Hæstiréttur íslands
Mál nr. 486/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 28. september 2007. |
|
Nr. 486/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, kt. [...], Reykjavík.
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki tilraun til innflutnings á miklu magni af fíkniefnum sem fundust við leit lögreglunnar á Miami, Flórída í Bandaríkjunum í hraðsendingu sem merkt hafi verið Y, kt. [...] sem viðtakanda. Um sé að ræða talsvert af fljótandi kókaíni, 1844 ml. sem hafði verið komið fyrir í glerflösku. Fíkniefnin hafi verið send áfram til Íslands undir eftirliti lögreglu þar sem lagt hafi verið hald á sendinguna. Líklegt þykir að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu hér á landi. Y móttók hraðsendinguna þann 21. september sl. á heimili sínu undir eftirliti lögreglu. Var haft áfram eftirlit með húsnæðinu fram eftir degi þar til kærði yfirgaf heimili sitt og hitti kærða, á vínveitingahúsi í borginni og fór svo aftur með kærða að heimili sínu. Í kjölfarið sást hvar kærði hafi komið út af heimili Y með svarta íþróttatösku og hafi sú ákvörðun þá verið tekin að handtaka hann. Við handtöku kærða kom í ljós að hann hafi verið með flöskuna í fórum sínum og sé talið að Y hafi afhent kærða flöskuna sem innihélt fíkniefnin á heimili sínu rétt áður en til handtökunnar kom.
Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins þann 22. september sl. allt til dagsins í dag kl. 16:00, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-456/2007
Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að kærði hafi lagt umtalsverðar fjárhæðir inn á greiðslukort aðila sem lögregla telur tengjast málinu og sé búsettur í Honduras, en nótur sem fundust við leit í bíl kærða sýna greindar færslur. Sendingin, sem innihélt haldlögð fíkniefni kemur frá bænum sem viðkomandi býr í. Við húsleit á dvalarstað kærða fundust gögn sem tengja kærða enn frekar við áðurgreindan aðila sem býr á þeim stað sem sendingin sem innihélt fíkniefnin kom frá.
Kærði hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir þeim peningainnlögnum sem um ræðir, en hann hafi aðeins greint frá peningainnlögnum áður en aðilinn í Honduras fór frá Íslandi árið 2006.
Kærði þykir vera undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti, að hann hafi greitt viðtakanda sem sendingin sé stíluð á. Sé talið að kærði sé í beinum samskiptum við áðurgreindan aðila í Honduras. Kærði hafi ekki greint frá því við yfirheyrslur hjá lögreglu hver sendandi fíkniefnanna sé, en hafi viðurkennt að hafa ætlað að taka við efnunum og breyta þeim í neysluhæft form. Lögregla hafi gögn undir höndum sem sýna að um sé að ræða a.m.k. fjórðu sendinguna frá áðurgreindum bæ í Honduras til þess aðila sem er viðtakandi í þessu máli. Grunur sé um að kærði hafi í þeim tilvikum einnig greitt skráðum viðtakanda fyrir að móttaka sendinguna. Þá liggi fyrir upplýsingar um tvær sendingar frá greindum bæ í Honduras stílaðar á móður kærða. Hvað varðar sendingar til móður kærða hafi kærði gefið mjög ótrúverðugar skýringar.
Rannsaka þarf þá þætti sem snúa að peningagreiðslum aðila á milli, auk þess sem upplýsingar liggi fyrir um ferð kærða til Bandaríkjanna sem talin sé tengjast innflutningnum.
Nauðsynlegt sé að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann verið í sambandi við ætlaða vitorðsmenn sem ganga lausir og vitni eða kærði geti komið undan gögnum með sönnunargildi sem ekki hefur verið lagt hald á. Enn sé óljóst með ákveðna skipulagsþætti í málinu og fjármögnun við kaup efnanna. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Verið sé að rannsaka ætlað brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðar allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum og því sem að framan er rakið er kærði undir rökstuddum grun um aðild að stófelldu fíkniefnabroti. Má ætla að ef framangreint brot sannist, þá gæti það varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er ekki lokið, en komið hefur í ljós að kærði hefur lagt umtalsverðar fjárhæðir inn á greiðslukort aðila, sem lögreglan telur tengjast málinu, og búsettur sé í Honduras. Þá hefur lögreglan undir höndum gögn er sýna að hér sé um fjórðu sendingu að ræða frá þeim einstaklingi.
Í ljósi ofanritaðs verður fallist á með lögreglu að brýnt sé að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að varna því að hann geti torveldað rannsókn málsins, en framundan eru frekari yfirheyrslur yfir kærða. Teljast skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála uppfyllt og verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina til mánudagsins 1. október nk. kl. 16.00.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 1. október nk. kl. 16.00.