Hæstiréttur íslands

Mál nr. 668/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kaupmáli
  • Vottar


         

Mánudaginn 14. janúar 2008.

Nr. 668/2007.

A

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

B

C og

D

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Kaupmáli. Vottar.

Niðurfelling kaupmála var ógilt þar sem ekki hafði verið gætt lögmæltra krafna um vottun á yfirlýsingu um afturköllun hans í veigamiklum atriðum, sbr. 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. desember 2007 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að afturköllun kaupmála samkvæmt skjali 30. mars 2006, skráðu hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 18. apríl sama ár, yrði úrskurðuð ógild. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að afturköllun kaupmálans verði dæmd ógild. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili og E gerðu með sér kaupmála 11. desember 1964, áður en þau gengu í hjúskap. E lést 7. ágúst 2006 og var bú hans tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember sama ár. Við skiptin reis ágreiningur um hvort fyrrgreindur kaupmáli hefði verið löglega felldur niður með yfirlýsingu sóknaraðila og E dagsettri 30. mars 2006. Úr þeim ágreiningi var leyst með hinum kærða úrskurði, en þar er nánar fjallað um málavexti og málsástæður aðila.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að hafna þeim málsástæðum sóknaraðila að ógildi afturköllunar kaupmálans verði reist á því að undirritun sóknaraðila á skjalið hafi verið fölsuð eða að texti í meginmáli skjalsins hafi verið annars efnis þegar hún undirritaði hann en nú er.

 Sóknaraðili reisir kröfu sína ennfremur á því að það valdi ógildi afturköllunar kaupmálans að ekki hafi verið fylgt lögmæltum reglum um vottun hennar. Samkvæmt 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal kaupmáli vera skriflegur. Undirritun hjóna eða hjónaefna skal staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum, sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í vottorði þeirra skal koma fram að skjalið, sem vottað er, sé kaupmáli. Samkvæmt 88. gr. laganna skal gæta sömu reglna við breytingu eða afturköllun á kaupmála. Þetta ákvæði um vottun kaupmála var nýmæli við gildistöku laganna, en engar kröfur um vottun voru í eldri lögum. Í athugasemdum með frumvarpi til hjúskaparlaga var þessi breyting rökstudd með því að þessa væri þörf þar sem kaupmáli sé oft veigamikill löggerningur og formið hvetji til þess að menn vandi til verka. Þá stuðli formið að því að sönnun fáist fyrir því að hjón hafi undirritað kaupmála af fúsum vilja og hvenær undirritun hafi farið fram.

 Neðan við meginmál hins umdeilda skjals og undirskriftir E og sóknaraðila er vélritaður svofelldur texti „Vottar að réttri dagsetningu, undirskrift og fjárræði:“ Aftan við orðið dagsetningu hefur verið skotið inn orðinu „kaupmálans“ og er það handritað. Undir þennan texta rita nöfn sín og kennitölur F, sem er dóttir sóknaraðila og E heitins og G, sambúðarmaður hennar. Þau gáfu bæði skýrslu fyrir héraðsdómi. F kvaðst ekki hafa verið viðstödd undirritun skjalsins. Þegar hún hafi ritað nafn sitt á skjalið hafi faðir hennar einn verið viðstaddur. Hafi það gerst rétt fyrir páska 2006, líklega 10. apríl. Hún taldi að handritaða orðið „kaupmálans“ hafi ekki verið í vottorðinu þegar hún undirritaði það. G kvaðst ekki hafa verið viðstaddur undirritun skjalsins. Hafi E heitinn einn verið viðstaddur vottunina. Taldi hann þetta hafa gerst 11. apríl 2006 og hafi nafn F þá verið á skjalinu. Hann minntist þess ekki að hafa séð orðið kaupmála í texta vottorðsins.

