Hæstiréttur íslands

Mál nr. 541/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. október 2008.

Nr. 541/2008.

THK ehf.

(Tryggvi Þórhallsson hdl.)

gegn

JDC Bílum ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Hæstiréttur staðfesti frávísun héraðsdóms í máli T ehf. gegn J ehf. þar sem krafist var slita á hinu síðarnefnda félagi. Í dómi héraðsdóms kemur fram að við upphaf aðalmeðferðar hefði verið lögð fram bókun af hálfu T ehf. um breyttar málsástæður og því lýst yfir að fallið hefði verið alfarið frá þeim málsástæðum sem fram kæmu í stefnu málsins. Var sérstaklega tekið fram að T ehf. hefði tekið áhættuna af því að þessar breyttu málsástæður kæmust að í málinu. Héraðsdómur taldi að hinar nýju málsástæður T ehf. hefðu verið of seint fram komnar og gegn mótmælum J ehf. kæmust þær ekki að í málinu. Þar sem T ehf. hefði fallið frá öllum málsástæðum, sem settar voru fram í stefnu, þótti ekki unnt að greina þær málsástæður sem T ehf. byggði málsókn sína á. Þótti málatilbúnaður T ehf. ekki í samræmi við ákvæði réttarfarslaga um skýran og glöggan málatilbúnað og í beinni andstöðu við d. lið 1. mgr. 80. gr. l. nr. 19/1991.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka til efnislegrar meðferðar kröfu hans um að varnaraðila verði slitið. Verði niðurstaða héraðsdóms staðfest krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og að kæru­máls­kostnaður verði felldur niður. 

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2008.

I

Mál þetta sem dómtekið var 3. september 2008 var höfðað 23. nóvember 2007. Stefnandi er THK ehf., Smiðsbúð 2, Garðabæ, en stefndi er JDC bílar ehf., Krókhálsi, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda, einkahlutafélaginu JDC bílum ehf., verði slitið og að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

II

Málavextir eru þeir helstir að stefndi, einkahlutafélagið JDC bílar, var stofnaður 27. febrúar 2007 og samkvæmt vottorði Hlutafélagaskrár er tilgangur félagsins meðal annars innflutningur á nýjum bílum, sala varahluta og verkstæðisþjónusta.  Stefnandi er hluthafi og einn af stofnendum hins stefnda félags.  Aðrir hluthafar samkvæmt stofnskrá félagsins voru Ólafur Morthens og Guðmundur Ingi Karlsson.  Hlutafé félagsins var 500.000 krónur og skiptis þannig milli stofnenda félagsins:

Ólafur Morthens 

kr. 137.500

Guðmundur Ingi Karlsson

kr. 137.500

Stefnandi

kr. 225.000

Á stofnfundi stefnda hinn 27. febrúar 2007 var gengið frá samþykktum og stofnskrá félagsins og þá tóku sæti í stjórn félagsins Guðmundur Ingi Karlsson stjórnar­formaður, Ólafur Morthens, framkvæmdastjóri og prókúruhafi, og Þröstur Kristinsson meðstjórnandi.  Þá var Ásbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi hjá Ernst & Young hf., kjörinn endurskoðandi félagsins.  Tilkynning var send til hlutafélagaskrár um þessar ákvarðanir stofnfundar.

Hinn 20. mars 2007 var haldinn hluthafafundur í hinu stefnda félagi.  Samkvæmt fundargerð sátu fundinn hluthafarnir Ólafur Morthens, Guðmundur Ingi Karlsson og Þröstur Kristinsson fyrir hönd stefnanda.  Á fundinum var samþykkt tillaga um að auka hlutafé félagsins úr 500.000 krónum í 71.500.000 krónur.  Samkvæmt fundargerðinni máttu hluthafar skrá sig fyrir nýju hlutafé.  Ólafur Morthens skyldi greiða við samþykki hluthafafundar 17.500.000 krónur og 7.387.500 krónur innan árs. Guðmundur Ingi Karlsson skyldi greiða 17.500.000 krónur við samþykki hluthafafundar og 7.387.500 krónur innan árs og stefnandi skyldi greiða við samþykki hluthafafundar 14.075.000 krónur og svo myndi stefndi greiða stefnanda fyrir viðskiptavild Studíóbíla sem stefnandi legði félaginu til og metið var á 9.300.000 krónur.

