páskaleyfum annað hvert ár hjá stefnda, frá hádegi á skírdegi til kvölds annars í páskum, fyrst árið 2019.
Málskostnaður fellur niður.
Áfrýjun dóms þessa frestar ekki réttaráhrifum hans.