Í 80 gr. hjúskaparlaga eru gerðar kröfur um að vottun kaupmála skuli vera með tilgreindum hætti. Liggur beint við að skýra orðalag ákvæðisins svo að gerningurinn sé því aðeins gildur að gætt sé þeirra aðferða við vottunina sem í ákvæðinu greinir og er vandséð að ákvæðið hafi þýðingu sé það ekki skýrt með þessum hætti. Þessa skýringu styðja og framangreind ummæli í greinargerð með frumvarpinu þar sem rökstudd var þörf á að herða reglur varðandi form kaupmála að þessu leyti. Verður engin gagnályktun dregin um efni 80. gr. laganna um vottun kaupmála af ákvæði 82. gr. þeirra þar sem kveðið er á um að skráning kaupmála sé skilyrði fyrir gildi hans, en það ákvæði er óbreytt frá eldri lögum. Af framangreindu er ljóst að lögmæltra krafna um vottun afturköllunar kaupmálans hefur ekki verið gætt í veigamiklum atriðum. Vottarnir voru ekki til kvaddir samtímis. Þeir voru hvorki viðstaddir undirritun skjalsins né staðfestu báðir aðilar gerningsins undirritun sína í viðurvist þeirra. Þá verður að telja ósannað að fram hafi komið í vottorðinu að skjalið væri kaupmáli þegar vottarnir undirrituðu það. Verður samkvæmt öllu framansögðu að fallast á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á að afturköllun kaupmálans sé ógild.

Varnaraðila verður gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Niðurfelling kaupmála E og sóknaraðila, A, samkvæmt skjali 30. mars 2006, sem skráð var hjá sýslumanninum í Hafnarfirði  18. apríl 2006, er ógild.

Varnaraðilar, B, C og D, greiði óskipt sóknaraðila samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. desember 2007.

Mál þetta var þingfest 30. mars 2007 og tekið til úrskurðar 15. nóvember sl. Sóknaraðili er A en varnaraðilar eru B, C og D.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að afturköllun kaupmála samkvæmt skjali dags. 30. mars 2006, skráðu hjá sýslumanni nr. Z-2519/2006, verði úrskurðuð ógild. Þá er þess krafist að varnaraðilar verði úrskurðaðir in solidum til þess að greiða sóknaraðila málskostnað.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að hafnað verði kröfum sóknaraðila um ógildingu á afturköllun kaupmála E og A samkvæmt skjali dags. 30. apríl 2006. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 30. nóvember 2006 var dánarbú E, sem síðast var með lögheimili að H, og lést 7. ágúst 2006, tekið til opinberra skipta. Sama dag var skiptastjóri skipaður. Með bréfi skiptastjóra, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 20. febrúar 2007, var krafist úrlausnar héraðsdóms um ágreining erfingja vegna skiptanna, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991.

Málavextir eru að öðru leyti þeir að á árinu 1964 gengu sóknaraðili A og E í hjónaband. Af því tilefni gerðu þau með sér kaupmála 11. desember 1964 þar sem kemur m.a. fram að séreign hennar skuli vera hlutabréf á hennar nafni, arfur er henni kynni að falla í skaut eftir foreldra sína og fasteignin H. E og sóknaraðili áttu bæði 3 börn fyrir og eignuðust 1 barn saman, F. Varnaraðilar, B, C, og D eru börn E af fyrra hjónabandi.

Er E og sóknaraðili tóku að eldast ákváðu þau að rétt væri að selja einbýlishúsið að H og kaupa sér íbúð í I.

Í málinu hefur verið lagt fram skjal sem ber yfirskriftina: ,,Niðurfelling kaupmála”. Skjalið er dags. 30. mars 2006 og skráð hjá sýslumanni 21. apríl 2006 sem skjal nr. Z-2519/2006. Segir m.a. í skjalinu að hjónin E og A felli hér með niður kaupmála þann sem þau gerðu með sér 11. desember 1964. Þá segir að nú skuli allar eigur þeirra vera hjúskapareign. Undir skjal þetta rita þau hjónin svo og vottarnir F, dóttir þeirra, og sambýlismaður hennar, G.

Sóknaraðili kveður E hafa tjáð sér að þar sem H, væri séreign hennar samkvæmt kaupmála yrði að aflýsa kaupmálanum af eigninni áður en unnt yrði að selja hana. Hún hafi því undirritað skjal sem E hafi samið til aflýsingar á kaupmálanum. Sóknaraðili kvaðst hafa undirritað þetta skjal 30. mars 2006 en það skjal hafi ekki komið fram. Engir vottar hafi verið viðstaddir þá undirskrift. Sóknaraðili segir að hún hafi átt við mikil veikindi að stríða undanfarin ár og því hafi E séð um þessi mál. Hún hafi treyst honum algerlega í þessum fasteignaviðskiptum enda ekki haft ástæðu til annars. E hafi alla ævi staðið í  miklum viðskiptum og rekið mörg fyrirtæki. Hann hafi því verið gagnkunnugur skjalagerð og frágangi samninga. Hins vegar hafi hún aldrei undirritað skjal það sem fram hefur verið lagt í málinu og ber yfirskriftina ,,Niðurfelling kaupmála”. Hún hafi ekki séð skjalið fyrr en eftir lát E 7. ágúst 2006. Henni sé hulin ráðgáta með hvaða hætti undirskrift hennar hafi komið á skjalið en alls ekki hafi staðið til af hennar hálfu að breyta eða fella niður það séreignarfyrirkomulag sem hafi verið milli þeirra hjóna í 42 ár.

