Hæstiréttur íslands
Mál nr. 201/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Faðerni
- Mannerfðafræðileg rannsókn
|
|
Þriðjudaginn 2. maí 2006. |
|
Nr. 201/2006. |
B(Gylfi Thorlacius hrl.) gegn A (Árni Pálsson hrl.) |
Kærumál. Börn. Faðerni. Mannerfðafræðileg rannsókn.
Hafnað var kröfu B um að A yrði gert að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn á nýjan leik til sönnunarfærslu í faðernismáli, en fyrir lágu tvær rannsóknir sem útilokuðu að A væri faðir B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2006 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn að nýju til að kanna hvort hann geti verið faðir sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að framangreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað, en til vara að honum verði ákvörðuð þóknun úr ríkissjóði með heimild í 11. gr. laga nr. 76/2003.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Við lýsingu málavaxta í hinum kærða úrskurði er missagt, að niðurstaða blóðflokkarannsóknar árið 1976 hafi staðfest að þáverandi eiginmaður móður sóknaraðila væri faðir hans. Hið rétta er að niðurstaðan útilokaði ekki að svo gæti verið, svo sem athugasemd var gerð um í dómi Hæstaréttar 19. janúar 2006 í máli nr. 27/2006.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Ekki verður talið að 11. gr. laga nr. 76/2003 eigi við um málskostnað sóknaraðila og eru því ekki efni til að taka til greina kröfu hans um að ríkissjóður greiði þóknun lögmanns hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, B, greiði varnaraðila, A, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2006.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar mánudaginn 27. mara sl. um kröfu stefnanda um, að úrskurðað verði, að stefnda verði gert að gangast undir DNA rannsókn, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af B, kt. [...], Reykjavík, með stefnu birtri 14. apríl 2005 á hendur A, kt. [...], Akureyri.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi, að stefndi sé faðir stefnanda, B, f. [...]. Þá er krafizt málskostnaðar að mati dómsins, eins og málið sé ekki gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts
Dómkröfur stefnda eru þær, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.
II
Málavextir
Málavextir eru þeir, að móðir stefnanda, C, kt. . [...], gekk í hjónaband í [...]1969 með D. Þau skildu [...]. Stefnandi kveður móður sína hafa kynnzt stefnda, A, árið 1971, og hafi þau tekið upp samband árið 1974. Þau hafi verið saman á getnaðartíma stefnanda, sem er fæddur [...]. Lýsti móðir stefnanda A föður stefnanda í skírnarskýrslu stefnanda. Stefnandi var hins vegar feðraður á grundvelli 1. gr. l. nr. 57/1921 og eiginmaður stefnanda skráður faðir hans. Móðir stefnanda, eiginmaður hennar, stefndi A og stefnandi undirgengust síðan blóðrannsókn vorið 1976. Útilokaði sú niðurstaða stefnda sem föður stefnanda, en staðfesti hins vegar, að D væri faðir hans.
Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu blóðsýnis hélt móðir stefnanda því ávallt fram, að stefndi væri faðir stefnanda, enda hafi hún ekki verið með öðrum en stefnda á hugsanlegum getnaðartíma stefnanda.
Sumarið 2004 gengust stefnandi og skráður faðir hans, D, undir DNA rannsókn. Lágu niðurstöður fyrir í lok september 2004, þar sem D er útilokaður frá því að geta verið faðir stefnanda. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 4. apríl 2005, í máli sem stefnandi höfðaði gegn skráðum föður sínum, var dæmt, að D sé ekki faðir stefnanda, B.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 19. desember 2005, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 19. janúar 2006, var stefnda, að kröfu stefnanda, gert að gangast undir DNA rannsókn, svo ganga mætti úr skugga um, hvort hann gæti verið faðir stefnanda. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var lögð fram í þinghaldi 9. marz sl. og er á þá leið, að stefndi útilokast frá því að geta verið faðir stefnanda.
Stefnandi kveður móður sína enn halda því fram, að engum öðrum en stefnda sé til að dreifa, sem geti verið faðir stefnanda, og fer hann því fram á, að mannerfðafræðileg rannsókn verði endurtekin og sýni send til rannsóknar til Noregs.
Af hálfu stefnda er kröfu þessari mótmælt.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi hefur gert þá kröfu í þessum þætti málsins, að stefnda í máli þessu verði gert að sæta DNA rannsókn á nýjan leik, svo unnt verði að ganga úr skugga um, hvort hann sé faðir stefnanda, en stefnandi dregur í efa niðurstöðu nýlegrar DNA rannsóknar, sem útilokaði stefnda sem föður. Þá vísar stefnandi til þess, að móðir hans hafi ávallt haldið því fram, að stefndi sé faðir stefnanda, og að hún hafi ekki haft samband við aðra menn á getnaðartíma stefnanda.
Málsástæður stefnda
Stefndi hafnar kröfu stefnanda um, að DNA rannsókn verði endurtekin og vísar til þess, að hann hafi þegar verið útilokaður frá faðerninu með DNA prófi.
IV
Forsendur og niðurstaða
Það liggur fyrir með mannerfðafræðilegri rannsókn, að blóðflokkagreining sú, sem faðerni D var byggt á árið 1976, var röng, hvað hann varðaði. Var því fallizt á, að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á stefnda, svo unnt yrði að ganga úr skugga um, hvort blóðflokkagreiningin frá árinu 1976 hefði einnig verið röng, hvað stefnda varðaði, en sú rannsókn útilokaði stefnda frá faðerninu á sínum tíma. Liggur niðurstaða síðargreindu rannsóknarinnar fyrir í álitsgerð Gunnlaugs Geirssonar prófessors, dags. 27. febrúar 2006. Kemur þar fram, að notað var blóð úr stefnanda og móður hans frá september 2004, ásamt blóði úr stefnda, sem tekið var í janúar 2006. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú, að stefndi útilokast frá því að vera faðir stefnanda, þar sem erfðamörk, sem stefnandi hefur tekið að erfðum eftir föður, reyndust ekki öll í blóði stefnda.
Með því að fyrir liggja niðurstöður tveggja rannsókna á blóði aðila, annars vegar frá árinu 1976 og hins vegar DNA rannsókn frá febrúar 2006, sem báðar útiloka stefnda sem föður stefnanda, er ekki fallizt á, að efni séu til, gegn andmælum stefnda, að taka kröfu stefnanda til greina.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu stefnanda um, að stefndi, A skuli gangast undir DNA rannsókn á nýjan leik er hafnað.