Hæstiréttur íslands
Mál nr. 89/2004
Lykilorð
- Skip
- Kaupsamningur
- Veiðiheimildir
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 14. október 2004. |
|
Nr. 89/2004. |
Tryggvi Ársælsson (Kristinn Hallgrímsson hrl.) gegn Garðari Þorgrímssyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Skip. Kaupsamningur. Veiðiheimildir. Skaðabætur.
T seldi G bát í desember 2000. Með reglugerð, sem birt var í desember 2001, var kveðið á um viðbótarúthlutun til krókabáta. Var viðbótarheimildum í ýsu og steinbít úthlutað til G samkvæmt reglugerðinni en við úthlutunina var byggt á veiðireynslu T fiskveiðiárið 1999/2000. Aðila greindi á um hvor þeirra ætti rétt á þeirri viðbótarúthlutun og krafðist T skaðabóta úr hendi G vegna hennar. Þótti niðurstaða málsins velta á því hvort annað mætti ráða af kaupsamningi aðila en að aflahlutdeild ætti að fylgja með í kaupum bátsins. Í kaupsamningi var nánar tilgreind sú aflahlutdeild í þorski sem fylgdi bátnum, en tekið fram að T væri heimilt að flytja af bátnum þá aflahlutdeild sem umfram var, en þar á meðal var öll hlutdeild bátsins í ýsu og steinbít. Var aflaheimildin verðlögð sérstaklega í samningnum. Varð ekki ráðið annað af samningnum en að ætlun þeirra hafi verið sú að kveða þar á um skiptingu aflaheimilda bátsins til fullnustu í eitt skipti fyrir öll. G gat því ekki samkvæmt ákvæðum samningsins vænst þess að hann fengi að ári liðnu aflahlutdeild í ýsu og steinbít sem byggð væri á aflareynslu T. Var skaðabótakrafa T því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2004. Endanlegar kröfur hans fyrir Hæstarétti eru aðallega til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 9.671.650 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2002 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að kaupverð Gusta BA 222 samkvæmt kaupsamningi 21. desember 2000 verði hækkað í 76.671.650 krónur í stað 67.000.000 króna og greiði stefndi honum mismuninn með vöxtum svo sem greinir í aðalkröfu. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Lögð hafa verið fyrir Hæstarétt nokkur ný skjöl. Meðal þeirra eru tvær yfirlýsingar, önnur frá Ólafi Thóroddsen héraðsdómslögmanni og skipasala og hin frá Ingimundi Magnússyni, sem aðstoðaði stefnda við kaup bátsins. Yfirlýsingarnar hafa síðar verið staðfestar fyrir dómi. Af hálfu áfrýjanda er yfirlýsingunum báðum mótmælt sem ósönnum og of seint fram komnum. Ólafur Thóroddsen hafði áður komið fyrir héraðsdóm og borið þá með öðrum hætti en getur í yfirlýsingu hans. Ingimundur Magnússon kom ekki fyrir héraðsdóm við meðferð málsins, en eftir uppkvaðningu dómsins bar hann fyrir rétti að umræður hefðu verið um veiðileyfi og aflareynslu milli hans og áfrýjanda við kaupsamningsgerðina. Fyrir liggur þó að við undirritun kaupsamningsins kom umboðsmaður fram fyrir hönd áfrýjanda og var hann sjálfur ekki viðstaddur. Að því leyti sem í vottorðum þessum og vitnaskýrslum felast nýjar málsástæður og útlistun máls, sem raskar fyrra grundvelli þess, verður ekki byggt á þeim fyrir Hæstarétt samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994.
Áfrýjandi seldi stefnda áðurnefndan bát með kaupsamningi 21. desember 2000. Afsal var gefið út 19. janúar 2001. Í kaupsamningnum var ákvæði sem bar yfirskriftina veiðileyfi og hljóðaði svo: „Krókabátur (þorskaflahámark). Gilt veiðileyfi í því kerfi fiskveiðiárið 2000/2001. Með bátnum fylgir 100.000 kg í þorski á fiskveiðiárinu, aflamark (óveitt) og samsvarandi aflahlutdeild 0,045727563%. Aflahlutdeild bátsins er hins vegar nú 0,0680920%, m.v. úthlutun á þessu fiskveiðiári 148908 kg. Seljanda er heimilt að flytja af bátnum þá aflahlutdeild, sem umfram er skv. kaupsamningi þessum, svo og hlutdeild í ýsu 0,0365721%, ufsa 0,0012507% og steinbít 0,879440%. Staða í aflamarki (óveitt) er skv. stöðubréfi ds. 20.12.00, (síðasta löndun 19.12.00) 59598 kg eða neikvæð miðað við samning þennan um rúml. 40 þús. kg. Seljandi mun hafa flutt á bátinn innan ársins fyrir afhendingu, þannig að óveitt aflamark verði 100.000 kg, eins og samningur þessi kveður á um.” Í afsalinu sagði undir sömu yfirskrift: „Krókabátur (þorskaflahámark). Gilt veiðileyfi í því kerfi fiskveiðiárið 2000/2001. Með bátnum fylgir 100.000 kg í þorski á fiskveiðiárinu, aflamark (óveitt) og samsvarandi aflahlutdeild 0,0457277%. Grásleppuleyfi fylgir ekki.” Samkvæmt kaupsamningi var heildarverð bátsins 67.000.000 krónur og skiptist svo að bátur og búnaður var metinn á 17.000.000 krónur en meðfylgjandi aflaheimild 50.000.000 krónur.