Vitnið F sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hafi ritað á skjal sem vottur mánudaginn 10. apríl 2006 að beiðni föður síns, E. Vottunin hafi farið fram á skrifstofu hans og enginn verið viðstaddur nema þau tvö. Hún kveðst ekki hafa skoðað skjalið efnislega en séð undirskriftir foreldra sinna á skjalinu. Hún taldi víst að yfirskriftin: ,,Niðurfelling kaupmála” hafi ekki verið á skjalinu er hún hafi ritað undir það. Þá sagði hún að handskrifað leiðréttingarhak hafi ekki verið á skjalinu er hún hafi undirritaði það, en þar er bætt við orðinu ,,kaupmálans” í setninguna: ,,Vottar að réttri dagsetningu kaupmálans, undirskrift og fjárræði.”

Vitnið, G, sambýlismaður F, skýrði á sama veg frá og F.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að annað hvort sé undirskrift hennar á skjalinu ,,Niðurfelling kaupmála” fölsuð, texta skjalsins hafi verið breytt eftir að hún hafi ritað undir eða þá að blaði með öðrum texta hafi verið komið fyrir yfir þeim texta sem nú sé á skjalinu. Engir vottar hafi verið viðstaddir undirskrift E og sóknaraðila. Því sé ljóst að skjalið fullnægi ekki þeim lagakröfum sem gerðar séu til kaupmála í 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og beri því að dæma skjalið ógilt.

II.

Varnaraðili telur að hafna beri kröfum sóknaraðila um ógildingu þar sem mótbárur gegn gildi gerningsins eða niðurfellingarinnar séu ýmist ósannaðar eða eigi sér ekki stoð í lögum.

Aðalmálsástæða sóknaraðila sé sú að annað hvort hafi undirritun hennar verið fölsuð eða því skjali sem hún ritaði undir hafi verið breytt eftir að hún gerði það. Sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir öllum slíkum fullyrðingum. Þessum málsástæðum sé harðlega mótmælt  enda hafi sóknaraðili ekki skotið nokkrum stoðum undir þessa fullyrðingu sína. Varnaraðili hafi reynt að afla sér frumrits af niðurfellingarskjalinu en án árangurs. Niðurfelling kaupmálans hafi verið skráð hjá embætti sýslumannsins í Hafnarfirði og hafi sýslumanni verið sent bréf 25. maí sl. með fyrirspurn um hvort umgjörð skjalsins bæri á einhvern hátt með sér að það væri falsað. Við bréfi þessu hafi ekki borist svar. Varnaraðili bendir á 72. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 í þessu sambandi en samkvæmt því ákvæði teljist einkaskjal með eiginhandarnafni útgefanda gefið út af honum sjálfum með því efni sem það hefur að geyma þar til hið gagnstæða sé sannað eða gert sennilegt. Þetta staðfesti þá sönnunaraðstöðu sem sé í málinu.

Þá haldi sóknaraðili því fram að niðurfelling kaupmálans uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til kaupmála í 80. gr. laga nr. 31/1993 og beri að ógilda skjalið af þeim sökum. Málsástæðan sé studd þeim rökum að vottar hafi ekki verið viðstaddir undirritun útgefanda skjalsins. Þó að vottarnir hafi ekki verið viðstaddir við undirritun útgefanda skjalsins á sama tíma telja varnaraðilar að slíkt leiði ekki til ógildingar á skýrri yfirlýsingu um þann einfalda gerning sem niðurfellingin sé. Aðilar hafi undirritað niðurfellingu kaupmálans og það skjal skráð eins og lög geri ráð fyrir. Vottun kaupmálans sé aðeins staðfesting á undirritun og því á engan hátt unnt að leggja hana að líku við arfleiðsluvottun eins og sóknaraðili virðist byggja á. Sá sem rengi undirritun sína sé á lífi  þegar á  gerninginn reynir.

