Hæstiréttur íslands

Mál nr. 523/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                         

Þriðjudaginn 31.  júlí 2012.

Nr. 523/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júlí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 9. ágúst 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur lögregla til rannsóknar ætlaða líkamsárás þar sem brotaþoli er meðal annars talinn hafa fengið áverka á brjóstkassa og sár fyrir neðan herðablað vinstra megin, sem veittir hafi verið með hnífi. Fallist er á með héraðsdómi að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi átt þátt í að veita brotaþola þessa áverka. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júlí 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 9. ágúst nk. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi í gærkvöldi kl. 20:03 borist tilkynning um að maður lægi meðvitundarlaus framan við [...] við [...] í Reykjavík. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi A legið rænulítill á gangstéttinni. Samkvæmt fyrstu upplýsingum frá vitnum hefði maðurinn verið stunginn með hnífi og árásarmaðurinn eða mennirnir hlaupið á brott. A hafi verið fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið með sýnilega skurði á baki og síðu. Samkvæmt læknisvottorði hafi A hlotið lífshættulega áverka á brjóstkassa og stungusár fyrir neðan herðablað vinstra megin. Þá hafi tölvusneiðmynd sýnt loftbrjóst vinstra megin.

Lögreglumenn hafi þegar hafið leit að meintum árásarmanni eða mönnum en tveir grunaðir hafi sést við hlið bifreiðarinnar [...] við [...]. Hafi annar þeirra verið handtekinn við bifreiðina en hinn, kærði X, flúið af vettvangi en hafi verið veitt eftirför. Auðvelt hafi reynst að rekja blóðslóð hans norður [...] og að bakgarði við [...] þar sem hann hafi verið handtekinn. Þá hafi þriðji maðurinn verið handtekinn inni í íbúð að [...] vegna gruns um aðild að málinu.

Í skýrslutöku hjá lögreglu í dag hafi kærði neitað þeim sökum, sem á hann séu bornar, en hann hafi lent í slagsmálum þar sem hnífi hafi verið beitt. Hann hafi eftir átökin farið inn í íbúð að [...] og hafi félagar hans, sem þar voru, aðstoðað hann við að komast á sjúkrahús. Hann viðurkenni að hafa flúið aftur að [...] þegar hann hafi séð lögreglu við [...].

Lögregla telji sig hafa fundið vopnið í íbúðinni að [...] en kærði hafi ekki getað gefið lýsingar á vopninu og hvorki munað hvort hann hafi hent hnífnum frá sér eða komið með hann í [...].

Rannsókn málsins sé afar skammt á veg komin og hún sé á viðkvæmu stigi en kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa veitt A lífshættulega áverka með hnífsstungum þannig að vinstra lungað féll saman. Fyrir liggi bráðabirgðalæknisvottorð sem aflað hafi verið vegna rannsóknar málsins. 

Lögregla telji sig hafa fundið vopnið, sem beitt hafi verið í árásinni, en tæknirannsókn sé ólokið og fyrir liggi að taka þurfi frekari skýrslur af brotaþola og öðrum vitnum sem hafi gefið sig fram á vettvangi. Þá liggi fyrir hjá lögreglu að taka frekari skýrslu af kærða og öðrum sakborningum málsins og að afla frekari sönnunargagna.

Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt í máli þessu, enda sé kærði undir rökstuddum grun um afbrot sem fangelsisrefsing sé lögð við og þá séu yfirgnæfandi líkur til þess, gangi kærði frjáls ferða sinna, að hann kunni að torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á framburði vitna og annarra sakborninga.

Með vísan til alls ofangreinds, gagna málsins og a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Að virtum gögnum málsins er fallist á það með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Um er að ræða alvarlega líkamsárás eða tilraun til manndráps sem varðað getur allt að ævilöngu fangelsi, sbr. 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Kærði hefur kannast við það hjá lögreglu að hafa lent í slagsmálum við brotaþola þar sem hnífi var beitt. Kærði vildi ekki tjá sig um sakarefnið hér fyrir dóminum. Rannsókn lögreglu er á frumstigi og er því að öllu framangreindu virtu fallist á að rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Rannsókn málsins er skammt á veg komin og þykja því ekki efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Kröfur lögreglustjóra verða því teknar til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 9. ágúst nk. kl. 16:00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.