Reglugerð nr. 970/2001 um sérstakar ráðstafanir vegna krókabáta, sem kvað á um viðbótarúthlutun til þeirra, var birt 27. desember 2001, eða um ári eftir kaup stefnda á bátnum. Aðila greinir á um hvor þeirra eigi rétt á þeirri viðbótarúthlutun fiskveiðiheimilda sem í reglugerðinni fólst. Fiskistofa úthlutaði til stefnda samkvæmt reglugerðinni viðbótarheimildum í ýsu og steinbít byggðri á veiðireynslu áfrýjanda fiskveiðiárið 1999/2000. Skaðabótakrafa áfrýjanda á hendur stefnda er reist á verði krókaaflahlutdeildar og aflamarks 1. mars 2002 hjá skipasölunni Bátar og búnaður ehf. samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins 28. október 2002.
Í 2. mgr 11. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða segir að við eigendaskipti að fiskiskipi fylgi aflahlutdeild þess, nema aðilar geri sín á milli skriflegt samkomulag um annað. Niðurstaða málsins þykir því velta á því hvort af kaupsamningi aðila megi ráða að þeir hafi samið um annað en að aflahlutdeild ætti að fylgja með í kaupum bátsins. Samkvæmt áðurgreindum kaupsamningi keypti stefndi bátinn með veiðileyfi og ákveðinni aflaheimild. Aflaheimildin, sem fylgja átti bátnum, nam 100.000 kílóum í þorski á fiskveiðiárinu, aflamark (óveitt) og samsvarandi aflahlutdeild 0.045727563% og var aflaheimildin í heild verðlögð sérstaklega á 50.000.000 krónur. Áfrýjanda var heimilt að flytja af bátnum þá aflahlutdeild sem umfram var, en þar á meðal var öll hlutdeild bátsins í ýsu og steinbít. Af þessum samningi aðilanna verður ekki annað ráðið en að ætlun þeirra hafi verið sú að kveða þar á um skiptingu aflaheimilda bátsins til fullnustu í eitt skipti fyrir öll. Gat stefndi ekki vænst þess samkvæmt ákvæðum samningsins að hann fengi að ári liðnu aflahlutdeild í ýsu og steinbít sem byggð væri á aflareynslu áfrýjanda. Verður að telja að áfrýjandi, sem hélt útgerð sinni áfram með þeim aflaheimildum sem hann flutti af bátnum, hafi átt rétt á viðbótarúthlutuninni í ýsu og steinbít sem gerð var samkvæmt reglugerð nr. 970/2001. Stefndi hefur ekki hrakið að verð aflaheimilda þeirra sem áfrýjandi varð þannig af vegna hans tilverknaðar hafi numið í kaupi og sölu því verði sem um getur í bréfi skipasölunnar Bátar og búnaður ehf. 28. október 2002. Verður skaðabótakrafa áfrýjanda því tekin til greina með dráttarvöxtum frá þingfestingu málsins í héraði 12. desember 2002.
Með vísun til þess að betur mátti standa að samningsgerð aðila um bátinn og atvika að öðru leyti er rétt að hvor þeirra beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Garðar Þorgrímsson, greiði áfrýjanda, Tryggva Ársælssyni, 9.671.650 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. desember 2002 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2003.
I
Málið var höfðað 4. desember 2002 og tekið til dóms 10. nóvember sl.
Stefnandi er Tryggvi Ársælsson, Miðtúni 18, Tálknafirði.
