Hæstiréttur íslands
Mál nr. 573/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 23. október 2008. |
|
Nr. 573/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Guðbjarni Eggertsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að [...], kt. [...], [heimilisf.], Hafnarfirði, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. október nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að hún rannsaki nú mál þar sem margir aðilar hafi ráðist gegn tveimur lögreglumönnum við skyldustörf.
Málsatvik séu þau að aðfaranótt sunnudagsins 19. október sl. hafi lögregla verið kvödd að húsi nr. [...] við [...] í Reykjavík vegna hávaða frá íbúð. Lögregla hafi farið þar upp og beðið um að lækkað yrði, sem var gert og aðilar sem voru innan dyra flestir farið út. Um tíu manna hópur hafi staðið þarna utan dyra og sagst vera að bíða eftir leigubíl, og kærði verið einn þeirra. Þegar lögreglumennirnir, A og B, hafi verið á leið burt og um það bil að stíga inn í lögreglubifreiðina hafi einn úr hópnum, líklega C, komið og rifið með báðum höndum aftan í axlir A þannig að bæði einkennismerki lögreglu hafi rifnað af jakka hans. Þá hafi B komið honum til aðstoðar og þau ætlað að handtaka aðilann og setja hann í handjárn. Þegar á því hafi staðið hafi þrír eða fjórir af hinum sem stóðu þarna nálægt komið og farið að skipta sér af og toga í lögreglumennina sem hafi endað með því að aðilinn, sem þau hafi ætlað að handtaka, hafi sloppið frá þeim. Síðan hafi leikurinn borist inn í húsið aftur og þar hafi verið ráðist gegn báðum lögreglumönnunum með höggum og spörkum m.a. í höfuðið. Bæði hafi þau hlotið áverka og verið flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Um afleiðingarnar er nánar vísað til fyrirliggjandi áverkavottorðs.
Í kjölfar árásarinnar hafi sjö aðilar verið handteknir og fjórir þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Í gær, um kl. 13:10, hafi kærði verið handtekinn grunaður um aðild að árásinni. Í yfirheyrslu hjá lögreglu hafi hann viðurkennt aðild sína að málinu. Kvaðst hann hafa slegið lögreglumann í andlitið, ýtt honum niður stiga í anddyri fjölbýlishússins og þar hafi tveir félagar hans ráðist frekar að lögreglumanninum.
Lögregla leiti enn tveggja aðila, sem nefndir séu D og E, en báðir séu grunaðir um að hafa tekið þátt í árásinni.
Eins og sjá megi af þessari lýsingu sé um tilefnislausa og harkalega árás margra aðila að ræða gegn tveimur lögreglumönnum við skyldustörf. Lögregla vinni nú að rannsókn þessarar alvarlegu atburðarrásar. Finna þurfi út hver hafi verið þáttur hvers og eins að hafa upp á vitnum og sé sú vinna í gangi núna. Fyrir liggi lýsing lögreglumannanna á atburðarrásinni eins og þau hafi getað greint hana, en ekki sé af henni hægt að finna út hver nákvæmlega hafi verið þáttur hvers. T.d. hafi A fengið spark í höfuðið, en geti bara lýst því að sá sem gerði það hafi verið í hvítum skóm.
Rannsókn málsins, sem sé fyrirvaralaus, fólskuleg og stórhættuleg árás á lögreglumenn við störf, sé á frumstigi og sé brýnt að lögregla geti tekið fullnægjandi skýrslur af kærðu og þeim vitnum sem til staðar hafi verið. Þýðingarmikið sé að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram svo aðilar málsins nái ekki að tala sig saman eða á annan hátt að hafa áhrif á mögulega samseka, vitni, eða annað sem máli kunni að skipta við rannsókn málsins.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og loks með vísan til a liðar 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.
Kærði, sem hefur mótmælt kröfunni, vildi ekki tjá sig um sakarefnið fyrir dómi. Í greinargerð lögreglu kemur fram að hann hafi viðurkennt aðild sína að málinu með þeim hætti að hann hafi slegið lögreglumann í andlitið og ýtt honum niður. Samkvæmt þessu liggur fyrir að kærði er undir rökstuddum grun um aðild að meintum brotum er kunna að varða við 1. mgr. 218. gr. og 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og enn er leitað tveggja manna vegna meintrar aðildar að málinu. Verður því fallist á það með lögreglustjóra að hætta kunni að vera á því að kærði muni spilla fyrir rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á vitni og samseka gangi hann laus. Þykir því rétt að taka kröfu lögreglustjórans til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. október nk. kl. 16:00.