Bandaríska fyrirtækinu Saitco Inc. var einnig gefinn kostur á að skrá sig fyrir hlutafé í fyrirtækinu að fjárhæð 7.150.000 krónur sem greiðast skyldi með samningi um dreifingu og sölu á Íslandi á bifreiðum frá Chrysler, sem stjórn stefnda mat að verðmæti 7.150.000 króna.  Var í kjölfar hluthafafundarins gengið frá samningi við Saitco Inc.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi greiddi hlutafjáraukninguna að fjárhæð 14.075.000 krónur í kjölfar fundarins og greiddi stefndi honum 9.300.000 krónur vegna viðskiptavildar Studíóbíla eins og samþykkt var á hluthafafundinum.  Þá verður af gögnum málsins ráðið að Guðmundur Ingi Karlsson og Ólafur Morthens greiddu 35.000.000 króna hvor af hlutafjáraukningunni.  Hlutafjárhækkun þessi var aldrei tilkynnt Hlutafélagaskrá og samkvæmt ársreikningi stefnda árið 2007 er gert ráð fyrir að hlutafé sé 500.000 krónur eins og það var þegar félagið var stofnað og hlutur stofnenda óbreyttur. 

Stefndi hóf starfsemi vorið 2007 og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var Þröstur Kristinsson, forsvarsmaður stefnanda, ráðinn vörustjóri hjá stefnda og skyldi hann hafa yfirumsjón með innkaupum, innflutningi, sölu og gerð áætlana.

Sumarið 2007 fór að bera á missætti milli eigenda stefnda varðandi rekstur félagsins en ber aðilum ekki alls kostar saman um ástæður þess að upp kom ágreiningur milli þeirra.  Bera hlutaðeigendur hver annan þungum sökum.

Hinn 27. september 2007 var Þresti Kristinssyni sagt upp störfum hjá stefnda og skyldi uppsögnin taka gildi 1. nóvember 2007.  Með bréfi, dagsettu 30. október 2007, bauðst stefnandi til að taka yfir rekstur stefnda að fullu en ekki náðist samkomulag um það.  Með bréfi, 17. nóvember 2007, lýsti Saitco Inc. yfir riftun á samningi sínum við stefnda.

Hinn 20. nóvember 2007 sagði Þröstur Kristinsson sig úr stjórn stefnda og var sú tilkynning móttekin hjá ríkisskattstjóra 21. nóvember 2007. 

Í lok desember 2007 fór stefnandi fram á að lagt yrði lögbann við því að stjórn stefnda gerði bindandi löggerninga um afsal, veðsetningu eða aðrar meiri háttar ráðstafanir vegna eigna félagsins. Þessari kröfu stefnanda hafnaði sýslumaðurinn í Reykjavík 7. janúar 2008.

Aðalkrafa stefnda var að málinu væri vísað frá dómi.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 7. mars 2008, var fallist á frávísunarkröfur stefnda að hluta.  Var kröfum stefnanda, um að lagt yrði fyrir stjórn stefnda að gefa bú félagsins upp til opinberra skipta og að stjórn stefnda og endurskoðanda hans væri gert að afhenda stefnanda aðgang að bókhaldsgögnum og afritum af bankayfirlitum, vísað frá dómi og stendur því einungis eftir krafa um að stefnda verði slitið.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að öll skilyrði séu uppfyllt fyrir því að slíta megi hinu stefnda félagi samkvæmt 81. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög enda liggi fyrir samkvæmt staðfestum ársreikningi að stefnandi eigi 45% hlutafjár í stefnda.