Stefndi er Garðar Þorgrímsson, Selnesi 32, Breiðdalsvík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að framselja sér viðbótarúthlutun aflaheimilda, 3468 kg af ýsu og 41047 kg af steinbít, samkvæmt viðbótarúthlutun, byggðri á reglugerð nr. 970/2001 um sérstakar ráðstafanir fyrir krókabáta. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 9.671.650 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2002 til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér kaupverð að fjárhæð 76.671.650 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 2. janúar 2002 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
II
Með samningi 21. desember 2000 seldi stefnandi stefnda bátinn Gusta BA-222. Kaupverðið var 67 milljónir króna og sundurliðast þannig að 17 milljónir króna voru greiddar fyrir bát og veiðileyfi og 50 milljónir króna fyrir aflaheimildir í þorski, þ.e. 100 lestir sem fylgdu bátnum. Með reglugerð nr. 970/2001 um sérstakar ráðstafanir vegna krókabáta var Fiskistofu ætlað að úthluta þessum bátum aukalega 1800 lestum af ýsu, 1500 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa, sem skipta skyldi á milli bátanna á grundvelli veiðireynslu þeirra á fiskveiðiárinu 1999/2000 eða 2000/2001 að vali útgerðar bátanna. Fiskistofa tilkynnti stefnda um þetta og valdi hann sem viðmiðun fiskveiðiárið 1999/2000. Á þessum grundvelli var honum úthlutað viðbótaraflahlutdeild, þ.e. 3468 kg af ýsu og 41047 kg af steinbít. Stefnda var úthlutað þessum afla þrátt fyrir að hann hafi aldrei róið bátnum og úthlutunin hafi alfarið byggt á veiðireynslu stefnanda. Í aðalkröfu krefur stefnandi stefnda um framsal á þessum aflaheimildum.
Í varakröfu sinni krefur stefnandi stefnda um andvirði þessara aflaheimilda samkvæmt niðurstöðu dómkvadds matsmanns.
Þrautavarakrafa stefnanda, sem byggir á því að framangreindum kaupsamningi aðila verði vikið til hliðar, samanstendur af framangreindu kaupverði báts, veiðileyfis, aflaheimilda og varakröfunni, þ.e. andvirði viðbótarúthlutunarinnar.
III
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að framangreind viðbótarúthlutun byggi eingöngu á vinnuframlagi og veiðireynslu hans og hafi hún verið ákveðin á grundvelli veiða bátsins þann tíma sem hann var í eigu stefnanda. Stefndi hafi hins vegar engar veiðar stundað á bátnum eftir að hann komst í hans eigu. Samkvæmt skýru orðalagi kaupsamnings aðila fylgi bátnum aðeins 100.000 kg kvóti af þorski og samsvarandi aflahlutdeild. Báturinn sé krókabátur með þorskaflahámarki og hafi veiðileyfi í því kerfi fylgt honum í sölunni. Bátnum hafi aðeins fylgt aflamark og aflahlutdeild sem nam 100.000 kg af þorski og engar frekari aflaheimildir. Viðbótarúthlutunin sé því eign stefnanda, samkvæmt samningi aðila, og stefnda beri að efna þann samning og afhenda stefnanda framangreinda viðbótarúthlutun. Stefndi hafi, samkvæmt samningnum, engar veiðiheimildir keypt í ýsu, ufsa eða steinbít. Þá hafi hann heldur ekki keypt veiðireynslu seljanda vegna þessara tegunda. Orðalag kaupsamningsins sé skýrt, það eina sem fylgdi bátnum voru framangreindar aflaheimildir í þorski og veiðileyfi, og hafnar stefnandi alfarið þeim sjónarmiðum að veiðireynsla fylgi bátnum.
Varakrafa stefnanda byggir á framangreindum málsástæðum og krefur stefnandi stefnda þar um efndabætur, verði ekki orðið við aðalkröfunni um framsal á viðbótarúthlutuninni.
Þrautavarakröfuna byggir stefnandi á því að víkja beri samningi aðila til hliðar með vísun til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi hafi fyrir tilverkan löggjafar- og framkvæmdavalds fengið í hendur mikil verðmæti í formi framanlýstra aflaheimilda. Við samningsgerðina var ekki gert ráð fyrir að þessi verðmæti kæmu í hlut stefnda og eru forsendur fyrir kaupunum af þeim sökum brostnar og þar af leiðandi efni til að breyta samningnum. Að mati stefnanda er það ennfremur ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnda að hafna réttmætri kröfu stefnanda um eðlilegt endurgjald fyrir þessar aflaheimildir.
Stefndi byggir á því að hann hafi samkvæmt kaupsamningi aðila keypt bátinn og þau réttindi, sem honum fylgdu og tilgreind eru í kaupsamningnum. Stefndi byggir á þeirri meginreglu að hann sem kaupandi hirði arð af hinu selda frá afhendingardegi og beri eignarréttarlegar skyldur þar á móti. Hann hafi eignast bátinn og þau réttindi sem honum tilheyrðu, enda er ekki annað tekið fram í samningnum og þar er ekkert undanskilið. Hafi átt að undanskilja eitthvað við sölu bátsins hefði orðið að taka það sérstaklega fram í samningnum. Engu máli getur skipt þótt framangreindar viðbótarveiðiheimildir séu byggðar á veiðireynslu seljanda þar sem þær séu byggðar á veiðireynslu er tengist bátnum. Stefndi bendir á að það sé meginregla samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/1990 um stjórnun fiskveiða að öll réttindi samkvæmt lögunum tilheyri fiskiskipum. Veiðiheimildirnar frá upphafi séu byggðar á aflareynslu viðkomandi skips og tilheyri því útgerð þeirra. Svona hafi þetta verið frá því að lög voru fyrst sett um svonefnt kvótakerfi, aflaheimildir hafi ætíð verið bundnar við fiskiskip og veiðireynslu þeirra.