Varnaraðili byggir á því að ákvæði 88. gr. hjúskaparlaga um breytingu og afturköllun kaupmála feli ekki í sér að hugsanleg mistök við vottun leiði ein og sér til ógildingar á afturköllun. Þar gildi almennar reglur fjármunaréttar. Ekki sé unnt að fallast á með sóknaraðila að strangari skilyrði gildi um kaupmála en erfðaskrár að þessu leyti. Í því sambandi skal benda á 2. mgr. 45. gr. erfðalaga nr.  8/1962 en samkvæmt  henni sé hægt að sanna hæfi arfleiðanda þótt vottun hafi ekki verið í samræmi við skilyrði erfðalaga. Vottun samkvæmt erfðalögum sé því fyrst og fremst sönnunarregla og væri fráleitt ef ákvæði hjúskaparlaga meinuðu almenna sönnunarfærslu um gildi afturköllunar. Að mati varnaraðila sé formskilyrði hjúskaparlaga um vottun ekki gildisskilyrði fyrir kaupmálum og enn síður afturköllun þeirra.

Þá byggir varnaraðili á því að afturköllun kaupmálans hafi verið eðlileg ráðstöfun í ljósi þeirra breytinga sem voru að verða á fjármálum E og sóknaraðila um þetta leyti og jafnframt með hliðsjón af þeim langa tíma sem þau höfðu haft með sér fjárfélag.

III.

Það er í fyrsta lagi málsástæða af hálfu sóknaraðila að undirskrift hennar sé fölsuð á skjali því sem ber yfirskriftina ,,Niðurfelling kaupmála” og út var gefið 30. mars 2006 og skráð hjá sýslumanni 21. apríl 2006. Engum stoðum hefur verið skotið undir þessa fullyrðingu sóknaraðila, hvorki með framlagningu gagna né vitnaframburði. Reyndar sagði sóknaraðili í skýrslu sinni fyrir dómi að ekki væri annað að sjá en það væri hennar rithönd sem væri undir skjalinu. Krafa um ógildingu skjalsins verður því ekki reist á þessari málsástæðu.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að blaði með öðrum texta hafi verið komið fyrir yfir þeim texta sem nú er á skjalinu. Um þessa málsástæðu gildir það sama og um fyrstu málsástæðuna. Engin sönnunargögn hafa verið lögð fram til stuðnings þessari málsástæðu og gegn andmælum varnaraðila telst þessi staðhæfing sóknaraðila ósönnuð.

Samkvæmt framansögðu verður talið að ákvæði 72. gr. laga nr. 91/1991 eigi við í málinu þar sem segir að einkaskjal með eiginhandarnafni útgefanda teljist gefið út af honum með því efni sem það hefur að geyma þar til það gagnstæða sé sannað eða gert sennilegt. Sem áður sagði hefur slík sönnun ekki tekist og telst því framlagt niðurfellingarskjal gefið út af sóknaraðila og E.

Í þriðja lagi byggir sóknaraðili ógildingarkröfu sína á því að vottar hafi ekki verið viðstaddir er útgefendur skjalsins rituðu undir það eins og áskilið sé í 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Sá annmarki leiði til þess að ógilda eigi skjalið. Í 80. gr. hjúskaparlaga segir m.a. að undirritun hjóna eða hjónaefna skuli staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í 82. gr. laganna segir að kaupmáli sé ekki gildur milli hjóna gagnvart þriðja manni nema hann sé skráður samkvæmt reglum sem í lögum þessum greinir. Samkvæmt 88. gr. skal gæta sömu reglna og að framan greinir við breytingu eða afturköllun á kaupmála. Í málinu liggur fyrir að vottarnir F og G undirrituðu skjalið eftir að útgefendur þess höfðu ritað nöfn sín á það.

Þegar þessi ákvæði 80. og 82. gr. hjúskaparlaga eru borin saman verður ekki séð að vottun sé skilyrði þess að afturköllun kaupmála sé gild. Skráning er hins vegar gildisskilyrði samkvæmt 82. gr. Það telst því einungis formskilyrði að vottun fari fram á kaupmála eða afturköllun hans og er þá ætlast til að vottunin fari fram samtímis því sem hjón eða hjónaefni undirrita skjalið. Það eitt að út af þessu er brugðið raskar ekki gildi  afturköllunar kaupmála.

Samkvæmt öllu framansögðu verður að hafna kröfu sóknaraðila í málinu og eftir þeim úrslitum verður sóknaraðili úrskurðuð til að greiða varnaraðilum málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 150.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að afturköllun kaupmála samkvæmt skjali dags. 30. mars 2006, skráðu hjá sýslumanni nr. Z-2519/2006 verði úrskurðuð ógild.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum, B, C og D, 150.000 krónur í málskostnað.