Í stefnu rekur stefnandi þær málsástæður sem hann byggir kröfur sínar á en í upphafi aðalmeðferðar málsins féll hann frá öllum málsástæðum sem fram koma í stefnu án fyrirvara og lagði fram bókun vegna breyttra málsástæðna. 

Kveður stefnandi að breyttar málsástæður hans megi rekja til ársreiknings stefnda sem lagður hafi verið fram í þinghaldi 21. apríl 2008, niðurstöðu aðalfundar stefnda 28. ágúst 2008 og yfirlýsingar Saitco Inc. 15. ágúst 2008 um að gengið verði að sjálfskuldarábyrgð vegna brota á skuldbindandi sölusamningi.

Hinar nýju málsástæður stefnanda eru í fyrsta lagi þær að stjórn stefnda hafi vanrækt að framkvæma ákvörðun hluthafafundar hinn 20. mars 2007 þar sem samþykkt hafi verið að auka hlutafé félagsins um 71.000.000 krónur.  Af þessari aukningu hafi hluthafar greitt 56.200.000 krónur með reiðufé og með samningi við Saitco Inc. um dreifingu og sölu á bifreiðum frá Chrysler.

Hafi stjórn félagsins verið falið að annast framkvæmd þessarar ákvörðunar hlut­hafafundar eins og skylt sé samkvæmt lögum um einkahlutafélög, sbr. meðal annars 28. gr. þeirra laga.  Beri formaður stjórnar og framkvæmdastjóri ábyrgð á þeirri vanrækslu og bendi allt til þess að þessir aðilar, sem jafnframt hafi verið hluthafar í félaginu, hafi með þeim hætti vísvitandi verið að misnota aðstöðu sína í félaginu og vinna gegn markmiðum sem að hafi verið stefnt með stofnun þess.

Þá hafi vanræksla formanns stjórnar og framkvæmdastjóra einnig tekið af stefnanda tilkall hans til að teljast hluthafi í hinu stefnda félagi í samræmi við innborgað hlutafé hans og með því hafi verið brotið gegn lögvörðum hagsmunum stefnanda.

Vegna þessarar vanrækslu verði að telja ákvörðun um hlutafjárhækkunina niður fallna, sbr. 28. gr. laga um einkahlutafélög.  Sýni framlagður ársreikningur stefnda hins vegar glöggt að fjárhagur hans leyfi ekki endurgreiðslu á þeim 14.075.000 krónum sem hafi verið greiðsla stefnanda vegna hlutafjárhækkunarinnar, en samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 28. gr. i.f. sé skylt að endurgreiða slík framlög án tafar.

Í öðru lagi hafi stjórn stefnda vanrækt að taka lögmæta ákvörðun um slit félagsins.  Byggi stefnandi á að skylt hafi verið samkvæmt samþykktum félagsins og lögum um einkahlutafélög að taka lögmæta ákvörðun um slit félagsins og hafi þessi skylda orðið virk sex mánuðum frá því að eigið fé samkvæmt bókum félagsins hafi verið orðið minna en skráð hlutafé þess, þ.e. 500.000 krónur, sbr. 4. mgr. 82. gr. laga um einkahlutafélög og 25. gr. samþykkta félagsins.  Hafi stjórn stefnda ekki fengist til að taka slíka ákvörðun, þrátt fyrir áskoranir, síðast á aðalfundi hins stefnda félags 28. ágúst 2008.  Þá hafi stjórnin, sem samanstandi af meirihluta hluthafa, staðið fyrir stórfelldum ráðstöfunum á eignum félagsins, án þess að hagsmuna minnihluta hluthafa hafi verið gætt.  Með því hafi stjórnin brotið gegn þeirri vernd sem lög veiti minnihluta hluthafa fyrir ráðstöfunum meirihlutans.  Beri í þessu sambandi að hafa í huga riftunarreglur við opinber skipti.

Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að ráðstafanir meirihluta hluthafa, þ.e. formanns stjórnar og framkvæmdastjóra, hafi leitt til þess að skuldbindandi sölusamningi við Saitco Inc. hafi verið rift í nóvember 2007 vegna samningsbrota.  Hafi hið erlenda félag nú boðað að það muni ganga að hluthöfum í félaginu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar þeirra.  Sé því ljóst að ráðstafanir formanns stjórnar og fram­kvæmdastjóra hafi leitt til stórkostlegs tjóns sem forsvarsmaður stefnanda sé í persónulegri ábyrgð fyrir.  Sé á því byggt að þessar ráðstafanir hafi verið á kostnað stefnanda með ótilhlýðilegum hætti, þannig að í bága fari við 1. mgr. 51. gr. laga um einkahlutafélög.

 Um lagarök að öðru leyti en að framan greinir vísar stefnandi til 70. gr. laga um einkahlutafélög auk þess sem hann reisir kröfur sínar á meginreglum félagaréttar um fjárhagsleg félög og meginreglum samninga- og kröfuréttar um að gerða samninga beri að halda.  Um málskostnaðarkröfu sína vísar hann til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Stefndi mótmælir nýjum málsástæðum stefnanda sem of seint fram komnum.  Þar sem þær séu of seint fram komnar og stefnandi hafi fallið frá öðrum málsástæðum sínum, verði ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Verði ekki á það fallist að málsástæður stefnanda, sem kollvarpi málsgrundvelli hans, séu of seint fram komnar, þá hafi stefnandi í engu sannað að lagaleg skilyrði séu til þess að stjórn félagsins verði að gefa félagið upp til slita.

Stefndi kveður það rangt að stefnandi ráði yfir minnst 1/5 hlutafjár í stefnda, sem sé skilyrði þess að hann geti krafist slita á félaginu, sbr. 81. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, á þeim grundvelli að hluthafar hafi af ásetningi misnotað aðstöðu sína í félaginu eða tekið þátt í brotum á lögum um einkahlutafélög eða samþykktum félagsins.  Á hluthafafundi í stefnda 20. mars 2007 hafi verið endanlega samþykkt að kröfu stefnanda annað fyrirkomulag við greiðslu hlutafjáraukningar stefnanda.  Hafi stefnandi ætlað að greiða 9.300.000 krónur með viðskiptavild Studíobíla en í ljós hafi komið að sú viðskiptavild hafi ekki reynst vera þess virði sem stefnandi hafi haldið fram.  Þá hafi viðskiptasamningur við Saitco Inc. reynst lítils virði og engan veginn staðið undir mati til hlutafjár þegar á hafi reynt.  Hafi Saitco Inc. svikið öll loforð og samningsforsendur og eigi því engan hlut í stefnda.  Hafi stefnandi aðeins greitt 4.975.000 krónur til félagsins af heildarhlutafénu 40.250.000 krónur eða 12,4% sem sé langt frá tilgreindu lágmarki til málshöfðunar samkvæmt 81. gr. laga um einkahlutafélög.

Þá mótmælir stefndi því sem ósönnuðu að meiri hluti stjórnar stefnda hafi staðið fyrir stórfelldum ráðstöfunum á eignum félagsins án þess að hagsmuna minnihluta hluthafa hafi verið gætt og að meiri hluti hluthafa hafi vísvitandi verið að misnota aðstöðu sína í félaginu og vinna gegn markmiðum félagsins.  Þá mótmælir stefndi því einnig að brotnar hafi verið reglur laga um einkahlutafélagalög og samþykktir félagsins enda séu fullyrðingar stefnanda þess efnis engum gögnum studdar.

Um lagarök vísar stefndi einkum til 61., 66., 81. og 84. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og almennra sönnunarreglna íslensks réttarfars.  Um málskostnað vísar hann til 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.  Um virðisaukaskatt á málskostnað vísar hann til laga nr. 50/1988.

V

Eins og fram er komið var við upphaf aðalmeðferðar í máli þessu lögð fram bókun af hálfu stefnanda þar sem settar voru fram breyttar málsástæður fyrir kröfum stefnanda og því lýst yfir af hálfu stefnanda að fallið væri alfarið frá þeim málsástæðum sem greinir í stefnu málsins og sérstaklega tekið fram að stefnandi tæki áhættuna af því að þessar breyttu málsástæður kæmust að í málinu.  Af hálfu stefnda var þessum nýju og breyttu málsástæðum stefnanda mótmælt sem of seint fram komnum.

Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til og má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki.  Stefnandi kveðst byggja breyttar málsástæður sínar á árs­reikningi sem lagður var fram í þinghaldi 21. apríl 2008 og niðurstöðu aðalfundar stefnda 28. ágúst 2008.  Þá vísar hann og til yfirlýsingar Saitco Inc. 15. ágúst 2008 um að gengið verði að sjálfskuldarábyrgð vegna brota á skuldbindandi sölusamningi, en umræddur sölusamningur var lagður fram af stefnanda við þingfestingu málsins.  

Af málatilbúnaði stefnanda, hvað snertir þær málsástæður að meiri hluti stjórnar stefnda hafi vanrækt að framkvæma ákvörðun hluthafafundar hinn 20. mars 2007 um að auka hlutafé félagsins og að vanrækt hafi verið að taka lögmæta ákvörðun um slit félagsins, verður ráðið, að hann byggi þær á ársreikningi stefnda vegna ársins 2007. Umræddur ársreikningur var lagður fram í máli þessu 21. apríl 2008.  Hefði stefnanda verið í lófa lagið að bera þessar málsástæður sínar fram í beinu framhaldi af því þinghaldi þannig að stefnda gæfist kostur á að svara þeim, en málið var tekið fyrir tvisvar eftir að ársreikningurinn var lagður fram, áður en ákveðin var aðalmeðferð málsins.  Þá verður ekki af málatilbúnaði stefnanda ráðið hvernig breyttar málsástæður hans verði raktar til niðurstöðu aðalfundar stefnda sem fór fram 28. ágúst 2008.

Stefnandi byggir og á því að ráðstafanir meirihluta stjórnar hafi leitt til þess að skuldbindandi sölusamningi við Saitco Inc. hafi verið rift vegna samningsbrota í nóvember 2007 og hafi ráðstafanir stjórnarinnar verið á kostnað stefnanda með ótilhlýðilegum hætti þannig að fari í bága við 1. mgr. 51. gr. laga um einkahlutafélög.  Virðist stefnandi vísa um þessa nýju málsástæðu til yfirlýsingar Saitco Inc. frá 15. ágúst 2008 þar sem því sé lýst yfir að gengið verði að hluthöfum á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar þeirra samkvæmt sölusamningi.  Fyrir liggur og kemur fram í stefnu að umrætt fyrirtæki, Saitco Inc. lýsti yfir riftun á sölusamningnum og var sú yfirlýsing lögð fram við þingfestingu málsins ásamt öðrum gögnum sem lúta að þeirri ákvörðun.  Verður því ekki af gögnum málsins séð að stefnandi hafi ekki getað borið umrædda málsástæðu upp fyrr en við upphaf aðalmeðferðar málsins. 

Að því virtu sem nú hefur verið rakið eru hinar nýju málsástæður stefnanda of seint fram komnar og gegn mótmælum stefnda komast þær ekki að í máli þessu.

Eins og rakið hefur verið þá féll stefnandi frá öllum þeim málsástæðum sem fram eru settar í stefnu og eru því ekki efni til að fjalla um þær frekar eða taka afstöðu til þess hvort hinar breyttu málsástæður kunni að felast að einhverju leyti í þeim.  Verður því ekki séð á hvaða málsástæðum stefnandi byggir málsókn sína og þykir málatilbúnaður hans því ekki vera í samræmi við ákvæði réttarfarslaga um skýran og glöggan málatilbúnað.  Er málatilbúnaður stefnanda eins og hann liggur nú fyrir í beinni andstöðu við d lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi án kröfu.

Eftir þessum úrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir eftir atvikum málsins hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Tryggvi Þórhallsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Skarphéðinn Pétursson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, THK ehf. greiði JDC Bílum ehf. 500.000 krónur í málskostnað.