IV
Stefnandi seldi stefnda Gusta BA-222 með kaupsamningi 21. desember 2000 og var afsal gefið út 19. janúar 2001. Í kaupsamningnum um bátinn er svofellt ákvæði, sem ber fyrirsögnina Veiðileyfi "Krókabátur (þorskaflahámark). Gilt veiðileyfi í því kerfi fiskveiðiárið 2000/2001. Með bátnum fylgir 100.000 kg í þorski á fiskveiðiárinu, aflamark (óveitt) og samsvarandi aflahlutdeild 0,045727563%. Aflahlutdeild bátsins er hins vegar nú 0,0680920%, m.v. úthlutun á þessu fiskveiðiári 148908 kg. Seljanda er heimilt að flytja af bátnum þá aflahlutdeild, sem umfram er skv. kaupsamningi þessum svo og hlutdeild í ýsu 0,0365721%, ufsa 0,0012507% og steinbít 0,879440%. Staða í aflamarki (óveitt) er skv. stöðubréfi ds. 20.12.00, (síðasta löndun 19.12.00) 59598 kg eða neikvæð miðað við samning þennan um rúml. 40 þús. kg. Seljandi mun hafa flutt á bátinn innan ársins fyrir afhendingu, þannig að óveitt aflamark verði 100.000 kg, eins og samningur þessi kveður á um." Reglugerð nr. 970/2001, sem kvað á um viðbótarúthlutun til krókabáta, viðbótarkvóta, var gefin út 24. desember 2001, eða um ári eftir að stefndi keypti bátinn.
Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða segir að við eigendaskipti að fiskiskipi fylgi aflahlutdeild þess, nema aðilar semji skriflega um annað. Í framangreindu samningsákvæði kemur fram um hvað aðilar sömdu, þ.e. að bátnum fylgdu 100 tonn af þorski en stefnandi myndi halda eftir aflaheimildum í þorski umfram þau svo og aflaheimildum í öðrum tegundum. Aðilar sömdu ekki um annað varðandi aflahlutdeild bátsins og þar með ekki um það hvernig fara skyldi með framtíðarúthlutun til hans sem kynni að byggjast á veiðireynslu bátsins á þeim tíma, er hann var í eigu stefnanda. Um það hefði þeim verið heimilt að semja samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði þar sem byggt er á því að aflareynsla fylgi fiskiskipinu en ekki þeim mönnum, er róa á því á hverjum tíma. Það eru því ekki lagaskilyrði til þess að verða við aðal- eða varakröfu stefnanda.
Þrautavarakrafan byggir á því að samningnum verði vikið til hliðar, eins og rakið var. Samkvæmt 36. gr. samningalaga má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hér að framan var rakið ákvæði 2. mgr. 11. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna þar sem fram kemur sú meginregla að aflahlutdeild fylgi fiskiskipi nema samið sé um annað. Samningur aðila var því í samræmi við gildandi lög og þegar af þeirri ástæðu er því hafnað að hann hafi verið andstæður góðri viðskiptavenju. Löggjafinn hefur ákveðið, sbr. tilvitnað ákvæði fiskveiðistjórnunarlaganna, að við eigendaskipti fiskiskipa fylgi aflahlutdeild skipinu, nema um annað sé samið. Stefnanda hefði því verið mögulegt að tryggja rétt sinn með ákvæði í samningnum um að framtíðarúrhlutun aflaheimilda, er byggði á veiðireynslu bátsins á meðan hann var í eigu hans, kæmi í hans hlut. Þetta gerði hann ekki og er ósannað gegn neitun stefnda að nokkuð það hafi komið fram í aðdraganda samningsgerðarinnar, sem gefi til kynna að aðilar hafi ætlast til að svo yrði. Dómurinn fellst því ekki á að ósanngjarnt sé af hálfu stefnda að bera samninginn fyrir sig.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður og stefnandi dæmdur til að greiða honum 300.000 krónur í málskostnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, Garðar Þorgrímsson, er sýknaður af kröfu stefnanda, Tryggva Ársælssonar, og skal stefnandi greiða stefnda 300.000 krónur í málskostnað.