Hæstiréttur íslands
Mál nr. 408/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Skýrslugjöf
- Verjandi
Fimmtudaginn 7. október 1999.
Nr. 408/1999: Lögreglustjórinn í Reykjavík
(Egill Stephensen saksóknari)
gegn
X
(Björgvin Þorsteinsson hrl.)
Kærumál. Skýrslugjöf. Verjandi.
Staðfestur var úrskurður héraðsdómara um að verjendur annarra sakborninga en þess sem taka átti skýrslu af, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, skyldu ekki vera viðstaddir skýrslutökuna, þar sem það var ekki talið hættulaust fyrir rannsókn málsins, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Björgvin Þorsteinsson hæstaréttarlögmaður, skipaður verjandi annars sakbornings en varnaraðila, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 1999, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að nefndum hæstaréttarlögmanni væri ekki heimilt að vera viðstaddur skýrslutöku fyrir dómi af varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Lögmaðurinn krefst þess að fá að vera viðstaddur skýrslutökur fyrir dómi af varnaraðila.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði krafðist sóknaraðili þess, að við skýrslutöku yfir varnaraðila yrði verjendum annarra sakborninga en varnaraðila í málinu vísað úr dómsal, þar sem um væri að ræða skýrslutöku í máli á rannsóknarstigi. Fallist verður á með héraðsdómara að ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 19/1991 eigi við þegar skýrsla er tekin af sakborningi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999. Þrátt fyrir að skýrslutaka fari fram fyrir dómi er málið enn á rannsóknarstigi og ákæra hefur ekki verið gefin út. Rannsókn í málinu er skammt á veg komin og ósamræmis gætir í framburði sakborninga. Verður að telja að ekki sé hættulaust vegna rannsóknar málsins að verjendur annarra sakborninga en þess, sem taka á skýrslu af, séu viðstaddir skýrslutökuna, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 1999.
Til rannsóknar hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík er mál nr. 101999-21479 varðandi innflutning fíkniefna.
Kveðinn hefur verið upp úrskurður þess efnis að fallist er á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um skýrslutöku yfir kærða X fyrir dómi og jafnframt að framlengdur er í þrjár vikur frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda kærða X um aðgang að öllum rannsóknargögnum máls nr. 10-1999-21479.
Fulltrúi lögreglustjóra hefur krafist þess að skýrslutaka yfir kærða fari nú fram og að eingöngu verjandi hans verði viðstaddur en verjendum annarra kærðra í málinu verði vísað úr dómsalnum. Verjandi kærða hefur einnig krafist þess að skýrslutakan fari nú fram en gerir ekki athugasemd við næveru verjenda annarra kærða í málinu. Björgvin Þorsteinsson hrl. verjandi kærða Y krefst þess að fá að vera viðstaddur skýrslutökuna.
Fulltrúi lögreglustjóra byggir á því að um sé að ræða skýrslutöku vegna rannsóknar máls og þá eigi 2. mgr. 42. gr. laga um meðferð opinberra mála við en 3. mgr. umræddrar lagagreinar eigi eingöngu við eftir að ákæra hafi verið gefin út í máli. Þá vísar hún til þess að eftir eigi að taka fleiri skýrslur fyrir dómi á grundvelli þessa úrskurðar af kærða og því megi ekki afhenda verjendunum gögnin eftir þessa einu skýrslutöku. Þriggja vikna fresturinn sé enn í fullu gildi.
Björgvin Þorsteinsson hrl. vísar til 3. mgr. 42. gr. laga um meðferð opinberra mála og kveður ekki um að ræða neina undantekningu frá þeirri reglu sem þar komi fram.
Mál nr. 10-1999-21479 er á rannsóknarstigi.
Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er verjanda heimilt að vera viðstaddur yfirheyrslur annarra í máli sakbornings ef það þykir hættulaust vegna rannsóknar málsins. Um þetta á dómari mat.
Niðurstaða úrskurðar þessa er sú að Björgvin Þorsteinssyni hrl. sé ekki heimilt að vera viðstaddur hina fyrirhuguðu skýrslutöku fyrir dómi af kærða X.
Úrskurðinn kveður upp Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Björgvin Þorsteinssyni hrl. er ekki heimilt að vera viðstaddur hina fyrirhuguðu skýrslutöku fyrir dómi af kærða X.